„Lítið ber smátt smátt“

Þess er getið eitthvört sinn að skip réri á sjó til fiska á Vestfjörðum síðla sumars; en þegar leið á daginn brast á ófært veður svo skipið rak undir ófæru-sjávarhamra og brotnaði þar í spón og týndust menn allir utan unglingspiltur einn sem hét Sigurður; hann skolaðist upp með lífi, en fjara var undir hömrunum, en ófært upp hverri skepnu nema fugli fljúgandi. Þarna lá hann unz komið var að rökkri og sá ekki annað en dauðann fyrir dyrum. Honum varð eitt sinn litið eftir fjörunni; hann sá þá tvo stórvaxna kalla risum líka er vóru að tína saman það sem rekið hafði, sem þeir báru upp einstig nokkurt er lá upp hamrana að hellir sem blasti við upp í hömrunum.

Sigurður hugsar með sér: „Ég er dauður hvört sem er og get ekki dulizt jötnum þessum; ég skal reyna að bera dálítið með þeim.“ Hann skreiddist því á fætur mjög máttvana og tók sér litla byrði, fór á eftir risunum upp einstigið. Þetta gekk nokkrum sinnum, þar til einu sinni að þeir litu hvor til annars og sögðu: „Lítið ber smátt smátt.“ Héldu þeir svo starfa sínum þar til allt var komið upp í hellinn sem rekið hafði, og komið rökkur.

Þegar allt var búið tóku þeir til snæðings og réttu honum af því sem þeir átu; ekki er getið þeir hafi til hans talað. Þeir bjuggu honum rúmflet í hellinum innarlega þar sem þeir lágu, létu hann hafa nóg að eta og þókti vænt um hann. Úti voru þeir um daga til veiðifanga og komu á kvöldin með byrðar stórar, en Sigurður alltaf í hellinum, þetta svona á þriðja ár. Aldrei sá hann sér færi burt að komast, en langaði þó til manna. Ófæruflug voru á allar síður.

Að því gáði hann að á nóttunum þá þeir voru lagztir til náða og myrkt var orðið tóku þeir bók sem þeir höfðu niðri undir í rúmfleti sínu, og voru að rýna í; hann sá að letrið var eins og glóandi í myrkrinu; þetta þókti honum undarlegt og þókti fýsilegt að vita hvört hann gæti ekki komizt eftir hvað bókin hefði inni að halda, og með því hann sá hvar þeir höfðu hana sætti hann lagi á daginn, þá þeir vóru úti, tók bókina sem vóru eirblöð rituð rúnum og fór með hana á myrkvan stað í hellinum. Þetta gjörði hann á hvörjum degi þegar hann sá sér færi, þar til hann var fullfróður vorðinn um innihald hennar. Þar var margt kennt; eitt var um gandreið, að fara í loftinu og hvörja ófæru sem maður vildi. Þetta þókti honum fýsilegt að reyna, með því líka hann þráði burtu frá risum þessum.

Það var einn morgun snemma þá þeir voru burt komnir úr hellinum að hann bjóst til ferða, tók með sér lærdómabók sína og komst á gandreið upp úr hellinum. Hann komst til manna og sagði frá þessu. Lýkur hér frá honum að segja.

Tína verður það til er.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org