Systkinin í Vestmannaeyjum

Á fyrri öldum er sagt að systkin tvö hafi verið í Vestmannaeyjum af góðum ættum. En svo fór að stúlkan varð barnshafandi í föður garði; af því þau systkinin unnust mjög ljóstuðu skæðar tungur því upp að bróðir stúlkunnar mundi eiga þungann með henni. Þessi kvittur kom og fyrir lögsagnarann í eyjunum og fór hann þegar til að rannsaka málið. Það tjáði ekki þó bróðirinn afsakaði sig frá þessum glæp og vitnaði það hátt og dýrt að hann væri saklaus né heldur hitt þótt systir hans bæri hann undan öllum sökum og samlegi við sig og nefndi til annan mann sem þá var farinn úr eyjunum. Og með því þá var almennt mjög ríkt gengið eftir um blóðskammir hér á landi þó yfirvaldsmenn hefði ekki annað en ósannaðan grun fyrir sér felldu þeir hvern lífleysisdóminn á fætur öðrum á þá sakbornu og svo fór hér. Þau systkin voru dæmd til dauða og dóminum fullnægt.

En sagt er að þau hafi bæði beðið guð þess grátandi á aftökustaðnum að sanna sakleysi sitt eftir að þau væru líflátin þó mennirnir hefðu ekki viljað trúa því í lifanda lífi; einnig hafi þau átt að biðja foreldra sína að sjá til þess að þau fengi að liggja saman í Landakirkjugarði. Eftir það voru þau tekin af og eftir langa mæðu og líklega miklar fégjafir til kirkju og kennidóms sem þá var altítt var foreldrunum leyft kirkjugarðsleg fyrir börn sín, en þó máttu þau ekki bæði liggja í sömu gröf, heldur skyldi grafa annað sunnan megin kirkjunnar en hitt fyrir norðan hana og var svo gjört.

Þegar fram liðu tímar fóru menn að taka eftir því að sín reyniviðarhríslan óx upp úr hvoru leiði þeirra systkina og hækkuðu þær ávallt eðlilega unz limar þeirra tóku saman yfir kirkjumæninn, og var svo virt að með því að láta reynihríslur þessar vaxa á leiðum þeirra sem enginn vissi til að nokkurs manns hönd hefði gróðursett þar vildi guð lýsa sakleysi systkinanna fyrir hinum lifandi. En hitt að hríslurnar beygðust hver að annari yfir kirkjumæninn og sameinuðu þar blöð sín og limar þótti benda til hins saklausa og ástúðlega samkomulags systkinanna í lifanda lífi og löngunar þeirra að mega liggja bæði í einni gröf eftir dauðann. Svona uxu og stóðu reynitré þessi um langa tíma þangað til Hund-Tyrkinn kom með hernaði í Vestmannaeyjar öndverðlega á 17. öld, rændi þar fé og mönnum og aðhafðist þar mörg hryðjuverk sem kunnugt er; eitt af þeim, segir sagan, hafi það verið að Tyrkir hjuggu upp bæði reyniviðartrén í Landakirkjugarði og hótuðu að þeir skyldu aftur koma í eyjarnar með ekki minni ránskap og hernað en þeir fóru þá þegar tré þessi væru orðin jafnhá aftur í næsta sinn. En ekki hafa menn sögur af að trén hafi nokkurn tíma sprottið eftir þetta og er það talin mesta mildi guðs því ef svo hefði farið mundu Tyrkir hafa efnt orð sín.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann