Draugur svikinn

Eitt sinn vóru tveir bræður á Austurlandi sem hétu Jón og Sigurður. Þeir heitstrengdu að hvorugur skyldi giftast, hinum óvitandi, en svo bar til að prestsefni að austan þurfti að ríða til vígslu norður að Hólum. Fékk hann Sigurð til fylgdar sér og ferðast síðan norður.

En meðan prestur dvaldi þar komst Sigurður í kunningsskap við stúlku þar nyrðra og þar kom að þau trúlofuðust. Neyddi hún hann til að fara ei austur aftur, en hann sagði henni frá hvað þeir bræður höfðu við mælst og gaf henni í skyn að bróðir sinn Jón væri margvitur; hún kvað það ei saka. Síðan giftast þau og fóru að búa.

Það þóttist Sigurður vita að bráðum ætti hann von á sendingu frá bróður sínum. Það var og einn dag að hann sótti svo mikill svefn og ógleði að hann lagðist upp í rúm, en konan settist á rúmstokkinn. Leið svo dagur að kvöldi.

Er þá barið eitt högg á dyr og sendir konan mann til dyra, en sá varð engis var. Segir hún þá öllum að leggjast litla stund til svefns, en hún kveikti ljós og kveðst atla að vaka. Og að lítilli stundu heyrir hún að skellt er hurðum.

Þar næst sér hún að draugur ferlegur kemur upp á pallinn og nemur staðar frammi fyrir konunni. Hún mælti þá: „Hvernig er þér háttað? Þú heilsar ei upp á nokkurn mann.“

Hann mælti: „Ég er ekki sendur nema til bónda þíns og vil ég þú standir upp svo ég geti fundið hann.“

„Þér liggur nú ekki á því,“ mælti konan, „þú verður nú að leika dálítið fyrir mig áður.“

Síðan biður hún drauginn að bregða sér í allra kvikinda líki og það gjörir hann; hrósar hún honum fyrir þetta og spyr hann hvað lítill hann geti nú orðið.

„Sem mýfluga,“ mælti draugurinn.

Hún tekur þá upp úr vasa sínum ofurlítið glas og biður hann að fara ofan í það í flugulíki. Draugsi var lengi tregur til þess og kvað hana mundi svíkja sig, en hún lofar að gjöra það ekki. Og með fagurmælum sínum telur hún svo um fyrir honum að hann bregður sér í flugulíki og skríður ofan í glasið er stóð í keltu hennar, en jafnsnart rekur hún tappa í það og bindur kapalskæni ofan yfir, stingur því síðan í vasa sinn.

Eftir þetta vekur hún manninn og sýnir honum fluguna í glasinu og kvað aumt fyrir hann að hræðast slíkan yrmling. Eftir það geymir hún glasið í þrjú ár og sendir síðan drauginn aftur Jóni, og drap draugsi hann samstundis.

En upp frá þessu þorði draugurinn aldrei að heimsækja konu Sigurðar aftur því hann óttaðist litla glasið hennar og kapalskænið ofan yfir því.