Jáson draugur

Jáson hét unglingspiltur einn, heldur fáráðlingur með stóru skarði í efri vörinni og öðru minna í neðri vörinni; var samtíðis Snorra Jónssyni meðhjálpara og hreppstjóra á Lónshúsum. Jáson var bróðir Þorbergs bónda á Stafnesi. Þessi Jáson andaðist og var grafinn að Hvalsnesskirkju.

Þá bjó sá maður í Glaumbæ í Stafneshverfinu er Þórarinn hét. Síra Gestur var þá prestur á Hvalsnesi. Hann kom út úr bænum um vökuna og sér hvar tveir menn eru að glíma í kirkjugarðinum.

Prestur gengur þangað og sér hvað um er að vera; er þar Þórarinn og Jáson nærri því búinn að drepa hann. Gestur prestur bjargaði Þórarni og kom Jásyni frá honum.

Þórarinn hafði vakið Jáson upp og sent hann eftir peningum; var hann þá aftur kominn. Sagt er að síra Gestur muni hafa tekið til sín meginið af peningunum.

Þórarinn bjó í Glaumbæ eftir þetta og hét Ingibjörg kona hans. Oft féll hann niður með froðufalli þegar hann var inni, vakandi sem sofandi, en áður en hann fekk köstin sá Ingibjörg altíð skyggja fyri gluggann, en aldrei fekk hann þau er hann var á gangi.

Ingibjörg var ættuð úr Norðurlandi. Ólafur gamli Gestsson í Landeyjum var sonur síra Gests.