Þorsteins þáttur sögufróða

Í Austfjörðum óx upp sá maður er Þorsteinn hét. Hann fór til Noregs á fund Haralds konungs. Hann var kurteis maður og kunni margt vel. Hann bað konung ásjá.

Konungur mælti: «Kanntu nokkuru að skemmta?»

Hann kvaðst kunna nokkurar sögur.

Konungur mælti: «Þá mun eg við þér taka en þú skalt skemmta hver sem þig biður.»

Og það gerði hann og varð þokkasæll af hirðmönnum og gáfu þeir honum klæði sín.

Konungur mælti eitt sinn til Þorsteins: «Svo líst mér sem mjög vel fari með yður hirðmönnum mínum og þér að þeir gefa þér klæði en þú skemmtir þeim. Það mun ráð að eg gefi þér vopn nokkuð.»

Svo gerði hann að hann gaf honum gott sverð.

Nú leið svo fram til jóla. Þá ógladdist Þorsteinn. Konungur fann það skjótt og spurði hví það sætti. Þorsteinn kvað mislyndi sína valda því.

Konungur sagði að það var ekki «og mun eg geta til. Þess get eg til að nú muni uppi sögur þínar er þú hefir jafnan uppi látið hver sem beðið hefir og mun þér illt þykja að þig þrjóti að jólunum.»

Hann kvað svo rétt vera: «Nú er ein saga eftir og þori eg eigi að segja því að það er útfararsaga yður herra.»

Konungur mælti: «Sú er sú saga er mér er forvitni á að heyra. Nú skaltu ekki skemmta til jólanna er menn eru allir í nokkuru starfi. En jóladag hinn fyrsta skaltu til taka að segja en eg mun svo til stilla að jafndrjúg verði sagan og jólin. Eru nú miklar drykkjur og þarftu skamma stund að segja. En ekki muntu vita meðan þú segir hvort mér þykir vel eða illa en vís von eftir jólin að fár sögur muntu segja ef mér þykir þessi illa sögð og ósannlega. En ef mér líkar vel þá mun þér gæfa að verða.»

Nú kemur jóladagurinn og heimtir konungur söguna og gekk hún um hríð.

«Lát nú vera,» sagði konungur.

Tóku menn þá til drykkju og töluðu margir um að djörfung væri í og ætluðu menn um hversu konungi mundi virðast. Svo fór fram um jólin. Konungur var mjög vandur að hljóði en fann þó ekki að. Og er kom hinn þrettándi dagur jóla að aftni lauk Þorsteinn sögunni.

Þá mælti konungur: «Er þér ekki forvitni á hversu mér líkar sagan?»

Hann kvaðst hræddur um.

Konungur mælti: «Vorkunn er það en allvel líkar mér. Er hún ekki verr sögð en efni eru til eða hvar namstu hana?»

Hann svarar: «Það var vandi minn herra að eg fór hvert sumar til alþingis á voru landi og nam eg svo söguna er Halldór Snorrason sagði.»

Konungur mælti: «Þá er eigi kynlegt þó að þú kunnir hana vel og mun þér verða að þessu gæfa og ver með mér vel kominn og er þér það heimilt þá er þú vilt.»

Konungur gaf honum góðan kaupeyri og þótti hann skýr maður og fór jafnan landa í milli og var löngum með konungi.

Lyktar þar þetta ævintýr.

Текст с сайта Netútgáfan