Bolla þáttur Bollasonar

1. kafli — Af Bolla Bollasyni

Í þann tíma er Bolli Bollason bjó í Tungu og nú var áður frá sagt þá bjó norður í Skagafirði á Miklabæ Arnór kerlingarnef son Bjarnar Þórðarsonar frá Höfða.

Þórður hét maður er bjó á Marbæli. Guðrún hét kona hans. Þau voru vel að sér og höfðu gnótt fjár. Son þeirra hét Ólafur og var hann ungur að aldri og allra manna efnilegastur. Guðrún kona Þórðar var náskyld Bolla Bollasyni. Var hún systrungur hans. Ólafur son þeirra Þórðar var heitinn eftir Ólafi pá í Hjarðarholti.

Þórður og Þorvaldur Hjaltasynir bjuggu að Hofi í Hjaltadal. Þeir voru höfðingjar miklir.

Maður hét Þórólfur og var kallaður stertimaður. Hann bjó í Þúfum. Hann var óvinveittur í skapi og æðimaður mikill. Hann átti griðung grán, ólman. Þórður af Marbæli var í förum með Arnóri. Þórólfur stærimaður átti frændkonu Arnórs en hann var þingmaður Hjaltasona. Hann átti illt við búa sína og lagði það í vanda sinn. Kom það mest til þeirra Marbælinga. Graðungur hans gerði mönnum margt mein þá er hann kom úr afréttum. Meiddi hann fé manna en gekk eigi undan grjóti. Hann braut og andvirki og gerði margt illt.

Þórður af Marbæli hitti Þórólf að máli og bað hann varðveita graðung sinn: «Viljum vér eigi þola honum ofríki.»

Þórólfur lést eigi mundu sitja að fé sínu. Fer Þórður heim við svo búið.

Eigi miklu síðar getur Þórður að líta hvar graðungurinn hefir brotið niður torfstakka hans. Þórður hleypur þá til og hefir spjót í hendi og er boli sér það veður hann jörð svo að upp tekur um klaufir. Þórður leggur til hans svo að hann fellur dauður á jörð. Þórður hitti Þórólf og sagði honum að boli var dauður.

«Þetta var lítið frægðarverk,» svarar Þórólfur, «en gera mundi eg það vilja er þér þætti eigi betur.»

Þórólfur var málóði og heitaðist í hverju orði.

Þórður átti heimanferð fyrir höndum. Ólafur sonur hans var þá sjö vetra eða átta. Hann fór af bænum með leik sínum og gerði sér hús sem börnum er títt en Þórólfur kom þar að honum. Hann lagði sveininn í gegnum með spjóti. Síðan fór hann heim og sagði konu sinni.

Hún svarar: «Þetta er illt verk og ómannlegt. Mun þér þetta illu reifa.»

En er hún tók á honum þungt þá fór hann í brott þaðan og létti eigi fyrr en hann kom á Miklabæ til Arnórs. Fréttust þeir tíðinda.

Þórólfur segir honum víg Ólafs: «Sé eg þar nú til trausts sem þér eruð sakir mágsemdar.»

«Eigi ferð þú sjáandi eftir um þenna hlut,» sagði Arnór, «að eg muni virða meira mágsemd við þig en virðing mína og sæmd, og ásjá áttu hér engrar von af mér.»

Fór Þórólfur upp eftir Hjaltadal til Hofs og fann þá Hjaltasonu og sagði þeim hvar komið var hans máli «og sé eg hér nú til ásjá sem þið eruð.»

Þórður svarar: «Slíkt eru níðingsverk og mun eg enga ásjá veita þér um þetta efni.»

Þorvaldur varð um fár. Fær Þórólfur ekki af þeim að sinni.

Reið hann í brott og upp eftir Hjaltadal til Reykja, fór þar í laug. En um kveldið reið hann ofan aftur og undir virkið að Hofi og ræddist við einn saman svo sem annar maður væri fyrir og kveddi hann og frétti hver þar væri kominn.

«Eg heiti Þórólfur,» kvað hann.

«Hvert varstu farinn eða hvað er þér á höndum?» spyr launmaðurinn.

Þórólfur segir tilfelli þessi öll eftir því sem voru: «Bað eg Hjaltasonu ásjár,» segir hann, «sakir nauðsynja minna.»

Þessi svarar er fyrir skyldi vera: «Gengið er nú þaðan er þeir gerðu erfið það hið fjölmenna er tólf hundruð manna sátu að og ganga slíkir höfðingjar mjög saman er nú vilja eigi veita einum manni nokkura ásjá.»

Þorvaldur var úti staddur og heyrði talið. Hann gengur þangað til og tók í tauma hestsins og bað hann af baki stíga «en þó er eigi virðingarvænlegt við þig að eiga fyrir sakir fólsku þinnar.»

2. kafli — Af Þórólfi sterti

Nú er að segja frá Þórði er hann kom heim og frá víg sonar síns og harmaði það mjög.

Guðrún kona hans mælti: «Það er þér ráð að lýsa vígi sveinsins á hönd Þórólfi en eg mun ríða suður til Tungu og finna Bolla frænda minn og vita hvern styrk hann vill veita okkur til eftirmáls.»

Þau gerðu svo. Og er Guðrún kom í Tungu fær hún þar viðtökur góðar. Hún segir Bolla víg Ólafs sonar síns og beiddi að hann tæki við eftirmálinu.

Hann svarar: «Eigi þykir mér þetta svo hæglegt að seilast til sæmdar í hendur þeim Norðlendingum. Fréttist mér og svo til sem maðurinn muni þar niður kominn að ekki muni hægt eftir að leita.»

Bolli tók þó við málinu um síðir og fór Guðrún norður og kom heim. Hún sagði Þórði bónda sínum svo sem nú var komið og líður nú svo fram um hríð.

Eftir jól um veturinn var lagður fundur í Skagafirði að Þverá og stefndi Þorvaldur þangað Guðdala-Starra. Hann var vinur þeirra bræðra. Þorvaldur fór til þingsins við sína menn og er þeir komu fyrir Urðskriðuhóla þá hljóp úr hlíðinni ofan að þeim maður. Var þar Þórólfur. Réðst hann í ferð með þeim Þorvaldi.

Og er þeir áttu skammt til Þverár þá mælti Þorvaldur við Þórólf: «Nú skaltu hafa með þér þrjár merkur silfurs og sitja hér upp frá bænum að Þverá. Haf það að marki að eg mun snúa skildi mínum og að þér holinu ef þér er fritt og máttu þá fram ganga. Skjöldurinn er hvítur innan.»

Og er Þorvaldur kom til þingsins hittust þeir Starri og tóku tal saman.

Þorvaldur mælti: «Svo er mál með vexti að eg vil þess beiða að þú takir við Þórólfi stærimanni til varðveislu og trausts. Mun eg fá þér þrjár merkur silfurs og vináttu mína.»

«Þar er sá maður,» svarar Starri, «er mér þykir ekki vinsæll og óvíst að honum fylgi hamingja. En sakir okkars vinskapar þá vil eg við honum taka.»

«Þá gerir þú vel,» segir Þorvaldur.

Sneri hann þá skildinum og frá sér hvolfinu og er Þórólfur sér það gengur hann fram og tók Starri við honum. Starri átti jarðhús í Guðdölum því að jafnan voru með honum skógarmenn. Átti hann og nokkuð sökótt.

3. kafli — Af Bolla

Bolli Bollason býr til vígsmálið Ólafs. Hann býst heiman og fer norður til Skagafjarðar við þrjá tigi manna. Hann kemur á Miklabæ og er honum þar vel fagnað.

Segir hann hversu af stóð um ferðir hans: «Ætla eg að hafa fram vígsmálið nú á Hegranessþingi á hendur Þórólfi stærimanni. Vildi eg að þú værir mér um þetta mál liðsinnaður.»

Arnór svarar: «Ekki þykir mér þú Bolli vænt stefna út er þú sækir norður hingað, við slíka ójafnaðarmenn sem hér er að eiga. Munu þeir þetta mál meir verja með kappi en réttindum. En ærin nauðsyn þykir mér þér á vera. Munum vér og freista að þetta mál gangi fram.»

Arnór dregur að sér fjölmenni mikið. Ríða þeir Bolli til þingsins. Þeir bræður fjölmenna mjög til Hegranessþings. Þeir hafa frétt um ferðir Bolla. Ætla þeir að verja málið. Og er menn koma til þingsins hefir Bolli fram sakir á hendur Þórólfi. Og er til varna var boðið gengu þeir til Þorvaldur og Starri við sveit sína og hugðu að eyða málinu fyrir Bolla með styrk og ofríki.

En er þetta sér Arnór gengur hann í milli með sína sveit og mælti: «Það er mönnum einsætt að færa hér eigi svo marga góða menn í vandræði sem á horfist að menn skuli eigi ná lögum um mál sín. Er og ófallið að fylgja Þórólfi um þetta mál. Muntu Þorvaldur og óliðdrjúgur verða ef reyna skal.»

Þeir Þorvaldur og Starri sáu nú að málið mundi fram ganga því að þeir höfðu ekki liðsafla við þeim Arnóri og léttu þeir frá.

Bolli sekti Þórólf stærimann þar á Hegranessþingi um víg Ólafs frænda síns og fór við það heim. Skildust þeir Arnór með kærleikum. Sat Bolli í búi sínu.

4. kafli — Af Þorgrími

Þorgrímur hét maður. Hann átti skip uppi standanda í Hrútafirði. Þangað reið Starri og Þórólfur við honum.

Starri mælti við stýrimann: «Hér er maður að eg vil að þú takir við og flytjir utan og hér eru þrjár merkur silfurs er þú skalt hafa og þar með vináttu mína.»

Þorgrímur mælti: «Á þessu þykir mér nokkur vandi hversu af hendi verður leyst. En við áskoran þína mun eg við honum taka. En þó þykir mér þessi maður vera ekki giftuvænlegur.»

Þórólfur réðst nú í sveit með kaupmönnum en Starri ríður heim við svo búið.

Nú er að segja frá Bolla. Hann hugsar nú efni þeirra Þórólfs og þykir eigi verða mjög með öllu fylgt ef Þórólfur skal sleppa. Frétti hann nú að hann er til skips ráðinn. Bolli býst heiman. Setur hann hjálm á höfuð sér, skjöld á hlið. Spjót hafði hann í hendi en gyrður sverðinu Fótbít. Hann ríður norður til Hrútafjarðar og kom í það mund er kaupmenn voru albúnir. Var þá og vindur á kominn. Og er Bolli reið að búðardyrunum gekk Þórólfur út í því og hafði húðfat í fangi sér. Bolli bregður Fótbít og leggur í gegnum hann. Fellur Þórólfur á bak aftur í búðina inn en Bolli hleypur á hest sinn. Kaupmenn hljópu saman og að honum.

Bolli mælti: «Hitt er yður ráðlegast að láta nú vera kyrrt því að yður mun ofstýri verða að leggja mig við velli. En vera má að eg kvisti einnhvern yðvarn eða alla tvo áður eg er felldur.»

Þorgrímur svarar: «Eg hygg að þetta sé satt.»

Létu þeir vera kyrrt en Bolli reið heim og hefir sótt mikinn frama í þessi ferð. Fær hann af þessu virðing mikla og þótti mönnum farið skörulega, hefir sektan manninn í öðrum fjórðungi en síðan riðið einn saman í hendur óvinum sínum og drepið hann þar.

5. kafli — Viðurtal Guðmundar og Bolla

Um sumarið á alþingi fundust þeir Bolli og Guðmundur hinn ríki og töluðu margt.

Þá mælti Guðmundur: «Því vil eg lýsa Bolli að eg vil við slíka menn vingast sem þér eruð. Eg vil bjóða þér norður til mín til hálfs mánaðar veislu og þykir mér betur að þú komir.»

Bolli svarar, að vísu vill hann þiggja sæmdir að slíkum manni og hét hann ferðinni.

Þá urðu og fleiri menn til að veita honum þessi vinganarmál. Arnór kerlingarnef bauð Bolla og til veislu á Miklabæ.

Maður hét Þorsteinn. Hann bjó að Hálsi. Hann var sonur Hellu-Narfa. Hann bauð Bolla til sín er hann færi norðan og Þórður af Marbæli bauð Bolla. Fóru menn af þinginu og reið Bolli heim.

Þetta sumar kom skip í Dögurðarnes og settist þar upp. Bolli tók til vistar í Tungu tólf kaupmenn. Voru þeir þar um veturinn og veitti Bolli þeim allstórmannlega. Sátu þeir um kyrrt fram yfir jól. En eftir jól ætlar Bolli að vitja heimboðanna norður og lætur hann þá járna hesta og býr ferð sína. Voru þeir átján í reið. Voru kaupmenn allir vopnaðir. Bolli reið í blárri kápu og hafði í hendi spjótið konungsnaut hið góða. Þeir ríða nú norður og koma á Marbæli til Þórðar. Var þar allvel við þeim tekið, sátu þrjár nætur í miklum fagnaði. Þaðan riðu þeir á Miklabæ til Arnórs og tók hann ágætlega vel við þeim. Var þar veisla hin besta.

Þá mælti Arnór: «Vel hefir þú gert Bolli er þú hefir mig heimsótt. Þykir mér þú hafa lýst í því við mig mikinn félagsskap. Skulu eigi eftir betri gjafir með mér en þú skalt þiggja mega. Mín vinátta skal þér og heimul vera. En nokkur grunur er mér á að þér séu eigi allir menn vinhollir í þessu héraði, þykjast sviptir vera sæmdum. Kemur það mest til þeirra Hjaltasona. Mun eg nú ráðast til ferðar með þér norður á Heljardalsheiði þá er þér farið héðan.»

Bolli svarar: «Þakka vil eg yður Arnór bóndi alla sæmd er þér gerið til mín nú og fyrrum. Þykir mér og það bæta vorn flokk að þér ríðið með oss. En allt hugðum vér að fara með spekt um þessi héruð. En ef aðrir leita á oss þá má vera að vér leikum þá enn nokkuð í mót.»

Síðan ræðst Arnór til ferðar með þeim og ríða nú veg sinn.

6. kafli

Nú er að segja frá Þorvaldi að hann tekur til orða við Þórð bróður sinn: «Vita muntu að Bolli fer héðra að heimboðum. Eru þeir nú að Arnórs átján saman og ætla norður Heljardalsheiði.»

«Veit eg það,» svarar Þórður.

Þorvaldur mælti: «Ekki er mér þó um það að Bolli hlaupi hér svo um horn oss að vér finnum hann eigi því að eg veit eigi hver minni sæmd hefir meir niður drepið en hann.»

Þórður mælti: «Mjög ertu íhlutunarsamur og meir en eg vildi og ófarin mundi þessi ef eg réði. Þykir mér óvíst að Bolli sé ráðlaus fyrir þér.»

«Eigi mun eg letjast láta,» svarar Þorvaldur, «en þú munt ráða ferð þinni.»

Þórður mælti: «Eigi mun eg eftir sitja ef þú ferð bróðir en þér munum vér eigna alla virðing þá er vér hljótum í þessi ferð, og svo ef öðruvís ber til.»

Þorvaldur safnar að sér mönnum og verða þeir átján saman og ríða á leið fyrir þá Bolla og ætla að sitja fyrir þeim.

Þeir Arnór og Bolli ríða nú með sína menn og er skammt var í milli þeirra og Hjaltasona þá mælti Bolli til Arnórs: «Mun eigi það nú ráð að þér hverfið aftur? Hafið þér þó fylgt oss hið drengilegsta. Munu þeir Hjaltasynir ekki sæta fláráðum við mig.»

Arnór mælti: «Eigi mun eg enn aftur hverfa því að svo er sem annar segi mér að Þorvaldur muni til þess ætla að hafa fund þinn. Eða hvað sé eg þar upp koma, blika þar eigi skildir við? Og munu þar vera Hjaltasynir. En þó mætti nú svo um búast að þessi þeirra ferð yrði þeim til engrar virðingar en megi metast fjörráð við þig.»

Nú sjá þeir Þorvaldur bræður að þeir Bolli eru hvergi liðfærri en þeir og þykjast sjá ef þeir sýna nokkura óhæfu af sér að þeirra kostur mundi mikið versna. Sýnist þeim það ráðlegast að snúa aftur alls þeir máttu ekki sínum vilja fram koma.

Þá mælti Þórður: «Nú fór sem mig varði að þessi ferð mundi verða hæðileg og þætti mér enn betra heima setið. Höfum sýnt oss í fjandskap við menn en komið engu á leið.»

Þeir Bolli ríða leið sína. Fylgir Arnór þeim upp á heiðina og skildi hann eigi fyrr við þá en hallaði af norður. Þá hvarf hann aftur en þeir riðu ofan eftir Svarfaðardal og komu á bæ þann er á Skeiði heitir. Þar bjó sá maður er Helgi hét. Hann var ættsmár og illa í skapi, auðigur að fé. Hann átti þá konu er Sigríður hét. Hún var frændkona Þorsteins Hellu-Narfasonar. Hún var þeirra skörungur meiri.

Þeir Bolli litu heygarð hjá sér. Stigu þeir þar af baki og kasta þeir fyrir hesta sína og verja til heldur litlu en þó hélt Bolli þeim aftur að heygjöfinni. «Veit eg eigi,» segir hann, «hvert skaplyndi bóndi hefir.»

Þeir gáfu heyvöndul og létu hestana grípa í.

Á bænum heima gekk út maður og þegar inn aftur og mælti: «Menn eru við heygarð þinn bóndi og reyna desjarnar.»

Sigríður húsfreyja svarar: «Þeir einir munu þar menn vera að það mun ráð að spara eigi hey við.»

Helgi hljóp upp í óðafári og kvað aldrei hana skyldu þessu ráða að hann léti stela heyjum sínum. Hann hleypur þegar sem hann sé vitlaus og kemur þar að sem þeir áðu. Bolli stóð upp er hann leit ferðina mannsins og studdist við spjótið konungsnaut.

Og þegar Helgi kom að honum mælti hann: «Hverjir eru þessir þjófarnir er mér bjóða ofríki og stela mig eign minni og rífa í sundur hey mitt fyrir faraskjóta sína?»

Bolli segir nafn sitt.

Helgi svarar: «Það er óliðlegt nafn og muntu vera óréttvís.»

«Vera má að svo sé,» segir Bolli, «en hinu skaltu mæta er réttvísi er í.»

Bolli keyrði þá hestana frá heyinu og bað þá eigi æja lengur.

Helgi mælti: «Eg kalla yður hafa stolið mig þessu sem þér hafið haft og gert á hendur yður skóggangssök.»

«Þú munt vilja bóndi,» sagði Bolli, «að vér komum fyrir oss fébótum við þig og hafir þú eigi sakir á oss. Mun eg gjalda tvenn verð fyrir hey þitt.»

«Það fer heldur fjarri,» svarar hann, «mun eg framar á hyggja um það er vér skiljum.»

Bolli mælti: «Eru nokkurir hlutir þeir bóndi er þú viljir hafa í sætt af oss?»

«Það þykir mér vera mega,» svarar Helgi, «að eg vilji spjót það hið gullrekna er þú hefir í hendi.»

«Eigi veit eg,» sagði Bolli, «hvort eg nenni það til að láta. Hefi eg annað nokkuð heldur fyrir því ætlað. Máttu það og varla tala að beiðast vopns úr hendi mér. Tak heldur annað fé svo mikið að þú þykist vel haldinn af.»

«Fjarri fer það,» svarar Helgi, «er það og best að þér svarið slíku fyrir sem þér hafið til gert.»

Síðan hóf Helgi upp stefnu og stefndi Bolla um þjófnað og lét varða skóggang. Bolli stóð og heyrði til og brosti við lítinn þann.

En er Helgi hafði lokið stefnunni mælti hann: «Nær fórstu heiman?»

Bolli sagði honum.

Þá mælti bóndi: «Þá tel eg þig hafa á öðrum alist meir en hálfan mánuð.»

Helgi hefur þá upp aðra stefnu og stefnir Bolla um verðgang.

Og er því var lokið þá mælti Bolli: «Þú hefir mikið við Helgi og mun betur fallið að leika nokkuð í móti við þig.»

Þá hefur Bolli upp stefnu og stefndi Helga um illmæli við sig og annarri stefnu um brekráð til fjár síns. Þeir mæltu förunautar hans að drepa skyldi skelmi þann. Bolli kvað það eigi skyldu. Bolli lét varða skóggang.

Hann mælti eftir stefnuna: «Þér skuluð færa heim húsfreyju Helga hníf og belti er eg sendi henni því að mér er sagt að hún hafi gott eina lagt til vorra haga.»

Bolli ríður nú í brott en Helgi er þar eftir. Þeir Bolli koma til Þorsteins á Háls og fá þar góðar viðtökur. Er þar búin veisla fríð.

7. kafli

Nú er að segja frá Helga að hann kemur heim á Skeið og segir húsfreyju sinni hvað þeir Bolli höfðu við ást.

«Þykist eg eigi vita,» segir hann, «hvað mér verður til ráðs að eiga við slíkan mann sem Bolli er en eg er málamaður engi. Á eg og ekki marga þá er mér muni að málum veita.»

Sigríður húsfreyja svarar: «Þú ert orðinn mannfóli mikill, hefir átt við hina göfgustu menn og gert þig að undri. Mun þér og fara sem maklegt er að þú munt hér fyrir upp gefa allt fé þitt og sjálfan þig.»

Helgi heyrði á orð hennar og þóttu ill vera en grunaði þó að satt mundi vera því að honum var svo farið að hann var vesalmenni og þó skapillur og heimskur. Sá hann sig engi færi hafa til leiðréttu en mælt sig í ófæru. Barst hann heldur illa af fyrir þetta allt jafnsaman.

Sigríður lét taka sér hest og reið að finna Þorstein frænda sinn Narfason og voru þeir Bolli þá komnir. Hún heimti Þorstein á mál og sagði honum í hvert efni komið var.

«Þó hefir slíkt illa til tekist,» svarar Þorsteinn.

Hún sagði og hversu vel Bolli hafði boðið eða hversu heimsklega Helga fór.

Bað hún Þorstein eiga í allan hlut að þetta mál greiddist. Eftir það fór hún heim en Þorsteinn kom að máli við Bolla.

«Hvað er um vinur,» segir hann, «hvort hefir Helgi af Skeiði sýnt fólsku mikla við þig? Vil eg biðja að þér leggið niður fyrir mín orð og virðið það engis því að ómæt eru þar afglapa orð.»

Bolli svarar: «Það er víst að þetta er engis vert. Mun eg mér og ekki um þetta gefa.»

«Þá vil eg,» sagði Þorsteinn, «að þér gefið honum upp þetta fyrir mína skyld og hafið þar fyrir mína vináttu.»

«Ekki mun þetta til neins voða horfa,» sagði Bolli. «Lét eg mér fátt um finnast og bíður það vordaga.»

Þorsteinn mælti: «Það mun eg sýna að mér þykir máli skipta að þetta gangi eftir mínum vilja. Eg vil gefa þér hest þann er bestur er hér í sveitum og eru tólf saman hrossin.»

Bolli svarar: «Slíkt er allvel boðið en eigi þarftu að leggja hér svo mikla stund á. Eg gaf mér lítið um slíkt. Mun og lítið af verða þá er í dóm kemur.»

«Það er sannast,» sagði Þorsteinn, «að eg vil selja þér sjálfdæmi fyrir málið.»

Bolli svarar: «Það ætla eg sannast að ekki þurfi um að leitast því að eg vil ekki sættast á þetta mál.»

«Þá kýstu það er öllum oss gegnir verst,» sagði Þorsteinn, «þótt Helgi sé lítils verður þá er hann þó í venslum bundinn við oss. Þá munum vér hann eigi upp gefa undir vopn yður síðan þú vilt engis mín orð virða. En að þeim atkvæðum að Helgi hafði í stefnu við þig líst mér það engi sæmdarauki þó að það sé á þing borið.»

Skildu þeir Þorsteinn og Bolli heldur fálega. Ríður hann í brott og hans félagar og er ekki getið að hann sé með gjöfum í brott leystur.

8. kafli — Af Bolla

Bolli og hans förunautar komu á Möðruvöllu til Guðmundar hins ríka. Hann gengur í móti þeim með allri blíðu og var hinn glaðasti. Þar sátu þeir hálfan mánuð í góðum fagnaði.

Þá mælti Guðmundur til Bolla: «Hvað er til haft um það, hefir sundurþykki orðið með yður Þorsteini?»

Bolli kvað lítið til haft um það og tók annað mál.

Guðmundur mælti: «Hverja leið ætlar þú aftur að ríða?»

«Hina sömu,» svarar Bolli.

Guðmundur mælti: «Letja vil eg yður þess því að mér er svo sagt að þið Þorsteinn hafið skilið fálega. Ver heldur hér með mér og ríð suður í vor og látum þá þessi mál ganga til vegar.»

Bolli lést eigi mundu bregða ferðinni fyrir hót þeirra «en það hugði eg þá er Helgi fólið lét sem heimsklegast og mælti hvert óorðan að öðru við oss og vildi hafa spjótið konungsnaut úr hendi mér fyrir einn heyvöndul að eg skyldi freista að hann fengi ömbun orða sinna. Hefi eg og annað ætlað fyrir spjótinu að eg mundi heldur gefa þér og þar með gullhringinn þann er stólkonungurinn gaf mér. Hygg eg nú að gripirnir séu betur niður komnir en þá að Helgi hefði þá.»

Guðmundur þakkaði honum gjafir þessar og mælti: «Hér munu smærri gjafir í móti koma en verðugt er.»

Guðmundur gaf Bolla skjöld gulllagðan og gullhring og skikkju. Var í henni hið dýrsta klæði og búin öll þar er bæta þótti. Allir voru gripirnir mjög ágætir.

Þá mælti Guðmundur: «Illa þykir mér þú gera Bolli er þú vilt ríða um Svarfaðardal.»

Bolli segir það ekki skaða munu. Riðu þeir í brott og skilja þeir Guðmundur við hinum mestum kærleikum. Þeir Bolli ríða nú veg sinn út um Galmarströnd.

Um kveldið komu þeir á þann bæ er að Krossum heitir. Þar bjó sá maður er Óttar hét. Hann stóð úti. Hann var sköllóttur og í skinnstakki. Óttar kvaddi þá vel og bauð þeim þar að vera. Það þiggja þeir. Var þar góður beini og bóndi hinn kátasti. Voru þeir þar um nóttina.

Um morguninn er þeir Bolli voru ferðar búnir þá mælti Óttar: «Vel hefir þú gert Bolli er þú hefir sótt heim bæ minn. Vil eg og sýna þér lítið tillæti, gefa þér gullhring og kunna þökk að þú þiggir. Hér er og fingurgull er fylgja skal.»

Bolli þiggur gjafirnar og þakkar bónda. Óttar var á hesti sínum því næst og reið fyrir þeim leiðina því að fallið hafði snjór lítill um nóttina. Þeir ríða nú veg sinn út til Svarfaðardals.

Og er þeir hafa eigi lengi riðið snerist hann við Óttar og mælti til Bolla: «Það mun eg sýna að eg vildi að þú værir vin minn. Er hér annar gullhringur er eg vil þér gefa. Væri eg yður vel viljaður í því er eg mætti. Munuð þér og þess þurfa.»

Bolli kvað bónda fara stórmannlega til sín «en þó vil eg þiggja hringinn.»

«Þá gerir þú vel,» segir bóndi.

9. kafli — Bardagi í Hestanesi

Nú er að segja frá Þorsteini af Hálsi. Þegar honum þykir von að Bolli muni norðan ríða þá safnar hann mönnum og ætlar að sitja fyrir Bolla og vill nú að verði umskipti um mál þeirra Helga. Þeir Þorsteinn hafa þrjá tigi manna og ríða fram til Svarfaðardalsár og setjast þar.

Ljótur hét maður er bjó á Völlum í Svarfaðardal. Hann var höfðingi mikill og vinsæll og málamaður mikill. Það var búningur hans hversdaglega að hann hafði svartan kyrtil og refði í hendi en ef hann bjóst til víga þá hafði hann blán kyrtil og öxi snaghyrnda. Var hann þá heldur ófrýnlegur.

Þeir Bolli ríða út eftir Svarfaðardal. Fylgir Óttar þeim út um bæinn að Hálsi og að ánni út. Þar sat fyrir þeim Þorsteinn við sína menn og þegar er Óttar sér fyrirsátina bregður hann við og keyrir hest sinn þvers í brott. Þeir Bolli ríða að djarflega og er þeir Þorsteinn sjá það og hans menn spretta þeir upp. Þeir voru sínum megin ár hvorir en áin var leyst með löndum en ís flaut á miðri. Hleypa þeir Þorsteinn út á ísinn.

Helgi af Skeiði var og þar og eggjar þá fast og kvað nú vel að þeir Bolli reyndu hvort honum væri kapp sitt og metnaður einhlítt eða hvort nokkurir menn norður þar mundu þora að halda til móts við hann. «Þarf nú og eigi að spara að drepa þá alla. Mun það og leiða öðrum,» sagði Helgi, «að veita oss ágang.»

Bolli heyrir orð Helga og sér hvar hann er kominn út á ísinn. Bolli skýtur að honum spjóti og kemur á hann miðjan. Fellur hann á bak aftur í ána en spjótið flýgur í bakkann öðrum megum svo að fast var og hékk Helgi þar á niður í ána. Eftir það tókst þar bardagi hinn skarpasti. Bolli gengur að svo fast að þeir hrökkva undan er nær voru. Þá sótti fram Þorsteinn í móti Bolla og þegar þeir fundust höggur Bolli til Þorsteins á öxlina og varð það mikið sár. Annað sár fékk Þorsteinn á fæti. Sóknin var hin harðasta. Bolli varð og sár nokkuð og þó ekki mjög.

Nú er að segja frá Óttari. Hann ríður upp á Völlu til Ljóts og þegar þeir finnast mælti Óttar: «Eigi er nú setuefni Ljótur,» sagði hann, «og fylg þú nú virðing þinni er þér liggur laus fyrir.»

«Hvað er nú helst í því Óttar?»

«Eg hygg að þeir berjist hér niðri við ána Þorsteinn af Hálsi og Bolli og er það hin mesta hamingja að skirra vandræðum þeirra.»

Ljótur mælti: «Oft sýnir þú af þér mikinn drengskap.»

Ljótur brá við skjótt og við nokkura menn og þeir Óttar báðir. Og er þeir koma til árinnar berjast þeir Bolli sem óðast. Voru þá fallnir þrír menn af Þorsteini. Þeir Ljótur ganga fram í meðal þeirra snarlega svo að þeir máttu nær ekki að hafast.

Þá mælti Ljótur: «Þér skuluð skilja þegar í stað,» segir hann, «og er þó nú ærið að orðið. Vil eg einn gera milli yðvar um þessi mál en ef því níta aðrir hvorir þá skulum vér veita þeim atgöngu.»

En með því að Ljótur gekk að svo fast þá hættu þeir að berjast og því játtu hvorirtveggju að Ljótur skyldi gera um þetta þeirra í milli. Skildust þeir við svo búið. Fór Þorsteinn heim en Ljótur býður þeim Bolla heim með sér og það þiggur hann. Fóru þeir Bolli á Völlu til Ljóts. Þar heitir í Hestanesi sem þeir höfðu barist. Óttar bóndi skildist eigi fyrri við þá Bolla en þeir komu heim með Ljóti. Gaf Bolli honum stórmannlegar gjafar að skilnaði og þakkaði honum vel sitt liðsinni. Hét Bolli Óttari sinni vináttu. Fór hann heim til Krossa og sat í búi sínu.

10. kafli — Af Bolla

Eftir bardagann í Hestanesi fór Bolli heim með Ljóti á Völlu við alla sína menn en Ljótur bindur sár þeirra og greru þau skjótt því að gaumur var að gefinn. En er þeir voru heilir sára sinna þá stefndi Ljótur þing fjölmennt. Riðu þeir Bolli á þingið. Þar kom og Þorsteinn af Hálsi við sína menn.

Og er þingið var sett mælti Ljótur: «Nú skal ekki fresta uppsögn um gerð þá er eg hefi samið milli þeirra Þorsteins af Hálsi og Bolla. Hefi eg það upphaf að gerðinni að Helgi skal hafa fallið óheilagur fyrir illyrði sín og tiltekju við Bolla. Sárum þeirra Þorsteins og Bolla jafna eg saman. En þá þrjá menn er féllu af Þorsteini skal Bolli bæta. En fyrir fjörráð við Bolla og fyrirsát skal Þorsteinn greiða honum fimmtán hundruð þriggja alna aura. Skulu þeir að þessu alsáttir.»

Eftir þetta var slitið þinginu. Segir Bolli Ljóti að hann mun ríða heimleiðis og þakkar honum vel alla sína liðveislu og skiptust þeir fögrum gjöfum við og skildu við góðum vinskap. Bolli tók upp bú Sigríðar á Skeiði því að hún vildi fara vestur með honum. Ríða þau veg sinn þar til er þau koma á Miklabæ til Arnórs. Tók hann harðla vel við þeim. Dvöldust þar um hríð og sagði Bolli Arnóri allt um skipti þeirra Svarfdæla hversu farið hafði.

Arnór mælti: «Mikla heill hefir þú til borið um ferð þessa við slíkan mann sem þú áttir þar er Þorsteinn var. Er það sannast um að tala að fáir eða öngvir höfðingjar munu sótt hafa meira frama úr öðrum héruðum norður hingað en þú, þeir sem jafnmarga öfundarmenn áttu hér fyrir.»

Bolli ríður nú í brott af Miklabæ við sína menn og heim suður. Tala þeir Arnór til vináttu með sér af nýju að skilnaði.

En er Bolli kom heim í Tungu varð Þórdís húsfreyja hans honum fegin. Hafði hún frétt áður nokkuð af róstum þeirra Norðlendinga og þótti mikið í hættu að honum tækist vel til. Situr Bolli nú í búi sínu með mikilli virðingu.

Þessi ferð Bolla var ger að nýjum sögum um allar sveitir og töluðu allir einn veg um að slík þótti varla farin hafa verið nálega. Óx virðing hans af slíku og mörgu öðru. Bolli fékk Sigríði gjaforð göfugt og lauk vel við hana.

Og höfum vér eigi heyrt þessa sögu lengri.

Текст с сайта Netútgáfan