Íslendings þáttur sögufróða

Svo barst að eitthvert sumar að einn íslenskur maður, ungur og frálegur, kom til konungs og bað hann ásjá.

Konungur spurði ef hann kynni nokkverja fræði en hann lést kunna sögur. Þá sagði konungur að hann mun taka við honum en hann skal þess skyldur að skemmta ávallt er vildi, hvergi sem hann bæði.

Og svo gerir hann og er hann vinsæll við hirðina og gefa þeir honum klæði og konungur gefur honum vopn í hönd sér. Og líður nú svo fram til jóla.

Þá ógleður Íslending og spyr konungur hví það gegndi. Hann kvað mislyndi sína til koma.

«Ekki mun það vera,» segir konungur, «og mun eg geta til. Þess get eg til,» segir hann, «að nú muni uppi sögur þínar. Þú hefir ávallt skemmt í vetur hverjum sem beiðst hefir. Mun þér nú illt þykja að þrjóti að jólunum.»

«Jafnt er svo sem þú getur,» segir hann, «ein er sagan eftir og þori eg þá eigi hér að segja því að það er útferðarsaga þín.»

Konungur mælti: «Sú er og svo sagan að mér er mest um að heyra og skaltu nú ekki skemmta til jólanna fram er menn eru nú í starfi. En jóladag skaltu til taka þessar sögu og segja af nokkvern spöl og eg mun svo til stilla með þér að jafndrjúg mun verða sagan og jólin. Nú eru drykkjur miklar of jólin og má skömmum við sitja að hlýða skemmtan og ekki muntu á finna meðan þú segir hvort mér þykir vel eða illa.»

Nú er það og að Íslendingur segir söguna, hefur upp jóladag og segir of hríð og biður konungur brátt hætta.

Taka menn að drekka og ræða margir um að þó sé djörfung í þessu er hann Íslendingur segir þessa sögu eða hversu konungi muni virðast. Sumum þykir hann vel segja en sumir vinnast minna að. Fer svo fram of jólin.

Konungur var vandur að að hlýtt væri vel og stenst það á með umstilli konungs er lokið er sögunni og jólin þrýtur.

Og hið þrettánda kveld er lokið var sögunni áður of daginn mælti konungur: «Er þér eigi forvitni á Íslendingur,» segir hann, «hversu mér líkar sagan?»

«Hræddur em eg um herra,» segir hann.

Konungur mælti: «Mér þykir allvel og hvergi verr en efni eru til eða hver kenndi þér söguna?»

Hann svarar: «Það var vandi minn út á landinu að eg fór hvert sumar til þings og nam eg hvert sumar af sögunni nakkvað að Halldóri Snorrasyni.»

«Þá er eigi kynlegt,» segir konungur, «að þú kunnir vel og mun þér að gæfu verða og ver með mér velkominn og skal það heimilt ávallt er þú vilt.

Konungur fékk honum góðan kaupeyri og varð hann þroskamaður.

Текст с сайта Netútgáfan