Galdra-Loftur

Loftur hét skólapiltur einn á Hólum; hann lagða alla stund á galdur og kom öðrum til þess með sér, þó ekki yrði meira úr því fyrir þeim en kuklið eitt. Æsti Loftur skólabræður sína til að gjöra öðrum ýmsar galdraglettur, og sjálfur var hann forsprakkinn. Einu sinni fór Loftur heim til foreldra sinna um jólin; tók hann þá þjónustustúlku á staðnum og járnaði hana og lagði við hana beisli og reið henni svo í gandreið heiman og heim; lá hún lengi eftir af sárum og þreytu, en gat engum frá sagt, meðan Loftur lifði.

Öðru sinni barnaði Loftur vinnukonu á staðnum, og drap hann þá barnsmóður sína með gjörningum. Henni var ætlað að bera aska inn í eldhús og úr því; voru þeir til flýtis bornir á nokkurs konar trogmynduðu verkfæri, er hét askafloti og tók marga aska í einu; lét Loftur opnast göng fyrir henni í miðjum vegg, svo hún gekk inn í þau. En sökum þess að stúlkan varð þá hrædd og hikaði, hreif galdurinn, svo að veggurinn luktist aftur. Löngu seinna, þegar veggurinn var rifinn, fannst í honum beinagrind af kvenmanni uppstandandi með askahrúgu í fanginu og ófullburða barnsbein í holinu.

Þorleifur prófastur Skaftason vandaði um við Loft, því að hann var dómkirkjuprestur um þær mundir. En Loftur skipaðist lítt við það; bekktist hann síðan stundum til við prófast, en gat ekki gjört honum neitt mein, því að hann var svo mikill guðsmaður og kunnáttumaður um leið, að ekkert óhreint gat grandað honum. Einhvern tíma reið prófastur til kirkju og átti að fara yfir Hjaltadalsá í leysingu og vexti; varð hesturinn þá staður og hræddist, svo að prófastur varð að ganga af honum í miðri ánni; greip hann hempupoka sinn og óð til lands; sakaði hann ekki og flutti messu um daginn. Þá var þessi vísa kveðin:

Furðar mig á fréttum þeim;
fótgangandi var hann;
þegar hann kom til Hóla heim,
hempuna sína bar hann.

Ekki létti Loftur, fyrr en hann hafði lært allt, sem var á Gráskinnu, og vissi það út í hörgul; leitaði hann þá fyrir sér til ýmsra galdramanna, en enginn vissi þá meir en hann. Hann gjörðist nú svo forn og illur í skapi, að allir skólapiltar urðu hræddir við hann; þorðu þeir ekki annað en að láta allt vera sem hann vildi, þó þeim stæði stuggur af. Einhvern tíma snemma vetrar kom Loftur að máli við skólapilt einn, sem hann vissi, að var hugaður, og bað hann að hjálpa sér til að vekja upp biskupa þá hina fornu. Hinn taldist undan; en Loftur kvaðst þá mundu drepa hann. Skólapilturinn spurði, hvert gagn hann mætti vinna honum, þar sem hann kynni engan galdur. Loftur sagði, að hann þyrfti ekki annað en standa í stöplinum og halda í klukkustrenginn, hreyfast hvergi, en horfa stöðugt á sig og taka í klukkuna, jafnsnart og hann gæfi honum merki með hendinni. „Vil ég nú,“ mælti Loftur, „segja þér gjörla af áformi mínu. Þeir, sem eru búnir að læra galdur viðlíka og ég, geta ekki haft hann nema til ills, og verða þeir allir að fyrirfarast, hvenær sem þeir deyja; en kunni maður nógu mikið, þá hefur djöfullinn ekki lengur vald yfir manninum, heldur verður hann að þjóna honum án þess að fá nokkuð í staðinn, eins og hann þjónaði Sæmundi fróða, og hver, sem veit svo mikið, er sjálfráður að því að nota kunnáttu sína svo vel sem hann vill. Þessari kunnáttu er nú á dögum ekki auðið að ná, síðan Svartiskóli lagðist af og Gottskálk biskup grimmi lét grafa Rauðskinnu með sér; vil ég því vekja hann upp og særa hann til að láta af hendi Rauðskinnu við mig, en þá munu allir hinir gömlu biskupar rísa á fætur, því að þeir munu ekki þola eins miklar særingar yfir sér og Gottskálk, og mun ég láta þá segja mér þá forneskju, sem þeir vissu í lifandi lífi, og kostar það mig ekki mikla fyrirhöfn, því að það má sjá það á svipnum, hvort maðurinn hefur kunnað galdra eða ekki. En hina seinni biskupa get ég ekki vakið upp, því að þeir eru allir grafnir með ritninguna á brjóstinu. Dugðu nú vel, og gjörðu eins og ég legg fyrir þig, og hringdu hvorki of fljótt né of seint, því að við því liggur stundleg og eilíf velferð mín. Skal ég þá launa þér svo vel, að enginn annar skal þér fremri.“ Þeir bundu nú þetta fastmælum og fóru á fætur skömmu eftir háttatíma og upp í kirkju.

Tunglskin var úti, svo bjart var í kirkjunni; nam skólapilturinn staðar í stöplinum, en Loftur fór upp í predikunarstól og tók að særa. Kom bráðum maður upp úr gólfinu með alvarlegum og þó mildum svip og hafði kórónu á höfði; þóttist skólapilturinn vita, að þar mundi kominn hinn elsti biskup; hann sagði við Loft: „Hættu, vesall maður, meðan tóm er til, því að þungar munu þér bænir Gvendar bróður míns, ef þú ónáðar hann.“ Loftur sinnti því ekki og hélt áfram að særa. Komu nú allir hinir gömlu biskupar í röð upp úr gröfum sínum í hvítum sloppum með krossmark á brjósti og staf í hendi. Allir skiptu þeir eitthvað lítið orðum við Loft, en ekki er getið, hvað það var. Þrír þeirra höfðu kórónur á höfðinu, hinn fyrsti og seinasti og sá , sem stóð í miðið (líklega Guðmundur Arason, þó það skakki nokkru). Engin forneskja duldist með neinum þeirra.

Gottskálk þrumdi þetta af sér; tók þá Loftur að særa fyrst að marki og snerti máli sínu að Gottskálki einum; sneri hann þá iðrunarsálmum Davíðs upp á djöfulinn og gjörði játningu fyrir allt, sem hann hefði vel gjört. Stóðu þá þrír hinir kórónuðu biskupar lengst frá með upplyftum höndum og sneru andlitum móti Lofti, en hinir horfðu undan og á þá. Heyrðust þá dunur miklar, og kom upp maður með staf í vinstri hendi og rauðri bók undir hinni hægri; ekki hafði hann krossmark á brjósti; leit hann óhýru auga til biskupanna, en horfði glottandi til Lofts, er særði þá sem fastast. Gottskálk færðist hóti nær og sagði háðslega: „Vel er sungið, sonur, og betur en ég hugði, en eigi nærð þú Rauðskinnu minni.“ Loftur umhverfðist þá og hamaðist, og var sem aldrei hefði hann sært fyrr. Sneri hann þá blessunarorðunum og faðirvori upp á djöfulinn; kirkjan hrikti öll og lék á reiðiskjálfi. Virtist skólapiltinum sem Gottskálk þokaðist nær Lofti og rétti með semingi að honum eitt horn bókarinnar; hafði hann áður verið smeykur, en skalf nú af ótta og sortnaði fyrir augum; virtist honum sem biskup brygði upp bókinni og Loftur rétti fram höndina; hugði hann þá, að hann gæfi sér merki, og tók í klukkustrenginn; hvarf allt þá ofan í gólfið með þys miklum. Loftur stóð stundarkorn höggdofa í stólnum og lagði höfuð í höndur sér, stumraði síðan hægt ofan og fann lagsmann sinn, stundi hann þá við og mælti: „Nú fór verr en skyldi, og get ég þó ekki gefið þér sök á því. Ég mátti vel bíða dögunar, mundi biskup þá hafa sleppt bókinni og lagt hana sjálfur upp til mín, því að ekki hefði hann unnið það til að ná ekki aftur gröf sinni og ekki heldur leyfst það vegna hinna biskupanna; en hann varð drýgri en ég í viðskiptum okkar, því að þegar ég sá bókina og heyrði frýjunarorð hans, gjörðist ég svo óður, að ég hugðist að hafa hana strax með særingum, og rankaði ég fyrst við mér, þegar svo langt var komið, að hefði ég farið einu særingarstefi lengra, þá mundi kirkjan hafa sokkið, og það var það, sem hann ætlaðist til. Ég sá í sama bili í andlit hinna krýndu biskupa og varð felmt við, en vissi, að þú mundir falla í ómegin við klukkustrenginn og hún þá gefa hljóð af sér, en bókin var svo nærri mér, að mér virtist ég geta náð henni, enda kom ég við horn hennar, og munaði ekki öðru en því, að ég hefði náð góðu haldi á henni eins og þurfti til að fella hana ekki niður. En svo verður að fara sem auðið er, og er útséð um velferð mína, en laun þín skulum við samt láta liggja í kyrrþey.“

Loftur varð nú hljóður mjög og því næst sturlaður, svo að hann þoldi ekki að vera einn, og kveikja varð ljós fyrir hann, þegar rökkva tók; fór hann að mæla fyrir munni sér: „Sunnudaginn í miðföstu verð ég í helvíti og kvölunum.“ Var honum þá ráðið að flýja til prests eins á Staðarstað; hann var þá aldraður; var hann trúmaður mikill og klerkur besti; batnaði öllum sturluðum eða þeim, sem höfðu orðið fyrir gjörningum, ef hann lagði höndur yfir þá. Loftur leitaði sér hælis hjá honum; kenndi prestur í brjósti um hann og tók við honum; lét hann aldrei við sig skilja nótt né dag, úti né inni. Hresstist nú Loftur mikið, en þó varð presti aldrei ugglaust um hann; stóð honum mesti stuggur af því, að Loftur vildi aldrei biðjast fyrir með honum. Þó fylgdi Loftur presti, þegar hann vitjaði sjúkra og freistaðra, og var þá viðstaddur. Bar það þó oft við, svo prestur fór aldrei svo að heiman, að hann hefði ekki hempu sína, brauð og vín, kaleik og patínu með sér.

Svona leið nú þangað til laugardaginn fyrir sunnudaginn í miðföstu; var Loftur þá sjúkur, og sat prestur fyrir framan hann og hressti hann með kristilegum samræðum. En um dagmálabil komu honum orð frá vini hans í sókninni, að hann væri kominn að andláti og óskaði, að prestur vildi þjónusta sig og búa sig undir guðrækilegt andlát. Prestur gat hvorki né vildi neita því. Leitaði hann þá til við Loft, hvort hann gæti ekki fylgt sér, en hann kvaðst hvergi mega hrærast fyrir verkjum og óstyrkleik. Prestur kvað honum líka duga mundi, ef hann kæmi ekki undir bert loft, meðan hann væri burtu. Loftur lofaði því; blessaði prestur síðan yfir hann og minntist við hann, og fyrir bæjardyrum féll hann á kné og baðst fyrir og gjörði krossmark yfir þeim. Heyrðu menn hann þá mæla fyrir munni sér: „Guð má vita, hvort þessum manni verður bjargað og hvort ekki liggja kröftugri bænir móti honum en mínar.“ Prestur fann síðan manninn, er hann var sóttur til, veitti honum alla þjónustu og var viðstaddur við andlát hans; en síðan flýtti hann sér af stað og reið hart mjög, sem þó var ei venja hans.

Þegar prestur var farinn, hresstist Loftur brátt. Veður var hið fegursta, og vildi hann því fyrir hvern mun komast út. Karlmenn voru farnir til vers og ekki aðrir heima en konur og ungmenni, er ekki tjáði að letja hann. Loftur gekk nú til annars bæjar; þar var aldurhniginn bóndi, heldur óþokkasæll, er var hættur að róa; hvatti Loftur hann til að hvolfa upp litlum bát, er hann átti, og róa lítið út fyrir landsteina og renna færi sér til skemmtunar; lét bóndi að orðum hans. Logn hélst allan daginn, en til bátsins hefur aldrei spurst síðan, og þótti það undarlegt, að ekki rak af honum svo mikið sem árarblað. Maður þóttist sjá það af landi, að grá hönd loðin hefði komið upp, þegar báturinn var kominn út fyrir landsteinana, og hefði tekið um skutinn, þar sem Loftur sat, og dregið svo allt saman í kaf.