„Amma mín hefur kennt mér nokkuð líka“

Einhverju sinni er það sagt að Skagfirðingar margir saman fóru skreiðarferð vestur undir Jökul og er ekki sagt af ferðum þeirra fyrr en þeir komu vestur og tjölduðu skammt frá bæ einum og slepptu hestum sínum á gras. Þeim hafði verið sagt að bóndi sá mundi geta selt mikið af fiski. En um morguninn þegar bóndi kom á fætur og sá tjaldið fór hann að hitta ferðamenn; gengu þeir svo allir ásamt heim að bænum og vóru þeir að spjalla við hann að selja sér fisk. Lá leið þeirra um þar sem hestar ferðamanna vóru á beit. Var bóndi að gamni sínu að hyggja að hestunum. Einn þeirra hafði þar rauðskjóttan hest afbragðsfallegan svo hann bar langt af öllum hestunum. „Ef þið vilið selja mér hestinn þann arna,“ mælti bóndi, „þá skal ég láta ykkur hafa fisk fyrir hann.“ En eigandinn sagði að þó sér þækti gott að fá keyptan fiskinn, „þá fer ég heldur fisklaus heim aftur,“ mælti hann, „en láta hestinn“. Ól bóndi samt á við hann að selja sér hestinn, en þess var enginn kostur. Sagði þá bóndi: „Þér mun þá verða meira úr honum.“ Hinn kvaðst ekki [um] það hirða.

Síðan keyptu þeir skreið hjá bónda og fóru svo að taka hesta sína; lá þá fallegi hesturinn dauður. En þar sem þeir stóðu hjá hestinum og eigandinn var að tala um að hann mundi mega ná af hestinum skinninu kom að þeim stúlka hér um tíu eða ellefu vetra sem var að reka kýr í haga. „Illa er nú komið fyrir þér,“ mælti hún við eiganda hestsins, „betra hefði þér verið að selja honum föður mínum hestinn þinn eða hvað viltu gefa mér til að lífga hann aftur?“ Hann hélt hún mundi nú ekki geta það, „en þægja vildi ég þér ef þú gætir það,“ mælti hann. Gekk hún þá þrisvar rangsælis í kringum hestinn og tautaði eitthvað fyrir munni sér; spratt þá hesturinn á fætur. Hló hún þá og mælti: „Hann var ekki dauður, amma mín hefur kennt mér nokkuð líka.“ Launaði bóndi henni vel vikið og átti hest sinn lengi síðan.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

По всем вопросам пишите в раздел форума Valhalla: Эпоха викингов