Einir og reynir

Þó ekki megi hafa reynivið til skipasmíða sem nú var sagt er hættulaust að hafa hann til þess ef einir er hafður í sama skipið. Svo stendur á því að einir og reynir eru megnustu óvinir; einirinn vill upp með skipið í loftið, en reynirinn vill draga það niður í sjóinn og er það gott því annars feykti skipinu á sjónum svo það mundi of laust á öldunum ef einirinn mætti einn ráða, en reynirinn þyngir það niður og heldur því hóflega föstu í bylgjunum þar sem einirinn togar í það að ofan. Skal því hafa einir í hástokki, en reyni við kjöl eða kjalsíður. Annað er það atriði sagt frá ósamlyndi þessara viða að ef þeir eru settir sinn hvorumegin í stórt tré þá svipti þeir trénu sundur á milli sín og kljúfi það að endilöngu; svo eiga þeir illa saman. Ef einir og reynir eru í sama húsi þá brennur það. Ef einir og reynir eru sinn hvorumegin á sama hesti þá snarast af. Ef einir og brennigras (notrugras, urtica urens) er lagt saman í kistu að kvöldi er sitt komið í hvorn enda að morgni.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org