Svipdagsmál

I. Gróugaldur
er hún gól syni sínum dauð.

1 Sonur kvað:
Vaki þú Gróa,
vaki þú, góð kona,
vek eg þig dauðra dura,
ef þú það mant,
að þú þinn mög bæðir
til kumbldysjar koma.

2 Gróa kvað:
Hvað er nú annt
mínum einkasyni,
hverju ertu nú bölvi borinn,
er þú þá móður kallar,
er til moldar er komin
og úr ljóðheimum liðin?

3 Sonur kvað:
Ljótu leikborði
skaut fyr mig in lævísa kona,
sú er faðmaði minn föður;
þar bað hún mig koma,
er kvæmtki veit,
móti Menglöðu.

4 Gróa kvað:
Löng er för,
langir eru farvegir,
langir eru manna munir,
ef það verður,
að þú þinn vilja bíður,
og skeikar þá Skuld að sköpum.

5 Sonur kvað:
Galdra þú mér gal,
þá er góðir eru,
bjarg þú, móðir, megi.
Á vegum allur
hygg eg, að eg verða muni,
þykjumk eg til ungur afi.

6 Gróa kvað:
Þann gel eg þér fyrstan,
þann kveða fjölnýtan,
þann gól Rindur Rani:
að þú um öxl skjótir
því er þér atalt þykir;
sjálfur leið þú sjálfan þig.

7 Þann gel eg þér annan,
ef þú árna skalt
viljalaus á vegum:
Urðar lokur
haldi þér öllum megin
er þú á sinnum sér.

8 Þann gel eg þér inn þriðja,
ef þér þjóðár
falla að fjörlotum:
Horn og Ruður
snúist til Heljar meðan,
og þverri æ fyrir þér.

9 Þann gel eg þér inn fjórða,
ef þig fjándur standa
görvir á gálgvegi:
hugur þeim hverfi
til handa þér,
og snúist þeim til sátta sefi.

10 Þann gel eg þér inn fimmta,
ef þér fjötur verður
borinn að boglimum:
Leifnis elda læt ég
þér fyr legg um kveðinn,
og stökkur þá lás af limum,
en af fótum fjötur.

11 Þann gel eg þér inn sétta,
ef þú á sjó kemur
meira en menn viti:
logn og lögur
gangi þér í lúður saman
og ljái þér æ friðdrjúgrar farar.

12 Þann gel eg þér inn sjöunda,
ef þig sækja kemur
frost á fjalli háu:
hræva kuldi
megi-t þínu holdi fara.
og haldist þér lík að liðum.

13 Þann gel eg þér inn átta,
ef þig úti nemur
nótt á niflvegi
að því firr megi
þér til meins gera
kristin dauð kona.

14 Þann gel eg þér inn níunda,
ef þú við inn naddgöfga
orðum skiptir jötun:
máls og manvits
sé þér úr Mímis hjarta
gnóga of gefið.

15 Far þú nú æva,
þar er forað þykir,
og standi-t þér mein fyrir munum.
Á jarðföstum steini
stóð eg innan dyra,
meðan eg þér galdra gól.

16 Móður orð
ber þú, mögur, héðan
og lát þér í brjósti búa;
því nóga heill
skaltu um aldur hafa,
meðan þú mín orð of mant.

Текст с сайта Jörmungrund