Pauri lætur í minni pokann

Í Odda er vatnsból hið örðugasta hvers vegna eldakona þar (að sagt er) contraheraði [samdi um] við djöfulinn að hann hennar vegna vatnið sækja skyldi og þar fyrir eignast það hún með gengi, því hún var ólétt. Þetta fekk Sæmundur af eldakonu treglega að vita og skipaði so kaupunaut hennar vatnið heim að bera í torfhripum; þar við ærðist hann mjög, fór með hripin suður að Rangá (hér um nær fjögur skeiðarúm) og kom vatninu í þeim á miðja leið, annað sinn nokkru lengra, réði þá enn til í þriðja sinn og komst þá undir smiðjuhólinn. Þá er so sagt að Sæmundur hafi klukkunum hringt. Brá vatnsberanum so við að hann fór þar niður með öllu. Kom þar þá upp brunnur hver síðan er kallaður Skollabrunnur. Í þeim sama brunni drukknaði barn á dögum síra Stefáns í Odda hvers vegna hann var með moldu til luktur sem enn nú sjást vegsummerki.

Sæmundur og fjandi höfðu felingaleik. Sæmundur faldi sig í prédikunarstól, þangað þorði ei fjandi að leita. Fjandi faldi sig undir torfu í forinni, Sæmundur trað á torfuna so fjandi varð sig upp að gefa.

Sæmundur reið paura í selslíki yfir hafið frá útlöndum, en sem hann kom í fjörumál Íslands sló hann paura með psaltara í höfuðið. So sökktist pauri, en Sæmundur óð til lands.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org