Af meydómi kerlingar

Prestur og stúdent voru á bæ saman. Þeir þrættu einu sinni um það hvort þær stúlkur sem aldrei hefðu átt barn væru hreinar meyjar. Stúdent sagði það væri ekki, en prestur sagði þær væri það víst. Þeir slógu veð um það og settu mikið undir. Þar var sextug kerling á bænum sem enginn vissi til að tapað hefði meydómi sínum. Loft var í baðstofunni og svaf kerling í öðrum karminum. Hún vissi ekkert af veðjan þeirra. Um kvöldið segir stúdent presti að hann ætli að yfirheyra kerlingu um nóttina og skyldi hann vera undir loftinu og heyra tal þeirra. Prestur vildi það því hann bjóst ekki við öðru en kerling mundi fríkenna meydóm sinn. Um kvöldið seinna lét stúdent þjónustustúlku færa sér messusloppinn (rykkilínið) og fór í það um nóttina og vafði hvítu trafi um höfuðið og gekk að rúmi kerlingar. Tunglið skein á hann inn um glugga. Kerling vaknaði við það að hvítklæddur maður tók á henni. Hún varð dauðhrædd og kallaði upp: „Drottinn minn, hvur ertú?“ „Ég er engill,“ segir hann, „sendur til að spyrja þig að hvað margir karlmenn hafa með þig haft um þína daga. Segðu nú rétt frá, þá færðu fyrirgefning allra þinna synda, en annars ekki.“ „Ég man það ekki gjörla,“ segir kerling, „þeir eru margir, ég held þeir séu seytján.“ „Þér ríður á að segja eins og þú manst réttast,“ segir hann, „svo þú fáir fyrirgefning allra þinna synda.“ „Já,“ segir hún, „seytján – seytján, sagði ég, og átjándi presturinn hérna á bænum.“ Hinn fór í burt ánægður og um morguninn eftir gjörði hann presti tvo kosti að gjalda sér veðféð allt strax (sem sumir segja hafi verið 5 hundr.) eða hann segði yfirvöldunum það sem hann hefði komizt að. Prestur tók þann kostinn að gjalda.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org