Hildur álfadrottning

Einu sinni bjó bóndi á bæ nokkrum til fjalla, og er þess hvorki getið, hvað hann hét né bærinn. Bóndi var ókvongaður, en bjó með bústýru, er Hildur hét, og vissu menn ógjörla um ætt hennar. Hún hafði öll ráð innanstokks á heimilinu, og fóru henni flestir hlutir vel úr hendi. Hún var geðþekk öllum heimamönnum og þar með bónda; en þó bar ekki á, að hugir þeirra færu saman um of, enda var hún stillt kona og heldur fálát, en þó viðmótsgóð.

Heimilishagur bónda stóð með blóma miklum, nema að því einu, að hann átti illt með að fá smalamenn; en hann var sauðabóndi góður og þótti sem fóturinn færi undan búi sínu, ef sauðamann brysti. Kom þetta hvorki af því, að bóndi væri harður við smala sinn, né heldur af því, að bústýran léti þá vanta það, er hún átti til að leggja. Hitt var heldur, sem á milli bar, að þeir urðu þar ekki gamlir og fundust jafnan dauðir í rúmi sínu á jóladagsmorguninn.

Á þeim tímum var það lenska hér á landi, að messað var á jólanóttina, og þótti ekki minna hátíðabrigði að því að fara þá til kirkju en á sjálfan jóladaginn. En af fjallbæjum, þaðan sem langt var til kirkju, var það ekkert heimatak að fara til tíða og vera kominn þar í tækan tíma fyrir þá, sem svo stóð á fyrir, að ekki gátu orðið fyrr tilbúnir að heiman en stjarnan var komin jöfnu báðu hádegis og dagmála, eins og gjarnast var, að sauðamenn kæmu ekki fyrr heim hjá bónda þessum.

Ekki þurftu þeir að vísu að gæta bæjarins, sem ávallt var venja, að einhver gerði aðfanganætur jóla og nýárs, meðan annað bæjarfólk væri við tíðir, því frá því Hildur kom til bónda, hafði hún ávallt orðið til þess sjálfboðin, um leið og hún annaðist það, sem gera þurfti fyrir hátíðirnar, matseld og annað, sem þar að lýtur, og vakti hún yfir því allajafna langt á nótt fram, svo að kirkjufólkið var oft komið aftur frá tíðum, háttað og sofnað, áður en hún fór í rúmið.

Þegar svo hafði gengið langa hríð, að sauðamenn bónda höfðu allir orðið bráðkvaddir á jólanóttina, fór þetta að verða héraðsfleygt, og gekk bónda af því alltreglega að ráða menn til starfa þessa og því verr sem fleiri dóu. Lá þó alls enginn grunur á honum né öðrum heimamönnum hans, að þeir væri valdir að dauða sauðamanna, sem allir höfðu dáið áverkalaust. Loksins kvaðst bóndi ekki geta lagt það lengur á samvisku sína að ráða til sín smala út í opinn dauðann og hljóti nú auðna að ráða, hversu fari um fjárhöld sín og fjárhag.

Þegar bóndi hafði staðráðið þetta og hann var orðinn með öllu afhuga að vista nokkurn til sín í því skyni, kemur eitt sinn til hans maður, vaskur og harðlegur, og býður honum þjónustu sína.

Bóndi segir: „Ekki þarfnast ég þjónustu þinnar, svo að ég vilji við þér taka.“

Komumaður mælti: „Hefur þú ráðið sauðamann til bús þíns næsta vetur?“

Bóndi kvað nei við og kvaðst ekki hafa ásett sér að gjöra það oftar, — „og muntu heyrt hafa, fyrir hverjum ósköpum sauðamenn mínir hafa orðið til þessa.“

„Heyrt hef ég það,“ segir komumaður; „en ekki munu forlög þeirra fæla mig frá fjárgeymslu fyrir þig, ef þú vilt við mér taka.“

Bóndi lét það þá eftir honum, með því hinn sótti fast á, að hann réð hann til sín fyrir sauðamann. Eftir þetta líða tímar fram, svo að hvorum hugnar vel við annan, bónda og sauðamanni, og eru allir vel til hans, því að hann var háttprýðismaður, ódeigur og ötull til hvers, sem reyna skyldi.

Nú bar ekki til tíðinda fram að jólum; fer þá sem vant er, að bóndi fer með heimamönnum sínum til kirkju á aðfangadagskvöldið, nema bústýra hans var ein eftir heima og sauðamaður yfir fénu; fer svo bóndi og skilur þau eftir svona sitt í hvoru lagi.

Líður nú fram á kvöldið, til þess að sauðamaður kemur heim eftir venju; borðar hann þá mat sinn og gengur að því búnu til náða og leggst út af. Kemur honum nú í hug, að varlegra mundi sér vera að vaka en sofna, hvað sem í kynni að skerast, en var samt alls óhræddur, og liggur hann því vakandi.

Þegar langt er liðið á nótt, heyrir hann, að kirkjufólkið kemur; tekur það sér bita og fer síðan að sofa. Ekki verður hann enn neins vísari; en það finnur hann, þegar hann ætlar alla sofnaða, að máttinn fer að draga úr sér, sem von var, daglúnum manni. Þykist hann nú illa beygður, ef svefninn skal sigra sig, og neytir því allrar orku til að hressa af sér.

Líður nú eftir það lítil stund, áður hann heyrir, að komið er að rúmi sínu, og þykist hann skynja, að þar er Hildur bústýra á ferð. Læst hann þá sofa sem fastast og finnur, að hún er að hnoða einhverju upp í sig. Skilur hann þá, að þetta muni vera gandreiðarbeisli, og lofar henni að koma því við sig.

Þegar hún er búin að beisla hann, teymir hún hann út sem henni var hægast, fer á bak honum og ríður slíkt sem af tekur, þangað til hún kemur þar að, sem honum virðist vera gryfja nokkur eða jarðfall. Þar fer hún af baki við stein einn og tekur ofan taumana; að því búnu hverfur hún honum sjónum ofan í jarðfallið.

Sauðamanni þótti illt og ófróðlegt að missa svo af Hildi, að hann vissi ekki, hvað af henni yrði. En það fann hann, að ekki mátti hann langt komast með beislinu; svo fylgdi því mikil forneskja. Hann tekur því það til bragðs, að hann nýr höfuð sitt við stein þann, er fyrr er getið, þangað til hann kemur fram af sér beislinu, og lætur það þar eftir verða.

Síðan steypir hann sér ofan í jarðfallið, þar sem Hildur hafði undan farið. Finnst honum, að hann hafi ekki farið lengi eftir jarðfallinu, áður hann sér, hvar Hildur fer; er hún þá komin á fagra velli og slétta, og ber hana nú fljótt yfir.

Af þessu öllu saman þykist hann nú skilja, að ekki sé einleikið með Hildi og að hún muni hafa fleiri brögð undir stakki en á var að sjá í mannheimum eða ofan jarðar.

Það þykist hann og vita, að hún muni þegar sjá sig, ef hann gangi niður á vellina eftir henni. Tekur hann þá hulinhjálmsstein, er hann bar á sér, og heldur honum í vinstri lófa; síðan tekur hann á rás eftir henni, og fór hann sem hann má harðast.

Þegar hann sækir lengra fram á völluna, sér hann höll mikla og skrautlega, og heldur Hildur þangað, sem leið liggur. Þá sér hann og, að múgur manns kemur frá höllinni og fer út í móti henni. Á meðal þeirra er einn maður, er fremstur fer; hann var langtígulegast búinn, og þykir sauðamanni sem hann heilsi konu sinni, er Hildur kemur, og bjóði hana velkomna; en hinir, sem með hinum tigna manni voru, fögnuðu henni sem drottningu sinni. Með tignarmanninum voru og tvö börn nokkuð stálpuð, er fóru með honum í móti Hildi, og fögnuðu þau þar móður sinni fegins hugar.

Þegar lýður þessi hafði heilsað drottningu, fylgdu allir henni og konungi til hallarinnar, og eru henni þar veittar hinar virðulegustu viðtökur, þar með er hún færð í konunglegan skrúða og dregið gull á hönd henni.

Sauðamaður fylgdi múganum til hallarinnar, en var þó ætið þar, er hann var minnst fyrir umgangi, en gat þó séð allt, sem gjörðist í höllinni. Í höllinni sá hann svo mikinn og dýrlegan umbúnað, að aldrei hafði hann slíkan fyrr augum litið; var þar sett borð og matur á borinn, og undrar hann mjög öll sú viðhöfn. Eftir nokkra stund sér hann Hildi koma í höllina, og var hún þá skrýdd skrúða þeim, sem fyrr er nefndur. Er þá skipað mönnum í sæti, og sest Hildur drottning í hásæti hjá konungi, en hirðin öll til beggja hliða, og matast menn nú um hríð.

Síðan voru borð upp tekin, og gengu þá hirðmenn og hirðmeyjar til dansleika, þeir sem það vildu; en aðrir völdu sér aðra skemmtun, er það hugnaði betur, en þau konungur og drottning tóku tal með sér, og virtist sauðamanni samtal þeirra bæði blítt og angurblandið.

Meðan þau ræddust við, konungur og drottning, komu til þeirra þrjú börn yngri en þau, sem áður er getið, og fögnuðu þau einnig móður sinni. Hildur drottning tók því og blíðlega; tók hún yngsta barnið og setti í kné sér og lét að því alúðlega; en það brekaði og var óvært. Setti þá drottning af sér barnið, dró hring einn af hendi sér og fékk því að leika sér að. Barnið þagnaði þá og lék sér um hríð að gullinu; en missti það loksins á gólfið.

Var sauðamaður þar nær staddur; varð hann fljótur til, náði hringnum, er hann féll á gólfið, stakk honum á sig og geymdi vandlega, og varð enginn þessa var; en öllum þótti kynlegt, er hringurinn fannst hvergi, þegar leitað var.

Þegar langt var liðið á nótt fram, fór Hildur drottning að hreyfa sér til ferðar; en allir þeir, sem innan hallar voru, beiddu hana að dvelja lengur og voru mjög hryggir, er þeir sáu ferðasnið á henni.

Sauðamaður hafði veitt því eftirtekt, að á einum stað í höllinni sat kona, öldruð mjög og heldur illileg; hún var sú eina af öllum, sem þar voru inni, er hvorki fagnaði Hildi drottningu, þegar hún kom, né latti hana burtfarar.

Þegar konungur sá ferðasnið á Hildi og hún vildi ekki kyrr vera, hvorki fyrir bænastað hans né annarra, gekk hann til þessarar konu og mælti:

„Tak nú aftur ummæli þín, móðir mín, og virð til bænir mínar, að drottning mín þurfi ekki lengur að vera fjarvistum og mér verði svo lítil og skammvinn unaðsbót að henni sem verið hefur um hríð.“

Hin aldraða kona svaraði honum heldur reiðuglega: „Öll mín ummæli skulu standa, og enginn er þess kostur, að ég taki þau aftur.“

Konungur hljóðnaði við og gekk harmþrunginn aftur til drottningar, lagði hendur um háls henni og minntist við hana og bað hana enn með blíðum orðum að fara hvergi. Drottning kvaðst ekki annað mega fyrir ummælum móður hans og taldi það líkast, að þau mundu ekki oftar sjást sökum óskapa þeirra, er á sér lægju, og að manndráp þau, er af sér hefðu staðið og svo mörg væru orðin, mundu nú ekki geta leynst og mundi hún því hreppa makleg gjöld verka sinna, þótt hún hefði nauðug orðið að vinna þau.

Meðan hún taldi harmatölur þessar, fór sauðamaður að hafa sig til vegs út úr höllinni, er hann sá, hvernig á stóð, og svo beina leið yfir völluna að jarðfallinu og þar upp sem leið lá. Síðan stakk hann á sig hulinhjálmssteininum, lét á sig beislið og beið svo þess, að Hildur kæmi.

Að lítilli stundu liðinni kemur Hildur drottning þar, ein og döpur í bragði; sest hún þá enn á bak honum og ríður heim. Þegar hún kemur þar, leggur hún sauðamann í rúm hans kirfilega og tekur þar fram af honum beislið, gengur síðan til rúms síns og leggst að sofa.

Þó sauðamaður væri allan þennan tíma glaðvakandi, lét hann sem hann svæfi, svo að Hildur yrði einskis vör annars. En er hún var gengin til rekkju, hefur hann engan andvara á sér framar; sofnar hann þá fast og sefur fram á dag, sem von var.

Morguninn eftir fer bóndi fyrstur á fætur af öllum á bænum, því að honum var annt að vitja um sauðamann sinn, en bjóst við þeim ófögnuði í staðinn fyrir jólagleði að finna hann dauðan í rúmi sínu, eins og orðið hafði að undanförnu.

Um leið og bóndi klæðist, vaknar hitt heimilisfólkið og klæðist; en bóndi gengur að rúmi sauðamanns og hefur höndur á honum. Finnur hann þá, að smalamaður er lífs; verður bóndi af því alls hugar feginn og lofaði guð hástöfum fyrir þessa líkn.

Síðan vaknar sauðamaður heill og hress og klæðist. Meðan á því stendur, spyr bóndi hann, hvort nokkur tíðindi hafi borið fyrir hann um nóttina.

Sauðamaður kvað nei við; — „en mikið undarlegan draum dreymdi mig.“

„Hvernig var draumur sá?“ segir bóndi.

Sauðamaður byrjar þar á sögunni, sem fyrr er sögð, er Hildur kom að rúmi hans og leggur við hann beislið, og greinir síðan hvert orð og atvik, er hann man framast.

Þegar hann hefur lokið sögunni, setur alla hljóða nema Hildi; hún segir:

„Þú ert ósannindamaður að öllu því, sem nú hefur þú sagt, nema þú getir sannað með skýrum jarteiknum, að svo hafi verið sem þú segir.“

Sauðamaður varð ekki endurrjóða við það og þrífur til hringsins, er hann hafði náð um nóttina á hallargólfinu í álfheimum, og segir: „Þó ég ætli mér óskylt að sanna draumsögu með jarteiknum, þá vill þó svo vel til, að ég hef hér eigi óljósan vott þess, að ég hafi með álfum verið í nótt, eða er þetta ekki fingurgull yðar, Hildur drottning?“

Hildur mælti: „Svo er víst, og hafðu allra manna heppnastur og sælastur leyst mig úr ánauð þeirri, er tengdamóðir mín hefur á mig lagt, og hef ég orðið nauðug að vinna öll þau ódæmi, er hún á mig lagði.“ Hefur þá Hildur drottning sögu sína svolátandi:

„Ég var álfamey af ótignum ættum; en sá, sem nú er konungur yfir álfheimum, varð ástfanginn í mér. Og þótt móður hans væri það allnauðugt, gekk hann að eiga mig. Varð tengdamóðir mín þá svo æf, að hún hést við son sinn, að hann skyldi skamma unaðsbót af mér hljóta, en þó skyldum við sjást mega endrum og sinnum. En á mig lagði hún það, að ég skyldi verða ambátt í mannheimum, og fylgdu þar með þau ósköp, að ég skyldi verða mannsbani hverja jólanótt á þann hátt, að ég skyldi leggja beisli mitt við þá sofandi og ríða þeim sömu leið, er ég reið sauðamanni þessum í nótt, til að hitta konunginn, og skyldi þessu svo fram fara, þangað til óhæfa þessi sannaðist á mig og ég yrði drepin, nema ég hitti áður svo vaskan mann og hugaðan, að hann bæri traust til að fylgja mér í álfheima og gæti eftir á sannað, að hann hefði þangað komið og séð þar athæfi manna.

Nú er það bert, að allir hinir fyrri sauðamenn bónda, síðan ég kom hér, hafa bana beðið fyrir mínar sakir, og vænti ég, að mér verði þó ekki gefin sök á því, sem mér varð ósjálfrátt, því enginn hefur fyrr til þess orðið að kanna hina neðri leið og forvitnast um híbýli álfa en þessi fullhugi, sem nú hefur leyst mig úr ánauð minni og álögum, og skal ég að vísu launa honum það, þó síðar verði.

Nú skal hér og eigi lengri viðdvöl eiga, og hafið þér góða þökk, er mér hafið vel reynst; en mig fýsir nú til heimkynna minna.“ Að svo mæltu hvarf Hildur drottning, og hefur hún aldrei síðan sést í mannheimum.

En það er frá sauðamanni að segja, að hann kvongaðist og reisti bú næsta vor eftir. Var það hvort tveggja, að bóndi gerði vel við hann, er hann fór, enda setti hann ekki saman af engu. Hann varð hinn nýtasti bóndi í héraðinu, og sóttu menn hann jafnan að ráðum og liðsemd; en ástsæld hans og lán var svo mikið, að mönnum þótti líkindum meiri og sem tvö höfuð væri á hverri skepnu, og kvaðst hann allan sinn uppgang eiga að þakka Hildi álfadrottningu.

Þessa sögu segja ekki allir á einn veg, og má þar til nefna missagnir manna af því, hvaða leið huldukonan fór til álfheima.

Í sögunni af Snotru segir svo, að hún gekk fram á sjávarklappir og rakti þar í sundur ljósleita blæju, en fleygði annarri í vinnumann. Kastaði hún sér svo í sjóinn. Liðu þau svo líkt og í reyk eða móðu nokkurn tíma, uns þau komu að landi mjög fögru.

Í sögunni af Unu álfkonu segir, að hún tók úr kistu feld rauðan og hleypur síðan niður völlinn, þangað til hún kom að dýi nokkuru; þar slær hún út feldinum og stígur á hann. Vinnumaðurinn komst með naumindum upp á eitt hornið á feldinum. Liðu þau nú niður í jörðina, og var það líkast reyk, er þau fóru um. Ekki sá Una manninn, og svo komust þau á völlu nokkura græna.

Loks segir svo í sögunni af Úlfhildi álfkonu:

Þegar allir eru háttaðir á jólanóttina, en vinnumaður vakandi, þá fer Úlfhildur á fætur hægt, svo enginn heyrir, og laumast út úr bænum, en vinnumaður fer á eftir. Hún gengur að vatninu, og þegar hún kemur þar, tekur hún upp glófa og gnýr þá; verður þegar brú yfir vatnið; gengur hún brúna og vinnumaður á eftir. Þegar hún er komin yfir vatnið, gnýr hún glófana aftur, svo að brúin hverfur. Úlfhildur heldur áfram ferðinni, og sýnist vinnumanni sem hún nú haldi niður í jörðina, og verður dimmt mjög þar, sem hún fer. Getur þó vinnumaður séð til hennar og heldur alltaf á eftir. Þau halda nú lengi áfram ferðinni, þangað til smátt og smátt fer leiðin að verða bjartari. Loksins koma þau á slétta og fagra völlu; voru þeir svo fagrir og blómlegir, að vinnumaður hafði aldrei séð svo fallegan stað. Beggja megin vegarins var alþakið fögrum blómum, og voru grundirnar ljósbleikar á að líta, þegar sólin skein á fíflana og aldinin. Sauðahjörðin lék sér á flatlendinu, en stundum reif hún í sig blómin með áfergju.