Smalinn í Grímstungum

Einu sinni var smali í Grímstungum, ötull og duglegur; hann vantaði eitt sinn féð og leitaði til öræfa og fann það þar, en í því bili sér hann koma tröllskessu hlaupandi að sér; hún nálgast hann brátt og náði honum, bar hann í fylgsni sitt.

Þar var gömul móðir hennar mjög ófrýn. Þær gjörðu við hann allt það besta, en hann hafði þar ekki yndi, en sá sér engin ráð að hlaupa frá þeim.

Þær rifu hrís um sumarið til eldiviðar, en á jólanóttina þá létust þær báðar þurfa að sofa, en sögðu honum að kynda undir ketpotti. Hann þruskaði mikið í hrísinu að vita hvurt þær vekti, því hann grunaði þær. Aðra jólanótt létu þær hann starfa sama; fann hann að kerling svaf fast, en hin ekki, en þriðju jólanótt fór allt á sömu leið með verk hans; sofnuðu þá báðar fast.

Þá brá hann við í flughasti og hljóp burtu. Hætti hann ekki fyr en hann kom að Grímstungu. Kemur þá hlaupandi sú yngri og nærri náði til hans, en hann komst fyr í klukkuportið og hringdi í ákafa að fólk kom út; var þá skessan á brekku fyrir ofan bæinn og settist þar. Sagði hann í flýtir frá kjörum sínum og hvurnin á sér stæði.

Þegar birti þá fannst skessan upp á brekkunni og var hún dauð og sprungin því auminginn var komin að falli. Maðurinn þókti mikilsverður eftir þetta; var hann lengi í Grímstungum og gifti presturinn þar honum dóttur sína.