Óttars þáttur svarta (eftir Flateyjarbók)

Óttar hét maður íslenskur. Hann var skáld gott. Hann var nokkura stund í hirð með Ólafi Svíakonungi. Hann orti mansöngsdrápu um Ástríði dóttur Ólafs Svíakonungs. Það kvæði mislíkaði mjög Ólafi konungi hinum helga. Það kvæði var mjög ort og hélt við væningar. En er Óttar kom til Noregs þá lét Ólafur konungur hinn helgi taka hann og setja í myrkvastofu og ætlaði að láta drepa hann.

Sighvatur skáld var mikill vin Óttars. Hann fór um nátt til myrkvastofunnar. Og er hann kom þar þá spyr hann hversu honum líkaði. Óttar svarar og segir að verið hafi honum kátara. Sighvatur bað hann þá kveða kvæðið það er hann hafði ort um Ástríði. Óttar kvað kvæðið sem Sighvatur beiddi.

Og er hann hafði lokið kvæðinu þá mælti Sighvatur: «Mjög er kvæðið ort og eigi er undarlegt þótt konunginum mislíki kvæðið. Nú skulum við snúa þeim vísum sem mest eru á kveðin orð í kvæðinu. Síðan skaltu yrkja kvæði annað um konunginn en að vísu mun hann heimta að þér kvæðið áður þú sért drepinn. Nú er þú hefir það kvæðið kveðið þá skaltu eigi láta falla kveðandina heldur skaltu þegar hefja kvæðið það er þú hefir um konunginn ort og kveða meðan þú mátt.»

Óttar gerði svo sem Sighvatur mælti. Hann orti á þrem nóttum, þeim er hann var í myrkvastofunni, drápu um Ólaf konung. Og er Óttar hafði þrjár nætur verið í myrkvastofunni þá lét Ólafur konungur leiða hann á sinn fund.

Og er Óttar kom fyrir konunginn þá kvaddi hann Ólaf konung en konungurinn tók eigi kveðju hans heldur mælti hann til Óttars: «Það er nú ráð,» segir konungur, «að þú kveðir Óttar kvæði það er þú hefir ort um drottningina áður þú sért drepinn því að drottningin skal heyra hróður þann er þú hefir ort um hana.»

Ástríður drottning sat í hásætinu hjá konunginum þá er þeir Óttar töluðust við. Óttar settist niður á gólfið fyrir fætur konunginum og kvað kvæðið. Konungurinn roðnaði við er hann kvað. Og er lokið var kvæðinu þá lét Óttar eigi niður falla kveðandina heldur hóf hann upp drápuna, þá er hann hafði ort um konunginn, en hirðmenn konungs kölluðu og mæltu að flímberinn skyldi þegja.

Sighvatur mælti þá: «Það er líkast,» sagði hann, «að konungurinn eigi vald á að drepa Óttar þegar hann vill þó hann kveði kvæði þetta fyrst og hlýðum vér vel kvæðinu því að oss er gott að heyra lof konungs vors.»

Hirðin þagnaði við þessi orð Sighvats en Óttar kvað drápuna til enda. En er því var lokið þá lofaði Sighvatur mjög kvæðið og kallaði vel ort.

Ólafur konungur mælti þá: «Það mun ráð Óttar að þú þiggir höfuð þitt í þessu sinni fyrir drápuna.»

Óttar svarar: «Þessi gjöf þykir mér allgóð herra þótt höfuðið sé eigi fagurt.»

Ólafur konungur dró gullhring af hendi sér og gaf Óttari.

Ástríður drottning renndi fingurgulli á gólfið til Óttars og mælti: «Taktu skáld gneista þann og eig.»

Ólafur konungur mælti: «Var svo, að þú máttir eigi alls bindast að sýna þitt vinfengi við Óttar.»

Drottning svarar: «Eigi megið þér kunna mig um það herra þó eg vilji launa mitt lof sem þér yðvart.»

Konungurinn svarar: «Svo skal nú og vera í þessu sinni að eg skal þér eigi sakir fyrir gefa þessa fjárgjöf en þó megið þið svo til ætla að mér mun lítil gæft vera um vinfengi ykkað héðan í frá af þeim skáldskap er Óttar hefir ort um þig.»

Nú var Óttar lengi með konungi í góðri virðingu. Sjá drápa er kölluð Höfuðlausn er Óttar orti um Ólaf konung fyrir því að Óttar þá höfuð sitt frá bana að kvæðislaunum.

Текст с сайта Netútgáfan