Jón á Látrum

Vinnumaður á Látrum vestra, sá hét Jón Jóhannesson, átti ferð að Breiðuvík. Var hann lítið klæddur, en meðan hann dvaldi í víkinni kom á óveður. Biður hann Þorgrím bónda Sigurðsson sem þar bjó þá að ljá sér skinnstakk að vera í.

Hann kvaðst ekki geta léð honum stakk, en segir: „Hérna er úlpan hans Márusar kallsins; það gildir einu hvar hún liggur, hún er betri en ekki neitt,“ — hann skyldi hafa hana utan um sig. Márus þessi var nýdáinn.

Maðurinn þiggur úlpuna og fer í, heldur svo heim til sín að Látrum og varð úlpan gagndrepa. Hann hengir úlpuna upp framarlega í búðinni og fer að sofa.

Þegar hann er sofnaður þykir honum Márus koma og spyr hvar úlpa sín sé. Hann þykist svara að hún hengi þar á nagla.

„Ekki fór ég svona með hana meðan ég átti hana,“ kvað Márus, „þú áttir að hafa hana ofan á þér.“

Daginn eftir var veður þurrt og lét Jón þá úlpuna út til þerris og síðan ofan á sig um kvöldið. Dreymir hann þá Márus um nóttina og þykir hann segja við sig:

„Nú líkar mér hvernig þú ferð með úlpuna mína; svona fór ég með hana.“

Í búð þeirri sem Jón svaf í á Látrum þóktu áður hann kom þangað reimleikar svo að enginn einn hélst við að sofa í henni þegar nótt fór að dimma. Jón lagði ekki trúnað á þetta og var einn í búðinni fram á haust.

Eina nótt dreymir hann að maður kemur inn í búðina mikill vexti og litast um. Þykir honum hann vera nokkuð ófrýnligur; stendur hann í búðinni og horfir inn á rúmið þar Jón svaf, ygglir sig nokkuð og er hann sér að Jóni bregður ekki við það fer hann burt aftur.

Nóttina eftir dreymir Jón sama manninn og er hann þá gustmeiri. Fer hann innar að bita í búðinni og teygir sig upp yfir hann, leggur hendur inn yfir bitann og skælir sig framan í Jón til að ógna honum, gín hann nú þannig inn yfir bitann. Jón þykist horfa á hann, en hugsa með sér að hann skuli ekki óttast hann.

Þegar hann hefur litla stund þannig verið þykir Jóni hann ávarpa sig og mæla: „Þú hræðist mig ekki. Allir sem hér hafa verið hafa hræðst mig nema þú.“

Að svo mæltu dró hann sig burt frá bitanum og út úr búðinni. Jón var kyr í búðinni og dreymdi hann manninn ekki oftar.