Eiríkur frelsar konur frá óvættum

(Sögn úr Selvogi.)

1. Bóndi nokkur úr Landeyum, sem var kunníngi Eiríks prests, kom eitt vor sunnan úr Njarðvíkum í lok ríðandi, því hann hafði haft hjá sér hestinn um vertíðina. Hann kom að Vogsósum; Eiríkur er úti, fagnar honum vel og mælti: „Ertu vel ríðandi, heillin góð?“ Bóndi kvað það ekki vera, kvað hestinn bæði magran og illa járnaðan. Eiríkur mælti: „Þú þarft þó að flýta þér heim, því kona þín liggur fyrir dauðanum.“ Bóndi mælti: „Hvað er nú til ráða?“ Eiríkur geingur að hestinum, skóðar undir honum, hrækir neðan í hófana, og mælti síðan: „Farðu á bak og ríddu, meðan hesturinn þolir; má vera, að hann sé seigur. Þægar þú kemur í hlaðið, muntu heyra út hljóðin konu þinnar; far þú inn hvatlega, heilsa ekki, en mæl snöggt: Eiríkur á Vogsósum vill finna þig, og vit, hverju þá fer.“ Bóndi þakkar honum ráðin og fer af stað; ber hesturinn hann skjótar yfir, en hann varði, og kom hann heim á þeim sama degi, heyrir þegar hljóð konunnar, og fer að öllu, sem Eiríkur réð honum. Við það brá konunni, svo að hún varð innan stundar heilbrigð. Þetta sama kvöld var barið á dyr á Vogsósum allstórkostlega. Eiríkur fer til dyra, og var litla stund úti og kom svo inn aptur. Var hann þá spurður, hver komið hefði. Hann mælti: „Það var einhver, sem átti erindi við mig.“ Þegar bóndi fór í verið aptur, launaði hann Eiríki vel hjálpina.

2. Nýkvæntur bóndi í Vestmannaeyum, úngur og efnilegur misti konu sína á þann hátt, að einu sinni sem optar fór hún snemma á fætur, en bóndi var í rekkju; hun fór að lífga eldinn að vana, en var nú leingur burtu, en hún var vön, svo að bónda leiddist. Fer hann þá á fætur, og fer að gá að henni og finnur hana ekki í bænum. Þá fer hann út um kotin að spyrja að henni, en enginn hafði orðið var við hana þann morgun. Er hennar nú leitað með mannsöfnuði þann dag og hvern eptir annan og finnst hún ekki. Bónda varð svo mikið um hvarf hennar, að hann lagðist í rekkju, og neytti hvorki svefns né matar. Liðu nú stundir fram, og var hann æ því aumari, sem hann lá leingur, og féll honum það þýngst, að vita ekkert, hvað að konu sinni hefði orðið að bana, því vita þóktist hann, að hún mundi dauð vera, og líkast, að hún væri komin í sjóinn. Héldu menn, að bóndi mundi veslast upp og deya, því hversu sem menn reyndu til að hugga hann, var honum æ þýngra. Loksins kom einn kunníngi hans til hans og mælti: „Ætli þú reyndir ekki til að fara á fætur, ef eg gæti ráðið þér það ráð, er von væri að dygði til, að þú yrðir þess vísari, hvað orðið hefir af konu þinni?“ „Það vildi eg vinna til, ef eg gæti,“ mælti bóndi. Maðurinn svarar: „Hrestu þig nú og far á fætur, og nærðu þig; far síðan á land og út í Selvog, til Eiríks prests á Vogsósum; bið hann, að grenslast eptir, hvað orðið er af konunni.“ Bóndi gladdist nokkuð við þetta, klæðist síðan og matast, og hressist smámsaman, þar til hann treystist að fara í land, og segir ekki af ferðum hans, fyrr en hann kemur að Vogsósum. Er Eiríkur þá úti og fagnar honum vel, og spyr að erindum. Bóndi sagði sem var. Eiríkur mælti: „Ekki veit eg, hvað orðið hefir af konu þinni; en ef þú vilt, þá vertu hér nokkra daga, og sjáum, hvað gjörist.“ Það þekkist bóndi. Líða nú 2 dagar eða 3. Þá lætur Eiríkur leiða heim hesta tvo gráa; annar var dáfallegur, en hinn ljótur og magur. Þann hest lét Eiríkur söðla handa sér, hinn handa bónda og mælti: „Við skulum ríða út á Sand.“ Bóndi mælti: „Farið ekki á bak horgrind þessari; hann ber yður ekki.“ Eiríkur lét, sem hann heyrði það ekki. Ríða þeir nú af stað, en stormur var og regn mikið. Þegar þeir koma út fyrir ós, fer hinn horaði hestur að hvetja sporið, og dró fijótt undan. Bóndi reið eptir, sem hann mátti, en Eiríkur hvarf honum brátt. Þó hélt hann á fram, þar til hann kom út undir Geitahlíð, að steinum þeim, er Sýslu-steinar heita og skilja Árnes- og Gullbríngusýslur. Þar er Eiríkur fyrir og hefir lagt bók allstóra ofan á hinn meiri steininn. Ekki kom dropi á hana og ekki blakti blað í henni, þó bæði væri húðarigníng og ofviðri. Eiríkur gekk andsælis kríngum steininn og mælti eitthvað fyrir munni sér, og segir síðan við bónda: „Taktu eptir, hvert þú sérð konu þína koma.“ Kemur nú fjöldi fólks utan að steininum, og gekk bóndi hríng úr hríng fyrir hvern mann, og fann ekki konuna. Hann segir Eiríki það. Hann mælti þá við folkið: „Farið í friði, hafið þökk fyrir hérkomuna.“ Þeir hverfa burt þegar. Eiríkur fletti nokkrum blööum í bókinni, og fór nú alt sem fyrr. Reynir hann hið þriðja sinn og fer það eins. Þegar flokkur þessi er burt farinn, mælti Eiríkur: „Var hún als ekki í neinum hópnum?“ Bóndi kvað það ekki vera. Þá roðnar Eiríkur og mælti: „Nú vandast ráðið, heillin góð; hefi eg nú stefnt hingað vættum öllum af jörð, úr jörð og úr sjó, sem eg man eptir.“ Nú tekur hann kver úr barmi sínum, lítur í það og mælti: „Eptir eru bjónin í Háuhlíð.“ Hann leggur kverið ofan á bókina, og gekk andsælis kríngum steininn, og tautar sem fyrr. Þá koma þau og bera glersal milli sín; í honum sér bóndi konu sína. Eiríkur mælti við þau: „Illa gjörðuð þið að taka konuna frá manninum; farið aptur og hafið óþökk fyrir starf ykkar, og gjörið slíkt ei optar.“ Þau fara þegar, en Eiríkur brýtur glersalinn, tekur konuna og bækurnar og fer á bak með alt saman. Bóndi mælti: „Látið mig reiða konuna; hesturinn ber ykkur ekki bæði.“ Eiríkur kvaðst mundi sjá fyrir því, fer af stað og hvarf austur í hraunið. Bóndi fer leið sína austur að Vogsósum, og er Eiríkur þar kominn, og um nóttina lætur hann konuna sofa í rúmi sínu, en sjálfur lá hann fyrir framan stokkinn. Að morgni bjóst bóndi til ferðar. Eiríkur mælti: „Það er ekki ráðlegt, að sleppa konunni við þig svona, og vil eg fylgja henni heim.“ Bóndi þakkar honum. Fer prestur á bak hinum magra klár, setur konuna á kné sér og fer af stað. Bóndi fer eptir og vissi ekki fyr til Eiríks en hann kom út í eyar; þá er hann þar kominn með konuna. Háttar bóndi hjá henni um kvöldið, en Eiríkur vakti yfir henni næstu 3 nætur. Síðan mælti hann: „Ekki er víst, að öllum hefði þókt skemtilegt, að vaka þessar nætur, og sízt í nótt;“ enda var konunni óhætt héðan af. Meðan Eiríkur vakti yfir konunni, gaf hann henni drykk á hverjum morgni, og við það fékk hún aptur minnið, sem hún hafði áður alveg mist. Síðan fór Eiríkur heim, og þá áður góðar gjafir af bónda.

3. Önnur sögn er sú, þessari náskyld, að bóndi úr Ölvesi fór með konu sína suður í Innnesjakaupstaði. Á heimleiðinni láu þau um nótt í Fóelluvötnum. Að morgni sókti bóndi hestana, en er hann kom aptur, var konan burt. Hann leitar hennar og finnur ekki, fer síðan heim og er sorgbitinn mjög. Var honum þá ráðið að leita til séra Eiriks, og það gjörði hann. Eiríkur mælti: „Farðu heim aptur, taktu tjaldið, sem þið voruð í og alt, sem í því var af umbúnaði, og tjaldaðu því þar sem það stóð, þegar konan hvarf, og set hverja súlu og hvern hæl í sína holu, svo sem þá var.“ Bóndi fer og gjörir svo, sem fyrir hann var lagt, að svo miklu leyti, sem hann getur hitt á, og er hann er búinn að þessu, kemur Eiríkur og gengur andsælis kríngum tjaldið, fer síðau inn og bað bónda gæta vel að, ef konan kynni að koma. Litlu síðar ser bóndi ógurlegan fjölda koma að tjaldinu, en ekki ser hann konuna, og er aðkomendur voru komnir svo margir, að undrum gegndi, kallar Eiríkur út úr tjaldinu, og spyr, hvert konan sé komin. Bóndi neytar því. Eiríkur kom þá út, og leit yfir hópinn, bað þá fara og hafa þökk fyrir komuna; hverfur þá hópurinn þegar. Eiríkur mælti: „Hér komu allir yættir af landinu, nema hjónin úr Herðubreið.“ Fer hann nú inn aptur og liggur leingi, áður þau koma og leiða konuna milli sín. Þá kemur hann út, tekur konuna frá þeim og mælti: „Farið nú aptur og látið konuna kyrra; það er illur siður, að taka konur frá mönnum, eða annað fólk úr bygðum; látið gamla Eirík aldrei frétta, að þið gjörið það optar, og lofið því nú.“ Þau gjöra það, þó treg væru, og fara síðan burtu, en bóndi fór heim með konuna, og fylgði Eiríkur honum, og fór heim síðan; en konunnar var aldrei síðan vitjað af óvættum.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, safnað hefir Jón Árnason. Leipzig, að forlagi J. C. Hinrichs’s bókaverzlunar, 1862.

OCR: Tim Stridmann

По всем вопросам пишите в раздел форума Valhalla: Эпоха викингов