Tilorðning huldufólks

Það var eitt sinn að guð kallaði til Evu aldamóður og sagði henni á ákveðnum degi og tíma að sýna sér öll börn sín á tilteknum stað og láta þau vera kembd og þvegin og svo vel búin sem föng væri á.

Eva gerði sem henni var boðið, en af því börnin voru mörg nennti hún ekki að hafa fyrir að búa þau öll svo vel sem skyldi. Tók hún þá nokkur frá af hvoru kyni er henni þóktu ósélegust og fal þau í helli einum og bjó svo um dyrnar að þau kæmist ekki á braut þaðan, en öll hin lét hún koma fram fyri auglit drottins á tilteknum stað og tíma.

En er guð kom að sjá yfir börn hennar þá spyr hann Evu hvert hún hafi ekki fleiri börn, en hún neitti því.

Þá mælti guð til hennar: „Það sem þú nú hefur viljað hylja og dylja fyri guði þínum, það veri héðan í frá hulið og dulið fyri þér og bónda þínum og öllum niðum ykkar nema þeim einum er ég vil það veita, og engar nytjar né skemmtun skuluð þið af þeim hafa héðan af.“

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)