Kráka tröllskessa

Í fyrndinni átti skessa sú er Kráka hét byggð í Bláhvammi við Bláfjall; bjó hún í helli einum sem enn sér merki til og er hann svo hátt í hömrum þeim er liggja að Bláhvammi að þangað er ófært öllum mennskum mönnum. Kráka var hinn mesti meinvættur og lagðist hún tíðum á fé Mývetninga og gjörði þeim hinn mesta skaða í fjárupptektum og manndrápum.

Kráka var vergjörn mjög og kunni illa einlífi; var það ekki ósjaldan að hún tók menn úr byggð og hafði hjá sér, en það vóru fæstir sem vildu þýðast hana, heldur annaðhvert struku á burt eður réðu sér bana.

Það var einhverju sinni að Kráka náði sauðamanni frá Baldursheimi er Jón hét; hafði hún hann heim í hellir sinn og vildi veita honum inn bezta beina, en hann þekktist það lítt og vildi einkis neyta þess er Kráka bar á borð fyrir hann; leitaði hún allra bragða í að fá honum það er honum væri helzt að skapi, en það kom fyrir ekki. Loksins lézt sauðamaður mundi fá lyst sína aftur ef hann fengi tólf ára gamlan hákarl til matar. Kráka vissi af fjölkynngi sinni að hvergi var að fá tólf ára gamlan hákarl nema á Siglunesi og þó þangað væri ærið langt úr Bláhvammi vill hún þó freista hvert hún fengi náð hákarlinum. Leggur hún því af stað og skilur sauðamann eftir, en er hún hefur skammt farið dettur henni í hug að vissara sé að vita hvert sauðamaður hafi ekki prettað sig og hlaupizt á burt á hæla sér. Hleypur hún því heim að hellir sínum og er sauðamaður kyrr; heldur hún því aftur leiðar sinnar og nokkru lengra en fyrr; kemur þá að henni sami uggur og áður að sauðamaður muni sér ekki trúr reynast, og hleypur því Kráka aftur heim að hellir sínum, en það fer sem fyrr að sauðamaður er kyrr. Heldur hún því af stað og ætlar að nú muni ekki þurfa að ugga sauðamann. Fer hún hina beinustu leið á Siglunes og yfir þveran Eyjafjörð norðan við Hrísey. Segir ekki af ferðum hennar annað en henni heppnaðist að ná hákarlinum og hélt hún hina sömu leið til baka aftur.

En af sauðamanni er það að segja að þegar hann ætlar Kráku komna alla leið hefur hann sig á kreik og hleypur á burtu, en er hann var fyrir litlu farinn úr hellinum kemur Kráka og verður þess skjótt vísari að sauðamaður er horfinn. Ræðst hún því eftir honum með mesta flýti og er sauðamaður á skammt heim í Baldursheim heyrir hann dunur miklar á eftir sér og veit hvað vera muni, að þar muni komin Kráka, og sem ekki er lengra milli þeirra en svo að hann má heyra mál hennar kallar hún: „Hér er hákarlinn, Jón, tólf ára gamall og þrettán ára þó.“ En hann gefur þessu engan gaum og er sauðamaður kemur að bænum er bóndi að smíða í smiðju sinni. Sauðamaður hleypur inn í smiðjuna og inn fyrir bónda og í því kemur Kráka að smiðjudyrunum. Bóndi tekur járnið glóandi frá aflinum og hleypur á móti Kráku og segist muni reka það í hana nema hún snúi aftur og lofi því að ónáða sig aldrei aftur eður sína menn. Kráka sá sér ekki annan kost en snúa aftur og svo gjörir hún. Er þess ekki getið að hún hafi áreitt Baldursheimsbóndann upp frá því.

Öðru sinni tekur Kráka sauðamann frá Grænavatni og hefur heim með sér í hellir sinn; fer það sem fyrri að sauðamaður vill einkis neyta þess er Kráka hefur að bjóða og þykir henni það mikið mein. Loksins segist sauðamaður mundi geta etið nýtt hafrakjöt, en þá vóru hvergi hafrar nema í Hafrafellstungu í Axarfirði og þó þangað væri langt að leita úr Bláhvammi vill þó Kráka freista hvert hún fengi náð hafrakjötinu, en áður hún færi af stað tekur hún bjarg ákaflega mikið og lætur í hellisdyrnar því hún vill fyrir hvern mun ekki missa þennan sauðamann eins og hinn fyrri; heldur hún nú áfram sem leið liggur, og er hún kemur að Jökulsá á Fjöllum þá stekkur hún yfir hana millum hamra tveggja og heitir þar síðan Skessuhlaup enn í dag.

Segir ekki af ferðum hennar fyrri en hún kemur í Hafrafellstungu. Þá tekur hún hafra tvo og bindur saman á hornunum og kastar um öxl sér. Heldur hún ena sömu leið til baka aftur og hleypur yfir Jökulsá á sama stað og áður. En er hún kemur yfir ána er hún orðin mædd af göngunni og tekur hún því hvíld; leysir Kráka hafrana og hleypir þeim á beit í gil eitt sem síðan heitir Hafragil. En er hún hefur hvílt sig um hríð tekur hún hafrana og heldur áfram leiðar sinnar. En frá sauðamanni er það að segja að hann leitar allra bragða í að komast á burt úr hellinum eftir að Kráka er farin, en fær hvergi fylgsni það eður smugu er hann geti komizt gegnum. Loksins finnur hann sax eitt mikið og biturt er Kráka átti. Hann tekur saxið og getur skorið með því steininn er var í dyrunum svo hann fær að lyktum svo víða smugu að hann getur komizt út. Heldur hann þá sem skjótast leiðar sinnar og heim til byggða. Er ei annars getið en hann hafi náð það með heilu og höldnu.

Það var einhverju sinni að Kráka hafði inni jólaboð mikið og vildi vanda til sem mest. Þótti henni það eitt á vanta að hún hafði ekki mannakjöt til sælgætis. Hún leggur því af stað aðfarakvöld jóla og ofan í byggð, en er hún kemur á efstu bæi í Mývatnssveit er hver bær auður og allt fólk komið til kirkju. Kráka kemur að kirkjudyrum og sér að maður situr í kórbekk; hún seilist til mannsins og vill hafa hann út úr kirkjunni, en maðurinn spyrndist við og kallar um hjálp. Verður honum skjótt mannhjálp og svo fór að söfnuðurinn beindist að Kráku til að ná af henni manninum, en hún sleppti ekki fyrr en annar kirkjuveggurinn gekk undan. Er þá mælt að Kráka hafi reiðzt og mælt svo um að kirkjuveggurinn skyldi aldrei standa meir. Þykir þetta hafa orðið að áhrínsorðum því jafnan hefur syðri veggur kirkjunnar að Skútustöðum verið hrjálegur síðan.

Það er og sagt að fyrir þennan og annan mótþróa sem frambyggjar Mývatnssveitar hafi sýnt Kráku þá hafi hún heitizt við þá að vinna þeim einhver þau spjöll sem þá mætti lengst minni til reka. Í afrétt Mývetninga þeirri er liggur fram af Mývatnssveit var þá stöðuvatn eitt mikið. Þangað fer Kráka og rífur sér viðarbyrði mikla; síðan ber hún í byrðina torf og grjót svo þetta verður hlass eitt ákaflega stórt og þungt. Þennan slóða dregur Kráka eftir sér frá vatninu og ofan í Mývatnssveit og eftir sveitinni endilangri allt út í Laxá, skammt frá því er hún rennur úr Mývatni. Eftir slóðann kom dæld mikil og í dældina veitir Kráka vatninu með þeim ummælum að þessi á skuli renna eftir dældinni meðan Mývatnssveit byggist og skuli áin allajafna brjóta engi og heimalönd Mývetninga og með engvu móti verða varnað þess öðru en efnum þeim sem í byrðinni eru; og að lyktum skyldi áin gjöreyða fremri hlut Mývatnssveitar.

Áin rennur enn í dag eftir hinum sama farveg og er kennd við Kráku og heitir Krákuá; er hún hinn mesti vogestur Mývetningum; rennur hún meðfram engi allra þeirra jarða er fremst liggja í Mývatnssveit og leitar á það árlega með landbrotum og sandáburði; rífur hún einatt skörð í bakka sína á vorum og ber með þeim hætti sand og leir á engið. Liggur þegar sumum jörðum við auðn af slíku; er hlaðið árlega í skörð þessi og ætíð haft til þess hrís, grjót og ljátorf eins og Kráka hafði í hlassi sínu og er þegar orðin svo mikil þurrð á hrísi við Mývatn að trautt fæst hér eftir það sem þarf til stíflugjörðar fyrir Krákuá; enda er suma gamla og margfróða menn farið að gruna að álögur og ummæli Kráku gömlu muni áður langir tímar líða hrína til fulls á Mývetningum.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org