Grænlendinga þáttur

1.

Sokki hét maður og var Þórisson. Hann bjó í Brattahlíð á Grænlandi. Hann var mikils virður og vinsæll. Einar hét son hans og var mannvænlegur maður. Þeir feðgar áttu mikið vald á Grænlandi og voru þeir þar mjög fyrir mönnum.

Einhverju sinni lét Sokki þings kveðja og tjáði það fyrir mönnum að hann vildi að landið væri eigi lengur biskupslaust og vildi að allir landsmenn legðu sína muni til að biskupsstóll væri efldur. Bændur játtuðu því allir.

Sokki bað Einar son sinn fara þessa ferð til Noregs, kvað hann vera sendilegastan mann þess erindis að fara. Hann kveðst fara mundu sem hann vildi. Einar hafði með sér tannvöru mikla og svörð að heimta sig fram við höfðingja.

Þeir komu við Noreg.

Þá var Sigurður Jórsalafari konungur að Noregi. Einar kom á fund konungs og heimti sig fram með fégjöfum og tjáði síðan mál sitt og erindi og beiddi konung þar til fulltings að hann næði slíku sem hann beiddi fyrir nauðsyn landsins. Konungur lét þeim það víst betur henta.

Síðan kallaði konungur til sín þann mann er Arnaldur hét. Hann var góður klerkur og vel til kennimanns fallinn. Konungur beiddi að hann réðist til þessa vanda fyrir guðs sakir og bænar hans «og mun eg senda þig til Danmerkur á fund Össurar erkibiskups í Lund með mínum bréfum og innsiglum.»

Arnaldur kvaðst ófús til að ráðast, fyrst fyrir sjálfs síns sakir er hann væri lítt til fallinn og síðan að skilja við vini sína og frændur, í þriðja stað að eiga við torsóttlegt fólk. Konungur kvað hann því meira gott mundu eftir taka sem hann hefði meiri skapraun af mönnum.

Hann kveðst eigi nenna að skerast undan hans bæn «en ef þess verður auðið að eg taki biskupsvígslu þá vil eg að Einar sverji mér þess eið að halda og fulltingja rétt biskupsstólsins og eignum þeim er guði eru gefnar og hegna þeim er á ganga og sé varnarmaður fyrir öllum hlutum staðarins.»

Konungur kvað hann það gera skyldu. Einar kvaðst mundu undir það ganga.

Síðan fór biskupsefni á fund Össurar erkibiskups og sagði honum sitt erindi með konungsbréfum. Erkibiskup tók honum vel og reyndust hugi við. Og er biskup sá að þessi maður var vel til tignar fallinn vígði hann Arnald til biskups og leysti hann vel af hendi. Síðan kom Arnaldur biskup til konungs og tók hann við honum vel.

Einar hafði haft með sér bjarndýri af Grænlandi og gaf það Sigurði konungi. Fékk hann þar í mót sæmdir og metorð af konungi.

Síðan fóru þeir á einu skipi, biskup og Einar. Á öðru skipi bjóst Arnbjörn austmaður og norrænir menn með honum og vildu og fara út til Grænlands.

Síðan létu þeir í haf og greiðast eigi byrinn mjög í hag þeim og komu þeir biskup og Einar í Holtavatnsós undir Eyjafjöllum á Íslandi. Þá bjó Sæmundur hinn fróði í Odda. Hann fór á fund biskups og bauð honum til sín um veturinn. Biskup þakkaði honum og lést það þiggja mundu. Einar var undir Eyjafjöllum um veturinn.

Það er sagt þá er biskup reið frá skipi og menn hans að þeir áðu á bæ nokkurum í Landeyjum og sátu úti. Þá gekk út kerling ein og hafði ullkamb í hendi.

Hún gekk að einum manni og mælti: «Muntu festa, bokki, tindinn í kambi mínum?»

Hann tók við og kvaðst mundu að gera og tók hnjóðhamar úr mal einum og gerði að og líkaði kerlingu allvel, en það var biskup raunar. Hann var hagur vel og er því frá þessu sagt að hann sýndi lítillæti sitt.

Hann var í Odda um veturinn og fór með þeim Sæmundi allvel. En til þeirra Arnbjarnar spurðist ekki. Ætluðu þeir biskup að hann mundi kominn til Grænlands.

Um sumarið eftir fóru þeir biskup og Einar af Íslandi og komu við Grænland í Eiríksfjörð og tóku menn við þeim allvel. Spurðu þeir þá enn ekki til Arnbjarnar og þótti það undarlegt og liðu svo nokkur sumur. Gerðist nú á umræða mikil að þeir muni týnst hafa.

Biskup setti stól sinn í Görðum og réðst þangað til. Var Einar honum þá mestur styrktarmaður og þeir feðgar. Þeir voru og mest metnir af öllum landsmönnum af biskupi.

2.

Sigurður hét maður og var Njálsson, grænlenskur maður. Hann fór oft á haustum til fangs í óbyggðir. Hann var sægarpur mikill. Þeir voru fimmtán saman.

Þeir komu um sumarið að jöklinum Hvítserk og höfðu fundið nokkurar eldstóar manna og enn nokkurn veiðiskap.

Þá mælti Sigurður: «Hvors eruð þér fúsari, að hverfa aftur eða fara lengra? Er nú eigi sumars mikið eftir en fang orðið lítið.»

Hásetar kváðust fúsari aftur að hverfa og sögðu mannhættu mikla að fara um stórfjörðu undir jöklum.

Hann kvað það satt «en svo segir mér hugur um að eftir muni hið meira fangið ef því náir.»

Þeir báðu hann ráða, kváðust lengi hans forsjá hlítt hafa og þó vel gefist. Honum kveðst meira um að halda fram og svo var gert.

Steinþór hét maður er á skipi þeirra var. Hann tók til orða: «Dreymdi mig í nótt Sigurður,» sagði hann, «og mun eg segja þér drauminn nú. Er vér fórum á fjörðinn þennan hinn mikla þóttist eg kominn í milli bjarga nokkurra og æpa til bjargar mér.»

Sigurður kvað draum meðallagi góðan «og skyldir þú þar eigi björg undir fótum troða og hitta eigi í þann einangur að þú mættir eigi munni halda.»

Steinþór var heldur æðimaður í skaplyndi og óforsjáll.

Og er þeir sækja inn á fjörðinn þá mælti Sigurður: «Hvort er sem mér sýnist að skip sé inn á fjörðinn?»

Þeir kváðu svo vera. Sigurður kvað það tíðindum mundu gegna.

Héldu nú síðan inn að og sáu að skipið var sett upp í einn árós og gert fyrir ofan. Það var mikið hafskip. Síðan gengu þeir á land og sáu skála og tjald skammt frá.

Þá mælti Sigurður að þeir mundu tjalda fyrst «og er nú liðið á dag og vil eg að menn séu kyrrrlátir og varúðgir.»

Og svo gerðu þeir.

Og um morguninn ganga þeir og sjást um. Þeir sjá stokk einn hjá sér og stóð í bol öx og mannshræ hjá. Sigurður kvað þann mann viðinn hoggið hafa og hafa orðið vanmeginn af megri. Síðan gengu þeir að skálanum og sáu þar annað mannshræ. Sigurður kvað þann gengið hafa meðan hann mátti «og munu þessir verið hafa þjónustumenn þeirra er í skálanum eru.»

Öx lá og hjá þessum.

Þá mælti Sigurður: «Það kalla eg ráð að rjúfa skálann og láta leggja út daun af líkum þeim er inni eru og ýldu er lengi mun legið hafa. Og varist menn fyrir að verða því að þess er eigi lítil von að mönnum verði að því mein og mjög er á mót eðli manna þótt líkindi séu á því að menn þessir muni oss ekki illt gera.»

Steinþór kvað slíkt undarlegt að gera sér meira fyrir en þyrfti og gekk á hurðina en þeir rufu skálann.

Og er Steinþór gekk út þá leit Sigurður til hans og mælti: «Allmjög er manninum brugðið.»

Hann tók þegar að æpa og hlaupa en þeir eftir félagar hans. Hann hleypur síðan í hamarrifu nokkura þar er engi mátti að honum komast og þar fékk hann bana. Sigurður kvað hann of berdreyman.

Síðan rufu þeir skálann og gerðu eftir því sem Sigurður mælti og varð þeim ekki mein að. Þeir sáu þar í skálanum menn dauða og fé mikið.

Þá mælti Sigurður: «Það sýnist mér ráð að þér hleypið holdi af beinum þeirra í heitukötlum þeirra er þeir hafa átt og er svo hægra til kirkju að færa. Og er það líkast að Arnbjörn muni hér verið hafa því að skip þetta annað hið fagra er hér stendur á landi hefi eg heyrt að hann hafi átt.»

Það var höfðaskip og steint og mikil gersemi.

Kaupskipið var brotið mjög neðan og kvaðst Sigurður ætla að það mundi að engum nytjum verða. Þeir taka úr sauminn en brenndu skipið og höfðu hlaðna ferjuna úr óbyggðum, eftirbátinn og höfðaskipið.

Þeir komu í byggðina og fundu biskup í Görðum og sagði Sigurður honum tíðindin og fjárfundinn.

«Nú kann eg eigi annað að sjá,» sagði hann, «en það fé þeirra muni best komið er beinum þeirra fylgir og ef eg á nokkuru ráð þá vil eg að svo sé.»

Biskup kvað hann vel hafa með farið og viturlega og það mæltu allir.

Mikið fé fylgdi líkum þeirra. Biskup kvað gersemi mikla vera höfðaskipið. Sigurður kvað og það sannlegast að það færi til staðarins fyrir sálum þeirra. Öðru fé skiptu þeir með sér er fundið höfðu að grænlenskum lögum.

Og er þessi tíðindi komu til Noregs þá spurði það sá maður er Össur hét og var systurson Arnbjarnar. …og fleiri menn voru þeir á því skipi er sína frændur höfðu misst og væntu til greiðslu um féið.

Þeir komu í Eiríksfjörð og sóttu menn til fundar við þá og slógu kaupum. Síðan tóku menn sér vistir. Össur stýrimaður fór í Garða til biskups og var þar um veturinn.

Í Vestribyggð var þá annað kaupskip. Þar var Kolbeinn Þorljótsson, norrænn maður. Hinu þriðja skipi réð sá maður er Hermundur hét og var Koðránsson og Þorgils bróðir hans og höfðu mikla sveit manna.

3.

Um veturinn kom Össur að máli við biskup að hann ætti þangað févon eftir Arnbjörn frænda sinn og beiddi biskup þar gera greiða á bæði fyrir sína hönd og annarra manna. Biskup kvaðst fé tekið hafa eftir grænlenskum lögum eftir slíka atburði, kvaðst þetta eigi gert hafa með einræði sitt, kvað það maklegast að það fé færi þeim til sáluhjápar er aflað höfðu og til þeirrar kirkju er bein þeirra voru að grafin, sagði það manndómsleysi að kalla nú til fjár þess.

Síðan vildi Össur eigi vera í Görðum með biskupi og fór til sveitunga sinna og héldu sig svo allir samt um veturinn.

Um vorið bjó Össur mál til þings þeirra Grænlendinga og var það þing í Görðum. Kom þar biskup og Einar Sokkason og höfðu þeir fjölmenni mikið. Össur kom þar og skipverjar hans.

Og er dómur var settur þá gekk Einar að dómi með fjölmenni og kveðst ætla að þeim mundi erfitt að eiga við útlenda menn í Noregi ef svo skyldi þar. «Viljum vér þau lög hafa er hér ganga,» sagði Einar.

Og er dómurinn fór út náðu Austmenn eigi málum fram að koma og stukku frá. Nú líkar Össuri illa, þykist hafa af óvirðing en fé ekki og varð það hans úrræði að hann fer til þar er skipið er það hið steinda og hjó úr tvö borð, sínu megin hvort upp frá kilinum. Eftir það fór hann til Vestribyggðar og hitti þá Kolbein og Ketil Kálfsson og sagði þeim svo búið.

Kolbeinn kvað ósæmd til tekna enda sagði hann úrræðið eigi gott.

Ketill mælti: «Fýsa vil eg þig að þú ráðist hingað til vor því að eg hefi spurt fastmæli biskups og Einars en þú munt vanfær að sitja fyrir tilstilli biskups en framkvæmd Einars og verum heldur allir saman.»

Hann kvað það og líklegast að það mundi af ráðast.

Þar var í sveit með þeim kaupmönnum Ísa-Steingrímur.

Össur fór þá aftur til Kiðjabergs. Þar hafði hann áður verið.

4.

Biskup varð reiður mjög er hann spurði að spillt var skipinu og kallar til sín Einar Sokkason og mælti: «Nú er til þess að taka er þú hést með svardaga er vér fórum af Noregi að refsa svívirðing staðarins og hans eigna við þá er það gerðu. Nú kalla eg Össur hafa fyrirgert sér er hann hefir spillt eign vorri og sýnt oss í öllum hlutum óþekktarsvip. Nú er ekki að dyljast við að mér líkar eigi svo búið og eg kalla þig eiðrofa ef kyrrt er.»

Einar svarar: «Eigi er þetta vel gert herra en mæla munu það sumir að nokkur vorkunn sé á við Össur, svo miklu sem hann er sviptur, þótt eigi sé vel í höndum haft þá er þeir sáu góða gripi er frændur þeirra höfðu átt og náðu eigi. Og veit eg varla hverju eg skal hér um heita.»

Þeir skildu fálega og var reiðisvipur á biskupi.

Og þá er menn sóttu til kirkjumessu og til veislu á Langanes var biskup þar og Einar að veislunni. Margt fólk var komið til tíða og söng biskup messu. Þar var kominn Össur og stóð undir kirkju sunnan og við kirkjuvegginn og talaði sá maður við hann er Brandur hét og var Þórðarson, heimamaður biskups.

Þessi maður bað Össur vægja til við biskup «og vænti eg,» sagði hann, «að þá muni vel duga en nú agir við svo.»

Össur kvaðst ekki fá það af sér svo illa sem við hann var búið. Og áttu þeir nú um þetta að tala.

Þá gengu þeir biskup frá kirkju og heim til húsa og var Einar þar í göngu.

Og er þeir komu fyrir skáladyrnar þá snerist Einar frá fylgdinni og gekk einn í brott til kirkjugarðsins og tók öxi úr hendi tíðamanni einum og gekk suður um kirkjuna. Össur stóð þar og studdist á öxi sína. Einar hjó hann þegar banahögg og gekk inn eftir það og voru þá borð uppi. Einar steig undir borðið gegnt biskupi og mælti ekki orð.

Síðan gekk hann Brandur Þórðarson í stofuna og fyrir biskup og mælti: «Er nokkuð tíðinda sagt yður herra?»

Biskup kvaðst eigi spurt hafa «eða hvað segir þú?»

Hann svarar: «Sígast lét nú einn hér úti.»

Biskup mælti: «Hver veldur því eða hver er fyrir orðinn?»

Brandur kvað þann nær er frá kunni að segja.

Biskup mælti: «Veldur þú Einar líftjóni Össurar?»

Hann svarar: «Því veld eg víst.»

Biskup mælti: «Eigi eru slík verk góð en þó er vorkunn á.»

Brandur bað að þvo skyldi líkinu og syngja yfir. Biskup kvað mundu gefa tóm til þess og sátu menn undir borðum og fóru að öllu tómlega og fékk biskup svo fremi menn til að syngja yfir líkinu en Einar bað þess og kvað það sama að gera það með sæmd.

Biskuð kvaðst ætla að það mun réttara að grafa hann eigi að kirkju «en þó við bæn þína skal hann hér jarða að þessi kirkju að eigi er heimilisprestur.»

Og fékk hann eigi til fyrr kennimenn yfir að syngja en áður var um lík búið.

Þá mælti Einar: «Nú hefir orðið í stökki brang og ekki lítt af yðru tilstilli en hér eiga þó hlut í ofsamenn miklir og get eg að stórir úfar rísi á með oss.»

Biskup kvaðst vænta að menn munu þessum ofsa af sér hrinda en unna sæmdar fyrir mál þetta og umdæmis ef eigi væri með ofsa að gengið.

5.

Tíðindi þessi spurðust og fréttu það kaupmenn.

Þá mælti Ketill Kálfsson: «Ekki fór fjarri getu minni að honum mundi höfuðgjarnt verða.»

Maður hét Símon, frændi Össurar, mikill maður og sterkur. Ketill kvað vera mega ef Símon fylgdi atgervi sinni «að hann mun muna dráp Össurar frænda síns.»

Símon kvaðst þar eigi mundu ferleg orð um hafa.

Ketill lét búa skip þeirra og sendi menn á fund Kolbeins stýrimanns og sagði honum tíðindin «og segið honum svo að eg skal fara með máli á hendur Einari því mér eru kunnig grænlensk lög og er eg búinn til við þá. Höfum vér og mikinn liðskost ef að oss kemst.»

Símon kvaðst vilja Ketils ráðum fram fara. Síðan fór hann og hitti Kolbein, sagði honum vígið og þar með orðsending Ketils og þeir skyldu snúast til liðveislu við þá úr Vestribyggð og sækja til þings þeirra Grænlendinga. Kolbeinn kvaðst koma mundu að vissu ef hann mætti og kvaðst vilja að Grænlendingum yrði það eigi hagkeypi að drepa menn þeirra.

Ketill tók þegar mál af Símoni og fór með nokkura sveit manna en sagði að þeir kaupmenn skyldu halda skjótt eftir «og hafið varning með yður.»

Kolbeinn fór þegar er honum komu þessi orð, bað og félaga sína fara til þings og kveðst þá hafa svo mikla sveit að óvíst væri að Grænlendingar sætu yfir hlut þeirra. Nú hittust þeir Kolbeinn og Ketill og báru ráð sín saman. Hvortveggji þeirra var gildur maður. Nú fóru þeir og bægði þeim veður og komast þó fram og höfðu mikla sveit manna en þó minni en þeir hugðu.

Nú komu menn til þings. Sokki var þar kominn Þórisson. Hann var vitur maður og var þá gamall og mjög tekinn til að gera um mál manna. Hann gengur á fund þeirra Kolbeins og Ketils og kvaðst vilja leita um sættir.

«Vil eg bjóðast til,» segir hann, «að gera í milli yðvar. Og þótt mér sé meiri vandi á við Einar son minn þá skal það þó um gera er mér og öðrum vitrum mönnum líst nær sanni.»

Ketill kvaðst ætla að þeir mundu málum fram halda til málsfyllingar en fyrirkveðast eigi að taka sættir «en þó er ört að gengið við oss en höfum ekki vanist því hér til að minnka vorn hlut.»

Sokki kveðst ætla að þeir munu eigi jafnt að vígi standa og kvað óvíst að þeir fengju meiri sæmd þó hann dæmdi eigi.

Kaupmenn gengu að dómi og hafði Ketill mál frammi á hönd Einari.

Það mælti Einar: «Það mun víða spyrjast ef þeir bera oss hér málum» og gekk að dóminum og hleypir upp og fengu þeir eigi haldið.

Þá mælti Sokki: «Kostur skal enn þess er eg bauð, að sættast og geri eg um málið.»

Ketill kvaðst ætla að það mundi nú ekki verða «er þú leggur til yfirbóta það er þó er hinn sami ójafnaður Einars um þetta mál» og skildu að því.

En því komu kaupmenn eigi úr Vestribyggð til þings að þá var andviðri er þeir voru búnir með tveim skipum.

En að miðju sumri skyldi sætt gera á Eiði. Þá komu þeir kaupmenn vestan og lögðu að við nes nokkuð og hittust þeir þá allir saman og áttu stefnur.

Þá mælti Kolbeinn að eigi skyldi svo nær hafa gengið um sættirnar ef þeir hefðu allir samt verið «en það þykir mér nú ráð að vér förum allir til þessa fundar með slíkum föngum sem til eru.»

Og svo var að þeir fóru og leyndust í leynivogi einum skammt frá biskupsstólnum.

Það bar saman að biskupsstólinum, að hringdi til hámessu og það að Einar Sokkason kom. Og er kaupmennirnir heyrðu þetta þá sögðu þeir að mikla skyldi gera virðing til Einars að hringja skal í mót honum og kváðu slík mikil endemi og urðu illa við.

Kolbeinn mælti: «Verðið eigi illa við þetta því að svo mætti að berast að þetta yrði að líkhringingu áður kveld kæmi.»

Nú komu þeir Einar og settust niður í brekku einni. Sokki lét fram gripi til virðingar og þá er til gjalds voru ætlaðir.

Ketill mælti: «Það vil eg að við Hermundur Koðránsson virðum gripina.»

Sokki kvað svo vera skyldu.

Símon frændi Össurar sýndi á sér óþekktarsvip og reikaði hjá meðan gripagjaldið var sett. Síðan var fram borin spangabrynja ein forn.

Símon mælti þá: «Svívirðlega er slíkt boðið fyrir slíkan mann sem Össur var» og kastaði brynjunni á völlinn á burt og gekk upp að þeim er þeir sátu í brekkunni.

Og er það sáu þeir Grænlendingar þá spretta þeir upp og horfðu forbrekkis og í móti honum Símoni. Og því næst gekk Kolbeinn upp hjá þeim er þeir horfðu allir frá og slæst á bak þeim og fór einn frá sínum mönnum. Og var það jafnsnemma að hann komst á bak Einari og hjó með öxi milli herða honum og Einars öx kom í höfuð Símoni og fengu báðir banasár.

Einar mælti er hann féll: «Slíks var að von.»

Síðan hljóp Þórður fóstbróðir Einars að Kolbeini og vildi höggva hann en Kolbeinn snaraðist við honum og stakk fram öxarhyrnunni og kom í barkann Þórði og hafði hann þegar bana. Síðan slær í bardaga með þeim. Biskup sat hjá Einari og andaðist hann í knjám honum. Steingrímur hét maður er það mælti að þeir skyldu gera svo vel að berjast eigi og gekk á milli með nokkura menn en hvorirtveggju voru svo óðir að Steingrímur var lagður sverði í gegnum í þessi hríð. Einar andaðist uppi á brekkunni við búð Grænlendinga.

Og nú urðu menn sárir mjög og komust þeir Kolbeinn til skips með þrjá sína menn vegna og fóru síðan yfir Einarsfjörð til Skjálgsbúða. Þar voru kaupskipin og voru þá mjög í búnaði.

Kolbeinn kvað í hafa gerst nokkura róstu «og vil eg ætla að Grænlendingar uni nú eigi betur við en áður.»

Ketill mælti: «Sannyrði gafst þér Kolbeinn,» sagði hann, «að vér mundum heyra líkhringinguna áður vér færum í burt og ætla eg að hann Einar sé dauður borinn til kirkju.»

Kolbeinn kvaðst heldur þannig hafa að stutt.

Ketill mælti: «Þess er von að Grænlendingar muni sækja á vorn fund og kalla eg ráð að menn haldi á búnaði sínum eftir föngum og séu allir á skipum um nætur.»

Og svo gerðu þeir.

Sokki harmaði mjög þessi tíðindi og bað menn fulltingis að veita sér vígsgengi.

6.

Hallur hét maður. Hann bjó að Sólarfjöllum, vitur maður og góður bóndi. Hann var í liði með Sokka og kom síðast með sínu liði.

Hann mælti til Sokka: «Ekki vænleg líst mér þín ætlan að leggja smáskipum að stórskipum við slíkan viðbúnað sem eg hygg að þeir munu hafa. En eg veit eigi hversu traust lið er þú hefir en allir vaskir menn munu vel gefast en hinir munu hlífast meir, og verða höfuðsmenn fyrir það uppgefnir og horfir þá enn þunglegar vor málahlutur en áður. Nú sýnist mér ráð ef menn skulu að leggja að eiðar fari fram að hver maður skuli annaðhvort hér falla eða hafa sigur.»

En við þessu orð Halls dignuðu menn mjög.

Sokki mælti: «Eigi munum vér þó skilja við þetta, að ósett sé málunum.»

Hallur kvaðst mundu leita um sættir milli þeirra og kallaði á kaupmenn og mælti: «Hvort skal mér fritt að ganga á fund yðvarn?»

Þeir Kolbeinn og Ketill svara að honum skyldi fritt. Síðan hitti hann þá og lét nauðsyn að málum væri sett eftir slík stórvirki. Þeir kváðust nú búnir við hvoru sem aðrir vildu, kváðu af þeim landsmönnum allan þennan ójafnað staðið hafa «en nú er þú sýnir svo mikla góðgirnd þá unum vér því að þú gerir í milli vor.»

Hann kvaðst eftir því gera mundu og dæma er honum sýndist réttlegast hversu sem hvorum líkaði. Síðan var þetta fyrir Sokka borið. Hann kveðst og mundu una umdæmi Halls. Kaupmenn skyldu um nætur að búnaði sínum vera og kváðu Sokka ekki annað líka en þeir yrðu í burtu sem fyrst «en ef þeir seinka búnað sinn og gera mér skapraun í því þá er vís von að þeir skulu bótalausir ef þeir verða teknir.»

Nú skildu þeir að því og var á sáttarfund kveðið.

Ketill mælti:» Ekki horfir skjótlega búnaður vor en vistföng þverra heldur og er það mitt ráð að leita eftir vistunum og veit eg hvar sá maður býr er mikinn mat á og kalla eg ráð að sækja eftir.»

Þeir kváðust þess albúnir.

Síðan hlupu þeir upp eina nátt frá skipum, þrír tigir manna saman, allir vopnaðir, og komu að bænum og var þar autt allt. Þórarinn hét bóndi sá er þar bjó.

Ketill mælti: «Eigi hefir mitt ráð vel gefist» og fara síðan í burt frá bænum og ofan á leið til skipa og var þar hrísótt er þeir fóru.

Þá mælti Ketill: «Syfjar mig,» sagði hann, «og verð eg að sofa.»

Þeir kváðu það ekki mjög ráðlegt en þó lagðist hann niður og sofnaði en þeir sátu yfir.

Litlu síðar vaknaði hann og mælti: «Mart hefir fyrir mig borið. Hvað mun varða þótt vér kippum upp hríslu þessi er hér er undir höfði mér?»

Þeir kipptu upp hríslunni og var þar undir jarðhús mikið.

Ketill mælti: «Vitum fyrst hvað hér er fanga.»

Þeir fundu þar sex tigi sláturgripa og tólf vættir smjörs, skreið mikla. «Vel er það,» sagði Ketill, «að eg hefi eigi villt upp borið fyrir yður.»

Nú fara þeir til skips með feng sinn.

Nú líður að sáttarfundinum og komu hvorirtveggju til þess fundar, kaupmenn og landsmenn.

Þá mælti Hallur: «Sú er sáttargerð mín yðvar í milli að eg vil að á standist víg Össurar og Einars en fyrir manna minna mun koma sektir Austmanna, að þeir skulu hér ekki eiga vist né væri. Þau víg skulu og jöfn vera, Steingríms bónda og Símonar, Kráks austmanns og Þorfinns Grænlendings, Víghvats austmanns og Bjarnar Grænlendings, Þóris og Þórðar. Nú er einn óbættur vor maður er Þóarinn heitir, ómegðarmaður. Hann skal fé bæta.»

Sokki hvað sér þungt gerðir líka og svo öðrum Grænlendingum er þannig fór um mannjafnað. Hallur kvaðst ætla að þar muni þó staðar nema hans ummæli og við það skildu þeir.

Síðan rak ís að og þakti alla fjörðu og hugðu Grænlendingar þá gott til ef þeir mættu taka þá og þeir færu eigi svo burt sem mælt var. En við það sjálft að mánaðarmótið kom þá rak í burt allan ísinn og gaf kaupmönnum burt af Grænlandi og skildu við það.

Þeir komu við Noreg. Kolbeinn hafði haft einn hvítabjörn af Grænlandi og fór með dýrið á fund Haralds konungs gilla og gaf honum og tjáði fyrir konungi hversu þungs hlutar Grænlendingar voru af verðir og færði þá mjög í róg. En konungur spurði annað síðar og þótti honum Kolbeinn hafa fals fyrir sig borðið og komu engi laun fyrir dýrið. Síðan hljóp Kolbeinn í flokk með Sigurði slembidjákn og gekk inn að Haraldi konungi gilla og veitti honum áverka. Og síðan er þeir fóru fyrir Danmörk og sigldu mjög en Kolbeinn var á eftirbáti en veður hvasst þá sleit frá bátinn og drukknaði Kolbeinn.

En þeir Hermundur komu til Íslands til ættjarða sinna.

Og lýkur þar þessi sögu.

Текст с сайта Netútgáfan