Sæmundur felur sig

Einu sinni kom kölski til Sæmundar og sagðist nú vilja fá hann, sagðist hafa nóg til hans unnið og hann hefði nógu lengi skotizt undan.

Sæmundur sagði að hann ætti raunar enga skuld á að fá sig, en sagðist þó skyldi gjöra honum kost á því. „Ég ætla að fela mig,“ segir Sæmundur, „og ef þú finnur mig í nótt, þá máttu taka mig.“

„Þú verður að segja mér á hvaða sviði þú verður helzt,“ segir kölski.

„Ég ætla að verða í sjónum,“ segir Sæmundur.

Kölski fór um nóttina um allan sjó til og frá og fann ekki Sæmund. Í dögun kom hann aftur og var Sæmundur þá í bæjardyrunum og stóð í keri sem sjór var í.

Hann segir við kölska: „Ekki ertu fundvís, ekki færðu mig.“

„Lofaðu mér að reyna í annað sinn,“ segir kölski.

„Það skal vera,“ segir Sæmundur; „þú mátt taka mig ef þú finnur mig í nótt; ég ætla að verða í loftinu.“

Um nóttina fór kölski á vængjum vindanna um allt loft, en ekki fann hann Sæmund.

Um morguninn í dögun kom hann aftur og var Sæmundur í bæjardyraloftinu og sagði: „Ekki ertu fundvís enn, ekki þarftu að hugsa til að fá mig.“

„Það er ekki von,“ segir kölski, „þú getur hæglega falið þig fyrir mér með þessum undanbrögðum. Leggðu heldur fyrir mig einhvurja þraut svo ef ég get unnið hana þá fái ég þig.“

„Ójá,“ segir Sæmundur, „hér er skjóða. Með hana skaltu fara ofan á sjávarbotn og fylla hana af peningum (silfri?) í nótt og færa mér hana fulla á morgun í dögun. Ef þú getur það þá færðu mig, en ef þú getur það ekki þá færðu mig aldrei.“

Kölski gengur óhikað að þessum kostum. Um kvöldið fer hann með skjóðuna ofan á sjávarbotn og fer að tína í hana. Þegar þriðjungur var af nótt gáir kölski í skjóðuna og er hún þá orðin hálf, og hyggur kölski nú gott til að sér muni ganga þetta vel og herðir sig að tína.

Þegar þriðjungur var eftir af nótt gáir hann í hana aftur og er hún þá enn hálf. Nú flýtir hann sér það sem hann getur og rótar stórum í skjóðuna og í dögun lítur hann enn í hana og er hún enn ekki nema hálf.

Þá varð kölski hissa, skoðaði skjóðuna og sagði: „Von var þó ekki gengi betur. Þetta er þá bölvuð prestaágirndin sem aldrei verður fyllt.“ Hann færir þó Sæmundi skjóðuna.

Hann sló hendinni móti og sagði: „Það er of lítið, þú fær mig aldrei og farðu með það.“

Kölski sá þá að honum mundi ekki takast að ná Sæmundi og fór hann burtu svo búinn.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Текст с сайта Netútgáfan