Halla sendir vinnumenn til sláttar

Á einhvörju sumri sendi Halla húskarla sína til sláttar upp á Mýrar að Heyvatni; svo heitir þar vatn eitt mikið; heitir þar Ljónsnes er þeir skyldu slá og lét hún þá liggja við tjald. Þar stendur steinn einn mikill og er hann kallaður Grásteinn; á stein þenna bauð Halla húskörlum að leggja alla ljáina á hvörju kvöldi er þeir hefðu leyst úr orfum, og mundu þeir þá finna þá á steininum dengda á morgni hverjum, en fyrir því tók hún þeim vara að líta nokkurn tíma í egg ljáunum. Gjörðu nú húskarlar eins og þeim var boðið, og fór nú svo fram um hríð að þeir fundu ljáina dengda á steininum á hvörjum morgni og þótti bíta eins og í vatn brygði. Tók nú einn húskarla að gruna að eitthvað mundi Höllu hafa til gengið er hún bannaði að líta í egg ljáunum, og vildi vita hvörnig við brygði ef út af væri brugðið, og lítur hann því í egg ljá sínum. Sér hann þá að ljárinn er ekki annað en mannsrif eitt og í sama vetfangi fer eins með alla ljáina, að þeir verða að mannsrifjum, og hljóta þeir því að hætta slættinum og leggja heim, og mislíkaði Höllu þá mjög.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

По всем вопросам пишите в раздел форума Valhalla: Эпоха викингов