Sæmundur fróði yrkir Sólarljóð

Þegar Sæmundur fróði lá banaleguna og mönnum virtist hann andaður hreyfðust á honum þrír fingurnir á hægri hendinni (þeir sem haldið er penna með) sem vildu þeir taka um eitthvað.

Lengi voru menn í efa um hvað slíkt hefði að þýða; loksins voru ýmsir hlutir bornir að fingrunum, en þeir héldu áfram að hreyfast þangað til þeim var fenginn penni, þá beygði sig einn fingurinn utan um hann; síðan var réttur pappír hinum fingrunum, og beygði sig annar fingurinn að honum; þá var nú sjálfsagt að fá hinum þriðja blekbyttuna.

Eftir það skrifuðu fingurnir Sólarljóð og þegar þeim var lokið slepptu þeir ritfærunum og urðu máttvana og hreyfðust aldrei síðan.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Текст с сайта Netútgáfan

По всем вопросам пишите в раздел форума Valhalla: Эпоха викингов