Þorsteins þáttur Austfirðings

1. kafli

Þorsteinn hét maður, austfirskur að ætt, ungur að aldri og frálegur. Hann fór utan og ætlaði til Noregs og svo til Róms. Hann fór til Danmerkur. En þá var það til tíðinda þar að Magnús konungur hinn góði var þar og átti stórar orustur jafnan.

Einn dag bar svo til að Þorsteinn fór veg sinn að hann sá mann standa undir eik einni en fjórir sóttu að honum og varðist maðurinn ágæta vel. Og það sýndist Þorsteini sem hann mundi hafa ævar gott hjarta.

Þorsteinn mæltist við einn saman á þenna hátt: «Mun eigi drengilegra að veita heldur lið þeim er einn saman er sér heldur en hinum fjórum er í mót eru?»

Gengur að síðan og bregður sverði, höggur nú bæði stórt og tíðum og drepur þrjá menn á lítilli stundu en hinn er fyrir stóð áður drap einn. Þessi maður var unglegur og var í silkihjúp undir brynjunni, fríður maður og þó mjög vígmóður.

Þá mælti Þorsteinn: «Hvað heitir maður þessi er eg hefi nú lið veitt?»

Hann svarar: «Styrbjörn heiti eg, maður Magnúss konungs, og var eg nú kominn heldur óvænlega áður en þú dugðir mér en liðsmenn mínir hafa dreifst í skóginn en þú hefir komið mér að miklu gagni svo að það er vandlaunað. Eða hvað er ráðs þíns?»

Þorsteinn segir: «Eg em einn íslenskur maður og ætla eg suður að ganga.»

Styrbjörn mælti: «Muntu eigi hafa saltað suðurferðina?»

Þorsteinn mælti: «Vera má það en ef eg skyldi það gera þá mundi eg helst vilja gera það fyrir sakir Magnúss konungs eða hans manna.»

Styrbjörn mælti: «Er þér vel til hans?»

«Stórigu vel,» kvað Þorsteinn, «því að hann er ágætur höfðingi og frægur um allt land.»

Styrbjörn mælti: «Eg held ráðlegt að þú haldir fram ferðinni því að hér var nauðsyn til. En vitja mín þá er þú kemur aftur því að eg em jafnan með hirð Magnúss konungs.»

Og síðan skilja þeir og fór Þorsteinn til Róms og kom aftur um vorið.

2. kafli

Hann kom þar sem Magnús konungur var að veislu og gekk að hirðstofunni og beiddist inngöngu. Dyraverðir svöruðu og kváðu það engan sið að ókunnir menn gengju þá inn er konungur sæti yfir borðum.

Þorsteinn mælti: «Biðjið þann mann út að ganga er Styrbjörn heitir.»

Síðan hleypur inn annar sá er fyrir dyrunum var kallandi með hlátri og mælti: «Út skyldi Styrbjörn ganga,» segir hann.

Síðan þustu upp allir senn og mæla: «Gakktu nú út Styrbjörn er Íslendingurinn kallar á þig. Hann fer eigi villt að hirðmanna nöfnum en eigi vitum vér þann mann hér inni er svo heiti.»

Síðan slógu þeir spott og mikinn dáruskap hver í sínu rúmi og mæltu að út skyldi Styrbjörn ganga.

Konungur tók til orða og mælti: «Lítið gaman er þetta og mega manna nöfn margra saman bera og skuluð þér eigi spotta nafn þetta lengur.»

Og svo varð að vera sem konungur vildi. Síðan stóð konungur upp úr sæti sínu.

Hann gengur út og var í skikkju dýrlegri og mælti: «Vertu velkominn Íslendingur og tak yfir þig skikkju þessa og gakk inn. Skal þér búa laug og ver velkominn með hirðinni og enginn skal svo djarfur að þér geri nokkuð mein.»

Allir tóku þetta að undrast. Síðan var hann með hirðinni. Hann var einlyndur maður og fálátur.

3. kafli

Konungur mælti við hann eitt sinn: «Hver vor hyggur þú nú að Styrbjörn sé?»

Hann svaraði: «Yður sé eg vænstan til herra að hafa svo kallast.»

Konungur mælti: «Rétt muntu þetta kalla að þú sért lífgjafi minn. Og skyldi þér það vel launa.»

Hóf konungur þá upp alla sanna sögu og sagði allt frá upphafi er þeir fundust í Danmörk.

Síðan fóru þeir norður í land. Og eitt sinn er þeir lágu við land í höfn einni en sumir voru á landi og matbjuggu og gerðu graut og er fyrir Þorstein kom bollinn þá hóf hann allt úr bollanum.

Konungsmenn hlógu enn að þessu og mæltu: «Vel kanntu landi að neyta grautarins.»

Konungur brosti að og kvað þetta:

Falla lét fleinþollr,
frá gerði menn sjá,
í örva atferð
einn senn þrjá menn.
En graut greipnjótr
gjörvan í norðrför
át hann við þá þrjá.
Þá gerði hann frá.

«Sá hinn sami maður veitti mér mikið lið þá er þér voruð hvergi í nánd og gerði það við þann er hann vissi eigi hver að var og mun hann vera góður drengur. Og er það vitugra að gera eigi mikið spott að ókunnum manni því að leitun mun í vera að röskvari maður fáist og betur hugaður. Og svo mun og sumum sýnast að það væri happ er honum bar til handa.»

Þorsteinn svarar: «Auðséð var það herra að guð sendi mig yður til hlífðar því að miklu meira fannst mér um yðar ásjónu en þú værir alþýðumaður og brá mér þessu í skap að duga þér.»

Konungur var vel við hann.

Og eitt sinn mælti konungur við hann: «Hversu er þá við þig búið, er þér þykir best og þér má helst líka eða viltu hér staðfestast og kvongast?»

Þorsteinn svarar: «Það er boðið ágætlega en á meðan þér lifið mun minn frami hér mestur verða. En engum er langlífi heitið og mun eg fá þá nokkura öfundarmenn ef eg missi yðvarrar umsjá. En eg veit að þér munuð svo fyrir sjá að eg njóti sem lengst yðvarra velgerninga.»

Konungur mælti: «Viturlega er þetta mælt.»

Síðan bjó konungur hann til Íslands ágæta vel með miklu fé og staðfestist hann þar síðan og þótti vera hinn mesti gæfumaður.

Og lýkur þar svo frá honum að segja.

Текст с сайта Netútgáfan