„Sjaldan brúkar dauður maður hníf“

(Sigurður málari eptir almennri sögn nyrðra.)

Einu sinni voru hjón á bæ fyrir norðan vel við efni. Bóndi var þó talinn meiri áhyggju-maður um auðsafn en konan, og þvi fór hann eitt haust suður, og ætlaði að róa þar allar vertíðir til lesta, því hann hugði sér meiri arðsvon af því, en vera heima. Þegar bóndi var farinn, segir ekki af hvorugu þeirra hjóna þángað til á Þorláksmessu fyrir jól, að konan var búin að sjóða hángikets-fall til jólanna; hafði hún fært það upp í trog og borið inn á búrhyllu trogið með öllu saman. Eptir það gekk hún litla stund úr búrinu annaðhvort inn í baðstofu eða eitthvað annað. En þegar hún kom aptur í búrið, sér hún, að maðurinn sinn er kominn að búrhyllunni, stendur fyrir framan kettrogið, heldur á lánglegg, sem hann hafði tekið úr troginu, og rífur með tönnunum hold frá beini á leggnum. Þau yrtu hvorugt á annað, en konunni þykir þetta undarlegt, og bæði illa og ókrjálega farið að mat sínum, er bóndi stýfir þannig úr hnefa, og segir: „Viltu ekki hníf, maður?“ Hann svaraöi: „Sjaldan brúkar dauður maður hníf, heldur stendur hann á og rífur.“ Hvarf þá maðurinn, svo konan hafði ekki meira af honum. En þegar hún frétti fyrst að sunnan eptir þetta, heyrði hún lát manns síns, og að hann hefði drukknað litlu fyrir jólin.

Aðrir segja svo frá, að maður þessi hafi verið maurapúki, og grafið niður alla þá penínga, sem hann eignaðist. Einu sinni tók hann þúnga sótt, og bjóst við hví, að hann mundi ekki komast á fætur aptur. Hann ráðstafaði þá ýmsu við konu sína, meðan hann lá, bæði um útför sína og annað; þar með mundi hann eptir því, aö þau áttu væn skammrif af sauð uppi í eldhúsi; þau bað hann konu sína að sjóða sama daginn, sem útför sín yrði, færa þau upp og setja þau í trogi út á bæarkamp. Nú líður til þess, að bóndi deyr, og er gjörð útför hans, eins og hann hafði fyrir mælt; konan let sjóða skammrifin, og setja þau þar, sem hann hafði til tekið, volg í troginu þetta kvöld. Litlu síðar kemur hún út og sér, hvar bóndi sinn stendur við trogið og stýfir ketið úr hnefa. Þá býður hún honum hnífinn; en hann svarar því sama, sem áður segir, og hvarf síðan.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, safnað hefir Jón Árnason. Leipzig, að forlagi J. C. Hinrichs’s bókaverzlunar, 1862.

OCR: Tim Stridmann