Grafarpúkarnir

Maður einn hét Jóhann; hann bjó einn sér í góðu húsi og hélt bústýru eða matselju, en ei er getið að hann hefði fleira fólk; hann var einrænn og fáskiptinn og vandaður til orða og athafna og átti auð fjár, en átti fátt við aðra menn að skipta. Þar nálægt buggu fátæk ómegðarhjón og var maðurinn orðinn so skyldugur að engi þorði að lána honum. Fer hann eitt sinn að vandræðast um við konu sína hvernig hann eigi nú að draga fram líf þeirra. Hún segist halda hann verði að reyna að fara til Jóhanns (einsetumanns) nágranna síns og biðja hann að lána sér, hann hafi hann aldrei fyr neins beðið, en fáir synji um fyrstu bón, segi máltækið. Bóndi kveðst muni verða að reyna þetta þó hann hafi veika von um að það verði sér að liði. Fer hann so af stað og hittir Jóhann og getur þó varla stunið upp bæn sinni og segir honum að kona sín hafi ráðið sér að leita liðs hjá honum. Jóhann segir að illt sé að láta henni von sína góða að engu verða og segist skuli lána honum 30 ríkisdali leigulaust eitt ár. Veslings bóndinn verður þessu mjög feginn og þakkar honum alúðlegast, kemur nú heim til konu sinnar og lætur vel yfir sinni ferð og segir allt sem farið hafði. Þessa peninga þurftu þau hjón að mestu að láta til að borga gamlar skuldir sem þau voru hart krafin um og sumt til að kaupa sér nauðsynlegan fatnað, og leið nú so árið að ekki fekkst til að borga skuld þessa og þegar kom eindagi gjaldsins þá voru þau jafnnauðstödd sem áður, og fara þau nú að víla og vola um hve að skuli fara. Konan ræður honum sem fyr að heita á hurðir Jóhanns auðga og lætur bóndi loks til leiðast með það, en er hann finnur hann er bóndi so aumur og fyrirvirðuligur að hann fær lengi engu orði upp komið unz Jóhann vekur máls að fyrra bragði til hvers hann muni kominn. Bóndi játar sig þá með allri eymd og auðmýkt og segir kona sín hafi enn treyst honum til að líkna þeim. Fer þá enn so að Jóhann hjálpar honum um 60 ríkisdali og segir um leið hann fær honum þá, að hann ei skuli forðast að sjá sig þó hann beri að sama brunni sem fyr með eymd og örbirgð sína. Bóndi þakkar honum betur en frá megi segja og fer so heim og þarf nú ekki að orðlengja um feginleik þeirra hjóna, og líður nú eitt og hálft ár unz þau eru enn komin á hjarn og fer bóndi enn að finna Jóhann auðga. Tekur hann bónda vel og fær honum nú 100 ríkisdali og segir um leið: „Ef ég lifi þegar þessu er eytt þá máttu enn finna mig, en deyi ég á þessu ári sem mig uggir þá óska ég í laun fyri allt sem ég hefi hjálpað þér að þú vakir þrjár fyrstu nætur yfir gröf minni, og skaltu vera upp í kirkjulofti og horfa út um glugg einn á bjórþilinu þar sem þú sér vel á gröf mína, en ég mun hafa lagt undir við prest hvar hún verður og so að hann leyfi þér að vera í loftinu, og ef þú reynist mér trúr í þessu þá gef ég þér allt er ég hefi áður lánað þér og að auki einn þriðja aleigu minnar og mun ég hafa það allt undirlagt við prestinn áður ég dey.“

Nú fer so að Jóhann deyr á ári þessu og er jarðaður sem ráð var fyrir gert, Sezt nú bóndi við bjórglugg kirkjunnar og horfir alltjafnt út á leiði Jóhanns og verður einskis var unz kemur að miðnætti, þá sér hann að tveir koma og ganga hver eftir öðrum inn í garðinn að leiði Jóhanns; hefir annar pál, en hinn reku, og taka til í ákafa að pjakka og moka upp leiðið, en vinna ekkert [á]; eru þeir þó að þessu hjakki allt fram undir dag og verða að gefa upp við so búið, og heyrir bóndi að þeir eru að furðast yfir hvað þessu valdi, og so ganga þeir beint sama stig og þeir komu, út aftur og hverfa. Nú kemur önnur nótt og fer bóndi í sama stað; sér hann þá nokkru fyr en hina nóttina að nú koma fjórir og ganga hver að öðrum sama stig sem hinir áður og taka að pjakka og moka, en vinna ei á meir en hinir og halda þeir þessu áfram allt til dags, en vinna þó ekkert á og snauta so braut sneyptir og lúnir og ganga sama götustig sem hinir. Þriðju nóttina sér bóndi enn ena sömu fjóra, og fylgir þeim inn fimmti og er hann langmestur þeirra; stendur hann yfir og skipar fyrir hve þeir skuli höggva og pjakka og kemur allt fyri eitt, og fjasar hann mikið um að ei skilji hverjum brögðum hann sé beittur. Loks bregður hann skyggnum upp í glugginn er bóndi sá út um, og mælti: „Ekki er kyn þó illa gangi, hér horfir á lifandi maður, og hættum og förum leið vora.“ Sneru þeir þá allir á inn sama stig út úr garðinum. En er bóndi sér það hleypur hann ofan úr loftinu og út úr kirkjunni í veg fyrir þá og kemst í veg fyrir einn er fór seinast og ver honum út. Þessi biður hann leyfa sér út til hinna. „Það geri ég aldrei,“ segir bóndi, „nema þú segir mér hver þú ert og hvert erendi þú og hinir áttu hingað.“ „Það verður þá til að vinna,“ kvað hinn, „við erum púkar og var okkur leyft að vitja grafar þessa góða manns til að ná einu horni eða skika af líkhjúp hans því hver sem nær þessu, þó ei sé meira, getur sýnt sig eins og afturgöngu í líki hins dána til að hræða ættingja og ástmenn hans so þeir hyggi að inn dáni hafi farið illa, en því komst ég ei út að oss var hvergi leyft að stíga í kirkjugarðinn nema á þenna þröngva stig, en náist þessi hjúplöf ei enar þrjár fyrstu nætur þá er það ei hægt síðan.“