Hrómundar þáttur halta

1. kafli

Eyvindur sörkvir hét maður er út kom með Ingimundi gamla. Hann nam Blöndudal vestur frá Skagafirði og vildi eigi lifa eftir Ingimund og réð sér sjálfur bana. Hann átti son við ambátt sinni í elli er Hrómundur hét. Hann átti Auðbjörgu dóttur Márs Jörundarsonar háls. Hún var ambáttardóttir. Hrómundur var löngum með Mávi á Mársstöðum. Er hann barðist við sonu Ingimundar um Deildarhjalla, þar vó Hrómundur Högna son Ingimundar og varð fyrir það héraðssekur milli Jökulsár í Skagafirði og Hrútafjarðarár. Hrómundur varð sár á fæti og var jafnan haltur síðan. Af því var hann kallaður Hrómundur halti. Hann keypti Fagrabrekkuland fyrir vestan Hrútafjarðará og bjó þar um hríð. Hann gerði virki mikið um bæ sinn og var hinn vænsti maður og mikill fyrir sér.

Son hans hét Þorbjörn þyna og var Auðbjörg móðir hans. Hann átti Guðrúnu dóttur Þorkels á Kerseyri er nam sunnan Hrútafjarðarháls. Þeirra son var Þorleifur er Hrómundarfóstri var kallaður. Hallsteinn hét son Hrómundar. Allir voru þeir frændur miklir menn og sterkir.

Son Þorkels á Kerseyri hét Þórir, bróðir Guðrúnar konu Þorleifs. Hann bjó að Melum hið næsta. Helga hét dóttir hans og var fríð kona sjónum og skörungur mikill.

2. kafli

Það bar til tíðinda eitt sumar að skip kom af hafi í Hrútafirði á Borðeyri. Sleitu-Helgi hét stýrimaður en Jörundur bróðir hans. Þeir voru tólf menn á skipi. Þeir voru ósvífir menn og illorðir og áttu menn lítt kaup við þá og fóru heldur utanhéraðs til kaupa til annarra skipa. Fréttu menn að þeir voru víkingar og ránsmenn en höfðu ekki nema ránsfé.

Og er á leið sumarið komu menn ekki til þeirra.

Þá mælti Helgi: «Þess vil eg nú fýsa að þér séuð eigi illfengir og hafið hið betra skaplyndi hér við sveitarmenn og takið yður vistir með bóndum því að mér líst fólk þetta muni torsveigt verða og kunna illa ágang. Hefi eg spurt að menn eru hér sterkir og afætur miklar.»

Og er hálfur mánuður leið voru þrír menn vistaðir.

Þá mælti Helgi: «Eigi eru menn hér fúsir að taka við oss og er það vorkunn og látum enn sveigjast til við þá.»

Og svo gerðu þeir en svo hafði lag á lagst að eigi tóku menn við þeim.

Eitthvert sinn reið Þórir frá Melum til skips og hitti Helga. Helgi tók allglaðlega við honum og spurði hverju hann vildi kaupa.

Þórir kvað sér nauðsyn á vera að kaupa við «því að hús mín liggja við velli.»

Helgi kveðst mundu gera honum kost á því að kaupa við svo mikinn sem hann þyrfti «og tak við oss öllum til veturvistar.»

Hann kveðst eigi til þess fær «en vöru skortir mig eigi fyrir að gefa. Eruð þér og ekki vinsælir menn taldir.»

Hann taldist undan að taka við þeim.

Helgi mælti: «Allmjög sýna menn sig hér í styggleik við oss og er það þó líkast að þú setjir eigi undan bóndi öllum auvisla við oss ef þú tekur eigi við oss.»

Þórir kvað það valda er þeir höfðu fávingað.

Helgi svarar að hann skyldi fyrir kostum ráða ef hann tæki við þeim «ella er ósýnt hvort þú ferð tvívegis.»

Og er svo var komið mælti Þórir bóndi: «Nú er þú skorar svo mjög á mig um þetta þá skaltu eiða vinna að vorum landslögum fyrir yður alla að þér skuluð öngan ójafnað gera í vetur neinum manni eða þær sakir að lögmætar eru, hvorki við mig né aðra, eigi við hjón mín né nábúa. Mun eg veita yður hús en þér skuluð sjálfir fæða yður.»

Helgi mælti: «Þú skalt ráða bóndi.»

Síðan fóru þeir þangað og mötuðust einir í húsi og sváfu þar. Ekki var þetta mjög þokkað af sveitarmönnum fyrir Þóri og þótti honum þetta ofráð vera.

Og er þeir höfðu þar verið um hríð þá bar oft saman fundi þeirra stýrimanns og bóndadóttur og reittist á um tal og kossa og kneikingar með alvöru og blíðu og fylgdi framkvæmd byrgisskapar.

Þórir mælti: «Það vildi eg Helgi að þú efndir heit þín við mig og gerðir mér öngva skömm né óvirðing og lát af tali við Helgu dóttur mína og halt eiða þína við mig.»

Helgi kvaðst ætla að eigi mundi skjótt hrinda mega ást þeirra Helgu «og er þér engi óvirðing í bóndi ef eg bið konunnar með réttum landslögum þeim sem hér ganga og með slíku fé sem þér líkar.»

En er bónda þótti ósýnt til bóta en menn ósvífir þá réð hann það af að hann gifti Helgu dóttur sína Sleitu-Helga og er gert brúðhlaup þeirra snemma vetrar og þaðan af voru þeir eigi stórilla við menn ef ekki var til gert við þá.

3. kafli

Það bar til um veturinn að Hrómundi hurfu stóðhross fimm saman og voru þau öll stórmjög feit. Um það voru margar getur hvað af hrossunum mundi orðið. Synir Hrómundar kváðust ætla að menn mundu etið hafa er hvergi spurðist til en hrossin spök vön að vera.

Hrómundur sagði: «Það er mér sagt um Austmenn þessa að þeir hafi stærri slátur á borðum en aðrir menn viti vonir til kaupa þeirra. Er og illt orð á þeim um hotvetna. Nú eru tveir kostir til, að láta öngva umræðu á koma og mun þá ekki illt af hljótast eða hætta á hvað eftir kemur og ganga að sínu.»

Þeir kváðu það víst betra og það eitt til liggja að leita eftir.

Hrómundur fann þá Miðfjarðar-Skeggja er þá bjó á Skeggjastöðum í Miðfirði og höfðingi var yfir þeim sveitum og réðst um við hann hversu með skyldi fara.

Skeggi svarar: «Svo spyrst mér til að Austmenn þessir séu harðir í horn að taka og vil eg heita yður minni forsjá hvað sem í gerist.»

Síðan fór hann og fóru þeir feðgar Hrómundur og synir hans litlu eftir þetta til Mela og voru saman tíu. Austmenn voru sumir úti en sumir gengu út í því er þeir riðu að. Þeir höfðu litlar kvaðningar hvorirtveggju.

Þá mælti Hrómundur: «Svo er háttað Helgi,» sagði hann, «að mér hafa hross horfið og er það áhugi minn að hér séu niður komin.»

Helgi mælti: «Ekki hafa menn slíkt við oss mælti fyrri og skal hér fjandskapur í móti koma svo mikill sem vér megum mestan yður gjalda.»

Hrómundur mælti: «Það er víkinga háttur að afla fjár með ránum eða svörfum en það er þjófa háttur að leyna eftir.»

Hrómundur leitaði við Þóri hvað satt væri eða hvað hann vissi af. Þórir lést hvorki vita þá sanna né ósanna að þessu. Hrómundur kvað honum lítilmannlega fara. Síðan biður Hrómundur menn sína stefna þeim og var ráðinn maður til að stefna hverjum þeirra. Síðan fóru stefnur fram og voru Austmenn málóðir og hlaupóðir og kváðust þessa hefna skyldu. Öngir urðu áverkar með mönnum á þeim fundi. Skilja við svo búið.

4. kafli

Hrómundur og hans menn riðu nú heim.

Og er þeir höfðu litla hríð heima verið talaði Hrómundur: «Vér skulum auka þremur mönnum og láta bæta virki vort er mjög er hrörnað og látum sem þeir muni efna það er þeir hétu eigi góðu og þann fjandskap allan er þeir hétu munu þeir eigi láta undan ganga.»

Síðan sendu þeir málin öll til meðferðar Skeggja í Miðfjörð og fóru mál þessi til alþingis og urðu Austmennirnir allir sekir um hrossastuld. En Hrómundur og synir hans sátu heima um þingið en Austmenn bjuggust í burt frá Melum og mæltu vel til Þóris. Þeir ætluðu að búa skip sitt og lá leið þeirra um Fagrabrekku og voru þeir Hrómundur úti feðgar.

Helgi mælti: «Það skyldi verða að yður stæði gott ekki af virki þessu og þá skyldi yður síst lið að því verða er yður lægi mest við og vel mætti eg sjá þig blóðgan Hrómundur og sonu þína.»

Hrómundur mælti: «Ekki grunum vér illvilja yðvarn en það ætlum vér að nokkurir eigi rauðu að snýta áður vér séum við velli lagðir.»

Nú skildu þeir að sinni.

5. kafli

Það bar að einn morgun að hrafn settist á ljóra og skrækti hátt.

Hrómundur var í rekkju sinni og vakti og kvað vísu:

Út heyri eg svan sveita
sáraþorns, er morgnar,
bráð vekr borginmóða,
blájallaðan gjalla.
Svo gól fyrr þá er feigir
fólknárungar váru
Gunnar haukr, er gaukar
Gauts bragða spá sögðu.

Og enn kvað hann:

Hlakkar hagli stokkinn,
hræs er kemr að sævi,
móðr krefr morgunbráðar,
már valkastar báru.
Svo gól endr, þá er unda,
eiðs af fornum meiði
hræva gaukr, er haukar
hildinga mjöð vildu.

Og nokkuru síðar risu upp húskarlar bónda og gáðu eigi að láta aftur virkisdyrnar eftir sér. Og þann sama morgun komu Austmenn og voru saman tólf. Þeir komu litlu síðar en húskarlar voru farnir frá virkinu.

Þá mælti Helgi: «Nú verður vel. Göngum nú í virkið og minnumst háðulegra orða og svo gerða og vil eg að virkið verði þeim að gagni alls öngu ef eg má ráða.»

Þorbjörn þyna vaknaði við mælgi þeirra og hljóp upp þegar og til hurðar þeirrar er var fyrir skálanum og sá út um glugg einn er á var skorinn hurðunni að fornum sið og kenndi Austmennina að þeir voru komnir í virkið og gekk inn aftur.

Og þá mælti Hrómundur: «Hvað er tíðinda frændi?»

Þorbjörn svaraði: «Það hygg eg að Austmenn séu komnir í virkið með ófriði og ætli að hefna orða þeirra er vér höfum talað við þá. En það veit eg eigi hversu að þeir hafa í virkið komist.»

Hrómundur spratt upp og mælti: «Upp vér þá og rekum vanmenni þessi af hendi og kaupum á oss gott orð og dugum drengilega.»

Hann eggjaði þá sonu sína og svo Þorleif fóstra sinn og var hann fimmtán vetra gamall, bæði mikill og rösklegur að sjá. Hann bjóst og til útgöngu en konur sögðu hann of ungan og kváðu hann mundu feigan en Hrómund of gamlan vörn að veita.

Hrómundur kvað þá vísu:

Varat mér í dag dauði,
draugr flatvallar bauga,
búumst við Ilmar jalmi
áðr, né gær of ráðinn.
Ræki eg lítt þó að leiki
litvöndr Héðins fitjar,
áðr var oss of markaðr
aldr, við rauða skjöldu.

Síðan tóku þeir frændur vopn sín allir fjórir, Hrómundur halti og Þorleifur, Þorbjörn þyna og Hallsteinn, og gengu út þær dyr er á voru enda hússins og fóru fyrir ofan þvertré en læstu hinar dyrnar er á voru hliðvegginum. Austmenn hlupu upp í vegginn og skutu að þeim mjög harðfengilega því að Helgi var manna best vígur, mikill og sterkur og vasklegur. Var hann nú æfur mjög og allir voru þeir illir viðureignar og harðir, kváðu þá Hrómund minni skyldu eiga til að reka og þeir skyldu þá muna þjófsnafnið. Hrómundur kvað þá nógt mundu til vinna ef þeir sæktu í virkið. Vörðust þeir þá eigi síður með hlífum og trjám en vopnum en Austmenn börðu grjóti og skotum og sóttu að hið harðasta. En hinir vörðust allvel og voru eigi fleiri fyrir en fjórir. Þeir sendu og ofan stórt grjót og þótt Hrómundur væri aldraður gekk hann vel fram og var stórhöggur og með fulltingi sona sinna og Þorleifs fóstra síns féllu sex Austmenn og í þeirri hríð féll og Hrómundur og Þorleifur fóstri hans.

Austmenn þeir er eftir lifðu hrukku úr virkinu allir en Þorbjörn þyna hljóp eftir þeim og elti úr virkinu alla þá er eftir lifðu. En er Þorbjörn vildi aftur lúka hurðina þá skaut Helgi spjóti til hans og kom á hann miðjan. Hann tók sjálfur spjótið úr sárinu og sendi aftur til Austmanna og kom á Jörund miðjan, bróður Helga. Helgi þreif hann upp þegar hann féll til jarðar og kastaði á bak sér og hljóp úr virkinu og með honum allir hans félagar, þeir fimm er eftir lifðu.

Hallsteinn hljóp eftir þeim en þeir undan þar til er þeir komu að læk einum þeim er út er frá Fagrabrekku. Þar vildi Helgi yfir hlaupa með Jörund bróður sinn en hávir bakkar voru að tveim megin og varð honum aflfátt og skriðnaði Jörundur aftur af herðum honum og var þá dauður. Helgi snaraðist þá við og í því kom Hallsteinn að honum og hjó af honum höndina og þá héldu Austmenn undan en Hallsteinn starfaði að Jörundi og fann að hann var dauður og því bar þá undan og sá Hallsteinn það og sneri þá aftur. Varð hann þess vís að faðir hans var dauður og Þorbjörn þyna. Þorleifur var eigi örendur. Hann bar hann inn. Konur spurðu hversu farist hefði. Hann sagði sem var.

Þeir Helgi létu út hinn sama dag og týndust allir fyrir Skriðinsenni.

Þorleifur var græddur og bjó að Fagrabrekku og þótti góður bóndi en Hallsteinn fór utan og kom á fund Ólafs Tryggvasonar. Konungur boðaði honum trú og var það auðsótt. Gerðist Hallsteinn þá konungsmaður og var með honum síðan og var hinn fræknasti drengur og öruggur í framgöngu og vel virður af Ólafi konungi og svo er sagt að hann hafi fallið á Orminum langa og sýnt þar áður hreystilega vörn og aflað sér svo góðan orðstír.

Og lýkur hér frá honum að segja.

Текст с сайта Netútgáfan