Magnúss saga blinda og Haralds gilla

1. Upphaf Magnúss blinda

Magnús sonur Sigurðar konungs var tekinn til konungs í Ósló yfir land allt svo sem alþýða hafði svarið Sigurði konungi. Gerðust þá þegar margir menn handgengnir og svo lendir menn.

Magnús var hverjum manni fríðari er þá var í Noregi. Hann var maður skapstór og grimmur, atgervimaður var hann mikill en vinsæld föður hans heimti hann mest til alþýðu vináttu. Hann var drykkjumaður mikill, fégjarn, óþýður og ódæll.

Haraldur gilli var maður léttlátur, kátur, leikinn, lítillátur, ör svo að hann sparði ekki við vini sína, ráðþægur svo að hann lét aðra ráða með sér öllu því er vildu. Slíkt allt dró honum til vinsælda og orðlofs. Þýddust hann þá margir ríkismenn engum mun síður en Magnús.

Haraldur var þá í Túnsbergi er hann spurði andlát Sigurðar konungs bróður síns. Átti hann þá þegar stefnur við vini sína og réðu þeir það af að eiga Haugaþing þar í býnum. Á því þingi var Haraldur til konungs tekinn yfir hálft land. Voru þá kallaðir það nauðungareiðar er hann hafði svarið föðurleifð sína af hendi sér. Tók Haraldur sér þá hirð og gerði lenda menn. Dróst honum brátt lið engum mun minna en Magnúsi konungi. Fóru þá menn í milli þeirra og stóð svo sjö nætur. En fyrir því að Magnús fékk lið miklu minna þá sá hann engan annan sinn kost en skipta ríkinu við Harald. Var þá svo skipt að hálft ríki skyldi hvor þeirra hafa við annan, það er Sigurður konungur hafði haft, en skip og borðbúnað og gersemar og allt lausafé það er Sigurður konungur hafði átt hafði Magnús konungur, og undi hann þó verr sínum hluta, og réðu þó landi nokkura hríð í friði og hugðu þó mjög sér hvorir.

Haraldur konungur gat son við Þóru er Sigurður hét. Þóra var dóttir Guttorms grábarða. Haraldur konungur fékk Ingiríðar dóttur Rögnvalds. Hann var sonur Inga konungs Steinkelssonar.

Magnús konungur átti Kristínu dóttur Knúts lávarðar, systur Valdimars Danakonungs. Magnús varð henni ekki unnandi og sendi hana aftur suður til Danmerkur og gekk honum allt síðan þyngra. Fékk hann óþokka mikinn af frændum hennar.

2. Frá her Haralds konungs og Magnúss konungs

Þá er þeir höfðu tveir verið konungar þrjá vetur, Magnús konungur og Haraldur konungur, sátu þeir hinn fjórða vetur báðir norður í Kaupangi og veitti hvor öðrum heimboð og var þó æ við bardaga búið með liðinu.

En að vori sækir Magnús með skipaliði suður fyrir land og dró lið að sér, allt það er hann fékk, leitar þá þess við vini sína ef þeir vilji fá honum styrk til þess að taka Harald af konungdóminum og miðla honum af ríki slíkt sem honum sýndist, tjáir það fyrir þeim að Haraldur hafði svarið ríkið af hendi sér. Fékk Magnús konungur til þess samþykki margra ríkismanna. Haraldur fór til Upplanda og hið efra austur til Víkur. Dró hann og lið að sér þá er hann spurði til Magnúss konungs. Og hvar sem þeir fóru hjuggu hvorir bú fyrir öðrum og svo drápust þeir menn fyrir. Magnús konungur var miklu fjölmennari því að hann hafði haft allan þorra lands til liðsafnaðar. Haraldur var í Vík austan fjarðar og dró að sér lið og tók þá hvor fyrir öðrum bæði menn og fé. Þar var þá með Haraldi Kriströður, bróðir hans sammæðri, og lendir menn voru margir með honum og þó miklu fleiri með Magnúsi konungi.

Haraldur konungur var með sitt lið þar sem heitir Foss í Ranríki og fór þaðan út til sjávar. Lafransvökuaftan mötuðust þeir að náttverði þar sem heitir Fyrileif. En varðmenn voru á hestum og héldu hestvörð alla vega frá bænum. Og þá verða varðmenn varir við lið Magnúss konungs að þeir fóru þá að bænum og hafði Magnús konungur nær sex tigum hundraða manna en Haraldur hafði fimmtán hundruð manna. Þá komu varðmenn og báru njósn Haraldi konungi og segja að lið Magnúss konungs var þá komið að bænum.

Haraldur svarar: «Hvað mun Magnús konungur frændi vilja? Eigi mun það að hann muni vilja berjast við oss.»

Þá segir Þjóstólfur Álason: «Herra, svo munuð þér verða ráð að gera fyrir yður og liði yðru sem Magnús konungur muni hafa til þess her saman dregið í allt sumar að hann muni ætla að berjast þegar er hann finnur yður.»

Þá stóð konungur upp og mælti við sína menn, bað þá taka vopn sín: «Ef Magnús vill berjast þá skulum vér og berjast.»

Þar næst var blásið og gekk lið Haralds konungs allt út frá býnum í akurgerði nokkuð og settu þar upp merki sín. Haraldur konungur hafði tvær hringabrynjur en Kriströður bróðir hans hafði enga brynju, er kallaður var hinn hraustasti maður. Þá er Magnús konungur og hans menn sáu lið Haralds konungs þá fylktu þeir sínu liði og gerðu svo langa fylkingina að þeir skyldu kringja allt um lið Haralds konungs.

Svo segir Halldór skvaldri:

Magnús fékk þar miklu,
margs gengis naut hann, lengri,
valr nam völl að hylja
varmr, fylkingararma.

3. Orusta á Fyrileif

Magnús konungur lét bera fyrir sér krossinn helga í orustu. Varð þar orusta mikil og hörð. Kriströður konungsbróðir hafði gengið með sína sveit í miðja fylking Magnúss konungs og hjó til beggja handa og stukku fyrir honum menn tvo vega. Og einnhver búandi ríkur, sá er verið hafði í liði Haralds konungs, var staddur á bak Kriströði. Hann reiddi upp kesjuna tveim höndum, lagði í gegnum herðarnar og kom fram í brjóstið og féll Kriströður þar. Þá mæltu margir er hjá stóðu hví hann gerði þetta hið illa verk.

Hann svaraði: «Nú veit hann það er þeir hjuggu bú mitt í sumar og tóku allt það er heima var en höfðu mig nauðgan í her með sér. Slíkt hugði eg honum fyrr ef eg fengi föng á.»

Eftir það kom flótti í lið Haralds konungs og flýði hann sjálfur og allt lið hans. Þá var fallið mart af liði Haralds konungs. Þar fékk banasár Ingimar af Aski Sveinsson, lendur maður úr liði Haralds konungs og nær sex tigum hirðmanna.

Haraldur konungur flýði þá austur í Vík til skipa sinna og fór síðan til Danmerkur á fund Eiríks konungs eimuna og sótti hann að trausti. Þeir fundust suður á Sjálandi. Eiríkur konungur tók vel við honum og mest fyrir því að þeir höfðu svarist í bræðralag. Hann veitti Haraldi að veislu og yfirferð Halland og gaf honum átta langskip reiðalaus. Eftir það fór Haraldur konungur norður um Halland og þá kom lið til hans.

Magnús konungur lagði land allt undir sig eftir orustu þessa. Grið gaf hann öllum mönnum er sárir voru og lét græða sem sína menn og kallaði sér þá land allt. Hann hafði þá allt hið besta mannval er í var landinu. En er þeir réðu ráðum sínum þá vildi Sigurður Sigurðarson og Þórir Ingiríðarson og allir hinir vitrustu menn að þeir héldu flokkinum í Víkinni og biðu þar ef Haraldur leitaði sunnan. Magnús konungur tók hitt með einræði sínu að hann fór norður til Björgynjar og settist þar um veturinn en lét lið fara frá sér en lenda menn til búa sinna.

4. Dauði Ásbjarnar og Nereiðs

Haraldur konungur kom til Konungahellu með lið það er honum hafði fylgt úr Danmörk. Þá höfðu þeir þar safnað fyrir, lendir menn og býjarmenn, og settu fylking upp frá býnum. En Haraldur konungur gekk af skipum sínum og gerði menn til bóndaliðs og beiddi af þeim að þeir verðu honum eigi vígi land sitt og lést eigi mundu meira beiðast en hann átti að réttu að hafa og fóru menn milli. Um síðir gáfu bændur upp safnaðinn og gengu til handa Haraldi konungi. Þá gaf Haraldur til liðs sér lén og veislur lendum mönnum en réttarbætur bóndum þeim er í lið snerust með honum. Eftir það safnaðist mikið fólk til Haralds konungs.

Fór hann austan um Víkina og gaf góðan frið öllum mönnum nema mönnum Magnúss konungs. Þá lét hann ræna eða drepa hvar sem hann stóð þá. Og þá er hann kom austan til Sarpsborgar þá tók hann þar tvo lenda menn Magnúss konungs, Ásbjörn og Nereið bróður hans, og bauð þeim kost að annan skyldi hengja en öðrum steypa í fossinn Sarp og bað þá sjálfa kjósast að. Ásbjörn kaus að fara í Sarp því að hann var eldri en sá þótti dauðinn enn grimmlegri og var svo gert.

Þess getur Halldór skvaldri:

Ásbjörn varð, sá er orðum
illa hélt við stilli,
gramr fæðir val víða
vígs, í Sarp að stíga.
Nereið lét gramr á grimman
grandmeið Sigars fjanda,
húsþinga galt, hengja,
hrannbáls glötuðr mála.

Eftir það fór Haraldur konungur norður til Túnsbergs og var þar vel við honum tekið. Safnaðist þar og til hans her mikill.

5. Ráðagerð

Magnús konungur sat í Björgyn og spurði þessi tíðindi. Þá lét hann kalla á tal við sig höfðingja þá er voru í býnum og spurði ráðs hvernug með skyldi fara.

Þá svaraði Sigurður Sigurðarson: «Hér kann eg gott ráð til leggja. Látið þér skipa skútu með góðum drengjum og fá til að stýra mig eða annan lendan mann að fara á fund Haralds konungs, frænda þíns, og bjóða honum sættir eftir því sem réttlátir menn gera í milli ykkar, þeir sem eru í landinu, og það að hann skal hafa ríki hálft við yður. Og þykir mér líklegt með orðafulltingi góðra manna að Haraldur konungur þekkist þetta boð og verði þá sætt milli yðar.»

Þá svaraði Magnús konungur: «Eg vil og eigi þenna kost eða hvað stoðar þá það er vér unnum allt ríkið undir oss í haust ef vér skulum nú miðla hálft ríkið? Og gefið þar til annað ráð.»

Þá svaraði Sigurður Sigurðarson: «Svo sýnist mér sem lendir menn þínir setjist nú heima og vilji eigi koma til þín, þeir er í haust báðu þig heimleyfis. Gerðir þú þá mjög móti mínum ráðum er þú dreifðir þá svo mjög því fjölmenni er vér höfðum, því að eg þóttist vita að þeir Haraldur mundu leita aftur í Víkina þegar er þeir spyrðu að þar væri höfðingjalaust. Nú er til annað ráð, og er það illt, og kann þó vera að hlýði. Ger til gesti og annað lið með þeim, lát fara heim að þeim lendum mönnum og drepa þá er nú vilja eigi við skipast nauðsyn þína en gef eignir þeirra þeim nokkurum er yður eru öruggir þótt áður séu eigi mikils verðir. Lát þá keyra upp fólkið. Hafið eigi síður illa menn en góða. Farið síðan austur í móti Haraldi með það lið er þér fáið og berjist.»

Konungur svaraði: «Óvinsælt mun það verða að láta drepa mart stórmenni en hefja upp lítilmenni. Hafa þeir oft eigi síður brugðist, en verr skipað landið. Vil eg enn heyra fleiri ráð þín.»

Sigurður svaraði: «Vandast mér nú ráðagerðirnar er þú vilt eigi sættast og eigi berjast. Förum vér þá norður til Þrándheims þannug sem landsmegin er mest fyrir oss og tökum lið það allt um leið er vér fáum. Kann þá vera að þeim Elfargrímum leiðist að rekast eftir oss.»

Konungur svaraði: «Ekki vil eg flýja fyrir þeim er vér eltum í sumar og ráð mér betra ráð.»

Þá stóð Sigurður upp og bjóst braut að ganga og mælti: «Eg skal þá ráða þér það er eg sé að þú vilt hafa og framgengt mun verða. Sit hér í Björgyn þar til er Haraldur kemur með múga hers og munuð þér annaðhvort verða að þola bana eða skömm.»

Og var Sigurður ekki lengur á þessu tali.

6. Frá liði Haralds konungs

Haraldur konungur fór austan með landi og hafði allmikinn her. Var þessi vetur kallaður Múgavetur. Haraldur kom til Björgynjar jólaaftan og lagði liðinu í Flóruvoga og vildi eigi berjast um jólin fyrir helgi sakir.

En Magnús konungur lét búast við í býnum. Hann lét reisa valslöngu út í Hólmi og hann lét gera járnrekendur og sumt af viðum og leggja um þveran voginn yfir frá konungsgarði. Hann lét slá herspora og kasta yfir á Jónsvöllu og eigi meir en þrjá daga var heilagt haldið um jólin að eigi væri smíðað.

En affaradag jólanna þá lét Haraldur konungur blása til brautlögu liðinu. Níu hundruð manna höfðu safnast til Haralds konungs um jólin.

7. Tekinn Magnús konungur

Haraldur konungur hét á hinn helga Ólaf konung til sigurs sér, að láta gera Ólafskirkju þar í býnum með sínum eins kostnaði.

Magnús konungur setti fylking sína út í Kristskirkjugarði en Haraldur reri fyrst að Norðnesi. En er þeir Magnús konungur sáu það sneru þeir inn í býinn og inn í vogsbotn. En er þeir fóru inn um stræti þá hljópu margir býjarmenn inn í garða og til heimilis síns en þeir er yfir gengu á völluna hljópu á hersporana. Þá sáu þeir Magnús að Haraldur hafði róið öllu liðinu yfir í Hegravík og gengu þar upp á bakka fyrir ofan býinn. Þá sneri Magnús konungur út eftir stræti. Flýði þá liðið frá honum, sumt í fjallið upp, sumt upp um Nunnusetur, sumt í kirkjur eða falst í öðrum stöðum. Magnús konungur gekk út á skip sitt en þeim var engi kostur brott að fara þar er járnrekendur gættu fyrir utan. Fylgdi og fátt manna konungi. Voru þeir fyrir því til einskis færir.

Svo segir Einar Skúlason í Haraldsdrápu:

Luku vog viku,
vara kostr fara
brýns, Björgynjar,
braut háskrautum.

Litlu síðar komu menn Haralds konungs út á skipin. Var þá handtekinn Magnús konungur en hann sat aftur í fyrirrúmi á hásætiskistu og með honum Hákon faukur móðurbróðir hans, hinn vænsti maður og kallaður eigi vitur, og Ívar Össurarson og margir aðrir vinir hans voru þá handteknir en sumir þegar drepnir.

8. Dauði Reinalds biskups

Haraldur konungur átti þá stefnur við ráðuneyti sitt og beiddi þá ráðagerðar með sér. Og að lyktum þeirrar stefnu fengust þeir úrskurðir að taka Magnús svo frá ríki að hann mætti eigi kallast konungur þaðan í frá. Var hann þá seldur í hendur konungsþrælum en þeir veittu honum meiðslur, stungu út augu hans og hjuggu af annan fót en síðast var hann geltur. Ívar Össurarson var blindaður. Hákon faukur var drepinn.

Eftir þetta lagðist land allt undir ríki Haralds konungs. Gerðist þá mjög eftir leitað hverjir mestir höfðu verið vinir Magnúss konungs eða hverjir mest mundu vita féhirslur hans eða gersemar. Krossinn helga hafði Magnús haft með sér síðan er Fyrileifarorusta hafði verið og vildi hann ekki til segja hvar þá var kominn.

Reinaldur biskup í Stafangri var enskur og fégjarn mjög kallaður. Hann var kær vinur Magnúss konungs og þótti mönnum það líklegt að honum mundu fengin til varðveislu stórfé og dýrgripir. Voru menn sendir eftir honum og kom hann til Björgynjar. Voru þá kennsl þessi borin á hendur honum en hann synjaði og bauð skírslur fyrir. Haraldur vildi ekki það. Hann lagði á biskup að gjalda sér fimmtán merkur gulls. Biskup sagði að hann vill eigi svo vesla stað sinn, vill heldur hætta lífi sínu. Síðan hengdu þeir Reinald biskup út í Hólmi við valslönguna.

En er hann gekk til gálgans hristi hann bótann af fæti sér og mælti og sór um: «Eigi veit eg meira fé Magnúss konungs en það sem þar er í bótanum.»

Þar var í einn gullhringur. Reinaldur biskup var jarðaður í Norðnesi að Mikjálskirkju og var þetta verk mjög lastað.

Síðan var Haraldur einn konungur yfir Noregi meðan hann lifði.

9. Undur í Konungahellu

Fimm vetrum eftir andlát Sigurðar konungs urðu tíðindi mikil í Konungahellu. Þeir voru þar þá sýslumenn Guttormur, sonur Haralds flettis, og Sæmundur húsfreyja. Hann átti Ingibjörgu dóttur Andréss prests Brúnssonar, þeirra synir Páll flípur og Gunni físs. Ásmundur hét sonur Sæmundar laungetinn. Andrés Brúnsson var mikill merkismaður. Hann söng að Krosskirkju. Solveig hét kona hans. Með þeim var þá að fóstri og uppfæðslu Jón Loftsson og var ellefu vetra gamall. Loftur prestur Sæmundarson faðir Jóns var og þar. Dóttir Andréss prests og Solveigar hét Helga er Einar átti.

Það barst að í Konungahellu drottinsnótt hina næstu eftir páskaviku að gnýr varð mikill úti á strætum um allan býinn sem þá er konungur fór með alla hirð sína og hundar létu svo illa að eigi mátti varðveita og brutust út, en allir er út komu urðu galnir og bitu allt það er fyrir varð, menn og fénað. En allt það er bitið var og blóðið kom á, þá ærðist, og allt það er hafanda var, lét burð sinn og ærðist. Þessi minning var nálega hverja nótt frá páskum til uppstigningardags.

Menn óttuðust mjög undur þessi og réðust margir í brott og seldu garða sína, fóru í hérað eða í aðra kaupstaði og þótti þeim öllum það mest vert er vitrastir voru og hræddust það sem var, að þetta mundi vera fyrir miklum stórtíðindum, þeim er þá voru enn eigi fram komin.

En Andrés prestur talaði þá langt og snjallt hvítsunnudag og veik hann svo til lykta ræðu sinni að hann ræddi um vanda bæjarmanna og bað menn herða hugi sína og eyða eigi þann hinn dýrlega stað, hafa heldur gæslu yfir sér og ætla ráð sín og gæta sín við öllu því er við mætti komast, við eldi eða ófriði, og biðja sér miskunnar til guðs.

10. Upphaf orustu í Konungahellu

Úr býnum bjuggust þrettán byrðingar og ætluðu til Björgynjar og týndust ellefu með mönnum og fé og öllu því er á var en hinn tólfta braut og héldust mennirnir en féið týndist. Þá fór Loftur prestur til Björgynjar og hélt hann heilu. Lafransvökudag týndust byrðingarnir.

Eiríkur Danakonungur og Össur erkibiskup sendu orð báðir til Konungahellu og báðu þá varast um stað sinn, sögðu að Vindur höfðu úti her mikinn og herjuðu víða á kristna menn og höfðu jafnan sigur. Býjarmenn lögðu of lítinn hug á sitt mál, afræktust og óminntust þess að meir er lengra leið frá þeirri ógn er yfir hafði komið.

Lafransvökudag þá er talað var fyrir hámessu kom Réttibur Vindakonungur til Konungahellu og hafði hálft sétta hundrað Vindasnekkjur en á hverri snekkju voru menn fjórir tigir og fjórir og tveir hestar. Dúnímis hét systurson konungs en Únibur hét höfðingi einn er réð fyrir miklu liði. Þeir tveir höfðingjar reru upp með herinum sumum eystri kvísl um Hísing og komu svo ofan að býnum en sumu liðinu lögðu þeir upp vestri kvísl til býjarins. Þeir lögðu að landi út við stikin og létu þar upp hestaliðið og riðu þar um Bratsás og svo upp um býinn.

Einar Andréssmágur bar þessi tíðindi upp til Kastalakirkju því að þar var býjarlýðurinn og hafði sótt til hámessu og kom Einar þá er Andrés prestur talaði. Einar segir mönnum að her fór að bænum með fjölda skipa en sumt liðið reið ofan um Bratsás. Þá mæltu margir að þar mundi vera Eiríkur Danakonungur og væntu menn sér griða af honum. Þá hljóp fólkið allt ofan í býinn til fjár síns og vopnuðust og gekk ofan á bryggjur, sáu þá þegar að ófriður var og óflýjandi her.

Austurfararskip níu flutu í ánni fyrir bryggjum er kaupmenn áttu. Vindur lögðu þar fyrst að og börðust við kaupmennina. Kaupmenn vopnuðust og vörðust lengi, vel og drengilega. Varð þar orusta hörð áður kaupmenn yrðu unnir. Í þeirri hríð létu Vindur hálft annað hundrað skipa að öllu liði. Þá er bardaginn var sem mestur stóðu bæjarmenn á bryggjum og skutu á heiðingja en er orusta rénaði flýðu býjarmenn upp í bæinn og síðan til kastala allt fólk og höfðu menn með sér dýrgripi sína og allt fé það er með mátti komast. Solveig og dætur hennar og tvær konur aðrar gengu upp á land.

Þá er Vindur höfðu unnið kaupskipin gengu þeir á land og könnuðu lið sitt og birtist þá skaði þeirra. Hljópu þeir sumir í býinn, sumir á kaupskipin og tóku fé allt það er þeir vildu með sér hafa. Því næst lögðu þeir eld í býinn og brenndu hann allan og svo skipin. Eftir það sóttu þeir öllu liðinu að kastalanum og skipuðu til atsóknar.

11. Orusta önnur

Réttibur konungur lét bjóða þeim er í kastalanum voru að ganga út og hafa lífsgrið með vopnum og klæðum og gulli. Gervallir æptu að móti og gengu út á borgina, sumir skutu, sumir grýttu, sumir skutu staurum og varð þá mikil orusta. Féll þá af hvorumtveggjum og miklu fleira af Vindum.

Solveig kom upp á Sólbjargir og segir þar tíðindin. Þá var skorin herör og send til Skúrbága. Þar var samburðaröl nokkuð og mart manna. Þar var sá bóndi er Ölvir hét mikilmunnur.

Þá hljóp hann upp þegar og tók skjöld og hjálm og mikla öxi í hönd sér og mælti: «Stöndum upp, góðir drengir, og takið vopn yður og förum til liðveislu við býjarmenn því að það mun skömm þykja hverjum manni er það spyr að vér sitjum hér og kýlum öl en góðir drengir skulu leggja líf sitt í hættu í býnum fyrir vorar sakir.»

Margir svöruðu og mæltu í mót, sögðu að þeir mundu týna sér en koma bæjarmönnum að engu liði.

Þá hljóp Ölvir upp og mælti: «Þótt allir dveljist eftir þá skal eg þó fara einn samt og láta skulu heiðingjar einn eða tvo fyrir mig áður en eg falli,» hleypur ofan til býjarins.

Menn fara eftir honum og vildu sjá ferð hans og svo ef honum mætti nokkuð við hjálpa. En er hann kom svo nær kastala að heiðnir menn sáu hann þá hljópu í mót honum átta menn alvopnaðir. En er þeir mættust hljópu heiðnir menn umhverfis hann. Ölvir reiddi upp öxina og laust fremri hyrnu undir kverk þeim er á bak honum stóð svo að sundur sneið kjálkann og barkann og féll sá opinn á bak aftur. Þá reiddi hann fram öxina fyrir sig og höggur annan í höfuðið og klauf þann í herðar niður. Síðan sóttust þeir og drap hann þá enn tvo og varð sjálfur sár mjög en þeir fjórir er eftir voru flýðu þá. Ölvir rann eftir þeim en díki nokkuð var fyrir þeim, tveir hinir heiðnu hljópu þar í og drap Ölvir þá báða. Stóð hann þá og fastur í díkinu. En tveir heiðingjar komust undan af þeim átta. Þeir menn er fylgt höfðu Ölvi tóku hann og fluttu hann með sér til Skúrbága og varð hann græddur að heilu. Og er það mál manna að eigi hafi maður farið drengilegri ferð.

Lendir menn tveir, Sigurður Gyrðarson bróðir Filippuss og Sigarður, komu með sex hundruð manna til Skúrbága og hvarf Sigurður aftur með fjögur hundruð manna og þótti síðan lítils verður og lifði skamma stund. Sigarður fór með tvö hundruð manna til býjarins og barðist þar við heiðna menn og féll þar með öllu liði sínu.

Vindur sóttu kastalann en konungur og stýrimenn stóðu fyrir utan bardagann. Í einhverjum stað þar er Vindur stóðu var einn maður og skaut af boga og mann til bana með hverri ör. Tveir menn stóðu fyrir honum með skjöldu.

Þá mælti Sæmundur við Ásmund son sinn að þeir skyldu skjóta að skytanum báðir senn «en eg mun skjóta að þeim er skjöldinn ber.»

Hann gerði svo en sá skaut skildinum fyrir sig. Þá skaut Ásmundur milli skjaldanna og kom örin í enni skytanum svo að út kom í hnakkann og féll sá dauður á bak aftur. En er Vindur sáu það þá ýldu þeir allir sem hundar eða vargar.

Þá lét Réttibur konungur kalla til þeirra og bjóða þeim grið en þeir neituðu því. Síðan veittu heiðingjar harða atsókn. Þá var sá einn af heiðnum mönnum er svo nær gekk að allt gekk að kastalahurðinni og lagði sverði þann mann er fyrir innan stóð hurðina en menn báru að honum skot og grjót og var hann hlífðarlaus en svo var hann fjölkunnigur að ekki vopn festi á honum.

Þá tók Andrés prestur vígðan eld og signaði og skar tundur og lagði í eld og setti á örvarodd og fékk Ásmundi en hann skaut þessi ör að hinum fjölkunnga manni og beit þetta skot svo að honum vann að fullu og féll hann dauður á jörð. Þá létu heiðingjar illilega enn sem fyrr, ýldu og gnístu. Gekk þá allt fólk til konungs. Þótti kristnum mönnum þá sem væri til ráðs að þeir mundu undan leita. Þá skildi túlkur sá er kunni vindversku hvað höfðingi sá mælti er Únibur er nefndur.

Hann mælti svo: «Þetta fólk er atalt og illt viðskiptis og þótt vér tækjum allt það fé er í þessum stað er, þá mættum vér gefa til annað fé jafnmikið að vér hefðum eigi komið hér, svo höfum vér mikið lið látið og marga höfðingja. Og fyrst í dag, er vér tókum að berjast við kastala, þá höfðu þeir til varnar skot og spjót, því næst börðu þeir oss með grjóti og nú berja þeir oss með keflivölum sem hunda. Sé eg fyrir því að þeirra föng þverra til varnar og skulum vér enn gera þeim harða hríð og freistum þeirra.»

En svo var sem hann sagði að þá skutu þeir staurum en í fyrstu hríð höfðu þeir borið óvarlega skotvopn og grjót. En er kristnir menn sáu að minnkaðist fjöldi að staurunum hjuggu þeir í tvo hvern staurinn. En heiðingjar sóttu að þeim og gerðu harða hríð og hvíldust í milli. Gerðust hvorirtveggju móðir og sárir.

Og í einhverri hvíld þá lét konungur enn bjóða þeim grið, að þeir skyldu hafa vopn sín og klæði og það er þeir bæru sjálfir út yfir kastalann. Þá var fallinn Sæmundur húsfreyja og var það ráð manna þeirra er eftir voru að gefa upp kastala og sjálfa sig í vald heiðinna manna og var það hið ósnjallasta ráð fyrir því að heiðingjar efndu eigi orð sín, tóku alla menn, karla og konur og börn, drápu mart, allt það er sárt var og ungt og þeim þótti illt að flytja eftir sér. Þeir tóku allt fé það er þar var í kastalanum. Þeir gengu inn í Krosskirkju og rændu hana að öllu skrúði sínu.

Andrés prestur gaf Réttibur konungi refði silfurbúið en Dúnimis systursyni hans fingurgull. Fyrir því þóttust þeir vita að hann mundi vera nokkur ráðamaður í staðinum og virtu hann meira en aðra menn. Þeir tóku krossinn helga og höfðu braut. Þá tóku þeir taboluna er stóð fyrir altarinu, er Sigurður konungur hafði gera látið í Grikklandi og haft í land. Þeir lögðu hana niður á gráðuna fyrir altarið. Þá gengu þeir út úr kirkjunni.

Þá mælti konungur: «Þetta hús hefir verið búið með ást mikilli við þann guð er þetta hús á og svo líst mér sem gætt muni lítt hafa verið til staðarins eða hússins því að eg sé að guð er reiður þeim er varðveita.»

Réttibur konungur gaf Andrési presti kirkjuna og skrínið, krossinn helga, bókina plenarium og klerka fjóra. En heiðnir menn brenndu kirkjuna og öll húsin, þau er í kastalanum voru. En sá eldur, er þeir höfðu tendrað í kirkjunni, slokknaði tvisvar. Þá hjuggu þeir ofan kirkjuna, tók þá að loga innan öll og brann sem önnur hús. Þá fóru heiðingjar til skipa sinna með herfangi og könnuðu lið sitt. En er þeir sáu skaða sinn þá tóku þeir að herfangi allt fólkið og skiptu milli skipanna. Þá fóru þeir Andrés prestur á konungsskipið og með krossinn helga. Þá kom ótti yfir heiðingja af þeirri bending er yfir konungsskipið kom hiti svo mikill að allir þeir þóttust nær brenna. Konungur bað túlkinn spyrja prest hví svo varð.

Hann sagði að almáttigur guð, sá er kristnir menn trúðu á, sendi þeim mark reiði sinnar er þeir dirfðust þess að hafa með höndum hans píslarmark, þeir er eigi vilja trúa á skapara sinn: «Og svo mikill kraftur fylgir krossinum að oft hafa orðið fyrr þvílíkar jartegnir yfir heiðnum mönnum þá er þeir höfðu hann með höndum og sumar enn berari.»

Konungur lét skjóta á skipbátinn kennimönnum og bar Andrés krossinn í faðmi sér. Þeir leiddu bátinn fram með endilöngu skipinu og fram fyrir barðið og aftur með öðru borði til lyftingar, skutu síðan við forkum og hrundu bátinum inn að bryggjunum. Síðan fór Andrés prestur með krossinn um nóttina til Sólbjarga og var bæði hregg og rota. Andrés flutti krossinn til góðrar varðveislu.

12. Frá Magnúsi blinda

Réttibur konungur og hans lið, það er eftir var, fór í brott og aftur til Vindlands og mart það fólk er tekið hafði verið í Konungahellu var lengi síðan í Vindlandi í þján en þeir er út voru leystir og aftur komu í Noreg til óðala sinna urðu allir að minna þrifnaði. Kaupstaðurinn í Konungahellu hefir aldregi fengið slíka uppreist sem áður var.

Magnús er blindaður hafði verið, fór síðan í Niðarós og gaf sig í klaustur og tók við munkaklæðum. Þá var skeytt þannug Hernes mikla á Frostu í próventu hans. En Haraldur réð þá einn landi eftir um veturinn og gaf öllum mönnum sættir er hafa vildu, tók þá marga menn til hirðvistar er með Magnúsi höfðu verið.

Einar Skúlason segir svo að Haraldur konungur átti tvær orustur í Danmörk, aðra við Hveðn en aðra við Hlésey:

Ótryggum léstu eggjar,
eljunfrár, und hári
Hveðn á höldum roðnar,
hrafns munnlituðr, þunnar.

Og enn þetta:

Áttuð sókn við sléttan,
serkrjóðr Hárs, merki,
harðr, þar er hregg of virðum,
Hléseyjar þröm, blésu.

13. Upphaf Sigurðar slembidjákns

Sigurður er maður nefndur er upp fæddist í Noregi. Hann var kallaður sonur Aðalbrikts prests. Móðir Sigurðar var Þóra dóttir Saxa í Vík, systir Sigríðar móður þeirra Ólafs konungs Magnússonar og Kára konungsbróður, er átti Borghildi dóttur Dags Eilífssonar. Synir þeirra voru þeir Sigurður á Austurátt og Dagur. Synir Sigurðar voru Jón á Austurátt og Þorsteinn, Andrés daufi. Jón átti Sigríði systur Inga konungs og Skúla hertoga.

Sigurður var í barnæsku settur til bókar og varð hann klerkur og vígður til djákns. En er hann gerðist fullkominn að aldri og afli þá var hann allra manna vasklegastur og sterkastur, mikill maður og á alla atgervi var hann umfram alla jafnaldra sína og nálega hvern annan í Noregi. Sigurður var snemma ofsamaður mikill og óeirarmaður. Hann var kallaður slembidjákn. Manna var hann fríðastur, heldur þunnhár og þó vel hærður.

Þá kom það upp fyrir Sigurð að móðir hans segir að Magnús konungur berfættur var faðir hans. Og þegar er hann réð sjálfur háttum sínum þá afræktist hann klerkasiðu, fór þá af landi brott. Í þeim ferðum dvaldist hann langa hríð. Þá byrjaði hann ferð sína út til Jórsala og kom til Jórdanar og sótti helga dóma svo sem palmarum er títt. Og er hann kom aftur þá dvaldist hann í kaupferðum. Einn vetur var hann staddur nokkura hríð í Orkneyjum. Hann var með Haraldi jarli að falli Þorkels fóstra Sumarliðasonar. Sigurður var og uppi á Skotlandi með Davíð Skotakonungi. Var hann þar virður mikils. Síðan fór Sigurður til Danmerkur og var það hans sögn og hans manna að þar hefði hann flutt skírslur til faðernis sér og bar svo að hann væri sonur Magnúss konungs og væru þar við fimm biskupar.

Svo segir Ívar Ingimundarson í Sigurðarbelki:

Gerðu skírslur
um skjöldungs kyn
fimm biskupar,
þeir er framast þóttu.
Svo bar raunir
að ríks konungs
þess var hins milda
Magnús faðir.

Vinir Haralds sögðu að það hefðu verið svik og lygi Dana.

14. Frá Sigurði slembidjákn

Þá er Haraldur hafði verið konungur yfir Noregi sex vetur kom Sigurður til Noregs og fór á fund Haralds konungs bróður síns, hitti hann í Björgyn, gekk þegar brátt á fund hans, birti fyrir konungi faðerni sitt og beiddi konung taka við frændsemi sinni. Konungur veitti enga úrskurði skjóta um það mál og bar þetta fyrir vini sína, átti við þá tal og stefnur. En af tali þeirra kom það upp að konungur bar sakir á hendur Sigurði um það er hann hafði verið að aftöku Þorkels fóstra fyrir vestan haf. Þorkell hafði fylgt Haraldi konungi til Noregs þá fyrst er hann hafði komið til lands. Hafði Þorkell verið hinn mesti vinur Haralds konungs. Var þessu máli fylgt svo fast að þar var Sigurði gefin fyrir dauðasök.

Og með ráði lendra manna þá varð þetta svo, að eitt kveld síðarlega gengu til gestir nokkurir þar er Sigurður var og kölluðu hann með sér og tóku skútu nokkura og reru brott frá býnum með Sigurð og suður til Norðness. Sigurður sat aftur á kistunni og hugsaði sitt mál og grunaði að þetta mundu vera svik. Hann var svo búinn að hann hafði blár brækur og skyrtu og möttul á tuglum að yfirhöfn. Hann sá niður fyrir sig og hafði hendur á möttulsböndunum, lét stundum af höfði sér, stundum lét hann á höfuð sér.

En er þeir voru komnir fyrir nes eitt, voru þeir kátir og drukknir og reru ákaflega og uggðu fátt, þá stóð Sigurður upp og gekk til borðs en tveir menn, þeir er til gæslu voru fengnir með honum, stóðu upp og gengu að borðinu, tóku möttulinn báðir og héldu frá honum sem títt er að gera við ríka menn. En er hann grunaði að þeir héldu fleirum klæðum hans þá greip hann sinni hendi hvorn þeirra og steyptist utanborðs með alla þá en skútan renndi fram á langt og varð þeim seint að víkja og löng dvöl áður en þeir fengju sína menn tekið.

En Sigurður tók svo langt kaf í brott að hann var fyrr á landi uppi en þeir hefðu snúið skipi sínu eftir honum. Sigurður var allra manna fóthvatastur og stefnir hann á land upp en konungsmenn fóru og leituðu hans alla nótt og fundu hann eigi. Hann lagðist í bergskor nokkura. Svalaði honum mjög. Hann fór af brókunum og skar rauf á setgeiranum og smeygði á sig og tók út höndunum og hjálp svo lífi sínu að sinni. Konungsmenn fóru aftur og máttu eigi leyna sínum óförum.

15. Svikræði við Harald konung

Sigurður þóttist finna að eigi mundi honum til hjálpar að leita á fund Haralds konungs og var þá í fylgsnum allt haustið og öndurðan vetur. Hann var í býnum í Björgyn með presti nokkurum og gildraði til ef hann mætti verða skaðamaður Haralds konungs og voru mjög margir menn að þessum ráðum með honum og þeir sumir er þá voru hirðmenn og herbergismenn Haralds konungs og þeir höfðu fyrr verið hirðmenn Magnúss konungs. Voru þeir þá í kærleikum miklum við Harald konung svo að æ var nokkur af þessum sá er sat yfir borði konungsins. Lúsíumessu að kveldi töluðust við tveir menn er þar sátu.

Mælti annar til konungs: «Herra, nú höfum við skotið úrskurð þrætu okkarrar til yðarra úrslita og höfum við veðjað ask hunangs hvor okkar. Eg segi það að þér munuð liggja í nótt hjá Ingiríði drottningu konu þinni en hann segir að þér munuð liggja hjá Þóru Guttormsdóttur.»

Þá svaraði konungur hlæjandi og var mjög óvitandi að þessi spurning væri með svo mikilli vél og segir: «Eigi muntu hljóta veðféið.»

Af því þóttust þeir vita hvar hans var að vitja á þeirri nótt en höfuðvörður var þá haldinn fyrir því herbergi er flestir hugðu að konungur væri inni í og drottning svaf í.

16. Dráp Haralds konungs

Sigurður slembidjákn og nokkurir menn með honum komu þar til herbergis er konungur svaf og brutu upp hurðina og gengu þar inn með brugðnum vopnum. Ívar Kolbeinsson vann fyrst á Haraldi konungi.

En konungur hafði drukkinn niður lagst og svaf fast og vaknaði við það er menn vógu að honum og mælti í óvitinu: «Sárt býrð þú nú við mig Þóra.»

Hún hljóp upp við og mælti: «Þeir búa sárt við þig er verr vilja þér en eg.»

Lét Haraldur konungur þar líf sitt. En Sigurður með sína menn gekk í brott. Lét hann þá kalla sér þá menn er honum höfðu heitist til föruneytis ef hann fengi Harald konung tekið af lífdögum.

Þá gengu þeir Sigurður og hans menn til skútu nokkurrar og skipuðust menn við árar og reru út á voginn undir konungsgarð. Tók þá að lýsa af degi. Þá stóð Sigurður upp og talaði við þá er stóðu á konungsbryggju og lýsti vígi Haralds konungs sér á hendur og beiddist af þeim viðurtöku og þess að þeir tækju hann til konungs svo sem burðir hans voru til.

Þá dreif þannug á bryggjurnar mart manna úr konungsgarði og svöruðu allir, sem einum munni mælti, sögðu að það skyldi aldrei verða að þeir veiti hlýðni og þjónan þeim manni er myrt hafði bróður sinn «en ef hann var eigi þinn bróðir þá áttu enga ætt til að vera konungur.»

Þeir börðu saman vopnum sínum, dæmdu þá alla útlaga og friðlausa. Þá var blásið konungslúðri og stefnt saman öllum lendum mönnum og hirðmönnum en Sigurður og hans menn sáu þann sinn kost hinn fegursta að verða í brottu.

Hann hélt á Norður-Hörðaland og átti þar þing við bændur. Gengu þeir undir hann og gáfu honum konungsnafn. Þá fór hann inn í Sogn og átti þar þing við bændur. Var hann og þar til konungs tekinn. Þá fór hann norður í Fjörðu. Var honum þar vel fagnað.

Svo segir Ívar Ingimundarson:

Tóku við mildum
Magnúss syni
Hörðar og Sygnir
að Harald fallinn.
Sórust margir
menn á þingi
buðlungs syni
í bróður stað.

Haraldur konungur var jarðaður í Kristskirkju hinni fornu.

Текст с сайта Netútgáfan