Mývatns-Skotta

Einhver nafnkenndastur draugur var Mývatns-Skotta á sinni tíð og eiga Mývetningar margar sögur af atburðum hennar. Frá uppruna hennar er svo sagt að galdramaður nokkur hafði eitt sinn búið á Grímsstöðum við Mývatn sem átt hefði illt að launa manni nokkrum yfir í Köldukinn. Á laugardag fyrir páska eða hvítasunnu kom flökkustúlka nokkur að Grímsstöðum. Bóndi tók vel við henni og fylgdi í eldahús; kona hans var þá að færa í trog hangikjöt upp úr potti sínum. Hann þrífur langlegg úr troginu, fær hann stúlkunni og segir henni að éta. Stúlkuauminginn tekur feginshendi móti kjötinu og etur með góðri lyst. Þegar hún er mett orðin býðst bóndi til að fylgja henni á leið til næsta bæjar og fer hann með henni. En er þau koma að á þeirri sem rennur millum bæjanna tekur hann stúlkuna, kastar henni á ána og heldur í fætur hennar meðan hún er að kafna. Hún hafði sem þá var títt skautskuplu á höfði og snaraðist skuplan á hnakkann meðan hann hélt henni í kafinu. Þegar hann vissi að stúlkan mundi dáin vera dró hann hana upp á bakkann og með fjölkynngi sinni magnaði hana í fullkominn draug og sendi til að drepa þann er hann vildi feigan. Dinglaði skuplan á hnakka hennar og er þaðan nafnið. Skotta fór sendiförina og vann það fyrir hana var lagt; kom aftur til bónda, kvaðst hafa banað manninum og spurði hvað nú skyldi vinna. Hann kvað hún skyldi fara og fylgja ættarskömminni og það gjörði hún og vann margt slys ættingjum þess er hún banaði. Hélt hún til við Mývatn því þar vóru niðjarnir, og var mælt að hún hefði valdið raunum Illuga Helgasonar þess er orti Ambalesrímur, hann hafði voveifliga misst konur sínar og sjálfur var hann á seinustu árum geðveikur og vesæll. Var allt þetta kennt Skottu. Í mansöngum fyrir Ambalesrímum minnist Illugi á böl sitt og er þar ein vísan þessi:

„Er ég svo merkjum ánauðanna undir staddur
og einhvörri á óstund fæddur
að yndi trautt má verða gæddur.“

Víða flakkaði Skotta og var það mælt hún fylgdi Mývetningum á ferðum þeirra og margir þóttust sjá hana, þeir er skyggnir voru, undan þeim koma og mörgum barst hún í drauma.

Eitt sinn var þess getið að kerling nokkur sat uppi um nótt í rúmi sínu, hún fóstraði barn. Barnið nam ekki af hljóðum; þótti kerlingu það venjubrigði og andaðist henni það í brjóst að barnið mundi sjá eitthvað óhreint. Fer hún því að litast um og sér þá brátt yfir í baðstofuendanum á auðu rúmbóli hvar Skotta rær og er að skæla sig framan í barnið; kerling gat séð þetta því tunglslýsi var í baðstofunni. Beið kerling þá ekki boða, leggur barnið í rúmið, en rís á fætur, tekur kollu sína og vill víst fæla drauginn. Þegar Skotta sér einræði kerlingar stekkur hún ofan, en kerling sendir kolluna með öllu sem í var á hæla henni og heyrir að Skotta segir: „Það mátti ekki minna kosta.“1


1 Í Þingeyjarsýslu er sú sögn til um uppruna Skottu að bændur tveir hafi búið á Arnarvatni við Mývatn og væru galdramenn og mikill og illur kur í milli þeirra. Einn vetur bar svo til að stúlka varð úti í hríðarbyl þar vestur á heiðinni fyrir vestan Helluvað. Annan bóndann grunaði hvað stúlkunni leið, fór um nóttina vestur á heiði og vakti hana upp áður en hún var orðin köld. Síðan fór hann með hana heim um morguninn, lét hana fara á undan sér inn í bæinn og sagði henni að drepa sambýlismann sinn. Hún fór inn og bóndi litlu síðar. En þegar hún kom inn settist hinn bóndinn snögglega upp í rekkjunni og skipaði henni að taka þann sem á eftir henni kæmi og það gerði hún. Greip hún þá þann bóndann sem hafði vakið hana upp og fleygði honum sem sopp innan um baðstofuna. En hinn sat kyrr í rekkjunni og hló að. Þó lét hann hana ekki gera út af við sambýlismann sinn, en ætt hans fylgdi hún eftir það.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org