Kölski er í fjósi

Einu sinni vantaði Sæmund fróða fjósamann; tók hann þá kölska og lét hann vera í fjósinu hjá sér. Fór það allt vel og leið svo fram á útmánuði að kölski gjörði verk sitt með öllum sóma. En á meðan séra Sæmundur var í stólnum á páskadaginn bar kölski alla mykjuna í haug fyrir framan kirkjudyrnar svo þegar prestur ætlaði út eftir messuna þá komst hann það ekki. Sér hann þá hvað um er að vera, stefnir til sín kölska og lætur hann nauðugan viljugan bera burtu aftur alla mykjuna frá kirkjudyrunum og á sinn stað. Gekk séra Sæmundur svo fast að honum að hann lét hann seinast sleikja upp leifarnar með tungunni. Sleikti þá kölski svo fast að það kom laut í helluna fyrir framan kirkjudyrnar. Þessi hella er enn í dag í Odda og nú þó ekki nema fjórðungur hennar. Liggur hún nú fyrir framan bæjardyrnar og sér enn í hana lautina.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

По всем вопросам пишите в раздел форума Valhalla: Эпоха викингов