Fleira af reyniviðnum

Miklu fleiri sögur fara af reyniviðnum. Hann er kallaður heilagt tré og er sú saga til þess að til forna þegar komið var að reynitré á jólanótt brunnu ljós á öllum greinum hans og slokknuðu þau ekki hversu mjög sem vindur blés. Lítur það svo út sem það hafi átt að vera nokkurs konar ímynd jólatrésins sem alsiða er í útlöndum að kveikja og prýða með aldinum og öðru skrauti ungum og öldruðum til ánægju, en einkum á jólanóttina, og sumstaðar er farið að tíðkast hér á landi í kaupstöðum. Ef maður ætlar að rífa upp reyniviðarhríslu og leitar að henni í því skyni þá finnur hann hana ekki þó hann viti hvar hún á að vera og finni hana endrarnær þegar hann vill.

Reynir má varla hafa til neinna hluta. Ef hann er hafður fyrir eldivið vekur hann óvild milli þeirra sem sitja umhverfis eldinn en þótt þeir áður hafi verið beztu vinir; ef hann er hafður til húsagerðar geta konur ekki orðið léttari í því húsi né heldur aðrar skepnur eða kvikindi komizt frá fóstri sínu eða þrifizt. Ef reynir er hafður til skipssmíða eða skipsáhalda nokkurra þá ferst það skip nema einir sé hafður með í sama skipi. Ef reynir er öðrumegin keipnagli í skipi, en ekki báðumegin, þá hvolfir því. Af þessu síðasttalda er það auðsætt hvers vegna sumir almúgamenn hafi sagt „að reynir væri bölvaður“, af því þeim hefur ekki þótt hættulaust eftir hjátrúnni að færa sér hann í nyt á nokkurn hátt og er það alllíklegt að það valdi því að hann hefur fengið að standa óhöggvinn þar sem hann hefur vaxið hér á landi og átt ólíkt meiri frið á sér en birkiskógarnir svo að Eggert Ólafsson segir að hann hafi verið orðinn sex og átta álna hár í Hestfirði við Ísafjörð þegar hann fór hér um land um og eftir miðja fyrri öld.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org