Knararhóll hjá Odda

Skip kom af hafi fyrir sunnan land og braut við Rafnstóftir. Létust menn allir. Skipið var fært heim til Odda og haugsett með öllum sínum skipverjum í hól einum fyrir ofan bæinn í Odda. Var mælt að hér mundi mikið fé fólgið vera. Síðar, í tíð Sæmundar fróða, tóku menn sig til að grafa í hólinn og forvitnast um hver sannindi hér mundi á vera, hvað þó skeði að Sæmundi óvörum og óvitandi. Þeir grófu so og komu að viðum og rufu til, sáu og vegsummerki að so mundi vera sem sagt hafði verið, náðu so til einnar kistu og í hring þann er í kistulokinu var. Varð kistan þung fyrir og eigi hræranleg. Slitnaði svo úr henni hringurinn; í því varð þeim litið við og heim til bæjarins Odda. Sýndist þeim allur bærinn í einu báli. Hringdi þá Sæmundur klukkum, en þeir hættu verkinu og fylltu gröfina. Er sá hringur hinn sami (að sögn) í kirkjuhurðinni að Odda, gjörður innst af járni, en utan yfir af kopar, messing og aðskiljanlegri mixtura metallorum [málmblendingi] og skal sá hringur stærstur allra í kirkjuhurðum á Íslandi.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

По всем вопросам пишите в раздел форума Valhalla: Эпоха викингов