Sæmundur spáir fyrir kálfi

Eitt sinn var Sæmundur fróði á siglingu hingað til lands með sínum félagsmanni er sagt er að Jón heitið hafi. Þeir voru komnir að landi eður á land; þar varð fyrir þeim ein kýr kálffull. Þeim kom til tals hvert heldur í kúnni vera mundi kvígu- eða bolakálfur. Kom þeim báðum ásamt að kvíga væri, töluðu síðan um lit hennar og kom þeim líka ásamt að svört væri. Sagði Jón að hann hefði hvítan blett á milli augnanna; það sagði Sæmundur eigi vera, heldur væri það hvít hár sem kálfurinn skyldi hafa í rófunni og lægi þau á millum augna kálfsins. Þetta reyndist so sem Sæmundur sagði, þá kýrin bar kálfinum, að hann hafði hvít hár í rófunni og lá á millum augnanna. Hér af má merkja hans speki og vizku af hverjum anda sem verið hefur, því þar um eru nú ýmislegar meiningar.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org