Púkastokkurinn

Einhverju sinni reið síra Eiríkur til kirkju og hafði með sér dreng einn. Hann vildi reyna hversu úrræðagóður hann væri og sendi hann heim aftur og sagði honum að koma með stokk einn lítinn er væri undir höfðalaginu sínu, en tók honum vara fyrir að ljúka honum upp. Drengurinn fór, fann stokkinn og hafði hann af stað með sér. Hann átti yfir sanda að fara, en þegar hann kom á sandinn langaði hann til að sjá hvað í stokknum væri. Lauk hann honum þá upp, en upp úr honum þutu ótalmargir púkar. Þeir spurðu hann hvað þeir ættu að gjöra. Honum varð nokkuð bilt við, en áttaði sig þó og sagði að þeir skyldu flétta reipi úr sandinum. Þeir fóru nú að flétta, en það vildi ekki ganga greitt því að fremur var stutt í sandinum. En strákur hljóp þangað til hann fann síra Eirík og sagði honum hvar komið var og hvað hann hefði til bragðs tekið. Þegar presturinn heyrði það brosti hann og þótti vel úrráðið.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org