Ólafs saga helga

1. Upphaf sögu hins helga Ólafs konungs

Ólafur sonur Haralds hins grenska fæddist upp með Sigurði sýr stjúpföður sínum og Ástu móður sinni. Hrani hinn víðförli var með Ástu. Hann veitti fóstur Ólafi Haraldssyni.

Ólafur var snemma gervilegur maður, fríður sýnum, meðalmaður á vöxt. Vitur var hann og snemma og orðsnjallur.

Sigurður sýr var búsýslumaður mikill og hafði menn sína mjög í starfi og hann sjálfur fór oftlega að sjá um akra og eng eða fénað og enn til smíða eða þar er menn störfuðu eitthvað.

2. Frá Ólafi og Sigurði konungi sýr

Það var eitt sinn að Sigurður konungur vildi ríða af bæ, þá var engi maður heima á bænum. Hann kvaddi Ólaf stjúpson sinn að söðla sér hest. Ólafur gekk til geitahúss, tók þar bukk þann er mestur var og leiddi heim og lagði á söðul konungs, gekk þá og segir honum að þá hafði hann búið honum reiðskjóta.

Þá gekk Sigurður konungur til og sá hvað Ólafur hafði gert.

Hann mælti: «Auðsætt er að þú munt vilja af höndum ráða kvaðningar mínar. Mun móður þinni það þykja sæmilegt að eg hafi engar kvaðningar við þig, þær er þér séu í móti skapi. Er það auðsætt að við munum ekki vera skaplíkir. Muntu vera miklu skapstærri en eg em.»

Ólafur svarar fá og hló við og gekk í brott.

3. Frá íþróttum Ólafs

Ólafur Haraldsson, er hann óx upp, var ekki hár, meðalmaður og allþreklegur, sterkur að afli, ljósjarpur á hár, breiðleitur, ljós og rjóður í andliti, eygður forkunnarvel, fagureygur og snareygur svo að ótti var að sjá í augu honum ef hann var reiður. Ólafur var íþróttamaður mikill um marga hluti, kunni vel við boga og syndur vel, skaut manna best handskoti, hagur og sjónhannar um smíðir allar hvort er hann gerði eða aðrir menn. Hann var kallaður Ólafur digri. Var hann djarfur og snjallur í máli, bráðger að öllum þroska, bæði afli og visku, og hugþekkur var hann öllum frændum sínum og kunnmönnum, kappsamur í leikum og vildi fyrir vera öllum öðrum sem vera átti fyrir tignar sakir hans og burða.

4. Upphaf hernaðar Ólafs konungs

Ólafur Haraldsson var þá tólf vetra gamall er hann steig á herskip fyrsta sinn. Ásta móðir hans fékk til Hrana er kallaður var konungsfóstri til forráða fyrir liðinu og í för með Ólafi því að Hrani hafði oft áður verið í víking. Þá er Ólafur tók við liði og skipum þá gáfu liðsmenn honum konungsnafn svo sem siðvenja var til að herkonungar, þeir er í víking voru, er þeir voru konungbornir, þá báru þeir konungsnafn þegar þótt þeir sætu eigi að löndum. Hrani sat við stýrihömlu. Því segja sumir menn að Ólafur væri háseti en hann var þó konungur yfir liðinu. Þeir héldu austur með landinu og fyrst til Danmerkur.

Svo segir Óttar svarti er hann orti um Ólaf konung:

Ungr hrastu á vit vengis,
vígrakkr konungr, blakki,
þú hefir dýrum þrek, dreyra
Danmarkar, þig vandan.
Varð nýtlegust norðan,
nú ert ríkr af hvöt slíkri,
frá eg til þess er fóruð,
för þín, konungr, gerva.

5. Upphaf hernaðar í Svíþjóð

En er haustaði sigldi hann austur fyrir Svíaveldi, tók þá að herja og brenna landið því að hann þóttist eiga Svíum að launa fullan fjandskap er þeir höfðu tekið af lífi föður hans.

Óttar svarti segir það berum orðum að hann fór þá austur úr Danmörk:

Öttuð árum skreyttum
austr í salt með flaustum.
Báruð lind af landi,
landvörðr, á skip randir.
Neyttuð segls og settuð
sundvarpaði stundum.
Sleit mjök róin mikla
mörg ár und þér báru.

Drótt var drjúglegr ótti,
dólglinns, að för þinni,
svanbræðir, namstu síðan
Svíþjóðar nes rjóða.

6. Orusta hin fyrsta

Það haust barðist Ólafur við Sótasker hina fyrstu orustu. Það er í Svíaskerjum. Þar barðist hann við víkinga og er sá Sóti nefndur er fyrir þeim réð. Hafði Ólafur lið miklu minna og skip stærri. Hann lagði sín skip milli boða nokkurra og var víkingunum óhægt að að leggja. En þau skip er næst lágu þeim, þá komu þeir á stafnljám og drógu þau að sér og hruðu þá skipin. Víkingarnir lögðu frá og höfðu látið lið mikið.

Sighvatur skáld segir frá þessari orustu í því kvæði er hann taldi orustur Ólafs konungs:

Langr bar út hinn unga
jöfra kund að sundi,
þjóð uggði sér síðan,
sjámeiðr, konungs reiði.
Kann eg til margs enn manna
minni, fyrsta sinni
hann rauð æstr fyr austan
úlfs fót við sker Sóta.

7. Hernaður í Svíþjóð

Ólafur konungur hélt þá austur fyrir Svíþjóð og lagði inn í Löginn og herjaði á bæði lönd. Hann lagði allt upp til Sigtúna og lá við fornu Sigtúnir. Svo segja Svíar að þar séu enn grjóthlöð þau er Ólafur lét gera undir bryggjusporða sína.

En er haustaði þá spurði Ólafur konungur til þess að Ólafur Svíakonungur dró saman her mikinn og svo það að hann hafði járnum komið yfir Stokksund og sett lið fyrir. En Svíakonungur ætlaði að Ólafur konungur mundi þar bíða frera og þótti Svíakonungi lítils vert um her Ólafs konungs því að hann hafði lítið lið.

Þá fór Ólafur konungur út til Stokksunda og komst þar eigi út. Kastali var fyrir austan sundið en her manns fyrir sunnan. En er þeir spurðu að Svíakonungur var á skip kominn og hafði her mikinn og fjölda skipa þá lét Ólafur konungur grafa út í gegnum Agnafit til hafs. Þá voru regn mikil. En um alla Svíþjóð fellur hvert rennanda vatn í Löginn en einn ós er til hafs úr Leginum og svo mjór að margar ár eru breiðari. En þá er regn eru mikil og snjánám þá falla vötnin svo æsilega að fossfall er út um Stokksund en Lögurinn gengur svo mjög upp á löndin að víða flóar. En er gröfturinn kom út í sjáinn þá hljóp vatnið og straumurinn út. Lét þá Ólafur konungur á skipum sínum leggja öll stýri úr lagi og draga segl við hún. Byr var á blásandi. Þeir stýrðu með árum og gengu skipin mikinn út yfir grunnið og komu öll heil á hafið.

En Svíar fóru þá á fund Ólafs Svíakonungs og sögðu honum að Ólafur digri var þá kominn út á haf. Svíakonungur veitti þeim stórar átölur er gætt skyldu hafa að Ólafur kæmist eigi út. Það er nú síðan kallað Konungssund og má þar ekki stórskipum fara nema þá er vötn æsast mest.

En það er sumra manna sögn að Svíar yrðu varir við þá er þeir Ólafur höfðu út grafið fitina og vatnið féll út, og svo að Svíar fóru þá til með her manns og ætluðu að banna Ólafi að hann færi út, en er vatnið gróf út tveggja vegna þá féllu bakkarnir og þar fólkið með og týndist þar fjöldi liðs. En Svíar mæla þessu í mót og telja hégóma að þar hafi menn farist.

Ólafur konungur sigldi um haustið til Gotlands og bjóst þar að herja. En Gotar höfðu þar safnað og gerðu menn til konungs og buðu honum gjald af landinu. Það þekktist konungur og tekur gjald af landinu og sat þar um veturinn.

Svo segir Óttar:

Gildir, komstu að gjaldi
gotneskum her, flotna.
Þorðut þér að varða
þjóðlönd firar röndu.
Rann, en maðr of minna
margr býr of þrek, varga
hungr frá eg austr, en yngvi,
Eysýslu lið, þeyja.

8. Orusta önnur

Hér segir svo að Ólafur konungur fór er voraði austur til Eysýslu og herjaði, veitti þar landgöngu en Eysýslir komu ofan og héldu orustu við hann. Þar hafði Ólafur konungur sigur, rak flótta, herjaði og eyddi landið.

Svo er sagt að fyrst er þeir Ólafur konungur komu í Eysýslu þá buðu bændur honum gjald. En er gjaldið kom ofan þá gekk hann í móti með liði alvopnuðu og varð þá annan veg en bændur ætluðu því að þeir fóru ofan með ekki gjald heldur með hervopnum og börðust við konung sem fyrr var sagt.

Svo segir Sighvatur skáld:

Þar var enn er önnur
Ólafr, né svik fólust,
oddaþing í eyddri
Eysýslu gekk heyja.
Sitt áttu fjör fótum,
fár beið úr stað sára,
enn þeir er undan runnu,
allvaldr, búendr gjalda.

9. Orusta þriðja

Síðan sigldi hann aftur til Finnlands og herjaði þar og gekk á land upp, en lið allt flýði á skóga, og eyddi byggðina að fé öllu. Konungur gekk upp á landið langt og yfir skóga nokkura. Þar voru fyrir dalbyggðir nokkurar. Þar heita Herdalar. Þeir fengu lítið fé en ekki af mönnum. Þá leið á daginn og sneri konungur ofan aftur til skipa.

En er þeir komu á skóginn þá dreif lið að þeim öllum megin og skaut á þá og sóttu að fast. Konungur bað þá hlífa sér og vega í mót slíkt er þeir mættu við komast. En það var óhægt því að Finnar létu skóginn hlífa sér. En áður konungur kæmi af skóginum lét hann marga menn og margir urðu sárir, kom síðan um kveldið til skipa.

Þeir Finnar gerðu um nóttina æðiveður með fjölkynngi og storm sjávar. En konungur lét upp taka akkerin og draga segl og beittu um nóttina fyrir landið. Mátti þá enn sem oftar meira hamingja konungs en fjölkynngi Finna. Fengu þeir beitt um nóttina fyrir Bálagarðssíðu og þaðan í hafið út. En her Finna fór hið efra svo sem konungur sigldi hið ytra.

Svo segir Sighvatur:

Hríð varð stáls í stríðri
ströng Herdalagöngu
Finnlendinga að fundi
fylkis niðs hin þriðja.
En austr við lá leysti
leið víkinga skeiðar.
Bálagarðs að barði
brimskíðum lá síða.

10. Orusta hin fjórða í Suðurvík

Þá sigldi Ólafur konungur til Danmerkur. Hitti hann þar Þorkel hinn háva bróður Sigvalda jarls og réðst Þorkell til ferðar með honum því að hann var þá búinn áður að fara í hernað. Sigldu þeir þá suður fyrir Jótlandssíðu og þar sem heitir Suðurvík og unnu þeir víkingaskip mörg. En víkingar þeir er jafnan lágu úti og réðu fyrir liði miklu létu sig konunga kalla þótt þeir ættu engi lönd til forráða. Lagði Ólafur konungur þar til bardaga. Varð þar orusta mikil. Fékk þar Ólafur konungur sigur og fé mikið.

Svo segir Sighvatur:

Enn kváðu gram Gunnar
galdrs upphöfum valda,
dýrð frá eg þeim er vel varðist,
vinnast, fjórða sinni,
þá er ólítill úti
jöfra liðs á miðli
friðr gekk sundr í slíðri
Suðrvík, Dönum kuðri.

11. Orusta hin fimmta við Frísland

Þá sigldi Ólafur konungur suður til Fríslands og lá fyrir Kinnlimasíðu í hvössu veðri. Þá gekk konungur á land með lið sitt en landsmenn riðu ofan í móti þeim og börðust við þá.

Svo segir Sighvatur skáld:

Víg vannstu, hlenna hneigir,
hjálmum grimmt hið fimmta,
þoldu hlýr fyr hári
hríð Kinnlimasíðu,
þá er við rausn að ræsis
reið her ofan skeiðum.
Enn í gegn að gunni
gekk hilmis lið rekkum.

12. Dauði Sveins tjúguskeggs

Sveinn tjúguskegg Danakonungur var þenna tíma í Englandi með Danaher og hafði þar þá setið um hríð og haft land Aðalráðs konungs. Höfðu þá Danir víða gengið yfir England. Var þá svo komið að Aðalráður konungur hafði flúið landið og farið suður í Valland.

Þetta sama haust er Ólafur konungur kom til Englands urðu þau tíðindi þar að Sveinn konungur Haraldsson varð bráðdauður um nótt í rekkju sinni og er það sögn enskra manna að Játmundur hinn helgi hafi drepið hann með þeima hætti sem hinn helgi Merkúríus drap Júlíanum níðing.

En er það spurði Aðalráður Englakonungur þá snýr hann þegar aftur til Englands. En þá er hann kom aftur í landið sendi hann orð öllum þeim mönnum er fé vildu þiggja til þess að vinna land með honum. Dreif þá mikið fjölmenni til hans. Þá kom til liðs við hann Ólafur konungur með mikla sveit Norðmanna.

Þá lögðu þeir fyrst til Lundúna og utan í Temps en Danir héldu borginni. Öðrum megin árinnar er mikið kauptún er heitir Súðvirki. Þar höfðu Danir mikinn umbúnað, grafið díki stór og settu fyrir innan vegg með viðum og grjóti og torfi og höfðu þar í lið mikið. Aðalráður konungur lét veita atsókn mikla en Danir vörðu og fékk Aðalráður konungur ekki að gert. Bryggjur voru þar yfir ána milli borgarinnar og Súðvirkis svo breiðar að aka mátti vögnum á víxl. Á bryggjunum voru vígi ger, bæði kastalar og borðþök forstreymis svo að tók upp fyrir miðjan mann. En undir bryggjunum voru stafir og stóðu þeir niður grunn í ánni.

En er atsókn var veitt þá stóð herinn á bryggjunum um allar þær og varði þær. Aðalráður konungur var mjög hugsjúkur hvernug hann skyldi vinna bryggjurnar. Hann kallaði á tal alla höfðingja hersins og leitaði ráðs við þá hvernug þeir skyldu koma ofan bryggjunum. Þá segir Ólafur konungur að hann mun freista að leggja til sínu liði ef aðrir höfðingjar vilja að leggja. Á þeirri málstefnu var það ráðið að þeir skyldu leggja her sinn upp undir bryggjurnar. Bjó þá hver sitt lið og sín skip.

13. Orusta hin sétta

Ólafur konungur lét gera flaka stóra af viðartaugum og af blautum viði og taka í sundur vandahús og lét það bera yfir skip sín svo vítt að tók út af borðum. Þar lét hann undir setja stafi svo þykkt og svo hátt að bæði var hægt að vega undan og ýrið stinnt fyrir grjóti ef ofan væri á borið.

En er herinn var búinn þá veita þeir atróður neðan eftir ánni. Og er þeir koma nær bryggjunum þá var borið ofan á þá bæði skot og grjót svo stórt að ekki hélt við, hvorki hjálmar né skildir, og skipin meiddust sjálf ákaflega. Lögðu þá margir frá. En Ólafur konungur og Norðmanna lið með honum reru allt upp undir bryggjurnar og báru kaðla um stafina, þá er upp héldu bryggjunum, og tóku þá og reru öllum skipunum forstreymis sem mest máttu þeir. Stafirnir drógust með grunni allt til þess er þeir voru lausir undir bryggjunum. En fyrir því að vopnaður her stóð á bryggjunum þykkt, þar var bæði grjót mart og hervopn mörg en stafirnir voru undan brotnir, bresta af því niður bryggjurnar og fellur fólkið mart ofan á ána en allt annað liðið flýði af bryggjunum, sumt í borgina en sumt í Súðvirki.

Eftir það veittu þeir atgöngu í Súðvirki og unnu það. En er borgarmenn sáu það að áin var unnin Temps svo að þeir máttu ekki banna skipfarar upp í landið þá hræddust þeir skipfarar og gáfu upp borgina og tóku við Aðalráði konungi.

Svo segir Óttar svarti:

Enn braustu, éla kennir,
Yggs veðrþorinn, bryggjur,
linns hefir lönd að vinna,
Lundúna, þér snúnað.
Höfðu hart um krafðir,
hildr óx við það, skildir
gang, en gamlir sprungu,
gunnþinga, járnhringar.

Og enn kvað hann þetta:

Komstu í land og lendir,
láðvörðr, Aðalráði.
Þín naut rekka rúni
ríki efldr að slíku.
Harðr var fundr sá er færðuð
friðlands á vit niðja,
réð áttstuðill áðan,
Játmundar, þar grundu.

Enn segir Sighvatur frá þessu:

Rétt er að sókn hin sétta,
snar þengill bauð Englum
at, þar er Ólafr sótti,
Yggs, Lundúna bryggjur.
Sverð bitu völsk en vörðu
víkingar þar díki.
Átti sumt í sléttu
Súðvirki lið búðir.

14. Orusta hin sjöunda

Ólafur konungur var um veturinn með Aðalráði konungi. Þá áttu þeir orustu mikla á Hringmaraheiði á Úlfkelslandi. Það ríki átti þá Úlfkell snillingur. Þar fengu konungarnir sigur.

Svo segir Sighvatur skáld:

Enn lét sjöunda sinni
sverðþing háið verða
endr á Úlfkels landi
Ólafr, sem eg fer máli.
Stóð Hringmaraheiði,
herfall var þar, alla
Ellu kind, er olli
arfvörðr Haralds starfi.

Enn segir Óttar svo frá þessari orustu:

Þengill, frá eg að þunga
þinn herr skipum ferri,
rauð Hringmaraheiði,
hlóð valköstu, blóði.
Laut fyr yðr, áðr létti,
landfólk í gný randa,
Engla ferð, að jörðu
ótt, en mörg á flótta.

Þá lagðist landið enn víða undir Aðalráð konung en þingamenn og Danir héldu mörgum borgum og víða héldu þeir þá enn landinu.

15. Orusta hin átta og níunda

Ólafur konungur var höfðingi fyrir herinum þá er þeir héldu til Kantarabyrgis og börðust þar allt til þess er þeir unnu staðinn, drápu þar fjölda liðs og brenndu borgina.

Svo segir Óttar svarti:

Atgöngu vannstu, yngvi,
ætt siklinga mikla.
Blíðr hilmir, rauðstu breiða
borg Kantara um morgun.
Lék við rönn af ríki,
réðstu, bragna konr, gagni,
aldar frá eg að aldri,
eldr og reykr, að þú belldir.

Sighvatur telur þessa hina áttu orustu Ólafs konungs:

Veit eg að víga mætir,
Vindum háttr, hinn átta,
styrkr gekk vörðr að virki
verðungar, styr gerði.
Sinn máttut bæ banna,
borg Kantara, sorgar
mart fékk prúðum Pörtum,
portgreifar Óleifi.

Ólafur konungur hafði landvörn fyrir Englandi og fór með herskipum fyrir land og lagði upp í Nýjamóðu, þar var fyrir þingamannalið, og áttu þar orustu og hafði Ólafur konungur sigur.

Svo segir Sighvatur skáld:

Vann ungr konungr Englum
ótrauðr skarar rauðar.
Endr kom brúnt á branda
blóð í Nýjamóðu.
Nú hefi eg orustur, austan
ógnvaldr, níu taldar.
Herr féll danskr, þar er dörrum
dreif mest að Óleifi.

Ólafur konungur fór þá víða um landið og tók gjöld af mönnum en herjaði að öðrum kosti.

Svo segir Óttar:

Máttit enskrar ættar
öld, þar er tókst við gjöldum,
vísi, vægðarlausum,
víðfrægr, við þér bægja.
Guldut gumnar sjaldan
goll döglingi hollum.
Stundum frá eg til strandar
stór þing ofan fóru.

Þar dvaldist Ólafur konungur í það sinn þrjá vetur.

16. Orusta hin tíunda í Hringsfirði

En hið þriðja vor andaðist Aðalráður konungur. Tóku þá konungdóm synir hans, Játmundur og Játvarður.

Þá fór Ólafur konungur suður um sjá og þá barðist hann í Hringsfirði og vann kastala á Hólunum er víkingar sátu í. Hann braut kastalann.

Svo segir Sighvatur skáld:

Tugr var fullr í fögrum
fólkveggs drifahreggi,
hélt sem hilmir mælti,
Hringsfirði, lið þingað.
Ból lét hann á Hóli
hátt, víkingar áttu,
þeir báðut sér síðan
slíks skotnaðar, brotna.

17. Orusta hin ellefta og hin tólfta og þrettánda

Ólafur konungur hélt liði sínu vestur til Gríslupolla og barðist þar við víkinga fyrir Vilhjálmsbæ. Þar hafði Ólafur konungur sigur.

Svo segir Sighvatur:

Ólafr, vannstu, þar er jöfrar,
ellefta styr, féllu,
ungr komstu af því þingi,
þollr, í Gríslupollum.
Þat frá eg víg, að víttu,
Viljálms fyr bæ, hjálma,
tala minnst er það telja,
tryggs jarls, háið snarla.

Því næst barðist hann vestur í Fetlafirði sem segir Sighvatur:

Tönn rauð tólfta sinni
tírfylgjandi ylgjar,
varð, í Fetlafirði,
fjörbann lagið mönnum.

Þaðan fór Ólafur konungur allt suður til Seljupolla og átti þar orustu. Þar vann hann borg þá er hét Gunnvaldsborg, hún var mikil og forn, og þar tók hann jarl er fyrir réð borginni er hét Geirfinnur. Þá átti Ólafur konungur tal við borgarmennina. Hann lagði gjald á borgina og á jarl til útlausnar, tólf þúsundir gullskildinga. Slíkt fé var honum goldið af borginni sem hann lagði á.

Svo segir Sighvatur:

Þrettánda vann Þrænda,
það var flótta böl, dróttinn
snjallr í Seljupollum
sunnarla styr kunnan.
Upp lét gramr í gamla
Gunnvaldsborg um morgun,
Geirfinnr hét sá, gerva
gengið, jarl um fenginn.

18. Orusta hin fjórtánda og draumur Ólafs konungs

Eftir það hélt Ólafur konungur liði sínu vestur í Karlsár og herjaði þar, átti þar orustu.

En þá er Ólafur konungur lá í Karlsá og beið þar byrjar og ætlaði að sigla út til Nörvasunda og þaðan út í Jórsalaheim þá dreymdi hann merkilegan draum, að til hans kom merkilegur maður og þekkilegur og þó ógurlegur og mælti við hann, bað hann hætta ætlan þeirri að fara út í lönd: «Far aftur til óðala þinna því að þú munt vera konungur yfir Noregi að eilífu.»

Hann skildi þann draum til þess að hann mundi konungur vera yfir landi og hans ættmenn langa ævi.

19. Orusta hin fimmtánda

Af þeirri vitran sneri hann aftur ferðinni og lagðist við Peituland og herjaði þar og brenndi þar kaupstað þann er Varrandi hét.

Þess getur Óttar:

Náðuð ungr að eyða,
ógnteitr jöfur, Peitu.
Reynduð, ræsir, steinda
rönd á Túskalandi.

Og enn segir Sighvatur svo:

Málms vann, Mæra hilmir,
munnrjóðr, er kom sunnan,
gagn, þar er gamlir sprungu
geirar, upp að Leiru.
Varð fyr víga Njörðum
Varrandi, sjá fjarri,
brenndr, á byggðu landi,
bær heitir svo, Peitu.

20. Frá Rúðujörlum

Ólafur konungur hafði verið í hernaði vestur í Vallandi tvö sumur og einn vetur. Þá var liðið frá falli Ólafs konungs Tryggvasonar þrettán vetur.

Þá voru í Vallandi jarlar tveir, Vilhjálmur og Roðbert. Faðir þeirra var Ríkarður Rúðujarl. Þeir réðu fyrir Norðmandí. Systir þeirra var Emma drottning er Aðalráður Englakonungur hafði átt. Synir þeirra voru þeir Játmundur og Játvarður hinn góði, Játvígur og Játgeir. Ríkarður Rúðujarl var sonur Ríkarðar sonar Vilhjálms langaspjóts. Hann var sonur Göngu-Hrólfs jarls þess er vann Norðmandí. Hann var sonur Rögnvalds Mærajarls hins ríka sem fyrr er ritað. Frá Göngu-Hrólfi eru komnir Rúðujarlar og töldu þeir lengi síðan frændsemi við Noregshöfðingja og virtu þeim það lengi síðan og voru hinir mestu vinir Norðmanna alla stund og áttu með þeim friðlönd allir Norðmenn, þeir er það vildu þekkjast.

Um haustið kom Ólafur konungur í Norðmandí og dvaldist þar um veturinn í Signu og hafði þar friðland.

21. Frá Einari þambarskelfi

Eftir fall Ólafs Tryggvasonar gaf Eiríkur jarl grið Einari þambarskelfi, syni Eindriða Styrkárssonar. Einar fór með jarli norður í Noreg, og er sagt að Einar hafi verið allra manna sterkastur og bestur bogmaður er verið hafi í Noregi og var harðskeyti hans umfram alla menn aðra. Hann skaut með bakkakólfi í gegnum uxahúð hráblauta er hékk á ási einum. Skíðfær var hann allra manna best. Hinn mesti var hann íþróttamaður og hreystimaður. Hann var ættstór og auðigur. Eiríkur jarl og Sveinn jarl giftu Einari systur sína Bergljótu Hákonardóttur. Hún var hinn mesti skörungur. Eindriði hét sonur þeirra. Jarlar gáfu Einari veislur stórar í Orkadal og gerðist hann ríkastur og göfgastur í Þrændalögum og var hann hinn mesti styrkur jörlunum og ástvinur.

22. Frá Erlingi Skjálgssyni

Eiríkur jarl lét sér ekki líka að Erlingur Skjálgsson hefði svo mikið ríki og tók hann undir sig allar konungseigur þær er Ólafur konungur hafði veitt Erlingi. En Erlingur tók jafnt sem áður allar landskyldir um Rogaland og guldu landsbúar oft tvennar landskyldir en að öðrum kosti eyddi hann jarðarbyggðina. Lítið fékk jarl af sakeyri því að ekki héldust þar sýslumennirnir og því aðeins fór jarl þar að veislum ef hann hefði mikið fjölmenni.

Þess getur Sighvatur:

Erlingr var svo að jarla
átt, er skjöldungr máttit,
Ólafs mágr, svo að ægði,
aldyggs sonar Tryggva.
Næst gaf sína systur
snarr búþegna harri,
Úlfs föðr var það, aðra,
aldrgifta, Rögnvaldi.

Eiríkur jarl orti fyrir því ekki á að berjast við Erling að hann var frændstór og frændmargur, ríkur og vinsæll. Sat hann jafnan með fjölmenni svo sem þar væri konungshirð. Erlingur var oft á sumrum í hernaði og fékk sér fjár því að hann hélt teknum hætti um rausn og stórmennsku þótt hann hefði þá minni veislur og óhallkvæmri en um daga Ólafs konungs mágs síns.

Erlingur var allra manna fríðastur og mestur og sterkastur, vígur hverjum manni betur og um allar íþróttir líkastur Ólafi konungi Tryggvasyni.

Þess getur Sighvatur:

Erlingi varð engi
annar lendra manna,
ör sá er átti fleiri
orrustur, stoð þorrinn.
Þrek bar seggr til sóknar
sinn, því að fyrst gekk innan,
mildr, í marga hildi,
mest, en úr á lesti.

Það hefir jafnan verið mál manna að Erlingur hafi göfgastur allra lendra manna verið í Noregi. Þau voru börn Erlings og Ástríðar: Áslákur, Skjálgur, Sigurður, Loðinn, Þórir og Ragnhildur er átti Þorbergur Árnason.

Erlingur hafði jafnan með sér níu tigu frelsingja eða fleira og var það bæði vetur og sumar að þar var máldrykkja að dagverðarborði en að náttverði var ómælt drukkið. En þá er jarlar voru nær hafði hann tvö hundruð manna eða fleira. Aldrei fór hann fámennri en með tvítugsessu alskipaða. Erlingur átti skeið mikla, tvö rúm hins fjórða tigar og þó mikil að því. Hann hafði hana í víking eða stefnuleiðangur og voru þar á tvö hundruð manna eða meir.

23. Frá Erlingi Skjálgssyni

Erlingur hafði jafnan heima þrjá tigu þræla og umfram annað man. Hann ætlaði þrælum sínum dagsverk og gaf þeim stundir síðan og lof til að hver er sér vildi vinna um rökkur eða um nætur, hann gaf þeim akurlönd að sá sér korni og færa ávöxtinn til fjár sér. Hann lagði á hvern þeirra verð og lausn. Leystu margir sig hin fyrstu misseri eða önnur en allir þeir er nokkur þrifnaður var yfir leystu sig á þremur vetrum. Með því fé keypti Erlingur sér annað man en leysingjum sínum vísaði hann sumum í síldfiski en sumum til annarra féfanga. Sumir ruddu markir og gerðu þar bú í. Öllum kom hann til nokkurs þroska.

24. Frá Hákoni jarli

Þá er Eiríkur jarl hafði ráðið fyrir Noregi tólf vetur kom til hans orðsending Knúts Danakonungs mágs hans að Eiríkur jarl skyldi fara með honum vestur til Englands með her sinn því að Eiríkur var frægur mjög af hernaði sínum er hann hafði borið sigur úr tveimur orustum þeim er snarpastar höfðu verið á Norðurlöndum, önnur sú er þeir Hákon jarl og Eiríkur börðust við Jómsvíkinga en sú önnur er Eiríkur barðist við Ólaf konung Tryggvason.

Þess getur Þórður Kolbeinsson:

Enn hefst leyfð, þar er lofða
lofkennda frá eg sendu
að hjálmsömum hilmi,
hjarls drottna, boð jarli,
að skyldlegast skyldi,
skil eg hvað gramr lést vilja,
endr til ásta fundar
Eiríkr koma þeira.

Jarl vildi eigi undir höfuð leggjast orðsending konungs. Fór hann úr landi en setti eftir í Noregi lands að gæta Hákon jarl son sinn og fékk hann í hönd Einari þambarskelfi mági sínum að hann skyldi hafa landráð fyrir Hákoni því að hann var þá eigi eldri en sautján vetra.

25. Frá Eiríki jarli

Eiríkur kom á England til fundar við Knút konung og var með honum þá er hann vann Lundúnaborg. Eiríkur jarl barðist fyrir vestan Lundúnaborg. Þar felldi hann Úlfkel snilling.

Svo segir Þórður:

Gullkennir lét gunni
græðis hests, fyr vestan,
Þundr vó leyfðr til landa,
Lundún, saman bundið.
Fékk, regn Þorins rekka
rann, of þingamönnum,
ýgleg högg þar er eggjar,
Ulfkell, blár skulfu.

Eiríkur jarl var á Englandi einn vetur og átti nokkurar orustur. En annað haust eftir ætlaði hann til Rúmferðar. Þá andaðist hann af blóðláti þar á Englandi.

26. Dráp Játmundar

Knútur konungur átti margar orustur á Englandi við sonu Aðalráðs Englakonungs og höfðu ýmsir betur. Hann kom það sumar til Englands sem Aðalráður andaðist. Þá fékk Knútur konungur Emmu drottningar. Voru börn þeirra Haraldur, Hörða-Knútur, Gunnhildur.

Knútur konungur sættist við Játmund konung. Skyldi hafa hálft England hvor þeirra. Á sama mánaði drap Heinrekur strjóna Játmund konung. Eftir það rak Knútur konungur af Englandi alla sonu Aðalráðs konungs.

Svo segir Sighvatur:

Og senn sonu
sló, hvern og þó,
Aðalráðs eða
út flæmdi Knútr.

27. Frá Ólafi og Aðalráðssonum

Það sumar komu synir Aðalráðs konungs af Englandi til Rúðu í Valland til móðurbræðra sinna er Ólafur Haraldsson kom vestan úr víking og voru allir þann vetur í Norðmandí og bundu lag sitt saman með þeim skildaga að Ólafur konungur skyldi hafa Norðimbraland ef þeir eignuðust England af Dönum.

Þá sendi Ólafur konungur um haustið Hrana fóstra sinn til Englands að eflast þar að liði og sendu Aðalráðssynir hann með jartegnum til vina sinna og frænda en Ólafur konungur fékk honum lausafé mikið að spenja lið undir þá. Og var Hrani um veturinn í Englandi og fékk trúnað margra ríkismanna og var landsmönnum betur viljað að hafa samlenda konunga yfir sér en þó var þá orðinn svo mikill styrkur Dana í Englandi að allt landsfólk var undir brotið ríki þeirra.

28. Orustur Ólafs konungs

Um vorið fóru þeir vestan allir saman, Ólafur konungur og synir Aðalráðs konungs, komu til Englands þar er heitir Jungufurða, gengu þar á land upp með liði sínu og til borgar. Þar voru fyrir margir þeir menn er þeim höfðu liði heitið. Þeir unnu borgina og drápu mart manna.

En er við urðu varir Knúts konungs menn þá drógu þeir her saman og urðu brátt fjölmennir svo að synir Aðalráðs konungs höfðu ekki liðsafla við og sáu þann sinn kost helst að halda í brott og aftur vestur til Rúðu.

Þá skildist Ólafur konungur við þá og vildi eigi fara til Vallands. Hann sigldi norður með Englandi allt til Norðimbralands. Hann lagði að í höfn þeirri er kallað er fyrir Valdi og barðist þar við bæjarmenn og fékk þar sigur og fé mikið.

29. Ferð Ólafs konungs í Noreg

Ólafur konungur lét þar eftir vera langskipin en bjó þaðan knörru tvo og hafði hann þá tuttugu menn og tvö hundruð, albrynjað og valið mjög. Hann sigldi norður í haf um haustið og fengu ofviðri mikið í hafi svo að mannhætt var en með því að þeir höfðu liðskost góðan og hamingju konungs þá hlýddi vel.

Svo segir Óttar:

Valfasta, bjóstu vestan,
veðrörr, tvo knörru.
Hætt hafið ér í ótta
oft, skjöldunga þofti.
Næði straumr, ef stæði,
strangr kaupskipum angra,
innan borðs á unnum
erringar lið verra.

Og enn svo:

Eigi hræddust ægi,
ér fóruð sjá stóran.
Allvaldr um getr aldar
engi nýtri drengi.
Oft varð fars, en forsi
flaust hratt af sér bröttum,
neytt, áðr Noreg beittuð,
niðjungr Haralds, miðjan.

Hér segir það að Ólafur konungur kom utan að miðjum Noregi. En sú ey heitir Sæla er þeir tóku land út frá Staði. Þá mælti konungur, lét það mundu vera tímadag er þeir höfðu lent við Sælu í Noregi og kvað það vera mundu góða vitneskju er svo hafði að borist. Þá gengu þeir upp á eyna. Stígur konungur þar öðrum fæti sem var leira nokkur en studdist öðrum fæti á kné.

Þá mælti hann: «Féll eg nú,» segir konungur.

Þá segir Hrani: «Eigi féllstu konungur, nú festir þú fætur í landi.»

Konungur hló við og mælti: «Vera má svo ef guð vill.»

Ganga þá ofan til skipa og sigldu suður til Úlfasunda. Þar spurðu þeir til Hákonar jarls, að hann var suður í Sogni og var hans þá von norður þegar er byr gæfi og hafði hann eitt skip.

30. Tekinn Hákon jarl í Sauðungssundi

Ólafur konungur hélt inn af leið skipum sínum er hann kom suður yfir Fjalir og sneri inn til Sauðungssunda og lagðist þar, lágu sínum megin sundsins hvoru skipinu og höfðu milli sín kaðal digran.

Á þeirri sömu stundu reri að sundinu Hákon jarl Eiríksson með skeið skipaðri og hugðu þeir vera í sundinu kaupskip tvö. Róa þeir í sundið fram milli skipanna. Nú draga þeir Ólafur konungur strengina upp undir miðjan kjöl skeiðinni og undu með vindásum. Þegar er nokkur festi, gekk upp aftur en steyptist fram svo að sjárinn féll inn um söxin, fyllti skeiðina og því næst hvelfdi. Ólafur konungur tók þar af sundi Hákon jarl og alla þá menn hans er þeir náðu handtaka en suma drápu þeir en sumir sukku niður.

Svo segir Óttar:

Blágjóða, tókstu, bræðir
bengjálfrs, og þá sjálfa,
skatti gnægðr, með skreyttu
skeið Hákonar reiði.
Ungr sóttir þú, Þróttar
þings mágrennir, hingað,
máttit jarl þau er áttuð
áttlönd, fyrir því standa.

Hákon jarl var upp leiddur á skipið konungs. Var hann allra manna fríðastur er menn höfðu séð. Hann hafði hár mikið og fagurt sem silki, bundið um höfuð sér gullhlaði. Settist hann í fyrirrúmið.

Þá mælti Ólafur konungur: «Eigi er það logið af yður frændum hversu fríðir menn þér eruð sýnum en farnir eruð þér nú að hamingju.»

Þá segir Hákon: «Ekki er þetta óhamingja er oss hefir hent. Hefir það lengi verið að ýmsir hafa sigraðir verið. Svo hefir og farið með yðrum og vorum frændum að ýmsir hafa betur haft, en eg lítt kominn af barnsaldri. Vorum vér nú og ekki vel við komnir að verja oss, vissum vér nú ekki vonir til ófriðar. Kann vera að oss takist annað sinn betur til en nú.»

Þá svarar Ólafur konungur: «Grunar þig ekki það jarl að hér hafi svo að borið að þú munir hvorki fá héðan í frá sigur né ósigur?»

Jarl segir: «Þér munuð ráða konungur að sinni.»

Þá segir Ólafur konungur: «Hvað viltu til vinna jarl að eg láti þig fara hvert er þú vilt heilan og ósakaðan?»

Jarl spyr hvers hann vildi beiðast.

Konungur segir: «Einskis annars en þú farir úr landi og gefir svo upp ríki yðart og sverjir þess eiða að þér haldið eigi orustu héðan í frá í gegn mér.»

Jarl svarar, lést svo gera mundu. Nú vinnur Hákon jarl Ólafi konungi eiða að hann skal aldrei síðan berjast í móti honum og eigi verja Noreg með ófriði fyrir Ólafi konungi né sækja hann.

Þá gefur Ólafur konungur honum grið og öllum hans mönnum. Tók jarl við skipi því er hann hafði áður haft. Róa menn í brott leið sína.

Þess getur Sighvatur skáld:

Ríkr kvað sér að sækja
Sauðungs, konungr, nauðir,
fremdargjarn, í fornu
fund Hákonar, sundi.
Strangr hitti þar þengill
þann jarl, er var annar
æstr og ætt gat besta
ungr á danska tungu.

31. Ferð Hákonar jarls

Eftir þetta býr jarl sig sem skyndilegast úr landi og siglir vestur til Englands og hittir þar Knút konung móðurbróður sinn, segir honum allt hvernug farið hefir með þeim Ólaf konungi. Knútur konungur tók við honum forkunnarvel. Setti hann Hákon innan hirðar með sér og gefur honum mikið vald í sínu ríki. Dvaldist Hákon jarl þar nú langa hríð með Knúti.

Þá er þeir Sveinn og Hákon réðu Noregi gerðu þeir sátt við Erling Skjálgsson og var bundið með því að Áslákur sonur Erlings fékk Gunnhildar dóttur Sveins jarls. Skyldu þeir feðgar Erlingur og Áslákur hafa veislur þær allar er Ólafur konungur Tryggvason hafði fengið Erlingi. Gerðist Erlingur þá fullkominn vinur jarlanna og bundu þeir það svardögum sín á milli.

32. Viðurbúnaður Ástu

Ólafur konungur hinn digri snýr austur með landi og átti víða þing við búendur og ganga margir til handa honum en sumir mæla í móti, þeir er voru frændur eða vinir Sveins jarls. Fór Ólafur konungur fyrir því skyndilega austur til Víkur og heldur liði sínu inn í Víkina og setur upp skip sín, snýr þá á land upp.

Og er hann kom á Vestfold þá fögnuðu honum þar vel margir menn, þeir sem verið höfðu kunnmenn eða vinir föður hans. Þar var og mikil ætt hans um Foldina.

Hann fór um haustið á land upp á fund Sigurðar konungs mágs síns og kom þar snemma einnhvern dag. En er Ólafur konungur kemur nær býnum þá hljópu þar fyrir þjónustusveinar til bæjarins og inn í stofuna. Ásta móðir Ólafs konungs sat þar inni og konur nokkurar með henni. Þá segja sveinarnir henni um ferð Ólafs konungs og svo að hans var þangað brátt von.

Ásta stendur upp þegar og hét á karla og konur að búast um þar sem best. Hún lét fjórar konur taka búnað stofunnar og búa skjótt með tjöldum og um bekki. Tveir karlar báru hálminn á gólfið, tveir settu trapisuna og skapkerið, tveir settu borðið, tveir settu vistina, tvo sendi hún brott af býnum, tveir báru inn ölið en allir aðrir, konur og karlar, gengu út í garðinn. Sendimenn fóru til Sigurðar konungs þar sem hann var og færðu honum tignarklæði hans og hest hans með gylltum söðli en bitullinn settur smeltum og steinum og allur gylltur. Fjóra menn sendi hún fjögurra vegna í byggðina og bauð til sín öllu stórmenni að þiggja veislu er hún gerði fagnaðaröl í móti syni sínum. Alla menn aðra er fyrir voru lét hún taka hinn besta búnað er til áttu en þeim lánaði hún klæði er eigi áttu sjálfir.

33. Frá búnaði Sigurðar konungs

Sigurður konungur sýr var þá staddur út á akri er sendimenn komu til hans og segja honum þessi tíðindi og svo allt það er Ásta lét aðhafast heima á bænum. Hann hafði þar marga menn. Sumir skáru korn, sumir bundu, sumir óku heim korni, sumir hlóðu í hjálma eða í hlöður. En konungur og tveir menn með honum gengu stundum á akurinn, stundum þar er hlaðið var korninu. Svo er sagt um búnað hans að hann hafði kyrtil blán og blár hosur, háva skúa og bundna að legg, grá kápu og grán hött víðan og url um andlit, staf í hendi og ofan á silfurhólkur gylltur og í silfurhringur.

Svo er sagt frá lunderni Sigurðar konungs að hann var sýslumaður mikill og búnaðarmaður um fé sitt og bú og réð sjálfur búnaði. Engi var hann skartsmaður og heldur fámálugur. Hann var allra manna vitrastur þeirra er þá voru í Noregi og auðgastur að lausafé. Hann var friðsamur og óágjarn. Ásta kona hans var ör og ríklunduð. Þessi voru börn þeirra: Guttormur var elstur, þá Gunnhildur, þá Hálfdan, þá Ingiríður, þá Haraldur.

Þá mæltu sendimenn: «Þau orð bað Ásta að við skyldum bera þér að nú þætti henni allmiklu máli skipta að þér tækist stórmannlega og bað þess að þú skyldir meir líkjast í ætt Haralds hins hárfagra að skaplyndi en Hrana mjónef móðurföður þínum eða Nereið jarli hinum gamla þótt þeir hafi verið spekingar miklir.»

Konungur segir: «Tíðindi mikil segið þér enda berið þér allákaflega. Látið hefir Ásta mikið yfir þeim mönnum fyrr, er henni var minni skylda til, og sé eg að sama skaplyndi hefir hún enn. Og tekur hún þetta með miklum ákafa ef hún fær svo út leiddan son sinn að það sé með þvílíkri stórmennsku sem nú leiðir hún hann inn. En svo líst mér ef þetta skal vera að þeir er sig veðsetja í þetta mál munu hvorki sjá fyrir fé sínu eða fjörvi. Þessi maður, Ólafur konungur, brýst í móti miklu ofurefli og á honum og hans ráðum liggur reiði Danakonungs og Svíakonungs ef hann heldur þessu fram.»

34. Veisla

Nú er konungur hafði þetta mælt þá sest hann niður og lét draga af sér skóklæði og setti á fætur sér kordúnahosur og batt með gylltum sporum. Þá tók hann af sér kápuna og kyrtilinn og klæddi sig með pellsklæðum og yst skarlatskápu, gyrti sig með sverði búnu, setur gylltan hjálm á höfuð sér, stígur þá á hest sinn. Hann gerði verkmenn í byggðina og tók sér þrjá tigu manna vel búna er riðu heim með honum.

En er þeir riðu upp í garðinn fyrir stofuna þá sá hann öðrum megin í garðinum hvar brunaði fram merki Ólafs konungs og þar hann sjálfur með og hundrað manna með honum og allir vel búnir. Þá var og skipað mönnum allt milli húsanna. Fagnaði Sigurður konungur af hesti Ólafi konungi stjúpsyni sínum og liði hans og bauð honum inn til drykkju með sér en Ásta gekk til og kyssti son sinn og bauð honum með sér að dveljast og allt heimult, lönd og lið, er hún mætti veita honum.

Ólafur konungur þakkaði henni vel orð sín. Hún tók í hönd honum og leiddi hann eftir sér í stofuna og til hásætis. Sigurður konungur fékk menn til að varðveita klæðnað þeirra og gefa korn hestum þeirra en hann gekk til hásætis síns. Og var sú veisla ger með hinu mesta kappi.

35. Málstefna Ólafs konungs og Sigurðar konungs

En er Ólafur konungur hafði þar eigi lengi verið þá var það einnhvern dag að hann heimti til tals við sig og á málstefnu Sigurð konung mág sinn og Ástu móður sína og Hrana fóstra sinn.

Þá tók Ólafur konungur til máls: «Svo er,» segir hann, «sem yður er kunnigt að eg em kominn hingað til lands og verið áður langa hríð utanlands. Hefi eg og mínir menn haft það einu alla þessa stund til framflutningar oss er vér höfum sótt í hernaði og í mörgum stöðum orðið til að hætta bæði lífi og sálu. Hefir margur maður fyrir oss, sá er saklaus hefir verið, orðið að láta féið en sumir lífið með. En yfir þeim eignum sitja útlendir menn er átti minn faðir og hans faðir og hver eftir annan vorra frænda og em eg óðalborinn til. Og láta þeir sér eigi það einhlítt heldur hafa þeir undir sig tekið eigur allra vorra frænda er að langfeðgatali erum komnir frá Haraldi hinum hárfagra. Miðla þeir sumum lítið af en sumum með öllu ekki.

Nú skal því upp lúka fyrir yður er mér hefir mjög lengi í skapi verið, að eg ætla að heimta föðurarf minn og mun eg hvorki koma á fund Danakonungs né Svíakonungs að biðja þá né einna muna um þótt þeir hafi nú um hríð kallað sína eign, það er var arfur Haralds hárfagra. Ætla eg heldur, yður satt til að segja, að sækja oddi og eggju frændleifð mína og kosta þar að allra frænda minna og vina og þeirra allra er að þessu ráði vilja hverfa með mér. Skal eg og svo upp hefja þetta tilkall að annaðhvort skal vera að eg skal eignast ríki það allt til forráða, er þeir felldu frá Ólaf konung Tryggvason frænda minn, eða eg skal hér falla á frændleifð minni.

Nú vænti eg um þig Sigurður mágur, eða aðra þá menn í landinu er óðalbornir eru hér til konungdóms að lögum þeim er setti Haraldur hárfagri, þá mun yður eigi svo mikilla muna ávant að þér munuð upp hefjast að reka af höndum frændaskömm þessa, að eigi munuð þér alla yður við leggja að efla þann er forgangsmaður vill vera að hefja upp ætt vora. En hvort sem þér viljið lýsa nokkurn manndóm um þenna hlut þá veit eg skaplyndi alþýðunnar að til þess væri öllum títt að komast undan þrælkan útlendra höfðingja þegar er traust yrði til. Hefi eg fyrir þá sök þetta mál fyrir engan mann borið fyrr en þig að eg veit að þú ert maður vitur og kannt góða forsjá til þess hvernug reisa skal frá upphafi þessa ætlan, hvort það skal fyrst ræða af hljóði fyrir nokkurum mönnum eða skal það bera þegar í fjölmæli fyrir alþýðu.

Hefi eg nú nokkuð roðið tönn á þeim er eg tók höndum Hákon jarl og er hann nú úr landi stokkinn og gaf hann mér með svardögum þann hluta ríkis er hann átti áður. Nú ætla eg oss munu léttara falla að eiga um við Svein jarl einn saman heldur en þá að þeir væru báðir til landvarnar.»

Sigurður konungur svarar nú: «Eigi býr þér lítið í skapi Ólafur konungur. Er þessi ætlan meir af kappi en forsjá að því sem eg virði enda er þess von að langt muni í milli vera lítilmennsku minnar og áhuga þess hins mikla er þú munt hafa, því að þá er þú varst lítt af barnsaldri kominn varstu þegar fullur af kappi og ójafnaði í öllu því er þú máttir. Ertu nú og reyndur mjög í orustum og samið þig eftir siðvenju útlendra höfðingja. Nú veit eg að svo fremi munt þú þetta hafa upp tekið að ekki mun tjá að letja þig. Er og vorkunn á að slíkir hlutir liggi í miklu rúmi þeim, er nokkurir eru kappsmenn, er öll ætt Haralds hárfagra og konungdómur fellur niður. En í engum heitum vil eg bindast fyrr en eg veit ætlan eða tiltekju annarra konunga á Upplöndum. En vel hefir þú það gert er þú lést mig fyrr vita þessa ætlan en þú bærir það í hámæli fyrir alþýðu.

Heita vil eg þér umsýslu minni við konunga og svo við aðra höfðingja eða annað landsfólk. Svo skal þér Ólafur konungur heimult fé mitt til styrks þér. En svo fremi vil eg að vér berum þetta fyrir alþýðu er eg sé að nokkur framkvæmd mætti að verða eða nokkur styrkur fæst til þessa stórræðis fyrir því að svo skaltu til ætla að mikið er í fang tekið ef þú vilt kappi deila við Ólaf Svíakonung og við Knút, er nú er bæði konungur í Englandi og Danmörk, og mun rammar skorður þurfa við að reisa ef hlýða skal. En ekki þykir mér ólíklegt að þér verði gott til liðs því að alþýðan er gjörn til nýjungarinnar. Fór svo fyrr er Ólafur konungur Tryggvason kom til lands að allir urðu því fegnir og naut hann þó eigi lengi konungdómsins.»

Þá er svo var komið ræðunni tók Ásta til orða: «Svo er mér um gefið sonur minn að eg em þér fegin orðin og því fegnust að þinn þroski mætti mestur verða. Vil eg til þess engi hlut spara þann er eg á kosti en hér er lítt til ráðastoða að sjá er eg em. En heldur vildi eg, þótt því væri að skipta að þú yrðir yfirkonungur í Noregi þótt þú lifðir eigi lengur í konungdóminum en Ólafur konungur Tryggvason, heldur en hitt, að þú værir eigi meiri konungur en Sigurður sýr og yrðir ellidauður.»

Og eftir þessi orð slitu þeir málstefnunni.

Dvaldist Ólafur konungur þar um hríð með öllu liði sínu. Sigurður konungur veitti þeim annan hvern dag að borðhaldi fiska og mjólk en annan hvern slátur og mungát.

36. Frá Upplendingakonungum

Í þenna tíma voru margir Upplendingakonungar, þeir er fyrir fylkjum réðu, og voru þeir flestir komnir af ætt Haralds hins hárfagra. Fyrir Heiðmörk réðu tveir bræður, Hrærekur og Hringur, en í Guðbrandsdölum Guðröður. Konungur var og á Raumaríki. Einn konungur var og, sá er hafði Þótn og Haðaland. Á Valdresi var og konungur.

Sigurður konungur sýr átti stefnulag við fylkiskonunga uppi á Haðalandi og var á þeirri stefnu Ólafur Haraldsson. Þá bar Sigurður upp fyrir fylkiskonunga þá, sem hann hafði stefnulag við gert, ráðastofnan Ólafs mágs síns og biður þá styrks bæði að liði og ráðum og samþykki, telur þá upp hver nauðsyn þeim var á að reka af höndum það undirbrot er Danir og Svíar hafa þá undir lagt, segir að nú mun til verða sá maður er fyrir mun ganga í þessu ráði, telur þá upp mörg snilldarverk þau er Ólafur konungur hefir gert í ferðum sínum og hernaði.

Þá segir Hrærekur konungur: «Satt er það að mjög er niður fallið ríki Haralds konungs hins hárfagra er engi hans ættmaður er yfirkonungur í Noregi. Nú hafa menn hér í landi ýmiss við freistað. Var Hákon Aðalsteinsfóstri konungur og undu allir því vel. En er Gunnhildarsynir réðu fyrir landi þá varð öllum leitt þeirra ofríki og ójafnaður, að heldur vildu menn hafa útlenda konunga yfir sér og vera sjálfráðari því að útlendir höfðingjar voru þeim jafnan fjarri og vönduðu lítt um siðu manna, höfðu slíkan skatt af landi sem þeir skildu sér. En er þeir urðu ósáttir Haraldur Danakonungur og Hákon jarl þá herjuðu Jómsvíkingar í Noreg. Þá réðst í móti þeim allur múgur og margmenni og hratt þeim ófriði af sér. Eggjuðu menn þá til þess Hákon jarl að halda landi fyrir Danakonungi og verja oddi og eggju. En er hann þóttist fullkominn til ríkis af styrk landsmanna þá gerðist hann svo harður og frekur við landsfólkið að menn þoldu honum eigi og drápu Þrændir sjálfir hann og hófu þá til ríkis Ólaf Tryggvason er óðalborinn var til konungdóms og fyrir allra hluta sakir vel til höfðingja fallinn. Geystist að því allur landsmúgur að vilja hann hafa að konungi yfir sér og reisa þá upp af nýju það ríki er eignast hafði Haraldur hinn hárfagri. En er Ólafur þóttist fullkominn að ríki þá var fyrir honum engi maður sjálfráði. Gekk hann við freku að við oss smákonungana að heimta undir sig þær skyldir allar, er Haraldur hinn hárfagri hafði hér tekið, og enn sumt frekara en að síður voru menn fyrir honum sjálfráða að engi réð á hvern guð trúa skyldi. En er hann var frá landi tekinn þá höfum vér nú haldið vináttu við Danakonung og höfum vér af honum traust mikið haft um alla hluti er vér þurfum að krefja en sjálfræði og hóglífi innanlands og ekki ofríki.

Nú er það að segja frá mínu skaplyndi að eg uni vel við svo búið. Veit eg eigi það þótt minn frændi sé konungur yfir landi hvort batna skal við það minn réttur nokkuð en ella mun eg engan hlut eiga í þessari ráðagerð.»

Þá mælti Hringur bróðir hans: «Birta mun eg mitt skaplyndi. Betra þykir mér, þótt eg hafi hið sama ríki og eignir, að minn frændi sé konungur yfir Noregi heldur en útlendir höfðingjar og mætti enn vora ætt upp hefja hér í landi. En það er mitt hugboð um þenna mann, Ólaf, að auðna hans og hamingja muni ráða hvort hann skal ríki fá eða eigi en ef hann verður einvaldskonungur yfir Noregi þá mun sá þykja betur hafa er stærri hluti á til að telja við hann um hans vináttu. Nú hefir hann í engan stað meira kost en einnhver vor en því minna að vér höfum nokkur lönd og ríki til forráða en hann hefir alls engi. Erum vér og eigi síður óðalbornir til konungdóms.

Nú viljum vér gerast svo miklir liðsinnismenn hans að unna honum hinnar æðstu tignar hér í landi og fylgja þar að með öllum vorum styrk. Hví muni hann oss það eigi vel launa og lengi muna með góðu ef hann er svo mikill manndómsmaður sem eg hygg og allir kalla. Nú munum vér á þá hættu leggja, ef eg skal ráða, að binda við hann vináttu.»

Eftir það stóð upp annar að öðrum og talaði og kom þar niður að þess voru flestir fúsari að binda félagsskap við Ólaf konung. Hann hét þeim sinni vináttu fullkominni og réttarbót ef hann yrði einvaldskonungur yfir Noregi. Binda þeir þá sætt sína með svardögum.

37. Gefið Ólafi konungsnafn

Eftir það stefndu konungar þing. Þá bar Ólafur konungur upp fyrir alþýðu þessa ráðagerð og það tilkall er hann hefir þar til ríkis, biður þá bændur sér viðurtöku til konungs yfir landi, heitir þeim þar í móti lögum fornum og því að verja land fyrir útlendum her og höfðingjum, talar um það langt og snjallt. Fékk hann góðan róm að máli sínu.

Þá stóðu upp konungar og töluðu annar að öðrum og fluttu allir þetta mál og erindi fyrir lýðinum. Varð það þá að lyktum að Ólafi var gefið konungsnafn yfir landi öllu og dæmt honum land að upplenskum lögum.

38. Ferð Ólafs konungs um Upplönd

Þá hóf Ólafur konungur þegar ferð sína og lét bjóða upp veislur fyrir sér þar sem konungsbú voru. Fór hann fyrst um Haðaland og þá sótti hann norður í Guðbrandsdala. Fór þá svo sem Sigurður sýr hafði getið að lið dreif til hans svo mart að hann þóttist eigi hálft þurfa og hafði hann þá nær þremur hundruðum manna. Þá entust honum ekki veislurnar sem ákveðið var, því að það hafði verið siðvenja að konungar fóru um Upplönd með sex tigu manna eða sjö tigu en aldrei meir en hundrað manna. Fór konungur skjótt yfir og var eina nótt í sama stað. En er hann kom norður til fjalls þá byrjar hann ferð sína, kemur norður um fjallið og fór til þess er hann kom norður af fjallinu.

Ólafur konungur kom ofan í Uppdal og dvaldist þar um nótt. Síðan fór hann Uppdalsskóg og kom fram í Meðaldal, krafði þar þings og stefndi þar til sín bóndum. Síðan talaði konungur á þinginu og krafði bændur sér viðurtöku, bauð þeim þar í móti rétt og lög svo sem boðið hafði Ólafur konungur Tryggvason.

Búendur höfðu engi styrk til þess að halda ósætt við konung og lauk svo að þeir veittu konungi viðurtöku og bundu það svardögum. En þó höfðu þeir áður gert njósn ofan í Orkadal og svo í Skaun og létu segja um ferð Ólafs konungs allt það er þeir vissu af.

39. Útboð um Þrándheim

Einar þambarskelfir átti bú og húsabæ á Skaun. En er honum kom njósn um farar Ólafs konungs þá lét hann þegar skera upp herör og sendi fjögurra vega, stefndi saman þegn og þræl með alvæpni og fylgdi það boði að þeir skyldu verja land fyrir Ólafi konungi. Örboð fór til Orkadals og svo til Gaulardals og dróst þar allt her saman.

40. Ferð Ólafs konungs í Þrándheim

Ólafur konungur fór með liði sínu ofan til Orkadals. Fór hann allspaklega og með friði.

En er hann kom út á Grjótar mætti hann þar búandasafnaði og höfðu þeir meir en sjö hundruð manna. Fylkti þá konungur liði sínu því að hann hugði að bændur mundu berjast vilja. En er bændur sáu það þá tóku þeir að fylkja og varð þeim allt ómjúkara því að áður var ekki um ráðið hver höfðingi skyldi vera fyrir þeim.

En er Ólafur konungur sá það að bóndum tókst ógreitt þá sendi hann til þeirra Þóri Guðbrandsson. En er hann kom segir Þórir að Ólafur konungur vill ekki berjast við þá. Hann nefndi tólf menn, þá er ágætastir voru í þeirra flokki, að koma til fundar við Ólaf konung. En bændur þekktust það og ganga fram yfir egg nokkura er þar verður, þar til er stóð fylking konungs.

Þá mælti Ólafur konungur: «Þér bændur hafið nú vel gert er eg á kost að tala við yður því að eg vil það yður segja um erindi mitt hingað til Þrándheims, það er í upphafi, að eg veit að þér hafið áður spurt, að vér Hákon jarl fundumst í sumar og lauk svo vorum skiptum að hann gaf mér ríki það allt er hann átti hér í Þrándheimi, en það er sem þér vitið Orkdælafylki og Gauldælafylki og Strindafylki og Eynafylki. En eg hefi hér vitnismenn þá er þar voru og handsal okkað jarls sáu og heyrðu orð og eiða og allan skildaga er jarl veitti mér. Vil eg yður lög bjóða og frið eftir því sem fyrir mér bauð Ólafur konungur Tryggvason.»

Hann talaði langt og snjallt og kom þar að lokum að hann bauð bóndum tvo kosti, þann annan að ganga til handa honum og veita honum hlýðni, sá var annar að halda þá við hann orustu.

Síðan fóru bændur aftur til liðs síns og sögðu sín erindi, leituðu þá ráðs við allt fólkið hvern þeir skyldu af taka. En þótt þeir kærðu þetta um hríð milli sín þá kuru þeir það af að ganga til handa konungi. Var það þá eiðum bundið af hendi bónda.

Skipaði konungur þá ferð sína og gerðu bændur veislur í móti honum. Fór konungur þá út til sjávar og ræður sér þar til skipa. Hann hafði langskip, tvítugsessu, af Gelmini frá Gunnars. Annað skip, tvítugsessu, hafði hann af Viggjum frá Loðins. Þriðja skip, tvítugsessu, hafði hann af Öngrum í Nesi. Þann bæ hafði átt Hákon jarl en þar réð fyrir ármaður sá er Bárður hvíti er nefndur. Konungur hafði skútur fjórar eða fimm. Fór hann og skyndilega og hélt inn eftir firði.

41. Ferð Sveins jarls

Sveinn jarl var þá inn í Þrándheimi að Steinkerum og lét þar búa til jólaveislu. Þar var kaupstaður.

Einar þambarskelfir spurði að Orkdælar höfðu gengið til handa Ólafi konungi. Þá sendi hann njósnarmenn til Sveins jarls. Fóru þeir fyrst til Niðaróss og tóku þar róðrarskútu er Einar átti. Þeir fóru síðan inn eftir firði og komu einn dag síðarla inn til Steinkera og báru þessi erindi jarli og segja allt um ferð Ólafs konungs.

Jarl átti langskip er flaut tjaldað fyrir býnum. Lét hann þegar um kveldið flytja á skipið lausafé sitt og klæðnað manna og drykk og vist, svo sem skipið tók við, og reru út þegar um nóttina og komu í lýsing í Skarnsund. Þar sáu þeir Ólaf konung róa utan eftir firði með lið sitt. Snýr jarl þá að landi inn fyrir Masarvík. Þar var þykkur skógur. Þeir lögðu svo nær berginu að lauf og limar tóku út yfir skipið. Þá hjuggu þeir stór tré og settu allt á útborða í sjá ofan svo að ekki sá skipið fyrir laufinu og var eigi alljóst orðið þá er konungur reri inn um þá. Logn var veðurs. Reri konungur inn um eyna en er sýn fal milli þeirra reri jarl út á fjörð og allt út á Frostu, lögðu þar að landi. Þar var hans ríki.

42. Ráðagerð Sveins jarls og Einars

Sveinn jarl sendi menn út í Gaulardal eftir Einari mági sínum. En er Einar kom til jarls þá segir jarl honum allt um skipti þeirra Ólafs konungs og svo það að hann vill liði safna og fara á fund Ólafs konungs og berjast við hann.

Einar svarar svo: «Vér skulum fara ráðum með, halda til njósn hvað Ólafur konungur ætlast fyrir. Látum það eitt til vor spyrja að vér séum kyrrir. Kann þá vera, ef hann spyr eigi liðsafnað vorn, að hann setjist inn að Steinkerum um jólin því að þar er nú vel fyrir búið. En ef hann spyr að vér höfum liðsafnað þá mun hann stefna þegar út úr firði og höfum vér hans þá ekki.»

Svo var gert sem Einar mælti. Fór jarl á veislur upp í Stjóradal til bónda.

Ólafur konungur, þá er hann kom til Steinkera, tók hann upp veisluna og lét bera á skip sín og aflaði til byrðinga og hafði með sér bæði vist og drykk og bjóst í brott sem skyndilegast og hélt út allt til Niðaróss. Þar hafði Ólafur konungur Tryggvason látið efna til kaupstaðar sem fyrr var ritið. En er Eiríkur jarl kom til lands þá efldi hann á Hlöðum þar sem faðir hans hafði höfuðbæ sinn látið vera en hann órækti hús þau er Ólafur hafði látið gera við Nið. Voru þau þá niður fallin sum en sum stóðu og voru heldur óbyggileg.

Ólafur konungur hélt skipum sínum upp í Nið. Lét hann þar þegar búast um í þeim húsum er uppi stóðu en reisa upp þau er niður voru fallin og hafði þar að fjölda manns, lét og þá flytja upp í húsin bæði drykkinn og vistina og ætlaði þar að sitja um jólin. En er það spurði Sveinn jarl og Einar þá gera þeir ráð sín í öðrum stað.

43. Frá Sighvati skáld

Þórður Sigvaldaskáld hét maður íslenskur. Hann hafði verið lengi með Sigvalda jarli og síðan með Þorkatli háva bróður jarls en eftir fall jarls þá var Þórður kaupmaður. Hann hitti Ólaf konung er hann var í vesturvíking og gerðist hans maður og fylgdi honum síðan. Var hann þá með konungi er þetta var tíðinda.

Sighvatur var sonur Þórðar. Hann var að fóstri með Þorkatli að Apavatni. En er hann var nálega vaxinn maður þá fór hann utan af landi með kaupmönnum og kom skip það um haustið til Þrándheims og vistuðust þeir menn í héraði. Þann sama vetur kom Ólafur konungur í Þrándheim svo sem nú var ritið.

En er Sighvatur spurði að Þórður faðir hans var þar með konungi þá fór Sighvatur til konungs, hitti Þórð föður sinn og dvaldist þar um hríð.

Sighvatur var snemma skáld gott. Hann hafði ort kvæði um Ólaf konung og bauð konungi að hlýða.

Konungur segir að hann vill ekki yrkja láta um sig, segir að hann kann ekki að heyra skáldskap.

Þá kvað Sighvatur:

Hlýð mínum brag, meiðir
myrkblás, því að kannk yrkja,
alltiginn, máttu eiga
eitt skald, drasils tjalda.
Þótt öllungis allra,
allvaldr, lofi skalda,
þér fæ eg hróðrs að hvoru
hlít, annarra nítið.

Ólafur konungur gaf Sighvati að bragarlaunum gullhring þann er stóð hálfa mörk.

Sighvatur gerðist hirðmaður Ólafs konungs. Þá kvað hann:

Eg tók lystr, né eg lasta,
leyfð íð er það síðan,
sóknar Njörðr við sverði,
sá er mínn vilji, þínu.
Þollr, gastu húskarl hollan,
höfum ráðið vel báðir,
látrs, en eg lánardrottin,
linns blóða, mér góðan.

Sveinn jarl hafði látið taka um haustið hálfa landaura af Íslandsfarinu svo sem fyrr var vant því að Eiríkur jarl og Hákon jarl höfðu þær tekjur sem aðrar að helmingi þar í Þrándheimi.

En er Ólafur konungur var þar kominn þá gerði hann til sína menn að heimta hálfa landaura af Íslandsförum en þeir fóru á fund konungs. Þeir báðu Sighvat liðveislu.

Þá gekk hann fyrir konung og kvað:

Gerbænn mun eg Gunnar
gamteitöndum heitinn,
áðr þágum vér ægis
eld, ef nú bið eg felda.
Landaura veittu, lúru
látrþverrandi, af knerri,
enn ofganga, engi,
eg hefi sjálfr krafið, hálfa.

44. Frá Sveini jarli

Sveinn jarl og þeir Einar þambarskelfir drógu saman her mikinn og fóru út til Gaulardals hið efra og stefna út til Niðaróss og höfðu nær tuttugu hundruð manna.

Menn Ólafs konungs voru út á Gaularási og héldu hestvörð. Þeir urðu varir við er herinn fór ofan úr Gaulardal og báru þá konungi njósn um miðnætti. Stóð Ólafur konungur þegar upp og lét vekja liðið. Gengu þeir þegar á skip og báru út öll klæði sín og vopn og það allt er þeir gátu með komist, reru þá út úr ánni. Kom þá jafnskjótt jarlsliðið til bæjarins. Tóku þeir þá jólavistina alla en brenndu húsin öll.

Fór Ólafur konungur út eftir firði til Orkadals og gekk þar af skipum, fór þá upp um Orkadal allt til fjalls og austur yfir fjall til Dala.

Frá þessu er sagt, að Sveinn jarl brenndi bæ í Niðarósi, í flokki þeim er ortur er um Klæng Brúsason:

Brunnu allvalds inni,
eldr, hykk, að sal felldi,
eimr skaut á her hrími,
hálfger við Nið sjálfa.

45. Frá Ólafi konungi

Ólafur konungur fór þá suður eftir Guðbrandsdölum og þaðan út á Heiðmörk, fór allt að veislum um hávetri en dró saman her er voraði og fór út í Víkina. Hann hafði mikið lið af Heiðmörk er konungar fengu honum. Fóru þaðan lendir menn margir. Í þeirri ferð var Ketill kálfur á Hringunesi. Ólafur konungur hafði og lið af Raumaríki.

Sigurður konungur sýr mágur hans kom til liðs við hann með mikla sveit manna. Sækja þeir þá út til sjávar og ráða sér til skipa og búast innan úr Víkinni. Þeir höfðu frítt lið og mikið. En er þeir höfðu búið lið sitt lögðu þeir út til Túnsbergs.

46. Frá liði Sveins jarls

Sveinn jarl safnar liði allt um Þrándheim þegar eftir jólin og býður út leiðangri, býr og skipin.

Í þenna tíma var í Noregi fjöldi lendra manna. Voru þeir margir ríkir og svo ættstórir að þeir voru komnir af konunga ættum eða jarla og áttu skammt til að telja, voru og stórauðgir. Var þar allt traust konunganna eða jarlanna er fyrir landi réðu er lendir menn voru því að svo var í hverju fylki sem lendir menn réðu fyrir bóndaliðinu.

Vel var Sveinn jarl vingaður við lenda menn. Varð honum gott til liðs. Einar þambarskelfir mágur hans var með honum og margir aðrir lendir menn og margir þeir er áður um veturinn höfðu trúnaðareiða svarið Ólafi konungi, bæði lendir menn og bændur. Þeir fóru þegar úr firðinum er þeir voru búnir og héldu suður með landi og drógu að sér lið úr hverju fylki.

En er þeir komu suður fyrir Rogaland þá kom til móts við þá Erlingur Skjálgsson og hafði mikið lið og með honum margir lendir menn, héldu þá öllu liðinu austur til Víkur. Það var, er á leið langaföstu, er Sveinn jarl sótti inn í Víkina. Jarl hélt liðinu inn um Grenmar og lagðist við Nesjar.

47. Frá liði Ólafs konungs

Þá hélt Ólafur konungur sínu liði út eftir Víkinni. Var þá skammt í milli þeirra. Vissu þá hvorir til annarra laugardag fyrir pálmsunnudag.

Ólafur konungur hafði það skip er kallað var Karlhöfði. Þar var á framstafni skorið konungshöfuð. Hann sjálfur hafði það skorið. Það höfuð var lengi síðan haft í Noregi á skipum þeim er höfðingjar stýrðu.

48. Tala Ólafs konungs

Sunnudagsmorguninn þegar er lýsti stóð Ólafur konungur upp og klæddist, gekk á land, lét þá blása öllu liðinu til landgöngu. Þá átti hann tal við liðið og segir alþýðu að hann hefir þá spurt að skammt mun milli þeirra Sveins jarls.

«Skulum vér nú,» segir hann, «við búast því að skammt mun vera til fundar vors. Vopnist menn nú og búi hver sig og sitt rúm, þar er áður er skipað, svo að allir séu þá búnir er eg læt blása til brautlögunnar. Róum síðan samfast, fari engir fyrr en allur fer flotinn, dveljist og engi þá eftir er eg ræ úr höfninni því að eigi megum vér vita hvort vér munum jarlinn hitta, þar er nú liggur hann, eða munu þeir sækja í móti oss. En ef fund vorn ber saman og takist orusta þá heimti vorir menn saman skipin og séu búnir að tengja. Hlífum oss fyrst og gætum vopna vorra að vér berum eigi á sæ eða köstum á glæ. En er festist orusta og skipin hafa saman bundist gerið þá sem harðasta hríðina og dugi hver sem mannlegast.»

49. Orusta fyrir Nesjum

Ólafur konungur hafði á sínu skipi hundrað manna og höfðu allir hringabrynjur og valska hjálma. Flestir hans menn höfðu hvíta skjöldu og á lagður hinn helgi kross með gulli en sumir dregnir rauðum steini eða blám. Kross lét hann og draga í enni á öllum hjálmum með bleiku. Hann hafði hvítt merki, það var ormur. Þá lét hann veita sér tíðir, gekk síðan á skip sitt og bað menn snæða og drekka nokkuð. Síðan lét hann blása herblástur og leggja út úr höfninni.

En er þeir komu fyrir höfnina þar er jarl hafði legið þá var lið jarls vopnað og ætlaði þá að róa út úr höfninni. Er er þeir sáu konungslið þá tóku þeir að tengja skipin og settu upp merki og bjuggust við.

En er Ólafur konungur sá það þá greiddu þeir atróðurinn. Lagði konungur að jarls skipi. Tókst þar þá orusta.

Svo segir Sighvatur skáld:

Veitti sókn, þar er sótti,
siklingr firum mikla,
blóð féll rautt á Róða
rein, í höfn að Sveini.
Snjallr hélt að, sá er olli,
eirlaust konungr, þeira,
en Sveins liðar, sínum,
saman bundust skip, fundi.

Hér segir það að Ólafur konungur hélt til orustu en Sveinn lá fyrir í höfninni.

Sighvatur skáld var þar í orustu. Hann orti þegar um sumarið eftir orustu flokk þann er Nesjavísur eru kallaðar og segir þar vandlega frá þessum tíðindum:

Það erumk kunnt, hve kennir
Karlhöfða lét jarli
odda frosts fyr austan
Agðir nær um lagðan.

Orusta var hin snarpasta og var það langa hríð er ekki mátti yfir sjá hvernug hníga mundi. Féll þá mart af hvorumtveggjum og fjöldi varð sárt.

Svo segir Sighvatur:

Vara, sigmána, Sveini
sverða gnýs að frýja,
gjóðs né góðrar hríðar
gunnreifum Óleifi,
því að kvistingar kosta,
koma herr í stað verra,
áttu sín, þar er sóttust,
seggir hvorir tveggju.

Jarl hafði lið meira en konungur hafði einvalalið á sínu skipi, það er honum hafði fylgt í hernaði, og búið svo forkunnlega sem fyrr var sagt, að hver maður hafði hringabrynju. Urðu þeir ekki sárir.

Svo segir Sighvatur:

Teitr, sá eg okkr í ítru
allvalds liði falla,
gerðist harðr, um herðar,
hjördynr, svalar brynjur,
en mín að flug fleina
falsk und hjálm hinn valska,
okkr vissa eg svo, sessi,
svört skör, við her görva.

En er lið tók að falla á skipum jarls, en sumt sárt, og þynntist þá skipanin á borðunum.

50. Flótti Sveins jarls

Þá réðu til uppgöngu menn Ólafs konungs. Var þá merkið upp borið á það skip er næst var jarlsskipi en konungur sjálfur fylgdi fram merkinu.

Svo segir Sighvatur:

Stöng óð gyllt, þar er gengum,
Göndlar serks, und merkjum,
gnýs, fyr göfgum ræsi,
greiðendr, á skip reiðir.
Þági var sem þessum
þengils á jó strengjar
mjöð fyr málma kveðju
mær heiðþegum bæri.

Þar var snörp orusta og féllu mjög Sveins menn en sumir hljópu þá fyrir borð.

Svo segir Sighvatur:

Vér drifum hvatt, þar er heyra
hátt vopnabrak knátti,
rönd klufu roðnir brandar,
reiðir upp á skeiðar,
en fyr borð, þar er börðust,
búin fengust skip, gengu,
nár flaut út við eyri
ófár, bændr sárir.

Og enn þetta:

Öld vann ossa skjöldu,
auðsætt var það, rauða,
hljóms, þá er hvítir komu,
hringmiðlendum, þingað.
Þar hykk ungan gram göngu,
gunnsylgs, er vér fylgdum,
blóðs fékk svör, þar er slæðust
sverð, upp í skip gerðu.

Þá tók að snúa mannfallinu upp á lið jarls. Sóttu þá konungsmenn að jarlsskipi og var við sjálft að þeir mundu upp ganga á skipið. En er jarl sá í hvert óefni komið var þá hét hann á frambyggja að þeir skyldu höggva tengslin og leysa skipin út. Þeir gerðu svo. Þá færðu konungsmenn stafnljá á skeiðarkylfuna og héldu þeim. Þá mælti jarl að stafnbúar skyldu af höggva kylfuna. Svo gerðu þeir.

Svo segir Sighvatur:

Sjálfr bað svartar kylfur
Sveinn harðlega skeina,
nær var áðr í óra
auðvon róið honum,
þá er til góðs, enn gjóði
gert fengust hræ svörtum
Yggs, lét her um höggvið
hrafni skeiðar stafna.

Einar þambarskelfir hafði sitt skip lagt á annað borð jarlsskipi. Köstuðu þeir þá akkeri í framstafn á jarlsskipi og fluttust þá svo allir samt út á fjörðinn. Eftir það flýði allt lið jarls og reri út á fjörðinn.

Bersi Skáld-Torfuson var í fyrirrúmi á skipi Sveins jarls. En er skipið leið fram frá flotanum þá segir Ólafur konungur hátt er hann kenndi Bersa, því að hann var auðkenndur, hverjum manni vænni og búinn forkunnarvel að vopnum og klæðum: «Farið heilir Bersi.»

Hann segir: «Verið heilir konungur.»

Svo segir Bersi í flokki þeim er hann orti þá er hann kom á vald Ólafs konungs og sat í fjötrum:

Hróðrs baðstu heilan líða
hagkennanda þenna,
en snarræki slíku
svarað unnum vér gunnar.
Orð seldum þau, elda
úthauðrs boða, trauðir
knarrar hafts, sem eg keypti
kynstórs, að við brynju.

Sveins raunir hef eg sénar
snart rekninga bjartar
þar er svaltungur sungu,
saman fórum vér, stórar,
Elgs mun eg eigi fylgja
út hríðboða síðan
hests að hverjum kosti
hranna, dýrra manni.

Krýp eg eigi svo sveigir
sára linns í ári,
búum ólítinn Áta
öndur þér til handa,
að eg herstefnir, hafni,
heiðmildr, eða eg þá leiðumk,
ungr kunni eg þar þröngvi
þínn, hollvini mína.

51. Ferð Sveins jarls úr landi

Nú flýðu sumir menn jarls á land upp, sumir gengu til griða. Þá reru þeir Sveinn jarl út á fjörðinn og lögðu þeir saman skip sín og töluðu höfðingjar milli sín. Leitar jarl ráða við lenda menn.

Erlingur Skjálgsson réð það að þeir skyldu norður sigla í land og fá sér lið og berjast enn við Ólaf konung. En fyrir því að þeir höfðu látið lið mikið þá fýstu flestir allir að jarl færi úr landi á fund Svíakonungs mágs síns og efldist þaðan að liði og fylgdi Einar því ráði því að honum þótti sem þeir hefðu þá engi föng til að berjast við Ólaf konung. Skildist þá lið þeirra.

Sigldi jarl suður um Foldina og með honum Einar þambarskelfir.

Erlingur Skjálgsson og enn margir aðrir lendir menn, þeir er eigi vildu flýja óðul sín, fóru norður til heimila sinna. Hafði Erlingur um sumarið fjölmenni mikið.

52. Frá Sveini jarli

Ólafur konungur og hans menn sáu að jarl hafði saman lagt sínum skipum. Þá eggjaði Sigurður konungur sýr að þeir skyldu leggja að jarli og láta þá til stáls sverfa með þeim.

Ólafur konungur segir að hann vill sjá fyrst hvert ráð jarl tekur, hvort þeir halda saman flokkinum eða skilst við hann liðið.

Sigurður kvað hann ráða mundu «en það er mitt hugboð,» segir hann, «við skaplyndi þitt og ráðgirni að seint tryggir þú þá stórbukkana svo sem þeir eru vanir áður að halda fullu til móts við höfðingja.»

Varð og ekki af atlögunni. Sáu þeir þá brátt að jarls lið skildist. Þá lét Ólafur konungur rannsaka valinn. Lágu þeir þar nokkurar nætur og skiptu herfanginu.

Þá kvað Sighvatur skáld vísur þessar:

Þess get eg meir, að missi
morðár, sá er fór norðan,
harða margr í hörðum
heimkomu styr þeima.
Sökk af syndiblakki,
sunnu, mörg til grunna,
satt er að Sveini mættum,
samknúta, vér úti.

Frýr eigi oss í ári
innþrænsk, þó að lið minna,
gert hugði eg svo, snertu,
snotr mær, konungs væri.
Brúðr mun heldr að háði
hafa drótt þá er fram sótti,
fold ruðum skers, ef skyldi,
skeggi, aðra tveggja.

Og enn þessa:

Afli vex því að efla
Upplendingar sendi,
Sveinn, funduð það, þenna
þilblakks konung vilja.
Raun er hins að Heinir,
hrælinns, megu vinna,
vér gerðum för, fleira
fólkreks en öl drekka.

Ólafur konungur gaf gjafar Sigurði konungi sýr mági sínum að skilnaði og svo öðrum höfðingjum þeim er honum höfðu lið veitt. Hann gaf Katli af Hringunesi karfa, fimmtánsessu, og flutti Ketill karfann upp eftir Raumelfi og allt upp í Mjörs.

53. Frá Ólafi konungi

Ólafur konungur hélt til njósnum um farar jarls en er hann spurði það að jarl var úr landi farinn þá fór hann vestur eftir Víkinni. Dreif þá lið til hans. Var hann til konungs tekinn á þingum. Fór hann svo allt til Líðandisness. Þá spurði hann að Erlingur Skjálgsson hafði safnað mikinn. Dvaldist hann þá ekki á Norður-Ögðum því að hann fékk hraðbyri. Fór hann sem skyndilegast norður til Þrándheims því að honum þótti þar vera allt megin landsins ef hann fengi þar undir sig komið meðan jarl var úr landi.

En er Ólafur konungur kom í Þrándheim þá varð þar engi uppreist í móti honum og var hann þar til konungs tekinn og settist þar um haustið í Niðarósi og bjó þar til veturvistar og lét þar húsa konungsgarð og reisa þar Klemenskirkju í þeim stað sem nú stendur hún. Hann markaði tóftir til garða og gaf bóndum og kaupmönnum eða þeim öðrum er honum sýndist og húsa vildu. Hann sat þar fjölmennur því að hann treystist illa Þrændum um trúleik ef jarl kæmi aftur í landið. Voru berastir í því Innþrændir og fékk hann þaðan engar skyldir.

54. Hernaður Sveins jarls

Sveinn jarl fór fyrst til Svíþjóðar á fund Ólafs Svíakonungs mágs síns og segir honum allt frá viðurskiptum þeirra Ólafs digra og leitaði þá ráða af Svíakonungi hvað hann skal upp taka.

Konungur segir að jarl skal vera með honum ef hann vill það og hafa þar ríki til forráða það er honum þyki sæmilegt «og að öðrum kosti,» segir hann, «skal eg fá þér gnógan liðsafla að sækja landið af Ólafi.»

Jarl kaus það því að þess fýstu allir hans menn, þeir er áttu eignir stórar í Noregi, margir er þar voru með honum.

En er þeir sátu yfir þessari ráðagerð þá kom það ásamt að þeir skyldu eftir um veturinn ráða til að fara landveg um Helsingjaland og Jamtaland og svo ofan í Þrándheim því að jarl treystist Innþrændum best við sig um traustið og liðveislu ef hann kæmi þar. En þó gera þeir það ráð að fara um sumarið fyrst í Austurveg í hernað og fá sér fjár.

55. Dauði Sveins jarls

Sveinn jarl fór með lið sitt austur í Garðaríki og herjaði þar. Dvaldist hann þar um sumarið en er haustaði sneri hann aftur liði sínu til Svíþjóðar. Þá fékk hann sótt þá er hann leiddi til bana.

Eftir andlát jarls fór lið það er honum hafði fylgt aftur til Svíþjóðar en sumir sneru til Helsingjalands og þaðan til Jamtalands og þá austan um Kjöl til Þrándheims og segja þeir þau tíðindi er gerst höfðu í ferð þeirra. Var þá sannspurt andlát Sveins jarls.

56. Frá Þrændum

Einar þambarskelfir og sú sveit er honum hafði fylgt fór um veturinn til Svíakonungs og var þar í góðu yfirlæti. Þar var og mart annarra manna er jarli hafði fylgt.

Svíakonungi hugnaðist stórilla við Ólaf digra það er hann hafði sest í skattland hans en rekið í brott Svein jarl. Konungur hét þar fyrir Ólafi hinum mestum afarkostum þá er hann mætti við komast. Segir hann að eigi mun Ólafur svo djarfur vera að hann muni taka undir sig það veldi er jarl hafði átt. Því fylgdu margir Svíakonungs menn að svo mundi vera.

En er Þrændir spurðu til sanns að Sveinn jarl var andaður og hans var ekki von til Noregs þá snerist öll alþýða til hlýðni við Ólaf konung. Fóru þá margir menn innan úr Þrándheimi á fund Ólafs konungs og gerðust menn hans en sumir sendu orð og jartegnir að þeir vildu þjóna honum.

Fór hann þá um haustið inn í Þrándheim og átti þing við bændur. Var hann þar í hverju fylki til konungs tekinn. Hann fór þá út til Niðaróss og lét þangað flytja allar konungsskyldir og efnaði þar til vetursetu.

57. Húsaður konungsgarður

Ólafur konungur lét húsa konungsgarð í Niðarósi. Þar var ger mikil hirðstofa og dyr á báðum endum. Hásæti konungs var í miðri stofunni og innar frá sat Grímkell hirðbiskup hans en þar næst aðrir kennimenn hans en utar frá ráðgjafar hans. Í öðru öndugi gegnt honum sat stallari hans, Björn digri, þar næst gestir.

Ef göfgir menn komu til konungs var þeim vel skipað. Við elda skyldi þá öl drekka. Hann skipaði mönnum í þjónustur svo sem siður konunga var til. Hann hafði með sér sex tigu hirðmanna og þrjá tigu gesta og setti þeim mála og lög. Hann hafði og þrjá tigu húskarla er starfa skyldu í garðinum slíkt er þurfti og til að flytja. Hann hafði og marga þræla. Í garðinum var og mikill skáli er hirðmenn sváfu í. Þar var og mikil stofa er konungur átti hirðstefnur í.

58. Frá siðum Ólafs konungs

Það var siður konungs að rísa upp snemma um morgna og klæðast og taka handlaugar, ganga síðan til kirkju og hlýða óttusöng og morguntíðum og ganga síðan á stefnur og sætta menn eða tala það annað er honum þótti skylt. Hann stefndi til sín ríkum og óríkum og öllum þeim er vitrastir voru. Hann lét oft telja fyrir sér lög þau er Hákon Aðalsteinsfóstri hafði sett í Þrándheimi. Hann skipaði lögunum með ráði hinna vitrustu manna, tók af eða lagði til þar er honum sýndist það. En kristinn rétt setti hann með umráði Grímkels biskups og annarra kennimanna og lagði á það allan hug að taka af heiðni og fornar venjur, þær er honum þótti kristnispell í. Svo kom að bændur játtu þessum lögum er konungur setti.

Svo segir Sighvatur:

Loftbyggir, máttu leggja
landsrétt þann er skal standast,
unnar, allra manna,
eykja, liðs á miðli.

Ólafur konungur var maður siðlátur, stilltur vel, fámálugur, ör og fégjarn.

Þá var þar með konungi Sighvatur skáld sem fyrr var sagt og fleiri íslenskir menn. Ólafur konungur spurði eftir vendilega hvernug kristinn dómur væri haldinn á Íslandi. Þá þótti honum mikilla muna ávant að vel væri því að þeir sögðu frá kristnihaldinu að það var lofað í lögum að eta hross og bera út börn sem heiðnir menn og enn fleiri hlutir þeir er kristnispell var í. Þeir sögðu og konungi frá mörgu stórmenni því er þá var á Íslandi. Skafti Þóroddsson hafði þá lögsögu á landinu. Víða af löndum spurði hann að siðum manna, þá menn er glöggst vissu, og leiddi mest að spurningum um kristinn dóm, hvernug haldinn væri bæði í Orkneyjum og á Hjaltlandi og úr Færeyjum og spurðist honum svo til sem víða mundi mikið á skorta að vel væri. Slíkar ræður hafði hann oft í munni eða um lög að tala eða um landsrétt.

59. Dauði Ásgauts ármanns

Þann sama vetur komu austan úr Svíþjóð sendimenn Ólafs konungs hins sænska og réðu bræður tveir fyrir, Þorgautur skarði og Ásgautur ármaður, og höfðu fjóra menn og tuttugu.

En er þeir komu austan um Kjöl í Veradal þá stefndu þeir þing við bændur og töluðu við þá, heimtu þar skyld og skatt af hendi Svíakonungs. En bændur báru ráð sín saman og kom ásamt með þeim að þeir mundu gjalda slíkt sem Svíakonungur beiddi og heimti Ólafur konungur engar landskyldir af þeim fyrir sína hönd, kveðast eigi vilja gjalda hvorumtveggja skyldir.

Fóru sendimenn í brott og út eftir dalinum og á hverju þingi er þeir áttu fengu þeir af bóndum hin sömu svör en ekki fé, fóru þá út í Skaun og áttu þar þing og kröfðu þar enn skatta og fór allt á sömu leið sem fyrr.

Þá fóru þeir í Stjóradal og kröfðu þar þinga en bændur vildu ekki til koma. Þá sáu sendimenn að þeirra erindi varð ekki. Vildi Þorgautur þá aftur austur.

«Ekki þykir mér við konungserindi rekið hafa,» segir Ásgautur. «Vil eg fara á fund Ólafs konungs digra, þó skjóta bændur þangað sínu máli.»

Nú réð hann og fóru þeir út til bæjarins og tóku þeir herbergi í bænum. Þeir gengu til konungs eftir um daginn, hann sat þá um borðum, kvöddu hann og segja að þeir fóru með erindum Svíakonungs. Konungur bað þá koma til sín eftir um daginn.

Annan dag, þá er konungur hafði hlýtt tíðum, gekk hann til þinghúss síns og lét þangað kalla menn Svíakonungs og bað þá bera upp erindi sín.

Þá talaði Þorgautur og segir fyrst hverra erinda þeir fóru og voru sendir og það síðan hvernug Innþrændir höfðu svarað. Eftir það beiddi hann að konungur veitti úrskurð hvert þeirra erindi skyldi þangað verða.

Konungur segir: «Meðan jarlar réðu hér fyrir landi þá var það ekki undarlegt að landsmenn væru þeim lýðskyldir, því að þeir voru hér ættbornir til ríkis, heldur en það að lúta til útlendra konunga, og var þó réttara að jarlar veittu hlýðni og þjónustu konungum, þeim er réttkomnir voru hér til ríkis, heldur en útlendum konungum og að hefjast upp með ófriði í móti réttum konungum og fella þá frá landi. En Ólafur sænski konungur er kallar til Noregs, þá veit eg eigi hverja tiltölu hann hefir þá er sannleg sé, en hitt megum vér muna hvern mannskaða vér höfum fengið af honum og hans frændum.»

Þá segir Ásgautur: «Eigi er undarlegt að þú sért kallaður Ólafur digri. Allstórlega svarar þú orðsending slíks höfðingja. Óglöggt veistu hversu þungbær þér mun vera reiði konungs og hefir þeim svo orðið er voru með meira krafti en mér sýnist þú munu vera. En ef þú vilt þrálega halda ríkinu þá mun þér hinn til að fara á fund hans og gerast hans maður. Munum vér þá biðja með þér að hann fái þér að láni þetta ríki.»

Þá segir konungur og tók hóglega til orða: «Eg vil ráða þér annað ráð Ásgautur. Farið nú aftur austur til konungs yðars og segið honum svo að snemma í vor mun eg búast að fara austur til landamæris þar er að fornu hefir skilt ríki Noregskonungs og Svíakonungs. Má hann þá þar koma ef hann vill að við semjum sætt okkra og hafi það ríki hvor okkar sem óðalborinn er til.»

Þá snúa sendimenn í brott og aftur til herbergis og bjuggust í brott en konungur gekk til borða. Sendimenn gengu þá í konungsgarðinn og er durverðir sáu það segja þeir konungi.

Hann bað þá sendimenn eigi inn láta. «Eg vil ekki við þá mæla,» segir hann.

Fóru þá sendimenn í brott.

Þá segir Þorgautur að hann mun aftur snúa og hans menn en Ásgautur segir að hann vill reka konungserindi. Þá skiljast þeir.

Fer þá Þorgautur inn á Strind en Ásgautur og þeir tólf saman snúa upp til Gaulardals og svo út til Orkadals. Hann ætlar að fara suður á Mæri og reka þar sýslu Svíakonungs.

En er Ólafur konungur varð þess var þá sendi hann gestina út eftir þeim. Þeir hittu þá út á Nesi við Stein, tóku þá höndum og leiddu inn á Gaularás, reistu þar gálga og hengdu þá þar er sjá mátti utan af firði af þjóðleið.

Þorgautur spurði þessi tíðindi áður hann fór úr Þrándheimi. Fór hann síðan alla leið þar til er hann hitti Svíakonung og segir honum það er gerst hafði í þeirra för. Konungur varð allreiður er hann heyrði þetta sagt. Skorti þar þá eigi stór orð.

60. Sætt Ólafs konungs og Erlings Skjálgssonar

Eftir það um vorið bauð Ólafur konungur liði út úr Þrándheimi og bjóst að fara austur í land.

Þá bjóst úr Niðarósi Íslandsfar. Þá sendi Ólafur konungur orð og jartegnir Hjalta Skeggjasyni og stefndi honum á fund sinn en sendi orð Skafta lögsögumanni og öðrum þeim mönnum er mest réðu lögum á Íslandi að þeir skyldu taka úr lögum er honum þótti mest í móti kristnum dómi. Þar með sendi hann vinsamleg orð öllum landsmönnum jafnsaman.

Konungur fór suður með landi og dvaldist í hverju fylki og þingaði við bændur. En á hverju þingi lét hann upp lesa kristin lög og þau boðorð er þar fylgdu. Tók hann þá þegar af við lýðinn margar óvenjur og heiðinn dóm því að jarlar höfðu vel haldið forn lög og landsrétt en um kristnihald létu þeir gera hvern sem vildi. Var þá svo komið að víðast um sjábyggðir voru menn skírðir en kristin lög voru ókunn flestum mönnum en um uppdali og fjallbyggðir var víða alheiðið, því að þegar er lýðurinn varð sjálfráða þá festist þeim það helst í minni um átrúnaðinn er þeir höfðu numið í barnæsku. En þeir menn er eigi vildu skipast við orð konungs um kristnihaldið, þá hét hann afarkostum bæði ríkum og óríkum. Ólafur var til konungs tekinn um allt land á hverju lögþingi. Mælti þá engi maður í móti honum.

Þá er hann lá í Karmtsundi fóru orð milli þeirra Erlings Skjálgssonar, þau að þeir skyldu sættast og var lagður sættarfundur í Hvítingsey.

En er þeir fundust töluðust þeir sjálfir við um sættina. Þótti Erlingi þá annað nokkuð finnast í orðum konungs en honum hafði verið frá sagt því að hann mælti til þess að hann vildi hafa veislur þær allar er Ólafur Tryggvason hafði fengið honum en síðan jarlar Sveinn og Hákon. «Mun eg þá gerast þinn maður og hollur vinur,» segir hann.

Konungur segir: «Svo líst mér Erlingur sem eigi sé þér verra að taka af mér jafnmiklar veislur sem þú tókst af Eiríki jarli, þeim manni er þér hafði gert hinn mesta mannskaða. En eg mun þig láta vera göfgastan mann í landinu þó að eg vilji veislurnar miðla að sjálfræði mínu en eigi láta sem þér lendir menn séuð óðalbornir til ættleifðar minnar en eg skyldi margföldum verðum yðra þjónustu kaupa.»

Erlingur hafði ekki skaplyndi til að biðja konunginn né einna muna hér um því að hann sá að konungur var ekki leiðitamur. Sá hann og að tveir kostir voru fyrir höndum, sá annar að gera enga sætt við konung og hætta til hvernug færi eða ella láta konung einn fyrir ráða og tók hann þann upp þótt honum þætti mjög í móti skapi sínu og mælti til konungs: «Sú mun þér mín þjónusta hallkvæmst er eg veiti þér með sjálfræði.»

Þeir skildu ræðuna.

Eftir það gengu til frændur Erlings og vinir og báðu hann til vægja og færa við vit en eigi ofurkapp. «Muntu,» segja þeir, «vera ávallt göfgastur lendra manna í Noregi bæði að framkvæmd þinni og frændum og fjárafla.»

Erlingur fann að þetta var heilræði og þeim gekk góðvilji til er slíkt mæltu. Gerir hann svo, gengur til handa konungi með þeim skildaga að konungur réð fyrir að skilja, skildust eftir það og voru sáttir að kalla. Fór Ólafur þá leið sína austur með landi.

61. Dráp Eilífs gauska

Þegar er Ólafur konungur kom í Víkina og það spurðist þá fóru Danir í brott, þeir er þar höfðu sýslur af Danakonungi, og sóttu þeir til Danmerkur og vildu eigi bíða Ólafs konungs.

En Ólafur konungur fór inn eftir Víkinni og hafði þing við bændur. Gekk undir hann þar allt landsfólk. Tók hann þá allar konungsskyldir og dvaldist í Víkinni um sumarið. Hann hélt austur yfir Foldina úr Túnsbergi og allt austur um Svínasund. Þá tók til vald Svíakonungs. Hann hafði þar sett yfir sýslumenn Eilíf gauska um hinn nyrðra hlut en Hróa skjálga yfir hinn eystra hlut allt til Elfar. Hann átti ætt tveim megin Elfar en bú stór í Hísing. Hann var ríkur maður og stórauðigur. Eilífur var og stórættaður.

Þá er Ólafur konungur kom liði sínu í Ranríki þá stefndi hann þar þing við landsmenn og komu til hans þeir menn er eyjar byggðu eða nær sæ.

En er þing var sett þá talaði Björn stallari og bað bændur taka við Ólafi konungi, slíkt þar sem annars staðar hafði gert verið í Noregi.

Brynjólfur úlfaldi hét einn búandi göfugur. Hann stóð upp og mælti: «Vitum vér bændur hvert réttast er landaskipti að fornu milli Noregskonungs og Svíakonungs og Danakonungs, að Gautelfur hefir ráðið frá Væni til sævar en norðan Markir til Eiðaskógs en þaðan Kilir allt norður til Finnmarkar, svo og það að ýmsir hafa gengið á annarra lönd. Hafa Svíar löngum haft vald allt til Svínasunds en þó, yður satt til að segja, veit eg margra manna vilja til þess að betra þætti að þjóna Noregskonungi en menn bera eigi áræði til þess. Svíakonungs ríki er bæði austur frá oss og suður en þess von að Noregskonungur mun fara norður brátt í landið, þangað er landsmegin er meira, og höfum vér þá ekki afla til að halda deilu við Gauta. Nú verður konungur að sjá heilt ráð fyrir oss. Fúsir værum vér að gerast hans menn.»

En eftir þingið þá var Brynjólfur um kveldið í boði konungs og svo annan dag eftir og töluðu þeir mart sín í millum í einmælum. Fór þá konungur austur eftir Víkinni.

En er Eilífur spurði að konungur var þar þá lét hann bera njósn til fara hans. Eilífur hafði þrjá tigu manna, sinna sveitunga. Hann var í byggðinni ofanverðri við markirnar og hafði þar búandasafnað.

Margir bændur fóru á fund Ólafs konungs en sumir sendu vináttuorð til hans. Þá fóru menn í milli Ólafs konungs og Eilífs og báðu bændur hvorntveggja lengi að þeir legðu þingstefnu milli sín og réðu frið með nokkuru móti, sögðu það Eilífi að þeim var þess von af konungi, ef ekki væri við skipast hans orð, að þeir mundu von eiga af honum afarkosta og kváðu eigi Eilíf skyldu lið skorta. Var þá ráðið að þeir skyldu ofan koma og eiga þing við bændur og konung.

En þá sendi konungur Þóri langa gestahöfðingja sinn og þá tólf saman til Brynjólfs. Þeir höfðu brynjur undir kyrtlum en höttu yfir hjálmum.

Eftir um daginn komu bændur fjölmennt ofan með Eilífi. Þar var þá Brynjólfur í hans liði og Þórir í hans sveit.

Konungur lagði skipum utan þar að er klettur nokkur var og gekk fram í sæinn. Gekk hann þar upp og lið hans, settist á klettinn en völlur var fyrir ofan og var þar búandaliðið en menn Eilífs stóðu uppi í skjaldborg fyrir honum.

Björn stallari talaði langt og snjallt af hendi konungs. En er hann settist niður þá stóð Eilífur upp og tók til máls og í því bili stóð upp Þórir langi og brá sverði og hjó til Eilífs á hálsinn svo að af gekk höfuðið. Þá hljóp upp allt búandaliðið en hinir gausku tóku rás undan. Drápu þeir Þórir nokkura menn af þeim.

En er herinn stöðvaðist og létti þysnum þá stóð konungur upp og mælti að bændur skyldu setjast niður. Þeir gerðu svo. Var þar mart talað en að lyktum varð það að bændur gengu til handa konungi og játuðu honum hlýðni en hann hét þeim því í mót að skiljast eigi við þá og vera þar til þess að þeir Ólafur Svíakonungur lykju einn veg sínum vandræðum.

Eftir það lagði Ólafur konungur undir sig hina nyrðri sýsluna og fór um sumarið allt austur til Elfar. Fékk hann allar konungsskyldir með sænum og um eyjar.

En er á leið sumarið snerist hann aftur í Víkina norður og lagði upp eftir Raumelfi. Þar er foss mikill er Sarpur heitir. Nes gengur í ána norðan að fossinum. Þar lét Ólafur konungur gerða um þvert nesið af grjóti og torfi og viðum og grafa díki fyrir utan og gerði þar jarðborg mikla en í borginni efnaði hann til kaupstaðar. Þar lét hann húsa konungsgarð og gera Maríukirkju. Hann lét þar og marka tóftir til annarra garða og fékk þar menn til að húsa. Hann lét um haustið þangað flytja þau föng er til veturvistar þurfti og sat þar um veturinn með fjölmenni mikið en hafði menn sína í öllum sýslum. Hann bannaði allar flutningar úr Víkinni upp á Gautland, bæði síld og salt. Þess máttu Gautar illa án vera. Hann hafði mikið jólaboð, bauð til sín úr héruðum mörgum stórbúendum.

62. Upphaf Eyvindar úrarhorns

Maður er nefndur Eyvindur úrarhorn, æskaður af Austur-Ögðum. Hann var mikill maður og kynstór, fór hvert sumar í hernað, stundum vestur um haf, stundum í Austurveg eða suður til Fríslands. Hann hafði tvítugsessu, snekkju og vel skipaða. Hann hafði verið fyrir Nesjum og veitt Ólafi konungi lið. Og er þeir skildust þar þá hét konungur honum vináttu sinni en Eyvindur konungi liðsemd sinni hvar sem hann vildi kraft hafa.

Eyvindur var um veturinn í jólaboði með Ólafi konungi og þá þar góðar gjafar að honum. Þar var og þá með honum Brynjólfur úlfaldi og þá að jólagjöf gullbúið sverð af konungi og með bæ þann er Vettaland heitir og er það hinn mesti höfuðbær.

Brynjólfur orti vísu um gjafarnar og er það niðurlag að:

Bragningr gaf mér
brand og Vettaland.

Þá gaf konungur honum lends manns nafn og var Brynjólfur hinn mesti vinur konungs alla stund.

63. Dráp Þrándar

Þann vetur fór Þrándur hvíti úr Þrándheimi austur á Jamtaland að heimta skatt af hendi Ólafs konungs digra. En er hann hafði saman dregið skattinn þá komu þar menn Svíakonungs og drápu Þránd og þá tólf saman og tóku skattinn og færðu Svíakonungi.

Þetta spurði Ólafur konungur og líkaði honum illa.

64. Kristniboð í Víkinni

Ólafur konungur lét bjóða um Víkina kristin lög með sama hætti sem norður í landi og gekk vel fram því að Víkverjum voru miklu kunnari kristnir siðir en mönnum norður í landið því að þar var bæði vetur og sumar fjölmennt af kaupmönnum, bæði dönskum og saxneskum. Víkverjar höfðust og mjög í kaupferðum til Englands og Saxlands eða Flæmingjalands eða Danmerkur en sumir voru í víking og höfðu vetursetu á kristnum löndum.

65. Fall Hróa

Um vorið sendi Ólafur konungur orð að Eyvindur skyldi koma til hans. Þeir töluðu lengi einmæli.

Eftir það brátt bjóst Eyvindur í víking. Hann sigldi suður eftir Víkinni og lagði að í Eikureyjum út frá Hísing. Þar spurði hann að Hrói skjálgi hafði farið norður í Orðost og hafði þar saman dregið leiðangur og landskyldir og var hans þá norðan von.

Þá reri Eyvindur inn til Haugasunda en Hrói reri þá norðan og hittust þar í sundinu og börðust. Þar féll Hrói og nær þremur tigum manna en Eyvindur tók allt fé það er Hrói hafði haft. Fór Eyvindur þá í Austurveg og var þar í víking um sumarið.

66. Fall Guðleiks og Þorgauts skarða

Maður hét Guðleikur gerski. Hann var æskaður af Ögðum. Hann var farmaður og kaupmaður mikill, auðigur og rak kaupferðir til ýmissa landa. Hann fór austur í Garðaríki oftlega og var hann fyrir þá sök kallaður Guðleikur gerski.

Það vor bjó Guðleikur skip sitt og ætlaði að fara um sumarið til Garða austur. Ólafur konungur sendi honum orð að hann vill hitta hann.

En er Guðleikur kom til hans segir konungur honum að hann vill gera félag við hann, bað hann kaupa sér dýrgripi þá er torugætir eru þar í landi. Guðleikur segir það á konungs forráði vera skulu. Þá lætur konungur greiða í hendur honum fé slíkt sem honum sýndist.

Fór Guðleikur um sumarið í Austurveg. Þeir lágu nokkura hríð við Gotland. Var þá sem oft kann verða að eigi voru allir haldinorðir og urðu landsmenn varir við að á því skipi var félagi Ólafs digra. Guðleikur fór um sumarið í Austurveg til Hólmgarðs og keypti þar pell ágætleg er hann ætlaði konungi til tignarklæða sér og þar með skinn dýr og enn borðbúnað forkunnlegan.

Um haustið er Guðleikur fór austan þá fékk hann andviðri og lágu þeir mjög lengi við Eyland. Þorgautur skarði hafði um haustið borið njósn um farar Guðleiks. Kom hann þar að þeim með langskip og barðist við þá. Þeir vörðust lengi en fyrir því að liðsmunur var mikill þá féll Guðleikur og mart skipverja hans og mart var sárt. Tók Þorgautur fé þeirra allt og gersemar Ólafs konungs. Skiptu þeir Þorgautur fengi sínu öllu að jafnaði en hann segir að gersemar skal hafa Svíakonungur «og er það,» segir hann, «nokkur hlutur af skatti þeim er hann á að taka af Noregi.»

Þorgautur fór þá austur til Svíþjóðar. Þessi tíðindi spyrjast brátt.

Eyvindur úrarhorn kom litlu síðar til Eylands. En er hann spyr þetta þá siglir hann austur eftir þeim Þorgauti og hittast þeir í Svíaskerjum og börðust. Þar féll Þorgautur og flest lið hans eða hljóp á kaf. Tók þá Eyvindur fé það allt er þeir höfðu tekið af Guðleiki og svo gersemar Ólafs konungs.

Eyvindur fór aftur til Noregs um haustið. Færði hann þá Ólafi konungi gersemar sínar. Þakkaði konungur honum vel sína ferð og hét honum þá enn af nýju vináttu sinni. Þá hafði Ólafur konungur verið þrjá vetur konungur í Noregi.

67. Fundur Ólafs konungs og Rögnvalds jarls

Það sama sumar hafði Ólafur konungur leiðangur úti og fór þá enn austur til Elfar og lá þar lengi um sumarið.

Þá fóru orðsendingar milli Ólafs konungs og Rögnvalds jarls og Ingibjargar Tryggvadóttur konu jarls. Hún gekk að með öllu kappi að veita Ólafi konungi. Hún var aftakamaður mikill um þetta mál. Hélt þar til hvorttveggja að frændsemi var mikil með þeim Ólafi konungi og henni og það annað að henni mátti eigi fyrnast við Svíakonung það, er hann hafði verið að falli Ólafs Tryggvasonar bróður hennar, og þóttist fyrir þá sök eiga tiltölu að ráða fyrir Noregi. Varð jarl af fortölum hennar mjög snúinn til vináttu Ólafs konungs. Kom svo að þeir konungur og jarl lögðu stefnu með sér og hittust við Elfi, ræddu þar marga hluti og mjög um viðskipti þeirra Noregskonungs og Svíakonungs og sögðu báðir það sem satt var að hvorumtveggjum, Víkverjum og Gautum, var hin mesta landsauðn í því að eigi skyldi vera kaupfriður milli landa og að lyktum settu þeir grið milli sín til annars sumars. Gáfust þeir gjafir að skilnaði og mæltu til vináttu.

Fór þá konungur norður í Víkina og hafði hann þá konungstekjur allar til Elfar og allt landsfólk hafði þá undir hann gengið.

Ólafur konungur sænski lagði óþokka svo mikinn á Ólaf Haraldsson að engi maður skyldi þora að nefna hann réttu nafni svo að konungur heyrði. Þeir kölluðu hann hinn digra mann og veittu honum harðar átölur jafnan er hans var getið.

68. Upphaf friðgerðarsögu

Bændur í Víkinni ræddu sín í milli að sá einn væri til að konungar gerðu sætt og frið milli sín og töldust illa við komnir ef konungar herjuðust á en engi þorði þenna kurr djarflega upp að bera fyrir konungi. Þá báðu þeir til Björn stallara að hann skyldi þetta mál flytja fyrir konungi að hann sendi menn á fund Svíakonungs að bjóða sættir af sinni hendi.

Björn var trauður til og mæltist undan en við bæn margra vina sinna þá hét hann að lyktum að ræða þetta fyrir konungi en kvað svo hugur um segja sem konungur mundi ómjúklega taka því að vægja í né einum hlut við Svíakonung.

Það sumar kom utan af Íslandi Hjalti Skeggjason að orðsendingu Ólafs konungs. Fór hann þegar á fund Ólafs konungs og konungur tók vel við honum, bauð Hjalta með sér að vera og vísaði honum til sætis hjá Birni stallara og voru þeir mötunautar. Gerðist þar brátt góður félagsskapur.

Eitthvert sinn þá er Ólafur konungur hafði stefnu við lið sitt og við búendur og réðu landráðum þá mælti Björn stallari: «Hverja ætlan hafið þér á konungur um ófrið þann er hér er á milli Ólafs Svíakonungs og yðar? Nú hafa hvorirtveggju menn látið fyrir öðrum en engi úrskurður er nú heldur en áður hvað hvorir skulu hafa af ríkinu. Þér hafið hér setið í Víkinni einn vetur og tvö sumur og látið að baki yður allt landið norður héðan. Nú leiðist mönnum hér að sitja, þeim er eignir eða óðul eiga norður í landi. Nú er það vilji lendra manna og annarra liðsmanna og svo bónda að einn veg skeri úr og fyrir því að nú eru grið og friður settur við jarl og Vestur-Gauta, er hér eru nú næstir, þá þykir mönnum sá helst kostur til að þér sendið menn til Svíakonungs að bjóða sætt af yðarri hendi og munu margir menn vel undir það standa, þeir er með Svíakonungi eru, því að það er hvorratveggju gagn, þeirra er löndin byggja bæði hér og þar.»

Að ræðu Bjarnar gerðu menn góðan róm.

Þá mælti konungur: «Ráð þetta Björn er þú hefir hér upp borið, þá er það maklegast að þú hafir fyrir þér gert og skaltu fara þessa sendiför. Nýtur þú ef vel er ráðið en ef mannháski gerist af þá veldur þú of miklu sjálfur um. Er það og þín þjónusta að tala í fjölmenni það er eg vil mæla láta.»

Þá stóð konungur upp og gekk til kirkju, lét syngja sér hámessu. Síðan gekk hann til borða.

Um daginn eftir mælti Hjalti til Bjarnar: «Hví ertu ókátur maður? Ertu sjúkur eða reiður manni nokkurum?»

Björn segir þá ræðu þeirra konungs og segir þetta forsending.

Hjalti segir: «Svo er konungum að fylgja að þeir menn hafa metnað mikinn og eru framar virðir en aðrir menn en oft verða þeir í lífsháska og verður hvorutveggja vel að kunna. Mikið má konungs gæfa. Nú mun frami mikill fást í ferðinni ef vel tekst.»

Björn mælti: «Auðveldlega tekur þú á um ferðina. Muntu fara vilja með mér því að konungur mælti að eg skyldi mína sveitunga hafa í ferðina með mér.»

Hjalti segir: «Fara skal eg að vísu ef þú vilt því að vanfengur mun mér þykja sessunauturinn annar ef við skiljumst.»

69. Ferð Bjarnar stallara

Fám dögum síðar þá er Ólafur konungur var á stefnu kom þar Björn og þeir tólf saman. Hann segir þá konungi að þeir voru búnir að fara sendiförina og hestar þeirra stóðu úti söðlaðir.

«Vil eg nú vita,» segir Björn, «með hverjum erindum eg skal fara eða hver ráð þú leggur fyrir oss.»

Konungur segir: «Þér skuluð bera Svíakonungi þau mín orð að eg vil frið setja milli landa vorra til þeirra takmarka sem Ólafur Tryggvason hafði fyrir mér og sé það bundið fastmælum að hvorigir gangi umfram. En um mannlát þá þarf þess engi að geta ef sættir skulu vera því að Svíakonungur fær oss eigi með fé bætt þann mannskaða er vér höfum fengið af Svíum.»

Þá stóð konungur upp og gekk út með þeim Birni. Þá tók hann upp sverð búið og fingurgull og seldi Birni. «Sverð þetta gef eg þér. Það gaf mér í sumar Rögnvaldur jarl. Til hans skuluð þér fara og bera honum þau mín orð að hann leggi til ráð og sinn styrk að þú komir fram erindinu. Þykir mér þá vel sýslað ef þú heyrir orð Svíakonungs og segi hann annað tveggja, já eða nei. En fingurgull þetta fær þú Rögnvaldi jarli. Þessar jartegnir mun hann kenna.»

Hjalti gekk að konungi og kvaddi hann «og þurfum vér nú þess mjög konungur að þú leggir hamingju þína á þessa ferð» og bað þá heila hittast.

Konungur spurði hvert hann skyldi fara.

«Með Birni,» segir hann.

Konungur segir: «Bæta mun það til um þessa ferð að þú farir með þeim því að þú hefir oft reyndur verið að hamingju. Vittu það víst að eg skal allan hug á leggja, ef það vegur nokkuð, og til leggja með þér mína hamingju og öllum yður.»

Þeir Björn riðu í brott leið sína og komu til hirðar Rögnvalds jarls. Var þeim þar vel fagnað.

Björn var frægur maður, af mörgum mönnum kunnur, bæði að sýn og að máli, þeim öllum er séð höfðu Ólaf konung, því að Björn stóð upp á hverju þingi og talaði konungserindi.

Ingibjörg kona jarls gekk að Hjalta og hvarf til hans. Hún kenndi hann því að hún var þá með Ólafi Tryggvasyni bróður sínum er Hjalti var þar. Og taldi Hjalti frændsemi milli konungs og Vilborgar konu Hjalta. Þeir voru bræður, synir Víkinga-Kára, lends manns á Vörs, Eiríkur bjóðaskalli faðir Ástríðar, móður Ólafs konungs Tryggvasonar, og Böðvar faðir Ólafar, móður Gissurar hvíta, föður Vilborgar. Nú voru þeir þar í góðum fagnaði.

Einn dag gengu þeir Björn á tal við jarl og þau Ingibjörgu. Þá ber Björn upp erindi sín og sýnir jartegnir jarli.

Jarl spyr: «Hvað hefir þig Björn þess hent er konungur vill dauða þinn? Er þér að síður fært með þessi orðsending, að eg hygg, að engi mun sá vera, er þessum orðum mælir fyrir Svíakonungi, að refsingalaust komist í brott. Miklu er Ólafur Svíakonungur maður skapstærri heldur en fyrir honum sjálfum megi þær ræður hafa er honum séu í móti skapi.»

Þá segir Björn: «Engir hlutir hafa þeir að borist mér til handa er Ólafur konungur hefir mér reiðst um en mörg er sú ráðagerð hans, bæði fyrir sjálfum sér og mönnum sínum, er hætting mun á þykja hvernug tekst, þeim mönnum er áræðislitlir eru, en öll ráð hans hafa enn til hamingju snúist hér til og væntum vér að svo skuli enn fara. Nú er yður það jarl satt að segja að eg vil fara á fund Svíakonungs og eigi fyrr aftur hverfa en eg hefi hann heyra látið öll þau orð er Ólafur konungur bauð mér að flytja til eyrna honum nema mér banni hel eða sé eg heftur svo að eg megi eigi fram koma. Svo mun eg gera hvort sem þér viljið nokkurn hug á leggja orðsending konungs eða engan.»

Þá mælti Ingibjörg: «Skjótt mun eg birta minn hug, að eg vil jarl að þér leggið á allan hug að stoða orðsending Ólafs konungs svo að þetta erindi komist fram við Svíakonung hverngan veg sem hann vill svara. Þótt þar liggi við reiði Svíakonungs eða öll eign vor eða ríki þá vil eg miklu heldur til þess hætta en hitt spyrjist að þú leggist undir höfuð orðsending Ólafs konungs fyrir hræðslu sakir fyrir Svíakonungi. Hefir þú til þess burði og frændastyrk og alla aðferð að vera svo frjáls hér í Svíaveldi að mæla mál þitt, það er vel samir og öllum mun þykja áheyrilegt, hvort sem á heyra margir eða fáir, ríkir eða óríkir og þótt konungur sjálfur heyri á.»

Jarl svarar: «Ekki er það blint hvers þú eggjar. Nú má vera að þú ráðir þessu að eg heiti konungsmönnum því að fylgja þeim svo að þeir nái að flytja erindi sín fyrir Svíakonungi hvort sem konungi líkar það vel eða illa. En mínum ráðum vil eg láta fram fara hvert tilstilli hafa skal en eg vil eigi hlaupa eftir ákafa Bjarnar eða annars manns um svo mikil vandamál. Vil eg að þeir dveljist með mér til þeirrar stundar er mér þykir nokkuru líklegast að framkvæmd megi verða að þessu erindi.»

En er jarl hafði því upp lokið að hann mundi fylgja þeim að þessu máli og leggja til þess sinn styrk þá þakkaði Björn honum vel og kvaðst hans ráðum vilja fram fara.

Dvöldust þeir Björn með jarli mjög langa hríð.

70. Frá tali Bjarnar og Ingibjargar Tryggvadóttur

Ingibjörg var forkunnarvel til þeirra. Ræddi Björn fyrir henni um sitt mál og þótti það illa er dveljast skyldi svo lengi ferðin. Þau Hjalti ræddu oft öll saman um þetta.

Þá mælti Hjalti: «Eg mun fara til konungs er þér viljið. Eg em ekki norrænn maður. Munu Svíar mér engar sakir gefa. Eg hefi spurt að með Svíakonungi eru íslenskir menn í góðu yfirlæti, kunningjar mínir, skáld konungs, Gissur svarti og Óttar svarti. Mun eg þá forvitnast hvers eg verði var af Svíakonungi, hvort þetta mál mun svo óvænt sem nú er látið eða eru þar nokkur önnur efni í. Mun eg finna mér til erindis slíkt sem mér þykir fallið.»

Þetta þótti Ingibjörgu og Birni hið mesta snarræði og réðu þau þetta með sér til staðfestu. Býr þá Ingibjörg ferð Hjalta og fékk honum tvo menn gauska og bauð þeim svo að þeir skyldu honum fylgja og vera honum hendilangir bæði um þjónustu og svo ef hann vildi senda þá. Ingibjörg fékk honum til skotsilfurs tuttugu merkur vegnar. Hún sendi orð og jartegnir með honum til Ingigerðar dóttur Ólafs konungs að hún skyldi leggja allan hug á um hans mál hvers sem hann kynni hana að krefja að nauðsynjum.

Fór Hjalti þegar er hann var búinn. En er hann kom til Ólafs konungs þá fann hann brátt skáldin Gissur og Óttar og urðu þeir honum allfegnir og gengu þeir þegar með honum fyrir konung og segja þeir honum að sá maður var þar kominn, er samlendur var við þá og mestur maður var þar að virðingu á því landi, og báðu konung að hann skyldi honum vel fagna.

Konungur bað þá Hjalta hafa með sér í sveit og hans förunauta.

En er Hjalti hafði þar dvalist nokkura hríð og gert sér menn kunna þá virtist hann vel hverjum manni.

Skáldin voru oft fyrir konungi því að þeir voru máldjarfir. Sátu þeir oft um daga frammi fyrir hásæti konungs og Hjalti með þeim. Virtu þeir hann mest í öllu. Gerðist hann þá og konungi málkunnigur. Var konungur við hann málrætinn og spurði tíðinda af Íslandi.

71. Frá Sighvati skáld

Það hafði verið, áður Björn fór heiman, að hann hafði beðið Sighvat skáld til farar með sér, hann var þá með Ólafi konungi, en til þeirrar farar voru menn ekki fúsir. Þar var vingott með þeim Birni og Sighvati.

Hann kvað:

Áðr hefi eg gott við góða
grams stallara alla
átt, þá er ossum drottni,
ógndjarfs, um kné hvarfa.
Björn, fastu oft að árna,
íss, fyr mér að vísa
góðs, meguð gott um ráða,
gunnrjóðr, alls vel kunnuð.

En er þeir riðu upp á Gautland kvað Sighvatur vísur þessar:

Kátr var eg oft þá er úti
örðigt veðr á fjörðum
vísa segl í vosi
vindblásið skóf Strinda.
Hestr óð kafs að kostum.
Kilir hristu men Lista,
út þar er eisa létum
undan skeiðr að sundi.

Snjalls létum skip skolla
skjöldungs við ey tjölduð
fyr ágætu úti
öndurt sumar landi.
En í haust, þar er hestar
hagþorns á mó sporna,
ték eg ýmissar, Ekkils,
íðir, hlautk að ríða.

En er þeir riðu upp um Gautland síð um aftan þá kvað Sighvatur:

Jór renn aftanskæru
allsvangr götur langar.
Völl kná hófr til hallar,
höfum lítinn dag, slíta.
Nú er það er blakkr um bekki
berr mig Dönum ferri.
Fákr laust drengs í díki,
dægr mætast nú, fæti.

Þá ríða þeir í kaupstaðinn að Skörum og um strætið fram að garði jarls.

Hann kvað:

Út munu ekkjur líta
allsnúðula prúðar,
fljóð sjá reyk, hvar ríðum
Rögnvalds í bæ gögnum.
Keyrum hross svo að heyri
harða langt að garði
hesta rás úr húsum
hugsvinn kona innan.

72. Ferð Hjalta í Svíþjóð

Einnhvern dag gekk Hjalti fyrir konung og skáldin með honum.

Þá tók Hjalti til máls: «Svo er konungur sem yður er kunnigt að eg em hér kominn á þinn fund og hefi eg farið langa leið og torsótta. En síðan er eg kom yfir hafið og eg spurði til tignar yðarrar þá þótti mér ófróðlegt að fara svo aftur að eigi hefði eg séð yður og vegsemd yðra. En það eru lög milli Íslands og Noregs að íslenskir menn, þá er þeir koma til Noregs, gjalda þar landaura. En er eg kom yfir haf þá tók eg við landaurum allra skipverja minna en fyrir því að það veit eg að það er réttast að þér eigið það veldi er í Noregi er þá fór eg á yðarn fund að færa yður landaurana,» sýndi þá konunginum silfrið og hellti í skaut Gissuri svarta tíu mörkum silfurs.

Konungur mælti: «Fáir hafa oss slíkt fært um hríð úr Noregi. Vil eg Hjalti kunna yður þökk og aufúsu fyrir það er þér hafið svo mikla stund á lagt að færa oss landaurana heldur en gjalda óvinum vorum en þó vil eg að fé þetta þiggir þú af mér og með vináttu mína.»

Hjalti þakkaði konungi með mörgum orðum.

Þaðan af kom Hjalti sér í hinn mesta kærleik við konung og var oft á tali við hann. Þótti konungi sem var að hann var vitur maður og orðsnjallur.

Hjalti segir Gissuri og Óttari að hann er sendur með jartegnum til trausts og vináttu til Ingigerðar konungsdóttur og biður að þeir skyldu koma honum til tals við hana. Þeir kveða sér lítið fyrir því, ganga einnhvern dag til húsa hennar. Sat hún þar og drakk með marga menn.

Hún fagnaði vel skáldunum því að þeir voru henni kunnir. Hjalti bar henni kveðju Ingibjargar konu jarls og segir að hún hefði sent hann þangað til trausts og vináttu og bar fram jartegnir. Konungsdóttir tók því vel og kvað honum heimila skyldu sína vináttu. Sátu þeir þar lengi dags og drukku. Spurði konungsdóttir Hjalta margra tíðinda og bað hann þar oft koma til tals við sig.

Hann gerði svo, kom þar oftlega og talaði við konungsdóttur, segir henni þá af trúnaði frá ferð þeirra Bjarnar og spyr hvað hún hyggur, hvernug Svíakonungur muni taka þeim málum að sætt væri ger milli þeirra konunga.

Konungsdóttir segir og kvaðst það hyggja að þess mundi ekki leita þurfa að konungur mundi sætt gera við Ólaf digra, sagði að konungur var svo reiður orðinn Ólafi að eigi má hann heyra að hann væri nefndur.

Það var einn dag að Hjalti sat fyrir konunginum og talaði við hann. Var þá konungur allkátur og drukkinn mjög.

Þá mælti Hjalti til konungs: «Allmikla tign má hér sjá margs konar og er mér það að sjón orðið er eg hefi oft heyrt frá sagt að engi konungur er jafngöfugur á Norðurlönd sem þú. Allmikill harmur er það er vér eigum svo langt hingað að sækja og svo meinfært, fyrst hafsmegin mikið en þá ekki friðsamt að fara um Noreg þeim mönnum er hingað vilja sækja með vináttu. Eða hvort leita menn ekki við að bera sáttmál meðal ykkar Ólafs digra? Mjög heyrði eg það rætt í Noregi og svo í Vestra-Gautlandi að allir mundu þess fúsir vera að friður yrði og það var mér sagt með sannindum frá orðum Noregskonungs að hann væri fús að sættast við yður og veit eg að það mun til koma að hann mun sjá það að hann hefir miklu minna afla en þér hafið. Svo var það mælt og að hann ætlaði að biðja Ingigerðar dóttur þinnar og er slíkt og vænst til heilla sátta og er hann hinn mesti merkismaður að því er eg heyrði réttorða menn frá segja.»

Þá svarar konungur: «Ekki skaltu mæla slíkt Hjalti en eigi vil eg fyrirkunna þig þessa orða því að þú veist eigi hvað varast skal. Ekki skal þann hinn digra mann konung kalla hér í minni hirð og er til hans miklu minna skot en margir láta yfir og mun þér svo þykja ef eg segi þér að sú mægð megi eigi makleg vera því að eg em hinn tíundi konungur að Uppsölum, svo að hver hefir eftir annan tekið vorra frænda og verið einvaldskonungur yfir Svíaveldi og yfir mörgum öðrum stórum löndum og verið allir yfirkonungar annarra konunga á Norðurlöndum.

En í Noregi er lítil byggð og þó sundurlaus. Hafa þar verið smákonungar en Haraldur hinn hárfagri var mestur konungur í því landi og átti hann skipti við fylkiskonunga og braut þá undir sig. Kunni hann sér þann hagnað að ágirnast ekki Svíakonungs veldi. Létu Svíakonungar hann fyrir því sitja í friði og enn var það til að frændsemi var meðal þeirra. En þá er Hákon Aðalsteinsfóstri var í Noregi þá sat hann í friði þar til er hann herjaði í Gautland og Danmörk en síðan var efldur flokkur á hendur honum og var hann felldur frá löndum. Gunnhildarsynir voru og af lífi teknir þegar er þeir gerðust óhlýðnir Danakonungi. Lagði þá Haraldur Gormsson Noreg við sitt ríki og skattgildi. Og þótti oss þó Haraldur konungur Gormsson vera minni fyrir sér en Uppsalakonungar því að Styrbjörn frændi vor kúgaði hann og gerðist Haraldur hans maður en Eiríkur hinn sigursæli faðir minn steig þó yfir höfuð Styrbirni þá er þeir reyndu sín á milli. En er Ólafur Tryggvason kom í Noreg og kallaðist konungur þá létum vér honum það eigi hlýða. Fórum við Sveinn Danakonungur og tókum hann af lífi.

Nú hefi eg eignast Noreg og eigi með minna ríki en þú máttir nú heyra og eigi verr að komist en eg hefi sótt með orustu og sigrað þann konung er áður réð fyrir. Máttu ætla, vitur maður, að það mun fjarri fara að eg láti laust það ríki fyrir þeim hinum digra manni. Og er það undarlegt er hann man eigi það er hann kom nauðulegast út úr Leginum þá er vér höfðum hann inni byrgt. Hygg eg að honum væri þá annað í hug, ef hann kæmist með fjörvi í brott, en það að halda oftar deilu við oss Svíana.

Nú skaltu Hjalti hafa eigi oftar í munni þessa ræðu fyrir mér.»

Hjalta þótti óvænt á horfast að konungur mundi vilja til hlýða sættaumleitanar. Hann hætti þá og tók aðra ræðu.

Nokkuru síðar þá er Hjalti var á tali við Ingigerði konungsdóttur sagði hann henni alla ræðu þeirra konungs. Hún kvað sér slíkra svara von af konungi. Hjalti bað hana nokkur orð til leggja við konung og kvað það helst tjá mundu.

Hún kvað konung ekki mundu á hlýða hvað sem hún mælti «en um má eg ræða,» segir hún, «ef þú vilt.»

Hjalti kvaðst þess þökk kunna.

Ingigerður konungsdóttir var á tali við föður sinn einnhvern dag en er hún fann að konungi var skaplétt þá mælti hún: «Hverja ætlan hefir þú á um deilu ykkra Ólafs digra? Margir menn kæra nú það vandræði. Kallast sumir hafa látið fé, sumir frændur fyrir Norðmönnum og engum yðrum manni kvæmt í Noreg að svo búnu. Var það mjög ósynju er þér kölluðuð til ríkis í Noregi. Er land það fátækt og illt yfirfarar og fólk ótryggt. Vilja menn þar í landi hvern annan heldur að konungi en þig. Nú ef eg skyldi ráða mundir þú láta vera kyrrt að kalla til Noregs en brjótast heldur í Austurveg til ríkis þess er átt höfðu hinir fyrri Svíakonungar og nú fyrir skömmu lagði undir sig Styrbjörn frændi vor en láta Ólaf digra hafa frændleifð sína og gera sætt við hann.»

Konungur segir reiðulega: «Það er þitt ráð Ingigerður að eg láti af ríki í Noregi en gifti þig Ólafi digra. Nei,» segir hann, «annað skal fyrr. Heldur mun hitt að í vetur á Uppsalaþingi skal eg gera bert fyrir öllum Svíum að almenningur skal úti að liði áður en ísa taki af vötnum. Skal eg fara í Noreg og eyða það land oddi og eggju og brenna allt og gjalda þeim svo ótrúleik sinn.»

Varð konungur þá svo óður að honum mátti engu orði svara. Gekk hún þá í brott.

Hjalti hélt vörð á og gekk þegar að finna hana. Spyr hann þá hvert erindi hennar varð til konungsins. Hún segir að svo fór sem hún vænti að engum orðum mátti við konunginn koma og hann heitaðist í mót og bað hún Hjalta aldrei geta þessa máls fyrir konungi.

Ingigerður og Hjalti, þá er þau töluðu, ræddu oftlega um Ólaf digra. Sagði hann henni oft frá honum og hans háttum og lofaði sem hann kunni, og var það sannast frá að segja. Hún lét sér það vel skiljast.

Og enn eitt sinn er þau töluðu þá mælti Hjalti: «Hvort skal eg konungsdóttir mæla það fyrir þér í orlofi er mér býr í skapi?»

«Mæl þú,» segir hún, «svo að eg heyri ein.»

Þá mælti Hjalti: «Hvernug mundir þú svara er Ólafur Noregskonungur sendi menn til þín með þeim erindum að biðja þín?»

Hún roðnaði og svarar óbrátt og stillilega: «Ekki hefi eg hugfest svör fyrir mér um það því að eg ætla að eg muni eigi þurfa til að taka þeirra svara, en ef Ólafur er svo að sér ger um alla hluti sem þú segir frá honum þá mundi eg eigi kunna æskja minn mann á annan veg ef eigi er það að þér munuð heldur hóli gilt hafa í marga staði.»

Hjalti segir að engan hlut hefir hann betur látið um konunginn en var.

Þau ræddu þetta sín í milli mjög oftlega. Ingigerður bað Hjalta varast að mæla þetta fyrir öðrum mönnum «fyrir þá sök að konungurinn mun verða þér reiður ef hann verður þessa vís.»

Hjalti segir þetta skáldunum Gissuri og Óttari. Þeir kváðu það vera hið mesta happaráð ef framgengt mætti verða.

Óttar var máldjarfur maður og höfðingjakær. Var hann brátt að þessu máli við konungsdóttur og taldi upp fyrir henni slíkt sem Hjalti um mannkosti konungsins. Ræddu þau Hjalti oft öll saman um þetta mál.

Og er þau töluðu jafnan og Hjalti var sannfróður að orðinn um erindislok sín þá sendi hann brott hina gausku menn er honum höfðu þannug fylgt, lét þá fara aftur til jarls með bréfum þeim er Ingigerður konungsdóttir og þau Hjalti sendu jarli og Ingibjörgu. Hjalti lét og koma veður á þau um ræður þær er hann hafði upp hafið við Ingigerði og svo um svör hennar.

Komu sendimenn til jarls nokkuru fyrir jól.

73. Ferð Ólafs konungs á Upplönd

Þá er Ólafur konungur hafði sent þá Björn austur á Gautland þá sendi hann aðra menn til Upplanda með þeim erindum að boða veislur fyrir sér og ætlaði hann að fara þann vetur að veislum yfir Upplönd því að það hafði verið siður hinna fyrri konunga að fara að veislum hinn þriðja hvern vetur yfir Upplönd.

Hóf hann ferðina um haustið úr Borg. Fór konungur fyrst á Vingulmörk. Hann háttaði svo ferðinni að hann tók veislur uppi í nánd markbyggðinni og stefndi til sín öllum byggðarmönnum og þeim öllum vendilegast er first byggðu meginhéruðum. Hann rannsakaði að um kristnihald manna og þar er honum þótti ábótavant kenndi hann þeim rétta siðu og lagði svo mikið við, ef nokkurir væru þeir er eigi vildu af láta heiðninni, að suma rak hann brott úr landi, suma lét hann hamla að höndum eða fótum eða stinga augu út, suma lét hann hengja eða höggva en engi lét hann óhegndan þann er eigi vildi guði þjóna. Fór hann svo um allt það fylki. Jafnt hegndi hann ríka og óríka. Hann fékk þeim kennimenn og setti þá svo þykkt í héruðum sem hann sá að best bar. Með þessum hætti fór hann um þetta fylki.

Hann hafði þrjú hundruð vígra manna þá er hann fór upp á Raumaríki. Honum fannst það brátt í að kristnihaldið var því minna er hann sótti meir á landið upp. Hann hélt þó hinu sama fram og sneri öllum lýð á rétta trú og veitti stórar refsingar þeim er eigi vildu hlýða hans orðum.

74. Svikræði Upplendingakonunga

Og er það spurði konungur sá er þar réð fyrir Raumaríki þá þótti honum gerast mikið vandmæli því að hvern dag komu til hans margir menn er slíkt kærðu fyrir honum, sumir ríkir, sumir óríkir. Konungurinn tók það ráð að hann fór upp á Heiðmörk á fund Hræreks konungs því að hann var þeirra konunga vitrastur er þar voru þá.

En er konungar tóku tal sín í milli þá kom það ásamt með þeim að senda orð Guðröði konungi norður í Dala og svo á Haðaland til þess konungs er þar var og biðja þá koma á Heiðmörk til fundar við þá Hrærek konung.

Þeir lögðust eigi ferð undir höfuð og hittust þeir fimm konungar á Heiðmörk þar sem heitir á Hringisakri. Hringur var þar hinn fimmti konungur, bróðir Hræreks konungs.

Þeir konungarnir ganga fyrst einir saman á tal. Tók sá fyrst til orða er kominn var af Raumaríki og segir frá ferð Ólafs digra og þeim ófriði er hann gerði bæði í manna aftökum og manna meiðslum, suma rak hann úr landi og tók upp fé fyrir öllum þeim er nokkuð mæltu móti honum en fór með her manns um landið en ekki með því fjölmenni er lög voru til. Hann segir og að fyrir þeim ófriði kveðst hann hafa þangað flúið, kvað og marga aðra ríkismenn hafa flúið óðul sín af Raumaríki «en þó að oss sé nú þetta vandræði næst þá mun skammt til að þér munuð fyrir slíku eiga að sitja og er fyrir því betra að vér ráðum um allir saman hvert ráð upp skal taka.»

Og er hann lauk sinni ræðu þá viku konungar þar til svara sem Hrærekur var.

Hann mælti: «Nú er fram komið það er mig grunaði að vera mundi þá er vér áttum stefnu á Haðalandi og þér voruð allir ákafir að vér skyldum Ólaf hefja upp yfir höfuð oss að hann mundi verða oss harður í horn að taka þegar er hann hefði einn vald yfir landi. Nú eru tveir kostir fyrir hendi, sá annar að vér förum á fund hans allir og látum hann skera og skapa allt vor í milli, og ætla eg oss þann bestan af að taka, en sá annar að rísa nú í mót meðan hann hefir eigi víðara yfir landið farið. En þótt hann hafi þrjú hundruð manna eða fjögur þá er oss það ekki ofurefli liðs ef vér verðum á einu ráði allir. En oftast sigrast þeim verr er fleiri eru jafnríkir heldur en hinum er einn er oddviti fyrir liðinu og er það mitt ráð heldur að hætta eigi til þess að etja hamingju við Ólaf Haraldsson.»

En eftir það talaði hver þeirra konunga slíkt er sýndist. Löttu sumir en sumir fýstu og varð engi úrskurður ráðinn, töldu á hvorutveggja sýna annmarka.

Þá tók til orða Guðröður Dalakonungur og mælti svo: «Undarlegt þykir mér er þér vefjið svo mjög úrskurði um þetta mál og eruð þér gagnhræddir við Ólaf. Vér erum hér fimm konungar og er engi vor verr ættborinn heldur en Ólafur. Nú veittum vér honum styrk til að berjast við Svein jarl og hefir hann með vorum afla eignast land þetta. En ef hann vill nú fyrirmuna hverjum vorum þess hins litla ríkis er vér höfum áður haft og veita oss pyndingar og kúgan þá kann eg það frá mér að segja að eg vil færast undan þrælkan konungs og kalla eg þann yðarn ekki að manna vera er æðrast í því að vér tökum hann af lífdögum ef hann fer í hendur oss upp hingað á Heiðmörk, fyrir því að það er yður að segja að aldregi strjúkum vér frjálst höfuð meðan Ólafur er á lífi.»

En eftir eggjan þessa snúa þeir allir að því ráði.

Þá mælti Hrærekur: «Svo líst mér um ráðagerð þessa sem vér munum þurfa rammlegt að gera samband vort að engi skjöplist í einurðinni við annan. Nú ætlið þér að þá er Ólafur kemur hingað á Heiðmörk að veita honum atgöngu að ákveðinni stefnu. Þá vil eg eigi þenna trúnað undir yður eiga að þér séuð þá sumir norður í Dölum en sumir út á Heiðmörk. Vil eg ef þetta ráð skal staðfesta með oss að vér séum ásamt dag og nótt þar til er þetta ráð verður framgengt.»

Þessu játtu konungar og fara þá allir samt. Þeir láta búa veislu fyrir sér út á Hringisakri og drekka þar hverfing en gera njósn frá sér út á Raumaríki, láta þegar aðra njósnarmenn út fara er aðrir snúa aftur svo að þeir viti dag og nótt hvað títt er um ferðir Ólafs eða um fjölmenni hans.

Ólafur konungur fór að veislum utan um Raumaríki og allt með þvílíkum hætti sem fyrr var sagt. En er veislur entust eigi fyrir fjölmennis sakir þá lét hann þar bændur til leggja að auka veislurnar, er honum þótti nauðsyn til bera að dveljast, en sums staðar dvaldist hann skemur en ætlað var og varð ferð hans skjótari en ákveðið var upp til vatnsins.

En er konungar höfðu staðfest þetta ráð sín í milli þá senda þeir orð og stefna til sín lendum mönnum og ríkum bóndum úr öllum þeim fylkjum. En er þeir koma þar þá eiga konungar stefnu við þá eina saman og gera fyrir þeim bert þetta ráð og kveða á stefnudag nær sjá ætlan skal framkvæmd verða. Á það kveða þeir að hver þeirra konunga skyldi hafa þrjú hundruð manna. Senda þeir þá aftur lenda menn til þess að þeir skyldu liði safna og koma til móts við konunga þar sem ákveðið var. Sjá ráðagerð líkaði flestum mönnum vel en þó var sem mælt er að hver á vin með óvinum.

75. Hamlaðir Upplendingakonungar

Á þeirri stefnu var Ketill af Hringunesi. En er hann kom heim um kveldið þá mataðist hann að náttverði en þá klæddist hann og húskarlar hans og fór ofan til vatns og tók karfann er Ketill átti er Ólafur konungur hafði gefið honum, settu fram skipið, var þar í naustinu allur reiðinn, taka þá og skipast til ára og róa út eftir vatni. Ketill hafði fjóra tigu manna, alla vel vopnaða. Þeir komu um daginn snemma út til vatnsenda. Fór þá Ketill með tuttugu menn en lét aðra tuttugu eftir að gæta skips.

Ólafur konungur var þá á Eiði á ofanverðu Raumaríki. Ketill kom þar þá er konungur gekk frá óttusöng. Fagnaði hann Katli vel. Ketill segir að hann vill tala við konung skjótt. Þeir ganga á tal tveir saman. Þá segir Ketill konungi hver ráð konungarnir hafa með höndum og alla tilætlan þá er hann var vís orðinn.

En er konungur varð þess var þá kallar hann menn til sín, sendir suma í byggðina, bað þá stefna til sín reiðskjótum, suma sendi hann til vatnsins að taka róðrarskip þau er þeir fengju og hafa í móti sér. En hann gekk þá til kirkju og lét syngja sér messu, gekk síðan þegar til borða.

En þá er hann hafði matast bjóst hann sem skyndilegast og fór upp til vatnsins. Komu þar skip í móti honum. Steig hann þá sjálfur á karfann og með honum menn svo margir sem karfinn tók við en hver annarra tók sér þar skip sem helst fékk. Og um kveldið er á leið létu þeir frá landi. Logn var veðurs. Þeir reru út eftir vatninu. Konungurinn hafði þá nær fjórum hundruðum manna.

Fyrr en dagaði kom hann upp til Hringisakurs. Urðu varðmenn eigi fyrr varir við en liðið kom upp til bæjarins. Þeir Ketill vissu gerva í hverjum herbergjum konungarnir sváfu. Lét konungur taka öll þau herbergi og gæta að engi maður kæmist í brott, biðu svo lýsingar. Konungarnir höfðu eigi liðskost til varnar og voru þeir allir höndum teknir og leiddir fyrir konung.

Hrærekur konungur var maður forvitri og harðráður. Þótti Ólafi konungi hann ótrúlegur þótt hann gerði nokkura sætt við hann. Hann lét blinda Hrærek báðum augum og hafði hann með sér en hann lét skera tungu úr Guðröði Dalakonungi. En Hring og aðra tvo lét hann sverja sér eiða og fara í brott úr Noregi og koma aldrei aftur. En lenda menn eða bændur þá er sannir voru að þessum svikræðum rak hann suma úr landi, sumir voru meiddir, af sumum tók hann sættir.

Frá þessu segir Óttar svarti:

Lýtandi, hefir ljótu
landsráðöndum, branda,
umstillingar allar,
ifla folds, um goldið.
Hafa léstu heinska jöfra,
herskorðandi, forðum
mundangs laun þá er meinum,
mætr gramr, við þig sættu.

Braut hafið, böðvar þreytir,
branda rjóðr, úr landi,
meir fannst þinn en þeira
þrekr, döglinga rekna.
Stökk, sem þjóð um þekkir,
þér hverr konungr ferri.
Heftuð ér en eftir
orðreyr þess er sat norðast.

Nú ræðr þú fyr þeiri,
þik remmir guð miklu,
fold, er forðum héldu
fimm bragningar, gagni.
Breið eru austr til Eiða
ættlönd und þér. Göndlar
engr sat elda þröngvir
áðr að slíku láði.

Ólafur konungur lagði þá undir sig það ríki er þessir fimm konungar höfðu átt, tók þá gíslar af lendum mönnum og bóndum. Hann tók veislugjöld norðan úr Dölum og víða um Heiðmörk og sneri þá út aftur á Raumaríki og þá vestur á Haðaland.

Þann vetur andaðist Sigurður sýr mágur hans. Þá sneri Ólafur konungur á Hringaríki og gerði Ásta móðir hans veislu mikla í móti honum. Bar þá Ólafur einn konungsnafn í Noregi.

76. Frá bræðrum Ólafs konungs

Svo er sagt að Ólafur konungur var á veislunni með Ástu móður sinni að hún leiddi fram börn sín og sýndi honum. Konungur setti á kné sér Guttorm bróður sinn en á annað kné Hálfdan bróður sinn. Konungur sá á sveinana. Þá yggldist hann og leit reiðulega til þeirra. Þá glúpnuðu sveinarnir.

Þá bar Ásta til hans hinn yngsta son sinn er Haraldur hét. Þá var hann þrevetur. Konungurinn yggldist á hann en hann sá upp í mót honum. Þá tók konungur í hár sveininum og kippti. Sveinninn tók upp í kampinn konunginum og hnykkti.

Þá mælti konungurinn: «Hefnisamur muntu síðar frændi.»

Annan dag reikaði konungur úti um bæinn og Ásta móðir hans með honum. Þá gengu þau að tjörn nokkurri. Þar voru þá sveinarnir synir Ástu og léku sér, Guttormur og Hálfdan. Þar voru gervir bæir stórir og kornhlöður stórar, naut mörg og sauðir. Það var leikur þeirra. Skammt þaðan frá við tjörnina hjá leirvík nokkurri var Haraldur og hafði þar tréspánu og flutu þeir við landið margir. Konungurinn spurði hann hvað það skyldi. Hann kvað það vera herskip sín.

Þá hló konungur að og mælti: «Vera kann frændi að þar komi að þú ráðir fyrir skipum.»

Þá kallaði konungur þangað Hálfdan og Guttorm. Þá spurði hann Guttorm: «Hvað vildir þú flest eiga frændi?»

«Akra,» segir hann.

Konungur mælti: «Hversu víða akra mundir þú eiga vilja?»

Hann svarar: «Það vildi eg að nesið væri þetta allt sáið hvert sumar er út gengur í vatnið.»

En þar stóðu tíu bæir.

Konungurinn svarar: «Mikið korn mætti þar á standa.»

Þá spurði hann Hálfdan hvað hann vildi flest eiga.

«Kýr,» segir hann.

Konungur spurði: «Hversu margar vildir þú kýr eiga?»

Hálfdan segir: «Þá er þær gengju til vatns skyldu þær standa sem þykkst umhverfis vatnið.»

Konungurinn svarar: «Bú stór viljið þið eiga. Það er líkt föður ykkrum.»

Þá spyr konungur Harald: «Hvað vildir þú flest eiga?»

Hann svarar: «Húskarla,» segir hann.

Konungur mælti: «Hve marga viltu þá eiga?»

«Það vildi eg að þeir ætu að einu máli kýr Hálfdanar bróður míns.»

Konungur hló að og mælti til Ástu: «Hér muntu konung upp fæða móðir.»

Eigi er þá getið fleiri orða þeirra.

77. Frá landsdeild í Svíþjóð og lögum

Í Svíþjóðu var það forn landsiður meðan heiðni var þar að höfuðblót skyldi vera að Uppsölum að gói. Skyldi þá blóta til friðar og sigurs konungi sínum og skyldu menn þangað sækja um allt Svíaveldi. Skyldi þar þá og vera þing allra Svía. Þar var og þá markaður og kaupstefna og stóð viku. En er kristni var í Svíþjóð þá hélst þar þó lögþing og markaður. En nú síðan er kristni var alsiða í Svíþjóð en konungar afræktust að sitja að Uppsölum þá var færður markaðurinn og hafður kyndilmessu. Hefir það haldist alla stund síðan og er nú hafður eigi meiri en stendur þrjá daga. Er þar þing Svía og sækja þeir þar til um allt land.

Svíaveldi liggur í mörgum hlutum. Einn hlutur er Vestra-Gautland og Vermaland og Markir og það er þar liggur til og er það svo mikið ríki að undir þeim biskupi er þar er yfir eru ellefu hundruð kirkna. Annar hlutur lands er Eystra-Gautland. Þar er annar biskupdómur. Þar fylgir nú Gotland og Eyland og er það allt saman miklu meira biskupsveldi. Í Svíþjóð sjálfri er einn hluti lands er heitir Suðurmannaland. Það er einn biskupdómur. Þá heitir Vestmannaland eða Fjaðryndaland. Það er einn biskupdómur. Þá heitir Tíundaland hinn þriðji hlutur Svíþjóðar. Þá heitir hinn fjórði Áttundaland. Þá er hinn fimmti Sjáland og það er þar liggur til hið eystra með hafinu. Tíundaland er göfgast og best byggt í Svíþjóð. Þangað lýtur til allt ríkið. Þar eru Uppsalir. Þar er konungsstóll og þar er erkibiskupsstóll og þar er við kenndur Uppsalaauður. Svo kalla Svíar eign Svíakonungs, kalla Uppsalaauð.

Í hverri þeirri deild landsins er sitt lögþing og sín lög um marga hluti. Yfir hverjum lögum er lögmaður og ræður hann mestu við bændur því að það skulu lög vera er hann ræður upp að kveða. En ef konungur eða jarl eða biskupar fara yfir landið og eiga þing við bændur þá svarar lögmaður af hendi bónda en þeir fylgja honum allir svo að varla þora ofureflismenn að koma á alþingi þeirra ef eigi lofa bændur og lögmaður. En þar allt er lögin skilur á þá skulu öll hallast til móts við Uppsalalög og aðrir lögmenn allir skulu vera undirmenn þess lögmanns er á Tíundalandi er.

78. Frá Þorgný lögmanni

Þá var á Tíundalandi sá lögmaður er Þorgnýr hét. Faðir hans er nefndur Þorgnýr Þorgnýsson. Þeir langfeðgar höfðu verið lögmenn á Tíundalandi um margra konunga ævi. Þorgnýr var þá gamall. Hann hafði um sig mikla hirð. Hann var kallaður vitrastur maður í Svíaveldi. Hann var frændi Rögnvalds jarls og fósturfaðir hans.

Nú er þar til máls að taka er þeir menn komu til Rögnvalds jarls er Ingigerður konungsdóttir og þau Hjalti höfðu sent austan. Báru þeir fram sín erindi fyrir Rögnvald jarl og Ingibjörgu konu hans og sögðu það að konungsdóttir hafði oft rætt fyrir Svíakonungi um sættir milli þeirra Ólafs konungs digra og hún var hinn mesti vinur Ólafs konungs en Svíakonungur varð reiður hvert sinni er hún gat Ólafs og henni þótti engi von um sættirnar að svo búnu. Jarl segir Birni hvað hann hafði austan spurt en Björn segir enn hið sama að hann mun eigi fyrr aftur hverfa en hann hitti Svíakonung og segir að jarl hefir honum því heitið að hann skal fylgja honum á fund Svíakonungs.

Nú líður fram vetrinum og þegar á bak jólum býr jarl ferð sína og hefir sex tigu manna. Þar var í för Björn stallari og hans förunautar. Fór jarl austur allt í Svíþjóð en er hann sótti upp í landið þá sendi hann menn sína fram fyrir til Uppsala og sendi orð Ingigerði konungsdóttur að hún skyldi fara út á Ullarakur á móti honum. Þar átti hún bú stór.

En er konungsdóttur komu orð jarls þá lagðist hún eigi ferðina undir höfuð og bjóst hún með marga menn. Hjalti réðst til farar með henni.

En áður hann færi í brott gekk hann fyrir Ólaf konung og mælti: «Sittu allra konunga heilastur. Og er það satt að segja að eg hefi hvergi þess komið er eg hafi slíka tign séð sem með þér. Skal eg það orð bera hvar sem eg kem síðan. Vil eg þess biðja yður konungur að þú sért vinur minn.»

Konungur svarar: «Hví lætur þú svo brautfúslega? Hvert skaltu fara?»

Hjalti svarar: «Eg skal ríða út á Ullarakur með Ingigerði dóttur þinni.»

Konungur mælti: «Farðu þá vel. Vitur maður ertu og siðugur og kannt vel að vera með tignum mönnum.»

Gekk þá Hjalti í brott.

Ingigerður konungsdóttir reið til bús síns út á Ullarakur, lét þar búa veislu mikla í mót jarli. Þá kom jarl þar og var honum vel fagnað. Dvaldist hann þar nokkurar nætur. Töluðu þau konungsdóttir mart og flest um þá Svíakonung og Noregskonung. Segir hún jarli að henni þykir óvænt horfa um sættirnar.

Þá mælti jarl: «Hvernug er þér gefið frændkona um það ef Ólafur Noregskonungur biður þín? Sýnist oss það sem helst muni til sætta einhlítt ef mægðir þær mættu takast milli þeirra konunga en eg vil ekki ganga með því máli ef eg veit að það er þvert frá þínum vilja.»

Hún segir: «Faðir minn mun sjá kost fyrir mér en annarra minna frænda ertu sá er eg vil helst mín ráð undir eiga, þau er mér þykir miklu máli skipta. Eða hve ráðlegt sýnist þér þetta?»

Jarl fýsti hana mjög og taldi marga hluti upp til frama um Ólaf konung, þá er stórveglegir voru, sagði henni innilega frá þeim atburðum er þá höfðu fyrir skemmstu gerst er Ólafur konungur hafði handtekna gert fimm konunga á einum morgni og tekið þá alla af ríki en lagt þeirra eignir og ríki við sitt veldi. Mart ræddu þau um þetta mál og urðu á allar ræður sátt sín í milli. Fór jarl í brott er hann var að því búinn. Hjalti fór með honum.

79. Frá Rögnvaldi jarli og þinginu

Rögnvaldur jarl kom einn dag að kveldi til bús Þorgnýs lögmanns. Þar var bær mikill og stórkostlegur. Voru þar margir menn úti. Þeir fögnuðu vel jarli og tóku við hestum þeirra og reiða. Jarl gekk inn í stofuna. Var þar inni fjölmenni mikið. Þar sat í öndugi maður gamall. Engi mann höfðu þeir Björn séð jafnmikinn. Skeggið var svo sítt að lá í knjám honum og breiddist um alla bringuna. Hann var vænn maður og göfuglegur.

Jarl gekk fyrir hann og heilsaði honum. Þorgnýr fagnar honum vel og bað hann ganga til sætis þess er hann var vanur að sitja. Jarl settist öðrum megin gegnt Þorgný. Þeir dvöldust þar nokkurar nætur áður jarl bar upp erindi sín. Bað hann að þeir Þorgnýr skyldu ganga í málstofu. Þeir Björn förunautar gengu þannug með jarli.

Þá tók jarl til máls og segir frá því að Ólafur Noregskonungur hafði senda menn sína austur þannug til friðgerðar, talaði og um það langt hvert vandræði Vestur-Gautum var að því er ófriður var þaðan til Noregs. Hann segir og frá því að Ólafur Noregskonungur hafði þangað senda menn og þar voru þá sendimenn konungs og hann hafði þeim því heitið að fylgja þeim á fund Svíakonungs. Og hann segir að Svíakonungur tók þessu máli svo þunglega að hann lét engum manni hlýða skyldu að ganga með þessu máli. «Nú er svo fóstri,» segir jarl, «að eg verð eigi einhlítur að þessu máli. Hefi eg fyrir því nú sótt á þinn fund og vænti eg þar heillaráða og trausts þíns.»

En er jarl hætti sínu máli þá þagði Þorgnýr um hríð. En er hann tók til máls mælti hann: «Undarlega skiptið þér til, girnist að taka tignarnafn en kunnið yður engi forráð eða fyrirhyggju þegar er þér komið í nokkurn vanda. Hví skyldir þú eigi hyggja fyrir því áður þú hétir þeirri ferð að þú hefir ekki ríki til þess að mæla í mót Ólafi konungi? Þykir mér það eigi óvirðilegra að vera í búanda tölu og vera frjáls orða sinna, að mæla slíkt er hann vill þótt konungur sé hjá. Nú mun eg koma til Uppsalaþings og veita þér það lið að þú mælir þar óhræddur fyrir konungi slíkt er þér líkar.»

Jarl þakkaði honum vel þessi heit og dvaldist hann með Þorgný og reið með honum til Uppsalaþings. Var þar allmikið fjölmenni. Þar var Ólafur konungur með hirð sinni.

80. Frá Uppsalaþingi

Hinn fyrsta dag er þing var sett sat Ólafur konungur á stóli og þar hirð hans umhverfis. En annan veg á þingið sátu þeir á einum stóli Rögnvaldur jarl og Þorgnýr og sat þar fyrir þeim hirð jarls og húskarlasveit Þorgnýs en á bak stólinum stóð bóndamúgurinn og allt umhverfis í hring. Sumir fóru á hæðir og hauga að heyra þaðan til.

En er töluð voru erindi konungs, þau sem siður var til að mæla á þingum, og er því var lokið þá stóð upp Björn stallari hjá stóli jarls og mælti hátt: «Ólafur konungur sendi mig hingað þess erindis að hann vill bjóða Svíakonungi sætt og það landaskipti sem að fornu fari hefir verið milli Noregs og Svíþjóðar.» Hann mælti hátt svo að Svíakonungur heyrði gerva.

En fyrst er Svíakonungur heyrði nefndan Ólaf konung þá hugði hann að sá mundi reka hans erindi en er hann heyrði rætt um sætt og landaskipti milli Svíþjóðar og Noregs þá skildi hann af hverjum rifjum rísa mundi. Þá hljóp hann upp og kallaði hátt að sá maður skyldi þegja og kvað slíkt ekki tjóa mundu. Björn settist þá niður.

En er hljóð fékkst þá stóð jarl upp og mælti. Hann sagði frá orðsending Ólafs digra og sættarboðum við Ólaf Svíakonung og frá því að Vestur-Gautar sendu Ólafi konungi öll orð til að sætt skyldi gera við Noregsmenn. Taldi hann upp hvert vandræði Vestur-Gautum var að því að missa þeirra hluta allra af Noregi er þeim var árbót í en í annan stað að sitja fyrir áhlaupum þeirra og hernaði ef Noregskonungur safnaði her saman og herjaði á þá. Jarl segir og að Ólafur Noregskonungur hafði menn þangað sent þeirra erinda að hann vill biðja Ingigerðar dóttur hans.

En er jarl hætti að tala þá stóð upp Svíakonungur. Hann svarar þunglega um sættina en veitti jarli átölur þungar og stórar um dirfð þá er hann hafði gert grið og frið við hinn digra mann og lagt við hann vináttu, taldi hann sannan að landráðum við sig, kvað það maklegt að Rögnvaldur væri rekinn úr ríkinu og segir að allt slíkt hlaut hann af áeggjan Ingibjargar konu sinnar og kvað það verið hafa hið ósnjallasta ráð er hann skyldi fengið hafa að girndum slíkrar konu. Hann talaði langt og hart og sneri þá enn tölunni á hendur Ólafi digra.

En er hann settist niður þá var fyrst hljótt. Þá stóð upp Þorgnýr. En er hann stóð upp þá stóðu upp allir bændur þeir er áður höfðu setið og þustu að allir þeir er í öðrum stöðum höfðu verið og vildu hlýða til hvað Þorgnýr mælti. Var þá fyrst gnýr mikill af fjölmenni og vopnum.

En er hljóð fékkst þá mælti Þorgnýr: «Annan veg er nú skaplyndi Svíakonunga en fyrr hefir verið. Þorgnýr föðurfaðir minn mundi Eirík Uppsalakonung Emundarson og sagði það frá honum að meðan hann var á léttasta aldri að hann hafði hvert sumar leiðangur úti og fór til ýmissa landa og lagði undir sig Finnland og Kirjálaland, Eistland og Kúrland og víða um Austurlönd. Og mun enn sjá þær jarðborgir og önnur stórvirki þau er hann gerði og var hann ekki svo mikillátur að eigi hlýddi hann mönnum ef skylt áttu við hann að ræða. Þorgnýr faðir minn var með Birni konungi langa ævi. Var honum hans siður kunnigur. Stóð um ævi Bjarnar hans ríki með styrk miklum en engum þurrð. Var hann dæll sínum vinum. Eg má muna Eirík konung hinn sigursæla og var eg með honum í mörgum herförum. Jók hann ríki Svía en varði harðfenglega. Var oss gott við hann ráðum að koma. En konungur þessi er nú er lætur engi mann þora að mæla við sig nema það einu er hann vill vera láta og hefir hann þar við allt kapp en lætur skattlönd sín undan sér ganga af eljanleysi og þrekleysi. Hann girnist þess að halda Noregsveldi undir sig er engi Svíakonungur hefir það fyrr ágirnst og gerir það mörgum manni óró. Nú er það vilji vor búandanna að þú gerir sætt við Ólaf digra Noregskonung og giftir honum dóttur þína Ingigerði. En ef þú vilt vinna aftur undir þig ríki þau í Austurvegi er frændur þínir og foreldri hafa þar átt þá viljum vér allir fylgja þér þar til. Með því að þú vilt eigi hafa það er vér mælum þá munum vér veita þér atgöngu og drepa þig og þola þér eigi ófrið og ólög. Hafa svo gert hinir fyrri foreldrar vorir. Þeir steyptu fimm konungum í eina keldu á Múlaþingi er áður höfðu upp fyllst ofmetnaðar sem þú við oss. Seg nú skjótt hvorn kost þú vilt upp taka.»

Þá gerði lýðurinn þegar vopnabrak og gný mikinn.

Konungurinn stendur þá upp og mælti, segir að allt vill hann vera láta sem bændur vilja, segir að svo hafa gert allir Svíakonungar að láta bændur ráða með sér öllu því er þeir vildu. Staðnaði þá kurr búandanna.

En þá töluðu höfðingjar, konungur og jarl og Þorgnýr, og gera þá frið og sátt af hendi Svíakonungs eftir því sem Noregskonungur hefir áður orð til send. Var á því þingi það ráðið að Ingigerður dóttir Ólafs konungs skyldi vera gift Ólafi konungi Haraldssyni. Seldi konungur jarli í hendur festar hennar og fékk honum í hendur allt sitt umboð um þann ráðahag og skildust þeir á þinginu að svo loknum málum.

En er jarl fór heim þá hittust þau Ingigerður konungsdóttir og töluðu sín í milli um þetta mál. Hún sendi Ólafi konungi slæður af pelli og gullsaumaðar mjög og silkiræmur.

Fór jarl aftur í Gautland og Björn með honum. Björn dvaldist þar litla stund og fór hann þá aftur til Noregs með föruneyti sínu. Og er hann hitti Ólaf konung og segir honum erindislok þau sem voru þá þakkaði konungur honum vel ferðina og segir sem var að Björn hafði gæfu til borið að koma fram erindinu í ófriði þessum.

81. Frá svikum Hræreks konungs

Ólafur konungur fór er voraði út til sævar og lét búa skip sín og stefndi til sín liði og fór um vorið allt út eftir Víkinni til Líðandisness og allt fór hann norður á Hörðaland, sendi þá orð lendum mönnum og nefndi alla hina ríkustu menn úr héruðum og bjó þá ferð sem veglegast er hann fór í mót festarkonu sinni. Veisla sú skyldi vera um haustið austur við Elfi við landamæri.

Ólafur konungur hafði með sér Hrærek konung blinda. En er hann var gróinn sára sinna þá fékk Ólafur konungur tvo menn til þjónustu við hann og lét hann sitja í hásæti hjá sér og hélt hann að drykk og að klæðum engum mun verr en hann hafði áður haldið sig sjálfur.

Hrærekur var fámálugur og svaraði stirt og stutt þá er menn ortu orða á hann. Það var siðvenja hans að hann lét skósvein sinn leiða sig úti um daga og frá öðrum mönnum. Þá barði hann knapann en er hann hljóp frá honum þá segir hann Ólafi konungi að sá sveinn vildi honum ekki þjóna. Þá skipti Ólafur konungur við hann þjónustumönnum og fór allt sem áður að engi þjónustumaður hélst við með Hræreki konungi.

Þá fékk Ólafur konungur til fylgdar og til gæslu við Hrærek þann mann er Sveinn hét og var hann frændi Hræreks konungs og hafði verið hans maður áður. Hrærekur hélt teknum hætti um stirðlæti og svo um einfarar sínar. En er þeir Sveinn voru tveir saman staddir þá var Hrærekur kátur og málrætinn. Hann minntist þá á marga hluti þá er fyrr höfðu verið og það er um hans daga hafði að borist þá er hann var konungur og minntist á ævi sína hina fyrri og svo á það hver því hafði brugðið, hans ríki og hans sælu, en gert hann að ölmusumanni. «En hitt þykir mér þó allra þyngst,» segir hann, «er þú eða aðrir frændur mínir, þeir er mannvænir höfðu verið, skulu nú verða svo miklir ættlerar að engrar svívirðingar skulu hefna, þeirrar er á ætt vorri er ger.»

Þvílíkar harmtölur hafði hann oft uppi. Sveinn svarar og segir að þeir ættu við ofureflismenn mikla að skipta en þeir áttu þá litla kosti.

Hrærekur mælti: «Til hvers skulum vér lengi lifa við skömm og meiðslur nema svo beri til að eg mætti blindur sigrast á þeim er mig sigraði sofanda? Svo heilir, drepum Ólaf digra. Hann óttast nú ekki að sér. Eg skal ráðið til setja og eigi vildi eg hendurnar til spara ef eg mætti þær nýta en það má eg eigi fyrir sakir blindleiks og skaltu fyrir því bera vopn á hann. En þegar er Ólafur er drepinn þá veit eg það af forspá að ríkið hverfur undir óvini hans. Nú kann vera að eg yrði konungur, þá skaltu vera jarl minn.»

Svo komu fortölur hans að Sveinn játaði að fylgja þessu óráði. Svo var ætlað ráðið að þá er konungur bjóst að ganga til aftansöngs stóð Sveinn úti í svölunum fyrir honum og hafði brugðið sax undir yfirhöfninni. En er konungur gekk út úr stofunni þá bar hann skjótara að en Svein varði og sá hann í andlit konunginum. Þá bliknaði hann og varð fölur sem nár og féllust honum hendur.

Konungur fann á honum hræðslu og mælti: «Hvað er nú Sveinn? Viltu svíkja mig?»

Sveinn kastaði yfirhöfninni frá sér og saxinu og féll til fóta konungi og mælti: «Allt á guðs valdi og yðru herra.»

Konungur bað menn sína taka Svein og var hann í járn settur. Þá lét konungur færa sæti Hræreks á annan pall en hann gaf grið Sveini og fór hann af landi í brott.

Konungur fékk þá Hræreki annað herbergi að sofa í en það er hann svaf sjálfur í. Svaf í því herbergi mart hirðmanna. Hann fékk til tvo hirðmenn að fylgja Hræreki dag og nótt. Þeir menn höfðu lengi verið með Ólafi konungi og hafði hann þá reynt að trúleik við sig. Ekki er þess getið að þeir væru ættstórir menn.

Hrærekur konungur gerði ýmist að hann þagði marga daga, svo að engi maður fékk orð af honum, en stundum var hann svo kátur og glaður að þeim þótti að hverju orði gaman því er hann mælti en stundum mælti hann mart og þó illt einu. Svo var og að stundum drakk hann hvern af stokki og gerði alla ófæra er nær honum voru en oftast drakk hann lítið. Ólafur konungur fékk honum vel skotsilfur. Oft gerði hann það, þá er hann kom til herbergis áður hann lagðist til svefns, að hann lét taka inn mjöð, nokkurar byttur, og gaf að drekka öllum herbergismönnum. Af því varð hann þokkasæll.

82. Frá Finni litla

Maður er nefndur Finnur litli, upplenskur maður en sumir segja að hann væri finnskur að ætt. Hann var allra manna minnstur og allra manna fóthvatastur svo að engi hestur tók hann á rás. Hann kunni manna best við skíð og boga. Hann hafði lengi verið þjónustumaður Hræreks konungs og farið oft erinda hans, þeirra er trúnaðar þurfti við. Hann kunni vega um öll Upplönd. Hann var og málkunnigur þar mörgu stórmenni.

En er Hrærekur konungur var tekinn í fárra gæslu þá slóst Finnur í för þeirra og fór hann oftast í sveit með knöpum og þjónustumönnum en hvert sinn er hann mátti kom hann til þjónustu við Hrærek konung og oft í tal og vildi konungur skömmum samfast mæla við hann og vildi ekki gruna láta tal þeirra.

En er á leið vorið og þeir sóttu út í Víkina þá hvarf Finnur í brott frá liðinu nokkura daga. Þá kom hann enn aftur og dvaldist um hríð. Svo fór oft fram og var að því engi gaumur gefinn því að margir voru umrenningar með liðinu.

83. Dráp hirðmanna Ólafs konungs

Ólafur konungur kom til Túnsbergs fyrir páska og dvaldist þar mjög lengi um vorið. Þar kom þá til bæjarins mart kaupskipa, bæði Saxar og Danir og austan úr Vík og norðan úr landi. Var þar allmikið fjölmenni. Þá var ár mikið og drykkjur miklar.

Það barst að á einu kveldi að Hrærekur konungur var kominn til herbergis og heldur síðla og hafði mjög drukkið og var þá allkátur. Þá kom þar Finnur litli með mjaðarbyttu og var það grasaður mjöður og hinn sterkasti. Þá lét Hrærekur gefa að drekka öllum þeim er inni voru allt til þess er hver sofnaði í sínu rúmi. Finnur var þá í brott genginn. Ljós brann í herberginu. Þá vakti Hrærekur upp menn þá er vanir voru að fylgja honum og segir að hann vill ganga til garðs. Þeir höfðu skriðljós með sér en niðamyrkur var úti. Mikið salerni var í garðinum og stóð á stöfum en rið upp að ganga til duranna.

En er þeir Hrærekur sátu í garðinum þá heyrðu þeir að maður mælti: «Högg þú fjandann.»

Þá heyrðu þeir brest og dett sem nokkuð félli.

Hrærekur konungur mælti: «Fulldrukkið munu þeir hafa er þar eigast við. Farið til skjótt og skiljið þá.»

Þeir bjuggust skyndilega og hljópu út en er þeir komu á riðið þá var sá höggvinn fyrr er síðar gekk og drepnir þó báðir. Þar voru komnir menn Hræreks konungs, Sigurður hít er verið hafði merkismaður hans og þeir tólf saman. Þar var þá Finnur litli. Þeir drógu líkin upp milli húsanna en tóku konunginn og höfðu með sér, hljópu þá á skútu er þeir áttu og reru í brott.

Sighvatur skáld svaf í herbergi Ólafs konungs. Hann stóð upp um nóttina og skósveinn hans með honum og gengu út til hins mikla salernis. En er þeir skyldu aftur ganga og ofan fyrir riðið þá skriðnaði Sighvatur og féll á kné og stakk niður höndunum og var þar vott undir.

Hann mælti: «Það hygg eg að nú í kveld muni konungurinn hafa mörgum oss fengið karfafótinn», og hló að.

En er þeir komu í herbergið þar sem ljós brann þá spurði skósveinninn: «Hefir þú skeint þig, eða hví ertu í blóði einu allur?»

Hann svarar: «Ekki em eg skeindur en þó mun þetta tíðindum gegna.»

Hann vakti þá Þórð Fólason merkismann, rekkjufélaga sinn, og gengu þeir út og höfðu með sér skriðljós og fundu brátt blóðið. Þá leituðu þeir og fundu brátt líkin og báru á kennsl. Þeir sáu og að þar lá tréstobbi mikill og í skýlihögg mikil og spurðist það síðan að það hafði gert verið til ólíkinda að teygja þá út er drepnir voru. Þeir Sighvatur mæltu sín í milli að nauðsyn væri til að konungur vissi þessi tíðindi sem bráðast. Þeir sendu sveininn þegar til herbergis þess er Hrærekur konungur hafði verið. Þar sváfu menn allir en konungur var í brottu. Hann vakti þá menn er þar voru inni og sagði tíðindin. Stóðu menn upp og fóru þegar þannug í garðinn sem líkin voru. En þó að nauðsyn þætti til að konungur vissi sem fyrst þessi tíðindi þá þorði engi að vekja hann.

Þá mælti Sighvatur til Þórðar: «Hvort viltu heldur lagsmaður vekja konunginn eða segja honum tíðindin?»

Þórður svarar: «Fyrir engan mun þori eg að vekja hann en segja mun eg honum tíðindin.»

Þá mælti Sighvatur: «Mikið er enn eftir næturinnar og kann vera áður dagur sé að Hrærekur hafi fengið sér það fylgsni að hann verði síðan ekki auðfundinn en þeir munu enn skammt brott komnir því að líkin voru vörm. Skal oss aldregi henda sá skömm að vér látum eigi konunginn vita þessi svik. Gakk þú Þórður upp í herbergið og bíð mín þar.»

Þá gekk Sighvatur til kirkju og vakti klokkarann og bað hann hringja fyrir sál hirðmanna konungs og nefndi mennina, þá er vegnir voru. Klokkarinn gerir sem hann bað.

En við hringingina vaknaði konungur og settist upp. Hann spurði hvort þá væri óttusöngsmál.

Þórður svarar: «Verri efni eru í. Tíðindi mikil eru orðin. Hrærekur konungur er á brott horfinn en drepnir hirðmenn yðrir tveir.»

Þá spurði konungur eftir atburðum þeim er þar höfðu orðið. Þórður segir honum slíkt er hann vissi. Þá stóð konungur upp og lét blása til hirðstefnu.

En er liðið kom saman þá nefndi konungur menn til að fara alla vega frá bænum að leita Hræreks á sæ og landi. Þórir langi tók skútu og fór með þrjá tigu manna og er lýsti sáu þeir skútur tvær litlar fara fyrir þeim. En er þeir sáust reru hvorir sem mest máttu. Þar var Hrærekur konungur og hafði þrjá tigu manna. En er saman dró með þeim þá sneru þeir Hrærekur að landi og hljópu þar upp á land allir nema konungur settist upp í lyftingina. Hann mælti, bað þá vel fara og heila hittast. Því næst reru þeir Þórir að landi. Þá skaut Finnur litli öru og kom sú á Þóri miðjan og fékk hann bana, en þeir Sigurður hljópu allir í skóginn, en menn Þóris tóku lík hans og svo Hrærek konung og fluttu út til Túnsbergs.

Ólafur konungur tók þá við haldi Hræreks konungs. Hann lét þá vandlega gæta hans og galt mikinn varhuga við svikum hans, fékk til menn nótt og dag að gæta hans. Hrærekur konungur var þá hinn kátasti og fann engi maður á honum að eigi líkaði honum allt sem best.

84. Frá tilræði Hræreks konungs

Það barst að uppstigningardag að Ólafur konungur gekk til hámessu. Þá gekk biskup með prósessíu um kirkju og leiddi konunginn en er þeir komu aftur í kirkju þá leiddi biskup konung til sætis síns fyrir norðan dyr í kórnum. En þar sat hið næsta Hrærekur konungur sem hann var vanur. Hann hafði yfirhöfnina fyrir andliti sér.

En er Ólafur konungur hafði niður sest þá tók Hrærekur konungur á öxl honum hendinni og þrýsti.

Hann mælti þá: «Pellsklæði hefir þú nú frændi,» segir hann.

Ólafur konungur svarar: «Nú er hátíð mikil haldin í minning þess er Jesús Kristur sté til himna af jörðu.»

Hrærekur konungur svarar: «Ekki skil eg af svo að mér hugfestist það er þér segið frá Kristi. Þykir mér það mart heldur ótrúlegt er þér segið. En þó hafa mörg dæmi orðið í forneskju.»

En er messan var upp hafin þá stóð Ólafur konungur upp og hélt höndunum yfir höfuð sér og laut til altaris og bar yfirhöfnina aftur af herðum honum. Hrærekur konungur spratt þá upp skjótt og hart. Hann lagði þá til Ólafs konungs saxknífi þeim er rýtningur er kallaður. Lagið kom í yfirhöfnina við herðarnar er hann hafði lotið undan. Skárust mjög klæðin en konungur varð ekki sár. En er Ólafur konungur fann þetta tilræði þá hljóp hann fram við á gólfið.

Hrærekur konungur lagði til hans annað sinni saxinu og missti hans og mælti: «Flýrð þú nú Ólafur digri fyrir mér blindum.»

Konungur bað sína menn taka hann og leiða hann út úr kirkju og svo var gert.

Eftir þessa atburði eggjuðu menn Ólaf konung að láta drepa Hrærek «og er það,» segja þeir, «hin mesta gæfuraun yður konungur að hafa hann með yður og þyrma honum, hverigar óhæfur er hann tekur til, en hann liggur um það nótt og dag að veita yður líflát. En þegar er þér sendið hann á brott frá yður þá sjáum vér eigi mann til þess að svo fái gætt hans að örvænt sé að hann komist í brott. En ef hann verður laus þá mun hann þegar flokk uppi hafa og gera mart illt.»

Konungur svarar: «Rétt er það mælt að margur hefir dauða tekið fyrir minni tilgerðir en Hrærekur en trauður em eg að týna þeim sigri er eg fékk á Upplendingakonungum er eg tók þá fimm á einum morgni og náði eg svo öllu ríki þeirra að eg þurfti einskis þeirra banamaður verða því að þeir voru allir frændur mínir. En þó fæ eg nú varlega séð hvort Hrærekur mun fá mig nauðgaðan til eða eigi að eg láti drepa hann.»

Hrærekur hafði fyrir þá sök tekið hendinni á öxl Ólafi konungi að hann vildi vita hvort hann var í brynju.

85. Ferð Hræreks konungs til Íslands

Maður er nefndur Þórarinn Nefjólfsson. Hann var íslenskur maður. Hann var kynjaður norðan um land. Ekki var hann ættstór og allra manna vitrastur og orðspakastur. Hann var djarfmæltur við tigna menn. Hann var farmaður mikill og var löngum utanlendis. Þórarinn var manna ljótastur og bar það mest frá hversu illa hann var limaður. Hann hafði hendur miklar og ljótar en fæturnir voru þó miklu ljótari. Þórarinn var þá staddur í Túnsbergi er þessi tíðindi urðu er áður var frá sagt. Hann var málkunnigur Ólafi konungi. Þórarinn bjó þá kaupskip er hann átti og ætlaði til Íslands um sumarið. Ólafur konungur hafði Þórarin í boði sínu nokkura daga og talaði við hann. Svaf Þórarinn í konungsherbergi.

Það var einn morgun snemma að konungurinn vakti en aðrir menn sváfu í herberginu. Þá var sól farin lítt það og var ljóst mjög inni. Konungur sá að Þórarinn hafði rétt fót annan undan klæðum. Hann sá á fótinn um hríð. Þá vöknuðu menn í herberginu.

Konungur mælti til Þórarins: «Vakað hefi eg um hríð og hefi eg séð þá sýn er mér þykir mikils um vert en það er mannsfótur sá er eg hygg að engi skal hér í kaupstaðinum ljótari vera» og bað aðra menn hyggja að hvort svo sýndist.

En allir er sáu, þá sönnuðu að svo væri.

Þórarinn fann hvar til mælt var og svarar: «Fátt er svo einna hluta að örvænt sé að hitti annan slíkan og er það líklegast að hér sé enn svo.»

Konungur mælti: «Heldur vil eg því að fulltingja að eigi muni fást jafnljótur fótur og svo þótt eg skyldi veðja um.»

Þá mælti Þórarinn: «Búinn em eg að veðja um það við yður að eg mun finna í kaupstaðinum ljótara fót.»

Konungur segir: «Þá skal sá okkar kjósa bæn af öðrum er sannara hefir.»

«Svo skal vera,» segir Þórarinn.

Hann brá þá undan klæðunum öðrum fætinum og var sá engum mun fegri og þar var af hin mesta táin.

Þá mælti Þórarinn: «Sjá hér nú konungur annan fót og er sjá því ljótari að hér er af ein táin og á eg veðféið.»

Konungur segir: «Er hinn fóturinn því ófegri að þar eru fimm tær ferlegar á þeim en hér eru fjórar og á eg að kjúsa bæn að þér.»

Þórarinn segir: «Dýrt er drottins orð, eða hverja bæn viltu af mér þiggja?»

Hann segir: «Þá að þú flytjir Hrærek til Grænlands og færir hann Leifi Eiríkssyni.»

Þórarinn svarar: «Eigi hefi eg komið til Grænlands.»

Konungur segir: «Farmaður slíkur sem þú ert þá er þér nú mál að fara til Grænlands ef þú hefir eigi fyrr komið.»

Þórarinn svarar fá um þetta mál fyrst en er konungur hélt fram þessari málaleitan þá veikst Þórarinn eigi með öllu af hendi og mælti svo: «Heyra skal eg yður láta konungur bæn þá er eg hafði hugað að biðja ef mér bærist veðféið en það er að eg vildi biðja yður hirðvistar. En ef þér veitið mér það þá verð eg skyldari til að leggjast eigi undir höfuð það er þér viljið kvatt hafa.»

Konungur játaði þessu og gerðist Þórarinn hirðmaður hans. Þá bjó Þórarinn skip sitt og er hann var búinn þá tók hann við Hræreki konungi.

En er þeir skildust Ólafur konungur og Þórarinn þá mælti Þórarinn: «Nú ber svo til konungur sem eigi er örvænt og oft kann verða að vér komum eigi fram Grænlandsferðinni, ber oss að Íslandi eða öðrum löndum, hvernug skal eg skiljast við konung þenna þess að yður megi líka?»

Konungur segir: «Ef þú kemur til Íslands þá skaltu selja hann í hendur Guðmundi Eyjólfssyni eða Skafta lögsögumanni eða öðrum nokkurum höfðingjum, þeim er taka vilja við vináttu minni og jartegnum. En ef þig ber að öðrum löndum þeim er hér eru nær þá haga þú svo til að þú vitir víst að Hrærekur komi aldrei síðan lífs til Noregs en ger það því að einu ef þú sérð engi önnur föng á.»

En er Þórarinn var búinn og byr gaf þá sigldi hann allt útleiði fyrir utan eyjar og norður frá Líðandisnesi stefndi hann í haf út. Honum byrjaði ekki skjótt en hann varaðist það mest að koma við landið. Hann sigldi fyrir sunnan Ísland og hafði vita af og svo vestur um landið í Grænlandshaf. Þá fékk hann réttu stóra og volk mikil en er á leið sumarið tók hann Ísland í Breiðafirði.

Þorgils Arason kom þá fyrst til þeirra, virðingamanna. Þórarinn segir honum orðsending og vináttumál og jartegnir Ólafs konungs er fylgdu viðurtöku Hræreks konungs. Þorgils varð við vel og bauð til sín Hræreki konungi og var hann með Þorgilsi Arasyni um veturinn. Hann undi þar eigi og beiddi að Þorgils léti fylgja honum til Guðmundar og segir að hann þóttist það spurt hafa að með Guðmundi var rausn mest á Íslandi og væri hann honum til handa sendur. Þorgils gerði sem hann beiddi, fékk menn til og lét fylgja honum til handa Guðmundi á Möðruvöllum.

Tók Guðmundur vel við Hræreki fyrir sakir konungs orðsendingar og var hann með Guðmundi vetur annan. Þá undi hann þar eigi lengur. Þá fékk Guðmundur honum vist á litlum bæ er heitir á Kálfskinni og var þar fátt hjóna. Þar var Hrærekur hinn þriðja vetur og sagði hann svo að síðan er hann lét af konungdómi, að hann hefði þar verið svo að honum hafði best þótt því að þar var hann af öllum mest metinn. Eftir um sumarið fékk Hrærekur sótt þá er hann leiddi til bana. Svo er sagt að sá einn konungur hvílir á Íslandi.

Þórarinn Nefjólfsson hafðist síðan lengi í förum en var stundum með Ólafi konungi.

86. Orusta í Úlfreksfirði

Það sumar er Þórarinn fór með Hrærek til Íslands þá fór Hjalti Skeggjason og til Íslands og leiddi Ólafur konungur hann í brott með vingjöfum er þeir skildust.

Það sumar fór Eyvindur úrarhorn í vesturvíking og kom um haustið til Írlands til Konofogor Írakonungs. Þeir hittust um haustið í Úlfreksfirði Írakonungur og Einar jarl úr Orkneyjum og varð þar orusta mikil. Hafði Konofogor konungur lið miklu meira og fékk sigur en Einar jarl flýði einskipa og kom svo um haustið aftur til Orkneyja að hann hafði látið flest allt lið og herfang allt það er þeir höfðu fengið. Og undi jarl stórilla ferð sinni og kenndi ósigur sinn Norðmönnum þeim er verið höfðu í orustu með Írakonungi.

87. Frá Ólafi konungi

Nú er þar til máls að taka, er áður var frá horfið, að Ólafur konungur hinn digri fór brúðferð og að sækja festarkonu sína Ingigerði dóttur Ólafs Svíakonungs. Konungur hafði lið mikið og valið svo mjög að honum fylgdi allt stórmenni það er hann mátti ná og hver ríkismanna hafði með sér valið lið bæði að ættum og það er gervilegast var. Lið það var búið með hinum bestum föngum bæði að skipum og vopnum og klæðum. Þeir héldu liði sínu austur til Konungahellu. En er þeir komu þar þá spurðu þeir ekki til Svíakonungs. Voru þar og engir menn komnir af hans hendi. Ólafur konungur dvaldist við Konungahellu lengi um sumarið og leiddi mjög að spurningum, hvað menn kynnu að segja til um ferðir Svíakonungs eða ráðaætlan en engi kunni honum þar víst af að segja. Þá gerði hann menn sína upp í Gautland til Rögnvalds jarls og lét hann spyrja eftir ef hann vissi hvað til bar er Svíakonungur kom eigi til stefnu sem mælt var.

Jarl segir að hann vissi það eigi «en ef eg verð þess var,» segir hann, «þá mun eg þegar senda menn mína til Ólafs konungs og láta hann vita hvert efni í er ef þessi dvöl er fyrir nokkurs sakir annars en af fjölskyldum þeim er oft kann til bera að ferðir Svíakonungs dveljast meir en hann ætlar.»

88. Frá börnum Svíakonungs

Ólafur Svíakonungur Eiríksson átt fyrst frillu er Eðla hét, dóttir jarls af Vindlandi. Hún hafði fyrir það verið hertekin og kölluð konungsambátt. Börn þeirra voru Emundur, Ástríður, Hólmfríður … Enn gátu þau son og var fæddur Jakobsvökudag. En er skíra skyldi sveininn þá lét biskup hann heita Jakob. Það nafn líkaði Svíum illa og kölluðu að aldregi hefði Svíakonungur Jakob heitið. Öll voru börn Ólafs konungs fríð sýnum og vel viti borin. Drottningin var ríklunduð og ekki vel til stjúpbarna sinna. Konungur sendi Emund son sinn til Vindlands og fæddist hann þar upp með móðurfrændum sínum og hélt hann ekki kristni langa hríð.

Ástríður konungsdóttir fæddist upp í Vestra-Gautlandi að göfugs manns er Egill hét. Hún var kvinna fríðust og best orðum farin, glaðmælt og lítillát, mild af fé. En er hún var fulltíða að aldri var hún oftlega með föður sínum og þokkaðist hverjum manni vel.

Ólafur konungur var ríklundaður og óþýður í máli. Honum líkaði stórilla það er landsher hafði gert þys að honum á Uppsalaþingi og heitið honum afarkostum og kenndi það mest Rögnvaldi jarli. Engi tilbúnað lét hann hafa um brúðferðina, svo sem mælt hafði verið um veturinn að hann skyldi gifta Ingigerði dóttur sína Ólafi digra Noregskonungi og fara þá um sumarið til landamæris. En er á leið gerðist mörgum mönnum forvitni á hverja ætlan konungur mundi hafa eða hvort hann mundi halda sáttmáli við Noregskonung eða mundi hann rjúfa sáttina og svo friðinn. Margir voru um þetta hugsjúkir en engi var svo djarfur að þorði konung að spyrja máls um þetta. En margir kærðu þetta fyrir Ingigerði konungsdóttur og báðu hana til að verða vísa hvernug konungur mundi vilja.

Hún svarar: «Ófús em eg til ræðu við konung að tala um skipti þeirra Ólafs digra því að þar er hvorgi annars vin. Hefir hann mér þá einu sinni illa svarað er eg flutti mál Ólafs digra.»

Ingigerði konungsdóttur fékk þetta mál áhyggju mikillar. Var hún hugsjúk og ókát og gerðist henni forvitni mikil hvað konungur mundi til taka. Grunaði hana það meir að hann mundi eigi orð sín efna við Noregskonung því að það fannst á að í hvert sinni varð hann reiður er Ólafur digri var konungur kallaður.

89. Frá veiði Svíakonungs

Það var einn dag snemma að konungur reið út með hauka sína og hunda og með honum menn hans. En er þeir fleygðu haukunum þá drap konungshaukur í einu rennsli tvo orra og þegar eftir það renndi hann enn fram og drap þá þrjá orra. Hundarnir hljópu undir og tóku hvern fuglinn er á jörð kom. Konungur hleypti eftir og tók sjálfur veiði sína og hældist mjög, segir svo: «Langt mun yður flestum til áður þér veiðið svo.»

Þeir sönnuðu það og segja að þeir ætluðu að engi konungur mundi svo mikla gæfu til bera um veiði sína. Reið þá konungur heim og allir þeir. Var hann þá allglaður.

Ingigerður konungsdóttir gekk út úr herberginu en er hún sá að konungur reið í garðinn snerist hún þannug og heilsaði honum.

Hann fagnaði henni hlæjandi og bar þegar fram foglana og segir frá veiði sinni og mælti: «Hvar veistu þann konung er svo mikla veiði hafi fengið á svo lítilli stundu?»

Hún svarar: «Góð morgunveiður er þetta herra er þér hafið veitt fimm orra en meira er það er Ólafur Noregskonungur tók á einum morgni fimm konunga og eignaðist allt ríki þeirra.»

Og er hann heyrði þetta þá hljóp hann af hestinum og snerist við og mælti: «Vittu það Ingigerður að svo mikla ást sem þú hefir lagt við þann hinn digra mann þá skaltu þess aldregi njóta og hvorki ykkað annars. Skal eg þig gifta nokkurum þeim höfðingja er mér sé eigandi vinátta við en eg má aldregi vera vinur þess manns er ríki mitt hefir tekið að herfangi og gert mér skaða margan í ránum og manndrápum.»

Skildu þau svo sína ræðu og gekk leið sína hvort þeirra.

90. Frá Ólafi Noregskonungi

Ingigerður konungsdóttir var nú vís orðin hins sanna um ætlan Ólafs konungs og gerði þegar menn ofan í Vestra-Gautland til Rögnvalds jarls og lét segja honum hvað þá var títt með Svíakonungi og brugðið var öllu sáttmáli við Noregskonung og bað jarl við varast og aðra Vestur-Gauta að þeim mundi þá ósýnn friður af Noregsmönnum.

En er jarl spurði þessi tíðindi sendir hann boð um allt sitt ríki og bað þá við varast ef Noregsmenn vildu herja á þá. Jarl gerði og sendimenn til Ólafs konungs digra og lét segja honum þau orð er hann hafði spurt og svo það að hann vill halda sætt og vináttu við Ólaf konung og beiddi þess með að konungur skyldi eigi herja á ríki hans.

En er þessi orðsending kom til Ólafs konungs varð hann reiður mjög og hugsjúkur og var það nokkura daga er engi maður fékk orð af honum. Eftir það átti hann húsþing við lið sitt.

Þá stóð fyrst upp Björn stallari, hóf þar fyrst mál sitt er hann hafði farið áður um veturinn austur til friðgerðar og segir hversu Rögnvaldur jarl hafði honum vel fagnað. Hann segir og hversu þverlega og þunglega Svíakonungur hafði tekið í fyrstu þeim málum. «En sú sætt er ger var,» segir hann, «var meir af styrk fjölmennis og ríki Þorgnýs og liðveislu Rögnvalds jarls en af góðvilja Svíakonungs. Og þykjumst vér fyrir þá sök vita að konungur mun því valda er sættinni er brugðið en það mun ekki jarli að kenna. Hann reyndum vér sannan vin Ólafs konungs. Nú vill konungur vita af höfðingjum og af öðrum liðsmönnum hver ráð hann skal upp taka, hvort hann skal ganga upp á Gautland og herja með það lið sem nú höfum vér eða sýnist yður annað ráð upp að taka.» Hann talaði bæði langt og snjallt.

Eftir það töluðu ríkismenn margir og kom það mjög í einn stað niður að lyktum, að allir löttu hernaðar og mæltu svo: «Þótt vér höfum lið mikið þá er hér saman safnað ríkmenni og göfugmenni en til herfara eru eigi verr fallnir ungir menn þeir er gott þykir að afla sér fjár og metnaðar. Er það og háttur ríkismanna ef þeir skulu fara í bardaga eða orustu að þeir hafa með marga menn til forgöngu og hlífðar sér en eigi berjast oft verr þeir menn er lítið eiga fé heldur en þeir er auðgir eru upp fæddir.»

Og af fortölum þeirra var það ráð konungs að rjúfa leiðangurinn og gaf þá hverjum leyfi heim að fara og lýsti því að annað sumar skyldi hann leiðangur úti hafa af öllu landi og halda þá til móts við Svíakonung og hefna þessa lausmælis. Það líkaði öllum vel.

Fór þá Ólafur konungur norður í Víkina og settist um haustið í Borg og lét þangað draga öll föng þau er hann þurfti til veturvistar og sat þar fjölmennt um veturinn.

91. Ferð Sighvats skálds

Menn mæltu allmisjafnt til Rögnvalds jarls. Töldu sumir að hann væri sannur vinur Ólafs konungs en sumum þótti ekki trúlegt og kváðu hann ráða mundu því við Svíakonung að hann héldi orð sín og sáttmál þeirra Ólafs konungs digra.

Sighvatur skáld var vinur mikill Rögnvalds jarls í orðum og talaði oft um það fyrir Ólafi konungi. Hann bauð konungi að fara á fund Rögnvalds jarls og njósna hvers hann yrði var frá Svíakonungi og freista ef hann mætti nokkurri sætt við koma. Konungi líkaði það vel því að honum þótti gott fyrir trúnaðarmönnum sínum að tala oftlega um Ingigerði konungsdóttur.

Öndurðan vetur fór Sighvatur skáld og þeir þrír saman úr Borg og austur um Markir og svo til Gautlands.

En áður þeir skildust Ólafur konungur og Sighvatur þá kvað hann vísu:

Nú sittu heill, en hallar
hér finnumst meir þinnar,
at uns eg kem vitja,
Ólafr konungr, mála.
Skáld biðr hins, að haldi
hjálmdrífu viðr lífi,
endist leyfð, og landi,
lýk eg vísu nú, þvísa.

Nú eru mælt, en mála
meir kunnum skil fleiri,
orð þau er oss um varða
alls mest, konungr, flestra.
Guð láti þig gæta,
geðharðr konungr, jarðar,
víst hefi eg þann, því að þinnar,
þú ert til borinn, vilja.

Síðan fóru þeir austur til Eiða og fengu illt far yfir ána, eikjukarfa nokkurn, og komust nauðulega yfir ána.

Sighvatur kvað:

Lét eg til Eiðs, því að óðumsk
aftrhvarf, dreginn karfa,
vér stilltum svo, valtan,
vátr til glæps á báti.
Taki hlægiskip hauga
herr. Sáka eg far verra.
Lét eg til heims á hrúti
hætt. Fór betr en eg vætta.

Síðan fóru þeir um Eiðaskóg: Sighvatur kvað vísu:

Vara fyrst, er eg rann rastir
reiðr um skóg frá Eiðum,
maðr um veit, að eg mætti
meinum, tólf og eina.
Hykk á fót, en flekkum
féll sár á il hvára,
hvasst gengum þó þingað
þann dag, konungsmönnum.

Síðan fóru þeir um Gautland og komu að kveldi á þann bæ er Hof heitir. Þar var byrgð hurð og komust þeir eigi inn. Hjónin segja að þar var heilagt. Braut hurfu þeir þaðan.

Sighvatur kvað:

Réð eg til Hofs að hæfa.
Hurð var aftr en spurðumst,
inn setti eg nef nenninn
niðrlútt, fyr útan.
Orð gat eg fæst af fyrðum,
flögð bað eg, en þau sögðu,
hnekktumk heiðnir rekkar,
heilagt, við þau deila.

Þá kom hann að öðrum garði. Stóð þar húsfreyja í durum, bað hann ekki þar inn koma, segir að þau ættu álfablót.

Sighvatur kvað:

«Gakkattu inn,» kvað ekkja,
«armi drengr, en lengra.
Hræðumst eg við Óðins,
erum heiðnir vér, reiði.»
Rýgr kvaðst inni eiga,
óþekk, sú er mér hnekkti,
álfablót, sem úlfi
ótvín, í bæ sínum.

Annað kveld kom hann til þriggja búanda og nefndist hver þeirra Ölvir og ráku hann allir út.

Sighvatur kvað:

Nú hafa hnekkt, þeir er hnakka,
heinflets, við mér settu,
þeygi bella þollar,
þrír samnafnar, tíri.
Þó sjáumst hitt að hlæðir
hafskíðs muni síðan
út hver, er Ölvir heitir,
alls mest reka gesti.

Þá fóru þeir enn um kveldið og hittu hinn fjórða búanda og var sá kallaður bestur þegn þeirra. Út rak sá hann.

Sighvatur kvað:

Fór eg að finna báru,
fríðs vænti eg mér, síðan
brjót, þann er bragnar létu,
bliks, vildastan miklu.
Grefs leit við mér gætir
gerstr. Þá er illr hinn versti,
lítt reiði eg þó lýða
löst, ef sjá er hinn basti.

Missti eg fyr austan
Eiðaskóg á leiðu
Ástu bús, er eg æsti
ókristinn hal vistar.
Ríks fannka eg son Saxa.
Saðr var engr fyr þaðra,
út var eg eitt kveld heitinn,
inni, fjórum sinnum.

En er þeir komu til Rögnvalds jarls þá segir jarl að þeir hefðu haft erfiða ferð.

Sighvatur kvað:

Átt hafa sér, þeir er sóttu,
sendimenn fyr hendi
Sygna grams, með sagnir
siklinga, för mikla.
Spörðumst fæst, en fyrða
föng eru stór við göngur.
Vörðr réð nýtr því, er norðan,
Nóregs, þinig fórum.

Drjúggenginn var drengjum,
drengr magnar lof þengils,
austr til jöfra þrýstis
Eiðaskógr á leiðu.
Skyldit mér, áðr mildan
minn drottin kom eg finna,
hlunns af hilmis runnum
hnekkt dýrloga bekkjar.

Rögnvaldur jarl gaf Sighvati gullhring. Ein kona mælti að hann hafði gengið til nokkurs með þau hin svörtu augu.

Sighvatur kvað:

Oss hafa augun þessi
íslensk, konan, vísað
brattan stíg að baugi
björtum langt hin svörtu.
Sjá hefir, mjöð-Nannan, manni
mínn ókunnar þínum
fótr á fornar brautir
fulldrengila gengið.

En er Sighvatur kom heim til Ólafs konungs og hann gekk inn í höllina, hann kvað og sá á veggina:

Búa hilmis sal hjálmum
hirðmenn, þeir er svan grenna,
hér sé eg, bens, og brynju,
beggja kost á veggjum.
Því á ungr konungr engi,
ygglaust er það, dyggra
húsbúnaði að hrósa.
Höll er dýr með öllu.

Síðan segir hann frá ferðum sínum og kvað vísur þessar:

Hugstóra bið eg heyra,
hressfær jöfur, þessar,
þoldi eg vos, hve vísur,
verðung, um för gerðak.
Sendr var eg upp af öndrum
austr, svaf eg fátt á hausti,
til Svíþjóðar, síðan,
svanvangs í för langa.

En er hann talaði við konung kvað hann:

Lét eg við yðr, er ítran,
Ólafr, hugað málum,
rétt, er ríkan hittak
Rögnvald, konungr, haldið.
Deildi eg mál hins milda,
málma vörðs, í görðum
harða mörg, né eg heyrði
heiðmanns tölur greiðri.

Þik bað, sólar sökkvir,
sínn halda vel, Rínar,
hvern, er hingað árnar,
húskarl nefi jarla.
En hver, er austr vill sinna,
jafnvist er það Lista
þengill, þinna drengja
þar á hald und Rögnvaldi.

Fólk réð um sig, fylkir,
flest, er eg kom vestan,
ætt sem áðr um hvatti
Eiríks svika þeira.
En því að jarla frænda,
eins því er tókst af Sveini,
yðr kveð eg, jörð er náðuð,
Úlfs bróður, lið stóðust.

Spakr lét Úlfr meðal ykkar,
Ólafr, tekið málum,
þétt fengum svör, sátta,
sakar leggið þið beggja.
Þér lét, þjófa rýrir,
þær, sem engar væru
riftar reknar heiftir,
Rögnvaldr, gefið, aldar.

Öndurðan vetur fór Sighvatur skáld og þeir þrír saman úr Borg og austur um Markir og svo til Gautlands og fékk í þeirri ferð oftlega illar viðurtekjur. Á einu kveldi kom hann til þriggja búenda og ráku hann allir út. Þá kvað Sighvatur skáld Austurfararvísur um ferð sína.

Sighvatur skáld kom til Rögnvalds jarls og var þar í góðum fagnaði langa hríð. Þá spurði hann það af ritsendingum Ingigerðar konungsdóttur að til Ólafs Svíakonungs höfðu komið sendimenn Jarisleifs konungs austan úr Hólmgarði að biðja Ingigerðar dóttur Ólafs Svíakonungs til handa Jarisleifi og það með að Ólafur konungur tók þessu allvænt.

Þá kom og til hirðar Rögnvalds jarls Ástríður dóttir Ólafs konungs. Var þar þá ger veisla mikil. Gerist Sighvatur brátt málkunnigur konungsdóttur. Kannaðist hún við hann og kynferði hans því að Óttar skáld systursonur Sighvats, hann hafði þar lengi verið í kærleikum með Ólafi Svíakonungi. Var þá mart talað.

Spurði Rögnvaldur jarl hvort Ólafur Noregskonungur mundi fá vilja Ástríðar. «Og ef hann vill það,» segir hann, «þá vænti eg þess að um þetta ráð spyrjum vér ekki Svíakonung eftir.»

Slíkt sama mælti Ástríður konungsdóttir.

Eftir það fóru þeir Sighvatur heim og komu litlu fyrir jól til Borgar á fund Ólafs konungs. Brátt segir Sighvatur Ólafi konungi þau tíðindi sem hann hafði spurt. Var konungur fyrst allókátur er Sighvatur segir honum bónorð Jarisleifs konungs og segir Ólafur konungur að honum var ills eins von að Svíakonungi «nær sem vér fáum honum goldið með nokkurum minningum.»

En er frá leið spurði konungur Sighvat margra tíðinda austan af Gautlandi. Sighvatur segir honum mikið frá fríðleik og málsnilld Ástríðar konungsdóttur og svo að það mæltu allir menn þar að hún væri að engum hlut verr um sig en Ingigerður systir hennar. Konungi féllst það vel í eyru. Sagði Sighvatur honum allar ræður þær er þau Ástríður höfðu mælt sín í millum og fannst konungi mart um þetta og mælti það: «Eigi mun Svíakonungur það hyggja að eg muni þora að fá dóttur hans fyrir utan hans vilja.»

En ekki var þetta mál borið fyrir fleiri menn. Ólafur konungur og Sighvatur skáld töluðu oft um þetta mál. Konungur spurði Sighvat vandlega að, hvað hann kannaði af, um Rögnvald jarl, «hver vinur hann er vor,» segir hann.

Sighvatur segir svo að jarl væri hinn mesti vinur Ólafs konungs. Sighvatur kvað þá:

Fast skaltu, ríkr, við ríkan
Rögnvald, konungr, halda,
hann er þýðr að þinni
þörf nátt og dag, sáttum.
Þann veit eg, þinga kennir,
þik bestan vin miklu
á Austrvega eiga,
allt með grænu salti.

Eftir jólin fóru þeir Þórður skotakollur, systursonur Sighvats skálds, og annar skósveinn Sighvats leynilega frá hirðinni. Þeir fóru austur á Gautland. Þeir höfðu farið áður um haustið austur þangað með Sighvati. En er þeir komu til hirðar jarls þá báru þeir fram fyrir jarl jartegnir þær er þeir jarlinn og Sighvatur höfðu gert með sér að skilnaði. Þeir höfðu og þar jartegnir þær er Ólafur konungur sjálfur hafði sent jarli af trúnaði.

Þegar jafnskjótt býst jarl til ferðar og með honum Ástríður konungsdóttir og höfðu nær hundraði manna og valið lið bæði af hirðinni og af ríkum bóndasonum og vandaðan sem mest allan búnað, bæði vopn og klæði og hesta, riðu síðan norður til Noregs til Sarpsborgar, komu þar að kyndilmessu.

92. Kvonfang Ólafs konungs

Ólafur konungur hafði þar látið við búast. Var þar alls konar drykkur er bestan mátti fá og öll önnur föng voru þar hin bestu. Hann hafði þá og til sín stefnt úr héruðum mörgu stórmenni.

En er jarl kom þar með sínu liði þá fagnar konungur honum forkunnarvel og voru jarli fengin herbergi stór og góð og búin ítarlega og þar með þjónustumenn og þeir er fyrir sáu að engan hlut skyldi skorta, þann er veislu mætti prýða.

En er sú veisla hafði staðið nokkura daga þá var konungur og jarl og konungsdóttir á málstefnu en það kom upp af tali þeirra að sú var ráðagerð að Rögnvaldur jarl fastnaði Ástríði dóttur Ólafs Svíakonungs Ólafi Noregskonungi með þeirri heimanfylgju sem áður hafði skilið verið að Ingigerður systir hennar skyldi hafa heiman haft. Konungur skyldi og veita Ástríði þvílíka tilgjöf sem hann skyldi hafa veitt Ingigerði systur hennar. Var þá sú veisla aukin og var þá drukkið brullaup Ólafs konungs og Ástríðar drottningar með mikilli vegsemd.

Eftir það fór Rögnvaldur jarl aftur til Gautlands og að skilnaði veitti konungur jarli góðar gjafir og stórar og skildust hinir kærstu vinir og héldu því meðan þeir lifðu báðir.

93. Brugðið sætt við Noregskonung

Eftir um vorið komu til Svíþjóðar sendimenn Jarisleifs konungs austan úr Hólmgarði og fóru að vitja mála þeirra er Ólafur konungur hafði áður um sumarið heitið að gifta Ingigerði dóttur sína Jarisleifi konungi.

Ólafur konungur ræddi þetta mál við Ingigerði og segir að þetta var hans vilji að hún giftist Jarisleifi konungi.

Hún svarar: «Ef eg skal giftast Jarisleifi konungi þá vil eg,» segir hún, «í tilgjöf mína Aldeigjuborg og jarlsríki það er þar liggur til.»

En sendimenn hinir gersku játuðu þessu af hendi konungs síns.

Þá mælti Ingigerður: «Ef eg skal fara austur í Garðaríki þá vil eg kjósa mann úr Svíaveldi er mér þykir best til fallinn að fara með mér. Vil eg og það til skilja að hann hafi austur þar eigi minni nafnbót en hér og í engan stað verra rétt eða minna eða metorð en hann hefir hér.»

Þessu játaði konungur og slíkt hið sama sendimenn. Seldi konungur trú sína og svo sendimenn til þessa máls. Þá spurði konungur Ingigerði hver sá maður er í hans ríki er hún vill kjósa til fylgdar við sig.

Hún svarar: «Sá maður er Rögnvaldur jarl Úlfsson frændi minn.»

Konungur svarar: «Annan veg hefi eg hugað að launa Rögnvaldi jarli drottinsvikin þau er hann fór til Noregs með dóttur mína og seldi hana þar til frillu þeim hinum digra manni og þeim er hann vissi vorn óvin mestan og skal hann fyrir þá sök þetta sumar uppi hanga.»

Ingigerður bað föður sinn þá að halda trú sína er hann hafði selt henni og kom svo af bæn hennar að konungur segir að Rögnvaldur skyldi fara í griðum á brott úr Svíaveldi og koma eigi í augsýn konungi og eigi til Svíþjóðar meðan Ólafur væri konungur.

Ingigerður sendi þá menn á fund jarls og lét segja honum þessi tíðindi og gerði honum stefnulag hvar þau skyldu hittast. En jarl bjóst þegar til ferðar og reið upp í Eystra-Gautland og fékk sér þar skip og hélt þá liði sínu til fundar við Ingigerði konungsdóttur. Fóru þau öll saman um sumarið austur í Garðaríki. Þá giftist Ingigerður Jarisleifi konungi. Voru þeirra synir Valdimar, Vissivaldur, Holti hinn frækni.

Ingigerður drottning gaf Rögnvaldi jarli Aldeigjuborg og jarlsríki er þar fylgdi. Var Rögnvaldur jarl þar lengi og var ágætur maður. Synir Rögnvalds jarls og Ingibjargar voru þeir Úlfur jarl og Eilífur jarl.

94. Saga Emundar lögmanns

Maður er nefndur Emundur af Skörum. Hann var þar lögmaður í Gautlandi vestra og var manna vitrastur og orðsnjallastur. Hann var ættstór og frændmargur, stórauðigur. Hann var kallaður undirhyggjumaður og meðallagi trúr. Hann var maður ríkastur í Vestra-Gautlandi þá er jarl var á brott farinn.

Það vor er Rögnvaldur jarl fór af Gautlandi þá áttu Gautar þing sín í milli og kærðu þeir meðal sín oftlega hvað Svíakonungur mundi til taka. Þeir spurðu það að hann var þeim reiður fyrir það er þeir höfðu vingast við Ólaf Noregskonung heldur en haldið deilu við hann. Hann bar og sakir á þá menn er fylgt höfðu Ástríði dóttur hans til Noregs. Mæltu það sumir að þeir skyldu leita sér trausts til Noregskonungs og bjóða honum sína þjónustu. Sumir löttu þess og sögðu að Vestur-Gautar höfðu eigi styrk til þess að halda deilu í móti Svíum «en Noregskonungur verður oss fjarri,» segja þeir, «því að landsmegin hans er oss fjarri og er sá til fyrst að gera menn til Svíakonungs og freista að vér komumst í sætt við hann. En ef það fæst eigi þá er sá kostur að leita sér trausts til Noregskonungs.»

Báðu þá bændur Emund að fara þessa sendiför en hann kvað já við og fór með þrjá tigu manna og kom fram í Eystra-Gautlandi. Voru þar margir frændur hans og vinir. Fékk hann þar góðar viðurtekjur. Hann átti þar tal við hina vitrustu menn um þetta vandmæli og kom það allt ásamt með þeim og þótti mönnum það siðlausa og löglausa er konungur gerði við þá.

Fór þá Emundur upp í Svíþjóð og átti þar tal við marga ríkismenn og kom þar allt í einn stað niður. Hann hélt þá fram ferð sinni til þess er hann kom aftan dags til Uppsala. Tóku þeir sér þar gott herbergi og voru þar um nóttina.

Eftir um daginn gekk Emundur á konungs fund þá er konungur sat á stefnu og fjölmennt um hann. Emundur gekk fyrir hann og hneig honum og kvaddi hann. Konungur sá í móti honum og heilsaði honum og spurði hann að tíðindum.

Emundur svarar: «Smá ein tíðindi eru með oss Gautum. En það þykir oss nýnæmi er Atti hinn dælski á Vermalandi fór í vetur upp á markir með skíð sín og boga. Hann köllum vér mestan veiðimann. Hann hafði fengið á fjalli svo mikla grávöru að hann hafði fyllt skíðsleða sinn svo sem mest gat hann flutt eftir sér. Þá sneri hann heim af mörkinni. Hann sá einn íkorna í viðinum og skaut að honum og missti. Þá varð hann reiður og lét lausan sleðann og renndi eftir íkornanum. En íkorninn fór jafnan þar sem þröngstur var skógurinn en stundum í viðarræturnar, stundum í limar upp, þá sigldi hann milli limanna í annað tré. En er Atti skaut að honum þá fló æ fyrir ofan eða neðan en aldrei fór íkorni svo að eigi sá Atti hann. Honum gerðist svo mikið kapp á þessi veiði að hann skreið þar eftir allan dag en eigi að heldur gat hann veitt þann íkorna. En er myrkva tók kastaði hann sér niður á snæ sem hann var vanur og lá þar um nóttina. Veður var drífanda. Eftir um daginn fór Atti að leita skíðsleða síns og fann aldregi síðan og fór heim við svo búið. Slík eru mín tíðindi herra.»

Konungur segir: «Lítil tíðindi ef ekki er meira frá að segja.»

Emundur svarar: «Var enn fyrir skömmu það er tíðindi má kalla, að Gauti Tófason fór með fimm herskipum út eftir Gautelfi. En er hann lá í Eikureyjum þá komu þar Danir fimm kaupskipum stórum. Þeir Gauti unnu skjótt fjögur kaupskipin og létu enga menn en fengu óf fjár en hið fimmta skip komst á haf undan og komu þeir segli við. Gauti fór eftir þeim einskipa, dró fyrst eftir þeim. Þá tók veðrið að vaxa, gekk þá meira kaupskipið, sóttist þá hafið. Vildi þá Gauti aftur snúa. Þá gerði storm veðurs. Braut hann skipið við Hlésey, týndist fé allt og meiri hlutur manna. En hans förunautar skyldu bíða í Eikureyjum. Þá komu að þeim Danir fimmtán kaupskipum og drápu þá alla en tóku allt fé það er þeir höfðu áður fengið. Svo gafst þeim ágirnin.»

Konungur svarar: «Þetta eru mikil tíðindi og frásöguleg. En hvert er þitt erindi hingað?»

Emundur svarar: «Eg fer herra að leita úrlausnar um vandmæli þau er lög vor greinir og Uppsalalög.»

Konungur spyr: «Hvað er það er þú vilt kæra?»

Emundur svarar: «Þar voru tveir menn öðlibornir, jafnir að ætt en ójafnir að eignum og skaplyndi. Þeir deildu um jarðir og gerði hvor öðrum skaða og sá meira er ríkari var áður. En þeirra deila var niður sett og dæmt um á allsherjarþingi. Hlaut sá að gjalda er ríkari var áður. En að fyrsta sali galt hann gagl fyrir gás, grís fyrir gamalt svín, en fyrir mörk gulls brennds reiddi hann hálfa mörk gulls en aðra hálfa mörk af leiri og móðu, og enn umfram hét hann hinum afarkostum er þetta fé tók í sína skuld. Hvað dæmið þér hér um herra?»

Konungur segir: «Gjaldi fullum gjöldum það er dæmt var en konungi sínum þrjú slík. En ef það er eigi goldið fyrir jafnlengd þá fari hann útlagur af allri eigu sinni, falli fé hans hálft í konungsgarð en hálft til þess er hann átti sök að bæta.»

Emundur skírskotaði þessum úrskurði undir þá menn alla er þar voru ríkastir til og skaut til þeirra laga er gengu á Uppsalaþingi. Eftir það heilsaði hann á konung og gekk út síðan. En þá hófu aðrir menn sínar kærslur fyrir konungi og sat hann lengi dags yfir málum manna.

En er konungur kom til borðs þá spurði hann hvar Emundur lögmaður væri. Honum var sagt að hann var heima í herbergi.

Þá mælti konungur: «Gangi eftir honum, hann skal vera í boði mínu í dag.»

Því næst komu inn sendingar og þar eftir fóru inn leikarar með hörpur og gígjur og söngtól og þar næst skenkingar. Var konungur allkátur og hafði marga ríka menn í boði sínu og gáði þá ekki Emundar. Drakk konungur þann dag allan og svaf eftir um nóttina.

En að morgni er konungur vaknaði þá hugsaði hann hvað Emundur hafði talað um daginn. En er hann var klæddur lét hann kalla til sín spekinga sína. Ólafur konungur hafði með sér tólf hina spökustu menn. Þeir sátu yfir dómum með honum og réðu um vandamál en það var eigi vandalaust því að konungi líkaði illa ef dómum var hallað frá réttu en eigi hlýddi að mæla á móti honum. Á þeirri málstefnu tók konungurinn til orða og bað þangað kalla Emund lögmann.

En er sendimaður kom aftur: «Herra,» segir hann, «Emundur lögmaður reið í brott gærdags þegar er hann hafði snætt.»

Þá mælti konungur: «Segið það góðir höfðingjar hvað vissi sú lagafrétt er Emundur spurði í gær?»

Þeir svöruðu: «Herra þér munuð það hugsað hafa ef það kom til annars en hann mælti.»

Konungurinn mælti: «Þeir tveir öðlibornir menn er hann sagði þá frá er ósáttir höfðu verið, og þó annar ríkari og gerði hvor öðrum skaða, þar sagði hann frá okkur Ólafi digra.»

«Svo er herra,» sögðu þeir, «sem þér segið.»

Konungur segir: «Dómur var á voru máli á Uppsalaþingi. En hvar kom það til er hann sagði frá að vangoldið var er gagl var fyrir gás en grís fyrir gamalt svín en leir hálft fyrir gull?»

Arnviður blindi svarar. «Herra,» segir hann, «það er ólíkast, rautt gull og leir, en meira skilur konung og þræl. Þér hétuð Ólafi digra dóttur yðarri Ingigerði. Er hún konungborin í allar álfur, af Uppsvíaætt er tignust er á Norðurlöndum því að sú ætt er komin frá goðunum sjálfum. En nú hefir Ólafur konungur fengið Ástríðar en þó að hún sé konungsbarn þá er ambátt móðir hennar og þó vindversk. Mikill munur er þeirra konunga er annar þiggur slíkt með þökk og er það með von að ekki megi jafnast einn Norðmaður við Uppsalakonung. Gjöldum þar allir þökk fyrir að það haldist því að goðin hafa lengi haft rækt mikla á ástmönnum sínum þótt nú óræki margir þann átrúnað.»

Þeir voru bræður þrír: Arnviður blindi, hann var sýndur svo lítt að varla var hann herfær og manna snjallastur, annar var Þorviður stami, hann fékk eigi mælt tveimur orðum lengra samt, hann var þar maður djarfastur og einarðastur, þriðji hét Freyviður daufi, hann heyrði illa. Þeir bræður allir voru menn ríkir og auðgir, kynstórir og forvitra og allir kærir konungi.

Þá mælti Ólafur konungur: «Hvað veit það er Emundur sagði frá Atta dælska?»

Þá svarar engi og sá hver til annars.

Konungur mælti: «Segið nú.»

Þá mælti Þorviður stami: «Atti: atsamur, ágjarn, illgjarn; dælskur: fólskur.»

Þá mælti konungur: «Hver á þessa sneið?»

Þá svarar Freyviður daufi: «Herra mæla munu menn berara ef það skal vera í yðru orlofi.»

Konungur mælti: «Tala nú Freyviður í orlofi það er þú vilt mæla.»

Freyviður tók þá til máls: «Þorviður bróðir minn, er vor er vitrastur kallaður, kallar þann allan einn Atta og atsaman, dælskan og fólskan. Þann kallar hann svo er leiður er friðurinn svo að hann keppist til smárra hluta og fær þó eigi en lætur fyrir þá sök farsællega hluti stóra. Nú em eg svo daufur en svo hafa nú margir mælt að eg hefi mátt skilja að mönnum líkar illa, bæði ríkum og alþýðu, það er þér herra haldið eigi orð yður við Noregskonung en hitt enn verr er þér rjúfið dóm allsherjar, þann er ger var á Uppsalaþingi. Eigi þurfið þér að hræðast Noregskonung eða Danakonung og engan annan meðan Svíaher vill fylgja yður en ef landsfólkið snýst á hendur yður með einu samþykki þá sjáum vér vinir yðrir eigi ráð til, þau er víst er að duga muni.»

Konungur spyr: «Hverjir gerast höfuðsmenn að því að ráða land undan mér?»

Freyviður svarar: «Allir Svíar vilja hafa forn lög og fullan rétt sinn. Lítið á hitt herra hversu margir höfðingjar yðrir sitja hér nú yfir ráðagerðinni með yður. Eg ætla hitt satt að segja að vér séum hér sex er þér kallið ráðgjafa yðra en allir aðrir hygg eg að á brott séu riðnir og farnir í hérað og eiga þar þing við landsfólkið og yður satt að segja þá er herör upp skorin og send um land allt og stefnt refsiþing. Allir vér bræður höfum verið til beðnir að eiga hlut í þessi ráðagerð en engi vor vill eiga það nafn að heita drottinsviki því að eigi var svo vor faðir.»

Konungur tók þá til máls: «Hvert úrráð skulum vér nú hafa? Vandi mikill er nú til handa borinn. Gefið nú ráð til góðir höfðingjar að eg fái haldið konungdóminum og föðurarfi mínum en ekki vil eg deila kappi við allan Svíaher.»

Arnviður blindi svarar: «Herra það sýnist mér ráð að þér ríðið ofan í Árós með það lið er yður vill fylgja og takið þar skip yður og farið svo út í Löginn, stefnið þá til yðar fólkinu, farið nú ekki með stirðlæti, bjóðið mönnum lög og landsrétt, drepið niður herörinni. Mun hún enn ekki víða hafa farið yfir landið því að stund hefir skömm verið. Sendið menn yðra þá er þér trúið til fundar við þá menn er þetta ráð hafa með höndum og freista ef þessi kurr mætti niður setjast.

Konungur segir að hann vill þetta ráð þekkjast. «Vil eg,» segir hann, «að þér bræður farið þessa ferð því að eg trúi yður best af mínum mönnum.»

Þá mælti Þorviður stami: «Eg mun eftir vera en Jakob fari. Þess þarf.»

Þá mælti Freyviður: «Gerum svo herra sem Þorviður mælir. Hann vill eigi við yður skiljast í þessum háska en við Arnviður munum fara.»

Þessi ráðagerð var framgeng að Ólafur konungur fór til skipa sinna, hélt út í Löginn og jók honum þá brátt fjölmenni.

En Freyviður og Arnviður riðu út á Ullarakur og höfðu með sér Jakob konungsson og drápu þó dul um hans ferð. Þeir urðu brátt varir við að þar var fyrir safnaður og herhlaup er bændur áttu þing dag og nótt. En er þeir Freyviður hittu þar fyrir frændur sína og vini þá segja þeir það að þeir vilji ráðast í flokkinn en því taka allir feginsamlega. Var þá þegar ráðum skotið til þeirra bræðra og dregst þar til fjölmennið og mæla þó allir eitt og segja svo að þeir skulu aldrei lengur hafa Ólaf konung yfir sér og eigi vilja þeir honum þola ólög og ofdramb það er hann vill einskis manns máli hlýða þótt stórhöfðingjar segi honum sannindi.

En er Freyviður fann ákafa lýðsins þá sá hann í hvert óefni komið var. Hann átti þá stefnur við landshöfðingja og talaði fyrir þeim og mælti svo: «Svo líst mér, ef þetta stórræði skal fram fara, að taka Ólaf Eiríksson af ríkinu, sem vér Uppsvíarnir munum vera skulu fyrir. Hefir hér svo jafnan verið að það er Uppsvíahöfðingjar hafa staðfest sín í millum þá hafa þeim ráðum hlýtt aðrir landsmenn. Eigi þurftu vorir feður að þiggja ráð að Vestur-Gautum um sína landstjórn. Nú verðum vér eigi þeir ættlerar að Emundur þurfi oss ráð að kenna. Vil eg að vér bindum saman ráð vor frændur og vinir.»

Þessu játuðu allir og þótti vel mælt. Eftir það snýst allur fjöldi lýðsins til þess sambands er Uppsvíahöfðingjar tóku með sér. Voru þeir þá höfðingjar fyrir liði Freyviður og Arnviður.

En er það fann Emundur þá grunaði hann hvort þetta ráð mundi framgengt verða. Fór hann þá til fundar við þá bræður og áttu þeir tal saman.

Spyr þá Freyviður Emund: «Hverja ætlan hafið þér um það ef Ólafur Eiríksson er af lífi tekinn, hvern konung viljið þér hafa?»

Emundur segir: «Þann er oss þykir best til fallinn hvort sem sá er af höfðingjaætt eða eigi.»

Freyviður svarar: «Eigi viljum vér Uppsvíarnir að konungdómur gangi úr langfeðgaætt hinna fornu konunga á vorum dögum meðan svo góð föng eru til sem nú, er Ólafur konungur á tvo sonu, og viljum vér annan hvorn þeirra til konungs og er þó þeirra mikill munur. Annar er öðliborinn og sænskur að allri ætt en annar er ambáttarsonur og vindverskur að hálfri ætt.»

Að þessum úrskurð varð rómur mikill og vilja allir Jakob til konungs.

Þá mælti Emundur: «Þér Uppsvíarnir hafið vald til að ráða þessu að sinni en hitt segi eg yður sem eftir mun ganga að þeir sumir er nú vilja ekki annað heyra en konungdómur í Svíþjóð gangi í langfeðgaætt, nú munu þeir sjálfir lifa og játa þá er konungdómur mun í aðrar ættir koma og mun það betur hlýða.»

Eftir það létu þeir bræður Freyviður og Arnviður leiða fram á þingið Jakob konungsson og létu honum þar gefa konungsnafn og þar með gáfu Svíar honum Önundar nafn og var hann svo síðan kallaður meðan hann lifði. Þá var hann tíu vetra eða tólf Eftir það tók Önundur konungur sér hirð og valdi með sér höfðingja og höfðu þeir allir saman lið svo mikið sem honum þótti þurfa en hann gaf þá heimfararleyfi öllum bóndamúgnum.

Eftir það fóru sendimenn í milli konunganna og því næst kom svo að þeir hittust sjálfir og gerðu sætt sína. Skyldi Ólafur vera konungur yfir landi meðan hann lifði. Hann skyldi og halda frið og sætt við Noregskonung og svo við þá menn alla er í þeirri ráðagerð höfðu vafist. Önundur skyldi og konungur vera og hafa það af landi er semdist með þeim feðgum en vera skyldur til þess að fylgja þá bóndum ef Ólafur konungur gerir nokkura þá hluti er bændur vildu eigi þola honum.

Eftir það fóru sendimenn til Noregs á fund Ólafs konungs með þeim erindum að hann skyldi fara í stefnuleiðangur til Konungahellu í móti Svíakonungi og það með að Svíakonungur vill að þeir tryggi sættir sínar.

En er Ólafur konungur heyrði þessa orðsending þá var hann enn sem fyrr gjarn til friðarins og fer hann með liði sínu sem ákveðið var. Kom þar þá Svíakonungur og er þeir mágar hittust þá binda þeir sætt milli sín og frið. Var þá Ólafur Svíakonungur góður viðmælis og mjúklyndur.

Svo segir Þorsteinn fróði að byggð sú lá í Hísing er ýmist hafði fylgt til Noregs eða til Gautlands. Þá mæltu þeir konungarnir sín í milli að þeir skyldu hluta um eign þá og kasta til teningum. Skyldi sá hafa er stærra kastaði. Þá kastaði Svíakonungur sex tvö og mælti að Ólafur konungur þurfti þá eigi að kasta.

Hann segir og hristi teningana í hendi sér: «Enn eru sex tvö á teningunum og er guði drottni mínum enn lítið fyrir að láta það upp horfa.»

Hann kastaði og horfðu upp sex tvö. Þá kastaði Ólafur Svíakonungur og enn tvö sex. Þá kastaði Ólafur Noregskonungur og var sex á öðrum en annar hraut í sundur og voru þar á sjö. Eignaðist hann þá byggðina. Eigi höfum vér heyrt getið fleiri tíðinda á þeim fundi. Skildust konungar sáttir.

95. Frá Ólafi konungi

Eftir þessi tíðindi er nú var frá sagt sneri Ólafur konungur liði sínu aftur í Víkina, fór þá fyrst til Túnsbergs og dvaldist þar litla hríð og fór norður í land og um haustið allt norður í Þrándheim og lét þar búa til veturvistar og sat þar um veturinn.

Þá var Ólafur einvaldskonungur yfir öllu því ríki er haft hafði Haraldur hinn hárfagri og því framar að hann var einn konungur yfir landi. Hann hafði þá fengið með friði og sætt þann hluta lands er áður hafði haft Ólafur Svíakonungur. En þann hluta lands er Danakonungur hafði haft tók hann með valdi og réð fyrir þeim hluta slíkt sem annars staðar í landi.

Knútur Danakonungur réð í þann tíma bæði fyrir Englandi og Danmörk og sat hann sjálfur lengstum á Englandi en setti höfðingja til landstjórnar í Danmörk og veitti hann ekki tilkall í Noreg í þann tíma.

96. Jarlasaga

Svo er sagt að á dögum Haralds hins hárfagra Noregskonungs byggðust Orkneyjar en áður var þar víkingabæli. Sigurður hét hinn fyrsti jarl í Orkneyjum, hann var sonur Eysteins glumru og bróðir Rögnvalds Mærajarls, en eftir Sigurð Guttormur sonur hans einn vetur. Eftir hann tók jarldóm Torf-Einar sonur Rögnvalds jarls og var lengi jarl og ríkur maður.

Hálfdan háleggur sonur Haralds hárfagra fór á hendur Torf-Einari og rak hann á brott úr Orkneyjum. Einar kom þá aftur og drap Hálfdan í Rínansey. Eftir það fór Haraldur konungur með her í Orkneyjar. Einar flýði þá upp á Skotland. Haraldur konungur lét Orkneyinga sverja sér öll óðul sín. Eftir það sættust þeir konungur og jarl og gerðist jarl hans maður og tók lönd í lén af konungi og skyldi enga gjalda skatta af því að þar var herskátt mjög. Jarl galt konungi sex tigu marka gulls. Þá herjaði Haraldur konungur á Skotland svo sem getið er í Glymdrápu.

Eftir Torf-Einar réðu fyrir löndum synir hans: Arnkell, Erlendur, Þorfinnur hausakljúfur. Á þeirra dögum kom af Noregi Eiríkur blóðöx og voru þá jarlar honum lýðskyldir. Arnkell og Erlendur féllu í hernaði en Þorfinnur réð löndum og varð gamall. Synir hans voru Arnfinnur, Hávarður, Hlöðvir, Ljótur, Skúli. Móðir þeirra var Grélöð dóttir Dungaðar jarls af Katanesi. Móðir hennar var Gróa dóttir Þorsteins rauðs.

Á dögum Þorfinns jarls ofarlega komu af Noregi synir Blóðöxar þá er þeir höfðu flúið fyrir Hákoni jarli. Var þá í Orkneyjum mikill yfirgangur þeirra. Þorfinnur jarl varð sóttdauður. Eftir hann réðu löndum synir hans og eru miklar frásagnir frá þeim. Hlöðvir lifði þeirra lengst og réð þá einn löndum. Sonur hans var Sigurður digri er jarldóm tók eftir hann. Hann var ríkur og hermaður mikill. Á hans dögum fór Ólafur Tryggvason úr vesturvíking með liði sínu og lagði til Orkneyja og tók höndum Sigurð jarl í Rögnvaldsey. Hann lá þar fyrir einskipa. Ólafur konungur bauð þá fjörlausn jarli að hann skyldi taka skírn og trú rétta og gerast hans maður og bjóða kristni um allar Orkneyjar. Ólafur konungur tók í gísling son hans er hét Hundi eða Hvelpur. Þaðan fór Ólafur til Noregs og varð þar konungur. Hundi var með Ólafi konungi nokkura vetur og andaðist hann þar en síðan veitti Sigurður jarl enga lýðskyldu Ólafi konungi. Hann gekk þá að eiga dóttur Melkólms Skotakonungs og var þeirra son Þorfinnur. Enn voru synir Sigurðar jarls hinir eldri: Sumarliði, Brúsi, Einar rangmunnur.

Fimm vetrum eða fjórum eftir fall Ólafs Tryggvasonar fór Sigurður jarl til Írlands en hann setti sonu sína hina eldri að ráða löndum. Þorfinn sendi hann til Skotakonungs móðurföður síns. Í þeirri ferð féll Sigurður jarl í Brjánsorustu. En er það spurðist til Orkneyja þá voru þeir bræður til jarla teknir, Sumarliði, Brúsi, Einar, og skiptu löndum í þriðjunga með sér.

Þorfinnur Sigurðarson var þá fimm vetra er Sigurður jarl féll. En er fall hans spurðist til Skotakonungs þá gaf konungur Þorfinni frænda sínum Katanes og Suðurland og jarlsnafn með og fékk menn til að stýra ríkinu með honum. Þorfinnur jarl var þegar í uppvexti bráðger að öllum þroska. Hann var mikill og sterkur, ljótur maður. Og þegar er honum óx aldur var það auðsýnt að hann var ágjarn maður, harður og grimmur og forvitri. Þess getur Arnór jarlaskáld:

Gör lést grund að verja
geðfrækn og til sækja,
æri Einars hlýra,
engr maðr und skýranni.

97. Frá Einari jarli og Brúsa jarli

Þeir bræður Einar og Brúsi voru ólíkir á skaplyndi. Brúsi var hógvær og samsmaður mikill, vitur og málsnjallur og vinsæll. Einar var stirðlyndur, fálátur og óþýður, ágjarn og fégjarn og hermaður mikill.

Sumarliði var líkur Brúsa í skaplyndi og var hann elstur og lifði skemmst þeirra bræðra. Hann varð sóttdauður. Eftir andlát hans taldi Þorfinnur til síns hluta í Orkneyjum. Einar svarar því að Þorfinnur hefði Katanes og Suðurland, það ríki er áður hafði átt Sigurður jarl faðir þeirra og taldi hann það miklu meira en þriðjung Orkneyja og vildi hann eigi unna Þorfinni skiptis. En Brúsi lét uppi skipti fyrir sína hönd «og vil eg,» segir hann, «ekki ágirnast að hafa meira af löndum en þann þriðjung er eg á að frjálsu.»

Þá tók Einar undir sig tvo hluti eyja. Gerðist hann þá ríkur maður og fjölmennur, var oft á sumrum í hernaði og hafði útboð mikil í landinu en allmisjafnt varð til fengjar í víkingunni. Þá tók bóndum að leiðast það starf en jarl hélt fram með freku öllum álögum og lét engum manni hlýða í móti að mæla. Einar jarl var hinn mesti ofstopamaður. Þá gerðist í hans ríki hallæri af starfi og fékostnaði þeim er bændur höfðu. En í þeim hluta lands er Brúsi hafði var ár mikið og hóglífi bóndum. Var hann vinsæll.

98. Frá Orkneyingajörlum

Maður hét Ámundi, ríkur og auðigur. Hann bjó í Hrossey í Sandvík á Hlaupandanesi. Þorkell hét sonur hans og var hann allra manna gervilegastur í Orkneyjum. Ámundi var hinn vitrasti maður og einna manna mest virður í eyjunum.

Það var eitt vor að Einar jarl hafði þá útboð enn sem hann var vanur en bændur kurruðu illa og báru fyrir Ámunda og báðu hann mæla þeim nokkura forstoð við jarl.

Hann svarar: «Jarl er óáhlýðinn,» og telur ekki stoða munu að biðja jarl né einnar bænar um þetta. «Er vinátta vor jarls og góð að svo búnu en mér þykir við voða búið ef vér verðum rangsáttir, við skaplyndi hvorratveggju. Mun eg mér,» segir Ámundi, «engu af skipta.»

Þá ræddu þeir þetta við Þorkel. Hann var trauður til og hét þó um síðir við áeggjan manna. Ámunda þótti hann of brátt heitið hafa. En er jarl átti þing þá mælti Þorkell af hendi bónda og bað jarl vægja mönnum um álögur og taldi upp nauðsyn manna.

En jarl svarar vel og segir að hann skyldi mikils virða orð Þorkels: «Eg hafði nú ætlað sex skip úr landi að hafa en nú skal eigi meir hafa en þrjú. En þú, Þorkell, bið eigi oftar slíkrar bænar.»

Bændur þökkuðu vel Þorkatli liðveislu sína. Fór jarl í víking og kom aftur að hausti.

En eftir um vorið hafði jarl sömu boð sem hann var vanur og átti þing við bændur. Þá talaði Þorkell enn og bað jarl vægja bóndum. Jarl svarar þá reiðulega og segir að hlutur bónda skyldi þá versna við hans umræðu. Gerði hann sig þá svo reiðan og óðan að hann mælti að þeir skyldu eigi annað vor báðir heilir á þinginu og sleit síðan því þingi.

En er Ámundi var vís hvað þeir Þorkell og jarl höfðu við mælst þá bað hann Þorkel á brott fara og fór hann yfir á Katanes til Þorfinns jarls. Þorkell var þar lengi síðan og elskaði að jarli er hann var ungur og var hann síðan kallaður Þorkell fóstri og var hann ágætur maður.

Fleiri voru þeir ríkismenn er flýðu úr Orkneyjum óðul sín fyrir ríki Einars jarls. Flýðu flestir yfir á Katanes til Þorfinns jarls en sumir flýðu úr Orkneyjum til Noregs en sumir til ýmissa landa.

En er Þorfinnur jarl rosknaðist þá gerði hann boð til Einars jarls bróður síns og beiddi af honum ríkis þess er hann þóttist eiga í Orkneyjum en það var þriðjungur eyja. Einar tók því óbrátt að minnka ríki sitt. En er Þorfinnur spurði það þá býr hann lið út af Katanesi og fer út í eyjar.

En er Einar jarl varð þess vís safnar hann liði og ætlar að verja löndin. Brúsi jarl safnar og liði og fer til móts við þá og ber sættarorð í milli þeirra. Var það að sætt með þeim að Þorfinnur skyldi hafa þriðjung landa í Orkneyjum svo sem hann átti að réttu. En Brúsi og Einar lögðu saman sinn hluta. Skyldi Einar hafa einn forræði fyrir þeim en ef misdauði þeirra yrði þá skyldi sá þeirra lönd taka eftir annan er lengur lifði. En sá máldagi þótti þá ekki jafnlegur því að Brúsi átti son er Rögnvaldur hét en Einar var sonlaus. Setti þá Þorfinnur jarl sína menn til að varðveita ríki það er hann átti í Orkneyjum en hann var oftast á Katanesi. Einar jarl var oftast á sumrum í hernaði um Írland og Skotland og Bretland.

Það var eitt sumar er Einar jarl herjaði á Írland að hann barðist í Úlfreksfirði við Konofogor Írakonung svo sem fyrr var ritað að Einar jarl fékk þar ósigur mikinn og mannlát.

Annað sumar eftir fór Eyvindur úrarhorn vestan af Írlandi og ætlaði til Noregs en er veður var hvasst og straumar ófærir snýr Eyvindur þá til Ásmundarvogs og lá þar nokkura hríð veðurfastur.

En er það spurði Einar jarl þá hélt hann þangað liði miklu, tók þar Eyvind og lét drepa en gaf grið flestum mönnum hans og fóru þeir austur til Noregs um haustið og komu á fund Ólafs konungs og sögðu honum frá aftöku Eyvindar.

Konungur svarar fá um og fannst það á að honum þótti það mannskaði mikill og mjög gert í þrá sér og um flest var hann fámæltur það er honum þótti sér í móti skapi.

Þorfinnur jarl sendi Þorkel fóstra út í eyjar að heimta saman skatta sína. Einar jarl kenndi Þorkatli mjög uppreist þá er Þorfinnur hafði haft tilkall út í eyjar.

Fór Þorkell skyndilega úr eyjunum og yfir á Katanes. Hann segir Þorfinni jarli að hann var þess vís orðinn að Einar jarl ætlaði honum dauða ef eigi hefðu frændur hans og vinir honum njósn borið. «Nú mun eg,» segir hann, «þann eiga á baugi að láta þann verða fund okkarn jarls er um skipti með oss en þann kost annan að fara lengra á brott og þannug er ekki sé hans vald yfir.»

Jarl fýsti þess að Þorkell skyldi fara austur til Noregs á fund Ólafs konungs. «Muntu,» segir hann, «mikils metinn hvar sem kemur með tignum mönnum en eg veit beggja ykkar skaplyndi, þitt og jarls, að þið munuð skamma stund mundast til.»

Þá bjóst Þorkell og fór um haustið til Noregs og síðan á fund Ólafs konungs og var þar um veturinn með konungi í kærleikum miklum. Hafði hann Þorkel mjög við mál sín. Þótti honum sem var að Þorkell var vitur maður, skörungur mikill. Fannst konungi það í ræðum hans að hann misjafnaði mjög frásögu um jarlana og var vinur mikill Þorfinns en lagði þungt til Einars jarls.

Og snemmendis um vorið sendir konungur skip vestur um haf á fund Þorfinns jarls og orðsending að jarl skyldi koma austur á konungsfund. En jarl lagðist eigi þá ferð undir höfuð því að vináttumál fylgdu orðsending.

99. Dráp Einars jarls

Þorfinnur jarl fór austur til Noregs og kom á fund Ólafs konungs og fékk þar góðar viðtökur og dvaldist þar lengi um sumarið. En er hann bjóst vestur gaf Ólafur konungur honum langskip mikið og gott með öllum reiða. Þorkell fóstri réðst þá til ferðar með jarli og gaf jarl honum það skip er hann hafði vestan haft um sumarið. Skildust þeir konungur og jarl með kærleikum miklum.

Þorfinnur jarl kom um haustið til Orkneyja. En er Einar jarl spurði það þá hafði hann fjölmennt og lá á skipum. Brúsi jarl fór þá til fundar við þá báða bræður og bar sætt milli þeirra. Kom enn svo að þeir sættust og bundu það eiðum. Þorkell fóstri skyldi vera í sætt og vináttu við Einar jarl og var það mælt að hvor þeirra skyldi veita öðrum veislu og skyldi jarl fyrri sækja til Þorkels í Sandvík.

En er jarl var þar á veislu þá var veitt hið kappsamlegsta. Var jarl ekki kátur. Þar var mikill skáli og dyr á báðum endum.

Þann dag er jarl skyldi á brott fara þá skyldi Þorkell fara með honum til veislu. Þorkell sendi menn á njósn fram á leiðina er þeir skyldu fara um daginn. En er njósnarmenn komu aftur þá segja þeir Þorkatli að þeir fundu þrennar sátir og vopnaða menn «og hyggjum vér,» segja þeir, «að svik muni vera.»

En er Þorkell spurði þetta þá frestaði hann búnaðinum og heimti menn sína að sér. Jarl bað hann búast og segir að mál var að ríða. Þorkell segir að hann átti mart að annast. Hann gekk stundum út en stundum inn. Eldar voru á gólfinu. Þá gekk hann inn um aðrar dyr og eftir honum maður er nefndur er Hallvarður. Hann var íslenskur maður og austfirskur. Hann lauk aftur hurðunni. Þorkell gekk innar milli eldsins og þess er jarl sat.

Jarl spurði: «Ertu eigi enn búinn?»

Þorkell svarar: «Nú em eg búinn.»

Þá hjó hann til jarls og í höfuðið. Jarl steyptist á gólfið.

Þá mælti Íslendingur: «Hér sá eg alla versta fangaráðs er þér dragið eigi jarl af eldinum.»

Hann keyrði til spörðu og setti undir hnakkabein jarli og kippti honum upp að pallinum. Þorkell og þeir báðir förunautar gengu út skyndilega aðrar dyr en þeir höfðu inn gengið. Stóðu þar úti menn Þorkels með alvæpni.

En jarlsmenn tóku til hans og var hann þá dauður en öllum féllust hendur til hefndarinnar. Var það og að bráðum bar að og varði engan mann þessa verks af Þorkatli því að þeir hugðu allir að svo mundi vera sem áður var mælt að vinátta væri með jarli og Þorkatli. Voru menn og flestir vopnlausir inni en margir áður vinir Þorkels góðir. Bar það til með auðnu þeirri er Þorkatli var auðið lengra lífs. Þorkell hafði þá lið er hann kom út, engu minna en jarlsmenn. Fór Þorkell þá til skips síns en jarlsmenn í brott.

Þorkell sigldi þann dag þegar í brott og austur í haf og var það eftir veturnætur og kom hann með heilu til Noregs og fór þegar sem skyndilegast á fund Ólafs konungs og fékk þar góðar viðtökur. Lét konungur yfir verki þessu vel. Var Þorkell með honum um veturinn.

100. Sætt Ólafs konungs og Brúsa jarls

Eftir fall Einars jarls tók Brúsi jarl þann hlut landa er áður hafði haft Einar jarl því að það var á margra manna vitorði með hverjum skildaga þeir Einar og Brúsi bræður höfðu félag sitt gert. En Þorfinni þótti það réttast að hálfar eyjar hefði hvor þeirra en þó hafði Brúsi þann vetur tvo hluti landa.

Eftir um vorið kallaði Þorfinnur til þeirra landa við Brúsa að hann vildi hafa helming við Brúsa en Brúsi galt eigi jákvæði til þess. Áttu þeir þing og stefnur að þeim málum. Gengu þá vinir þeirra að semja þetta mál og kom svo að Þorfinnur lét sér ekki líka annað en hafa helming eyja og segir það með að Brúsi þurfti eigi að hafa meir en þriðjung með því skaplyndi sem hann hafði.

Brúsi segir: «Eg undi því,» segir hann, «að hafa þriðjung landa, þann er eg tók í arf eftir föður minn. Kallaði og engi til þess í hönd mér. En nú hefi eg tekið annan þriðjung í arf eftir bróður minn að réttum máldögum. En þó að eg sé vanfær til að deila kappi við þig bróðir þá mun eg þó annars í leita en játa undan mér ríkið að svo búnu.»

Þeir skildu svo málstefnu þessa. En er Brúsi sá að hann mundi eigi hafa afla til að standa jafnfætis við Þorfinn, því að Þorfinnur hafði ríki miklu meira og traust af Skotakonungi móðurföður sínum, þá réð Brúsi það af að fara úr landi austur á fund Ólafs konungs og hafði með sér Rögnvald son sinn. Var hann þá tíu vetra gamall.

En er jarl hitti konung þá tók hann vel við honum. En er jarl bar upp erindi sín og segir konungi allan málavöxt þann er var með þeim bræðrum og bað konung veita sér styrk til að halda ríki sínu, bauð þar fram í mót fullkomna vináttu sína.

Konungur segir og tók þar fyrst til máls er Haraldur hinn hárfagri hafði eignast óðul öll í Orkneyjum er jarlar höfðu haft jafnan síðan lönd þau að léni en aldregi að eign. «En það til jartegna,» segir hann, «að þá er Eiríkur blóðöx og synir hans voru í Orkneyjum voru jarlar þeim lýðskyldir. En er Ólafur Tryggvason frændi minn kom þar þá gerðist Sigurður jarl faðir þinn hans maður. Nú hefi eg tekið arf allan eftir Ólaf konung. Vil eg gera þér þann kost að þú gerist minn maður. Mun eg þá fá eyjarnar þér í lén. Skulum við þá freista ef eg veiti þér minn styrk hvort betur skal að haldi koma eða Þorfinni bróður þínum traust Skotakonungs. En ef þú vilt eigi þenna kost þá mun eg eftir leita þeim eignum og óðulum er vorir frændur og foreldrar hafa átt vestur þannug.»

Þessar ræður hugfesti jarl fyrir sér og bar fyrir vini sína, leitaði ráðs við þá hverju hann skyldi játa, hvort hann skyldi að þessu sættast við Ólaf konung og gerast hans maður. «En hitt er mér ósýnna hver minn hluti verður að skilnaði vorum ef eg kveð nei við því að konungur hefir bert gert það tilkall er hann hefir til Orkneyja en við stórræði hans og það er vér erum hér komnir þá mun honum lítið fyrir að gera það af vorum kosti sem honum sýnist.»

En þó að jarli þætti á hvorutveggju annmarkar þá tók hann þann kost að leggja allt á vald konungs, bæði sig og ríki sitt. Tók þá Ólafur konungur af jarli vald og forráð yfir öllum erfðalöndum jarls. Gerðist jarl þá hans maður og batt það svardögum.

101. Sætt jarla og Ólafs konungs

Þorfinnur jarl spurði það að Brúsi bróðir hans var farinn austur á fund Ólafs konungs að sækja traust af honum. En fyrir því að Þorfinnur hafði verið fyrr á fund Ólafs konungs og komið sér þar í vináttu þá þóttist hann þar eiga vel fyrir búið og vissi að þar mundu margir flutningamenn um hans mál en þó vænti hann að fleiri mundu vera ef hann kæmi sjálfur til. Gerir Þorfinnur jarl það ráð að hann bjóst sem skyndilegast og fór austur til Noregs og ætlaði að sem minnstur skyldi verða misfari þeirra Brúsa og ekki skyldi hans erindi til loka komast áður en Þorfinnur hitti konung. En það var annan veg en jarl hafði ætlað því að þá er Þorfinnur jarl kom á fund Ólafs konungs var lokið og gert allt um sáttmál konungs og Brúsa jarls. Vissi og eigi Þorfinnur jarl að Brúsi hefði upp gefið sitt ríki fyrr en hann var kominn til Ólafs konungs.

Og þegar er þeir hittust, Þorfinnur jarl og Ólafur konungur, þá hóf Ólafur konungur upp sama ákall til ríkis í Orkneyjum sem hann hafði haft við Brúsa jarl og beiddi Þorfinn þess hins sama að hann skyldi játa konungi þeim hluta landa er hann átti áður.

Jarl svarar vel orðum konungs og stillilega og segir svo að honum þótti miklu máli skipta um vingan konungs. «Og ef þér herra þykist þurfa liðveislu mína í mót öðrum höfðingjum þá hafið þér áður fullt til þess unnið en mér er eigi hent að veita yður handgöngu því að eg em áður jarl Skotakonungs og honum lýðskyldur.»

En er konungur fann undandrátt í svörum jarls um þá málaleitan er hann hafði áður upp hafið þá mælti konungur: «Ef þú, jarl, vilt ekki gerast minn maður þá er hinn kostur að eg setji þann mann yfir Orkneyjar er eg vil. En eg vil að þú veitir þá svardaga að kalla ekki til landa þeirra og láta þá í friði vera af þér er eg set yfir löndin. En ef þú vilt hvorngan þenna kost þá mun svo þykja þeim er löndum ræður sem ófriðar muni af þér von vera. Má þér þá eigi undarlegt þykja þótt dalur mæti hóli.»

Jarl svarar og bað hann gefa sér frest að hugsa þetta mál. Konungur gerði svo, gaf jarli stund að ráða um þetta kör við menn sína. Þá beiddi jarl þess að konungur skyldi ljá honum fresta til annars sumars og færi hann fyrst vestur um haf því að heima var ráðuneyti hans en hann var bernskumaður fyrir aldurs sakir. Konungur bað hann þá kjósa.

Þorkell fóstri var þá með Ólafi konungi. Hann sendi mann til Þorfinns jarls leynilega og bað hann eigi það fyrir ætlast, hvatki er honum var í hug, að skiljast svo að sinni við Ólaf konung að þeir væru eigi sáttir svo sem hann var þá kominn í hendur konungi. Af þvílíkum minningum þóttist jarl sjá að einbeygður mundi kostur að láta konung þá fyrir ráða, þótti hinn eigi kostlegur að eiga enga von sjálfur til ættleifðar sinnar en veita til þess svardaga að þeir hefðu í ró ríki það er þar voru ekki til bornir. En fyrir því að honum þótti ósýnt um brottferð sína þá kaus hann það af að ganga til handa konungi og gerast hans maður svo sem Brúsi hafði gert.

Konungur fann það að Þorfinnur var miklu skapstærri en Brúsi og kunni verr pynding þessi. Trúði konungur Þorfinni verr en Brúsa. Sá konungur það að Þorfinnur mundi þykjast styrks eiga von af Skotakonungi þótt hann brygðist í þessu sáttmáli. Skildi konungur það af visku sinni að Brúsi gekk treglega að öllu sáttmáli en mælti það eina um er hann ætlaði sér að halda. En þar er Þorfinnur var, þá er hann hafði ráðið hvern hann vildi upp taka, þá gekk hann glatt að öllum skildaga og dró um það engan hlut sem konungur veitti hin fyrstu ákvæði en það grunaði konung að jarl mundi gera eftir sumar sættir.

102. Burtferð Þorfinns jarls

Þá er Ólafur konungur hafði hugsað fyrir sér allt þetta mál lét hann blása til fjölmennrar stefnu, lét þangað kalla jarla.

Þá mælti konungur: «Sáttmál vor Orkneyingajarla vil eg nú birta fyrir alþýðu. Þeir hafa nú játað mínu eiginorði yfir Orkneyjum og Hjaltlandi og gerst báðir mínir menn og bundið það allt svardögum og vil eg nú gefa þeim það í lén, Brúsa þriðjung landa, Þorfinni annan þriðjung, svo sem þeir höfðu fyrr átt. En þann þriðjung er átti Einar rangmunnur, þann lét eg fallið hafa í minn garð fyrir það er hann drap Eyvind úrarhorn hirðmann minn og félagsmann og kæran vin. Vil eg sjá fyrir þeim hluta landa það er mér sýnist. Það vil eg og til skilja við ykkur jarla mína að eg vil að þið takið sættir af Þorkatli Ámundasyni fyrir aftöku Einars bróður ykkars. Vil eg að sá dómur sé undir mér ef þið viljið því játað hafa.»

En það var sem annað að jarlar játtu því öllu er konungur mælti. Gekk þá Þorkell fram og festi konungsdóm á þessu máli og sleit svo þessu þingi.

Ólafur konungur dæmdi bætur fyrir Einar jarl slíkar sem fyrir þrjá lenda menn en fyrir sakir skyldi niður falla þriðjungur gjalda. Þorfinnur jarl bað þá konung sér brautfararleyfis en þegar er það fékkst bjóst jarl sem ákaflegast.

En er hann var albúinn var það einn dag er jarl drakk á skipi að þar kom fyrir hann Þorkell Ámundason voveiflega og lagði höfuð sitt í kné jarli og bað hann þá gera af slíkt er hann vildi.

Jarl spurði fyrir hví hann færi svo: «Vér erum áður menn sáttir að konungsdómi og statt þú upp Þorkell.»

Hann gerði svo.

Þorkell mælti: «Sætt þeirri er konungur gerði mun eg hlíta um mál vor Brúsa en það er til þín kemur af skaltu einn ráða. Þótt konungur hafi mér skilið eignir eða landsvist í Orkneyjum þá kann eg skaplyndi þitt að mér er ófært í eyjar nema eg fari í trúnaði yðrum jarl. Vil eg það,» segir hann, «festa yður að koma aldrei í Orkneyjar hvað sem konungur mælir um það.»

Jarl þagnaði og tók seint til máls. Hann mælti: «Viltu heldur Þorkell að eg dæmi um okkur mál heldur en hlíta konungsdómi þá mun eg hafa það upphaf að sætt okkarri að þú skalt með mér fara í Orkneyjar og vera með mér og skiljast eigi við mig nema mitt lof eða leyfi sé til, vera skyldur að verja land mitt og allra verka þeirra er eg vil gera láta meðan við erum báðir á lífi.»

Þorkell segir: «Það skal á yðru valdi jarl sem allt annað það er eg má ráða.»

Gekk þá Þorkell til og festi jarli þetta allt sem hann kvað á. Jarl segir að um fégjöld mundi hann síðar ákveða en hann tók þá svardaga af Þorkatli. Snerist Þorkell þá þegar til ferðar með jarli. Fór jarl þegar á brott er hann var búinn og sáust þeir Ólafur konungur aldrei síðan.

Brúsi jarl dvaldist þar eftir og bjóst meir í tómi. En áður hann færi í brott þá átti Ólafur konungur stefnur við hann og mælti svo: «Það líst mér jarl að eg muni hafa þig að trúnaðarmanni þar fyrir vestan hafið. Ætla eg svo að þú skulir hafa tvo hluti landa til forráða, þá sem þú hefir áður haft. Vil eg að þú sért eigi minni maður eða óríkari, er þú ert mér handgenginn, en áður varstu. En eg vil festa trúnað þinn með því að eg vil að hér sé eftir með mér Rögnvaldur sonur þinn. Sé eg þá er þú hefir mitt traust og tvo hluti landa að þú mátt vel halda þínu að réttu fyrir Þorfinni bróður þínum.»

Brúsi tók það með þökkum að hafa tvo hluti landa. Dvaldist Brúsi síðan litla hríð áður hann fór í brott og kom um haustið vestur til Orkneyja.

Rögnvaldur sonur Brúsa var austur eftir með Ólafi konungi. Hann var allra manna fríðastur, hárið mikið og gult sem silki. Hann var snemma mikill og sterkur. Manna var hann gervilegastur bæði fyrir vits sakir og kurteisi. Hann var lengi síðan með Ólafi konungi.

Þessa getur Óttar svarti í drápu þeirri er hann orti um Ólaf konung:

Gegn, eru þér að þegnum,
þjóðskjöldunga góðra
haldið hæft á veldi,
Hjaltlendingar kenndir.
Engi varð á jörðu
ógnbráðr, áðr þér náðum,
austr, sá er eyjum vestan,
ynglingr, und sig þryngvi.

103. Frá Brúsa og Þorfinni jarli

Þá er þeir bræður komu vestur til Orkneyja, Þorfinnur og Brúsi, þá tók Brúsi tvo hluti landa til forráða en Þorfinnur þriðjung. Hann var jafnan á Katanesi og á Skotlandi en setti menn sína yfir eyjar. Hafði Brúsi þá einn landvörn fyrir eyjunum en í þann tíma var þar herskátt því að Norðmenn og Danir herjuðu mjög í vesturvíking og komu oft við Orkneyjar þá er þeir fóru vestur eða vestan og námu nesnám.

Brúsi taldi að því við Þorfinn bróður sinn er hann hafði engar útgerðir fyrir Orkneyjum eða Hjaltlandi en hafði skatta og skyldir allt að sínum hluta. Þá bauð Þorfinnur honum þann kost að Brúsi skyldi hafa þriðjung landa en Þorfinnur tvo hluti og hafa einn landvörn fyrir beggja þeirra hönd. En þó að þetta skipti yrði eigi þá bráðfengis þá er þó það sagt í Jarlasögunum að þetta skipti færi fram, að Þorfinnur hefði tvo hluti en Brúsi þriðjung, þá er Knútur hinn ríki hafði lagt undir sig Noreg en Ólafur konungur var úr landi farinn.

Þorfinnur jarl Sigurðarson hefir verið göfgastur jarl í Eyjum og haft mest ríki Orkneyingajarla. Hann eignaðist Hjaltland og Orkneyjar, Suðureyjar, hann hafði og mikið ríki á Skotlandi og Írlandi.

Á það kvað Arnór jarlaskáld:

Hringstríði varð hlýða
her frá Þursaskerjum,
rétt segi eg þjóð hver þótti
Þorfinns, til Dyflinnar.

Þorfinnur var hinn mesti hermaður. Hann tók jarldóm fimm vetra gamall og réð meir en sex tigu vetra og varð sóttdauður á ofanverðum dögum Haralds Sigurðarsonar. En Brúsi andaðist á dögum Knúts hins ríka litlu eftir fall Ólafs konungs hins helga.

104. Frá Háreki úr Þjóttu

Nú fer tvennum sögum fram og skal þar nú til taka sem frá var horfið er frá því var sagt er Ólafur Haraldsson hafði frið gert við Ólaf Svíakonung og það að Ólafur konungur fór það sumar norður til Þrándheims. Hann hafði þá verið konungur fimm vetur.

Það haust bjó hann til vetursetu í Niðarósi og sat þar um veturinn. Þann vetur var með Ólafi konungi Þorkell fóstri Ámundason sem fyrr var ritað. Ólafur konungur leiddi þá mjög að spurningum um kristnihald hvert þá væri í landinu og spurðist honum svo til sem ekki væri kristnihaldið þegar er norður sótti á Hálogaland en þó skorti mikið á að vel væri um Naumudal og inn um Þrándheim.

Maður er nefndur Hárekur sonur Eyvindar skáldaspillis. Hann bjó í ey þeirri er Þjótta heitir. Það er á Hálogalandi. Eyvindur hafði maður verið ekki stórauðigur, ættstór og skörungur mikill. Í Þjóttu bjuggu þá smáir bændur og eigi allfáir. Hárekur keypti þar einn bæ fyrst og eigi allmikinn og fór þar búðum til. En á fám misserum hafði hann rutt í brott öllum bóndum þeim er þar bjuggu áður svo að hann átti þá einn alla eyna og gerði þar þá höfuðbæ mikinn. Hárekur varð brátt vellauðigur. Hann var spekingur mikill að viti og framkvæmdarmaður. Hann hafði lengi haft af höfðingjum metnað mikinn. Hann var í frændsemistölu við Noregskonunga. Af þeim sökum hafði Hárekur haft mikil metorð af landshöfðingjum. Gunnhildur föðurmóðir Háreks var dóttir Hálfdanar jarls og Ingibjargar dóttur Haralds hins hárfagra.

Hárekur var þá heldur á efra aldri þá er þetta er tíðinda. Hárekur var mestur virðingamaður á Hálogalandi. Hann hafði þá langa hríð Finnkaup og konungssýslu á Mörkinni. Hafði hann stundum einn haft en stundum höfðu aðrir suma með honum. Ekki hafði hann komið á fund Ólafs konungs en þó höfðu farið orð og sendimenn millum þeirra og var það allt vingjarnlegt og þann vetur er Ólafur konungur sat í Niðarósi fóru enn menn milli þeirra Háreks úr Þjóttu. Þá lýsti konungur yfir því að um sumarið eftir ætlaði hann sér að fara norður á Hálogaland og allt norður til landsenda en þeir Háleygirnir hugðu allmisjafnt til þeirrar ferðar.

105. Frá Háleygjum

Ólafur konungur bjóst nú um vorið með fimm skipum og hafði nær þremur hundruðum manna. En er hann var búinn þá byrjar hann ferð sína norður með landi og er hann kom í Naumdælafylki stefndi hann þing við bændur. Var hann þá til konungs tekinn á hverju þingi. Hann lét þá og þar sem annars staðar lög þau upp lesa sem hann bauð mönnum þar í landi kristni að halda og lagði við líf og limar eða aleigusök hverjum manni er eigi vildi undirganga kristin lög. Veitti konungur þar mörgum mönnum stórar refsingar og lét það ganga jafnt yfir ríka sem óríka. Skildist hann svo við í hverju héraði að allt fólk játti að halda helga trú. En flestir ríkismenn og margir stórbændur gerðu veislur í mót konungi. Fór hann svo norður allt á Hálogaland.

Hárekur í Þjóttu veitti konungi veislu og var þar allmikið fjölmenni og veisla hin prýðilegsta. Gerðist Hárekur þá lendur maður Ólafs konungs. Fékk konungur honum þá veislur svo sem hann hafði haft af hinum fyrrum landshöfðingjum.

106. Frá Ásmundi Grankelssyni

Maður er nefndur Grankell eða Granketill, auðigur búandi og var þá heldur við aldur. En þá er hann var á unga aldri hafði hann í víkingu verið og þá hermaður mikill. Hann var atgervimaður mikill um flesta hluti þá er íþróttum gegndi. Ásmundur hét sonur hans og var hann um alla hluti líkur föður sínum eða nokkuru framar. Það var margra manna mál að fyrir sakir fríðleiks, afls og íþrótta að hann hafi verið hinn þriðji maður best að sér búinn í Noregi en fyrst hafa til verið nefndir Hákon Aðalsteinsfóstri og Ólafur Tryggvason.

Grankell bauð Ólafi konungi til veislu og var þar veisla allkappsamleg. Leiddi Grankell hann stórum vingjöfum í brott. Konungur bauð Ásmundi að fara með sér og lagði til þess mörg orð en Ásmundur þóttist eigi kunna að drepa hendi við veg sínum og réðst hann til ferðar með konungi og gerðist síðan hans maður og kom í hina mestu kærleika við konung.

Ólafur konungur dvaldist mestan hluta sumars á Hálogalandi og fór í allar þinghár og kristnaði þar allan lýð. Þá bjó í Bjarkey Þórir hundur. Hann var ríkastur maður norður þar. Hann gerðist þá lendur maður Ólafs konungs. Margir ríkir bóndasynir réðust þá til ferðar við Ólaf konung.

Þá er á leið sumarið kom konungur norðan og sneri þá inn eftir Þrándheimi til Niðaróss og sat þar eftir um veturinn. Og þann vetur kom Þorkell fóstri vestan úr Orkneyjum þá er hann hafði drepið Einar jarl rangmunn.

Það haust var í Þrándheimi hallæri á korni en áður hafði lengi verið góð árferð en hallæri var allt norður í land og því meira er norðar var en korn var gott austur í land og svo um Upplönd. En þess naut við í Þrándheimi að menn áttu þar mikil forn korn.

107. Frá blótum Þrænda

Það haust voru sögð Ólafi konungi þau tíðindi innan úr Þrándheimi að bændur hefðu þar haft veislur fjölmennar að veturnóttum. Voru þar drykkjur miklar. Var konungi svo sagt að þar væru minni öll signuð ásum að fornum sið. Það fylgdi og þeirri sögn að þar væri drepið naut og hross og roðnir stallar af blóði og framið blót og veittur sá formáli að það skyldi vera til árbótar. Það fylgdi því að öllum mönnum þótti það auðsýnt að goðin höfðu reiðst því er Háleygir höfðu horfið til kristni.

En er konungur spurði þessi tíðindi þá sendi hann menn inn í Þrándheim og stefndi til sín bóndum þeim er hann réð til nefna.

Maður er nefndur Ölvir á Eggju. Hann var kenndur við bæ þann er hann bjó á. Hann var ríkur maður og ættstór. Hann var höfuðsmaður ferðar þessar af hendi bónda til konungs. Og er þeir koma á konungsfund þá bar konungur á hendur bóndum þessi kennsl.

En Ölvir svarar af hendi bónda og segir að þeir hefðu engar veislur haft það haust nema gildi sín eða hvirfingsdrykkjur en sumir vinaboð. «En það,» segir hann, «er yður er sagt frá orðtökum vorum Þrændanna þá er vér drekkum þá kunnu allir vitrir menn að varast slíkar ræður en eigi kann eg að synja fyrir heimska menn og ölóða hvað þeir mæla.»

Ölvir var maður málsnjallur og máldjarfur. Varði hann allar þessar ræður við bændur. En að lyktum segir konungur að Innþrændir mundu sér sjálfir bera vitni hvernug þeir eru trúaðir. Fengu bændur þá leyfi til heimfarar. Fóru þeir og þegar er þeir voru búnir.

108. Frá blótum Innþrænda

Síðar um veturinn var konungi sagt að Innþrændir höfðu fjölmennt á Mærini og voru þar blót stór að miðjum vetri. Blótuðu þeir þá til friðar og vetrarfars góðs.

En er konungur þóttist sannfróður um þetta þá sendir konungur menn og orðsending inn í Þrándheim og stefndi bóndum út til bæjar, nefndi enn til menn þá er honum þóttu vitrastir. Bændur áttu þá tal sitt og ræddu sín í milli um orðsending þessa. Voru þeir allir ófúsastir til ferðarinnar er áður höfðu farið um veturinn en við bæn allra bónda þá réð Ölvir til ferðarinnar.

En er hann kom út til bæjar fór hann brátt á konungsfund og tóku þeir tal. Bar konungur það á hendur bóndum að þeir hefðu haft miðsvetrarblót.

Ölvir svarar og segir að bændur voru ósannir að þeirri sök. «Höfðum vér,» segir hann, «jólaboð og víða í héruðum samdrykkjur. Ætla bændur eigi svo hneppt til jólaveislu sér að eigi verði stór afhlaup og drukku menn það herra lengi síðan. Er á Mærini mikill höfuðstaður og hús stór en byggð mikil umhverfis. Þykir mönnum þar til gleði gott að drekka mörgum saman.»

Konungur svarar fá og var heldur styggur, þóttist vita annað sannara en það er þá var frá borið. Bað konungur bændur aftur fara. «En eg mun,» segir hann, «þó verða vís hins sanna að þér dyljið og gangið eigi í mót. En hversu sem hér til hefir verið þá gerið slíkt eigi oftar.»

Fóru þá bændur heim og sögðu sína ferð og það að konungur var heldur reiður.

109. Dráp Ölvis á Eggju

Ólafur konungur hafði veislu mikla um páska og hafði marga bæjarmenn í boði sínu og svo bændur. En eftir páska lét konungur setja fram skip sín og bera til reiða og árar, lét þilja skipin og tjalda og lét fljóta skipin svo búin við bryggjur. Ólafur konungur sendi menn eftir páska í Veradal.

Maður er nefndur Þóraldi, ármaður konungs. Hann varðveitti konungsbú að Haugi. En konungur sendi honum orð að hann skyldi koma til hans sem skyndilegast. Þóraldi lagðist þá för eigi undir höfuð og fór þegar út til bæjar með sendimönnum.

Konungur kallar hann á einmæli og spurði eftir hvað sannindi væri á því «er mér er sagt frá siðum Innþrænda, hvort svo er að þeir snúast til blóta. Vil eg,» segir konungur, «að þú segir mér sem er og þú veist sannast. Ert þú til þess skyldur því að þú ert minn maður.»

Þóraldi svarar: «Herra það vil eg yður fyrst segja að eg flutti hingað til bæjar sonu mína tvo og konu og lausafé allt það er eg mátti með komast. En ef þú vilt hafa þessa sögu af mér þá skal það vera á yðru valdi. En ef eg segi svo sem er þá muntu sjá fyrir mínu ráði.»

Konungur segir: «Seg þú satt frá því er eg spyr þig en eg skal sjá fyrir ráði þínu svo að þig skal ekki saka.»

«Það er yður satt að segja konungur ef eg skal segja sem er að inn um Þrándheim er nálega allt fólk alheiðið í átrúnaði þótt sumir menn séu þar skírðir. En það er siður þeirra að hafa blót á haust og fagna þá vetri, annað að miðjum vetri en hið þriðja að sumri, þá fagna þeir sumri. Eru að þessu ráði Eynir og Sparbyggjar, Verdælir, Skeynir. Tólf eru þeir er fyrir beitast um blótveislurnar og á nú Ölvir í vor að halda upp veislunni. Er hann nú í starfi miklu á Mærini og þangað eru til flutt öll föng þau er til þarf að hafa veislunnar.»

En er konungur varð hins sanna vís þá lét hann blása saman liði sínu og lét segja mönnum að til skipa skyldi ganga. Konungur nefndi menn til skipstjórnar og svo sveitarhöfðingja eða hvert hvergi sveit skyldi til skips. Var þá búist skjótt. Hafði konungur fimm skip og þrjú hundruð manna og hélt inn eftir firði. Var góður byr og töldu snekkjurnar ekki lengi fyrir vindi en þessa varði engan mann, að konungur mundi svo skjótt koma inn þannug.

Konungur kom um nóttina inn á Mærina. Var þar þegar sleginn mannhringur um hús. Þar var Ölvir höndum tekinn og lét konungur drepa hann og mjög marga menn aðra. En konungur tók upp veislu þá alla og lét flytja til skipa sinna og svo fé það allt, bæði húsbúnað og klæðnað og gripi, er menn höfðu þangað flutt og skipta sem herfangi með mönnum sínum. Konungur lét og veita heimferð að bóndum þeim er honum þóttu mestan hluta hafa að átt þeim ráðum. Voru sumir höndum teknir og járnsettir en sumir komust á hlaupi undan en fyrir mörgum var féið upp tekið.

Konungur stefndi þá þing við bændur. En fyrir því að hann hafði marga ríkismenn höndum tekið og hafði þá í sínu valdi þá réðu það af frændur þeirra og vinir að játa konungi hlýðni og varð engi uppreist í móti konungi ger í það sinn. Sneri hann þar öllu fólki á rétta trú og setti þar kennimenn og lét gera kirkjur og vígja. Konungur lagði Ölvi ógildan en kastaði sinni eigu á fé það allt er hann hafði átt. En um þá menn aðra er honum þótti mest sakbitnir lét hann suma drepa, suma hamla en suma rak hann úr landi en tók fé af sumum. Konungur fór þá aftur út til Niðaróss.

110. Frá Árnasonum

Maður er nefndur Árni Armóðsson. Hann átti Þóru dóttur Þorsteins gálga. Þau voru börn þeirra: Kálfur, Finnur, Þorbergur, Ámundi, Kolbjörn, Arnbjörn, Árni, Ragnhildur. Hana átti Hárekur úr Þjóttu.

Árni var lendur maður, ríkur og ágætur, vinur mikill Ólafs konungs. Þá voru með Ólafi konungi synir hans Kálfur og Finnur, voru þar í miklum metnaði.

Kona sú er átt hafði Ölvir á Eggju var ung og fríð, ættstór og auðig. Þótti sá kostur ágætagóður en forráð hennar hafði þá konungur. Þau Ölvir áttu tvo sonu unga.

Kálfur Árnason beiddist þess af konungi að hann gifti honum konu þá er Ölvir hafði átt og fyrir vináttu sakir veitti konungur honum það og þar með eignir þær allar er Ölvir hafði átt. Gerði konungur hann þá lendan mann, fékk honum þá umboð sitt inn um Þrándheim. Gerðist Kálfur þá höfðingi mikill og var maður forvitri.

111. Ferð Ólafs konungs á Upplönd

Þá hafði Ólafur konungur verið sjö vetur í Noregi. Það sumar komu til hans jarlar af Orkneyjum, Þorfinnur og Brúsi. Eignaðist Ólafur konungur lönd þau svo sem fyrr var ritið.

Það sumar fór Ólafur konungur um Mæri hvoratveggju og í Raumsdal um haustið. Þar gekk hann af skipum sínum og fór þá til Upplanda og kom fram á Lesjar. Hann lét þar taka alla hina bestu menn bæði á Lesjum og á Dofrum og urðu þeir að taka við kristni eða dauða þola eða undan að flýja, þeir sem því komu við. En þeir er við kristni tóku fengu konungi sonu sína í hendur í gíslingar til trúnaðar.

Konungur var þar um nóttina sem Bæjar heita á Lesjum og setti þar fyrir presta. Síðan fór hann yfir Lorudal og svo um Ljárdal og kom niður þar sem Stafabrekka heitir. En á sú rennur eftir dalnum er Ótta heitir og er byggð fögur tveim megin árinnar og er kölluð Lóar og mátti konungur sjá eftir endilangri byggðinni.

«Skaði er það,» segir konungur, «að brenna skal byggð svo fagra,» og stefndi ofan í dalinn með liði sínu og voru á bæ þeim um nótt er Nes heitir og tók konungur sér þar herbergi í lofti einu þar sem hann svaf sjálfur í, og það stendur enn í dag og er ekki að því gert síðan.

Og var konungur þar nætur fimm og skar upp þingboð og stefndi til sín bæði af Voga og af Lóm og af Hedal og lét það boði fylgja að þeir skulu annað tveggja halda bardaga við hann og þola bruna af honum eða taka við kristni og færa honum sonu sína í gísling. Síðan komu þeir á konungsfund og gengu til handa honum. Sumir flýðu suður í Dala.

112. Saga Dala-Guðbrands

Dala-Guðbrandur hefir maður heitið er svo var sem konungur væri yfir Dölunum og var hersir að nafni. Honum jafnaði Sighvatur skáld að ríki og víðlendi við Erling Skjálgsson.

Sighvatur kvað um Erling:

Einn vissi eg þér annan
Jálks bríktöpuð líkan.
Vítt réð gumna gætir,
Guðbrandr hét sá, löndum.
Ykkr kveð eg jafna þykkja,
ormláðs hati, báða.
Lýgr hinn að sér, lægir
linnsetrs, er telst betri.

Guðbrandur átti son einn þann er hér sé getið. Þá er Guðbrandur frá þessi tíðindi að Ólafur konungur var kominn á Lóar og nauðgaði mönnum að taka við kristni þá skar hann upp herör og stefndi öllum Dælum til bæjar þess er Hundþorp heitir til fundar við sig. Og þar komu þeir allir og var örgrynni liðs fyrir því að þar liggur vatn það nær sem Lögur heitir og mátti þar jafnvel fara til á skipum sem á landi.

Og átti Guðbrandur þar þing við þá og segir að sá maður var kominn á Lóar «er Ólafur heitir og vill bjóða oss trú aðra en vér höfum áður og brjóta goð vor öll í sundur og segir svo að hann eigi miklu meira goð og máttkara og er það furða er jörð brestur eigi í sundur undir honum er hann þorir slíkt að mæla eða goð vor láta hann lengur ganga. Og vænti eg ef vér berum út Þór úr hofi voru er hann stendur á þeima bæ og oss hefir jafnan dugað og sér hann Ólaf og hans menn þá mun guð hans bráðna og sjálfur hann og menn hans og að engu verða.»

Þá æptu þeir upp allir senn og mæltu að Ólafur skyldi aldregi þaðan komast ef hann kæmi á fund þeirra «og eigi mun hann þora lengra að fara suður eftir Dölunum,» segja þeir.

Síðan ætluðu þeir til sjö hundruð manna að fara á njósn norður til Breiðu en fyrir því liði var höfðingi sonur Guðbrands, átján vetra gamall, og margir aðrir ágætir menn með honum og komu til bæjar þess er Hof heitir og voru þar þrjár nætur og kom þar mart lið til þeirra, það er flúið hafði af Lesjum og Lóm og Voga, þeir er eigi vildu undir kristni ganga. En Ólafur konungur og Sigurður biskup settu eftir kennimenn á Lóm og á Voga.

Síðan fóru þeir yfir um Vogaröst og komu niður á Sil og voru þar um nóttina og frágu þau tíðindi að lið var mikið fyrir þeim. Það frágu og búendur er á Breiðunni voru og bjuggust til bardaga móti konungi.

En þá er konungur stóð upp þá herklæddist hann og fór suður eftir Silvöllum og létti eigi fyrr en á Breiðunni og sá þar mikinn her fyrir sér búinn til bardaga. Síðan fylkti konungur liði sínu og reið sjálfur fyrir og orti orða á bændur og bauð þeim að taka við kristni.

Þeir svöruðu: «Þú munt öðru við koma í dag en gabba oss,» og æptu heróp og börðu vopnum á skjöldu sína.

Konungsmenn hljópu þá fram, skutu spjótum en búendur sneru þá þegar á flótta svo að fátt eitt stóð eftir. Var þá sonur Guðbrands höndum tekinn og gaf Ólafur konungur honum grið og hafði með sér. Þar var konungur fjórar nætur.

Þá mælti konungur við son Guðbrands: «Far þú aftur til föður þíns og seg honum að brátt mun eg þar koma.»

Síðan fór hann heim aftur og segir föður sínum hörð tíðindi að þeir höfðu hitt konung og hófu bardaga við hann. «En lið vort flýði allt í fyrstunni þegar en eg varð handtekinn,» segir hann. «Gaf konungur mér grið og bað mig fara að segja þér að hann kemur hér brátt. Nú höfum vér eigi meir hér en tvö hundruð manna af því liði öllu er vér höfðum þá til móts við hann. Nú ræð eg þér það faðir að berjast ekki við þenna mann.»

«Heyra má það,» segir Guðbrandur, «að úr þér er barður kjarkur allur. Og fórstu þá heilli heiman og mun þér sjá för lengi uppi vera og trúir þú nú þegar á órar þær er sjá maður fer með og þér hefir illa hneisu gerva og þínu liði.»

Og um nóttina eftir dreymdi Guðbrand að maður kom til hans ljós og stóð af honum mikil ógn og mælti við hann: «Sonur þinn fór enga sigurför á mót Ólafi konungi en miklu muntu hafa minni ef þú ætlar að halda bardaga við konung og muntu falla sjálfur og allt lið þitt og munu vargar draga þig og alla yður og hrafnar slíta.»

Hann varð hræddur mjög við ógn þessa og segir Þórði ístrumaga er höfðingi var fyrir Dælum.

Hann segir: «Slíkt hið sama bar fyrir mig,» segir hann.

Og um morguninn létu þeir blása til þings og sögðu að þeim þótti það ráð að eiga þing við þann mann er norðan fór með ný boðorð og vita með hverjum sannindum hann fer.

Síðan mælti Guðbrandur við son sinn: «Þú skalt nú fara á fund konungs þess er þér gaf grið og tólf menn með þér.»

Og svo var gert. Og þeir komu á fund konungs og segja honum sitt erindi að bændur vildu hafa þing við hann og setja grið í milli konungs og bónda. Konungur lét sér það vel þokkast og bundu það við hann einkamálum sín í milli meðan sú stefna væri. Og fóru þeir aftur við svo búið og segja Guðbrandi og Þórði að grið voru sett.

Konungur fór þá til bæjar þess er Liðsstaðir heita og var þar fimm nætur. Þá fór konungur á fund búenda og átti þing við þá. En væta var á mikil um daginn.

Síðan er þingið var sett þá stóð konungur upp og segir að þeir á Lesjum og á Lóm og á Voga hafa tekið við kristni og brotið niður blóthús sín «og trúa nú á sannan guð er skóp himin og jörð og alla hluti veit.»

Síðan sest konungur niður.

En Guðbrandur svarar: «Eigi vitum vér um hvern þú ræðir. Kallar þú þann guð er þú sérð eigi og engi annarra. En vér eigum þann guð er hvern dag má sjá og er því eigi úti í dag að veður er vott og mun yður hann ógurlegur sýnast og mikill fyrir sér. Vænti eg að yður skjóti skelk í bringu ef hann kemur á þingið. En með því að þú segir að guð yðar má svo mikið þá láttu hann nú svo gera að veður sé skýjað í morgun en regn ekki og finnumst hér þá.»

Síðan fór konungur heim til herbergis og fór með honum sonur Guðbrands í gísling en konungur fékk þeim annan mann í móti.

Um kveldið þá spyr konungur son Guðbrands hvernug goð þeirra væri gert.

Hann segir að hann var merktur eftir Þór «og hefir hann hamar í hendi og mikill vexti og holur innan og ger undir honum sem hjallur sé og stendur hann þar á ofan er hann er úti. Eigi skortir hann gull og silfur á sér. Fjórir hleifar brauðs eru honum færðir hvern dag og þar við slátur.»

Síðan fóru þeir í rekkjur en konungur vakti þá nótt og var á bænum sínum. En er dagur var fór konungur til messu og síðan til matar og þá til þings. En veðrinu var svo farið sem Guðbrandur hafði fyrir mælt. Þá stóð biskup upp í kantarakápu og hafði mítur á höfði og bagal í hendi og talaði trú fyrir bóndum og segir margar jartegnir er guð hafði gert og lauk vel ræðu sinni.

Þá svarar Þórður ístrumagi: «Mart mælir hyrningur sjá er staf hefir í hendi og uppi á sem veðrarhorn sé bjúgt. En með því að þið félagar kallið guð yðarn svo margar jartegnir gera þá mæl þú við hann að á morgun fyrir sól láti hann vera heið og sólskin og finnumst þá og gerum þá annaðhvort að verum sáttir um þetta mál eða höldum bardaga.»

Og skildust þá að sinni.

113. Skírður Dala-Guðbrandur

Kolbeinn sterki hét maður er var með Ólafi konungi. Hann var kynjaður úr Fjörðum. Hann hafði þann búnað jafnan að hann var gyrður sverði og hafði ruddu mikla í hendi er menn kalla klubbu.

Konungur mælti við Kolbein að hann skyldi vera næst honum um morguninn. Síðan mælti hann við menn sína: «Gangið þér þannug í nótt sem skip bónda eru og borið raufar á öllum en ríðið í brott eykjum þeirra af bæjum þar sem þeir eru á.»

Og svo var gert. En konungur var þá nótt alla á bænum og bað guð þess að hann skyldi leysa það vandræði með sinni mildi og miskunn. En er konungur hafði lokið tíðum, og var það móti degi, síðan fór hann til þings. En er hann kom á þing þá voru sumir bændur komnir. Þá sáu þeir mikinn fjölda búenda fara til þings og báru í milli sín mannlíkan mikið, glæst allt með gulli og silfri. En er það sáu bændur þeir er á þinginu voru þá hljópu þeir allir upp og lutu því skrímsli. Síðan var það sett á miðjan þingvöll. Sátu öðrum megin búendur en öðrum megin konungur og hans lið.

Síðan stóð upp Dala-Guðbrandur og mælti: «Hvar er nú guð þinn konungur? Það ætla eg nú að hann beri heldur lágt hökuskeggið og svo sýnist mér sem minna sé karp þitt nú og þess hyrnings er þér kallið biskup og þar situr í hjá þér heldur en fyrra dag fyrir því að nú er guð vor kominn er öllu ræður og sér á yður með hvössum augum og sé eg að þér eruð nú felmsfullir og þorið varla augum upp að sjá. Nú fellið niður hindurvitni yðra og trúið á goð vort er allt hefir ráð yðart í hendi,» og lauk sinni ræðu.

Konungur mælti við Kolbein svo að bændur vissu ekki til: «Ef svo ber að í erindi mínu að þeir sjá frá goði sínu þá slá þú hann það högg sem þú mátt mest með ruddunni.»

Síðan stóð konungur upp og mælti: «Mart hefir þú mælt í morgun til vor. Lætur þú kynlega yfir því er þú mátt eigi sjá guð vorn en vér væntum að hann mun koma brátt til vor. Þú ógnar oss guði þínu er blint er og dauft og má hvorki bjarga sér né öðrum og kemst engan veg úr stað nema borinn sé og vænti eg nú að honum sé skammt til ills. Og lítið þér nú til og sjáið í austur, þar fer nú guð vor með ljósi miklu.»

Þá rann upp sól og litu bændur allir til sólarinnar. En í því bili laust Kolbeinn svo goð þeirra svo að það brast allt í sundur og hljópu þar út mýs svo stórar sem kettir væru og eðlur og ormar. En bændur urðu svo hræddir að þeir flýðu, sumir til skipa en þá er þeir hrundu út skipum sínum þá hljóp þar vatn í og fyllti upp og máttu eigi á koma. En þeir er til eykja hljópu, þá fundu eigi. Síðan lét konungur kalla búendur og segir að hann vill eiga tal við þá og hverfa búendur aftur og settu þing.

Og stóð konungur upp og talaði: «Eigi veit eg,» segir hann, «hví sætir hark þetta og hlaup er þér gerið. En nú megið þér sjá hvað guð yðar mátti er þér báruð á gull og silfur, mat og vistir og sá nú hverjar véttir þess höfðu neytt, mýs og ormar, eðlur og pöddur. Og hafa þeir verr er á slíkt trúa og eigi vilja láta af heimsku sinni. Takið þér gull yðart og gersemar er hér fer nú um völlu og hafið heim til kvinna yðarra og berið aldrei síðan á stokka eða á steina. En hér eru nú kostir tveir á með oss, annað tveggja að þér takið nú við kristni eða haldið bardaga við mig í dag og beri þeir sigur af öðrum í dag er sá guð vill er vér trúum á.»

Þá stóð Guðbrandur upp og mælti: «Skaða mikinn höfum vér farið um guð vort. Og þó með því að hann mátti ekki oss við hjálpa þá viljum vér nú trúa á þann guð sem þú trúir.»

Og tóku þá allir við kristni. Þá skírði biskup Guðbrand og son hans og setti þar eftir kennimenn og skildust þeir vinir sem fyrr voru óvinir. Og lét þar Guðbrandur gera kirkju í Dölunum.

114. Kristnuð Heiðmörk

Ólafur konungur fór síðan út á Heiðmörk og kristnaði þar því að þá er hann hafði tekið konunga treystist hann eigi að fara víða um land með lítið lið eftir slíkt stórvirki. Var þá óvíða kristnað um Heiðmörk. En í þeirri ferð létti konungur eigi fyrr en Heiðmörk var alkristnuð og þar vígðar kirkjur og kennimenn til. Þá fór hann út á Þótn og Haðaland og rétti þar siðu manna og létti svo að þar var alkristið.

Þaðan fór hann á Hringaríki og gengu menn allt undir kristni. Það frágu Raumar að Ólafur konungur bjóst upp þannug og söfnuðu liði miklu saman og mæltu svo sín í milli að það er þeim eimuni sú yfirför er Ólafur hafði þar farið fyrra sinni og sögðu að hann skyldi aldrei svo síðan fara. En er Ólafur konungur fór upp á Raumaríki með liði sínu þá kom móti honum bóndasafnaður við á þá er Nitja heitir. Höfðu bændur her manns. En er þeir fundust ortu bændur þegar á til bardaga en brátt brann við hlutur þeirra og hrukku þeir þegar undan og voru barðir til batnaðar því að þeir tóku við kristni. Fór konungur yfir það fylki og skildist eigi fyrr við en þar höfðu allir menn við kristni tekið.

Þaðan fór hann austur í Sóleyjar og kristnaði þá byggð. Þar kom til hans Óttar svarti og beiddist að ganga til handa Ólafi konungi. Þann vetur hafði áður andast Ólafur Svíakonungur. Þá var Önundur Ólafsson konungur í Svíþjóð.

Ólafur konungur sneri þá aftur á Raumaríki. Var þá mjög liðinn veturinn. Þá stefndi Ólafur konungur þing fjölmennt í þeim stað sem síðan hefir verið Heiðsævisþing. Setti hann þá það í lögum að til þess þings skyldu sækja Upplendingar og Heiðsævislög skyldu ganga um öll fylki á Upplöndum og svo víða annars staðar sem síðan hafa þau gengið.

En er vorar sótti hann út til sævar, lét þá búa skip sín og fór um vorið út til Túnsbergs og sat þar um vorið þá er þar var fjölmennast og þungi var fluttur til bæjar af öðrum löndum. Var þar þá árferð góð allt um Víkina og til góðrar hlítar allt norður til Staðs en hallæri mikið allt norður þaðan.

115. Sætt Ólafs konungs og Einars þambarskelfis

Ólafur konungur sendi boð um vorið vestur um Agðir og allt norður um Rogaland og um Hörðaland að hann vill hvorki korn né malt né mjöl þaðan í brott láta selja, lét það fylgja að hann mun þangað koma með lið sitt og fara að veislum svo sem siðvenja var til. Fór þetta boð um þau fylki öll en konungur dvaldist í Víkinni um sumarið og fór allt austur til landsenda.

Einar þambarskelfir hafði verið með Ólafi Svíakonungi síðan er Sveinn jarl andaðist, mágur hans, og gerst Svíakonungs maður, tekið þar af honum lén mikið. En er konungur var andaður þá fýstist Einar að leita sér griða til Ólafs digra og höfðu þar um vorið farið orðsendingar milli.

En er Ólafur konungur lá í Elfi þá kom þar Einar þambarskelfir með nokkura menn. Ræddu þeir konungur þá um sætt sína og samdist það með þeim að Einar skyldi fara norður til Þrándheims og hafa eignir sínar allar og svo þær jarðir er Bergljótu höfðu heiman fylgt. Fór Einar þá norður leið sína en konungur dvaldist í Víkinni og var lengi í Borg um haustið og öndurðan vetur.

116. Sætt Ólafs konungs og Erlings Skjálgssonar

Erlingur Skjálgsson hélt ríki sínu svo að allt norður frá Sognsæ og austur til Líðandisness réð hann öllu við bændur en veislur konungs hafði hann miklu minni en fyrr. Þá stóð þó sú ógn af honum að engi lagði í aðra skál en hann vildi. Konungi þótti ofgangur að ríki Erlings.

Maður hét Áslákur Fitjaskalli, kynstór og ríkur. Skjálgur faðir Erlings og Áskell faðir Ásláks voru bræðrasynir. Áslákur var mikill vinur Ólafs konungs og setti konungur hann niður á Sunn-Hörðalandi, fékk honum þar lén mikið og veislur stórar og bað konungur hann halda til fulls við Erling. En það varð ekki þannug þegar er konungur var ekki nær. Varð þá Erlingur einn að ráða svo sem hann vildi þeirra í milli. Var hann ekki að mjúkari að Áslákur vildi sig fram draga hjá honum. Fóru þeirra skipti svo að Áslákur hélst ekki við í sýslunni. Fór hann á fund konungs og segir honum frá viðskipti þeirra Erlings.

Konungur bað Áslák vera með sér «þar til er vér Erlingur finnumst.»

Konungur gerði orð Erlingi að hann skyldi koma til Túnsbergs um vorið á fund konungs. En er þeir finnast þá eiga þeir stefnur og mælti konungur: «Svo er mér sagt frá ríki þínu Erlingur að engi sé sá maður norðan frá Sognsæ til Líðandisness er frelsi sínu haldi fyrir þér. Eru þar margir þeir menn er óðalbornir þættust til vera að hafa réttindi af jafnbornum mönnum sér. Nú er hér Áslákur frændi yðar og þykist hann heldur kulda af kenna um yður viðurskipti. Nú veit eg það eigi hvort heldur er að hann hefir sakir til þess eða skal hann hins að gjalda er eg hefi hann þar sett yfir varnað minn. En þótt eg nefni hann til þess þá kæra margir aðrir slíkt fyrir oss, bæði þeir er í sýslum sitja og svo ármenn er bú varðveita og veislur skulu gera móti mér og liði mínu.»

Erlingur svarar: «Því skal skjótt svara,» segir hann, «að því skal neita að eg gefi þær sakir Ásláki né öðrum mönnum að í þjónustu yðarri séu. En hinu skal játa að það er nú sem lengi hefir verið að hver vor frænda vill öðrum meiri vera. Svo hinu öðru skal játa að eg geri það lostigur að beygja hálsinn fyrir þér Ólafur konungur, en hitt mun mér örðigt þykja að lúta til Sel-Þóris er þrælborinn er í allar ættir þótt hann sé nú ármaður yðar eða annarra þeirra er hans makar eru að kynferð þótt þér leggið metorð á.»

Þá tóku til beggja vinir og báðu að þeir skyldu sættast, segja svo að konungi var að engum manni styrkur jafnmikill sem að Erlingi «ef hann má vera yðar fullkominn vinur.»

Í annan stað mæltu þeir til Erlings að hann skyldi vægja til við konung, segja svo ef hann helst í vináttu við konung að honum mun þá allt auðveldlegt að koma slíku fram sem hann vildi við hvern annarra. Lauk svo stefnu þeirri að Erlingur skyldi hafa sömu veislur sem hann hafði áður haft og settust niður allar sakir þær er konungur hafði á hendi Erlingi. Skyldi og fara til konungs Skjálgur sonur hans og vera með honum. Fór þá Áslákur aftur til búa sinna og voru þá sáttir að kalla. Erlingur fór og heim til búa sinna og hélt teknum hætti um ríki sitt.

117. Upphaf sögu Selsbana

Sigurður hét maður Þórisson, bróðir Þóris hunds í Bjarkey. Sigurður átti Sigríði dóttur Skjálgs, systur Erlings. Ásbjörn hét sonur þeirra. Hann þótti allmannvænn í uppvexti. Sigurður bjó í Ömd á Þrándarnesi. Hann var maður stórauðigur, virðingamaður mikill. Ekki var hann konungi handgenginn og var Þórir fyrir þeim bræðrum að virðingu er hann var lendur maður konungs en heima í búnaði þá var Sigurður í engan stað minni rausnarmaður. Hann var því vanur meðan heiðni var að hafa þrjú blót hvern vetur, eitt að veturnóttum, annað að miðjum vetri, þriðja að sumri.

En er hann tók við kristni þá hélt hann þó teknum hætti um veislur. Hafði hann þá um haustið vinaboð mikið og enn jólaboð um veturinn og bauð þá enn til sín mörgum mönnum, þriðju veislu hafði hann um páska og hafði þá og fjölmennt. Slíku hélt hann fram meðan hann lifði. Sigurður varð sóttdauður. Þá var Ásbjörn átján vetra. Tók hann þá arf eftir föður sinn. Hélt hann teknum hætti og hafði þrjár veislur á hverjum vetri sem faðir hans hafði haft.

Þess var skammt í milli er Ásbjörn hafði tekið við föðurarfi og þess er árferð tók að versna og sæði manna brugðust. Ásbjörn hélt hinu sama um veislur sínar og naut hann þá þess við að þar voru forn korn og forn föng þau er hafa þurfti. En er þau misseri liðu af og önnur komu, var þá korn engum mun betra en hin fyrri. Þá vildi Sigríður að veislur væru af teknar, sumar eða allar. Ásbjörn vildi það eigi. Fór hann þá um haustið að hitta vini sína og keypti korn þar sem hann gat en þá af sumum. Fór svo enn fram þann vetur að Ásbjörn hélt veislum öllum.

En eftir um vorið fengust lítil sæði því að engi gat frækorn að kaupa. Ræddi Sigríður um að fækka skyldi húskarla. Ásbjörn vildi það eigi og hélt hann öllu hinu sama það sumar. Korn var heldur óárvænt. Það fylgdi og þá að svo var sagt sunnan úr landi að Ólafur konungur bannaði korn og malt og mjöl að flytja sunnan og norður í landið.

Þá þótti Ásbirni vandast um tilföngin búsins. Var það þá ráð hans að hann lét fram setja byrðing er hann átti. Það var haffæranda skip að vexti. Skipið var gott og reiði vandaður mjög til. Þar fylgdi segl stafað með vendi. Ásbjörn réðst til ferðar og með honum tuttugu menn, fóru norðan um sumarið og er ekki sagt frá ferð þeirra fyrr en þeir koma í Karmtsund aftan dags og lögðu að við Ögvaldsnes. Þar stendur bær mikill skammt upp á eyna Körmt er heitir á Ögvaldsnesi. Þar var konungsbú, ágætur bær. Þar réð fyrir Þórir selur. Var hann þar ármaður.

Þórir var maður ættsmár og hafði mannast vel, starfsmaður góður, snjallur í máli, áburðarmaður mikill, framgjarn og óvæginn. Hlýddi honum það síðan er hann fékk konungs styrk. Hann var maður skjótorður og örorður. Þeir Ásbjörn lágu þar um nótt.

En um morguninn er ljóst var orðið gekk Þórir ofan til skips og nokkurir menn með honum. Hann spurði hver fyrir skipi því réði hinu veglega. Ásbjörn segir til sín og nefndi föður sinn. Þórir spyr hvert hann skyldi fara hið lengsta eða hvað honum væri að erindum.

Ásbjörn segir að hann vill kaupa sér korn og malt. Segir hann sem satt var að hallæri var mikið norður í land «en oss er sagt að hér sé vel ært. Viltu bóndi selja oss korn? Eg sé að hér eru hjálmar stórir. Væri oss það úrlausn að þurfa eigi lengra að fara.»

Þórir svarar: «Eg skal gera þér úrlausn að þú þurfir eigi lengra að fara að kornkaupum eða víðara hér um Rogaland. Eg kann það segja þér að þú munt hér vel mega aftur hverfa og fara eigi lengra því að þú munt eigi korn hér fá né í öðrum stöðum því að konungur bannar að selja héðan korn norður í land. Og far aftur Háleygur. Sá mun þér hinn besti.»

Ásbjörn segir: «Ef svo er bóndi sem þú segir að vér munum ekki fá kornkaup þá mun eigi minna mitt erindi en hafa kynnisókn á Sóla og sjá híbýli Erlings frænda míns.»

Þórir segir: «Hversu mikla frændsemi átt þú við Erling?»

Hann segir: «Móðir mín er systir hans.»

Þórir segir: «Vera kann þá að eg hafi þá ekki varlega mælt ef þú ert systurson konungsins Rygja.»

Þá köstuðu þeir Ásbjörn tjöldunum af sér og sneru út skipinu.

Þórir kallaði á þá: «Farið nú vel og komið hér þá er þér farið aftur.»

Ásbjörn segir að svo skyldi vera. Fara þeir nú leið sína og koma að kveldi á Jaðar. Fór Ásbjörn upp með tíu menn en aðrir tíu gættu skips.

En er Ásbjörn kom til bæjar fékk hann þar góðar viðtökur og var Erlingur við hann hinn kátasti. Setti Erlingur hann hið næsta sér og spurði hann margra tíðinda norðan úr landi. Ásbjörn segir hið ljósasta af erindum sínum.

Erlingur segir að það var þá eigi vel til borið er konungur bannaði kornsölur. «Veit eg,» segir hann, «eigi þeirra manna von hér að traust muni til bera að brjóta orð konungs. Verður mér vandgætt til skaps konungs því að margir eru spillendur að um vináttu vora.»

Ásbjörn segir: «Seint er satt að spyrja. Mér hefir kennt verið á unga aldri að móðir mín væri frjálsborin í allar hálfur og það með að Erlingur á Sóla væri nú göfgastur hennar frænda en nú heyri eg þig segja að þú sért eigi svo frjáls fyrir konungsþrælum að þú megir ráða fyrir korni þínu slíkt er þér líkar.»

Erlingur sá til hans og glotti við tönn og mælti: «Minna vitið þér af konungs ríki Háleygir en vér Rygir. En örorður muntu heima vera, áttu og ekki langt til þess að telja. Drekkum nú fyrst frændi, sjáum í morgun hvað er títt er um erindi þitt.»

Gerðu þeir svo og voru kátir um kveldið.

Eftir um daginn talast þeir við Erlingur og Ásbjörn og mælti Erlingur: «Hugsað hefi eg nokkuð fyrir um kornkaupin þín Ásbjörn. Eða hversu vandur muntu vera að kaupunautum?»

Hann segir að hann hirði það aldregi að hverjum hann keypti korn ef honum væri heimult selt.

Erlingur mælti: «Það þykir mér líkara að þrælar mínir muni eiga korn svo að þú munt vera fullkaupa. Þeir eru ekki í lögum eða landsrétt með öðrum mönnum.»

Ásbjörn segir að hann vill þann kost. Þá var sagt þrælunum til um þetta kaup. Létu þeir korn fram og malt og seldu Ásbirni. Hlóð hann skip sitt sem hann vildi. En er hann var í brott búinn leiddi Erlingur hann út með vingjöfum og skildust þeir með kærleikum. Fékk Ásbjörn byrleiði gott og lagði að um kveldið í Karmtsundi við Ögvaldsnes og voru þar um nóttina.

Þórir selur hafði þegar spurn af um farar Ásbjarnar og svo það að skip hans var kafhlaðið. Þórir stefndi til sín liði um nóttina svo að hann hafði fyrir dag sex tigu manna. Hann fór á fund Ásbjarnar þegar er lítt var lýst. Gengu þeir þegar út á skipið. Þá voru þeir Ásbjörn klæddir og heilsaði Ásbjörn Þóri. Þórir spyr hvað þunga Ásbjörn hefði á skipi. Hann segir að korn og malt var.

Þórir segir: «Þá mun Erlingur gera að vanda að taka fyrir hégómamál öll orð konungs og leiðist honum enn eigi það að vera hans mótstöðumaður í öllu og er furða er konungur lætur honum allt hlýða.»

Var Þórir málóði um hríð en er hann þagnaði þá segir Ásbjörn að korn höfðu átt þrælar Erlings.

Þórir svarar snellt að hann hirði eigi um prettu þeirra Erlings. «Er nú hitt til Ásbjörn að þér gangið á land ellegar færum vér yður útbyrðis því að vér viljum enga þröng hafa af yður meðan vér ryðjum skipið.»

Ásbjörn sá að hann hafði eigi liðskost við Þóri og gengu þeir Ásbjörn á land upp en Þórir lét flytja farminn allan af skipinu.

En er rutt var skipið þá gekk Þórir eftir skipinu. Hann mælti: «Furðu gott segl hafa þeir Háleygirnir. Taki byrðingssegl vort hið forna og fái þeim. Það er þeim fullgott er þeir sigla lausum kili.»

Svo var gert að skipt var seglunum. Fóru þeir Ásbjörn brott leið sína við svo búið og stefndi hann þá norður með landi og létti eigi fyrr en hann kom heim í öndverðan vetur og varð sjá för allfræg. Varð þá allt starf tekið af Ásbirni að búa veislur á þeim vetri.

Þórir hundur bauð Ásbirni til jólaveislu og móður hans og þeim mönnum er þau vildu hafa með sér. Ásbjörn vildi eigi fara og sat heima. Það fann á að Þóri þótti Ásbjörn gera óvirðilega til boðsins. Hafði Þórir í fleymingi um farar Ásbjarnar. «Bæði er,» segir hann, «að mikill er virðingamunur vor frænda Ásbjarnar enda gerir hann svo, slíkt starf sem hann lagði á í sumar að sækja kynnið til Erlings á Jaðar en hann vill eigi hér fara í næsta hús til mín. Veit eg eigi hvort hann hyggur að Sel-Þórir muni í hverjum hólma fyrir vera.»

Slík orð spurði Ásbjörn til Þóris og önnur þeim lík. Ásbjörn undi stórilla ferð sinni og enn verr er hann heyrði slíkt haft að hlátri og spotti. Var hann heima um veturinn og fór hvergi til heimboða.

118. Dráp Sel-Þóris

Ásbjörn átti langskip. Það var snekkja, tvítugsessa, stóð í nausti miklu. Eftir kyndilmessu lét hann setja fram skipið og bera til reiða og lét búa skipið. Þá stefndi hann til sín vinum sínum og hafði nær níu tigum manna og alla vel vopnaða. En er hann var búinn og byr gaf þá sigldi hann suður með landi og fara þeir ferðar sinnar og byrjar heldur seint. En er þeir sækja suður í land þá fóru þeir útleið meir en þjóðleið. Ekki varð til tíðinda um ferð þeirra fyrr en þeir komu að kveldi fimmta dag páska utan að Körmt. Henni er þannug farið að hún er mikil ey, löng og víðast ekki breið, liggur við þjóðleið fyrir utan. Þar er mikil byggð og víða er eyin óbyggð það er út liggur til hafsins. Þeir Ásbjörn lentu utan að eyjunni þar er óbyggt var.

En er þeir höfðu tjaldað þá mælti Ásbjörn: «Nú skuluð þér vera eftir hér og bíða mín en eg mun ganga upp á eyna á njósn hvað títt er í eyjunni því að vér höfum ekki um spurt áður.»

Ásbjörn hafði vondan búnað og hött síðan, fork í hendi, gyrður sverði undir klæðum. Hann gekk á land upp og yfir á eyna. En er hann kom á nokkura hæð, þá er hann mátti sjá til bæjar á Ögvaldsnesi og svo fram í Karmtsund, þá sá hann mannfarar miklar bæði á sæ og á landi og sótti það fólk allt til bæjar á Ögvaldsnesi. Honum þótti það undarlegt. Síðan gekk hann heim til bæjarins og þar til er þjónustumenn bjuggu mat. Heyrði hann þá þegar og skildi ræður þeirra að Ólafur konungur var þar kominn til veislu, svo það með að konungur var til borða genginn.

Ásbjörn sneri þá til stofunnar en er hann kom í forstofuna þá gekk annar maður út en annar inn og gaf engi maður að honum gaum. Opin var stofuhurðin. Hann sá að Þórir selur stóð fyrir hásætisborðinu. Þá var mjög á kveld liðið. Ásbjörn heyrði til að menn spurðu Þóri frá skiptum þeirra Ásbjarnar og svo það að Þórir sagði af langa sögu og þótti Ásbirni hann halla sýnt sögunni.

Þá heyrði hann að maður mælti: «Hvernug varð hann Ásbjörn þá er þér rudduð skipið?»

Þórir segir: «Bar hann sig til nokkurrar hlítar og þó eigi vel þá er vér ruddum skipið en er vér tókum seglið af honum þá grét hann.»

En er Ásbjörn heyrði þetta þá brá hann sverðinu hart og títt og hljóp í stofuna, hjó þegar til Þóris. Kom höggið utan á hálsinn, féll höfuðið á borðið fyrir konunginn en búkurinn á fætur honum. Urðu borðdúkarnir í blóði einu bæði uppi og niðri.

Konungur mælti, bað taka hann. Og var svo gert að Ásbjörn var tekinn höndum og leiddur út úr stofunni en þá var tekinn borðbúnaðurinn og dúkarnir og í brott borinn, svo líkið Þóris var í brott borið og sópað allt það er blóðugt var. Konungur var allreiður og stillti vel orðum sínum svo sem hann var vanur jafnan.

Skjálgur Erlingsson stóð upp og gekk fyrir konung og mælti svo: «Nú mun sem oftar konungur að þar mun til umbótar að sjá er þér eruð. Eg vil bjóða fé fyrir mann þenna til þess að hann haldi lífi sínu og limum en þér konungur skapið og skerið um allt annað.»

Konungur segir: «Er eigi það dauðasök Skjálgur ef maður brýtur páskafrið og sú önnur er hann drap mann í konungs herbergi, sú hin þriðja er ykkur föður þínum mun þykja lítils verð er hann hafði fætur mína fyrir höggstokkinn?»

Skjálgur svarar: «Illa er það konungur er yður mislíkar en ellegar væri verkið hið besta unnið. En ef verk þetta konungur þykir yður í móti skapi og mikils vert þá vænti eg að eg þiggi mikið af yður fyrir þjónustu mína. Munu margir það mæla að yður sé það vel geranda.»

Konungur segir: «Þótt þú sért mikils verður Skjálgur þá mun eg eigi fyrir þínar sakir brjóta lögin og leggja konungstignina.»

Skjálgur snýst þá í brott og út úr stofunni. Tólf menn höfðu þar verið með Skjálgi og fylgdu þeir honum allir og margir aðrir gengu með honum í brott.

Skjálgur mælti til Þórarins Nefjólfssonar: «Ef þú vilt hafa vináttu mína þá leggðu allan hug á að maðurinn sé eigi drepinn fyrir sunnudag.»

Síðan fer Skjálgur og menn hans og tóku róðrarskútu er hann átti og róa suður svo sem á mátti taka og komu í elding nætur á Jaðar, gengu þegar upp til bæjarins og til lofts þess er Erlingur svaf í. Skjálgur hljóp á hurðina svo að hún brotnaði að nöglum. Við það vaknar Erlingur og aðrir sem inni voru. Hann var skjótastur á fætur og greip upp skjöld sinn og sverð og hljóp til duranna og spurði hver þar færi svo ákaft. Skjálgur segir til sín og bað upp láta hurðina.

Erlingur segir: «Það var líklegast að þú mundir vera ef allheimslega fór, eða fara menn nokkurir eftir yður?»

Var þá látin upp hurðin.

Þá mælti Skjálgur: «Það vænti eg þótt þér þyki eg fara ákaflega að Ásbirni frænda þínum þyki ekki ofurskjótt þar er hann situr norður á Ögvaldsnesi í fjötrum og er það mannlegra að fara til og duga honum.»

Síðan hafast þeir feðgar orð við. Segir þá Skjálgur Erlingi alla atburði um víg Sel-Þóris.

119. Frá Þórarni Nefjólfssyni

Ólafur konungur settist í sæti sitt þá er um var búist í stofunni og var hann allreiður. Hann spurði hvað títt var um vegandann. Honum var sagt að hann var úti í svölum í gæslu hafður.

Konungur segir: «Hví er hann eigi drepinn?»

Þórarinn Nefjólfsson segir: «Herra kallið þér eigi það morðverk að drepa menn um nætur?»

Þá mælti konungur: «Setji hann í fjötur og drepi hann í morgun.»

Þá var Ásbjörn fjötraður og byrgður einn í húsi um nóttina.

Eftir um daginn hlýddi konungur morguntíðum. Síðan gekk hann á stefnur og sat þar fram til hámessu. Og er hann gekk frá tíðum mælti hann til Þórarins: «Mun nú vera sólin svo há að Ásbjörn vinur yðar mun mega hanga?»

Þórarinn segir og laut konungi: «Herra, sagði biskup hinn fyrra frjádag að sá konungur er alls á vald og þoldi hann skapraunir og er sá sæll er heldur má eftir honum líkja en eftir hinum er þá dæmdu manninn til dauða eða þeim er olli manndrápinu. Nú er eigi langt til morguns og er þá sýkn dagur.»

Konungur leit við honum og mælti: «Ráða muntu þessu að hann mun ekki í dag drepinn. Skaltu nú taka við honum og varðveita hann og vit það til sanns að þar liggur líf þitt við ef hann kemst í brott með nokkuru móti.»

Gekk þá konungur leið sína en Þórarinn gekk þar til er Ásbjörn sat í járnum. Lét Þórarinn þá af honum fjötur og fylgdi honum í stofu eina litla og lét þá fá honum drykk og mat og segir honum hvað konungur hefði á lagt ef Ásbjörn hlypi í brott. Ásbjörn segir að Þórarinn þurfti ekki það að óttast. Sat Þórarinn þar hjá honum lengi um daginn og svo svaf hann þar um nóttina.

Laugardag stóð konungur upp og fór til morguntíða. Síðan gekk hann á stefnur og var þar fjölmennt komið af bóndum og áttu þeir mart að kæra. Sat konungur þar lengi dags og varð heldur síð gengið til hámessu. Eftir það gekk konungur til matar en er hann hafði matast drakk hann um hríð svo að borð voru uppi.

Þórarinn gekk til prests þess er kirkju varðveitti og gaf honum tvo aura silfurs til þess að hann skyldi hringja til helgar jafnskjótt sem konungsborð fóru upp.

En er konungur hafði drukkið þá hríð sem honum þótti fellt þá var borð upp tekið. Þá mælti konungur, segir að þá var ráð að þrælar færu með vegandann og dræpu hann. Í því bili var hringt til helgar.

Þá gekk Þórarinn fyrir konung og mælti: «Grið mun sjá maður skulu hafa um helgina þótt hann hafi illa til gert.»

Konungur segir: «Gættu hans Þórarinn svo að hann komist eigi í brott.»

Gekk þá konungur til kirkju og fór til nónu en Þórarinn sat enn um daginn hjá Ásbirni.

Sunnudag gekk biskup til Ásbjarnar og skriftaði honum og gaf honum lof til að hlýða hámessu. Þórarinn gekk þá til konungs og bað hann fá menn til að varðveita vegandann. «Vil eg nú,» segir hann, «við skiljast hans mál.»

Konungur bað hann hafa þökk fyrir það. Fékk hann þá menn til að varðveita Ásbjörn. Var þá settur fjötur á hann. En er til hámessu var gengið þá var Ásbjörn leiddur til kirkju. Stóð hann úti fyrir kirkjunni og þeir er hann varðveittu. Konungur og öll alþýða stóð að messu.

120. Sætt Erlings og Ólafs konungs

Nú er þar til máls að taka er fyrr var frá horfið er þeir Erlingur og Skjálgur sonur hans gerðu ráð sín um þetta vandkvæði og staðfestist það með áeggjan Skjálgs og annarra sona hans að þeir safna liði og skera upp herör. Kom þá brátt saman lið mikið og réðu þeir til skipa og var þá skorað manntal og var nær fimmtán hundruðum manna. Fóru þeir með það lið og komu sunnudaginn í Körmt á Ögvaldsnes og gengu upp til bæjar með öllu liðinu og komu í þann tíma er lokið var guðspjalli, gengu þegar upp að kirkjunni og tóku Ásbjörn og var brotinn fjötur af honum.

En við gný þenna og vopnabrak þá hljópu allir inn í kirkjuna, þeir er áður voru úti, en þeir er í kirkju voru þá litu allir út nema konungur. Hann stóð og sást ekki um.

Þeir Erlingur skipuðu liði sínu tveim megin strætis þess er lá frá kirkju og til stofunnar. Stóð Erlingur og synir hans næst stofunni. En er allar tíðir voru sungnar þá gekk konungur þegar út úr kirkju. Gekk hann fyrst fram í kvína en síðan hver eftir öðrum hans manna. Þegar er hann kom heim að durunum þá gekk Erlingur fyrir dyrnar og laut konungi og heilsaði honum.

Konungur svarar, bað guð hjálpa honum.

Þá tók Erlingur til máls: «Svo er mér sagt að Ásbjörn frænda minn hafi sótt glæpska mikil og er það illa konungur ef svo er orðið að yður sé misþokki að. Nú em eg því kominn að bjóða fyrir hann sætt og yfirbætur þvílíkar sem þér viljið sjálfir gert hafa en þiggja þar í mót líf hans og limar og landsvist.»

Konungur svarar: «Svo líst mér Erlingur sem þér munuð nú þykjast hafa vald á um mál Ásbjarnar. Veit eg eigi hví þú lætur svo sem þú skulir bjóða sættir fyrir hann. Ætla eg þig fyrir því hafa dregið saman her manns að nú ætlar þú að ráða vor í milli.»

Erlingur segir: «Þér skuluð ráða og ráða svo að vér skiljumst sáttir.»

Konungur mælti: «Ætlar þú að hræða mig Erlingur? Hefir þú því lið mikið?»

«Nei,» segir hann.

«En ef annað býr í þá mun eg nú ekki flýja.»

Erlingur segir: «Eigi þarftu að minna mig á það að þeir hafa fundir okkrir orðið hér til er eg hefi lítinn liðskost haft við þér. En nú skal ekki leyna þig því er mér býr í skapi, að eg vil að við skiljumst sáttir eða mér er von að eg hætti ekki til fleiri funda vorra.»

Erlingur var þá rauður sem blóð í andliti.

Þá gekk fram Sigurður biskup og mælti til konungs: «Herra eg býð yður hlýðni fyrir guðs sakir að þér sættist við Erling eftir því sem hann býður, að maður sjá hafi lífs grið og lima en þér ráðið einir öllu sáttmáli.»

Konungur svarar: «Þér skuluð ráða.»

Þá mælti biskup: «Erlingur fáið þér konungi festu þá er honum líki, síðan gangi Ásbjörn til griða og á konungs vald.»

Erlingur fékk festur en konungur tók við. Síðan gekk Ásbjörn til griða og á konungs vald og kyssti á hönd konungs. Sneri þá Erlingur í brott með liði sínu. Varð þá ekki að kveðjum. Gekk þá konungur inn í stofuna og Ásbjörn með honum.

Síðan lauk konungur upp sættargerðina og mælti svo: «Það skal upphaf sættar okkarrar Ásbjörn að þú skalt ganga undir landslög þau að sá maður er drepur þjónustumann konungs þá skal hann taka undir þá þjónustu sömu ef konungur vill. Nú vil eg að þú takir upp ármenning þessa er Sel-Þórir hefir haft og ráð hér fyrir búi mínu á Ögvaldsnesi.»

Ásbjörn segir að svo skyldi vera sem konungur vildi. «Verð eg þó fyrst að fara til bús míns og skipa þar til.»

Konungur lét sér það vel líka. Fór hann þaðan til annarrar veislu þar sem ger var í móti honum en Ásbjörn réðst þá til ferðar við föruneyti sitt. Þeir höfðu legið í leynivogum þá stund alla er Ásbjörn var í brott. Höfðu þeir njósn af hvað títt var um hans ráð og vildu eigi í brott fara fyrr en þeir vissu hvað þar réðist af. Síðan snýst Ásbjörn til ferðar og léttir eigi fyrr um vorið en hann kemur norður til bús síns. Hann var kallaður Ásbjörn Selsbani.

En er Ásbjörn hafði heima verið eigi lengi þá hittust þeir Þórir frændurnir og talast við. Spyr Þórir Ásbjörn vendilega að um ferð hans og alla atburði þá sem þar höfðu orðið til tíðinda en Ásbjörn sagði sögu þá sem gengið hafði.

Þá segir Þórir: «Þá muntu þykjast hafa rekið af hendi svívirðing þá er þú varst ræntur á hausti.»

«Svo er,» kvað Ásbjörn. «Eða hversu þykir þér frændi?»

«Það skal skjótt segja,» kvað Þórir, «að ferð sú hin fyrri er þú fórst suður í land varð hin svívirðlegsta og stóð sú til nokkurrar umbótar en þessi för er bæði þín skömm og frænda þinna ef það skal framgengt verða að þú gerist konungsþræll og jafningi hins versta manns, Þóris sels. Nú ger þú svo mannlega að þú sit heldur að eignum þínum hér. Skulum vér frændur þínir veita þér styrk til þess að þú komir aldrei síðan í slíkt öngþveiti.»

Ásbirni þótti þetta vænlegt og áður þeir Þórir skildust þá var þetta ráð staðfest að hann skyldi sitja í búi sínu og fara ekki síðan á konungs fund eða í hans þjónustu og gerði hann svo og sat heima að búum sínum.

121. Frá Hörðum

Eftir það er þeir Ólafur konungur og Erlingur Skjálgsson höfðu hist á Ögvaldsnesi þá hófst með þeim af nýju sundurþykkið og óx til þess er þar af gerðist fullur fjandskapur milli þeirra.

Fór Ólafur konungur að veislum um Hörðaland um vorið og þá fór hann upp á Vörs því að hann spurði að fólk var þar lítt trúað. Hann átti þing við bændur þar sem á Vangi heitir. Komu þar bændur fjölmennt og með alvæpni. Bauð konungur þeim að taka við kristni en búendur buðu bardaga í mót og kom svo að hvorirtveggju fylktu liði sínu. Var þá svo um bændur að þeim skaut skelk í bringu og vildi engi fremstur standa og varð það þá að lyktum er þeim gegndi betur að þeir gengu til handa konungi og tóku kristni. Skildist konungur eigi þaðan fyrr en þar var alkristnað orðið.

Það var einn dag að konungur reið leið sína og söng sálma sína en er hann kom gegnt haugunum nam hann stað og mælti: «Þau skal segja orð mín maður manni að eg kalla ráð að aldregi síðan fari Noregskonungur í milli þessa hauga.»

Er það og sögn manna að flestir konungar hafi það varast síðan.

Þá fór Ólafur konungur út í Ostrarfjörð, kom þar til skipa sinna, fór þá norður í Sogn og tók þar veislur um sumarið.

En er hausta tók sneri hann inn í fjörðinn, fór þaðan upp á Valdres. Þar var áður heiðið. Konungur fór sem ákaflegast upp til vatnsins, kom þar á óvart bóndum og tók þar skip þeirra, gekk þar á sjálfur með öllu liði sínu. Síðan skar hann þingboð og settist þingið svo nær vatninu að konungur átti allan kost skipa ef hann þættist þurfa. Bændur sóttu þingið með her manns alvopnaðan. Konungur bauð þeim kristni en búendur æptu í móti og báðu hann þegja, gerðu þegar gný mikinn og vopnabrak.

En er konungur sá að þeir vildu ekki til hlýða þess er hann kenndi þeim og það annað að þeir höfðu þann múg manns er ekki stóðst við þá sneri hann ræðunni, spurði þá að ef nokkurir væru þeir menn á þinginu er sakir þær ættust við er þeir vildu að hann setti í milli þeirra. Það fannst brátt í orðum búenda að margir voru þar rangsáttir sín í milli er þá höfðu samhlaupa orðið að mæla móti kristninni.

En þegar er búendur tóku að kæra sín vandræði þá aflaði hver þeirra sér sveitar að flytja sitt mál fram. Gekk því þann dag allan. Að kveldi var slitið þinginu.

Þegar er búendur höfðu spurt að Ólafur konungur hafði farið um Valdres og hann var kominn í byggð þá höfðu þeir látið fara herör og stefnt saman þegn og þræl, fóru með her þann í móti konungi en þá var víða aleyða í byggðinni. Bændur héldu safnaðinum þá er þinginu sleit. Þess varð konungur vís. En er hann kom á skip sín þá lét hann róa um nóttina yfir þvert vatnið. Þar lét hann upp ganga í byggðina, lét þar brenna og ræna.

Eftir um daginn reru þeir nes frá nesi. Lét konungur allt brenna byggðina. En þeir búendur er í safnaðinum voru, þá er þeir sáu reyk og loga til bæja sinna, þá urðu þeir lausir í flokkinum. Stefndi þá hver í brott og leitaði heim ef hann mætti finna hyski sitt. En þegar er rof kom í liðið þá fór hver að öðrum til þess er allt riðlaðist í smáflokka. En konungur reri yfir vatnið og brenndi þá á hvorutveggja landi. Komu þá bændur til hans og báðu miskunnar, buðu handgöngu sína. Gaf hann hverjum manni grið er til hans kom og þess krafði og svo fé þeirra. Mælti þá engi maður við kristni. Lét konungur þá skíra fólkið og tók gíslar af búendum.

Dvaldist konungur þar lengi um haustið, lét draga skipin um eið á milli vatna. Fór konungur lítt um land uppi frá vötnum því að hann trúði illa bóndum. Hann lét þar gera kirkjur og vígja og setti kennimenn. En er konungi þótti von frera þá sótti hann á land upp, kom þá fram á Þótni.

Þess getur Arnór jarlaskáld er Ólafur konungur hafði brennt á Upplöndum þá er hann orti um Harald bróður hans:

Gengr í ætt það er yngvi
Upplendinga brenndi,
þjóð galt ræsis reiði,
rönn, þess er fremstr er manna.
Vildut öflgar aldir,
áðr var stýrt til váða,
grams dólgum fékkst gálgi,
gagnprýðanda hlýða.

Síðan fór Ólafur konungur norður um Dala allt til fjalls og nam eigi staðar fyrr en hann kom í Þrándheim og allt til Niðaróss, bjó þar til veturvistar og sat þar um veturinn. Sá var hinn tíundi vetur konungdóms hans.

Áður um sumarið fór Einar þambarskelfir úr landi og fyrst vestur til Englands, hitti þar Hákon jarl mág sinn, dvaldist þar með honum um hríð. Síðan fór Einar á fund Knúts konungs og þá af honum stórar gjafar. Eftir það fór Einar suður um sæ og allt suður til Rúmaborgar og kom aftur annað sumar, fór þá til búa sinna. Hittust þeir Ólafur konungur þá ekki.

122. Fæddur Magnús konungur góði

Álfhildur hét kona er kölluð var konungsambátt. Hún var þó af góðum ættum komin. Hún var kvinna fríðust. Hún var með hirð Ólafs konungs. En það vor varð það til tíðinda að Álfhildur var með barni en það vissu trúnaðarmenn konungs að hann mundi vera faðir barns þess.

Svo bar að eina nótt að Álfhildi stóð sótt. Var þar fátt manna viðstatt, konur nokkurar og prestur og Sighvatur skáld og fáir aðrir. Álfhildur var þunglega haldin og gekk henni nær dauða. Hún fæddi sveinbarn og var það um hríð er þau vissu óglöggt hvort líf var með barninu. En er barnið skaut öndu upp og allómáttulega þá bað prestur Sighvat fara að segja konungi.

Hann svarar: «Eg þori fyrir engan mun að vekja konunginn því að hann bannar það hverjum manni að bregða svefni fyrir honum fyrr en hann vaknar sjálfur.»

Presturinn svarar: «Nauðsyn ber nú til að barn þetta fái skírn. Mér sýnist það allólíflegt.»

Sighvatur mælti: «Heldur þori eg til þess að ráða að þú skírir barnið en eg veki konung og mun eg ávítum upp halda og gefa nafn.»

Svo gerðu þeir að sveinn sá var skírður og hét Magnús.

Eftir um morguninn þá er konungur var vaknaður og klæddur var honum sagt allt frá þessum atburðum. Þá lét konungur kalla til sín Sighvat.

Konungur mælti: «Hví varstu svo djarfur að þú lést skíra barn mitt fyrr en eg vissi?»

Sighvatur svarar: «Því að eg vildi heldur gefa guði tvo menn en einn fjandanum.»

Konungur mælti: «Fyrir hví mundi það við liggja?»

Sighvatur svarar: «Barnið var að komið dauða og mundi það fjandans maður ef það dæi heiðið en nú var það guðs maður. Hitt er og annað að eg vissi þótt þú værir mér reiður að þar mundi eigi meira við liggja en líf mitt en ef þú vilt að eg týni því fyrir þessa sök þá vænti eg að eg sé guðs maður.»

Konungur mælti: «Hví léstu sveininn Magnús heita? Ekki er það vort ættnafn.»

Sighvatur svarar: «Eg hét hann eftir Karla-Magnúsi konungi. Þann vissi eg mann bestan í heimi.»

Þá mælti konungur: «Gæfumaður ertu mikill Sighvatur. Er það eigi undarlegt að gæfa fylgi visku. Hitt er kynlegt sem stundum kann verða að sú gæfa fylgir óviskum mönnum að óviturleg ráð snúast til hamingju.»

Var þá konungur allglaður.

Sveinn sá fæddist upp og var brátt efnilegur er aldur fór yfir hann.

123. Dráp Selsbana

Það vor hið sama fékk Ólafur konungur í hönd Ásmundi Grankelssyni sýslu á Hálogalandi hálfa til móts við Hárek í Þjóttu en hann hafði áður haft alla, suma að veislu en suma að léni. Ásmundur hafði skútu og á nær þremur tigum manna og vopnaða vel.

En er Ásmundur kom norður þá hittust þeir Hárekur. Segir Ásmundur honum hvernug konungur hafði til skipað um sýsluna, lét þar fylgja jartegnir konungs.

Hárekur segir svo að konungur mundi ráða hver sýslu hefði. «En þó gerðu ekki svo hinir fyrri höfðingjar að minnka vorn rétt er ættbornir erum til ríkis að hafa af konungum en fá þá í hendur búendasonum þeim er slíkt hafa fyrr ekki með höndum haft.»

En þótt það fyndist á Háreki að honum þótti þetta móti skapi þá lét hann Ásmund við sýslu taka sem konungur hafði orð til send.

Fór þá Ásmundur heim til föður síns, dvaldist þar litla hríð, fór þá síðan í sýslu sína norður á Hálogaland.

En er hann kom norður í Langey þá bjuggu þar bræður tveir. Hét annar Gunnsteinn en annar Karli. Þeir voru menn auðgir og virðingamenn miklir. Gunnsteinn var búsýslumaður og eldri þeirra bræðra. Karli var fríður sýnum og skartsmaður mikill en hvortveggi þeirra var íþróttamaður um marga hluti. Ásmundur fékk þar góðar viðtökur og dvaldist þar um hríð, heimti þar saman úr sýslunni slíkt er fékkst.

Karli ræddi það fyrir Ásmundi að hann vildi fara með honum suður á fund Ólafs konungs og leita sér hirðvistar. Ásmundur fýsti þess ráðs og hét umsýslu sinni við konung að Karli fengi það erindi sem hann beiddist til. Réðst hann þá til föruneytis með Ásmundi.

Ásmundur spurði það að Ásbjörn Selsbani hafði farið suður í Vogastefnu og hafði byrðing er hann átti og nær tuttugu menn á og hans var þá sunnan von. Þeir Ásmundur fóru leið sína suður með landi og höfðu andviðri og þó vind lítinn. Sigldu skip í móti þeim, þau er voru af Vogaflota. Spurðu þeir þá af hljóði að um farar Ásbjarnar. Var þeim svo sagt að hann mundi þá sunnan á leið. Þeir Ásmundur og Karli voru rekkjufélagar og var þar hið kærsta.

Það var einn dag er þeir Ásmundur reru fram eftir sundi nokkuru þá sigldi byrðingur móti þeim. Var það skip auðkennt. Það var hlýrbirt, steint bæði hvítum steini og rauðum. Þeir höfðu segl stafað með vendi.

Þá mælti Karli við Ásmund: «Oft ræðir þú um að þér sé forvitni mikil á að sjá hann Ásbjörn Selsbana. Eigi kann eg skip að kenna ef eigi siglir hann þar.»

Ásmundur svarar: «Ger svo vel lagsmaður, seg mér til ef þú kennir hann.»

Þá renndust hjá skipin og mælti Karli: «Þar situr hann Selsbani við stýrið í blám kyrtli.»

Ásmundur svarar: «Eg skal fá honum rauðan kyrtil.»

Síðan skaut hann Ásmundur að Ásbirni Selsbana spjóti og kom á hann miðjan, flaug í gegnum hann svo að fast stóð fram í höfðafjölinni. Féll Ásbjörn dauður frá stýrinu. Fóru síðan hvorirtveggju leiðar sinnar.

Fluttu þeir lík Ásbjarnar norður á Þrándarnes. Lét þá Sigríður senda eftir Þóri hund til Bjarkeyjar. Kom hann til er búið var um lík Ásbjarnar eftir sið þeirra.

En er þeir fóru í brott valdi Sigríður vinum sínum gjafir. Hún leiddi Þóri til skips en áður þau skildust mælti hún: «Svo er nú Þórir að Ásbjörn sonur minn hlýddi ástráðum þínum. Nú vannst honum eigi líf til að launa það sem vert var. Nú þótt eg sé verr til fær en hann mundi vera þá skal eg þó hafa vilja til. Nú er hér gjöf er eg vil gefa þér og vildi eg að þér kæmi vel í hald.» Það var spjót. «Hér er nú spjót það er stóð í gegnum Ásbjörn son minn og er þar enn blóðið á. Máttu þá heldur muna að það mun hæfast og sár það er þú sást á Ásbirni bróðursyni þínum. Nú yrði þér þá skörulega ef þú létir þetta spjót svo af höndum að það stæði í brjósti Ólafi digra. Nú mæli eg það um,» segir hún, «að þú verðir hvers manns níðingur ef þú hefnir eigi Ásbjarnar.»

Sneri hún þá í brott. Þórir varð svo reiður orðum hennar að hann mátti engu svara og eigi gáði hann spjótið laust láta og eigi gáði hann bryggjunnar og mundi hann ganga á kaf ef eigi tækju menn til hans og styddu hann er hann gekk út á skipið. Það var málaspjót ekki mikið og gullrekinn falurinn á. Reru þeir Þórir þá í brott og heim til Bjarkeyjar.

Ásmundur og þeir félagar fóru leið sína til þess er þeir komu suður til Þrándheims og á fund Ólafs konungs. Sagði Ásmundur þá konungi hvað til tíðinda hafði gerst í förum hans. Gerðist Karli hirðmaður konungs. Héldu þeir Ásmundur vel vináttu sína. En orðtök þau er þeir Ásmundur og Karli höfðu mælst við áður víg Ásbjarnar varð, þá fór það ekki leynt því að þeir sjálfir sögðu konungi frá því. En þar var sem mælt er að hver á vin með óvinum. Voru þeir þar sumir er slíkt hugfestu og þaðan af kom það til Þóris hunds.

124. Frá Ólafi konungi

Ólafur konungur bjóst um vorið er á leið og bjó skip sín. Síðan fór hann um sumarið suður með landi, átti þing við bændur, sætti menn og siðaði land, tók og konungsskyldir hvar sem hann fór. Fór konungur um haustið allt austur til landsenda. Hafði Ólafur konungur þá kristnað land þar sem stórhéruð voru. Þá hafði hann og skipað lögum um land allt. Hann hafði þá og lagt undir sig Orkneyjar svo sem fyrr var sagt.

Hann hafði og haft orðsendingar og gert sér marga vini bæði á Íslandi og Grænlandi og svo í Færeyjum. Ólafur konungur hafði sent til Íslands kirkjuvið og var sú kirkja ger á Þingvelli þar er alþingi er. Hann sendi með klukku mikla þá er enn er þar. Það var þá eftir er Íslendingar höfðu fært lög sín og sett kristinn rétt eftir því sem orð hafði til send Ólafur konungur.

Síðan fóru af Íslandi margir metorðamenn þeir er handgengnir gerðust Ólafi konungi. Þar var Þorkell Eyjólfsson, Þorleikur Bollason, Þórður Kolbeinsson, Þórður Barkarson, Þorgeir Hávarsson, Þormóður Kolbrúnarskáld.

Ólafur konungur hafði sent vingjafir mörgum höfðingjum til Íslands en þeir sendu honum þá hluti er þar fengust og þeir væntu að honum mundi helst þykja sending í. En í þessu vináttumarki er konungur gerði til Íslands bjuggu enn fleiri hlutir þeir er síðan urðu berir.

125. Frá ráðagerð Íslendinga

Ólafur konungur sendi þetta sumar Þórarin Nefjólfsson til Íslands með erindum sínum og hélt Þórarinn skipi sínu þá út úr Þrándheimi er konungur fór og fylgdi honum suður á Mæri.

Sigldi Þórarinn þá á haf út og fékk svo mikið hraðbyri að hann sigldi á átta dægrum til þess er hann tók Eyrar á Íslandi og fór þegar til alþingis og kom þar er menn voru að Lögbergi, gekk þegar til Lögbergs.

En er menn höfðu þar mælt lögskil þá tók Þórarinn til máls Nefjólfsson: «Eg skildist fyrir fjórum nóttum við Ólaf konung Haraldsson. Sendi hann kveðju hingað til lands öllum höfðingjum og landstjórnarmönnum og þar með allri alþýðu karla og kvinna, ungum manni og gömlum, sælum og veslum, guðs og sína, og það með að hann vill vera yðar drottinn ef þér viljið vera hans þegnar en hvorir annarra vinir og fulltingsmenn til allra góðra hluta.»

Menn svöruðu vel máli hans. Kváðust allir það fegnir vilja að vera vinir konungs ef hann væri vinur hérlandsmanna.

Þá tók Þórarinn til máls: «Það fylgir kveðjusending konungs að hann vill þess beiðast í vináttu af Norðlendingum að þeir gefi honum ey eða útsker er liggur fyrir Eyjafirði er menn kalla Grímsey, vill þar í mót leggja þau gæði af sínu landi er menn kunna honum til að segja en sendi orð Guðmundi á Möðruvöllum til að flytja þetta mál því að hann hefir það spurt að Guðmundur ræður þar mestu.»

Guðmundur svarar: «Fús em eg til vináttu Ólafs konungs og ætla eg mér það til gagns miklu meira en útsker það er hann beiðist til. En þó hefir konungur það eigi rétt spurt að eg eigi meira vald á því en aðrir því að það er nú að almenning gert. Nú munum vér eiga stefnu að vor á milli, þeir menn er mest hafa gagn af eyjunni.»

Ganga menn síðan til búða. Eftir það eiga Norðlendingar stefnu milli sín og ræða þetta mál. Lagði þá hver til slíkt er sýndist. Var Guðmundur flytjandi þessa máls og sneru þar margir aðrir eftir því.

Þá spurðu menn hví Einar bróðir hans ræddi ekki um. «Þykir oss hann kunna,» segja þeir, «flest glöggst að sjá.»

Þá svarar Einar: «Því em eg fáræðinn um þetta mál að engi hefir mig að kvatt. En ef eg skal segja mína ætlan þá hygg eg að sá muni til vera hérlandsmönnum að ganga eigi undir skattgjafir við Ólaf konung og allar álögur hér, þvílíkar sem hann hefir við menn í Noregi. Og munum vér eigi það ófrelsi gera einum oss til handa heldur bæði oss og sonum vorum og allri ætt vorri þeirri er þetta land byggir og mun ánauð sú aldregi ganga eða hverfa af þessu landi. En þótt konungur sjá sé góður maður, sem eg trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til þá er konungaskipti verður að þeir eru ójafnir, sumir góðir en sumir illir. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir þær er til lýðskyldu megi metast. En hitt kalla eg vel fallið að menn sendi konungi vingjafir, þeir er það vilja, hauka eða hesta, tjöld eða segl eða aðra þá hluti er sendilegir eru. Er því þá vel varið ef vinátta kemur í mót. En um Grímsey er það að ræða ef þaðan er engi hlutur fluttur sá er til matfanga er þá má þar fæða her manns. Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan þá ætla eg mörgum kotbóndunum muni þykja verða þröngt fyrir durum.»

Og þegar er Einar hafði þetta mælt og innt allan útveg þenna þá var öll alþýða snúin með einu samþykki að þetta skyldi eigi fást. Sá Þórarinn þá erindislok sín um þetta mál.

126. Frá svörum Íslendinga

Þórarinn gekk annan dag til Lögbergs og mælti þá enn erindi og hóf svo: «Ólafur konungur sendi orð vinum sínum hingað til lands, nefndi til þess Guðmund Eyjólfsson, Snorra goða, Þorkel Eyjólfsson, Skafta lögsögumann, Þorstein Hallsson. Hann sendi yður til þess orð að þér skylduð fara á fund hans og sækja þangað vináttuboð. Mælti hann það að þér skylduð þessa ferð eigi undir höfuð leggjast ef yður þætti nokkuru varða um hans vináttu.»

Þeir svöruðu því máli, þökkuðu konungi boð sitt, kváðust þetta segja mundu Þórarni síðar um ferðir sínar þá er þeir hefðu ráðið fyrir sér og við vini sína.

En er þeir höfðingjar tóku ræður sín í milli þá sagði hver sem sýndist um ferð þessa. Snorri goði og Skafti löttu þess að leggja á þá hættu við Noregsmenn að allir senn færu af Íslandi og þangað þeir menn er mest réðu fyrir landi. Sögðu þeir að af þessi orðsending þótti þeim heldur grunir á dregnir um það er Einar hafði getið, að konungur mundi ætla til pyndinga nokkurra við Íslendinga ef hann mætti ráða.

Guðmundur og Þorkell Eyjólfsson fýstu mjög að skipast við orðsending Ólafs konungs og kölluðu það sæmdarferð mikla mundu.

En er þeir knjáðu þetta mál milli sín þá staðfestist það helst með þeim að þeir sjálfir skyldu eigi fara en hver þeirra skyldi gera mann af hendi sinni, þann er þeim þætti best til fallinn, og skildust á því þingi við svo búið og urðu engar utanferðir á því sumri.

En Þórarinn fór tvívegis um sumarið og kom um haustið á fund Ólafs konungs og segir honum sitt erindi, slíkt er orðið var og svo það með að höfðingjar mundu koma af Íslandi svo sem hann hafði orð til sent eða synir þeirra ellegar.

127. Frá Færeyingum

Það sama sumar komu utan af Færeyjum til Noregs að orðsending Ólafs konungs Gilli lögsögumaður, Leifur Össurarson, Þórálfur úr Dímon og margir aðrir bóndasynir. En Þrándur í Götu bjóst til ferðar. En er hann var búinn mjög þá tók hann fælisótt þá er hann var hvergi fær og dvaldist hann eftir.

En er þeir Færeyingar komu á fund Ólafs konungs þá kallaði hann þá á tal og átti stefnu við þá. Lauk hann þá upp við þá erindi þau er undir bjuggu ferðinni og segir þeim að hann vildi hafa skatt af Færeyjum og það með að Færeyingar skyldu hafa þau lög sem Ólafur konungur setti þeim. En á þessi stefnu fannst það á orðum konungs að hann mundi taka festu til þessa máls af þeim færeyskum mönnum er þá voru þar komnir ef þeir vildu það sáttmál svardögum binda, bauð þeim mönnum er honum þóttu þar ágæstir að þeir skyldu gerast honum handgengnir og þiggja af honum metorð og vináttu.

En þeim hinum færeyskum virtist svo orð konungs sem grunur mundi á vera hvernug þeirra mál mundi snúast ef þeir vildu eigi undir það allt ganga sem konungur beiddi þá. En þó að til þessa máls yrðu fleiri stefnulög áður en það lyktist þá varð það framgengt allt er konungur beiddist. Gengu þeir til handa konungi og gerðust hirðmenn hans, Leifur og Gilli og Þórálfur, en allir þeir förunautar veittu svardaga Ólafi konungi til þess að halda í Færeyjum þau lög og þann landsrétt sem hann setti þeim og skattgildi það er hann kvað á.

Síðan bjuggust þeir hinir færeysku til heimferðar. En að skilnaði veitti konungur þeim vingjafir. En þeir er honum höfðu handgengnir gerst, fara þeir ferðar sinnar þá er þeir voru búnir.

En konungur lét búa skip og fékk manna til og sendi þá menn til Færeyja að taka þar við skatti þeim er Færeyingar skyldu gjalda honum. Þeir urðu ekki snemmbúnir og er frá ferð þeirra það að segja að þeir koma eigi aftur og engi skattur á því sumri er næst var eftir því að þeir höfðu ekki komið til Færeyja. Hafði þar engi maður skatt heimtan.

128. Kvonfang Ketils og Þórðar

Ólafur konungur fór um haustið inn í Víkina og gerði orð fyrir sér til Upplanda og lét boða veislur og ætlar hann sér um veturinn að fara um Upplönd. Síðan byrjar hann ferðina og fór til Upplanda. Dvaldist Ólafur konungur þann vetur á Upplöndum, fór þar að veislum og leiðrétti þá hluti þar er honum þótti ábótavant, samdi þá þar enn kristnina er honum þótti þurfa.

Það gerðist til tíðinda þá er konungur var á Heiðmörk að Ketill kálfur af Hringunesi hóf upp bónorð sitt. Hann bað Gunnhildar dóttur Sigurðar sýrs og dóttur Ástu. Var Gunnhildur systir Ólafs konungs. Átti konungur svör og forráð máls þess. Hann tók því vænlega. Var það fyrir þá sök að hann vissi um Ketil að hann var ættstór og auðigur, vitur maður, höfðingi mikill. Hann hafði og lengi áður verið vinur Ólafs konungs mikill svo sem hér er fyrr sagt. Það allt saman bar til þess að konungur unni ráðs þessa Katli. Var þetta framgengt að Ketill fékk Gunnhildar. Var Ólafur konungur að þessi veislu.

Ólafur konungur fór norður í Guðbrandsdala, tók þar veislur. Þar bjó sá maður er hét Þórður Guttormsson á bæ þeim er á Steig heitir. Þórður var maður ríkastur í hinn nyrðra hlut Dala.

En er þeir konungur hittust þá hóf Þórður upp bónorð sitt og bað Ísríðar Guðbrandsdóttur móðursystur Ólafs konungs. Átti þar konungur svör þessa máls. En er að þeim málum var setið þá var það afráðið að þau ráð tókust og fékk Þórður Ísríðar. Gerðist hann síðan ölúðarvinur Ólafs konungs og þar með margir aðrir frændur Þórðar og vinir, þeir er eftir honum hurfu.

Fór Ólafur konungur þá aftur suður um Þótn og Haðaland, þá á Hringaríki og þaðan út í Víkina. Fór hann um vorið til Túnsbergs og dvaldist þar lengi meðan þar var kaupstefna mest og tilflutning. Lét hann þá búa skip sín og hafði með sér fjölmenni mikið.

129. Frá Íslendingum

Sumar þetta komu af Íslandi, að orðsending Ólafs konungs, Steinn sonur Skafta lögsögumanns, Þóroddur sonur Snorra goða, Gellir sonur Þorkels, Egill sonur Síðu-Halls, bróðir Þorsteins. Guðmundur Eyjólfsson hafði andast áður um veturinn.

Þeir hinir íslensku menn fóru þegar á fund Ólafs konungs er þeir máttu við komast. En er þeir hittu konung fengu þeir þar góðar viðtökur og voru allir með honum.

Það sama sumar spurði Ólafur konungur að skip það var horfið er hann hafði sent til Færeyja eftir skatti hið fyrra sumar og það hafði hvergi til landa komið svo að spurt væri. Konungur fékk þá til skip annað og þar menn með og sendi til Færeyja eftir skatti. Fóru þeir menn og létu í haf en síðan spurðist ekki til þeirra heldur en til hinna fyrri. Og voru þar margar getur á hvað af skipum þeim mundi orðið.

130. Upphaf Knúts ríka

Knútur hinn ríki, er sumir kalla hinn gamla Knút, hann var konungur í þann tíð yfir Englandi og yfir Danaveldi. Knútur ríki var sonur Sveins tjúguskeggs Haraldssonar. Þeir langfeðgar höfðu ráðið langa ævi fyrir Danmörku.

Haraldur Gormsson föðurfaðir Knúts hafði eignast Noreg eftir fall Haralds Gunnhildarsonar og tekið af skatta, sett þar til landsgæslu Hákon jarl hinn ríka. Sveinn Danakonungur sonur Haralds réð og fyrir Noregi og setti yfir til landsgæslu Eirík jarl Hákonarson. Réðu þeir bræður þá landi og Sveinn Hákonarson til þess er Eiríkur jarl fór vestur til Englands að orðsending Knúts hins ríka mágs síns en setti þá eftir til ríkis í Noregi Hákon jarl son sinn og systurson Knúts hins ríka mágs síns.

En síðan er Ólafur digri kom í Noreg þá tók hann fyrst höndum Hákon jarl og setti hann af ríki svo sem fyrr er ritið. Fór þá Hákon til Knúts móðurbróður síns og hafði verið síðan með honum alla stund til þess er hér er komið sögunni.

Knútur hinn ríki hafði unnið England með orustum og barist til og hafði langt starf áður en landsfólkið hefði honum hlýðið orðið. En er hann þóttist fullkominn þar til landstjórnar þá minntist hann hvað hann þóttist eiga þess ríkis er hann hafði eigi sjálfur varðveislu yfir en það var í Noregi. Hann þóttist eiga að erfðum Noreg allan en Hákon systurson hans þóttist eiga suman og það með að hann þóttist með svívirðing látið hafa.

Sá var einn hlutur til þess er þeir Knútur og Hákon höfðu kyrru haldið um tilkall í Noreg að þá fyrst er Ólafur Haraldsson kom í land hljóp upp allur múgur og margmenni og vildi ekki heyra annað en Ólafur skyldi vera konungur yfir landi öllu. En þá síðan er menn þóttust verða ósjálfráðir fyrir ríki hans þá leituðu sumir í brott úr landi. Höfðu farið mjög margir ríkismenn á fund Knúts konungs eða ríkra bónda synir og gefið sér ýmist til erinda. En hver þeirra er kom á fund Knúts konungs og hann vildi þýðast þá fengu allir af honum fullar hendur fjár. Mátti þar og sjá tign miklu meiri en í öðrum stöðum bæði að fjölmenni því er þar var sídægris og umbúnaði þeim öðrum er þar var í þeim herbergjum er hann átti og hann var sjálfur í.

Knútur hinn ríki tók skatt og skyld af þeim þjóðlöndum er auðgust voru á Norðurlöndum en þeim mun öllum er hann átti meiri að taka en aðrir konungar þá gaf hann og því öllu meira en hver konungur annarra. Í öllu ríki hans var friður svo góður að engi þorði þar á að ganga en sjálfir landsmenn höfðu frið og fornan landsrétt. Af slíku fékkst honum frægð mikil um öll lönd.

En þeir er af Noregi komu kærðu ófrelsi sitt margir og tjáðu það fyrir Hákoni jarli en sumir fyrir sjálfum konungi að Noregsmenn mundu þá vera búnir til að hverfa aftur undir Knút konung og jarlinn og þiggja af þeim frelsi sitt. Þessar ræður féllu jarli vel í skap og kærði það fyrir konungi og bað hann leita eftir ef Ólafur konungur vildi upp gefa ríkið fyrir þeim eða miðla með sáttmáli nokkuru. Voru hér margir flutningsmenn með jarli í sinni.

131. Frá sendimönnum Knúts konungs

Knútur hinn ríki sendi menn vestan af Englandi til Noregs og var þeirra ferð búin allveglega. Höfðu þeir bréf og innsigli Englakonungs, Knúts. Þeir komu á fund Ólafs Haraldssonar Noregskonungs um vorið í Túnsbergi.

En er konungi var sagt að þar voru komnir sendimenn Knúts hins ríka þá varð hann styggur við, segir svo að Knútur mundi enga menn þangað senda með þeim erindum er honum eða hans mönnum mundi gagn í vera og var það nokkura daga er sendimenn náðu ekki fundi konungs.

En er þeir fengu lof til að mæla við hann þá gengu þeir fyrir konung og báru fram bréf Knúts konungs og segja erindi þau sem fylgdu að Knútur konungur kallar sína eign á Noregi öllum og telur að hans foreldrar hafa það ríki haft fyrir honum. En fyrir þeim sökum að Knútur konungur vill frið bjóða til allra landa þá vill hann eigi herskildi fara til Noregs ef annars er af kostur. En ef Ólafur konungur Haraldsson vill vera konungur yfir Noregi þá fari hann á fund Knúts konungs og taki landið í lén af honum og gerist hans maður og gjaldi honum skatta slíka sem jarlar guldu fyrr. Síðan báru þeir bréf fram og sögðu þau allt slíkt hið sama.

Þá svarar Ólafur konungur: «Það hefi eg heyrt sagt í fornum frásögnum að Gormur konungur Dana þótti vera gildur þjóðkonungur og réð hann fyrir Danmörku einni. En þessum Danakonungum er síðar hafa verið þykir það ekki einhlítt. Er nú svo komið að Knútur ræður fyrir Danmörku og fyrir Englandi og hefir hann þó nú undir sig brotið mikinn hluta Skotlands. Nú kallar hann til ættleifðar minnar í hendur mér. Kunna skyldi hann hóf að um síðir um ágirni sína. Eða mun hann einn ætla að ráða fyrir öllum Norðurlöndum? Eða mun hann einn ætla að eta kál allt á Englandi? Fyrr mun hann því afla en eg færi honum höfuð mitt eða veiti honum lotning né eina. Nú skuluð þér segja honum þau mín orð að eg mun verja oddi og eggju Noreg meðan mér endast lífdagar til, enda gjalda engum manni skatt af ríki mínu.»

Eftir þenna úrskurð bjuggust á brott sendimenn Knúts konungs og voru eigi erindi fegnir.

Sighvatur skáld hafði verið með Knúti konungi og gaf Knútur konungur honum gullhring þann er stóð hálfa mörk. Þá var og þar með Knúti konungi Bersi Skáld-Torfuson og gaf Knútur konungur honum tvo gullhringa og stóð hvor hálfa mörk og þar með sverð búið.

Svo kvað Sighvatur:

Knútr hefir okkr hinn ítri,
alldáðgöfugr báðum
hendr, er hilmi fundum,
húnn, skrautlega búnar.
Þér gaf hann mörk eða meira
margvitr og hjör bitran
gulls, ræðr gerva öllu
guð sjálfr, en mér hálfa.

Sighvatur gerði að athvarfi við sendimenn Knúts konungs og spurði þá margra tíðinda.

Þeir sögðu honum slíkt er hann spurði af viðræðum þeirra Ólafs konungs og svo frá erindislokum. Þeir segja að hann hefði þunglega tekið þeirra málum. «Og vitum vér eigi,» segja þeir, «af hverjum hann hefir traust til slíks, að neita því að gerast maður Knúts konungs og fara á fund hans. Og mundi sá hans kostur bestur því að Knútur konungur er svo mildur að aldrei gera höfðingjar svo stórt til við hann að eigi gefi hann það allt upp þegar er þeir fara á fund hans og veita honum lotning. Var það nú fyrir skömmu er til hans komu tveir konungar norðan af Skotlandi af Fífi og gaf hann þeim upp reiði sína og lönd þau öll er þeir höfðu áður átt og þar með stórar vingjafir.»

Þá kvað Sighvatur:

Hafa allframir jöfrar
út sín höfuð Knúti
færð úr Fífi norðan,
friðkaup var það, miðju.
Seldi Ólafr aldrei,
oft vó sigr, hinn digri
haus í heimi þvísa,
hann, engum svo manni.

Sendimenn Knúts konungs fóru aftur leið sína og byrjaði þeim vel um hafið. Fóru þeir síðan á fund Knúts konungs og sögðu honum erindislok sín og svo þau ályktarorð er Ólafur konungur mælti síðast við þá.

Knútur konungur svarar: «Eigi getur Ólafur konungur rétt ef hann ætlar að eg muni einn vilja eta kál allt á Englandi. Eg mundi vilja heldur að hann fyndi það að mér býr fleira innan rifja en kál eitt því að héðan skulu honum köld ráð koma undan hverju rifi.»

Það sama sumar komu af Noregi til Knúts konungs Áslákur og Skjálgur synir Erlings af Jaðri og fengu þar góðar viðtökur því að Áslákur átti Sigríði dóttur Sveins jarls Hákonarsonar. Voru þau bræðrabörn og Hákon jarl Eiríksson. Fékk Knútur konungur þeim bræðrum veislur stórar þar með sér.

132. Frá Ólafi konungi

Ólafur konungur stefndi til sín lendum mönnum sínum og fjölmenntist mjög um sumarið því að þau fóru orð um að Knútur hinn ríki mundi fara vestan um sumarið. Þóttust menn það spyrja af kaupskipum þeim er vestan komu að Knútur mundi saman draga her mikinn á Englandi. En er á leið sumarið þá sannaði annar en annar synjaði að her mundi koma.

En Ólafur konungur var um sumarið í Víkinni og hafði menn á njósn ef Knútur konungur kæmi til Danmerkur. Ólafur konungur sendi menn um haustið austur til Svíþjóðar á fund Önundar konungs mágs síns og lét segja honum orðsendingar Knúts konungs og tilkall það er hann hafði við Ólaf konung um Noreg og lét það fylgja að hann hygði, ef Knútur legði Noreg undir sig, að Önundur mundi litla hríð þaðan í frá í friði hafa Svíaveldi og kallar það ráð að þeir byndu saman ráð sín og risu í móti og segir að þá skorti eigi styrk til að halda deilu við Knút konung.

Önundur konungur tók vel orðsending Ólafs konungs og sendi þau orð í mót að hann vill leggja félagsskap af sinni hendi við Ólaf konung svo að hvor þeirra veitti öðrum styrk til af sínu ríki, hvor sem fyrr þarf. Það var og í orðsending milli þeirra að þeir skyldu finnast og ætla ráð fyrir sér. Ætlaði Önundur konungur að fara um veturinn eftir yfir Vestra-Gautland en Ólafur konungur efnaði sér til vetursetu í Sarpsborg.

Knútur hinn ríki kom það haust til Danmerkur og sat þar um veturinn með fjölmenni mikið. Honum var sagt að menn og orðsendingar hefðu farið milli Noregskonungs og Svíakonungs og þar mundi stórræði undir búa. Knútur konungur sendi menn um veturinn til Svíþjóðar á fund Önundar konungs, sendi honum stórar gjafir og vinmæli, segir svo að hann mætti vel kyrr sitja um deilur þeirra Ólafs digra «því að Önundur konungur,» segir hann, «og ríki hans skal í friði vera fyrir mér.»

En er sendimenn komu á fund Önundar konungs þá báru þeir fram gjafir þær er Knútur konungur sendi honum og vináttu hans með. Önundur konungur tók þeim ræðum ekki fljótt og þóttust sendimenn það á finna að Önundur konungur mundi vera mjög snúinn til vináttu við Ólaf konung. Fóru þeir aftur og segja Knúti konungi erindislok sín og það með að þeir báðu hann engrar vináttu vænta af Önundi konungi.

133. Bjarmalandsferð

Vetur þann sat Ólafur konungur í Sarpsborg og hafði fjölmenni mikið. Þá sendi hann Karla hinn háleyska norður í land með erindum sínum. Fór Karli fyrst til Upplanda, síðan norður um fjall, kom fram í Niðarósi, tók þar fé konungs, svo mikið sem hann hafði orð til send, og skip gott, það er honum þótti vel til fallið ferðar þeirrar er konungur hafði fyrir ætlað en það var að fara til Bjarmalands norður. Var svo ætlað að Karli skyldi hafa félag konungs og eiga hálft fé hvor við annan.

Karli hélt skipinu norður á Hálogaland snemma um vorið. Réðst þá til ferðar með honum Gunnsteinn bróðir hans og hafði hann sér kaupeyri. Þeir voru nær hálfum þriðja tigi manna á skipi því, fóru þegar um vorið snemmendis norður á Mörkina.

Þórir hundur spurði þetta. Þá gerði hann menn og orðsending til þeirra bræðra og það með að hann ætlar að fara um sumarið til Bjarmalands, vill hann að þeir hafi samflot og hafi að jafnaði það er til fengjar verður.

Þeir Karli senda þau orð að móti að Þórir skuli hafa hálfan þriðja tug manna svo sem þeir höfðu. Vilja þeir þá, að af fé því er fæst, sé skipt að jafnaði milli skipanna fyrir utan kaupeyri þann er menn höfðu.

En er sendimenn Þóris komu aftur þá hafði hann fram látið setja langskipsbússu mikla er hann átti og látið búa. Hann hafði til skips þess húskarla sína og voru á skipinu nær átta tigum manna. Hafði Þórir einn forráð liðs þess og svo aflan þá alla er fengist í ferðinni.

En er Þórir var búinn hélt hann skipi sínu norður með landi og hitti þá Karla norður í Sandveri. Síðan fóru þeir allir saman og byrjaði vel.

Gunnsteinn ræddi við Karla bróður sinn þegar er þeir Þórir hittust að honum þótti Þórir vera helsti fjölmennur. «Og ætla eg,» segir hann, «að það væri ráðlegra að vér snerum aftur og færum ekki svo, að Þórir ætti alla kosti við oss því að eg trúi honum illa.»

Karli segir: «Eigi vil eg aftur hverfa en þó er það satt ef eg hefði vitað þá er vér vorum heima í Langey að Þórir hundur mundi koma í ferð vora með lið svo mikið sem hann hefir að vér mundum hafa haft fleiri manna með oss.»

Þeir bræður ræddu þetta við Þóri, spurðu hverju það gegndi er hann hafði menn miklu fleiri með sér en svo sem orð höfðu um farið.

Hann svarar svo: «Vér höfum skip mikið og liðskylft. Þykir mér í háskaförum slíkum eigi góðum dreng aukið.»

Fóru þeir um sumarið oftast þannug sem skipin gengu til. Þá er byrlétt var gekk meira skipið þeirra Karla, sigldu þeir þá undan en þá er hvassara var sóttu þeir Þórir þá eftir. Voru þeir sjaldan allir saman en vissust þó til jafnan.

En er þeir komu til Bjarmalands þá lögðu þeir til kaupstaðar. Tókst þar kaupstefna. Fengu þeir menn allir fullræði fjár er fé höfðu til að verja. Þórir fékk óf grávöru og bjór og safala. Karli hafði og allmikið fé það er hann keypti skinnavöru marga.

En er þar var lokið kaupstefnu þá héldu þeir út eftir ánni Vínu. Var þá sundur sagt friði við landsmenn. En er þeir koma til hafs út þá eiga þeir skiparastefnu. Spyr Þórir ef mönnum sé nokkur hugur á að ganga upp á land og fá sér fjár. Menn svöruðu að þess voru fúsir ef féföng lægju brýn við.

Þórir segir að fé mundi fást ef ferð sú tækist vel «en eigi óvænt að mannhætta gerist í förinni.»

Allir sögðu að til vildu ráða ef fjárvon væri.

Þórir segir að þannug væri háttað þá er auðgir menn önduðust að lausafé skyldi skipta með hinum dauða og örfum hans. Skyldi hann hafa hálft eða þriðjung en stundum minna. Það fé skyldi bera út í skóga, stundum í hauga og ausa við moldu. Stundum voru hús að ger. Hann segir að þeir skyldu búast til ferðarinnar að kveldi dags.

Svo var mælt að engi skyldi renna frá öðrum, engi skyldi og eftir vera þá er stýrimenn segðu að í brott skyldi. Þeir létu menn eftir að gæta skipa en þeir gengu á land upp. Voru fyrst vellir sléttir en þar næst mörk mikil. Þórir gekk fyrr en þeir bræður Karli og Gunnsteinn.

Þórir bað menn fara hljóðsamlega: «Og hleypið af trjánum berki svo að hvert tré sjái frá öðru.»

Þeir komu fram í rjóður eitt mikið en í rjóðrinu var skíðgarður hár, hurð fyrir og læst. Sex menn af landsmönnum skyldu vaka yfir skíðgarðinum hverja nótt, sinn þriðjung hverjir tveir. Þá er þeir Þórir komu til skíðgarðsins voru vökumenn heim gengnir en þeir er þar næst skyldu vaka voru eigi komnir á vörðinn. Þórir gekk að skíðgarðinum og krækti upp á öxinni, las sig upp eftir, fór svo inn um garðinn öðrum megin hliðsins. Hafði Karli þá og komist yfir garðinn öðrum megin hliðsins. Komu þeir jafnsnemma til hurðarinnar, tóku þá frá slagbranda og luku upp hurðina. Gengu menn þá inn í garðinn.

Mælti Þórir: «Í garði þessum er haugur, hrært allt saman gull og silfur og mold. Skulu menn þar til ráða. En í garðinum stendur goð Bjarma er heitir Jómali. Verði engi svo djarfur að hann ræni.»

Síðan ganga þeir á hauginn og tóku fé sem mest máttu þeir og báru í klæði sín. Fylgdi þar mold mikil sem von var.

Síðan mælti Þórir að menn skyldu í brott fara. Segir hann svo: «Nú skuluð þið bræður Karli og Gunnsteinn fyrstir fara en eg mun síðast.»

Sneru þeir þá allir út til hliðsins. Þórir veik aftur til Jómala og tók silfurbolla er stóð í knjám honum. Hann var fullur af silfurpeningum. Steypti hann silfrinu í kilting sína en dró á hönd sér höddu er yfir var bollanum, gekk þá út til hliðsins.

Þeir förunautar voru þá komnir allir út úr skíðgarðinum, urðu þá varir við að Þórir hafði eftir dvalist. Karli hvarf aftur að leita hans og hittust þeir fyrir innan hliðið. Sá Karli að Þórir hafði þar silfurbollann. Síðan rann Karli að Jómalanum. Hann sá að digurt men var á hálsi honum. Karli reiddi til öxina og hjó í sundur tygilinn aftan á hálsinum er menið var fest við. Varð högg það svo mikið að höfuðið hraut af Jómala. Varð þá brestur svo mikill að öllum þeim þótti undur að. Tók Karli menið. Fóru þeir þá í brott.

En jafnskjótt sem bresturinn hafði orðið komu fram í rjóðrið varðmennirnir og blésu þegar í horn sín. Því næst heyrðu þeir lúðragang alla vega frá sér. Sóttu þeir þá fram að skóginum og í skóginn en heyrðu til rjóðursins aftur óp og kall. Voru þar Bjarmar komnir.

Þórir hundur gekk síðast allra manna liðs síns. Tveir menn gengu fyrir honum og báru fyrir honum sekk. Þar var í því líkast sem aska. Þar tók Þórir í hendi sinni og söri því eftir í slóðina, stundum kastaði hann því fram yfir liðið, fóru svo fram úr skóginum á völluna. Þeir heyrðu að her Bjarma fór eftir þeim með kalli og gaulun illilegri. Þustu þeir þá fram úr skóginum eftir þeim og svo á tvær hliðar þeim en hvergi komu Bjarmar svo nær þeim eða vopn þeirra að mein yrði að. En það könnuðu þeir af að Bjarmar sæju þá eigi.

En er þeir komu til skipanna þá gengu þeir Karli fyrstir á skip, því að þeir voru fremstir áður, en Þórir var lengst á landinu. Þegar er þeir Karli komust á skip sitt köstuðu þeir tjöldum af sér og slógu festum. Síðan drógu þeir segl sitt upp. Gekk skipið brátt út á hafið.

En þeim Þóri tókst allt seinna. Var skip þeirra óauðráðnara. En er þeir tóku til segls þá voru þeir Karli komnir langt undan landi. Sigldu þá hvorirtveggju yfir Gandvík. Nótt var þá enn ljós. Sigldu þeir þá bæði nætur og daga allt til þess er þeir Karli lögðu aftan dags að eyjum nokkurum, lögðu þar segl og köstuðu akkerum og biðu þar straumfalls því að röst mikil var fyrir þeim.

Þá koma þeir Þórir eftir. Leggjast þeir og um akkeri. Síðan skutu þeir báti. Gekk Þórir á og menn með honum og reru þeir þá til skips þeirra Karla. Gekk Þórir upp á skipið. Þeir bræður heilsuðu honum vel.

Þórir bað Karla selja sér menið. «Þykist eg maklegastur að hafa kostgripi þá er þar voru teknir því að mér þóttuð þér mín njóta er undankoma vor var með engum mannháska. En mér þóttir þú Karli stýra oss til hins mesta geigs.»

Þá segir Karli: «Ólafur konungur á fé það allt að helmingi er eg afla í ferð þessi. Nú ætla eg honum menið. Far þú á fund hans ef þú vilt, kann þá vera að hann fái þér menið ef hann vill fyrir því eigi hafa er eg tók það af Jómalanum.»

Þá svarar Þórir og segir að hann vill að þeir fari upp á eyna og skipti fengi sínu. Gunnsteinn segir að þá skipti straumum og mál væri að sigla. Síðan draga þeir upp strengi sína.

En er Þórir sá það fór hann ofan í bátinn. Reru þeir til skips síns. Þeir Karli höfðu þá dregið segl sitt og voru langt komnir áður þeir Þórir hefðu upp komið sínu segli. Fóru þeir þá svo að þeir Karli sigldu ávallt fremri og höfðu við hvorirtveggju allt slíkt er máttu. Þeir fóru svo til þess er þeir komu í Geirsver. Þar er bryggjulægi fyrst er norðan fer. Þar komu þeir fyrst hvorirtveggju aftan dags og lögðu þar til hafnar í bryggjulægi. Lágu þeir Þórir inn í höfninni en þeir Karli voru í utanverðri höfninni.

En er þeir Þórir höfðu tjaldað þá gekk hann á land upp og þeir menn mjög margir saman. Fóru þeir til skips Karla. Höfðu þeir þá um búist. Þórir kallaði út á skipið og bað stýrimenn á land ganga. Þeir bræður gengu á land og nokkurir menn með þeim.

Þá hóf Þórir hina sömu ræðu sem fyrr að hann bað þá á land ganga og bera fé til skiptis er þeir höfðu tekið að herfangi. Þeir bræður sögðu að engi væri nauðsyn á því fyrr en þeir kæmu heim í byggð. Þórir segir að það var eigi siðvenja að skipta herfangi eigi fyrr en heima og hætta svo til um einurð manna. Þeir ræddu um þetta nokkurum orðum og þótti sinn veg hvorum. Þá sneri Þórir í brott.

Og er hann var skammt kominn þá veik hann aftur og mælti að förunautar hans skyldu bíða þar. Hann kallar á Karla: «Eg vil mæla við þig einmæli,» segir hann.

Karli gekk í móti honum. En er þeir hittust lagði Þórir spjóti til hans á honum miðjum svo að í gegnum stóð.

Mælti þá Þórir: «Kenna máttu Karli þar einn Bjarkeyinginn. Hugði eg og að þú skyldir kenna spjótið Selshefni.»

Karli dó þegar en þeir Þórir gengu aftur til skipsins. Þeir Gunnsteinn sáu fall Karla. Runnu þeir þegar til og tóku líkið, báru til skips síns, brugðu þegar tjöldum og bryggjum og heimtust út frá landi. Síðan drógu þeir segl og fóru leið sína.

Þeir Þórir sáu það. Þá reka þeir tjöld af sér og búast sem ákaflegast. En er þeir drógu seglið þá gekk í sundur stagið. Fór seglið ofan þverskipa. Varð þeim Þóri það dvöl mikil áður þeir kæmu upp öðru sinni seglinu. Voru þeir Gunnsteinn þá langt komnir er skriður var að skipi Þóris. Gerðu þeir Þórir bæði, sigldu og reru undir. Slíkt sama gerðu þeir Gunnsteinn. Fóru þá hvorirtveggju sem ákaflegast dag og nótt. Dró seint saman með þeim því að þegar er eyjasundin tóku til þá varð mjúkara að víkja Gunnsteins skipi. En þó drógu þeir Þórir eftir svo að þá er þeir Gunnsteinn komu fyrir Lengjuvík þá snúa þeir þar að landi og hljópu af skipinu og á land upp.

En litlu síðar koma þeir Þórir þar og hlaupa upp eftir þeim og elta þá. Kona ein gat hólpið Gunnsteini og fólgið hann og er svo sagt að sú væri fjölkunnig mjög. Og fóru þeir Þórir aftur til skips, tóku fé það allt er á var skipinu Gunnsteins en báru grjót í staðinn, fluttu skipið út á fjörðinn, hjuggu á raufar og sökktu niður. Síðan fóru þeir Þórir heim til Bjarkeyjar.

Þeir Gunnsteinn fóru fyrst mjög huldu höfði, fluttust á smábátum, fóru um nætur en lágu um daga, fóru svo til þess er þeir komu fram um Bjarkey og allt til þess er þeir komu úr sýslu Þóris. Fór Gunnsteinn fyrst heim í Langey og dvaldi þar skamma hríð.

Fór hann þá þegar suður á leið. Létti hann eigi fyrr en hann kom suður í Þrándheim og hitti þar Ólaf konung og segir honum tíðindi slík sem orðin voru í Bjarmalandsferðinni.

Konungur lét illa yfir þeirra ferð en bauð Gunnsteini með sér að vera og segir það að hann skyldi leiðrétta mál Gunnsteins þá er hann mætti við komast. Gunnsteinn þekktist það boð og dvaldist hann með Ólafi konungi.

134. Sendimenn Ólafs konungs

Svo var sagt fyrr að Ólafur konungur var þann vetur austur í Sarpsborg er Knútur hinn ríki sat í Danmörk. Önundur Svíakonungur reið þann vetur yfir Vestra-Gautland og hafði meir en þrjá tigu hundraða manna. Fóru þá menn og orðsendingar milli þeirra Ólafs konungs. Gerðu þeir sín í milli stefnulag að þeir skyldu hittast um vorið við Konungahellu. Frestuðu þeir fundinum fyrir þá sök að þeir vildu vita áður þeir finnist hverjar tiltekjur Knútur konungur hefði.

En er á leið vorið bjóst Knútur konungur með liði sínu að fara vestur til Englands. Hann setti eftir í Danmörk Hörða-Knút son sinn og þar með honum Úlf jarl son Þorgils sprakaleggs. Úlfur átti Ástríði dóttur Sveins konungs en systur Knúts hins ríka. Þeirra sonur var Sveinn er síðan var konungur í Danmörku. Úlfur jarl var hinn mesti merkismaður. Knútur ríki fór vestur til Englands.

En er það spurðu konungar, Ólafur og Önundur, þá fóru þeir til stefnunnar og hittust í Elfi við Konungahellu. Varð þar fagnafundur og vináttumál mikil svo að það var bert fyrir alþýðu en þó ræddu þeir marga hluti sín í milli þá er þeir tveir vissu og varð það sumt síðar framgengt og öllum augljóst. En að skilnaði konunga skiptust þeir gjöfum við og skildust vinir. Fór þá Önundur konungur upp á Gautland.

En Ólafur konungur fór þá norður í Víkina og síðan út á Agðir og þaðan norður með landi og lá hann mjög lengi í Eikundasundi og beið byrjar. Hann spurði að Erlingur Skjálgsson og Jaðarbyggjar með honum lágu í safnaði og höfðu her manns.

Það var einn dag að menn konungs ræddu sín í milli um veður, hvort væri sunnan eða útsynningur eða hvort það veður væri segltækt eða eigi fyrir Jaðar. Töldu það flestir að ósiglanda væri.

Þá svarar Halldór Brynjólfsson: «Það mundi eg ætla,» segir hann, «að siglanda mundi þykja þetta veður fyrir Jaðar ef Erlingur Skjálgsson hefði veislu búið fyrir oss á Sóla.»

Þá mælti Ólafur konungur að af skyldi láta tjöldin og leggja um skipunum. Var svo gert. Sigldu þeir þann dag fyrir Jaðar og dugði veður hið besta, lögðu að um kveldið í Hvítingsey. Fór konungur þá norður á Hörðaland og fór þar að veislum.

135. Dráp Þórálfs

Vor það hafði farið skip af Noregi út til Færeyja. Á því skipi fóru orðsendingar Ólafs konungs til þess að koma skyldi utan af Færeyjum einnhver þeirra hirðmanna hans, Leifur Össurarson eða Gilli lögsögumaður eða Þórálfur úr Dímon.

En er þessi orðsending kom til Færeyja og þeim var sagt sjálfum þá ræða þeir sín á milli hvað undir mun búa orðsendingunni og kom það ásamt með þeim að þeir hugðu að konungur mundi vilja spyrja eftir um þau tíðindi er sumir menn höfðu fyrir satt að þar mundu gerst hafa í eyjunum um misfarar sendimanna konungs, þeirra tveggja skipsagna er engi maður hafði af komist. Þeir réðu það af að Þórálfur skyldi fara. Réðst hann til ferðar og bjó byrðing er hann átti og aflaði þar til manna. Voru þeir á skipi tíu eða tólf.

En er þeir voru búnir og biðu byrjar þá var það tíðinda í Austurey í Götu að Þrándar að einn góðan veðurdag gekk Þrándur í stofu en þeir lágu í pöllum bróðursynir hans tveir, Sigurður og Þórður. Þeir voru Þorlákssynir. Hinn þriðji hét Gautur hinn rauði. Hann var enn frændi þeirra. Allir voru þeir fóstrar Þrándar gervilegir menn. Var Sigurður elstur þeirra og fyrir þeim mest í öllu. Þórður átti kenningarnafn, var hann kallaður Þórður hinn lági. Hann var þó manna hæstur og var hitt þó meir að hann var þreklegur og rammur að afli.

Þá mælti Þrándur: «Mart skipast á manns ævi. Ótítt var þá það er vér vorum ungir að menn skyldu sitja eða liggja veðurdaga góða, þeir er ungir voru og til alls vel færir. Mundi það eigi þykja líklegt hinum fyrrum mönnum að Þórálfur úr Dímon mundi vera þroskamaður meiri en þér. En byrðingur sá er eg hefi átt og hér stendur í nausti ætla eg að nú gerist svo forn að fúni undir bráðinu. Er hér hús hvert fullt af ullu og verður ekki til verðs haldið. Mundi eigi svo ef eg væri nokkurum vetrum yngri.»

Sigurður hljóp upp og hét á þá Gaut og Þórð, kvaðst eigi þola frýju Þrándar. Ganga þeir út og þar til er húskarlar voru, ganga þeir til og setja fram byrðinginn. Létu þeir þá flytja til farm og hlóðu skipið. Skorti þar eigi heima farm til, svo reiði allur með skipi. Bjuggu þeir það á fám dögum. Voru þeir og menn tíu eða tólf á skipi. Tóku þeir Þórálfur út eitt veður allir, vissust til jafnan í hafinu. Þeir komu að landi í Hernu aftan dags. Lögðu þeir Sigurður utar við ströndina og var þó skammt milli þeirra.

Það varð til tíðinda um aftaninn er myrkt var og þeir Þórálfur ætluðu til rekkna búast þá gekk Þórálfur á land upp og annar maður með honum. Leituðu þeir sér staðar. Og er þeir voru búnir ofan að ganga þá sagði sá svo er honum fylgdi að kastað var klæði yfir höfuð honum, var hann tekinn upp af jörðu. Í því bili heyrði hann brest. Síðan var farið með hann og reiddur til falls en þar var undir sær og var hann keyrður á kaf en hann komst á land. Fór hann þar til er þeir Þórálfur höfðu skilist. Hitti hann þar Þórálf og var hann klofinn í herðar niður og var hann þá dauður. Og er þeir skipverjar urðu þessa varir þá báru þeir lík hans út á skip og náttsættu.

Þá var Ólafur konungur á veislu í Lygru. Voru þangað orð ger. Var þá stefnt örvarboð eða þing og var konungur á þingi. Hann hafði þangað stefna látið þeim Færeyingum af báðum skipum og voru þeir til þings komnir.

En er þing var sett þá stóð konungur upp og mælti: «Þau tíðindi eru hér orðin er því er betur að slík eru sjaldgæt. Hér er af lífi tekinn góður drengur og hyggjum vér að saklaus sé. Eða er nokkur sá maður á þingi er það kunni að segja hver valdi er verks þessa?»

En þar gekk engi við.

Þá mælti konungur: «Ekki er því að leyna hver minn áhugi er um verk þetta að eg hygg á hendur þeim Færeyingum. Þykir mér þannug helst að unnið sem Sigurður Þorláksson mundi hafa vegið manninn en Þórður hinn lági mundi hinn hafa fært á kaf. En það fylgir að eg mundi þess til geta að það mundi til saka vera fundið að þeir mundu eigi vilja að Þórálfur segði eftir þeim ódáðir þær er hann muni vitað hafa að satt er, en oss hefir verið grunur á, um morð þau og illvirki að sendimenn mínir hafi þar verið myrðir.»

En er konungur hætti ræðu sinni þá stóð upp Sigurður Þorláksson. Hann mælti: «Ekki hefi eg talað fyrr á þingum. Ætla eg mig munu þykja ekki orðfiman. En þó ætla eg ærna nauðsyn til vera að svara nokkuru. Vil eg þess til geta að ræða þessi er konungur hefir uppi haft muni vera komin undan tungurótum þeirra manna er miklu eru óvitrari en hann og verri, en það er ekki leynt að þeir munu fullkomlega vilja vera vorir óvinir. Er það ólíklega mælt að eg mundi vilja vera skaðamaður Þórálfs því að hann var fóstbróðir minn og góður vinur. En ef þar væru nokkur önnur efni í og væru sakir milli okkar Þórálfs þá em eg svo viti borinn að eg mundi heldur til þessa verks hætta heima í Færeyjum en hér undir handarjaðri yðrum konungur. Nú vil eg þessa máls synja fyrir mig og fyrir oss alla skipverja. Vil eg þar bjóða fyrir eiða svo sem lög yður standa til. En ef yður þykir hitt í nokkuru fullara þá vil eg flytja járnburð. Vil eg að þér séuð sjálfir við skírsluna.»

En er Sigurður hætti ræðu sinni þá urðu margir til flutningar og báðu konung að Sigurður skyldi ná undanfærslu, þótti Sigurður vel hafa talað og kváðu hann ósannan mundu að vera því er honum var kennt.

Konungur segir: «Um þenna mann mun stórum skipta. Og ef hann er loginn þessu máli þá mun hann vera góður maður en að öðrum kosti þá mun hann vera nokkuru djarfari en dæmi munu til vera og er það eigi miður mitt hugboð. En get eg að hann beri sér sjálfur vitni um.»

En við bæn manna þá tók konungur festu af Sigurði til járnburðar. Skyldi hann koma eftir um daginn til Lygru. Skyldi biskup þar gera skírslu. Og sleit svo þinginu.

Fór konungur aftur til Lygru en Sigurður og þeir förunautar til skips síns. Tók þá brátt að myrkva af nótt.

Þá mælti Sigurður við þá förunauta: «Það er satt að segja að vér höfum komið í mikið vandkvæði og orðið fyrir álygi mikilli og er konungur sjá brögðóttur og vélráður og mun auðsær vor kostur ef hann skal ráða því að hann lét fyrst drepa Þórálf en hann vill nú gera oss að óbótamönnum. Er honum lítið fyrir að villa járnburð þenna. Nú ætla eg þann verr hafa er til þess hættir við hann. Nú leggst og innan eftir sundinu fjallagol nokkuð. Ræð eg það að vér vindum segl vort og siglum út á haf. Fari Þrándur annað sumar með ull sína ef hann vill selja láta en ef eg kemst í brott þá þykir mér þess von að eg komi aldrei síðan til Noregs.»

Þeim förunautum þótti þetta snjallræði. Taka þeir að setja upp segl sitt og láta ganga um nóttina í haf út sem mest mega þeir. Þeir létta eigi fyrr en þeir koma í Færeyjar og heim í Götu. Lét Þrándur illa yfir ferð þeirra. Þeir svöruðu eigi vel og voru þó heima með Þrándi.

136. Frá Íslendingum

Brátt spurði Ólafur konungur það er þeir Sigurður voru í brott farnir og lagðist þá þungur orðrómur á um þeirra mál. Voru þeir margir að þá kölluðu þess von að þeir Sigurður mundu sönnu sagðir er áður höfðu synjað fyrir hann og mælt í móti. Ólafur konungur var fáræðinn um þetta mál en hann þóttist vita þá sannindi á því er hann hafði áður grunað. Fór konungur þá ferðar sinnar og tók veislur þar er fyrir voru gervar.

Ólafur konungur heimti til máls við sig þá menn er komið höfðu af Íslandi, Þórodd Snorrason, Gelli Þorkelsson, Stein Skaftason, Egil Hallsson.

Þá tók konungur til máls: «Þér hafið í sumar vakið við mig það mál að þér vilduð búast til Íslandsferðar en eg hefi eigi veitt úrslit hingað til um það mál. Nú vil eg segja yður hvernug eg ætla fyrir. Gellir, þér ætla eg að fara til Íslands ef þú vilt bera þannug erindi mín. En aðrir íslenskir menn, þeir er nú eru hér, þá munu engir til Íslands fara fyrr en eg spyr hvernug þeim málum er tekið er þú Gellir skalt þannug bera.»

En er konungur hafði þetta upp borið þá þótti þeim, er fúsir voru fararinnar og bannað var, súskapur mikill hafður við sig og þótti seta sín ill og ófrelsi.

En Gellir bjóst til ferðar og fór um sumarið til Íslands og hafði með sér orðsendingar þær þangað er hann flutti fram annað sumar á þingi. En sú var orðsending konungs að hann beiddi þess Íslendinga að þeir skyldu taka við þeim lögum sem hann hafði sett í Noregi en veita honum af landinu þegngildi og nefgildi, pening fyrir nef hvert, þann er tíu væri fyrir alin vaðmáls. Það fylgdi því að hann hét mönnum vináttu sinni ef þessu vildu játa en ellegar afarkostum þá sem hann mætti við komast.

Yfir þessu tali sátu menn lengi og réðu um sín í milli og kom það ásamt að lyktum með allra samþykki að neita skattgjöfum og öllum álögum þeim er kraft var. Og fór Gellir það sumar utan og á fund Ólafs konungs og hitti hann það haust í Vík austur þá er hann var kominn af Gautlandi ofan svo sem eg vænti að enn skal sagt verða síðar í sögu Ólafs konungs.

Þá er á leið haustið sótti Ólafur konungur norður í Þrándheim og hélt liði sínu til Niðaróss, lét þar búa til vetursetu sér. Sat Ólafur konungur þann vetur eftir í kaupangi. Sá var hinn þrettándi vetur konungsdóms hans.

137. Frá bygging Jamtalands

Ketill jamti hét maður, sonur Önundar jarls úr Sparabúi í Þrándheimi. Hann flýði fyrir Eysteini konungi illráða austur um Kjöl. Hann ruddi markir og byggði þar sem nú heitir Jamtaland. Austur þangað flýði og fjöldi manna úr Þrándheimi fyrir þeim ófriði því að Eysteinn konungur skattgildi Þrændi og setti þar til konungs, hund sinn er Saur hét. Sonarsonur Ketils var Þórir helsingur. Við hann er kennt Helsingjaland. Þar byggði hann.

En er Haraldur hinn hárfagri ruddi ríki fyrir sér þá stukku enn fyrir honum fjöldi manna úr landi, Þrændir og Naumdælir, og gerðust þá enn byggðir austur um Jamtaland og fóru sumir allt í Helsingjaland austan frá hafinu og voru þeir lýðskyldir undir Svíakonung.

En er Hákon Aðalsteinsfóstri var yfir Noregi þá settist friður og kaupferð úr Þrándheimi til Jamtalands en fyrir sakir vinsælda konungs þá sóttu Jamtur austan á fund hans og játuðu honum hlýðni sinni og guldu honum skatt. Setti hann þeim lög og landsrétt. Vildu þeir heldur þýðast undir hans konungdóm en undir Svíakonung því að þeir voru af Norðmanna ætt komnir og svo gerðu Helsingjar þeir allir er æskaðir voru norðan um Kjöl. Og hélst það lengi síðan, allt til þess er Ólafur digri og Ólafur hinn sænski Svíakonungur deildu um landaskipti. Þá hurfu Jamtur og Helsingjar undir Svíakonung og réð þá landaskipti austan Eiðaskógur, en þá Kilir allt norður til Finnmerkur. Tók Svíakonungur þá skatta af Helsingjalandi og svo af Jamtalandi.

En Ólafi konungi þótti það komið hafa í sáttmál með þeim Svíakonungi að annan veg skyldi fara skattur af Jamtalandi en að fornu hafði verið. En þó hafði það langa stund svo staðið að Jamtur höfðu þá Svíakonungi skatt goldið og þaðan höfðu verið sýslumenn yfir landinu. Vildu þá og Svíar ekki heyra annað en undir Svíakonung hyrfi allt land það er lá fyrir austan Kjölu. Var það svo sem oft eru dæmi þó að mágsemdir og vinátta væru með konungum að þó vildi hvortveggi hafa ríki það allt er hann þóttist nokkura tiltölu eiga. Hafði Ólafur konungur látið fara orð um til Jamtalands að það var hans vilji að Jamtur veittu honum lýðskyldi en heitið þeim afarkostum ellegar. En Jamtur höfðu gert ráð sitt að þeir vildu hlýðni veita Svíakonungi.

138. Saga Steins

Þóroddur Snorrason og Steinn Skaftason undu illa er þeir fóru eigi í sjálfræði. Steinn Skaftason var manna fríðastur og best að sér ger um íþróttir, skáld gott og skartsmaður mikill og metnaðarfullur. Skafti faðir hans hafði ort drápu um Ólaf konung og hafði kennt Steini. Var svo ætlað að hann skyldi færa kvæðið konungi. Steinn bast eigi orða og ámælis við konung, bæði sundurlausum orðum og samföstum. Báðir voru þeir Þóroddur óvarmæltir, segja svo að konungur vildi verr hafa en þeir er sonu sína höfðu sent honum til trúnaðar en konungur lagði þá í ófrelsi. Konungur reiddist.

Það var einnhvern dag er Steinn Skaftason var fyrir konungi og spurði hann máls ef hann vildi hlýða drápu þeirri er Skafti faðir hans hafði ort um konung.

Hann segir: «Hitt mun fyrst til Steinn að þú kveðir það er þú hefir ort um mig.»

Steinn segir að það er ekki er hann hefir ort. «Em eg ekki skáld konungur,» segir hann, «en þótt eg kynni yrkja þá mundi yður þykja það sem annað um mig heldur lítilvæglegt.»

Gekk Steinn þá í brott og þóttist finna hvar til hann mælti.

Þorgeir hét ármaður konungs er réð fyrir búi hans í Orkadal. Hann var þá með konungi og heyrði á ræður þeirra Steins. Fór Þorgeir heim litlu síðar.

Það var á einni hverri nótt að Steinn hljóp í brott úr bænum og skósveinn hans með honum. Fóru þeir upp um Gaularás, svo út til þess er þeir komu í Orkadal en að kveldi komu þeir til konungsbús þess er Þorgeir réð fyrir. Bauð Þorgeir Steini þar að vera um nóttina og spurði hverju gegndi um farar hans. Steinn bað hann fá sér hest og sleða með. Sá hann að þar var heim ekið korni.

Þorgeir segir: «Eigi veit eg hvernug af stenst um för þína, hvort þú ferð nokkuð í konungs leyfi. Þótti mér fyrra dags ekki mjúkt orð milli ykkar konungs.»

Steinn mælti: «Þótt eg sé að engu sjálfráður fyrir konungi þá skal eg ekki svo fyrir þrælum hans.»

Brá hann sverði og drap hann síðan ármanninn en hann tók hestinn og bað sveininn hlaupa á bak en Steinn settist í sleðann, fóru þá veginn, óku nóttina alla. Fóru þeir ferðar sinnar til þess er þeir komu ofan á Mæri í Súrnadal. Síðan fá þeir sér flutningar yfir fjörðu. Fór hann sem ákaflegast. Ekki sögðu þeir mönnum víg þetta þar sem þeir komu en kölluðust vera konungsmenn. Fengu þeir góðan forbeina hvar sem þeir komu.

Þeir komu að kveldi eins dags í Giska til bús Þorbergs Árnasonar. Var hann eigi heima en kona hans var heima, Ragnhildur dóttir Erlings Skjálgssonar. Fékk Steinn þar allgóðar viðtekjur því að þar voru áður kunnleikar miklir með þeim.

Sá atburður hafði áður orðið þá er Steinn hafði farið af Íslandi, átti hann þá sjálfur skip það er hann kom af hafi utan að Giska og lágu þar við eyna, þá lá Ragnhildur og skyldi léttari verða og var allþungt haldin en prestur var engi í eyjunni og engi nær. Var þá komið til kaupskipsins og spurt að ef þar væri prestur nokkur. Þar var einn prestur á skipi er Bárður hét, vestfirskur maður, ungur og lærður heldur lítt. Sendimenn báðu prest fara með sér til húss. Honum þótti sem það mundi vera vandi mikill en vissi fákunnandi sína og vildi eigi fara. Þá lagði Steinn orð til við prest og bað hann fara.

Prestur svarar: «Fara mun eg ef þú ferð með mér. Þykir mér traust að því til umráða.»

Steinn segir að hann vill víst það til leggja. Síðan fara þeir til bæjarins og þar til er Ragnhildur var. Litlu síðar fæddi hún barn, það var mær, og þótti heldur ómáttulegt. Þá skírði prestur barnið en Steinn hélt meyjunni undir skírn og hét sú mær Þóra. Steinn gaf meyjunni fingurgull. Ragnhildur hét Steini vináttu sinni fullkominni og hann skyldi þangað koma á hennar fund ef hann þættist hennar liðsemdar þurfa. Steinn segir svo að hann mundi eigi fleirum meybörnum undir skírn halda og skildust þau að svo búnu.

En nú var þar komið er Steinn heimti þessi vilmæli að Ragnhildi og segir hvað hann hefir hent og svo það að hann mun hafa orðið fyrir reiði konungs. Hún segir svo að máttur skal að magni um liðveislu hennar, bað hann þaðan bíða Þorbergs, skipaði honum hið næsta Eysteini orra syni sínum. Hann var þá tólf vetra gamall. Steinn gaf gjafir þeim Ragnhildi og Eysteini.

Þorbergur hafði spurt allt um farar Steins fyrr en hann kæmi heim og var hann heldur ófrýnn. Ragnhildur gekk til máls við hann og segir honum um farar Steins og bað hann taka við Steini og sjá á mál hans.

Þorbergur segir: «Eg hefi spurt,» segir hann, «að konungur hefir eiga látið örvarþing eftir Þorgeir og Steinn er útlagur ger, svo það að konungur er hinn reiðasti. Og kann eg mér meiri svinnu en að takast á hendur einn útlendan mann og hafa þar fyrir reiði konungs. Láttu Stein fara í brott héðan sem skjótast.»

Ragnhildur svarar, segir að þau mundu bæði í brott fara eða bæði þar vera.

Þorbergur bað hana fara hvert er hún vildi. «Vænti eg þess,» segir hann, «þótt þú farir að þú komir skjótt aftur því að hér munu vera metorð þín mest.»

Þá gekk fram Eysteinn orri sonur þeirra. Hann mælti og segir svo að hann mun eigi eftir vera ef Ragnhildur færi í brott.

Þorbergur segir að þau lýstu mikla þrágirni og ákaflyndi í þessu. «Og er það nú vænst,» segir hann, «að þið ráðið þessu, þó þykir ykkur allmiklu skipta. En of mjög er þér ættgengt Ragnhildur að virða lítils orð Ólafs konungs.»

Ragnhildur segir: «Ef þér vex allmjög fyrir augum að halda Stein þá far þú sjálfur með honum á fund Erlings föður míns eða fá honum það föruneyti er hann komist þangað í friði.»

Þorbergur segir að hann mun ekki Stein þangað senda «og mun Erlingi þó ærið mart til handa bera, það er konungi sé misþokki á.»

Var Steinn þar um veturinn.

En eftir jól komu til Þorbergs sendimenn konungs með þeim orðum að Þorbergur skal koma á fund hans fyrir miðja föstu og er lagt ríkt við þessa orðsending. Þorbergur bar það fyrir vini sína og leitaði ráðs hvort hann skyldi á þá hættu leggja að fara á fund konungs að svo förnu máli en fleiri löttu og kölluðu það ráð að láta fyrr Stein af höndum en fara á vald konungs. Þorbergur var hins fúsari að leggjast eigi ferð undir höfuð.

Nokkuru síðar fór Þorbergur til fundar við Finn bróður sinn og bar þetta mál fyrir hann og bað hann til farar með sér. Finnur svarar, segir að honum þótti illt ofkvæni slíkt að þora eigi fyrir konu sinni að halda einurð við lánardrottin sinn.

«Kost muntu eiga,» segir Þorbergur, «að fara eigi en þó ætla eg að þú letjist meir fyrir hræðslu sakir en hollustu við konung.»

Skildust þeir reiðir.

Síðan fór Þorbergur á fund Árna Árnasonar bróður síns og segir honum þetta mál svo búið og bað hann fara með sér til konungs.

Árni segir: «Undarlegt þykir mér um þig svo vitran mann og fyrirleitinn er þú skalt rasað hafa í svo mikla óhamingju og hafa fengið konungs reiði þar er engi bar nauðsyn til. Það væri nokkur vorkunn að þú héldir frænda þinn eða fóstbróður en þetta alls engi, að hafa tekist á hendur mann íslenskan að halda, útlaga konungs, og hafa nú þig í veði og alla frændur þína.»

Þorbergur segir: «Svo er sem mælt er: Einn er aukvisi ættar hverrar. Sú óhamingja föður míns er mér auðsæst hversu honum glapnaði sonaeign er hann skyldi fá þann síðast er engi líkindi hefir vorrar ættar og dáðlaus er. Mundi það sannast ef mér þætti eigi við móður mína skömm mælt að eg mundi þig aldregi kalla vorn bróður.»

Sneri þá Þorbergur í brott og fór heim og var heldur ókátur. Síðan sendi hann orð norður til Þrándheims á fund Kálfs bróður síns og bað hann koma til Agðaness móti sér. Og er sendimenn hittu Kálf þá hét hann ferðinni og hafði engi orð fyrir.

Ragnhildur sendi menn austur á Jaðar til Erlings föður síns og bað hann senda sér lið. Þaðan fóru synir Erlings, Sigurður og Þórir, og hafði hvor þeirra tvítugsessu og á níu tigu manna. En er þeir komu norður til Þorbergs þá tók hann við þeim sem best og feginsamlegast. Bjóst hann þá til farar og hafði Þorbergur tvítugsessu. Fóru þeir þá norður leið sína.

Og er þeir komu… þá lágu þar fyrir Finnur og Árni bræður Þorbergs með tvær tvítugsessur. Fagnaði Þorbergur vel bræðrum sínum og segir að þá hefðu tekið brýningunni. Finnur kvað þess sjaldan hafa þurft við sig. Síðan fóru þeir með liði því öllu norður til Þrándheims og var þar Steinn í för.

Og er þeir komu til Agðaness þá var þar fyrir Kálfur Árnason og hafði hann tvítugsessu vel skipaða. Fóru þeir með því liði inn til Niðarhólms og lágu þar um nótt.

Eftir um morguninn áttu þeir tal sitt. Vildi Kálfur og synir Erlings að þeir færu öllu liðinu inn til bæjarins og létu þá skeika að sköpuðu en Þorbergur vildi að fyrst væri með vægð farið og láta boð bjóða. Samþykktist Finnur því og Árni. Var þá það afráðið að þeir Finnur og Árni fóru fyrst til fundar við Ólaf konung, fáir menn saman.

Konungur hafði þá spurt um fjölmenni það er þeir höfðu og var hann heldur styggur í ræðunni þeirra. Finnur bauð boð fyrir Þorberg og svo fyrir Stein. Bauð hann að konungur skyldi fé gera svo mikið sem hann vildi en Þorbergur hafa landsvist og veislur sínar, Steinn lífs grið og lima.

Konungur segir: «Svo líst mér sem þessi för muni vera svo að þér munuð nú þykjast hafa hálf ráð við mig eða meir. En þess mun mig síst vara af yður bræðrum að þér munduð með her fara í móti mér. Kenni eg ráð þessi er þeir Jaðarbyggjar munu hafa upp hafið. En ekki þarf mér fé bjóða.»

Þá segir Finnur: «Ekki höfum vér bræður fyrir þá sök haft liðsafnað að vér munum ófrið bjóða yður konungur heldur ber hitt til konungur að vér viljum yður fyrst bjóða vora þjónustu en ef þér neitið og ætlið Þorbergi nokkura afarkosti þá munum vér fara allir með lið það er vér höfum á fund Knúts hins ríka.»

Þá leit konungur við honum og mælti: «Ef þér bræður viljið veita mér svardaga til þess að fylgja mér innanlands og utanlands og skiljast eigi við mig nema mitt lof og leyfi sé til, eigi skuluð þér leyna mig ef þér vitið mér ráðin svikræði, þá vil eg taka sætt af yður bræðrum.»

Síðan fór Finnur aftur til liðs síns og segir þessa kosti er konungur hafði gert þeim. Bera þeir nú saman orð sín.

Segir Þorbergur að hann vill þenna kost fyrir sína hönd. «Em eg ófús,» segir hann, «að flýja af eignum mínum og sækja til útlendra höfðingja. Ætla eg mér munu ávallt að sæmd að fylgja Ólafi konungi og vera þar sem hann er.»

Þá segir Kálfur: «Enga eiða mun eg vinna konungi en vera þá eina hríð með konungi er eg held veislum mínum og öðrum metorðum og konungur vill vera vinur minn og er það minn vilji að svo gerum vér allir.»

Finnur svarar: «Til þess mun eg ráða að láta Ólaf konung einn ráða skildögum milli okkar.»

Árni Árnason segir svo: «Ef eg em ráðinn til að fylgja þér Þorbergur bróðir þóttú viljir berjast við konung þá skal eg eigi við þig skiljast ef þú tekur betra ráð og mun eg fylgja ykkur Finni og taka þann kost sem þið sjáið ykkur til handa.»

Gengu þeir þá þrír bræður á eitt skip, Þorbergur, Finnur, Árni, og reru inn til bæjar og síðan gengu þeir á konungs fund. Fór þá fram þetta sáttmál að þeir bræður svörðu konungi eiða. Þá leitaði Þorbergur Steini sættar við konung.

En konungur segir að Steinn skyldi fara í friði fyrir honum hvert er hann vildi «en eigi mun hann með mér vera síðan,» segir hann.

Þá fóru þeir Þorbergur út til liðsins. Fór þá Kálfur inn á Eggju en Finnur fór til konungs en Þorbergur og annað lið þeirra fór heim suður.

Steinn fór suður með sonum Erlings en um vorið snemma fór hann vestur til Englands en síðan til handa Knúti hinum ríka og var með honum lengi í góðu yfirlæti.

139. Ferð Finns Árnasonar á Hálogaland

Þá er Finnur Árnason hafði litla hríð dvalist með Ólafi konungi var einnhvern dag að konungur kallar Finn til máls við sig og enn fleiri menn þá er hann var vanur að hafa við ráðagerðir sínar.

Þá tók konungur til máls og segir svo: «Sú ráðagerð staðfestist í skapi mér að eg ætla í vor að bjóða út leiðangri af landi öllu, bæði að liði og að skipum, og fara síðan með her þann allan er eg má til fá í mót Knúti hinum ríka því að eg veit um tilkall það, er hann hefir upp hafið til ríkis í hendur mér, að hann mun eigi ætla að hafa það fyrir hégómamál. Nú er þér það að segja Finnur Árnason að eg vil að þú farir sendiferð mína norður á Hálogaland og hafið þar útboð, bjóðið út almenningi að liði og að skipum og stefnið því liði til móts við mig til Agðaness.»

Síðan nefndi konungur aðra menn til og sendi suma inn í Þrándheim en suma suður í land svo að hann lét þetta boð fara um allt land.

Það er að segja frá för Finns að hann hafði skútu og á nær þremur tigum manna en er hann var búinn fór hann ferðar sinnar til þess er hann kom á Hálogaland. Þá stefndi hann þing við búendur, bar þá upp erindi sitt og krafði leiðangurs. Bændur áttu í héraði skip stór leiðangursfær. Skipuðust þeir við orðsending konungs og bjuggu skip sín.

En er Finnur sótti norður á Hálogaland þá átti hann þing en sendi menn sína nokkura að krefja útboðsins þar er honum sýndist. Finnur sendi menn í Bjarkey til Þóris hunds, lét þar krefja leiðangurs sem annars staðar.

En er Þóri komu boð konungs þá bjóst hann til ferðar og skipaði af húskörlum sínum skip það er hann hafði haft áður um sumarið til Bjarmalands, bjó það með sínum eins kostnaði.

Finnur stefndi saman Háleygjum í Vogum, öllum þeim er norður voru þaðan. Kom þar saman um vorið lið mikið og biðu allir til þess er Finnur kom norðan. Var þar þá og kominn Þórir hundur. En er Finnur kom þá lét hann þegar blása til húsþings leiðangursliði öllu. En á þingi því sýndu menn vopn sín, svo var þá og rannsakað útboðið í hverri skipreiðu.

En er það var greitt þá mælti Finnur: «Þig vil eg að þessu kveðja Þórir hundur. Hver boð viltu bjóða Ólafi konungi fyrir aftöku Karla hirðmanns hans eða fyrir rán það er þú tókst fé konungs norður í Lengjuvík? Nú hefi eg umboð konungs til þessa máls en eg vil nú vita svör þín.»

Þórir litaðist um og sá til hvorrartveggju handar sér standa marga menn alvopnaða, kenndi þar Gunnstein og fjölda annarra frænda Karla. Þá mælti Þórir: «Skjót eru boð mín Finnur að eg vil mál allt festa í konungs dóm, það er honum þykir að við mig.»

Finnur svarar: «Hitt er nú vænst að þér sé minni virðingar af unnt því að nú mun verða að festa minn dóm á ef sættast skal.»

Þórir segir: «Þá ætla eg enn allvel komið og skal það ekki undan draga.»

Gekk þá Þórir fram til festu og skildi Finnur það mál fyrir allt.

Síðan segir Finnur upp sættina að Þórir skyldi gjalda konungi tíu merkur gulls en Gunnsteini og þeim frændum aðrar tíu merkur en fyrir rán og féskaða hinar þriðju tíu merkur «en gjalda upp nú þegar,» segir hann.

Þórir segir: «Þetta er mikið fégjald.»

«Hinn er annar kostur að lokið sé sætt allri,» segir Finnur.

Þórir segir að Finnur mundi ljá honum þeirra fresta að hann leitaði lána af sveitungum sínum. Finnur bað hann gjalda þar í stað og þó umfram að Þórir skyldi fram selja menið það hið mikla er hann tók af Karla dauðum. Þórir kvaðst ekki men hafa tekið.

Þá gekk fram Gunnsteinn og segir að Karli hafði men á hálsi þá er þeir skildust «en þá var í brott er vér tókum lík hans.»

Þórir segir að hann hefði ekki huga leitt um men það «en þótt vér hefðum nokkuð men þá mun það heima liggja í Bjarkey.»

Þá setti Finnur spjótsoddinn fyrir brjóst Þóri og segir að hann skyldi þá fram selja menið. Þórir tók þá menið af hálsi sér og seldi Finni. Síðan sneri Þórir í brott og gekk út á skip sitt. Finnur gekk eftir honum út á skipið og mart manna með honum. Gekk Finnur eftir skipinu og tóku þeir upp rúmin. En við siglu sáu þeir undir þiljum niðri tunnur tvær miklar svo að þeim þótti mikil furða að. Finnur spurði hvað í tunnum þeim var. Þórir segir að þar lá í drykkur hans.

Finnur mælti: «Hví gefur þú oss eigi að drekka félagsmaður, svo mikinn drykk sem þér hafið?»

Þórir mælti við mann sinn að renna skyldi úr tunnunni í bolla. Síðan var þeim Finni gefið að drekka og var það hinn besti drykkur. Þá bað Finnur Þóri reiða féið. Þórir gekk eftir skipinu fram og aftur og talaði við menn ýmsa. Finnur kallaði, bað hann bera fram féið. Þórir bað hann ganga upp á land og kvaðst þar mundu greiða. Þá gekk Finnur á land upp og hans menn. Þá kom þar Þórir og greiddi silfur. Var þar reitt úr einum sjóð tíu merkur vegnar. Þá lét hann fram knýtiskauta marga. Var í sumum mörk vegin, sumum hálf eða aurar nokkurir.

Þá mælti Þórir: «Þetta er lánfé er ýmsir menn hafa léð mér því að uppi ætla eg skotsilfur mjög það er eg á.»

Síðan gekk Þórir á skip út en er hann kom aftur reiddi hann silfur smám og smám. Þá leið á daginn.

En þegar er þinginu sleit þá gengu menn til skipa sinna og bjuggust til brottlögu. Tóku þá menn að sigla þegar er búnir voru. Kom þá svo að flestir menn höfðu siglt. Sá Finnur þá að þynntist liðið um hann. Kölluðu menn þá á hann og báðu hann verða búinn. Var þá enn eigi greiddur einn þriðjungur fjárins.

Þá mælti Finnur: «Seint gengur þó Þórir greiðslan. Sé eg að þér þykir mikið fyrir að greiða féið. Skal nú og kyrrt láta vera fyrst. Skaltu nú gjalda konungi það er eftir er.»

Stóð þá Finnur upp.

Þórir segir: «Vel þykir mér það Finnur að við skiljum en vilja skal eg til hafa að gjalda þessa skyld svo að konungi þyki eigi vargoldið og báðum ykkur.»

Þá gekk Finnur til skips síns og sigldi fram eftir liði sínu.

Þórir verður seint búinn úr höfninni. En er segl þeirra kom upp þá héldu þeir út um Vestfjörð og síðan á haf út og svo suður með landi að sær var í miðjum hlíðum eða stundum vatnaði land, lét svo ganga suður allt þar til er hann sigldi í Englandshaf og kom fram á Englandi, fór síðan á fund Knúts konungs og tók hann vel við honum.

Kom þá það upp að Þórir hafði þar óf lausafjár, hafði þar það fé allt er þeir höfðu tekið á Bjarmalandi hvorirtveggju og Karli. En í tunnum þeim hinum miklu þá var botn skammt frá hinum botni og var þar í millum drykkur en tunnan sjálf hvortveggi var full af grám skinnum og bjór og safala. Var Þórir þá með Knúti konungi.

Finnur Árnason fór með liði því til Ólafs konungs, segir honum allt frá ferð sinni og svo það að hann kvaðst hyggja að Þórir væri úr landi farinn og vestur til Englands á fund Knúts hins ríka «og ætla eg hann munu vera oss allóþarfan.»

Konungur segir: «Trúi eg því að Þórir mun vera oss óvinur og þykir mér hann ávallt betri firr mér en nær.»

140. Deila Háreks og Ásmundar Grankelssonar

Ásmundur Grankelsson hafði verið þann vetur á Hálogalandi í sýslu sinni og var heima með föður sínum Grankeli. Þar liggur til hafs útver er bæði var sela að veiða og fugla, eggver og fiskver, og það hafði legið að fornu fari til bæjar þess er Grankell átti. En Hárekur úr Þjóttu veitti þar tilkall. Var þá svo komið að hann hafði haft af verinu öll gögn nokkur misseri. En þá þóttist Ásmundur og þeir feðgar hafa traust konungs til allra réttra mála.

Fóru þeir feðgar þá báðir um vorið á fund Háreks og segja honum orð og jartegnir Ólafs konungs að Hárekur skyldi láta af tilkalli um verið.

Hárekur svarar því þunglega, segir að Ásmundur fór til konungs með slíku rógi og öðru: «Hefi eg öll sannindi til míns máls. Skyldir þú Ásmundur kunna að ætla þér hóf þótt þú þykist nú mikill fyrir þér er þú hefir konungs traust. Er svo og ef þér skal hlýða að drepa suma höfðingja og gera að óbótamönnum en ræna oss er enn þóttumst fyrr meir kunna að halda til fulls þó að oss væru jafnbornir menn. En nú er það allfjarri að þér séuð jafnaðarmenn mínir fyrir ættar sakir.»

Ásmundur svarar: «Þess kenna margir af þér Hárekur að þú ert frændstór og ofureflismaður. Sitja margir um skörðum hlut fyrir þér. En þó er það nú líklegast að þú Hárekur verðir í annan stað til að leita að hafa fram ójafnað þinn en við oss eða taka svo mjög aflaga sem þetta er.»

Skildust þeir síðan.

Hárekur sendi húskarla sína tíu eða tólf með róðrarferju nokkura mikla. Þeir fóru í verið, tóku þar alls konar veiðifang og hlóðu ferjuna. En er þeir voru brott búnir þá kom þar að þeim Ásmundur Grankelsson með þrjá tigu manna og bað þá laust láta fang það allt. Húskarlar Háreks svöruðu um það heldur óbrátt. Síðan veittu þeir Ásmundur þeim atgöngu. Kenndi þá liðsmunar. Voru húskarlar Háreks sumir barðir, sumir særðir, sumir á kaf færðir og fengur allur í brott borinn af skipi þeirra og höfðu þeir Ásmundur það með sér. Komu húskarlar Háreks heim við svo búið og segja Háreki frá ferð sinni.

Hann svarar: «Tíðindi þykja nýnæmi öll. Þetta hefir eigi fyrr gert verið, að berja menn mína.»

Var það mál kyrrt og lagði Hárekur eigi orð í og var hinn kátasti. Hárekur lét búa um vorið snekkju, tvítugsessu, og skipaði húskörlum sínum og var það skip allvel búið bæði að mönnum og öllum reiða. Fór Hárekur um vorið í leiðangur.

En er hann fann Ólaf konung þá var og þar fyrir Ásmundur Grankelsson. Þá kom konungur á stefnulagi með Ásmundi og Háreki og sætti hann þá. Var festur á konungs dómur. Síðan lét Ásmundur fram flytja vitni til þess að Grankell hafði átt verið. Dæmdi konungur eftir því. Voru þá skökk málaefni. Urðu bótalausir húskarlar Háreks en dæmt verið til handa Grankeli. Hárekur segir að honum var skammlaust að hlíta konungs dómi hvernug er það mál skipaðist síðan.

141. Saga Þórodds

Þóroddur Snorrason hafði dvalist í Noregi að ráði Ólafs konungs þá er Gellir Þorkelsson fékk leyfi að fara til Íslands svo sem fyrr var ritið og var hann þá með Ólafi konungi og undi illa ófrelsi því er hann skyldi eigi fara ferða sinna þannug er hann vildi.

Öndurðan vetur þann er Ólafur konungur sat í Niðarósi lýsti konungur því að hann vill menn senda til Jamtalands að heimta skatt. En til farar þeirrar voru menn ófúsir því að af lífi voru teknir sendimenn Ólafs konungs þeir er hann hafði fyrr sent, Þrándur hvíti og þeir tólf saman, svo sem fyrr var ritið, og höfðu Jamtur síðan haldist í lýðskyldu við Svíakonung.

Þóroddur Snorrason bauðst til þeirrar farar því að hann hirti þá alllítt hvað yfir hann gekk ef hann færi sjálfráði. Það þekktist konungur og fóru þeir Þóroddur tólf saman. Þeir komu fram austur á Jamtaland og sóttu heim þann mann er Þórar er nefndur. Hann var þar lögmaður og metorðamaður mestur. Þeir fengu þar góðar viðtökur.

En er þeir höfðu þar dvalist litla hríð þá báru þeir upp erindi sín fyrir Þórar. Hann segir að fyrir þeim svörum réðu engum mun miður en hann aðrir landsmenn og höfðingjar og kvað þings skyldu til kveðja. Var svo gert að þingboð var upp skorið og stefnt þing fjölmennt. Fór Þórar til þings en sendimenn dvöldust meðan að hans.

Þórar bar upp mál þetta fyrir alþýðu en það kom ásamt með öllum að þeir vildu engan skatt gjalda Noregskonungi en sendimennina vildu sumir hengja láta en sumir láta þá hafa til blóts. En hitt var afráðið að þeim skyldi halda þar til þess er sýslumenn Svíakonungs kæmu þar, skyldu þeir þá stafa fyrir þeim slíkt er þeir vildu með ráði landsmanna, en gera hitt yfirbragð á að sendimenn væru vel haldnir og þeir væru fyrir því dvaldir að þeir skyldu skattsins bíða og skyldi skipta þeim á vistir tveim og tveim saman.

Þóroddur var með annan mann að Þórars. Þar var jólaveisla mikil og samburðaröl. Margir voru bændur þar í þorpinu og drukku þeir allir samt um jólin. Annað þorp var þaðan skammt. Þar bjó mágur Þórars, ríkur og auðigur. Hann átti sér son roskinn. Þeir mágar skyldu drekka hálf jól að hvors þeirra og fyrr að Þórars. Þeir mágar drukkust á en Þóroddur og bóndason og var kappdrykkja og um kveldið kappmæli og mannjafnaður með Norðmönnum og Svíum og því næst um konunga þeirra, bæði þá er fyrr höfðu verið og þessa er nú voru, og svo þau skipti er verið höfðu landa í milli í manndrápum og ránum þeim er verið höfðu milli landa.

Þá mælti búandason: «Ef vorir konungar hafa fleiri menn látið þá munu sýslumenn Svíakonungs jafna það með tólf manna fjörvi þá er þeir koma sunnan eftir jólin og vitið þér ógerla veslir menn til hvers þér eruð dvaldir.»

Þóroddur hugsaði sitt mál og margir drógu glott að og fundu þeim hneyksliyrði og svo konungi þeirra. Fór það þá óleynt er ölið mælti með þeim Jamtum er Þóroddur hafði áður ekki grunað.

Eftir um daginn tóku þeir Þóroddur öll klæði sín og vopn og lögðu sér til handargagns. Eftir um nóttina er menn voru sofnaðir hljópu þeir braut til skógar. Um morguninn eftir er menn urðu varir við brauthlaup þeirra fóru menn eftir þeim með sporhunda og hittu þá í skógi þar er þeir höfðu fólgist og höfðu þá heim og í skemmu. Þar var gröf djúp. Voru þeir þar í látnir og hurð læst fyrir. Höfðu þeir lítinn mat og engi klæði nema sín.

Og er komu mið jól fór Þórar og allir frelsingjar með honum til mágs hans. Skyldi hann þar drekka hinn efra hlut jólanna. Þrælar Þórars skyldu gæta grafarinnar. En þeim var þá ætlaður gnógur drykkur en þeir stilltu lítt drykkjunni og gerðu sig ölóða þegar um kveldið. En er þeir þóttust fulldrukknir þá mæltu þeir sín í milli er mat skyldu færa grafarmönnum að þá skyldi ekki skorta.

Þóroddur kvað kvæði og skemmti þeim þrælunum en þeir kváðu hann mundu vera virktamann og gáfu honum kerti mjög mikið og log á. Þá komu þeir þrælarnir út er áður voru inni og kölluðu ákaflega að hinir skyldu inn fara en þeir voru hvorirtveggju ölóðir svo að þeir luku hvorki aftur gröfina né skemmuna.

Þá ristu þeir Þóroddur í sundur í strengi feldi sína og knýttu saman og gerðu hnoða af endanum og köstuðu upp á skemmugólfið. Það vafðist um örkufót og varð fast. Þeir leituðu þá til upp að fara. Lyfti Þóroddur förunaut sínum upp til þess er hann stóð á öxlum honum. Síðan las hann sig upp í gegnum glugginn. Þá skorti eigi reip í skemmunni og lét hann ofan síga móti Þóroddi. En er hann skyldi draga Þórodd upp þá fékk hann hvergi komið honum. Þá mælti Þóroddur að hann skyldi kasta reipinu yfir bita þann er var í húsinu en gera lykkju á endanum, bera þar í viðu og grjót svo að það væri meir en jafnvægi hans. Hann gerði svo. Fór þá sigin ofan í gröfina en Þóroddur upp. Þeir tóku sér klæði í skemmunni sem þeir þurftu. Þar voru inni hreinstökur nokkurar og skáru þeir af fitjarnar og bundu öfugar undir fætur sér. En áður þeir færu í brott þá lögðu þeir eld í kornhlöðu mikla er þar var og hljópu síðan í brott í niðamyrkri. Hlaðan brann og mart annarra húsa í þorpinu. Þeir Þóroddur fóru alla nótt á eyðimörk og fálust að degi.

Um morguninn var saknað þeirra. Var þá farið með sporhunda að leita þeirra á alla vega frá bænum. En hundarnir röktu sporin aftur til bæjarins því að þeir kenndu af hreinsfitjunum og röktu þangað sporið sem klaufirnar höfðu vitað af hreinsfitjunum og varð ekki leitað þeirra.

Þeir Þóroddur fóru lengi á eyðimörkum og komu eitt kveld að litlum húsabæ og gengu þar inn. Þar sat inni karlmaður og kona við eld. Nefndist hann Þórir og segir að sú var kona hans er þar sat og svo að þau áttu húsakot það. Bauð bóndi þeim þar að vera en þeir þágu það. Hann segir þeim að því var hann þar kominn að hann hafði flúið úr byggðinni fyrir víga sakir. Var þeim Þóroddi unninn góður beini. Mötuðust þau öll við eldinn. Síðan var búið um þá Þórodd þar í seti og lögðust þeir til svefns. En þá var enn logi á eldinum. Þá sá Þóroddur að þar gekk fram maður úr öðru húsi og hafði hann engan mann séð jafnmikinn. Sá maður hafði skarlatsklæði búin gullhlöðum og var hinn veglegsti sýnum. Þóroddur heyrði að hann ávítaði þau um það er þau tóku við gestum en höfðu varla sér matbjörg.

Húsfreyja svarar: «Ver þú eigi reiður bróðir, sjaldan hefir þetta að móti borið. Veittu þeim heldur nokkura gagnsmuni því að þú ert betur til fær en við.»

Þóroddur heyrði þann mikla mann nefndan Arnljót gellina og svo að húsfreyja var systir hans. Þóroddur hafði heyrt getið Arnljóts og það með að hann var hinn mesti stigamaður og illvirki. Sváfu þeir Þóroddur um nóttina því að þeir voru mæddir áður af göngu.

En er lifa mundi þriðjungur nætur þá kom þar Arnljótur, bað þá upp standa og búast ferðar sinnar. Þeir Þóroddur stóðu þegar upp og klæddust. Var þeim gefinn dagverður. Síðan fékk Þórir skíð hvorumtveggja þeirra. Arnljótur réðst til ferðar með þeim. Steig hann á skíð. Þau voru bæði breið og löng. En þegar er Arnljótur laust við geislinum þá var hann hvar fjarri þeim. Þá beið hann og mælti að þeir mundu hvergi komast að svo búnu, bað þá stíga á skíðin með sér. Þeir gerðu svo. Fór Þóroddur nærri honum og hélt sér undir belti Arnljóts en förunautur Þórodds hélt honum. Skreið Arnljótur þá svo hart sem hann færi laus. Þeir komu til sáluhúss nokkurs er þriðjungur var af nótt, drápu sér þar eld og bjuggu til matar.

En er þeir mötuðust þá mælti Arnljótur, bað þá engu niður kasta af matnum, hvorki beinum né mola. Arnljótur tók úr serk sínum silfurdisk einn og mataðist þar af. En er þeir voru mettir þá hirti Arnljótur leifar þeirra. Síðan bjuggust þeir til rekkna. Í annan enda hússins var loft uppi á þvertrjám. Fóru þeir Arnljótur upp á loftið og lögðust þar til svefns. Arnljótur hafði höggspjót mikið og var gullrekinn falurinn en skaftið svo hátt að tók hendi til falsins en hann var sverði gyrður. Þeir höfðu bæði vopn sín og klæði uppi á loftinu hjá sér. Arnljótur bað þá vera hljóðsama. Hann lá fremstur á loftinu.

Litlu síðar komu þar til hússins menn tólf. Það voru kaupmenn er fóru til Jamtalands með varning sinn. En er þeir komu í húsið gerðu þeir um sig glaum mikinn og voru kátir, gerðu fyrir sér elda stóra. En er þeir mötuðust þá köstuðu þeir út beinum öllum. Síðan bjuggust þeir til rekkna og lögðust niður í seti þar við eldinn.

En er þeir höfðu litla hríð sofið þá kom þar til hússins tröllkona mikil. En er hún kom inn sópaðist hún um fast, tók beinin og allt það er henni þótti ætt og sló í munn sér. Síðan greip hún mann þann er næst henni var, reif og sleit allan, kastaði á eldinn. Þá vöknuðu þeir aðrir og við illan draum og hljópu upp en hún færði til heljar hvern að öðrum svo að einn var eftir á lífi. Hljóp sá innar undir loftið og kallar til hjálpar sér ef nokkuð væri þess í loftinu er honum mundi duga. Arnljótur seildist til hans og tók í herðar honum og kippti honum upp í loftið. Þá slóst hún fram að eldinum og tók að eta mennina þá er steiktir voru.

Þá stóð Arnljótur upp og greip höggspjót sitt og setti milli herða henni svo að út hljóp oddurinn um brjóstið. Hún brá við hart og kvað við illilega og hljóp út. Arnljóti varð laust spjótið og hafði hún það með sér á brott. Arnljótur gekk til og ruddi út hræjum manna, setti fyrir skálann hurð og gætti því að hún hafði það allt frá brotið er hún hljóp út. Sváfu þeir þá það er eftir var næturinnar.

En er lýsti stóðu þeir upp, átu þá fyrst dagverð sinn. En er þeir höfðu matast mælti Arnljótur: «Nú munum vér hér skiljast. Skuluð þér nú fara eftir akbraut þessi er þeir fóru í gær hingað kaupmennirnir en eg vil leita spjóts míns. Mun eg hafa að verkkaupi það er mér þykir fénýtt af fé því er þessir menn hafa átt. Skaltu Þóroddur bera Ólafi konungi kveðju mína og seg honum það að hann er svo maður að mér er mest forvitni á að hitta. En kveðja mín mun honum þykja einskis verð.»

Tók hann upp silfurdiskinn og strauk með dúknum og mælti: «Færðu konungi disk þenna, seg að það er kveðja mín.»

Síðan bjuggust þeir til ferðar hvorirtveggju og skildust þeir að svo búnu. Fór Þóroddur og þeir förunautar og svo sá maður er undan hafði komist af þeim förunautum, kaupmönnum. Fór Þóroddur til þess er hann fann Ólaf konung í Kaupangi og segir honum allt frá ferðum sínum, bar honum kveðju Arnljóts og færði honum silfurdiskinn.

Konungur segir að það var illa er Arnljótur hafði eigi farið á hans fund «og er skaði mikill er svo illt skyldi leggjast fyrir svo góðan dreng og merkilegan mann.»

Þóroddur var síðan með Ólafi konungi það er eftir var vetrar og fékk þá leyfi af honum að fara til Íslands um sumarið eftir. Skildust þeir Ólafur konungur þá með vináttu.

142. Útboð Ólafs konungs

Ólafur konungur bjóst um vorið úr Niðarósi og dróst lið að honum mikið bæði þar úr Þrándheimi og svo norðan úr landi. En er hann var búinn ferðar sinnar þá fór hann með liðinu fyrst suður á Mæri og heimti þar saman leiðangurslið og svo úr Raumsdal. Síðan fór hann á Sunn-Mæri. Hann lá lengi í Hereyjum og beið liðs síns, átti þá oftlega húsþing. Kom þar mart til eyrna honum það er honum þótti umráða þurfa.

Það var á einu húsþingi er hann átti að hann hafði það mál í munni, sagði frá mannskaða þeim er hann hafði látið af Færeyjum. «En skattur sá er þeir hafa mér heitið,» segir hann, «þá kemur ekki fram. Nú ætla eg enn þangað menn að senda eftir skattinum.»

Veik konungur þessu máli nokkuð til ýmissa manna að til þeirrar ferðar skyldu ráðast en þar komu þau svör í mót að allir menn töldust undan förinni.

Þá stóð upp maður á þinginu mikill og allvörpulegur. Sá hafði rauðan kyrtil, hjálm á höfði, gyrður sverði, höggspjót mikið í hendi. Hann tók til máls: «Það er satt að segja,» kvað hann, «að hér er mikill munur manna. Þér hafið konung góðan en hann drengi illa. Þér neikveðið sendiför eina er hann býður yður en hafið þegið áður af honum vingjafir og marga sæmilega hluti. En eg hefi verið hér til engi vinur konungs þessa. Hefir hann og verið óvinur minn, telur hann að sakar séu til þess. Nú vil eg bjóða þér konungur að fara för þessa ef ekki eru vildari föng á.»

Konungur segir: «Hver er þessi maður hinn drengilegi er svarar máli mínu? Gerir þú mikinn mun öðrum mönnum þeim er hér eru er þú býðst til farar en þeir töldust undan er eg hugði að vel mundu hafa við skipast. En eg kann á þér engi deili og eigi veit eg nafn þitt.»

Hann svarar svo að: «Nafn mitt er ekki vant, konungur. Þess er mér von að þú munir heyrt hafa mig nefndan. Eg em kallaður Karl mærski.»

Konungur svarar: «Svo er það Karl, heyrt hefi eg þig nefndan fyrr og er það satt að segja að verið hafa þær stundir ef fundi okkra hefði að borið er þú mundir ekki kunna segja frá tíðindum. En nú vil eg eigi verr hafa en þú er þú býður mér liðsemd þína að leggja eigi þar að móti þökk og aufúsu. Skaltu Karl koma til mín og vera í boði mínu í dag. Skulum við þá ræða þetta mál.»

Karl segir að svo skyldi vera.

143. Saga Mæra-Karls

Karl hinn mærski hafði verið víkingur og hinn mesti ránsmaður og hafði konungur mjög oft gerva menn til hans og vildi hann af lífi taka. En Karl var maður ættstór og mikill athafnarmaður, íþróttamaður og atgervimaður um marga hluti.

En er Karl var ráðinn til ferðar þessar þá tók konungur hann í sætt og því næst í kærleik, lét búa ferð hans sem best. Voru þeir á skipi nær tuttugu menn. Konungur gerði orðsendingar til vina sinna í Færeyjar, sendi Karl til halds og trausts þar er var Leifur Össurarson og Gilli lögsögumaður, sendi til þess jarteinir sínar.

Fór Karl þegar er hann var búinn. Byrjaði þeim vel og komu til Færeyja og lögðu í Þórshöfn í Straumey. Síðan var þar þing stefnt og kom þar fjölmennt. Þar kom Þrándur úr Götu með flokk mikinn. Þar kom og Leifur og Gilli. Höfðu þeir og fjölmenni mikið. En er þeir höfðu tjaldað og um búist þá gengu þeir til fundar við Karl mærska. Voru þar kveðjur góðar. Síðan bar Karl orð og jartegnir Ólafs konungs og vinmæli til þeirra Gilla og Leifs. Þeir tóku því vel og buðu Karli til sín og að flytja erindi hans og veita honum slíkt traust sem þeir hefðu föng á. Hann tók því þakksamlega.

Litlu síðar kom þar Þrándur og fagnaði vel Karli. «Em eg,» segir hann, «feginn orðinn er slíkur drengur hefir komið hingað til lands vors með erindi konungs vors er vér erum allir skyldir undir að standa. Vil eg ekki annað Karl en þú farir til mín til veturvistar og það með þér allt þíns liðs er þinn vegur væri þá meiri en áður.»

Karl svarar að hann var áður ráðinn að fara til Leifs «en eg mundi ellegar,» segir hann, «fúslega þiggja þetta boð.»

Þrándur svarar: «Þá mun Leifi auðið vegsmuna af þessu. En eru nokkurir aðrir hlutir þá þeir er eg megi þá svo gera að yður sé liðsemd að?»

Karl svarar að honum þótti mikið í veitt að Þrándur drægi saman skattinn um Austurey og svo um allar Norðureyjar. Þrándur sagði að það var skylt og heimilt að hann veitti þann beina að erindi konungs. Gengur Þrándur þá aftur til búðar sinnar. Varð á því þingi ekki fleira til tíðinda.

Fór Karl til vistar með Leifi Össurarsyni og var hann þar um veturinn eftir. Heimti Leifur skatt saman um Straumey og um allar eyjar suður þaðan.

Um vorið eftir fékk Þrándur úr Götu vanheilsu, hafði augnaþunga og þó enn kramar aðrar en þó bjóst hann að fara til þings sem vandi hans var. En er hann kom á þingið og búð hans var tjölduð þá lét hann tjalda undir svörtum tjöldum innan af til þess að þá væri síður skíðdræpt.

En er dagar nokkurir voru liðnir af þinginu þá ganga þeir Leifur og Karl til búðar Þrándar og voru fjölmennir. En er þeir komu að búðinni þá stóðu þar úti nokkurir menn. Leifur spurði hvort Þrándur væri inni í búðinni. Þeir sögðu að hann var þar.

Leifur mælti að þeir skyldu biðja Þránd út ganga. «Eigum við Karl erindi við hann,» segir hann.

En er þeir menn komu aftur þá sögðu þeir að Þrándur hafði þann augnaverk að hann mátti eigi út koma «og bað hann Leifur að þú skyldir inn ganga.»

Leifur mælti við förunauta sína að þeir skyldu fara varlega er þeir kæmu í búðina, þröngvast eigi, «gangi sá fyrstur út er síðast gengur inn.»

Leifur gekk fyrst inn en þar næst Karl, þá hans förunautar og fóru með alvæpni sem þá að þeir skyldu til bardaga búast. Leifur gekk innar að hinum svörtum tjöldunum, spurði þá hvar Þrándur væri. Þrándur svaraði og heilsaði Leifi. Leifur tók kveðju hans, spurði síðan hvort hann hefði nokkuð skatt heimt um Norðureyjar eða hver greiði þá mundi á vera um silfrið.

Þrándur svaraði og sagði að eigi hefði honum það úr hug horfið er þeir Karl höfðu rætt og svo að greiði mundi á verða um skattinn. «Er hér sjóður Leifur er þú skalt við taka og er fullur af silfri.»

Leifur sást um og sá fátt manna í búðinni. Lágu menn í pöllunum en fáir sátu upp. Síðan gekk Leifur til Þrándar og tók við sjóðnum og bar utar í búðina þar er ljóst var og steypti silfrinu ofan á skjöld sinn, rótaði í hendi sinni og mælti að Karl skyldi sjá silfrið. Þeir litu á um stund.

Þá spurði Karl hvernug Leifi sýndist silfrið.

Hann svarar: «Það hygg eg að hver sá peningur, er illur er í Norðureyjum, að hér muni kominn.»

Þrándur heyrði þetta og mælti: «Sýnist þér eigi vel silfrið Leifur?»

«Svo er,» segir hann.

Þrándur mælti: «Eigi eru þeir þó meðalmannníðingar frændur vorir er þeim má til einskis trúa. Eg hefi sent þá í vor að heimta skatt norður í eyjar er eg var að engu fær í vor en þeir hafa tekið mútur af bóndum að taka fals slíkt er eigi þykir gjaldgengt. Og er hitt vænst Leifur að sjá þetta silfur er goldist hefir í landskuldir mínar.»

Bar Leifur þá aftur silfrið en tók við sjóð öðrum og bar þann til Karls. Rannsökuðu þeir það fé. Spurði Karl hversu Leifi sýndist þetta fé.

Hann sagði að honum þótti þetta fé vont og eigi svo, að um þær skuldir er óvandlega var fyrir mælt, að eigi yrði slíkt þá tekið «en eigi vil eg þetta fé konungi til handa taka.»

Maður einn, sá er lá í pallinum, kastaði feldi af höfði sér og mælti: «Satt er hið fornkveðna: Svo ergist hver sem eldist. Svo er þér og Þrándur, lætur Karl hinn mærska reka fé fyrir þér í allan dag.»

Þar var Gautur hinn rauði.

Þrándur hljóp upp við orð Gauts og varð málóði, veitti þeim stórar átölur frændum sínum. En að lyktum mælti hann að Leifur skyldi selja honum það silfur «en tak hér við sjóð er landbúar mínir hafa fært mér heim í vor. En þótt eg sé óskyggn þá er þó sjálf hönd hollust.»

Maður reis upp við ölboga er lá í pallinum. Þar var Þórður hinn lági. Hann mælti: «Eigi hljótum vér meðalorðaskak af honum Mæra-Karli og væri hann launa fyrir verður.»

Leifur tók við sjóðnum og bar enn fyrir Karl. Sáu þeir það fé. Mælti Leifur: «Ekki þarf lengi að sjá á þetta silfur. Hér er hver peningur öðrum betri og viljum vér þetta fé hafa. Fá þú til Þrándur mann að sjá reislur.»

Þrándur sagði að honum þótti best til fengið að Leifur sæi fyrir hans hönd. Gengu þeir Leifur þá út og skammt frá búðinni. Settust þeir þá niður og reiddu silfrið. Karl tók hjálm af höfði sér og hellti þar í silfri þá er vegið var. Þeir sáu mann ganga hjá sér og hafði refði í hendi og hött síðan á höfði og heklu græna, berfættur, knýtt línbrókum að beini.

Hann setti niður refðið í völl og gekk frá og mælti: «Sjá þú við Mæra-Karl að þér verði eigi mein að refði mínu.»

Litlu síðar kom þar maður hlaupandi og kallaði ákaflega á Leif Össurarson, bað hann fara sem skjótast til búðar Gilla lögsögumanns, «þar hljóp inn um tjaldskarar Sigurður Þorláksson og hefir særðan búðarmann hans til ólífis.»

Leifur hljóp þegar upp og gekk á brott til fundar við Gilla. Gekk með honum allt búðarlið hans en Karl sat eftir. Þeir Austmennirnir stóðu í hring um hann. Gautur rauði hljóp að og hjó með handöxi yfir herðar mönnum og kom högg það í höfuð Karli og varð sár það ekki mikið. Þórður lági greip upp refðið er stóð í vellinum og lýstur á ofan öxarhamarinn svo að öxin stóð í heila. Þusti þá fjöldi manna út úr búð Þrándar. Karl var þaðan dauður borinn.

Þrándur lét illa yfir verki þessu og bauð þó fé til sátta fyrir frændur sína. Leifur og Gilli gengu að eftirmáli og kom þar eigi fébótum fyrir. Varð Sigurður útlagur fyrir áverka þann er hann veitti búðunaut Gilla en Þórður og Gautur fyrir víg Karls. Austmenn bjuggu skip það er Karl hafði haft þangað og fóru austur á fund Ólafs konungs. En þess varð eigi auðið að Ólafur konungur hefndi þessa við Þránd eða frændur hans fyrir þeim ófriði er þá hafði gerst í Noregi og enn mun verða frá sagt.

Og er nú lokið að segja frá þeim tíðindum er urðu af því er Ólafur konungur heimti skatt af Færeyjum. En þó gerðust deilur síðan í Færeyjum eftir víg Karls mærska og áttust þá við frændur Þrándar úr Götu og Leifur Össurarson og eru frá því stórar frásagnir.

144. Leiðangur Ólafs konungs

En nú er frá því að segja er fyrr var upp hafið er Ólafur konungur fór með liði sínu og hafði leiðangur úti fyrir landi. Fylgdu honum þá allir lendir menn norðan úr landi nema Einar þambarskelfir. Hann hafði um kyrrt setið heima að búum sínum síðan er hann kom í land og þjónaði ekki konungi. Átti Einar stórmiklar eignir og hélt sig þó vegsamlega að hann hefði engar konungsveislur.

Ólafur konungur hélt liði því suður um Stað. Dróst þar enn til hans lið mikið úr héruðum. Þá hafði Ólafur konungur skip það er hann hafði gera látið áður um veturinn er Vísundur var kallaður, allra skipa mest. Var á framstafni vísundarhöfuð gulli búið.

Þess getur Sighvatur skáld:

Lyngs bar fiskr til fengjar
flugstyggs sonar Tryggva
gjölnar gulli mölnu,
goð vildi svo, roðnar.
Annan lét á unnir
Ólafr, búinn hála,
lögr þó drjúgt, hinn digri,
dýrs horn, Vísund sporna.

Fór konungur þá suður á Hörðaland. Hann spurði þau tíðindi að Erlingur Skjálgsson var úr landi farinn og hafði haft lið mikið, skip fjögur eða fimm. Hann hafði sjálfur skeið eina mikla en synir hans þrjár tvítugsessur og höfðu siglt vestur til Englands á fund Knúts hins ríka.

Fór þá Ólafur konungur austur með landi og hafði allmikið lið. Hann leiddi að spurningum ef menn vissu nokkuð til ferðar Knúts hins ríka. En það kunnu allir að segja að hann var á Englandi en það var og sagt með að hann hafði leiðangur úti og ætlaði til Noregs. En fyrir þá sök er Ólafur konungur hafði lið mikið og hann fékk eigi hið sanna spurt hvert hann skyldi stefna til fundar við Knút, en mönnum þótti sér illa gegna dvöl í einum stað með her svo mikinn, þá réð hann það af að sigla með herinn suður til Danmerkur og hafði það lið allt með sér er honum þótti víglegast og best var búið en gaf hinum heimleyfi svo sem kveðið er:

Ólafr knýr und árum
orðsnjallr Vísund norðan.
Brýtr annar gramr úti
unnheim dreka sunnan.

Nú fór það lið heim er honum þótti minni fylgd í. Hafði Ólafur konungur þar lið mikið og frítt. Voru þar flestir lendir menn úr Noregi nema þeir er áður var sagt að úr landi væru farnir eða eftir höfðu sest heima.

145. Frá Ólafi konungi og Önundi konungi

Þá er Ólafur konungur sigldi til Danmerkur og hélt til Sjólands, en er hann kom þar tók hann að herja, veitti uppgöngur. Var þá bæði landsfólkið rænt og sumt drepið, sumt var handtekið og bundið, flutt svo til skipa en allt flýði, það er því kom við, og varð engi viðstaða. Gerði Ólafur konungur þar hið mesta hervirki.

En er Ólafur konungur var á Sjólandi þá spurði hann þau tíðindi að Önundur konungur Ólafsson hafði úti leiðangur og fór með her mikinn austan fyrir Skáni og herjaði hann þar. Varð þá bert um ráðagerð þá er þeir Ólafur konungur og Önundur konungur höfðu haft í Elfinni þá er þeir gerðu samband sitt og vináttu að þeir skyldu báðir veita mótstöðu Knúti konungi. Fór Önundur konungur til þess er hann fann Ólaf konung mág sinn.

En er þeir hittust þá gera þeir það bert bæði fyrir sínu liði og landsfólkinu að þeir ætla undir sig að leggja Danmörk og beiða sér viðurtöku af landsmönnum. En það var sem víða finnast dæmi til að þá er landsfólkið verður fyrir hernaði og fær eigi styrk til viðurtöku þá játa flestir öllum þeim álögum er sér kaupa frið í. Varð þá svo að margir menn ganga til handa þeim konungum og játuðu þeim hlýðni. Lögðu þeir víða landið undir sig þar er þeir fóru en herjuðu að öðrum kosti.

Sighvatur skáld getur þessa hernaðar í drápu þeirri er hann orti um Knút konung hinn ríka:

Knútr var und himnum.
Hygg eg ætt að frétt
Haralds í her
hug vel duga.
Lét lýgötu
lið suðr úr Nið
Ólafr, jöfur
ársæll, fara.

Þurðu norðan,
namst það, með gram
til slétts svalir
Silunds kilir.
En með annan
Önundr Dönum
á hendr að há
her sænskan fer.

146. Frá Knúti konungi

Knútur konungur hafði spurt vestur til Englands að Ólafur Noregskonungur hafði leiðangur úti, svo og það að hann fór með liði því til Danmerkur og þar var ófriður í ríki hans. Tók þá Knútur liði að safna. Dróst þar brátt saman her mikill og fjöldi skipa. Var Hákon jarl annar höfuðsmaður fyrir því liði.

Sighvatur skáld kom það sumar til Englands vestan úr Rúðu af Vallandi og sá maður með honum er Bergur hét. Þeir höfðu þangað farið kaupferð hið fyrra sumar. Sighvatur orti flokk þann er kallaður var Vesturfararvísur og er þetta upphaf.

Bergr, höfum minnst, hve, margan
morgun, Rúðuborgar
börð lét eg í för fyrða
fest við arm hinn vestra.

En er Sighvatur kom til Englands þá fór hann þegar til fundar við Knút konung og vildi beiða sér orlofs að fara til Noregs. Knútur konungur hafði sett bann fyrir kaupskip öll fyrr en hann hefði búið her sinn.

En er Sighvatur kom til hans þá gekk hann til herbergis þess er konungur var inni. Þá var herbergið læst og stóð hann lengi úti. En er hann hitti konung þá fékk hann lof sem hann beiddi. Þá kvað hann:

Utan varð eg, áðr en Jóta
andspilli fékk eg stillis,
melld sá eg hús fyr höldi,
húsdyr fyr spyrjast.
En erindi óru
áttungr í sal knátti
Gorms, ber eg oft á armi
járnstúkur, vel lúka.

En er Sighvatur varð þess var að Knútur konungur býr herferð á hendur Ólafi konungi og hann vissi hversu mikinn styrk Knútur konungur hafði þá kvað Sighvatur:

Ör, tegast Ólaf gerva,
allt hefir sá er, fjörvaltan,
konungs dauða mun eg kvíða,
Knútr og Hákon, úti.
Haldist vörðr, þó að vildit
varla Knútr og jarlar,
dælla er, fyrst á fjalli,
fundr, ef hann sjálfr kemst undan.

Enn orti Sighvatur fleiri vísur um ferð þeirra Knúts og Hákonar. Þá kvað hann enn:

Átti jarl að sætta
alframr búendr gamla
og þeir er oftast tóku
Ólaf að því máli.
Þeir hafa fyrr af fári,
framt er Eiríks kyn, meira
höfðum keypt en heiftir
Hákon saman myndi.

147. Frá dreka Knúts konungs

Knútur hinn ríki hafði búið her sinn úr landi. Hafði hann óf liðs og skip furðulega stór. Hann sjálfur hafði dreka þann er svo var mikill að sextugur var að rúmatali. Voru þar á höfuð gullbúin. Hákon jarl hafði annan dreka. Var sá fertugur að rúmatali. Voru þar og gyllt höfuð á en seglin bæði voru stöfuð öll með blá og rauðu og grænu. Öll voru skipin steind fyrir ofan sæ. Allur búnaður skipanna var hinn glæsilegsti. Mörg önnur skip höfðu þeir stór og búin vel.

Þess getur Sighvatur skáld í Knútsdrápu:

Knútr var und himnum.
Hann austan fer,
fríðr fylkis niðr,
fráneygr, Dana.
Skreið vestan viðr,
varglæstr, sá er bar
út andskota
Aðalráðs þaðan.

Og báru í byr
blá segl við rá,
dýr var döglings för,
drekar landreka.
En, þeir er komu,
kilir, vestan til,
um leið liðu,
Limafjarðar, brim.

Svo er sagt að Knútur konungur hélt her þeim hinum mikla vestan af Englandi og kom heilu öllu liði sínu til Danmarkar og lagði til Limafjarðar. Var þar fyrir safnaður mikill landsmanna.

148. Hörða-Knútur til konungs tekinn

Úlfur jarl Sprakaleggsson hafði settur verið til landvarnar í Danmörk þá er Knútur konungur fór til Englands. Hafði hann selt í hendur Úlfi jarli son sinn þann er kallaður var Hörða-Knútur. Var það hið fyrra sumar sem áður er ritið.

En jarl segir þegar að Knútur konungur hafði boðið honum það erindi að skilnaði þeirra að hann vildi að þeir tækju til konungs yfir Danaveldi Hörða-Knút son Knúts konungs. «Fékk hann fyrir þá sök hann oss í hendur. Hefi eg,» segir hann, «og margir aðrir hérlandsmenn og höfðingjar kært oftlega það fyrir Knúti konungi að mönnum þykir það hér í landi vandi mikill að sitja hér konunglaust er hinum fyrrum konungum Dana þótti það fullræði að hafa konungdóm yfir Danaveldi einu saman. En þá er hin fyrri ævi var réðu þessu ríki margir konungar. En þó gerist nú það miklu meira vandmæli en fyrr hefir verið því að vér höfum hér til náð í friði að sitja af útlendum höfðingjum en nú spyrjum vér hitt, að Noregskonungur ætli að herja á hendur oss og er mönnum þó grunur á að Svíakonungur muni og til þeirrar ferðar ráðast. En Knútur konungur er nú á Englandi.»

Síðan bar jarl fram bréf og innsigli Knúts konungs, þau er sönnuðu allt þetta er jarl bar upp. Þetta erindi studdu margir aðrir höfðingjar. Og af þeirra fortölum allra saman réð mannfólkið það af, að taka Hörða-Knút til konungs og var það gert á því sama þingi. En í þessi ráðagerð hafði verið upphafsmaður Emma drottning. Hafði hún látið gera bréf þessi og látið innsigla. Hafði hún með brögðum náð innsigli konungs en hann sjálfur var leyndur þessu öllu.

En er þeir Hörða-Knútur og Úlfur jarl urðu þess varir að Ólafur konungur var kominn norðan úr Noregi með her mikinn þá fóru þeir til Jótlands því að þar er mest megin Danaveldis. Skáru þeir þá upp herör og stefndu saman her miklum. En er þeir spurðu að Svíakonungur var og þar kominn með her sinn þá þóttust þeir eigi styrk hafa að leggja til bardaga við þá báða. Þá héldu þeir safnaðinum á Jótlandi og ætluðu að verja það land fyrir konungum en skipaherinn drógu þeir allan saman í Limafirði og biðu svo Knúts konungs.

En er þeir spurðu að Knútur konungur var vestan kominn til Limafjarðar þá gerðu þeir sendimenn til hans og til drottningar Emmu og báðu að hún skyldi verða vís hvort konungur var þeim reiður eða eigi og láta þá þess verða vara.

Drottning ræddi þetta mál við konung og segir að Hörða-Knútur sonur þeirra vildi bæta öllu því sem konungur vildi ef hann hefði það gert er konungi þætti í móti skapi.

Hann svarar, segir að Hörða-Knútur hafði ekki sínum ráðum fram farið. «Hefir það svo tekist,» kvað hann, «sem von var að er hann var barn og óviti er hann vildi konungur heita og vanda nokkurn bar til handa honum að land þetta allt mundi herskildi farið og leggjast undir útlenda höfðingja ef eigi kæmi vor styrkur til. Nú ef hann vill nokkura sætt við mig gera þá fari hann á fund minn og leggi niður hégómanafn það er hann hefir sig konung látið kalla.»

Sendi síðan drottning þessi sömu orð til Hörða-Knúts og það með að hún bað að hann skyldi eigi þessa ferð undir höfuð leggjast, sagði sem var að hann mundi engi styrk til þess fá að standa í mót föður sínum.

En er þessi orðsending kom til Hörða-Knúts þá leitaði hann ráðs við jarl og við aðra höfðingja þá er með honum voru. En það fannst brátt, þegar er landsfólkið spurði að Knútur hinn gamli var kominn, þá dreif til hans allur múgur landsins og þótti þar traust sitt allt. Sá Úlfur jarl og aðrir félagar hans að tveir voru kostir fyrir höndum, annaðhvort að fara á fund konungs og leggja allt á hans vald eða stefna af landi brott ellegar. En allir fýstu Hörða-Knút að fara á fund föður síns. Gerði hann svo.

En er þeir hittust þá féll hann til fóta föður sínum og lagði innsiglið í kné honum, það er konungsnafn fylgdi. Knútur konungur tók í hönd Hörða-Knúti og setti hann í sæti svo hátt sem fyrr hafði hann setið.

Úlfur jarl sendi Svein son sinn á fund Knúts konungs. Sveinn var systurson Knúts konungs. Hann leitaði griða föður sínum og sættar af konungi og bauð að setjast í gísling af hendi jarls. Þeir Sveinn og Hörða-Knútur voru jafnaldrar.

Knútur konungur bað þau orð segja jarli að hann safnaði her og skipum og færi svo til fundar við konung en ræddi síðan um sættir sínar. Jarl gerði svo.

149. Hernaður á Skáni

En er Ólafur konungur og Önundur konungur spurðu að Knútur konungur var vestan kominn og það að hann hafði þá óflýjanda her þá sigla þeir austur fyrir Skáni, taka þá að herja og brenna héruð, sækja svo austur fyrir landið til móts við ríki Svíakonungs.

En þegar er landsfólkið spurði að Knútur konungur var vestan kominn þá varð ekki af handgöngu við konunga.

Þessa getur Sighvatur skáld:

Gátut drottnar
Danmörk spanið
und sik sökum
snarir herfarar.
Þá lét skarpla
Skáney Dana
hlöðr herjaða.
Höfuðfremstr jöfur.

Þá sóttu konungar austur fyrir landið og lögðu að þar er heitir Áin helga og dvöldust þar um hríð. Þá spyrja þeir að Knútur konungur fór með her sinn austur eftir þeim. Þá bera þeir ráð saman og tóku það til að Ólafur konungur með liði sínu sumu gekk á land upp og allt á markir til vatns þess er Áin helga fellur úr, gerðu þar í árósinum stíflu með viðum og torfi og stemma svo uppi vatnið og svo skáru þeir díki stór og hleyptu saman fleirum vötnunum og gerðust þar víðir flóar en í árveginn hjuggu þeir stórviðu. Þeir voru í þessu starfi marga daga og hafði Ólafur konungur allt tilstilli um brögð þessi en Önundur konungur hafði þá stjórn yfir skipahernum.

Knútur konungur spurði til ferða þeirra konunga og svo skaða þann allan er þeir höfðu gert á ríki hans, heldur þá til móts við þá þar er þeir lágu í Ánni helgu og hafði her mikinn og hálfu meira en þeir báðir.

Þessa getur Sighvatur:

Létat af jöfur,
ætt manna fannst,
Jótlands etast
ílendr, að því.
Vildi foldar
fæst rán Dana
hlífskjöldr hafa.
Höfuðfremstr jöfur.

150. Orusta fyrir Ánni helgu

Það var einn dag að kveldi að njósnarmenn Önundar konungs sáu sigling Knúts konungs og átti hann þá þangað eigi langt. Þá lét Önundur konungur blása herblástur. Ráku menn þá tjöld af sér og herklæddust, reru út úr höfninni og austur fyrir landið, lögðu þá saman skip sín og tengdu og bjuggust til bardaga. Önundur konungur hleypti njósnarmönnum á land upp. Fóru þeir á fund Ólafs konungs og sögðu honum þessi tíðindi.

Þá lét Ólafur konungur brjóta stíflurnar og hleypa ánni í veg sinn en hann fór um nóttina ofan til skipa sinna.

Knútur konungur kom fyrir höfnina. Þá sá hann hvar lá her konunga búinn til bardaga. Þótti honum sem þá mundi vera síð dags að leggja til orustu, um það er her hans væri allur búinn, því að floti hans þurfti rúm mikið á sænum til að sigla. Var langt í milli hins fyrsta skips og hins síðasta, svo þess er utast fór eða hins er næst fór landi. Veður var lítið. En er Knútur konungur sá að Svíar og Norðmenn höfðu rýmda höfnina þá lagði hann inn til hafnar og svo skipin sem rúm höfðu en þó lá meginherinn út á hafinu.

Um morguninn er mjög var ljóst þá var lið þeirra mart á landi uppi, sumt á tali en sumt að skemmtan sinni. Þá finna þeir eigi fyrr en þar geysast vötn að þeim með fossfalli. Þar fylgdu viðir stórir er rak að skipum þeirra. Meiddust skipin þar fyrir en vötnin flutu um völluna alla. Týndist það fólkið er á landi var og mart það er á skipum var en allir þeir er því komu við hjuggu festar sínar og leystust út og rak skipin mjög sundurlaus. Dreka hinn mikla er sjálfur konungur var á rak út fyrir straumi. Varð honum ekki auðsnúið með árum. Rak hann út að flota þeirra Önundar konungs.

En er þeir kenndu skipið þá lögðu þeir þegar að umhverfis. En fyrir þá sök að skipið var borðmikið svo sem borg væri en fjöldi manns á og valið hið besta lið, vopnað og sem örugglegast, þá varð skipið ekki auðsótt. Var og stundin skömm áður Úlfur jarl lagði að með sínu liði og hófst þá orusta. Því næst dróst að her Knúts konungs öllum megin. Þá sáu konungar, Ólafur og Önundur, að þeir mundu unnið hafa þá að sinni þann sigur sem auðið var, létu þá síga skip sín á hömlu og leystust í brott úr her Knúts konungs og skildu flotana.

En fyrir þá sök að atlaga þessi hafði ekki þannug tekist sem Knútur konungur hafði til skipað, höfðu skipin ekki þannug fram lagt sem til var skipað, þá varð ekki af atróðrinum og könnuðu þeir Knútur konungur lið sitt og tóku þá að skipa liðinu og bjuggust um.

En er þeir höfðu skilist og sér fór hvor flotinn þá könnuðu konungar lið sitt og fundu að þeir höfðu ekki mannspell fengið. Það sáu þeir og ef þeir biðu þar þess er Knútur konungur hefði búið allan her þann er hann hafði og legði síðan að þeim að liðsmunur var svo mikill að lítil von var að þeir mundu sigrast en auðvitað, ef orusta tækist, að þar mundi verða hið mesta mannfall. Nú var það ráð tekið að róa liðinu öllu austur með landi. En er þeir sáu að flotinn Knúts konungs fór ekki eftir þeim þá reistu þeir viður og settu upp segl sín.

Óttar svarti ræðir um fund þenna í þeirri drápu er hann orti um Knút hinn ríka:

Svíum hnekktir þú, sökkva
siklingr ör, en mikla
ylgr, þar er Áin helga,
úlfs beitu fékk, heitir.
Héltu, þar er hrafn né svalta,
hvatráðr ertu, láði,
ógnar stafr, fyr jöfrum,
ýgr, tveim, við kyn beima.

Þórður skáld Sjáreksson orti erfidrápu um Ólaf konung hinn helga. Sú er kölluð Róðadrápa og er þar getið þessa fundar:

Átti Egða drottinn,
Ólafr, þrimu stála
við ágætan Jóta
öðling þann er klýfr hringa.
Skaut nær skarpt að móti
Skánunga gramr hánum.
Sveins vara sonr að reyna
slær. Þaut úlfr of hrævi.

151. Ráðagerðir Ólafs konungs og Önundar konungs

Ólafur konungur og Önundur konungur sigldu austur fyrir veldi Svíakonungs og að aftni dags lögðu þeir að landi þar er heitir Barvík. Lágu konungar þar um nóttina. En það fannst á um Svía að þeim var þá títt heim að fara. Var það mikill hluti Svíahers að sigldi um nóttina austur með landi og létta þeir eigi fyrr sinni ferð en hver kom til síns heimilis.

En er Önundur konungur varð þessa var og þá lýsti af degi þá lét hann blása til húsþings. Gekk þá allt lið á land og var sett þing.

Önundur konungur tók til máls: «Svo er,» segir hann, «sem þér Ólafur konungur vitið að vér höfum í sumar farið allir saman og herjað víða um Danmörk. Höfum vér fengið fé mikið en ekki af löndum. Eg hefi haft í sumar hálft fjórða hundrað skipa en nú er eigi meir eftir en hundrað skipa. Nú líst mér svo sem vér munum vinna ekki til sæmdar með eigi meira her en nú höfum vér þó að þér hafið sex tigu skipa sem þér hafið í sumar haft. Nú þykir mér það sýnlegast að fara aftur í ríki mitt og er gott heilum vagni heim að aka. Vér höfum aflað í ferð þessi en ekki látið. Nú vil eg Ólafur mágur bjóða yður að þér farið með mér og verum í vetur allir ásamt. Takið slíkt af mínu ríki sem þér fáið yður vel haldið og það lið sem yður fylgir. Gerum þá er vor kemur slíkt ráð sem oss sýnist. En ef þér viljið heldur þann kost að hafa land vort til yfirferðar þá skal það heimilt og viljið þér fara landveg í ríki yðart í Noreg.»

Ólafur konungur þakkaði Önundi konungi vinsamleg boð er hann hafði veitt honum. «En þó, ef eg skal ráða,» segir hann, «þá mun annað ráð tekið og munum vér halda saman her þessum er nú er eftir. Hafði eg fyrst í sumar áður eg fór úr Noregi hálft fjórða hundrað skipa en er eg fór úr landi þá valdi eg úr her þeim öllum það lið er mér þótti best. Skipaði eg þessa sex tigu skipa er nú hefi eg. Nú líst mér og svo um yðart lið sem það muni hafa á brott hlaupið er dáðlausast var og verst fylgd í en eg sé hér alla höfðingja yðra og hirðstjóra og veit eg að það lið er allt betra til vopns er hirðliðið er. Höfum vér enn mikinn her og skipakost svo góðan að vér megum vel liggja úti á skipum í allan vetur svo sem konungar hafa fyrr gert. En Knútur konungur mun litla hríð liggja í Ánni helgu því að þar er engi höfn skipafjölda þeim er hann hefir. Mun hann fara austur eftir oss. Þá skulum vér fara undan og mun oss þá brátt lið dragast. En ef hann snýr aftur þangað sem hafnir þær eru er hann má liggja flota sínum þá mun þar vera engum mun síður en hér mart lið heimfúst. Vænti eg að vér höfum svo um búið í sumar að þorparinn viti hvað hann skal vinna bæði á Skáni og á Sjólandi. Mun her Knúts konungs dreifast brátt víðs vegar og veit þá eigi hverjum sigurs er auðið. Höfum fyrst njósnir af hvert ráð hann tekur.»

Lauk Ólafur konungur svo máli sínu að allir menn gerðu góðan róm að og var það ráðs tekið sem hann vildi vera láta. Voru þá njósnir gervar til liðs Knúts konungs en þeir lágu þar báðir konungar.

152. Frá Knúti konungi og Úlfi jarli

Knútur konungur sá það að Noregskonungur og Svíakonungur héldu liði sínu austur fyrir landið. Gerði hann þegar lið á land upp, lét menn sína ríða hið efra dag og nótt svo sem lið konunga fór hið ytra. Fóru þá aðrir njósnarmenn fram er aðrir fóru aftur. Vissi Knútur konungur á hverjum degi tíðindi frá ferð þeirra. Voru njósnarmenn í her þeirra konunga. En er hann spurði að mikill hluti liðs var frá þeim farinn þá hélt hann sínum her aftur til Sjálands og lagðist í Eyrarsund með allan herinn. Lá sumt liðið við Sjáland en sumt við Skáni.

Knútur konungur reið upp til Hróiskeldu dag hinn næsta fyrir Mikjálsmessu og með honum sveit mikil manna. En þar hafði gert veislu í móti honum Úlfur jarl mágur hans. Veitti jarl allkappsamlega og var allkátur. Konungur var fámálugur og heldur ófrýnn. Jarl orti orða á hann og leitaði þeirra málsenda er hann vænti að konungi mundi best þykja. Konungur svarar fá. Þá spurði jarl ef hann vildi leika að skáktafli. Hann játti því. Tóku þeir þá skáktaflið og léku.

Úlfur jarl var maður skjótorður og óvæginn bæði í orðum og í öllum öðrum hlutum og hinn mesti framkvæmdarmaður um ríki sitt og hermaður mikill og er saga mikil frá honum sögð. Úlfur jarl var maður ríkastur í Danmörk þegar er konunginn líddi. Systir Úlfs jarls var Gyða er átti Guðini jarl Úlfnaðursson og voru synir þeirra Haraldur Englakonungur, Tósti jarl, Valþjófur jarl, Mörukári jarl, Sveinn jarl, Gyða dóttir þeirra er átti Játvarður hinn góði Englakonungur.

153. Víg Úlfs jarls

En er þeir léku að skáktafli Knútur konungur og Úlfur jarl þá lék konungur fingurbrjót mikinn. Þá skækti jarl af honum riddara. Konungur bar aftur tafl hans og segir að hann skyldi annað leika. Jarl reiddist og skaut niður taflborðinu, stóð upp og gekk í brott.

Konungur mælti: «Rennur þú nú Úlfur hinn ragi.»

Jarl sneri aftur við dyrin og mælti: «Lengra mundir þú renna í Ánni helgu ef þú kæmir því við. Kallaðir þú eigi þá Úlf hinn raga er eg lagði til að hjálpa þér er Svíar börðu yður sem hunda.»

Gekk jarl þá út og fór til svefns. Litlu síðar gekk konungur að sofa.

Eftir um morguninn þá er konungur klæddist þá mælti hann við skósvein sinn: «Gakk þú,» segir hann, «til Úlfs jarls og drep hann.»

Sveinninn gekk og var á brott um hríð og kom aftur.

Þá mælti konungur: «Drapstu jarl?»

Hann svarar: «Eigi drap eg hann því að hann var genginn til Lúkíus-kirkju.»

Maður hét Ívar hvíti, norrænn að kyni. Hann var þá hirðmaður Knúts konungs og herbergismaður hans.

Konungur mælti til Ívars: «Gakk þú og drep jarl.»

Ívar gekk til kirkju og inn í kórinn og lagði þar sverði í gegnum jarl. Fékk þar Úlfur jarl bana. Ívar gekk til konungs og hafði sverðið blóðugt í hendi.

Konungur spurði: «Drapstu nú jarl?»

Ívar svarar: «Nú drap eg hann.»

«Vel gerðir þú þá,» kvað hann.

En eftir þá er jarl var drepinn létu munkar læsa kirkju. Þá var það sagt konungi. Hann sendi mann til munka, bað þá láta upp kirkju og syngja tíðir. Þeir gerðu sem konungur bauð.

En er konungur kom til kirkju þá skeytti hann jarðir miklar til kirkju svo að það er hérað mikið og hófst sá staður mikið síðan. Af því hafa þær jarðir þar til legið síðan. Knútur konungur reið síðan út til skipa sinna og var þar lengi um haustið með allmikinn her.

154. Frá Ólafi konungi og Svíum

Þá er Ólafur konungur og Önundur konungur spurðu að Knútur konungur hafði haldið til Eyrarsunds og hann lá þar með her sinn þá áttu þeir konungar húsþing.

Talaði Ólafur konungur og segir að þetta hafði farið að getu hans að Knútur konungur hafði eigi lengi verið í Ánni helgu. «Vænti eg nú að fleira skal fara eftir getu minni um viðurskipti vor. Hefir hann nú lítið fjölmenni hjá því sem hann hafði í sumar en hann mun minna hafa síðar því að eigi er þeim óleiðara en oss að liggja úti á skipum í haust síðan og mun oss sigurs auðið ef oss skortir eigi þrá og tilræði. Hefir svo farið í sumar að vér höfum haft lið minna en þeir hafa látið fyrir oss bæði menn og fé.»

Þá tóku Svíar að tala, segja að það var ekki ráð að bíða þar vetrar og frera «þótt Norðmenn eggi þess. Vita þeir ógerla hver íslög kunna hér að verða og frýs haf allt oftlega á vetrum. Viljum vér fara heim og vera hér ekki lengur.»

Gerðu þá Svíar kurr mikinn og mælti hver í orðastað annars. Var það afráðið að Önundur konungur fer þá í brott með allt sitt lið en Ólafur konungur var þá enn eftir.

155. Frá Agli og Tófa

En er Ólafur konungur lá þar þá átti hann oft tal og ráðagerð við lið sitt.

Það var eina nótt að þeir áttu vörð að halda af konungsskipi Egill Hallsson og sá maður er hét Tófi Valgautsson. Hann var kynjaður af Vestra-Gautlandi, ættstór maður. En er þeir sátu á verðinum þá heyrðu þeir grát og veinan þar til er sat í böndum hernumið lið. Var það bundið um nætur á landi uppi. Tófi segir að honum þótti illt að heyra á gaulan þeirra og bað Egil að þeir færu til að leysa fólkið og láta brott hlaupa. Þeir gerðu þetta sama ráð, fóru til og skáru böndin og hleyptu á brott fólki því öllu og varð það verk allóvinsælt.

Konungur var og svo reiður að þeim hélt við voða sjálfan. Og síðan er Egill var sjúkur þá var það lengi að konungur vildi eigi koma að sjá hann, að margir menn báðu hann. Iðraðist Egill þá mjög er hann hafði svo gert að konungi þótti illa og bað af sér reiði. Veitti konungur honum það um síðir. Ólafur konungur lagði hendur sínar yfir síðu Egils þar er verkurinn lá undir og söng bænir sínar en jafnskjótt tók úr verk allan. Eftir það batnaði Agli.

En Tófi kom sér síðan í sætt. Svo er sagt að hann skyldi það til vinna að koma á fund Ólafs konungs föður sínum. Valgautur var maður hundheiðinn og fékk hann kristni af orðum konungs og andaðist þegar er hann var skírður.

156. Svikræði við Ólaf konung

En er Ólafur konungur átti tal við lið sitt þá leitaði hann ráða við höfðingja, hvert þeir skyldu upp taka. En það kom lítt ásamt með mönnum. Kallaði það annar óráð er öðrum þótti vænlegt og volkuðu þeir mjög lengi ráðin fyrir sér.

Njósnarmenn Knúts konungs voru jafnan í her þeirra og komu sér í tal við marga menn og höfðu þeir fram féboð og vináttumál af hendi Knúts konungs en þar létu margir eftir leiðast og seldu þar til trú sína að þeir skyldu gerast menn Knúts konungs og halda landi honum til handa ef hann kæmi í Noreg. Urðu margir að þessu berir síðar þótt það færi þá leynt fyrst. Sumir tóku þá þegar við fégjöfum en sumum var heitið fé síðar. En hinir voru allmargir er áður höfðu þegið af honum vingjafir stórar fyrir því að það var satt að segja frá Knúti konungi að hver er á hans fund kom, þeirra manna er honum þótti nokkuð mannsmót að og vildu hann þýðast, þá fékk hver af honum fullar hendur fjár. Varð hann af því stórlega vinsæll. Og var mest að um örleik hans við útlenda menn og þá mest er lengst voru að komnir.

157. Ráðagerð Ólafs konungs

Ólafur konungur átti oft tal og stefnur við menn sína og spurði að ráðagerðum. En er hann fann að sitt lagði hver til þá grunaði hann að þeir voru sumir er annað mundu um mæla en sýnast mundi ráðlegast og mundi þá eigi ráðið hvort allir mundu honum rétta skuld gjalda um tryggðina.

Þess eggjuðu margir að þeir skyldu taka byr og sigla til Eyrarsunds og svo norður til Noregs. Sögðu þeir að Danir mundu ekki þora að þeim að leggja þótt þeir lægju fyrir með lið mikið.

En konungur var maður svo vitur að hann sá að slíkt var ófæra. Vissi hann og að annan veg hafði tekist Ólafi Tryggvasyni þá er hann var fáliður er hann lagði til orustu þar er her mikill var fyrir en Danir þyrðu þá eigi að berjast. Vissi konungur og að í her Knúts konungs var fjöldi Norðmanna. Grunaði konung að þeir er slíkt réðu honum mundu vera hollari Knúti konungi en honum.

Veitti Ólafur konungur þá úrskurð, segir svo að menn skulu búast, þeir er honum vilja fylgja, og fara landveg um hið efra Gautland og svo til Noregs. «En skip vor,» segir hann, «og allan þunga þann er vér megum eigi eftir oss flytja vil eg senda austur í veldi Svíakonungs og láta þar varðveita oss til handa.»

158. Ferð Háreks úr Þjóttu

Hárekur úr Þjóttu svarar máli Ólafs konungs, segir svo: «Það er auðsætt að eigi má eg fara fæti til Noregs. Eg em maður gamall og þungur og vanur lítt göngum. Ætla eg trauður að skiljast við skip mitt. Hefi eg lagt þá stund á um skip það og búnað þess að mér mun leitt að ljá óvinum mínum fangs á skipi því.»

Konungur svarar: «Far þú með oss Hárekur. Vér skulum bera þig eftir oss ef þú mátt eigi ganga.»

Hárekur kvað þá vísu:

Ráðið hefi eg að ríða
Rínleygs héðan mínum
láðs dynmari leiðar
löngum heldr en ganga,
þótt leggfjöturs liggi
lundr í Eyrarsundi,
kann þjóð kerski minni,
Knútr, herskipum úti.

Þá lét Ólafur konungur búa ferð sína. Höfðu menn ígangsklæði sín og vopn og það sem fékkst af reiðskjótum, þá var klyfjað af klæðum og lausafé. En hann sendi menn og lét flytja skip sín austur í Kalmarnir. Létu þeir þar upp setja skipin og flytja reiða allan og annan varnað til varðveislu.

Hárekur gerði sem hann hafði sagt að hann beið byrjar og sigldi síðan austan fyrir Skáni til þess er hann kom austan að Hölunum og var það aftan dags. En byr var á blásandi. Þá lét hann ofan leggja seglið og svo viðu, taka ofan veðurvitann og sveipa skipið allt fyrir ofan sjá með grám tjöldum og lét róa í nokkurum rúmum fram og aftur en lét flesta menn sitja lágt í skipinu.

Og sáu varðmenn Knúts konungs skipið og ræddu um sín í milli hvað skipa það mundi vera og gátu þess að vera mundi flutt salt eða síld er þeir sáu fá mennina en lítinn róðurinn en skipið sýndist þeim grátt og bráðlaust og sem skipið mundi skinið af sólu og sáu þeir að skipið var sett mjög.

En er Hárekur kom fram í sundið og um herinn þá lét hann reisa viðuna og draga seglið, lét setja upp gyllta veðurvita. Var seglið hvítt sem drift og stafað rauðu og blá með vendi. Þá sáu menn Knúts konungs og segja konungi að meiri von var, að Ólafur konungur hefði þar um siglt.

En Knútur konungur segir svo að Ólafur konungur væri svo vitur maður að hann hefði eigi farið einskipa í gegnum her Knúts konungs og lést líklegra þykja að þar mundi verið hafa Hárekur úr Þjóttu eða hans maki.

Það hafa menn fyrir satt að Knútur konungur hafi vitað um ferð Háreks og hann mundi eigi svo farið hafa ef eigi hefði áður farið vináttumál milli þeirra Knúts konungs og þótti það birtast eftir þá er vinátta þeirra Knúts konungs og Háreks gerðist alkunna.

Hárekur orti vísu þessa þá er hann sigldi norður um Veðurey:

Lækkat eg Lundar ekkjur,
læbaugs, að því hlæja,
skjótum eik fyr utan
ey, né danskar meyjar,
Jörð, að eg eigi þorði,
ifla flausts, á hausti
á flatslóðir Fróða
fara aftr vali krafta.

Fór Hárekur þá ferðar sinnar og létti eigi fyrr en hann kom norður á Hálogaland og til bús síns í Þjóttu.

159. Ferð Ólafs konungs úr Svíþjóð

Ólafur konungur byrjar ferð sína, fór fyrst upp um Smálönd og kom fram í Vestra-Gautland, fór spaklega og friðsamlega en landsmenn veittu þeim góðan forbeina. Fór konungur til þess er hann kom ofan í Víkina og svo norður eftir Víkinni til þess er hann kom í Sarpsborg. Dvaldist hann þá þar og lét þá þar búa til vetursetu. Gaf konungur þá heimleyfi mestum hluta liðsins en hafði með sér það af lendum mönnum er honum sýndist. Þar voru með honum allir synir Árna Armóðssonar. Voru þeir mest virðir af konungi.

Þá kom til Ólafs konungs Gellir Þorkelsson og hafði komið áður um sumarið af Íslandi svo sem fyrr var ritið.

160. Frá Sighvati skáld

Sighvatur skáld hafði verið lengi með Ólafi konungi svo sem hér er ritið og hafði konungur gert hann stallara sinn. Sighvatur var ekki hraðmæltur maður í sundurlausum orðum en skáldskapur var honum svo tiltækur að hann kvað af tungu fram svo sem hann mælti annað mál. Hann hafði verið í kaupferðum til Vallands og í þeirri ferð hafði hann komið til Englands og hitt Knút hinn ríka og fengið af honum leyfi að fara til Noregs svo sem fyrr var ritið.

En er hann kom í Noreg þá fór hann þegar til fundar við Ólaf konung og hitti hann í Borg, gekk fyrir konung þá er hann sat yfir borðum. Sighvatur kvaddi hann. Konungur leit við honum og þagði.

Sighvatur kvað:

Heim erum hingað komnir,
hygg þú at, jöfur skatna,
menn nemi mál sem eg inni
mín, stallarar þínir.
Segðu hvar sess hafið hugðan,
seims, þjóðkonungr beima,
allr er þekkr, með þollum,
þinn skáli mér innan.

Þá sannaðist það er fornkveðið mál er að mörg eru konungs eyru. Ólafur konungur hafði spurt allt um farar Sighvats að hann hafði hitt Knút konung.

Ólafur konungur mælti til Sighvats: «Eigi veit eg hvort þú ætlar nú að vera minn stallari. Eða hefir þú nú gerst maður Knúts konungs?»

Sighvatur kvað:

Knútr spurði mig, mætra
mildr, ef eg honum vildi
hendilangr sem, hringa,
hugreifum Óleifi.
Einn kvað eg senn, en sönnu
svara þóttumst eg, dróttin,
gefin eru gumna hverjum
góð dæmi, mér sæma.

Þá mælti Ólafur konungur að Sighvatur skyldi ganga til sætis þess er hann var vanur að hafa fyrr. Kom Sighvatur sér þá enn brátt í kærleika hina sömu sem áður hafði hann haft.

161. Frá Erlingi Skjálgssyni

Erlingur Skjálgsson og synir hans allir höfðu verið um sumarið í her Knúts konungs og í sveit með Hákoni jarli. Þar var þá og Þórir hundur og hafði metorð mikil.

En er Knútur konungur spurði að Ólafur konungur hafði landveg farið til Noregs þá leysti Knútur konungur leiðangurinn og gaf leyfi öllum mönnum að búa sér til veturvistar. Var þá í Danmörk her mikill útlendra manna, bæði enskra manna og Norðmanna og af fleirum löndum er lið hafði komið til hersins um sumarið.

Erlingur Skjálgsson fór um haustið til Noregs með liði sínu og þá af Knúti konungi stórar gjafir að skilnaði þeirra. Þórir hundur var eftir með Knúti konungi.

Með Erlingi fóru norður í Noreg sendimenn Knúts konungs og höfðu með sér óf lausafjár. Fóru þeir um veturinn víða um land, reiddu þá af hendi fé þau er Knútur konungur hafði heitið mönnum um haustið til liðs sér en gáfu hinum mörgum er þeir fengu með fé keypt vináttu Knúti konungi. En þeir höfðu traust Erlings til yfirferðar. Gerðist þá svo að fjöldi manna snerist til vináttu við Knút konung og hétu honum þjónustu sinni og því með að veita Ólafi konungi mótstöðu. Gerðu það sumir berlega en hinir voru miklu fleiri er leyndust að fyrir alþýðu.

Ólafur konungur spurði þessi tíðindi. Kunnu margir honum að segja frá þessum tíðindum og var það fært mjög í fjölmæli þar í hirðinni.

Sighvatur skáld kvað þetta:

Fjandr ganga þar þengils,
þjóð býðr oft, með sjóða,
höfgan málm fyr hilmis
haus ófalan, lausa.
Sitt veit hverr, ef harra
hollan selr við gulli,
vert er slíks, í svörtu
sinn helvíti innan.

Og enn kvað Sighvatur þetta:

Kaup varð daprt, þar er djúpan,
dróttin rækt, um sóttu
þeir er, heim, á himnum,
hás elds, svikum belldu.

Oft var sú umræða þar í munni höfð hversu illa samdi Hákoni jarli að færa her á hendur Ólafi konungi er hann hafði honum líf gefið þá er jarl hafði á hans vald komið.

En Sighvatur var hinn mesti vinur jarls, og þá enn, er Sighvatur heyrði jarlinum ámælt kvað hann:

Gerðust hilmis Hörða
húskarlar þá jarli,
er við Ólafs fjörvi,
ofvægir, fé þægju.
Hirð era hans að verða
hálegt fyr því máli.
Dælla er oss, ef allir
erum vér um svik skírir.

162. Frá jólagjöfum Ólafs konungs

Ólafur konungur hafði jólaboð mikið og var þá komið til hans mart stórmenni.

Það var hinn sjöunda dag jóla að konungur gekk og fáir menn með honum. Sighvatur fylgdi konungi dag og nótt. Hann var þá með honum. Þeir gengu í hús eitt. Þar voru hirðir í dýrgripir konungs. Hann hafði þá hafðan viðurbúnað mikinn sem vandi var til, heimt saman dýrgripi sína til þess að gefa vingjafir hið átta kveld jóla. Þar stóðu í húsinu sverð eigi allfá gullbúin.

Þá kvað Sighvatur:

Sverð standa þar, sunda
sárs leyfum vér árar,
herstillis verðr hylli
hollust, búin gulli.
Við tæki eg, víka,
var eg endr með þér, sendir
elds, ef þú eitthvert vildir,
allvaldr, gefa skaldi.

Konungur tók eitthvert sverðið og gaf honum. Var gulli vafður meðalkaflinn og gullbúin hjölt. Var sá gripur allgóður en gjöfin var eigi öfundlaus og heyrði það síðan.

Þegar eftir jólin byrjaði Ólafur konungur ferð sína til Upplanda því að hann hafði fjölmenni mikið en tekjur norðan úr landi höfðu engar til hans komið þá um haustið því að leiðangur hafði úti verið um sumarið og hafði þar konungur allan kostnað til lagt, þann er föng var á. Þá voru og engi skip að fara með lið sitt norður í land. Hann spurði og það einu norðan er honum þótti ekki friðsamlegt ef hann færi eigi með liði miklu. Réð konungur fyrir þá sök það af að fara yfir Upplönd. En eigi var þá svo langt liðið síðan er hann hafði þar farið að veislum sem lög stóðu til eða vandi konunga hafði verið. En er konungur sótti upp á land þá buðu honum heim lendir menn og ríkir bændur og léttu svo hans kostnaði.

163. Frá Birni ármanni

Björn er maður nefndur, gauskur að kyni. Hann var vinur og kunningi Ástríðar drottningar og nokkuð skyldur að frændsemi og hafði hún fengið honum ármenning og sýslu á ofanverðri Heiðmörk. Hafði hann og yfirsókn í Eystri-Dali. Ekki var Björn konungi kær og ekki var hann maður þokkasæll af bóndum.

Það hafði og að borist í byggð þeirri er Björn réð fyrir að þar urðu hvörf stór á nautum og á svínum. Lét Björn þar kveðja þings til og leitaði þar eftir hvörfum. Hann kallaði þá menn líklegsta til slíkra hluta og illbregða er sátu í markbyggðum fjarri öðrum mönnum. Veik hann því máli til þeirra er byggðu Eystri-Dali. Sú byggð var mjög sundurlaus, byggt við vötn eða rjóður í skógum en fástaðar stórbyggðir saman.

164. Frá sonum Rauðs

Rauður hét maður er þar byggði í Eystri-Dölum. Ragnhildur var nefnd kona hans, Dagur og Sigurður synir. Þeir voru hinir efnilegstu menn. Þeir voru staddir á þingi því og héldu svörum upp af hendi þeirra Dæla og báru þá undan sökum.

Birni þóttu þeir láta stórlega og vera drambsmenn miklir að vopnum og klæðum. Björn sneiddi ræðunni á hendur þeim bræðrum og taldi þá eigi ólíklega til að hafa slíkt gert. Þeir synjuðu fyrir sig og sleit svo því þingi.

Litlu síðar kom til Bjarnar ármanns Ólafur konungur með liði sínu og tók þar veislu. Var þá kært fyrir konungi það mál er fyrr var uppi haft á þingi. Sagði Björn að honum þóttu Rauðssynir líklegstir til að valda slíkum ótila. Þá var sent eftir sonum Rauðs.

En er þeir hittu konung þá taldi hann þá óþjóflega menn og bar þá undan kennslum þessum. Þeir buðu konungi til föður síns að taka þar þriggja nátta veislu með öllu liði sínu. Björn latti ferðarinnar. Konungur fór eigi að síður.

Að Rauðs var hin prúðlegsta veisla. Þá spurði konungur hvað manna Rauður væri eða kona hans.

Rauður segir að hann var maður sænskur, auðigur og kynstór. «En eg hljópst þaðan í brott,» segir hann, «með konu þessa er eg hefi átt síðan. Hún er systir Hrings konungs Dagssonar.»

Þá vaknaði konungur við ætt þeirra beggja. Fann hann það að þeir feðgar voru menn forvitrir og spurði þá eftir íþróttum sínum.

Sigurður segir að hann kann drauma að skilja og að deila dægrafar þótt engi sæi himintungl. Konungur reyndi þessa íþrótt og var það sem Sigurður hafði sagt.

Dagur fann það til íþrótta sér að hann mundi sjá kost og löst á manni hverjum er honum bar fyrir augu ef hann vildi hug á leggja og að hyggja. Konungur bað hann segja skaplöst hans þann er hann sæi. Dagur fann það til er konungi þótti rétt. Þá spurði konungur um Björn ármann, hvern skaplöst hann hefði.

Dagur segir að Björn var þjófur og það með að hann segir hvar Björn hafði fólgið á bæ sínum bæði bein og horn og húðir af nautum þeim er hann hafði stolið þá um haustið. «Er hann valdi,» segir hann, «allra þeirra stulda er í haust hafa horfið og hann hefir öðrum mönnum kennt.»

Segir Dagur konungi öll merki til hvar konungur skyldi leita. En er konungur fór í brott frá Rauðs þá var hann leiddur út með stórum vingjöfum. Voru með konungi synir Rauðs. Fór konungur fyrst til Bjarnar og reyndist honum allt svo sem Dagur hafði sagt. Síðan lét konungur Björn fara í brott úr landi og naut hann drottningar að því er hann hélt lífi og limum.

165. Dráp Þóris

Þórir sonur Ölvis á Eggju, stjúpsonur Kálfs Árnasonar og systursonur Þóris hunds, var manna fríðastur, mikill maður og sterkur. Hann var þá átján vetra gamall. Hann hafði fengið gott kvonfang á Heiðmörk og auð fjár með. Var hann hinn vinsælsti maður og þótti vænn til höfðingja. Hann bauð konungi heim til veislu með lið sitt. Konungur þekktist boð það og fór til Þóris, fékk þar allgóðar viðtökur. Var þar veisla hin virðulegsta, var veitt allkappsamlega en öll voru föng hin bestu.

Konungur og menn hans ræddu það sín í milli að þeim þótti það mjög hæfast við og vissu eigi hvað þeim þótti framast húsakynni Þóris eða húsbúnaður, borðbúnaður eða drykkur eða maður sá er veitti. Dagur lét sér fátt um finnast.

Ólafur konungur var vanur að hafa oft ræður við Dag og spurði hann ýmissa hluta. Reyndist konungi allt það með sannindum er Dagur sagði hvort sem það var liðið eða ókomið fram. Festi þá konungurinn trúnað mikinn á ræðum hans. Þá kallaði konungur Dag á einmæli og ræddi þá mjög marga hluti fyrir honum.

Þar kom niður ræða konungs að hann tjáði það fyrir Dag hve skörulegur maður Þórir var er þeim gerði þá veislu virðulega. Dagur lét sér fátt um finnast og lét það allt satt er konungur segir. Þá spurði konungur Dag hverja skapsannmarka hann sæi Þóris. Dagur kvaðst hyggja að Þórir mundi vel skapfarinn ef honum væri það svo gefið sem hitt er alþýða mátti sjá. Konungur bað hann segja sér það er hann spurði, segir að hann var þess skyldur.

Dagur svarar: «Þá muntu konungur vilja veita mér að eg ráði hefndinni ef eg skal finna löstinn.»

Konungur segir að hann vill eigi dómum sínum skjóta undir aðra menn en bað Dag segja sér það er hann spurði.

Dagur svarar: «Dýrt er drottins orð. Það mun eg til skapslastar Þóri finna sem margan kann henda: Hann er maður of fégjarn.»

Konungur svarar: «Er hann þjófur eða ránsmaður?»

Dagur svarar: «Eigi er það,» segir hann.

«Hvað er þá?» segir konungur.

Dagur svarar: «Hann vann það til fjár að hann gerðist drottinssviki. Hann hefir tekið fé af Knúti hinum ríka til höfðuðs þér.»

Konungur svarar: «Hvernug gerir þú það satt?»

Dagur mælti: «Hann hefir á hinni hægri hendi fyrir ofan ölboga digran gullhring er Knútur konungur hefir gefið honum og lætur engan mann sjá.»

Eftir það slitu þeir konungur tali sínu og var konungur reiður mjög.

Þá er konungur sat yfir borðum og menn höfðu drukkið um hríð og voru menn allkátir. Þórir gekk um beina. Þá lét konungur kalla Þóri til sín. Hann gekk framan að borðinu og tók höndum upp á borðið.

Konungur spurði: «Hversu gamall maður ertu Þórir?»

«Eg em átján vetra gamall,» segir hann.

Konungur mælti: «Mikill maður ertu Þórir, jafngamall, og göfuglegur.»

Tók þá konungur um hönd hina hægri og strauk upp um ölboga.

Þórir mælti: «Tak þú kyrrt þar á. Eg hefi sull á hendi.»

Konungur hélt hendinni og kenndi að þar var hart undir. Konungur mælti: «Hefir þú eigi spurt það að eg em læknir? Og láttu mig sjá sullinn.»

Þórir sá að þá mundi ekki tjóa að leyna, tók þá hringinn og lét fram. Konungur spyr hvort það var Knúts konungs gjöf. Þórir segir að ekki var þá því að leyna. Konungur lét Þóri taka höndum og setja í járn.

Þá gekk Kálfur að og bað Þóri friðar og bauð fyrir hann fé. Margir menn studdu það mál og buðu sitt fé fram. Konungur var svo reiður að ekki mátti orðum við hann koma. Segir hann að Þórir skyldi hafa slíkan dóm sem hann hafði honum hugðan.

Síðan lét konungur drepa Þóri en verk það varð að hinni mestu öfund bæði þar um Upplönd og engum mun síður norður um Þrándheim þar sem ætt Þóris var flest. Kálfi þótti og mikils vert aftaka þessa manns því að Þórir hafði verið fósturson hans í æsku.

166. Fall Grjótgarðs

Grjótgarður sonur Ölvis og bróðir Þóris, hann var eldri þeirra bræðra. Var hann og hinn göfuglegsti maður og hafði sveit um sig. Hann var þá og staddur á Heiðmörk. En er hann spurði aftöku Þóris þá veitti hann árásir þar sem fyrir voru menn konungs eða fé hans, eða að öðru hverju hafðist hann við á skógum eða í öðrum fylgsnum.

En er konungur spurði ófrið þann þá lét hann njósnum til halda um ferðir Grjótgarðs. Verður konungur var við ferðir hans. Hafði Grjótgarður tekið náttstað eigi langt frá því er konungur var. Ólafur konungur fór þegar um nóttina, kom þar er dagaði, slógu mannhring um stofuna þar er þeir Grjótgarður voru inni. Þeir Grjótgarður vöknuðu við mannagný og vopnabrak. Hljópu þeir þá þegar til vopna. Hljóp Grjótgarður út í forstofuna. Grjótgarður spurði hver fyrir liði því réði. Honum var sagt að þar var kominn Ólafur konungur. Grjótgarður spurði ef konungur mætti nema orð hans.

Konungur stóð fyrir durunum. Hann segir að Grjótgarður mátti mæla slíkt er hann vildi. «Heyri eg orð þín,» segir konungur.

Grjótgarður mælti: «Ekki mun eg griða biðja.»

Þá hljóp Grjótgarður út, hafði skjöld yfir höfði sér en sverð brugðið í hendi. Lítt var lýst og sá hann ógerla. Hann lagði sverði til konungs en þar varð fyrir Arnbjörn Árnason. Kom lagið undir brynjuna og renndi upp í kviðinn. Fékk Arnbjörn þar bana. Grjótgarður var og þegar drepinn og flest allt lið hans.

Eftir þessa atburði sneri konungur ferðinni aftur suður til Víkurinnar.

167. Frá sendimönnum Ólafs konungs

Nú er Ólafur konungur kom til Túnsbergs þá gerði hann menn í allar sýslur og krafði konungur sér liðs og leiðangurs. Skipakostur hans var þá lítill. Voru þá engi skip nema búandaför. En lið dróst vel til hans þar úr héruðum en fátt kom um langan veg og fannst það brátt að landsfólkið mundi þá vera snúið frá einurðinni við konung.

Ólafur konungur gerði lið sitt austur á Gautland, sendi þá eftir skipum sínum og þeim varnaði er þeir létu eftir um haustið. En ferð þeirra manna varð sein því að þá varð eigi betra en um haustið að fara í gegnum Danmörk því að Knútur konungur hafði her úti um vorið um allt Danaveldi og hafði eigi færra en tólf hundruð skipa.

168. Ráðagerð Ólafs konungs

Þau tíðindi spurðust í Noreg að Knútur hinn ríki dró saman her óvígjan í Danmörku og það með að hann ætlaði að halda liði því öllu til Noregs og leggja þar land undir sig.

En er slíkt spurðist þá urðu Ólafi konungi mennirnir því verri tiltaks og fékk hann síðan lítið af bóndum. Hans menn töluðu oft um þetta sín í milli.

Þá kvað Sighvatur þetta:

Út býðr allvaldr sveitum
Englands, en vér fengum,
lítt sé eg lofðung óttast,
liðfæð og skip smærri.
Ráð eru ljót ef láta
landsmenn konung þenna,
lætr einurð fé firða
ferð, liðþrota verða.

Konungur átti hirðstefnur en stundum húsþing við lið sitt allt og spyr menn ráðs hvað þá sýnist tiltækilegast. «Þurfum vér ekki í að dyljast,» segir hann, «að Knútur konungur mun koma að vitja vor í sumar og hefir hann her mikinn sem þér munuð spurt hafa en vér höfum lið lítið að svo búnu til móts við her hans en landsfólk er oss nú ekki trúlegt.»

En ræðu konungs svöruðu menn misjafnt, þeir er hann orti orða á.

En hér er frá því sagt er Sighvatur segir:

Flýja getr, en frýju,
fjandr, leggr oss til handa,
verð eg fyr æðru orði,
allvalds en fé gjalda.
Hverr skal þegn, þó að þverri
þengils vina gengi,
upp hvalfra svik, sjalfan
sik lengst hafa miklu.

169. Brenna Grankels

Það sama vor gerðust þau tíðindi á Hálogalandi að Hárekur úr Þjóttu minntist þess að Ásmundur Grankelsson hafði rænta og barða húskarla hans. Skip það er Hárekur átti, tvítugsessa, flaut fyrir bæ hans tjölduð og þilið. Gerði hann það orð á að hann ætlaði að fara suður til Þrándheims.

Eitthvert kveld gekk Hárekur til skips með húskarlalið sitt og hafði nær átta tigum manna. Reru þeir um nóttina og komu er morgnaði til bæjar Grankels, slógu þar hring um hús, veittu þar síðan atgöngu, lögðu síðan eld í hús. Brann þar Grankell inni og menn með honum en sumir voru úti drepnir. Létust þar alls þrír tigir manna. Fór Hárekur heim eftir verk það og sat í búi sínu.

Ásmundur var með Ólafi konungi. Var þar bæði um þá menn er á Hálogalandi voru að engi beiddi Hárek bóta fyrir verk það enda bauð hann eigi.

170. Ferð Knúts konungs í Noreg

Knútur hinn ríki dró saman her sinn og hélt til Limafjarðar. En er hann var búinn þá sigldi hann þaðan öllu liði til Noregs, fór skyndilega og lá ekki við land austan fjarðar, sigldi þá yfir Foldina og lagði að á Ögðum, krafði þar þinga. Komu bændur ofan og héldu þing við Knút konung. Var þar Knútur til konungs tekinn um land allt. Setti hann þar þá menn í sýslur en tók gíslar af bóndum. Mælti engi maður í móti honum.

Ólafur konungur var þá í Túnsbergi er her Knúts fór hið ytra um Foldina. Knútur konungur fór norður með landi. Komu þar til hans menn úr héruðum og játuðu honum þá allir hlýðni.

Knútur konungur lá í Eikundasundi nokkura hríð. Kom þar til hans Erlingur Skjálgsson með lið mikið. Þá bundu þeir Knútur konungur vináttu sína enn að nýju. Var það í heitum við Erling af hendi Knúts konungs að hann skyldi hafa land allt til forráða milli Staðar og Rýgjarbits.

Síðan fór Knútur konungur leiðar sinnar og er það skjótast frá ferð hans að segja að hann létti eigi fyrr en hann kom norður í Þrándheim og hélt til Niðaróss. Stefndi hann þá í Þrándheimi átta fylkna þing. Var á því þingi Knútur til konungs tekinn um allan Noreg.

Þórir hundur hafði farið úr Danmörk með Knúti konungi og var hann þar. Hárekur úr Þjóttu var og þá þar kominn. Gerðust þeir Þórir lendir menn Knúts konungs þá og bundu það svardögum. Knútur konungur gaf þeim veislur stórar og fékk þeim Finnferð, gaf þeim gjafir stórar á það ofan. Alla lenda menn þá er til hans vildu snúast gæddi hann bæði að veislum og að lausafé, lét þá alla hafa meira ríki en þeir höfðu áður haft.

171. Frá Knúti konungi

Knútur konungur hafði þá lagt land allt undir sig í Noregi. Þá átti hann þing fjölmennt bæði af sínu liði og landsmönnum. Þá lýsti Knútur konungur yfir því að hann vill gefa Hákoni jarli frænda sínum að yfirsókn land það allt er hann hafði unnið í ferð þeirri. Það fylgdi því að hann leiddi í hásæti hjá sér Hörða-Knút son sinn og gaf honum konungsnafn og þar með Danaveldi.

Knútur konungur tók gíslar af öllum lendum mönnum og stórbóndum, tók sonu þeirra eða bræður eða aðra náfrændur eða þá menn er þeim voru kærstir og honum þóttu best til fallnir. Festi konungur svo trúnað manna við sig sem nú er sagt.

Þegar er Hákon jarl hafði tekið við ríki í Noregi þá réðst til lags við hann Einar þambarskelfir mágur hans. Tók hann þá upp veislur allar þær sem hann hafði fyrr haft þá er jarlar réðu landi.

Knútur konungur gaf Einari stórar gjafir og batt hann í kærleikum miklum við sig, hét því að Einar skyldi vera mestur og göfgastur ótiginna manna í Noregi meðan hans vald stæði yfir landi. En það lét hann fylgja að honum þótti Einar best fallinn til að bera tignarnafn í Noregi ef eigi væri jarls við kostur eða sonur hans Eindriði fyrir ættar sakir hans. Þau heit virtust Einari mikils og hét þar í mót trúnaði sínum. Hófst þá af nýju höfðingskapur Einars.

172. Frá Þórarni loftungu

Þórarinn loftunga var maður kallaður. Hann var íslenskur maður að kyni, skáld mikið og hafði verið mjög með konungum eða öðrum höfðingjum. Hann var með Knúti konungi hinum ríka og hafði ort um hann flokk.

En er konungur vissi að Þórarinn hafði ort flokk um hann þá varð hann reiður og bað hann færa sér drápu um daginn eftir þá er konungur sæti yfir borðum. Ef hann gerði eigi svo þá segir konungur að Þórarinn mundi uppi hanga fyrir dirfð þá er hann hafði ort dræpling um Knút konung. Þórarinn orti þá stef og setti í kvæðið og jók nokkurum erindum eða vísum.

Þetta er stefið:

Knútr ver grund sem gætir
Gríklands himinríki.

Knútur konungur launaði kvæðið fimm tigum marka silfurs. Sú drápa er kölluð Höfuðlausn.

Þórarinn orti aðra drápu um Knút konung er kölluð er Togdrápa. Í þeirri drápu er sagt frá þessum ferðum Knúts konungs er hann fór úr Danmörku sunnan til Noregs og er þetta einn stefjabálkur:

Knútr er und sólar.
Siðnæmr með lið
fór mjök mikið
minn vinr þinig.
Færði úr firði
fimr gramr Lima
út ólítinn
otrheims flota.

Uggðu Egðir
örbeiðis fór
svans sigrlana,
sökrammir mjök.
Allt var gulli
grams skip framið.
Vórum sjón sögu
slíks ríkari.

Og fyr Lista
liðu fram viðir
Hádýrs um haf
hart kolsvartir.
Byggt var innan
allt brimgaltar
suðr sæskíðum
sund Eikunda.

Og fyr fornan
friðmenn liðu
haug Hjörnagla
hvasst griðfastir.
Þá er stóð fyr Stað
stafnklifs drifu,
vara eyðileg
örbeiðis för.

Knáttu súðir
svangs mjög langar
byrrömm bera
brimdýr fyr Stim.
Svo liðu sunnan
svalheims valar,
að kom norðr í Nið
nýtr herflýtir.

Þá gaf sínum
snjallr gervallan
Noreg nefa
njótr veg-Jóta,
þá gaf sínum,
segi eg það, megi
dals dökksalar
Danmörk svana.

Hér getur þess að þeim var sjón sögu ríkri um ferð Knúts konungs er þetta kvað því að Þórarinn hrósar því að hann var þá í fór með Knúti konungi er hann kom í Noreg.

173. Frá sendimönnum Ólafs konungs

Menn þeir er Ólafur konungur hafði sent austur á Gautland eftir skipum sínum, þá fóru þeir með þau skip er þeim þóttu best en hin brenndu þeir, höfðu með sér reiða og annan varnað þann er konungur átti og menn hans. Þeir sigldu austan þá er þeir spurðu að Knútur konungur var farinn norður í Noreg, sigldu þá austan um Eyrarsund, svo norður til Víkurinnar á fund Ólafs konungs, færðu honum skip sín. Var hann þá í Túnsbergi.

En er Ólafur spurði að Knútur konungur fór liði sínu norður fyrir land þá hélt Ólafur konungur inn í Óslóarfjörð og upp í vatn það er Drafn heitir og hafðist hann þar við til þess er her Knúts konungs var farinn um suður.

En í ferð þeirri er Knútur konungur fór norðan með landi átti hann þing í hverju fylki en á hverju þingi var honum land svarið og gefnir gíslar. Fór hann austur yfir Foldina til Borgar og átti þar þing. Var honum þar land svarið sem annars staðar. Síðan fór Knútur konungur til Danmarkar suður og hafði hann Noreg eignast orustulaust. Réð hann þá fyrir þremur þjóðlöndum.

Svo segir Hallvarður Háreksblesi er hann orti um Knút konung:

Englandi ræðr yngvi
einn, hefst friðr að beinni,
böðrakkr bænar nökkva
barkrjóðr, og Danmörku,
ok hefir, odda Leiknar,
jálm-Freyr und sig málma,
hjaldrörr haukum þverrir
hungr, Noregi þrungið.

174. Frá Ólafi konungi

Ólafur konungur hélt skipum sínum út til Túnsbergs þegar er hann spurði að Knútur konungur var farinn suður til Danmarkar. Síðan bjó hann ferð sína með lið það er honum vildi fylgja og hafði hann þá þrettán skip. Síðan hélt hann út eftir Víkinni og fékk hann lítið af fé og svo af mönnum nema þeir fylgdu honum er eyjar byggðu eða útnes. Gekk konungur þá ekki á land upp, hafði slíkt af fé eða mönnum sem á leið hans varð. Hann fann það að landið var þá svikið undan honum. Fór hann þá svo sem byrjaði. Var það öndurðan vetur.

Þeim byrjaði heldur seint. Lágu þeir í Sóleyjum mjög lengi og spurðu þar tíðindi af kaupmönnum norðan úr landi. Var konungi þá sagt að Erlingur Skjálgsson hafði liðsafnað mikinn á Jaðri, skeið hans lá fyrir landi albúin og fjöldi annarra skipa er bændur áttu. Voru það skútur og lagnarskip og róðrarferjur stórar.

Konungurinn hélt austan liðinu og lá um hríð í Eikundasundi. Spurðu þá hvorir til annarra. Fjölmenntist Erlingur sem mest þá.

175. Frá sigling Ólafs konungs

Tómasmessu fyrir jól þegar í dagan tók konungur út úr höfninni. Var þá allgóður byr og heldur hvass. Sigldi hann þá norður fyrir Jaðar. Var veður vott og mjörkvaflaug nokkur. Þegar fór njósn hið efra um Jaðar er konungur sigldi hið ytra.

En er Erlingur varð þess var að konungur sigldi austan þá lét hann blása liði sínu öllu til skipanna. Dreif þá fólk allt á skipin og bjóst til bardaga. En skip konungs bar skjótt að norður um Jaðar. Þá stefndi hann innleið, ætlaði svo ferð sína að fara í fjörðu inn og fá sér þar lið og fé. Erlingur sigldi eftir honum og hafði her manns og fjölda skipa. Voru skip þeirra örskreið er þeir höfðu ekki á nema menn og vopn. Gekk þá skeiðin Erlings miklu meira en önnur skipin. Þá lét hann hefla seglið og beið liðs síns.

Þá sá Ólafur konungur að þeir Erlingur sóttu eftir mjög því að skip konungs voru sett mjög og sollin er þau höfðu flotið á sæ allt sumarið og um haustið og veturinn þar til. Hann sá að liðsmunur mikill mundi vera ef mætti öllu í senn liði Erlings. Þá lét hann kalla skip frá skipi að menn skyldu síga láta seglin og heldur seint en svipta af handrifi og var svo gert.

Þeir Erlingur fundu það. Þá kallaði Erlingur og hét á lið sitt, bað þá sigla meira. «Sjáið þér,» segir hann, «að nú lægir seglin þeirra og draga þeir undan oss.»

Lét hann þá hleypa úr heflunum segli á skeiðinni. Gekk hún fram brátt.

176. Fall Erlings Skjálgssonar

Ólafur konungur stefndi fyrir innan Bókn. Fal þá sýn milli þeirra. Síðan bað konungur leggja seglin og róa fram í sund þröngt er þar var. Lögðu þeir þar þá saman skipunum. Gekk kleppurnes fyrir utan þá. Menn voru þá allir herklæddir.

Erlingur sigldi þá að sundinu og fundu þeir eigi fyrr að her lá fyrir þeim en þeir sáu að konungsmenn reru öllum skipunum senn að þeim. Þeir Erlingur hleyptu ofan seglinu og gripu til vopna. En konungsherinn lá öllum megin að skipinu. Tókst þar orusta og var hin snarpasta. Þá sneri mannfallinu brátt í lið Erlings. Erlingur stóð í lyftingu á skipi sínu. Hann hafði hjálm á höfði og skjöld fyrir sér, sverð í hendi.

Sighvatur skáld hafði verið eftir í Víkinni og spurði hann þar þessi tíðindi. En Sighvatur var hinn mesti vinur Erlings og hafði þegið gjafir af honum og verið með honum.

Sighvatur orti flokk um fall Erlings og er þessi vísa þar í:

Út réð Erlingr skjóta
eik, sá er rauð hinn bleika,
iflaust er það, jöfri,
arnar fót, að móti.
Skeið hans lá svo síðan
siklings í her miklum,
snarir börðust þar sverðum,
síbyrð við skip, fyrðar.

Þá tók að falla lið Erlings og þegar er á ortist og uppganga varð greidd á skeiðina þá féll hver í sínu rúmi. Konungur sjálfur gekk hart fram.

Svo segir Sighvatur:

Rakkr þengill hjó rekka.
Reiðr gekk hann um skeiðar.
Valr lá þröngr á þiljum.
Þung var sókn fyr Tungum.
Bragningr rauð fyr breiðan
borðvöll Jaðar norðan.
Blóð kom varmt í víðan,
vó frægr konungr, ægi.

Svo féll vandlega lið Erlings að engi maður stóð upp á skeiðinni nema hann einn. Var þar bæði að menn beiddu lítt griða, fékk og engi þótt beiddi, mátti og ekki á flótta snúast því að skip lágu umhverfis skeiðina. Er svo sagt sannlega að engi maður leitaði að flýja.

Enn segir Sighvatur:

Öll var Erlings fallin,
ungr fyr norðan Tungur
skeið vann skjöldungr auða,
skipsókn við þröm Bóknar.
Einn stóð sonr á sínu
snarr Skjálgs, vinum fjarri,
í lyftingu lengi
lætrauðr skipi auðu.

Þá var Erlingi veitt atsókn bæði úr fyrirrúminu og af öðrum skipum. Rúm mikið var í lyftingunni og bar það hátt mjög upp frá öðrum skipum og mátti engu við koma nema skotum og nokkuð spjótalögum og hjó hann það allt af sér. Erlingur varðist svo prúðlega að engi maður vissi dæmi að einn maður hefði staðið svo lengi fyrir jafnmargra manna atsókn en aldrei leitaði hann undankomu eða griða að biðja.

Svo segir Sighvatur:

Réð eigi grið, gýgjar,
geðstirðr konungs firða,
skers þó að skúrir þyrrit,
Skjálgs hefnir sér nefna.
En varðkeri virðir
víðbotn né kemr síðan
glyggs á gjálfri leygðan
geirs ofrhugi meiri.

Ólafur konungur sótti þá aftur í fyrirrúmið og sá hvað Erlingur hafðist að. Konungur orti þá orða á hann og mælti svo: «Öndurður horfir þú við í dag Erlingur.»

Hann svarar: «Öndurðir skulu ernir klóast.»

Þessa orða getur Sighvatur:

Öndurða bað, jarðar,
Erlingr, sá er vel lengi
geymdi hann lystr, né lamdist
landvörn, klóast örnu,
þá er hann að sig sönnum,
sá var áðr búinn ráða
ats, við Útstein hisi
Ólaf um tók málum.

Þá mælti konungur: «Viltu á hönd ganga Erlingur?»

«Það vil eg,» segir hann.

Þá tók hann hjálminn af höfði sér og lagði niður sverðið og skjöldinn og gekk fram í fyrirrúmið.

Konungur stakk við honum öxarhyrnunni í kinn honum og mælti: «Merkja skal drottinsvikann.»

Þá hljóp að Áslákur Fitjaskalli og hjó með öxi í höfuð Erlingi svo að stóð í heila niðri. Var það þegar banasár. Lét Erlingur þar líf sitt.

Þá mælti Ólafur konungur við Áslák: «Högg þú allra manna armastur. Nú hjóstu Noreg úr hendi mér.»

Áslákur segir: «Illa er þá konungur ef þér er mein að þessu höggi. Eg þóttist nú Noreg í hönd þér höggva. En ef eg hefi þér mein gert konungur og kanntu mér óþökk fyrir þetta verk þá mun mér kostlaust vera, því að hafa mun eg svo margra manna óþökk og fjandskap fyrir þetta verk að eg mundi heldur þurfa að hafa yðart traust og vináttu.»

Konungur segir að svo skyldi vera. Síðan bað konungur hvern mann ganga á sitt skip og búast ferðar sinnar sem hvatlegast. «Munum vér,» segir hann, «ekki ræna val þenna. Munu nú hafa hvorir sem fengið hafa.»

Gengu menn þá aftur á skipin og bjuggust sem hvatlegast. En er þeir voru búnir þá renndu skipin í sundið sunnan, búandaliðið. Var þá sem oft eru raunir þótt lið mikið komi saman er menn fá slög stór og láta höfðingja sína, að menn verða eigi góðir tilræðis, og séu þá höfðingjalausir.

Synir Erlings voru engir þar. Varð ekki af atlögu búanda og sigldi konungur norður leið sína en bændur tóku lík Erlings og bjuggu um og fluttu heim á Sóla, svo val þann allan er þar hafði fallið. Og var Erlingur hið mesta harmaður og hefir það verið mál manna að Erlingur Skjálgsson hafi verið maður göfgastur og ríkastur í Noregi, þeirra er eigi bæri tignarnafn meira.

Sighvatur skáld orti enn þetta:

Erlingr féll en olli
allríkr skapað slíku,
bíðrat betri dauða,
bragna konr, með gagni.
Mann veit eg engi annan,
allbrátt þó að fjör láti,
enn sá er allan kunni
aldr fullara að halda.

Þá segir og að Áslákur hefði frændvíg upp hafið og mjög ósynju:

Áslákr hefir aukið,
er vörðr drepinn Hörða,
fáir skyldu svo, foldar,
frændsekju, styr vekja.
Ættvígi má hann eigi,
á líti þeir, níta,
frændr skulu bræði bindast
bornir, mál hin fornu.

177. Frá ferð Ólafs konungs

Synir Erlings voru sumir norður í Þrándheimi með Hákoni jarli en sumir norður á Hörðalandi, sumir inn í fjörðum og voru þeir þar í liðsafnaði.

En er spurðist fall Erlings þá fylgdi þeirri sögu útboð austan um Agðir og um Rogaland og Hörðaland. Var þar her boðið út og var það hið mesta fjölmenni og fór her sá með sonum Erlings norður eftir Ólafi konungi.

Þá er Ólafur konungur fór frá bardaga þeirra Erlings sigldi hann norður um sund og var þá dagur mjög liðinn. Svo segja menn að hann orti þá vísu þessa:

Lítt mun halr hinn hvíti,
hrafn etr af ná getnum,
vér unnum gný Gunnar,
glaðr í nótt á Jaðri.
Svo hefir öllungis illa,
eg gekk reiðr um skeiðar,
jörð veldr manna morði,
mitt rán getið hánum.

Fór konungur síðan norður með landi með lið sitt. Hann spurði allt hið sanna um búandasafnað. Þar voru þá með Ólafi konungi margir lendir menn. Þar voru þeir allir Árnasynir.

Þess getur Bjarni Gullbrárskáld í kvæði því er hann orti um Kálf Árnason:

Vastu, þar er vígs bað kosta
vopndjarfr Haralds arfi,
kynnist kapp þitt mönnum,
Kálfr, við Bókn austr sjálfa.
Gátuð Gríðar sóta
góleg föng til jóla.
Kenndr varstu fyrst á fundi
flettugrjóts og spjóta.

Öld fékk illt úr deildum.
Erlingr var þar finginn.
Óðu blökk í blóði
borð fyr Útstein norðan.
Ljós er raun að ræsir
ráðinn varð frá láði.
Lagðist land und Egða.
Lið þeira frá eg meira.

Fór Ólafur konungur til þess er hann kom norður um Stað og lagði til Hereyja og spurði þar þau tíðindi að Hákon jarl hafði lið mikið í Þrándheimi. Síðan leitaði konungur ráðs við lið sitt.

Kálfur Árnason eggjaði mjög að sækja til Þrándheims og berjast við Hákon jarl þótt liðsmunur væri mikill. Því ráði fylgdu margir aðrir en sumir löttu. Var þá skotið til úrskurðar konungs.

178. Dráp Ásláks Fitjaskalla

Síðan hélt Ólafur konungur inn til Steinavogs og lá þar um nótt. En Áslákur Fitjaskalli hélt skipi sínu inn til Borgundar. Dvaldist hann þar um nóttina. Þar var fyrir Vígleikur Árnason.

En um morguninn er Áslákur vildi ganga til skips síns þá veitti Vígleikur honum atgöngu og vildi hefna Erlings. Þar féll Áslákur. Þá komu menn til konungs, hirðmenn hans, norðan úr Frekeyjarsundi, þeir er heima höfðu setið um sumarið, og sögðu konungi þau tíðindi að Hákon jarl og margir lendir menn með honum voru komnir um kveldið í Frekeyjarsund með miklu fjölmenni «og vilja þig taka af lífi konungur og þitt lið ef þeir eiga vald á.»

En konungur gerði menn sína upp á fjall það er þar er. En þá er þeir koma upp á fjallið þá sáu þeir norður til Bjarneyjar að norðan fór lið mikið og mörg skip og fóru ofan aftur og segja konungi að herinn fór norðan. En konungur lá þar fyrir tólf skipum. Síðan lét hann blása og fóru tjöld af skipum hans og tóku þeir til ára.

En þá er þeir voru albúnir og þeir lögðu úr höfninni þá fór her bónda norðan fyrir Þrjótshverfi og höfðu hálfan þriðja tug skipa. Þá stefndi konungur fyrir innan Nyrfi og inn um Hundsver. En þá er Ólafur konungur kom jafnfram Borgund þá fór út skip móti honum er Áslákur hafði átt.

En er þeir hittu Ólaf konung þá sögðu þeir sín tíðindi að Vígleikur Árnason hafði tekið af lífi Áslák Fitjaskalla fyrir það er hann hafði drepið Erling Skjálgsson. Konungur lét illa yfir þessum tíðindum og mátti þó eigi dvelja ferð sína fyrir ófriði og fór þá inn um Vegsund og um Skot. Þá skildist lið við hann. Fór frá honum Kálfur Árnason og margir aðrir lendir menn og skipstjórnarmenn og héldu þeir til móts við jarl.

En Ólafur konungur hélt fram sinni ferð og létti eigi fyrr en hann kom í Toðarfjörð inn og lagði að í Valldali og gekk þar af skipum sínum og hafði þar fimm skip og setti þau upp og fékk þar til hirslu segl og reiða. Síðan setti hann þar landtjald sitt á eyrinni sem Sult heitir og eru þar fagrir vellir og reisti kross þar hjá á eyrinni.

En bóndi sá bjó á Mærini er Brúsi hét og var hann höfðingi yfir dalnum. Síðan kom Brúsi ofan og margir aðrir bændur á fund Ólafs konungs og fögnuðu honum vel sem verðugt var en hann gerði sig blíðan í móti fagnaði þeirra. Þá spurði konungur ef fært væri þar á land upp úr dalinum og á Lesjar.

Brúsi segir honum að urð sú var í dalnum er Skerfsurð heitir «og er þar hvorki fært mönnum né hrossum.»

Ólafur konungur svarar honum: «Til mun nú hætta verða búandi. Tekst sem guð vill. Og komið hér nú í morgun með eyki yðra og sjálfa yður og sjáum síðan hver vöxtur á sé þá er vér komum til urðarinnar, hvort vér megum þar nokkur brögð sjá að komast yfir með hrossum eða mönnum.»

179. Frá urðarbroti

En er dagur kom þá fóru bændur ofan með eyki sína svo sem konungur hafði mælt við þá. Flytja þeir þá með eykjunum varnað sinn og klæði en allt lið gekk og konungur sjálfur.

En hann gekk þar til er Krossbrekka heitir og hvíldist er hann kom á brekkuna og sat þar um hríð og sá ofan í fjörðinn og mælti: «Erfiða ferð hafa þeir fengið mér í hendur, lendir menn mínir, er nú hafa skipt um trúnaðinn, er um hríð voru vinir mínir og fulltrúar.»

Þar standa nú krossar tveir eftir á brekkunni er konungur sat.

Konungur steig þá á bak hesti einum og reið upp eftir dalnum og létti eigi fyrr en þeir komu til urðarinnar. Þá spurði konungur Brúsa eftir ef nokkur sel væru þar, þau er þeir mættu í búa. Hann kvað vera. En konungur setti landtjald sitt og var þar um nóttina.

En um morguninn þá bað konungur þá fara til urðarinnar og freista ef þeir mættu koma veginum yfir urðina. Þá fóru þeir til en konungur sat heima í landtjaldi.

En að kveldi komu þeir heim, hirðmenn konungs og bændur, og kváðust hafa haft mikið erfiði og ekki á leið komið og segja að þar mundi aldrei vegur yfir komast eða leggjast, og voru þar aðra nótt og var konungur á bænum sínum alla nótt.

Og þegar er konungur fann að dagaði þá bað hann menn fara til urðar og freista enn ef þeir gætu veginum yfir komið. Þeir fóru og voru trauðir, þeir sögðu að þeir mundu ekki geta að unnið.

En þá er þeir voru brott farnir þá kom sá maður til konungs er réð fyrir vistum og segir að eigi var vist meiri en tvö nautföll sláturs «en þú hefir fjögur hundruð þíns liðs og hundrað búanda.»

Þá mælti konungur að hann skyldi láta upp katla alla og í hvern ketil láta nokkuð af slátri og svo var gert. En konungur gekk til og gerði yfir krossmark og bað þá búa mat. En konungur fór til Skerfsurðar þar sem þeir skyldu veginn ryðja.

En þá er konungur kom þar þá sátu þeir allir og voru móðir orðnir af erfiði.

Þá mælti Brúsi: «Eg sagði yður konungur og vilduð þér eigi trúa mér að ekki mátti vinna að urð þessari.»

Síðan lagði konungur niður skikkju sína og mælti að þeir skyldu til fara allir og freista enn og svo var gert. Og færðu þá steina tuttugu menn þannug sem þeir vildu er engan veg gátu áður hrært hundrað manna og var vegurinn ruddur að miðjum degi svo að fært var bæði mönnum og hrossum með klyfjum eigi verr en á sléttum velli.

Síðan fór konungur ofan aftur þangað sem vist þeirra var og nú heitir Ólafshellir. Kelda er og þar nær hellinum og þó konungur sér í. En ef búfé manna verður sjúkt í dalnum og drekkur þar af vatni því þá batnar því sótta.

Síðan fór konungur til matar og allir þeir. Og þá er konungur var mettur þá spurði hann eftir ef sætur nokkur væru í dalnum upp frá urðinni og nær fjallinu er þeir mættu búa í um nóttina.

En Brúsi segir: «Eru sætur er heita Græningar og má þar engi maður vera um nætur fyrir tröllagangs sakar og meinvétta er þar eru hjá sætrinu.»

Síðan mælti konungur að þeir skyldu búa ferð sína og segir að hann vildi þar vera um nóttina á sætrinu.

Þá kom sá maður til hans er fyrir vistum réð og segir að þar er örgrynni vista «og veit eg eigi hvaðan komnar eru.»

Þakkar konungur guði sending sína og lét hann gera byrðar matar bændum þeim er ofan fóru eftir dalnum. En konungur var á sætri um nóttina.

En að miðri nótt er menn voru í svefni þá lét á stöðli úti afskræmilega og mælti: «Svo brenna mig nú bænir Ólafs konungs,» segir sú véttur, «að eigi má eg nú vera að híbýlum mínum og verð eg nú flýja og koma aldrei á þenna stöðul síðan.»

En um morguninn er menn vöknuðu þá fór konungur til fjalls og mælti við Brúsa: «Hér skal nú gera bæ og mun sá bóndi æ hafa sér framdrátt er hér býr og aldrei skal hér korn frjósa þó að bæði frjósi fyrir ofan bæ og neðan.»

Þá fór Ólafur konungur yfir fjall og kom fram í Einbúa og var þar um nótt.

Ólafur konungur hafði þá verið konungur í Noregi fimmtán vetur með þeim vetri er þeir Sveinn jarl voru báðir í landi og þessum er nú um hríð hefir verið frá sagt og þá var liðið um jól fram er hann lét skip sín og gekk á land upp sem nú var sagt.

Þessa grein konungdóms hans ritaði fyrst Ari prestur Þorgilsson hinn fróði er bæði var sannsögull, minnigur og svo gamall maður að hann mundi þá menn og hafði sögur af haft, er þeir voru svo gamlir, að fyrir aldurs sakir máttu muna þessi tíðindi svo sem hann hefir sjálfur sagt í sínum bókum og nefnda þá menn til er hann hafði fræði af numið.

En hitt er alþýðu sögn að Ólafur væri fimmtán vetur konungur yfir Noregi áður hann féll en þeir er svo segja, þá telja þeir Sveini jarli til ríkis þann vetur er hann var síðast í landi því að Ólafur var síðan fimmtán vetur konungur svo að hann lifði.

180. Spásögn Ólafs konungs

Síðan er Ólafur konungur hafði verið um nótt á Lesjum þá fór hann með liði sínu dag eftir dag, fyrst til Guðbrandsdala en þaðan út á Heiðmörk. Sýndist þá hverjir vinir hans voru því að þeir fylgdu þá honum en hinir skildust þá við hann er með minna trúleik höfðu þjónað honum en sumir snerust til óvináttu og fulls fjandskapar svo sem bert varð. Kenndi þess mjög á um marga Upplendinga að illa hafði líkað aftaka Þóris svo sem fyrr var getið.

Ólafur konungur gaf heimleyfi mörgum mönnum sínum þeim er bú áttu og börn fyrir að hyggja því að þeim mönnum þótti ósýnt hver friður gefinn væri varnaði þeirra manna er af landi brott færu með konungi.

Gerði konungur þá bert fyrir vinum sínum að sú var ætlan hans að fara þá úr landi í brott, fyrst austur í Svíaveldi og gera þá ráð sitt hvert hann ætlar eða sneri þaðan af, en bað svo vini sína til ætla að hann mundi enn ætla til landsins að leita og aftur til ríkis síns ef guð léði honum langlífis, sagði að það var hugboð hans að allt fólk í Noregi mundi enn verða þjónustubundið við hann. «En eg mundi ætla,» segir hann, «að Hákon jarl mundi litla stund hafa vald yfir Noregi og mun mörgum mönnum það eigi þykja undarlegt því að Hákon jarl hefir fyrr skort við mig hamingju. En hinu munu fáir menn trúa, þótt eg segi það, er mér boðar fyrir, er kemur til Knúts hins ríka, að hann muni á fárra vetra fresti vera dauður og farið allt ríki hans og mun engi verða uppreist hans kynslóðar ef svo fer sem mín orð horfa til.»

En er konungur hætti ræðu sinni þá bjuggu menn ferð sína. Sneri konungur þá með það lið er honum fylgdi austur til Eiðaskógs. Þar var þá með honum Ástríður drottning, Úlfhildur dóttir þeirra, Magnús sonur Ólafs konungs, Rögnvaldur Brúsason, þeir Árnasynir, Þorbergur, Finnur, Árni, og enn fleiri lendir menn. Hafði hann gott mannval. Björn stallari fékk heimleyfi. Fór hann aftur og heim til bús síns og margir aðrir vinir konungs fóru aftur til búa sinna í leyfi hans. Bað konungur þess að þeir skyldu hann vita láta ef þau tíðindi gerðust í landinu er honum bæri nauðsyn til að vita. Snýr konungur þá leið sína.

181. Ferð Ólafs konungs í Hólmgarð

Það er að segja frá ferð Ólafs konungs að hann fór fyrst úr Noregi austur um Eiðaskóg til Vermalands og þá út í Vatnsbú og þaðan yfir skóg þann sem leið liggur og kom fram á Næríki. Þar var fyrir ríkur maður og auðigur er hét Sigtryggur. Ívar hét sonur hans er síðan varð göfugur maður. Þar dvaldist Ólafur konungur um vorið með Sigtryggi.

En er sumraði þá bjó konungur ferð sína og fékk sér skip. Fór hann um sumarið og létti eigi fyrr en hann kom austur í Garðaríki á fund Jarisleifs konungs og þeirra Ingigerðar drottningar. Ástríður drottning og Úlfhildur konungsdóttir voru eftir í Svíþjóð en konungur hafði austur með sér Magnús son sinn.

Jarisleifur konungur fagnaði vel Ólafi konungi og bauð honum með sér að vera og hafa þar land til slíks kostnaðar sem hann þurfti að halda lið sitt með. Það þekktist Ólafur konungur og dvaldist þar.

Svo er sagt að Ólafur konungur var siðlátur og bænrækinn til guðs alla stund ævi sinnar. En síðan er hann fann að ríki hans þvarr en mótstöðumenn efldust þá lagði hann allan hug á það að gera guðs þjónustu. Dvaldi hann þá ekki frá aðrar áhyggjur eða það starf sem hann hafði áður með höndum haft því að hann hafði þá stund er hann sat í konungdóminum starf að það er honum þótti mest nytsemd að vera, fyrst að friða og frelsa landið af áþján útlendra höfðingja en síðan að snúa landsfólkinu á rétta trú og þar með að setja lög og landsrétt og þann hlut gerði hann fyrir réttdæmis sakir að hegna þá er rangt vildu.

Það hafði mikill siður verið í Noregi að lendra manna synir eða ríkra búanda fóru á herskip og öfluðu sér svo fjár að þeir herjuðu bæði utanlands og innanlands. En síðan er Ólafur tók konungdóm þá friðaði hann svo land sitt að hann tók af rán öll þar í landi. Og mætti refsingu við þá koma þá lét hann engu öðru við koma en þeir létu líf eða limar. Hvorki týði bæn manna þar fyrir né féboð.

Svo segir Sighvatur skáld:

Gull buðu oft, þeir er ollu
úthlaupum, gram kaupast
rautt, en ræsir neitti,
ríklunduðum undan.
Skör bað hann með hjörvi,
herland skal svo verja,
ráns biðu rekkar sýna
refsing, firum efsa.

Fæddi mest, sá er meiddi,
margdýr konungr varga,
hvinna ætt og hlenna.
Hann stýfði svo þýfðir.
Þýðr lét þermlast bæði
þjóf hvern konungr ernan,
friðr bættist svo, fóta,
fylkis lands, og handa.

Vissi helst, það er hvössum
hundmörgum lét grundar
vörðr með vopnum skorða
víkingum skör, ríkis.
Mildr lét mörgu valdið
Magnúss faðir gagni.
Fremd Ólafs kveð eg frömdu
flestan sigr hins digra.

Hann lét jafna refsing hafa ríkan og óríkan en það þótti landsmönnum ofrausn og fylltust þar fjandskapar upp í mót er þeir létu frændur sína að réttum konungsdómi þótt sannar sakir væru. Var það upphaf til þeirrar uppreistar er landsmenn gerðu í móti Ólafi konungi að þeir þoldu honum eigi réttindi en hann vildi heldur láta af tigninni en af réttdæminu. En eigi var sú sök við hann rétt fundin að hann væri hnöggur fjár við sína menn. Hann var hinn mildasti við vini sína. En það bar til er menn reistu ófrið í móti honum að mönnum þótti hann harður og refsingasamur en Knútur konungur bauð fram ofurfé, en þó urðu stórhöfðingjarnir að hinu blekktir er hann hét hverjum þeirra tign og ríki, og það með að menn voru fúsir í Noregi að taka við Hákoni jarli því að hann var hinn vinsælsti maður af landsfólki þá fyrr er hann réð fyrir landi.

182. Frá Jökli Bárðarsyni

Hákon jarl hafði haldið liði sínu úr Þrándheimi og farið í mót Ólafi konungi suður á Mæri sem fyrr var ritið.

En er konungur hélt inn í fjörðu þá sótti jarl eftir þannug. Kom þá til móts við hann Kálfur Árnason og fleiri þeir menn er skilist höfðu við Ólaf konung. Var Kálfi þar vel fagnað. Síðan hélt jarl inn þannug sem konungur hafði upp sett skip sín í Toðarfjörð í Valldal. Tók jarl þar skip þau er konungur átti. Lét jarl setja út skipin og búa. Voru þá menn hlutaðir til skipstjórnar.

Sá maður var með jarlinum er nefndur er Jökull, íslenskur maður, sonur Bárðar Jökulssonar úr Vatnsdali. Jökull hlaut að stýra Vísundinum er Ólafur konungur hafði haft. Jökull orti vísu þessa:

Hlaut eg frá Sult, en sæta
síð fregn að eg kvíði,
von erumk hreggs að hreini
hlýrvangs, skipi stýra,
því er, ýstéttar, átti
Óleifr, funa kleifar,
gramr var sjálfr á sumri
sigri ræntr, hinn digri.

Það er hér skjótast af að segja, er síðar varð mjög miklu, að Jökull varð fyrir liði Ólafs konungs á Gotlandi og varð handtekinn og lét konungur hann til höggs leiða og var vöndur snúinn í hár honum og hélt á maður. Settist Jökull niður á bakka nokkurn. Þá réð maður til að höggva hann. En er heyrði hvininn réttist hann upp og kom höggið í höfuð honum og varð mikið sár. Sá konungur að það var banasár. Bað konungur þá hætta við hann.

Jökull sat upp og orti þá vísu:

Svíða sár af mæði.
Setið hefi eg oft við betra.
Und er á oss sú er sprændi
ótrauð legi rauðum.
Byss mér blóð úr þessi
ben. Té eg við þrek venjast.
Verpr hjálmgöfugr hilmir
heiðsær á mig reiði.

Síðan dó Jökull.

183. Frá Kálfi Árnasyni

Kálfur Árnason fór með Hákoni jarli norður til Þrándheims og bauð jarl honum til sín og gerast sér handgenginn. Kálfur segir að hann mundi fara fyrst inn á Eggju til bús síns og láta síðan gerast ráð. Kálfur gerði svo.

En er hann kom heim þá fannst honum það brátt í að Sigríður kona hans var heldur skapstór og taldi upp harma sína, þá er hún kallaðist fengið hafa af Ólafi konungi, það fyrst er hann lét drepa bónda hennar Ölvi «en nú síðan,» segir hún, «sonu mína tvo. Og varstu Kálfur að þeirra aftöku og mundi mig þess síst af þér vara.»

Kálfur segir að það var mjög að hans óvilja er Þórir var af lífi tekinn. «Bauð eg,» segir hann, «fé fyrir hann. En þá er Grjótgarður var felldur lét eg Arnbjörn bróður minn.»

Hún segir: «Vel er það er þú hlaust slíkt af konungi því að vera má að þú viljir hefna hans þóttú viljir eigi hefna minna harma. Sástu þá er Þórir var drepinn, fósturson þinn, hversu mikils konungur virti þig þá.»

Þvílíkar harmtölur hafði hún jafnan uppi fyrir Kálfi. Kálfur svarar oft stygglega en þó varð hitt að lyktum að hann leiddist eftir fortölum hennar og hét þá því að gerast jarli handgenginn ef jarl vildi auka veislur hans. Sigríður sendi orð jarlinum og lét segja hvar þá var komið um mál Kálfs.

En þegar er jarl varð þess vís þá sendi hann orð Kálfi, þau að hann skyldi koma út til bæjar á fund jarls. Kálfur lagðist þá ferð eigi undir höfuð og fór litlu síðar út til Niðaróss og fann þar Hákon jarl, fékk þar góðar viðtökur og áttu þeir jarl tal sitt. Kom þar allt ásamt með þeim og réðu þeir það að Kálfur gerðist handgenginn jarli og tók af honum veislur miklar. Síðan fór Kálfur heim til bús síns. Hafði hann þá mest yfirsókn allt inn í Þrándheim.

En þegar er voraði bjó Kálfur skip er hann átti. Og þegar er hann var búinn þá sigldi hann á haf og hélt skipi því vestur til Englands því að hann spurði það til Knúts konungs að hann sigldi snemma um vorið úr Danmörk vestur til Englands. Þá hafði Knútur konungur gefið jarldóm í Danmörku Haraldi syni Þorkels háva. Kálfur Árnason fór á fund Knúts konungs þegar er hann kom til Englands.

Svo segir Bjarni Gullbrárskáld:

Austr réð allvaldr rista
ótála haf stáli.
Varð að vitja Garða
vígmóðr Haralds bróðir.
En um iðnir manna
emka eg tamr að samna
skrökvi. Að skilnað ykkarn
skjótt léstu Knút um sóttan.

En er Kálfur kom á fund Knúts konungs þá fagnaði konungur honum forkunnarvel og hafði á tali við sig. Varð það í ræðum Knúts konungs að hann beiddi Kálf þess að bindast fyrir að gera uppreist í móti Ólafi hinum digra ef hann leitaði aftur í landið. «En eg,» segir konungur, «mun gefa þér þá jarldóm og láta þig þá ráða Noregi. En Hákon frændi minn skal fara til mín og er honum það best fallið því að hann er sá heilhugi að eg ætla hann eigi munu einu skafti skjóta móti Ólafi konungi þótt þeir finnist.»

Kálfur hlýddi á það er Knútur konungur mælti og gerðist hann fús til tignarinnar. Staðfestist sjá ráðagerð með þeim Knúti konungi og Kálfi. Bjóst þá Kálfur til heimferðar en að skilnaði gaf Knútur konungur honum gjafar vegsamlegar.

Þess getur Bjarni skáld:

Áttu Engla drottni,
ógnrakkr, gjafar þakka,
jarls niðr. Komstu yðru
ótála vel máli.
Þér lét fold, áðr færir,
frest urðu þess, vestan,
líf þitt era lítið,
Lundúna gramr fundna.

Síðan fór Kálfur aftur í Noreg og kom heim til bús síns.

184. Dauði Hákonar jarls

Hákon jarl fór það sumar úr landi og vestur til Englands en er hann kom þar þá fagnar Knútur konungur honum vel. Jarlinn átti festarmey þar á Englandi og fór hann þess ráðs að vitja og ætlaði brullaup sitt að gera í Noregi en aflaði til á Englandi þeirra fanga er honum þóttu torfengst í Noregi. Bjóst jarl um haustið til heimferðar og varð heldur síðbúinn. Sigldi hann í haf þá er hann var búinn.

En frá ferð hans er það að segja að skip það týndist og kom engi maður af. En það er sumra manna sögn að skipið hafi séð verið norður fyrir Katanesi að aftni dags í stormi miklum og stóð veðrið út á Péttlandsfjörð. Segja þeir svo er slíku vilja fylgja að skipið muni hafa rekið í svelginn. En hitt vita menn með sannindum að Hákon jarl týndist í hafi og ekki kom til landa það er á skipi því var.

Það sama haust sögðu kaupmenn þau tíðindi svo borin um land að menn hugðu að jarl væri týndur. En hitt vissu allir að hann kom eigi á því hausti til Noregs og land var þá höfðingjalaust.

185. Frá Birni stallara

Björn stallari sat heima að búi sínu síðan er hann hafði skilist við Ólaf konung. Björn var frægur og spurðist það brátt víða að hann hafði sest um kyrrt. Spurði það Hákon jarl og aðrir landráðamenn. Síðan gerðu þeir menn og orðsendingar til Bjarnar.

En er sendimenn komu fram ferð þeirri þá tók Björn vel við þeim. Síðan kallaði Björn til tals við sig sendimenn og spurði þá eftir erindum sínum.

En sá er fyrir þeim var mælti, bar kveðju Knúts konungs og Hákonar jarls Birni, og enn fleiri höfðingja, «og það með,» segir hann, «að Knútur konungur hefir spurn mikla af þér og svo um það að þú hefir lengi fylgt Ólafi digra en verið óvinur mikill Knúts konungs og þykir honum það illa því að hann vill vera vinur þinn sem allra annarra dugandi manna þegar er þú vilt af hverfa að vera hans óvinur. Og er þér nú sá einn til að snúast þangað til trausts og vináttu sem gnógst er að leita og nú láta allir menn sér sóma í norðurhálfu heimsins. Megið þér það líta er fylgt hafið Ólafi hvernug hann hefir nú við yður skilið. Þér eruð allir traustlausir fyrir Knúti konungi og hans mönnum en herjuðuð land hans hið fyrra sumar og drápuð vini hans. Þá er þetta með þökkum að taka er konungur býður sína vináttu og væri hitt maklegra að þú bæðir eða byðir fé til.»

En er hann hafði lokið ræðu sinni þá svarar Björn og segir svo: «Eg vil nú sitja um kyrrt heima að búi mínu og þjóna ekki höfðingjum.»

Sendimaður svarar: «Slíkt eru konungsmenn sem þú ert. Kann eg þér það að segja að þú átt tvo kosti fyrir höndum. Sá annar að fara útlagur af eignum þínum svo sem nú fer Ólafur félagsmaður yðar. Hinn er annar kostur, er sýnilegri má þykja, að taka við vináttu Knúts konungs og Hákonar jarls og gerast þeirra maður og selja til þess trú þína og taka hér mála þinn,» steypti fram ensku silfri úr sjóð miklum.

Björn var maður fégjarn og var hann sjúkur mjög og þagnaði er hann sá silfrið, hugði þá að fyrir sér hvað af skyldi ráða, þótti mikið að láta eigur sínar en þótti ósýn uppreist Ólafs konungs, að verða mundi í Noregi.

En er sendimaður fann að Birni gekkst hugur við féið þá kastaði hann fram gullhringum tveimur digrum og mælti: «Tak þú nú féið Björn og sver eiðinn. Eg heiti þér því að lítils er þetta fé vert hjá hinu er þú munt þiggja ef þú sækir heim Knút konung.»

En af mikilleik fjárins og heitum fögrum og stórum fégjöfum þá varð hann snúinn til fégirni, tók upp féið og gekk síðan til handgöngu og eiða, trúnaðar við Knút konung og Hákon jarl. Fóru þá sendimenn í brott.

186. Ferð Bjarnar stallara

Björn stallari spurði tíðindi þau er sagt var að Hákon jarl væri týndur. Þá sneri skaplyndi hans, iðraðist hann þess er hann hafði brugðið trú sinni við Ólaf konung. Þóttist hann þá laus vera þeirra einkamála er hann hafði veitt til hlýðni Hákoni jarli. Þótti Birni þá gerast nokkur von til uppreistar um ríki Ólafs konungs ef hann kæmi til Noregs, að þá væri þar höfðingjalaust fyrir.

Björn býr þá ferð sína skyndilega og hafði nokkura menn með sér, fór síðan dag og nótt ferðar sinnar, það á hestum er svo mátti, það á skipum er það bar til, létti eigi ferð þeirri fyrr en hann kom um veturinn að jólum austur í Garðaríki og á fund Ólafs konungs og varð konungur allfeginn er Björn hitti hann. Spurði þá konungur margra tíðinda norðan úr Noregi.

Björn segir að jarl var týndur og land var þá höfðingjalaust. Þeim tíðindum urðu menn fegnir, þeir er Ólafi konungi höfðu fylgt úr Noregi og þar höfðu átt eigur og frændur og vini og léku miklir landmunir til heimferðar. Mörg önnur tíðindi sagði Björn konungi úr Noregi, þau er honum var forvitni á að vita. Þá spurði konungur eftir vinum sínum, hvernug þeir héldu trúnaði við hann. Björn segir að það var allmisjafnt.

Síðan stóð Björn upp og féll til fóta konungi og tók um fót honum og mælti: «Allt á guðs valdi og yðru konungur. Eg hefi tekið fé af Knúts mönnum og svarið þeim trúnaðareiða en nú vil eg þér fylgja og eigi við þig skiljast meðan við lifum báðir.»

Konungur svarar: «Stattu upp skjótt Björn. Sáttur skaltu vera við mig. Bættu þetta við guð. Vita má eg það að fáir munu nú vera í Noregi, þeir er einurð sinni haldi nú við mig, er slíkir bregðast sem þú ert. Er það og satt að menn sitja þar í miklu vandkvæði er eg em fjarri en sitja fyrir ófriði fjandmanna minna.»

Björn segir konungi frá því hverjir mest bundust fyrir að reisa fjandskap upp í móti konungi og hans mönnum. Nefndi hann til þess sonu Erlings á Jaðri og aðra frændur þeirra, Einar þambarskelfi, Kálf Árnason, Þóri hund, Hárek úr Þjóttu.

187. Frá Ólafi konungi

Síðan er Ólafur konungur var kominn í Garðaríki hafði hann stórar áhyggjur og hugsaði hvert ráð hann skyldi upp taka.

Jarisleifur konungur og Ingigerður drottning buðu Ólafi konungi að dveljast með sér og taka upp ríki það er heitir Vúlgaría og er það einn hlutur af Garðaríki og var það fólk heiðið í því landi. Ólafur konungur hugsaði fyrir sér um þetta boð en er hann bar það fyrir menn sína þá löttu allir að staðfestast þar og eggjuðu konung að ráða norður til Noregs til ríkis síns.

Konungur hafði það enn í ráðagerð sinni að leggja niður konungstign og fara út í heim til Jórsala eða í aðra helga staði og ganga undir regúlu. Það taldist lengstum í huginn að hugsa ef nokkur föng mundu til verða að hann næði ríki sínu í Noregi. En er hann hafði þar á huginn þá minntist hann þess að hina fyrstu tíu vetur konungdóms hans voru honum allir hlutir hagfelldir og farsællegir en síðan voru honum öll ráð sín þunghrærð og torsótt en gagnstaðlegar allar hamingjuraunirnar. Nú efaði hann um, fyrir þá sök, hvort það mundi vera viturlegt ráð að treysta svo mjög hamingjuna að fara með lítinn styrk í hendur fjandmönnum sínum er allur landsmúgur hafði til slegist að veita Ólafi konungi mótgöngu. Slíkar áhyggjur bar hann oftlega og skaut til guðs sínu máli og bað hann láta það upp koma er hann sæi að best gegndi. Volkaði hann það í hugnum og vissi eigi hvað hann skyldi upp taka því að honum sýndust mein auðsýn á því sem hann taldi fyrir sér.

188. Draumur Ólafs konungs

Það var á einni nóttu að Ólafur lá í rekkju sinni og vakti lengi um nóttina og hugði að ráðagerðum sínum og hafði stórar áhyggjur í skapi sínu. En er hugurinn mæddist mjög þá sé á hann svefn og svo laus að hann þóttist vaka og sjá öll tíðindi í húsinu. Hann sá mann standa fyrir rekkjunni mikinn og veglegan og hafði klæðnað dýrlegan. Bauð konungi það helst í hug að þar mundi vera kominn Ólafur Tryggvason.

Sá maður mælti til hans: «Ertu mjög hugsjúkur um ráðaætlan þína, hvert ráð þú skalt upp taka? Það þykir mér undarlegt er þú velkir það fyrir þér, svo það ef þú ætlast það fyrir að leggja niður konungstign þá er guð hefir gefið þér, slíkt hið sama sú ætlan að vera hér og þiggja ríki af útlendum konungum og þér ókunnum. Farðu heldur aftur til ríkis þíns er þú hefir að erfðum tekið og ráðið lengi fyrir með þeim styrk er guð gaf þér og lát eigi undirmenn þína hræða þig. Það er konungs frami að sigrast á óvinum sínum en veglegur dauði að falla í orustu með liði sínu. Eða efar þú nokkuð um það að þú hafir rétt að mæla í yðarri deilu? Eigi skaltu það gera að dylja sjálfan þig sanninda. Fyrir því máttu djarflega sækja til landsins að guð mun þér bera vitni að það er þín eiga.»

En er konungur vaknaði þá þóttist hann sjá svip mannsins er brott gekk. En þaðan í frá herti hann huginn og einstrengdi þá ætlan fyrir sér að fara aftur til Noregs svo sem hann hafði áður verið fúsastur til og hann fann að allir hans menn vildu helst vera láta. Taldi hann það þá í huginn að landið mundi vera auðsótt er höfðingjalaust var, svo sem þá hafði hann spurt. Ætlaði hann, ef hann kæmi sjálfur til, að margir mundu þá enn honum liðsinnaðir. En er konungur birti þessa ráðagerð fyrir mönnum sínum þá tóku allir því þakksamlega.

189. Af læknislist Ólafs konungs

Svo er sagt að sá atburður varð í Garðaríki þá er Ólafur konungur var þar að sonur einnar göfugrar ekkju fékk kverkasull og sótti svo mjög að sveinninn mátti engum mat niður koma og þótti hann banvænn. Móðir sveinsins gekk til Ingigerðar drottningar því að hún var kunnkona hennar og sýndi henni sveininn.

Drottning segir að hún kunni engar lækningar til að leggja. «Gakk þú,» segir hún, «til Ólafs konungs, hann er hér læknir bestur, og bið hann fara höndum um mein sveinsins og ber til orð mín ef hann vill eigi ellegar.»

Hún gerði svo sem drottning mælti. En er hún fann konung þá segir hún að sonur hennar var banvænn af kverkasulli og bað hann fara höndum um sullinn.

Konungur segir henni að hann var engi læknir, bað hana þangað fara sem læknar voru.

Hún segir að drottning hafði henni þangað vísað «og hún bað mig sín orð til bera að þér legðuð lækning til sem þér kynnuð og sagði hún mér að þú værir bestur læknir hér í staðinum.»

Þá tók konungur til og fór höndum um kverkur sveininum og þuklaði sullinum mjög lengi til þess er sveinninn hrærði munninn. Þá tók konungur brauð og braut og lagði í kross í lófa sér. Síðan lagði hann það í munn sveininum en hann svalg niður.

En þaðan af tók verk allan úr kverkunum. Var hann á fám dægrum alheill. Móðir hans varð fegin mjög og aðrir frændur og kunnmenn sveinsins. Var þá fyrst á þannug virt sem Ólafur konungur hefði svo miklar læknishendur sem mælt er um þá menn sem mjög er sú íþrótt lögð, að þeir hafi hendur góðar, en síðan er jartegnagerð hans varð alkunnig þá var það tekið fyrir sanna jartegn.

190. Ólafur konungur brenndi spánu

Sá atburður varð á einum sunnudegi að Ólafur konungur sat í hásæti sínu yfir borðum og hafði svo fasta áhyggju að hann gáði eigi stundanna. Hann hafði í hendi kníf og hélt á tannar og renndi þar af spánu nokkura.

Skutilsveinn stóð fyrir honum og hélt borðkeri. Hann sá hvað konungur gerði og skildi það að hann sjálfur hugði að öðru. Hann mælti: «Mánadagur er á morgun drottinn.»

Konungur leit til hans er hann heyrði þetta og kom þá í hug hvað hann hafði gert. Síðan bað konungur færa sér kertisljós. Hann sópaði spánunum öllum í hönd sér, þeim er hann hafði telgt. Þá brá hann þar í loginu og lét brenna spánuna í lófa sér og mátti þaðan af marka að hann mundi fast halda lög og boðorð og vilja eigi yfir ganga það er hann vissi réttast.

191. Frá Ólafi konungi

Síðan er Ólafur konungur hafði ráðið fyrir sér að hann vildi snúast til heimferðar þá bar hann það upp fyrir Jarisleif konung og Ingigerði drottning. Þau löttu hann þeirrar ferðar, segja það að hann skyldi hafa í þeirra ríki það veldi er honum þætti sér sæmilegt en báðu hann eigi fara á vald fjandmanna sinna með svo lítinn liðskost sem hann hafði þar.

Þá segir Ólafur konungur þeim drauma sína og það með að hann kvaðst hyggja að það væri guðs forsjá. En er þau fundu að konungur hafði ráðið fyrir sér að fara aftur til Noregs þá bjóða þau honum allan þann fararbeina er hann vildi af þeim þiggja. Konungur þakkar þeim fögrum orðum sinn góðvilja, segir að hann vill fúslega þiggja af þeim það er hann þarf til ferðar sinnar.

192. Ferð Ólafs konungs úr Garðaríki

Þegar á bak jólum hélt Ólafur konungur á búnaði. Hann hafði þar nær tveimur hundruðum sinna manna. Fékk Jarisleifur konungur öllum þeim eyki og þar reiða með svo sem þurfti. En er hann var búinn þá fór hann. Leiddi Jarisleifur konungur hann og Ingigerður drottning vegsamlega af hendi. En Magnús son sinn lét hann þar eftir með konungi. Þá fór Ólafur konungur austan, fyrst að frerum allt til hafsins.

En er voraði og ísa leysti þá bjuggu þeir skip sín. En er þeir voru búnir og byr kom þá sigla þeir og greiddist ferð sú vel. Kom Ólafur konungur skipum sínum við Gotland, spurði þar tíðindi bæði af Svíaveldi og Danmörku og allt úr Noregi. Var þá spurt til sanns að Hákon jarl var týndur en land í Noregi var höfðingjalaust. Þótti konungi og hans mönnum þá vænt um sína ferð, sigldu þaðan þá er byr gaf og héldu til Svíþjóðar.

Lagði konungur liði sínu inn í Löginn og hélt upp í land til Áróss, gerði síðan menn á fund Önundar Svíakonungs og lagði stefnu við hann. Önundur konungur varð vel við orðsending mágs síns og fór til fundar við Ólaf konung svo sem hann hafði orð til send. Kom þá og til Ólafs konungs Ástríður drottning með þá menn er henni höfðu fylgt. Varð þar fagnafundur með öllum þeim. Fagnar Svíakonungur vel Ólafi konungi mági sínum er þeir hittust.

193. Frá lendum mönnum

Nú skal segja hvað þeir höfðust að í Noregi um þessar hríðir.

Þórir hundur hafði Finnferð haft þessa tvo vetur og hafði hann verið hvorntveggja vetur lengi á fjalli og fengið óf fjár. Hann átti margs konar kaup við Finna. Hann lét þar gera sér tólf hreinbjálfa með svo mikilli fjölkynngi að ekki vopn festi á og síður miklu en á hringabrynju. En hið síðara vor bjó Þórir langskip er hann átti og skipaði húskörlum sínum. Hann stefndi saman bóndum og krafði leiðangurs allt um hina nyrstu þinghá, dró þar saman mikið fjölmenni, fór norðan um vorið með liði því.

Hárekur úr Þjóttu hafði og liðsafnað og fékk mikið lið. Urðu til þeirrar farar miklu fleiri virðingamenn þó að þessir séu ágætastir. Lýstu þeir yfir því að liðsafnaður sá skyldi fara móti Ólafi konungi og verja honum land ef hann kæmi austan.

194. Frá Einari þambarskelfi

Einar þambarskelfir hafði mest forráð út um Þrándheim síðan er fráfall Hákonar jarls spurðist. Þótti honum þeir Eindriði feðgar vera best komnir til eigna þeirra er jarl hafði átt og lausafjár. Minntist Einar þá heita þeirra og vinmæla er Knútur konungur hafði veitt honum að skilnaði. Lét þá Einar búa skip gott er hann átti, gekk þar á sjálfur með mikið föruneyti.

En er hann var búinn hélt hann suður með landi og síðan vestur um haf og létti eigi ferð sinni fyrr en hann kom til Englands, fór þá þegar á fund Knúts konungs. Fagnaði konungur honum vel. Síðan bar Einar upp erindi sín fyrir konung, segir svo að hann var þá kominn að vitja heita þeirra er konungur hafði mælt að Einar skyldi bera tignarnafn yfir Noregi ef Hákonar jarls væri eigi við kostur.

Knútur konungur segir að það mál vissi allt annan veg við. «Hefi eg nú,» segir hann, «sent menn og jartegnir mínar til Danmerkur til Sveins sonar míns og það með að eg hefi honum heitið ríki í Noregi. En eg vil halda við þig vináttu. Skaltu hafa þvílíkar nafnbætur af mér sem þú hefir burði til og vera lendur maður en hafa veislur miklar og vera því framar en aðrir lendir menn sem þú ert meiri framkvæmdarmaður en aðrir lendir menn.»

Sá Einar þá um hlut sinn hvert hans erindi mundi verða. Býst hann þá til heimferðar. En er hann vissi fyrirætlan konungsins, og svo það að mikil von var ef Ólafur konungur kæmi austan að ekki mundi friðsamlegt í landi, kom Einari það í hug að ekki mundi undir að hrapa ferðinni meir en svo sem hóflegast væri ef þeir skyldu berjast við Ólaf konung en hafa ekki til framflutningar ríkis síns þá heldur en áður.

Sigldi Einar þá í haf er hann var að því búinn og kom svo til Noregs að áður voru fram komin þau tíðindi er þar gerðust mest á því sumri.

195. Frá höfðingjum í Noregi

Höfðingjar í Noregi héldu njósnum austur til Svíþjóðar og suður til Danmerkur ef Ólafur konungur kæmi austan úr Garðaríki. Fengu þeir þegar spurt, svo sem menn fengu skjótast farið, er Ólafur konungur var kominn til Svíþjóðar.

En þegar er það var sannspurt þá fór herboð um land allt. Var stefnt út almenning að liði. Kom þá her saman. En þeir lendir menn, er voru af Ögðum og Rogalandi og Hörðalandi, þá skiptust þeir við, sneru sumir norður en sumir austur og þótti hvartveggja lið fyrir þurfa. Sneru austur synir Erlings af Jaðri og allt lið það er austur var frá þeim og voru þeir höfðingjar fyrir því liði, en norður snerist Áslákur af Finneyju og Erlendur úr Gerði og þeir lendir menn er norður voru frá þeim. Þessir er nú eru nefndir voru allir eiðsvarar Knúts konungs til þess að taka Ólaf konung af lífi ef þeim gæfi færi á því.

196. Ferð Haralds Sigurðarsonar

En er það spurðist í Noreg að Ólafur konungur var austan kominn til Svíþjóðar þá söfnuðust saman vinir hans, þeir er honum vildu lið veita. Var í þeim flokki tignastur maður Haraldur Sigurðarson bróðir Ólafs konungs. Hann var þá fimmtán vetra gamall, mikill maður vexti og roskinmannlegur. Mart var þar annarra göfugra manna. Þeir fengu alls sex hundruð manna þá er þeir fóru af Upplöndum og stefndu við lið það austur um Eiðaskóg til Vermalands. Síðan stefndu þeir austur um markir til Svíþjóðar, spurðust þá fyrir um ferðir Ólafs konungs.

197. Ferð Ólafs konungs úr Svíþjóð

Ólafur konungur var í Svíþjóð um vorið og hafði þaðan njósnir norður í Noreg og fékk þaðan þá eina spurn að ófriðsamlegt mundi þangað að fara og þeir menn er norðan komu löttu hann mjög að fara í landið. Hann hafði þá einráðið fyrir sér að fara slíkt sem áður.

Ólafur konungur spurði máls Önund konung hvern styrk hann mundi veita honum að sækja land sitt.

Önundur konungur svarar svo, segir að Svíum var lítið um að fara í Noreg herför. «Vitum vér,» segir hann, «að Norðmenn eru harðir og orustumenn miklir og illir heim að sækja með ófriði. Skal það eigi seint að segja þér hvað eg vil til leggja. Eg mun fá þér fjögur hundruð manna og veljið af hirðsveitum mínum góða hermenn og vel búna til bardaga. Síðan vil eg gefa þér lof til að þú farir yfir land mitt og fáir þér lið allt það er þú mátt og þér vill fylgja.»

Ólafur konungur tók þenna kost, bjóst síðan ferðar sinnar. Ástríður drottning var eftir í Svíþjóðu og Úlfhildur konungsdóttir.

198. Ferð Ólafs konungs til Járnberalands

En er Ólafur konungur hóf ferð sína þá kom til hans lið það er Svíakonungur fékk honum og voru það fjögur hundruð manna. Fer konungur þær leiðir er Svíar kunnu fyrir. Stefndu þeir upp á land til marka og komu þar fram er kallað er Járnberaland.

Þar kom í móti konungi lið það er farið hafði af Noregi til móts við hann sem hér er fyrr frá sagt. Hitti hann þar Harald bróður sinn og marga aðra frændur sína og varð það hinn mesti fagnaðarfundur. Höfðu þeir þá allir saman tólf hundruð manna.

199. Frá Dag Hringssyni

Dagur er maður nefndur er svo segir að hann var sonur Hrings konungs, þess er land hafði flúið fyrir Ólafi konungi, en menn segja að Hringur væri sonur Dags Hringssonar Haraldssonar hins hárfagra. Dagur var frændi Ólafs konungs. Þeir feðgar Hringur og Dagur höfðu staðfest í Svíaveldi og höfðu þar fengið ríki til forráðs.

Um vorið er Ólafur konungur var kominn austan til Svíþjóðar sendi hann orð Dag frænda sínum, þau að Dagur skyldi ráðast til ferðar með honum með þann styrk allan sem hann hefir til en ef þeir fá land eignast í Noregi þá skyldi Dagur hafa ríki þar eigi minna en foreldri hans hafði haft.

En er þessi orðsending kom til Dags þá féll honum það vel í skap. Lék honum landmunur mjög á að fara í Noreg og taka þar við ríki því sem frændur hans höfðu fyrr haft. Svarar hann skjótt þessu máli og hét ferð sinni. Dagur var maður skjótorður og skjótráður, ákafamaður mikill og hreystimaður mikill en engi spekingur að viti. Síðan safnaði hann sér liði og fékk nær tólf hundruð manna. Fór hann með það lið til fundar Ólafs konungs.

200. Ferð Ólafs konungs

Ólafur konungur gerði orð frá sér í byggðir og sendi orð þeim mönnum, er það vildu hafa til féfangs sér að afla hlutskiptis og hafa upptektir þær er óvinir konungs sætu fyrir, þá skyldu þeir til hans koma og honum fylgja.

Ólafur konungur flutti þá her sinn og fór um markbyggðir en sumt um eyðimerkur og oftlega um vötn stór. Þeir drógu eða báru skipin eftir sér milli vatnanna. Fjöldi dreif liðs til konungs, markamenn og sumt stigamenn. Er þar víða síðan kallað Ólafsbúðir sem hann hafði náttstaði. Hann létti eigi ferðinni fyrr en hann kom fram á Jamtaland, fór þá síðan norður til Kjalar. Skiptist lið hans í byggðirnar og fór mjög sundurlaust meðan þeir vissu ekki ófriðar vonir. En jafnan er þeir skiptu liði sínu þá fylgdi konungi Norðmannalið en Dagur fór þá í annan stað með sitt lið en Svíar í þriðja stað með sínu liði.

201. Frá stigamönnum

Menn þeir eru nefndir er annar hét Gauka-Þórir en annar Afra-Fasti. Þeir voru stigamenn hinir mestu, höfðu með sér þrjá tigu manna sinna maka. Þeir bræður voru meiri og sterkari en aðrir menn. Eigi skorti þá áræði og hug. Þeir spurðu til hers þess er þar fór yfir land og mæltu sín á milli að það mundi vera snjallræði að fara til konungs og fylgja honum til lands síns og ganga þar í fólkorustu með honum og reyna sig svo, því að þeir höfðu ekki fyrr í bardögum verið, þeim er liði var fylkt til. Var þeim það forvitni mikil að sjá konungs fylking. Þetta ráð líkaði vel förunautum þeirra, gerðu þá ferð sína til fundar við konung.

En er þeir koma þar þá ganga þeir með sveit sína fyrir konung og höfðu þeir förunautar alvæpni sitt. Þeir kvöddu hann. Hann spurði hvað mönnum þeir séu. Þeir nefndu sig og segja að þeir voru þarlandsmenn. Þá bera þeir upp erindi sín og buðu konungi að fara með honum.

Konungur segir að honum leist svo sem í slíkum mönnum muni vera góð fylgd. «Eg em fús,» segir hann, «við slíkum mönnum að taka. Eða hvort eruð þér kristnir menn?» segir hann.

Gauka-Þórir svarar, segir að hann var hvorki kristinn né heiðinn. «Höfum vér félagar engan annan átrúnað en trúum á okkur og afl okkað og sigursæli og vinnst okkur það að gnógu.»

Konungur svarar: «Skaði mikill, er menn svo liðmannlegir skulu eigi á Krist trúa, skapara sinn.»

Þórir svarar: «Er nokkur sá í þínu föruneyti konungur, Kristsmaðurinn, er meira hafi á degi vaxið en við bræður?»

Konungur bað þá skírast láta og taka trú rétta þar með «og fylgið þá mér,» segir hann. «Skal eg þá gera ykkur virðingamenn mikla. En ef þið viljið það eigi þá farið aftur til iðnar ykkarrar.»

Afra-Fasti svarar, segir að hann vildi ekki við kristni taka. Snúa þeir síðan í brott.

Þá mælti Gauka-Þórir: «Þetta er skömm mikil er konungur þessi gerir oss liðrækja. Þar kom eg aldregi fyrr er eg væri eigi hlutgengur við aðra menn. Skal eg aldregi aftur hverfa að svo gerðu.»

Síðan slógust þeir í sveit með markamönnum öðrum og fylgdu flokkinum. Sækir þá Ólafur konungur vestur til Kjalar.

202. Sýn Ólafs konungs

En er Ólafur konungur fór austan um Kjöl og sótti þá vestur af fjallinu svo að land lægði þaðan vestur að sjá og sá þá þannug landið. Mart lið fór fyrr en konungur og mart síðar. Reið hann þar er rúmt var um hann. Var hann hljóður, mælti ekki við menn. Reið hann svo langa hríð dags að hann sást lítt um.

Þá reið biskup að honum og mælti, spurði hvað hann hugsaði er hann var svo hljóður, því að konungur var jafnan glaður og margmálugur við menn sína í ferðinni og gladdi svo alla þá er nær honum voru.

Þá svarar konungur með áhyggju mikilli: «Undarlega hluti hefir borið fyrir mig um hríð. Eg sá nú yfir Noreg er eg leit vestur af fjallinu. Kom mér þá í hug að eg hafði margan dag glaður verið í því landi. Mér gaf þá sýn að eg sá um allan Þrándheim og því næst um allan Noreg og svo lengi sem sú sýn hafði verið fyrir augum mér þá sá eg æ því víðara allt þar til er eg sá um alla veröld, bæði lönd og sæ. Eg kenndi gerla þá staði er eg hafði fyrr komið og séð. Jafngreinilega sá eg þá staði er eg hefi eigi fyrr séð, suma þá er eg hefi haft spurn af en jafnvel hina er eg hefi eigi fyrr heyrt getið, bæði byggða og óbyggða, svo vítt sem veröldin er.»

Biskup segir að sú sýn var heilagleg og stórmerkileg.

203. Jartein um akur

Síðan er konungur sótti ofan af fjallinu þá var bær sá fyrir þeim er á Súlu heitir í ofanverðri byggðinni í Verdælafylki. En er þeir sóttu ofan að bænum þá lágu akrar við veginn. Konungur bað menn fara spaklega og spilla eigi eng fyrir bónda. Gerðu menn það vel meðan konungur var við en þær sveitir er síðar fóru, þá gáfu ekki þessu gaum og hljópu menn svo um akurinn að hann var allur lagður að jörðu.

Sá búandi er þar bjó er nefndur Þorgeir flekkur. Hann átti tvo sonu vel frumvaxta. Þorgeir fagnaði vel konungi og hans mönnum og bauð honum allan þann forbeina er hann hafði föng á. Konungur tók því vel og spurði þá Þorgeir að tíðindum, hvað títt væri þar í landi eða hvort safnaður nokkur mundi þar vera ger í móti honum.

Þorgeir segir að lið mikið var saman dregið þar í Þrándheimi og þar voru komnir lendir menn bæði sunnan úr landi og norðan af Hálogalandi. «En eigi veit eg,» segir hann, «hvort þeir ætla því liði að stefna yður í mót eða í annan stað.»

Síðan kærði hann fyrir konungi skaða sinn og óspekt konungsmanna er þeir höfðu niður brotið og troðið akra hans alla. Konungur segir að það var illa orðið er honum var mein gert.

Síðan reið konungur til þar sem akurinn hafði staðið og sá að akurinn var allur að jörðu lagður. Hann reið umhverfis og mælti síðan: «Þess vænti eg búandi að guð mun leiðrétta skaða þinn og mun akur þessi betri á viku fresti.»

Og varð það hinn besti akur sem konungur sagði.

Konungur dvaldist þar um nótt en að morgni bjó hann ferð sína. Hann segir að Þorgeir bóndi skyldi fara með honum. En er hann bauð til ferðar tvo sonu sína þá segir konungur að þeir skulu eigi fara með honum en sveinar vildu þó fara. Konungur bað þá eftir vera en er þeir vildu ekki letjast þá vildu hirðmenn konungs binda þá.

Konungur mælti er hann sá það: «Fari þeir, aftur munu þeir koma.»

Svo fór sem konungur sagði um sveinana.

204. Skírðir markamenn

Þá flytja þeir her sinn út til Stafs. En er hann kom á Stafamýrar þá átti hann dvöl. Þá spurði hann til sanns að bændur fóru með her móti honum og það að þá mundi hann orustu eiga brátt. Þá kannaði konungur lið sitt og var skorað manntal. Þá fundust í hernum níu hundruð heiðinna manna.

En er konungur vissi það þá bað hann þá skírast láta, segir svo að hann vill eigi heiðna menn hafa í orustu með sér. «Munum vér,» segir hann, «ekki mega treystast liðsfjölda. Guði skulum vér treystast því að með krafti og miskunn munum vér sigur fá en eigi vil eg blanda heiðnu fólki við menn mína.»

En er það heyrðu heiðingjar þá báru þeir saman ráð sín og að lyktum létu skírast fjögur hundruð manna en fimm hundruð neittu kristni og sneri það lið aftur til síns lands.

Þá ganga þar fram þeir bræður með sitt lið, Gauka-Þórir og Afra-Fasti, og bjóða konungi enn gengi sitt. Hann spyr ef þeir hefðu þá skírn tekið. Gauka-Þórir segir að það var eigi. Konungur bað þá taka skírn og trú rétta en fara á brott að öðrum kosti. Þeir sneru þá frá í brott og tóku tal sín í milli og réðu um hvert ráð upp skyldi taka.

Þá mælti Afra-Fasti: «Svo er að segja frá mínu skapi að eg vil ekki aftur hverfa. Mun eg fara til orustu og veita lið öðrum hvorum en eigi þykir mér skipta í hvorum flokki eg em.»

Þá svarar Gauka-Þórir: «Ef eg skal til orustu fara þá vil eg konungi lið veita því að honum er liðs þörf meiri. En ef eg skal á guð nokkuð trúa, hvað er mér verra að trúa á Hvíta-Krist en á annað goð? Nú er það mitt ráð að vér látum skírast ef konungi þykir það miklu máli skipta, förum þá síðan til orustu með honum.»

Þessu játa þeir allir, ganga síðan til konungs og segja að þeir vilja þá skírn taka. Voru þeir þá skírðir af kennimönnum og voru biskupaðir. Konungur tók þá í hirðlög með sér og segir að þeir skyldu vera undir merki hans í orustu.

205. Tala Ólafs konungs

Ólafur konungur hafði þá til sanns spurt að skammt mundi vera til þess er hann mundi orustu eiga við bændur. En síðan er hann hafði kannað lið sitt og skorað var manntal og hafði hann þá meir en þrjá tigu hundruð manna og þótti það þá vera mikill her á einum velli.

Síðan talaði konungur fyrir liðinu og mælti svo: «Vér höfum mikinn her og frítt lið. Nú vil eg segja mönnum hverja skipan eg vil hafa á liði voru. Eg mun láta fara merki mitt fram í miðju liði og skal þar fylgja hirð mín og gestir og þar með lið er til vor kom af Upplöndum og svo það lið er hér kom til vor í Þrándheimi. En til hægri handar frá mínu merki skal vera Dagur Hringsson og með honum það lið allt er hann hafði til föruneytis við oss. Skal hann hafa annað merki. En til vinstri handar frá minni fylking skal vera það lið er Svíakonungur fékk oss og allt það lið er til vor kom í Svíaveldi. Skulu þeir hafa hið þriðja merki. Vil eg að menn skiptist í sveitir og heimtist saman frændur og kunnmenn því að þá mun hver annars best gæta og hver annan kenna. Vér skulum marka lið vort allt, gera herkuml á hjálmum vorum og skjöldum, draga þar með bleiku á krossinn helga. En ef vér komum í orustu þá skulum vér hafa allir eitt orðtak: «Fram, fram, Kristsmenn, krossmenn, konungsmenn!» Vér munum hljóta þunnar fylkingar ef vér höfum lið færra því að eg vil að þeir kringi eigi um oss sínu liði. Skiptist menn nú í sveitir en síðan skal sveitum skipa í fylkingar og viti þá hver sína stöðu og gefi gaum að hvert hann er frá merki því er hann er undir skipaður. Vér munum nú halda fylkingu og skulu menn hafa alvæpni dag og nótt þar til er vér vitum hvar fundur vor mun verða og búanda.»

Síðan er konungur hafði talað þá fylktu þeir liði sínu og skipuðu eftir því sem konungur hafði fyrir mælt. Eftir það átti konungur stefnu við sveitarhöfðingja. Voru þá komnir þar menn er konungur hafði sent í héraðið að krefja búendur liðs. Þeir kunnu þau tíðindi úr byggðinni að segja, þar sem þeir höfðu farið, að víða var aleyða að vígjum mönnum og var það fólk farið í bóndasafnað en þar sem þeir hittu menn þá vildu fáir þeim fylgja en flestir svöruðu því að fyrir þá sök sátu heima að þeir vildu hvorigum fylgja, vildu eigi berjast móti konungi og eigi móti frændum sínum. Höfðu þeir fátt lið fengið.

Þá spurði konungur menn ráðs hvað sýndist tiltækilegast.

Finnur svarar máli konungs: «Segja mun eg,» segir hann, «hvernug gert mundi ef eg skyldi ráða. Þá mundum vér fara herskildi um allar byggðir, ræna fé öllu en brenna svo vendilega byggð alla að aldrei stæði kot eftir, gjalda svo bóndum drottinsvikin. Hygg eg að margur mundi þá laus vera við flokkinn ef hann sér heim reyk eða loga til húsa sinna en veit ógerla hvað er títt er um börn eða konur eða gamalmenni, feður þeirra eða mæður eða annað frændlið. Vænti eg,» segir hann, «ef nokkurir ráða til að rjúfa safnaðinn að þá muni brátt þynnast fylkingar þeirra því að svo er bóndum gefið að það ráð er þá er nýjast, það er þá öllum kærst.»

En er Finnur lauk máli sínu þá gerðu menn þar að góðan róm. Líkaði mörgum vel að ráða til féfanga en öllum þóttu bændur maklegir til skaða en líklegt það er Finnur sagði að bændur mundu vera margir lausir við safnaðinn.

Þormóður Kolbrúnarskáld kvað þá vísu:

Brennum öll fyr innan
Inney, þau er vér finnum,
land tegast her með hjörvi,
hverbjörg, fyr gram verja.
Ýs, hafi allra húsa
Innþrændir kol sinna,
angr skal kveikt í klungri,
köld, ef eg má valda.

En er Ólafur konungur heyrði ákafa lýðsins þá krafði hann sér hljóðs og mælti síðan: «Hafa bændur verðleik til þess að svo væri gert sem þér viljið. Það vita þeir að eg hefi gert það að brenna innin fyrir þeim og veitt þeim aðrar stórar refsingar. Gerði eg þá það að brenna fyrir þeim er þeir höfðu áður gengið af trú sinni og tekið upp blót en vildu ekki láta að orðum mínum. Áttum vér þá guðs réttar að reka. Nú eru þessi drottinsvik miklu minna verð þótt þeir haldi eigi trú sína við mig og munu þó þessi eigi þykja vel sama þeim er manndómsmenn vilja vera. Nú á eg hér nokkuru heimilla að veita nokkura frían er þeir misgera við mig en þá er þeir hötuðust við guð. Nú vil eg að menn fari spaklega og geri engi hervirki. Vil eg fara fyrst til fundar við bændur. Og sættumst vér, þá er vel, en ef þeir halda bardaga í móti oss þá eru þar tveir kostir fyrir höndum og ef vér föllum í orustu, þá er því vel ráðið að fara þangað eigi með ránfé, en ef vér sigrumst þá skuluð þér vera arftökumenn þeirra er nú berjast móti oss því að þeir munu þar sumir falla en sumir flýja og hafa hvorirtveggju fyrirgert allri eigu sinni. En þá er gott að ganga til búa stórra, en bæir veglegir, en þess nýtur engi er brennt er. Svo ránfé fer að spjöllum, miklu meiri hluti en það er nýtt verður af. Skulum vér nú fara dreift út eftir byggðinni og hafa með oss alla vígja menn þá er vér fáum. Skulu menn og höggva bú eða taka aðra vist svo sem menn þurfa til að fæða sig en menn geri ekki annað spellvirki. Vel þykir mér að drepnir séu njósnarmenn bónda ef þér takið þá. Skal Dagur fara og hans lið hið nyrðra ofan eftir dalnum en eg mun fara út þjóðveginn og hittumst að kveldi. Höfum allir eitt náttból.»

206. Frá skáldum Ólafs konungs

Svo er sagt að þá er Ólafur konungur fylkti liði sínu þá skipaði hann mönnum í skjaldborg er halda skyldi fyrir honum í bardaga og valdi þar til þá menn er sterkastir voru og snarpastir.

Þá kallaði hann til sín skáld sín og bað þá ganga í skjaldborgina. «Skuluð þér,» segir hann, «hér vera og sjá þau tíðindi er hér gerast. Er yður þá eigi segjandi saga til, því að þér skuluð frá segja og yrkja um síðan.»

Þar var þá Þormóður Kolbrúnarskáld og Gissur gullbrá fóstri Hofgarða-Refs og hinn þriðji Þorfinnur munnur.

Þá mælti Þormóður til Gissurar: «Stöndum eigi svo þröngt lagsmaður að eigi nái Sighvatur skáld rúmi sínu þá er hann kemur. Hann mun vera vilja fyrir konungi og ekki mun konungi annað líka.»

Konungur heyrði þetta og svarar: «Ekki þarf Sighvati að sneiða þótt hann sé eigi hér. Oft hefir hann mér vel fylgt. Hann mun nú biðja fyrir oss og mun þess enn allmjög þurfa.»

Þormóður segir: «Vera má það konungur að þér sé nú bæna mest þörf en þunnt mundi vera um merkistöngina ef allir hirðmenn þínir væru nú á Rúmavegi. Var það og satt að vér töldum þá að því, er engi fékk rúm fyrir Sighvati þótt mæla vildi við yður.»

Þá mæltu þeir sín á milli, sögðu að það væri vel fallið að yrkja áminningarvísur nokkurar um þau tíðindi er þá mundu brátt að höndum berast.

Þá kvað Gissur:

Skala óglaðan, Ifa,
orð fregni það, borða
búumk við þröng á þingi,
þegns dóttir mig fregna,
þótt sigrrunnar svinnir
segi von Héðins kvonar.
Verum í Ála éli
austr bragningi að trausti.

Þá kvað Þorfinnur munnur aðra vísu:

Rökkr að regni miklu
randar garðs hins harða.
Vill við vísa snjallan
Verdæla lið berjast.
Verjum allvald örvan.
Ölum teitan má sveita.
Fellum Þrændr í Þundar,
þess eggjumst vér, hreggi.

Þá kvað Þormóður:

Ála þröngr að éli,
örstiklandi, miklu.
Skyldu eigi skelknir höldar,
skálmöld vex nú, fálma.
Búumst við sókn, en slækni
seggr skuli orð um forðast,
er að geirþingi göngum,
gunnreifr, með Óleifi.

Vísur þessar námu menn þá þegar.

207. Sálugjöf Ólafs konungs

Síðan bjó konungur ferð sína og sótti út eftir dölunum. Hann tók sér náttból og kom þar þá saman allt lið hans og lágu um nóttina úti undir skjöldum sínum.

En þegar er lýsti bjó konungur herinn, fluttist þá enn út eftir dalnum er þeir voru að því búnir. Þá komu til konungs bændur mjög margir og gengu flestir í lið með honum og kunnu allir eitt að segja að lendir menn höfðu saman dregið her óvígjan og þeir ætluðu bardaga að halda við konung.

Þá tók konungur margar merkur silfurs og fékk í hendur einum búanda og mælti síðan: «Fé þetta skaltu varðveita og skipta síðan, leggja sumt til kirkna en sumt gefa kennimönnum, sumt ölmusumönnum og gefa fyrir líf og sál þeirra manna er falla í orustu og berjast í móti oss.»

Bóndi svarar: «Skal fé þetta gefa til sálubótar yðrum mönnum konungur?»

Þá svarar konungur: «Þetta fé skal gefa fyrir sál þeirra manna er með bóndum eru í orustu og falla fyrir vopnum vorra manna. En þeir menn er oss fylgja í orustu og þar falla, þá munum vér bjargast að allir saman.»

208. Frá Þormóði Kolbrúnarskáld

Þá nótt er Ólafur konungur lá í safnaðinum og áður er frá sagt vakti hann löngum og bað til guðs fyrir sér og liði sínu og sofnaði lítt. Rann á hann höfgi móti deginum.

En er hann vaknaði þá rann dagur upp. Konungi þótti heldur snemmt að vekja herinn. Þá spurði hann hvar Þormóður skáld væri. Hann var þar nær og svarar, spurði hvað konungur vildi honum.

Konungur segir: «Tel þú oss kvæði nokkuð.»

Þormóður settist upp og kvað hátt mjög svo að heyrði um allan herinn. Hann kvað Bjarkamál hin fornu og er þetta upphaf:

Dagr er upp kominn,
dynja hanafjaðrar,
mál er vílmögum
að vinna erfiði.
Vaki æ og vaki
vina höfuð,
allir hinir æðstu
Aðils um sinnar.

Hár hinn harðgreipi,
Hrólfr skjótandi,
ættum góðir menn,
þeir er ekki flýja.
Vekka eg yðr að víni
né að vífs rúnum,
heldr vek eg yðr að hörðum
Hildar leiki.

Þá vaknaði liðið. En er lokið var kvæðinu þá þökkuðu menn honum kvæðið og fannst mönnum mikið um og þótti vel til fundið og kölluðu kvæðið Húskarlahvöt. Konungur þakkaði honum skemmtan sína. Síðan tók konungur gullhring er stóð hálfa mörk og gaf Þormóði.

Þormóður þakkaði konungi gjöf sína og mælti: «Góðan eigum vér konung en vant er nú að sjá hversu langlífur konungur verður. Sú er bæn mín konungur að þú látir okkur hvorki skiljast lífs né dauða.»

Konungur svarar: «Allir munum vér saman fara meðan eg ræð fyrir ef þér viljið eigi við mig skiljast.»

Þá mælti Þormóður. «Þess vænti eg konungur, hvort sem friður er betri eða verri, að eg sé nær yður staddur meðan eg á þess kost hvað sem vér spyrjum til hvar Sighvatur fer með gullinhjaltann.»

Síðan kvað Þormóður:

Þér mun eg enn, uns öðrum,
allvaldr, náið skaldum,
nær væntir þú þeira?
þingdjarfr, um kné hvarfa.
Braut komumst vér, þó að veitum
valtafn frekum hrafni,
víkst eigi það, voga
viggrunnr, eða hér liggjum.

209. Komið að Stiklastöðum

Ólafur konungur flutti herinn út eftir dalnum. Fór þá enn Dagur með sínu liði aðra leið. Konungur létti eigi ferð sinni áður hann kom út á Stiklastaði. Þá sáu þeir her bónda og fór það lið dreift mjög og var svo mikill fjöldi að af hverjum stíg dreif liðið en víða þar er stórflokkar fóru saman. Þeir sáu hvar sveit manna fór ofan úr Veradal og höfðu þeir á njósn verið og fóru nær því sem lið konungs var og fundu eigi fyrr en skammt var í milli þeirra svo að menn máttu kennast.

Þar var Hrútur af Viggju með þrjá tigu manna. Síðan mælti konungur að gestir skyldu fara að móti Hrúti og taka hann af lífi. Voru menn þess verks fljótir.

Þá mælti konungur til þeirra Íslendinga: «Svo er mér sagt að það sé siður á Íslandi að bændur séu skyldir á haustum að gefa húskörlum sínum slagasauð. Nú vil eg þar gefa yður hrút til sláturs.»

Þeir hinir íslensku voru þess verks auðeggjaðir og fóru þegar að Hrúti með öðrum mönnum. Var Hrútur drepinn og öll sveit sú er honum fylgdi.

Konungur nam staðar og stöðvaði her sinn er hann kom á Stiklastaði. Bað konungur menn stíga af hestum og búast þar um. Menn gerðu sem konungur mælti. Síðan var skotið á fylking og sett upp merkin. Dagur var þá enn eigi kominn með sitt lið og missti þess fylkingararmsins.

Þá mælti konungur að þeir Upplendingar skyldu þar fram ganga og taka upp merkin. «Þykir mér það ráð,» segir konungur, «að Haraldur bróðir minn sé eigi í orustu því að hann er barn að aldri.»

Haraldur svarar: «Eg skal vera að vísu í orustu en ef eg em svo ósterkur að eg má eigi valda sverðinu þá kann eg þar gott ráð til, að binda skal höndina við meðalkaflann. Engi skal vera viljaður betur en eg að vera óþarfur þeim bóndunum. Vil eg fylgja sveitungum mínum.»

Svo segja menn að Haraldur kvað þá vísu þessa:

Þora mun eg þann arm verja,
það er ekkju munr nekkvað,
rjóðum vér af reiði
rönd, er eg í hlýt standa.
Gengra greppr hinn ungi
gunnblíðr, þar er slög ríða,
herða menn að morði
mót, á hæl fyr spjótum.

Haraldur réð því að hann var í orustu.

210. Frá Þorgilsi Hálmusyni

Þorgils Hálmuson er maður nefndur, bóndi sá er bjó á Stiklastöðum, faðir Gríms góða. Þorgils bauð konungi liðsemd sína og vera í bardaga með honum.

Konungur bað hann hafa þökk fyrir boð sitt. «En eg vil,» segir konungur, «að þú búandi sért eigi í bardaga. Veit oss heldur hitt, að bjarg mönnum vorum eftir bardaga, þeim er sárir eru, en veit hinum umbúnað er falla í orustu, svo ef þeir atburðir verða, búandi, að eg fell í bardaga þessum, veit þá þjónustu líki mínu sem nauðsyn ber til ef þér er það eigi bannað.»

Þorgils hét þessu konungi sem hann beiddi.

211. Tala Ólafs konungs

En er Ólafur konungur hafði fylkt liði sínu þá talaði hann fyrir þeim, mælti svo að menn skyldu herða hugi sína og ganga djarflega fram. «Ef orusta verður,» segir hann, «höfum vér lið gott og mikið en þótt bændur hafi lið meira nokkuru þá mun auðna ráða sigri. Er því fyrir yður að lýsa að eg mun eigi flýja úr orustu þessi. Skal eg annaðhvort sigrast á bóndum eða falla í orustu. Vil eg þess biðja að sá hlutur komi upp er guð sér að mér gegnir best. Skulum vér því treystast að vér höfum réttara að mæla en bændur og því þar með að guð muni oss frelsa eigur vorar eftir orustu þessa en ellegar veita oss miklu meiri laun fyrir það lát er vér fáum hér en vér kunnum sjálfir að æskja oss. En ef eg hlýt um að mæla eftir orustu þá skal eg gæða yður hvern eftir sínum verðleikum og því hvernug hver gengur fram í orustu. Mun þá, ef vér höfum sigur, vera gnógt, bæði lönd og lausir aurar, að skipta því með yður er nú fara með áður óvinir vorir. Veitum sem harðasta atgöngu hina fyrstu því að skjótt mun um skipta ef liðsmunur er mikill. Eigum vér sigurs von af skjótum atburðum en hitt mun oss þungt falla ef vér berjumst til mæði svo að menn verði fyrir því óvígir. Munum vér eiga minna deildarlið en þeir er ýmsir ganga fram en sumir hlífast og hvílast. En ef vér gerum svo harða hríðina að þeir snúa undan er fremstir eru þá mun hver falla yfir annan og verða þeirra ófarar þess að meiri er þeir eru fleiri saman.»

En er konungur hætti ræðunni þá gerðu menn mikinn róm að máli hans og eggjaði hver annan.

212. Frá Þórði Fólasyni

Þórður Fólason bar merki Ólafs konungs. Svo segir Sighvatur skáld í erfidrápu þeirri er hann orti um Ólaf konung og stældi eftir uppreistarsögu:

Þórð frá eg það sinn herða,
þreifst sókn, með Óleifi,
góð fóru þar, geirum
gört víg, saman hjörtu.
Stöng bar hátt fyr Hringa
hjaldrmóðum gram bróðir,
fullt vann, fagrla gyllta
framlundaðr Ögmundar.

213. Frá búnaði Ólafs konungs

Ólafur konungur var svo búinn að hann hafði hjálm gylltan á höfði en hvítan skjöld og lagður á með gulli kross hinn helgi. Í annarri hendi hafði hann kesju þá er nú stendur í Kristskirkju við altara. Hann var gyrður sverði því er Hneitir var kallað, hið bitrasta sverð og gulli vafiður meðalkaflinn. Hann hafði hringabrynju.

Þess getur Sighvatur skáld:

Öld vann Ólafr fellda,
öflgan sigr, hinn digri,
gekk sóknþorinn sækja
sinjór fram í brynju.
En, þeir er austan nenna,
óx hildr, með gram mildum,
mart segi eg bert, í bjarta
blóðröst, Svíar, óðu.

214. Draumur Ólafs konungs

En er Ólafur konungur hafði fylkt liði sínu þá voru bændur enn hvergi nær komnir. Þá mælti konungur að liðið skyldi niður setjast og hvíla sig. Settist konungur þá sjálfur niður og allt lið hans og sátu rúmt. Hann hallaðist og lagði höfuðið í kné Finni Árnasyni. Þá rann á hann svefn og var það um hríð. Þá sáu þeir her bónda og sótti þá liðið til móts við þá og höfðu upp sett merki sín og var það hinn mesti múgur manns. Þá vakti Finnur konung og segir honum að bændur sóttu þá til þeirra.

En er konungur vaknaði mælti hann: «Hví vaktir þú mig Finnur og lést mig eigi njóta draums míns?»

Finnur svarar: «Ekki mundi þig það dreyma að eigi mundi skyldara að vaka og búast við hernum er að oss fer. Eða sérð þú eigi hvar nú er kominn bóndamúgurinn?»

Konungur svarar: «Ekki eru þeir enn svo nær oss að eigi væri betur að eg hefði sofið.»

Þá mælti Finnur: «Hvað dreymdi þig konungur þess er þér þykir svo mikil missa í er þú vaknaðir eigi sjálfur?»

Þá segir konungur draum sinn að hann þóttist sjá stiga hávan og ganga þar eftir í loft upp svo langt að himininn opnaði og þangað var stiginn til. «Var eg þá,» segir hann, «kominn í efsta stig er þú vaktir mig.»

Finnur svarar: «Ekki þykir mér draumur sjá svo góður sem þér mun þykja. Ætla eg þetta munu vera fyrir feigð þinni ef það er nokkuð annað en svefnórar einar er fyrir þig bar.»

215. Skírður Arnljótur gellini

Enn varð sá atburður þá er Ólafur konungur var kominn á Stiklastaði að maður einn kom til hans. En það var eigi af því undarlegt að margir menn komu til konungs úr héruðum en því þótti það nýnæmi að þessi maður var ekki öðrum líkur, þeim er þá höfðu til konungs komið. Hann var maður svo hár að engi annarra tók betur en í öxl honum. Hann var allfríður maður sýnum og fagurhár. Hann var vel vopnaður, hafði hjálm allfríðan og hringabrynju, skjöld rauðan og gyrður með sverði búnu, hafði í hendi gullrekið spjót mikið og svo digurt skaftið að handfyllur var í. Sá maður gekk fyrir konung og kvaddi hann og spurði ef konungur vildi þiggja lið að honum.

Konungur spurði hvert nafn hans væri eða kynferð eða hvar hann var landsmaður.

Hann svarar: «Eg á kyn á Jamtalandi og Helsingjalandi. Eg em kallaður Arnljótur gellini. Kann eg yður það helst frá að segja að eg veitti forbeina mönnum þínum, þeim er þér senduð til Jamtalands að heimta þar skatt. Fékk eg þeim í hendur silfurdisk er eg sendi yður til jartegna að eg vildi vera vinur yðar.»

Þá spurði konungur hvort Arnljótur væri kristinn maður eða eigi.

Hann segir það frá átrúnaði sínum að hann tryði á mátt sinn og megin. «Hefir mér sá átrúnaður unnist að gnógu hér til. En nú ætla eg heldur að trúa á þig konungur.»

Konungur svarar: «Ef þú vilt á mig trúa þá skaltu því trúa er eg kenni þér. Því skaltu trúa að Jesús Kristur hefir skapað himin og jörð og menn alla og til hans skulu fara eftir dauða allir menn þeir er góðir eru og rétttrúaðir.»

Arnljótur svarar: «Heyrt hefi eg getið Hvíta-Krists en ekki er mér kunnigt um athöfn hans eða hvar hann ræður fyrir. Nú vil eg trúa því öllu er þú segir mér. Vil eg fela á hendi þér allt mitt ráð.»

Síðan var Arnljótur skírður. Kenndi konungur honum það af trúnni er honum þótti skyldast vera og skipaði honum í öndverða fylking og fyrir merki sínu. Þar var fyrir Gauka-Þórir og Afra-Fasti og sveitungar þeirra.

216. Frá safnaði í Noregi

Frá því er nú að segja er áður var frá horfið að lendir menn og bændur höfðu saman dregið her óvígjan þegar er þeir spurðu að konungur var austan farinn úr Garðaríki og hann var kominn til Svíþjóðar.

En er þeir spurðu að konungur var austan kominn til Jamtalands og hann ætlaði að fara austan um Kjöl til Veradals þá stefndu þeir herinum inn í Þrándheim og söfnuðu þá saman þar allri alþýðu, þegn og þræl, og fóru svo inn til Veradals og höfðu þar svo mikið lið að engi maður var sá þar er í Noregi hefði séð jafnmikinn her saman koma. Var þar sem jafnan kann verða í miklum her að lið var allmisjafnt. Þar var mart lendra manna og mikill fjöldi ríkra búanda en þó var hitt allur múgur er voru þorparar og verkmenn. Og var það allur meginherinn er þar hafði saman safnast í Þrándheimi. Var það lið allmjög geyst til fjandskapar við konung.

217. Frá Sigurði biskupi

Knútur hinn ríki hafði lagt undir sig land allt í Noregi sem fyrr var ritað og það með að hann setti til ríkis Hákon jarl. Hann fékk jarli hirðbiskup þann er Sigurður er nefndur. Var hann danskur að kyni og hafði lengi verið með Knúti konungi. Var biskup sá ákafamaður í skapi og sundurgerðarmaður í orðum sínum. Veitti hann Knúti konungi orðafullting allt það er hann kunni en var hinn mesti óvinur Ólafs konungs. Sá biskup var í her þessum og talaði oftlega fyrir búandaliði og eggjaði mjög uppreistar móti Ólafi konungi.

218. Tala Sigurðar biskups

Sigurður biskup talaði á einu húsþingi þar sem þá var mikið fjölmenni.

Hann tók svo til orða: «Hér er nú saman komið mikið fjölmenni svo að í þessu fátæka landi mun eigi kostur að sjá meira her innlenskan. Skyldi yður nú vel í hald koma þessi styrkur fjölmennis því að nú er ærin nauðsyn til ef Ólafur þessi ætlar enn eigi af að láta að herja á yður. Vandist hann því þegar á unga aldri að ræna og drepa menn og fór til þess víða um lönd. En að lyktum sneri hann hingað til lands og hóf svo upp að hann óvingaðist mest þeim er bestir menn voru og ríkastir: Knúti konungi, og allir eru skyldastir að þjóna sem kunna, og settist hann í skattland hans, slíkt sama veitti hann Ólafi Svíakonungi, en jarlana Svein og Hákon rak hann á brott af ættleifðum sínum. En sjálfs síns frændum var hann þó grimmastur er hann rak konunga alla á brott af Upplöndum og var það þó vel sums kostar því að þeir höfðu áður brugðið trú sinni og svardögum við Knút konung en fylgt þessum Ólafi að hverju óráði er hann tók upp. Nú sleit þeirra vináttu maklega. Hann veitti þeim meiðslur en tók undir sig ríki þeirra, eyddi svo í landinu öllum tignum mönnum. En síðan munuð þér vita hvernug hann hefir búið við lenda menn: drepnir eru hinir ágæstu en margir orðnir landflótta fyrir honum. Hann hefir og víða farið um land þetta með ránsflokkum, brennt héruðin en drepið og rænt fólkið. Eða hver er sá hér ríkismanna er eigi muni honum eiga að hefna stórsaka? Nú fer hann með útlendan her og er það flest markamenn og stigamenn eða aðrir ránsmenn. Ætlið þér hann nú munu yður linan er hann fer með þetta illþýði er hann gerði þá slík hervirki er allir löttu hann, þeir er honum fylgdu? Kalla eg hitt ráð að þér minnist nú orða Knúts konungs, hvað hann réð yður ef Ólafur leitaði enn aftur til lands, hvernug þér skylduð halda frelsi yðru því er Knútur konungur hét yður. Hann bað yður standa í mót og rekast af höndum óaldarflokka slíka. Er nú sá til að fara móti þeim og drepa niður illþýði þetta fyrir örn og úlf og láta þar liggja hvern sem höggvinn er nema þér viljið heldur draga hræ þeirra í holt og hreysi. Verði engi svo djarfur að þá flytji til kirkna því að það eru allt víkingar og illgerðamenn.»

En er hann hætti tölu þessi þá gerðu menn að róm mikinn og guldu allir jákvæði til að gera sem hann mælti.

219. Frá lendum mönnum

Lendir menn þeir er þar voru saman komnir áttu stefnu og tal sitt og ræðu og skipuðu þá til hversu fylkja skyldi eða hver höfðingi skyldi vera fyrir liðinu.

Þá mælti Kálfur Árnason að Hárekur úr Þjóttu væri best til felldur að gerast höfuðsmaður fyrir her þessum «því að hann er kominn af ætt Haralds hins hárfagra. Hefir konungur á honum allþungan hug fyrir sakir vígs Grankels og mun hann sitja fyrir hinum mestum afarkostum ef Ólafur kemst til ríkis. Er Hárekur reyndur mjög í orustum og maður metnaðargjarn.»

Hárekur svarar að þeir menn væru til þess betur fallnir er þá voru á léttasta aldri. «En eg em nú,» segir hann, «maður gamall og hrumur og ekki vel til orustu fær. Er og frændsemi með okkur Ólafi konungi en þótt hann virði lítils það við mig þá samir mér þó eigi að ganga framar í þenna ófrið móti honum en einnhver annarra í vorum flokki. Ertu Þórir vel til fallinn að vera höfuðsmaður að halda bardaga við Ólaf konung. Eru þar og ærnar sakir til. Bæði áttu honum að hefna frændaláts og þess er hann rak þig útlaga af eignum þínum öllum. Hefir þú og því heitið Knúti konungi og svo frændum þínum að hefna Ásbjarnar. Eða ætlar þú að betra færi muni gefast við Ólaf en svo sem nú er að hefna þeirrar svívirðingar allrar saman?»

Þórir svarar máli hans: «Ekki ber eg traust til að bera merki í móti Ólafi konungi eða gerast höfðingi fyrir liði þessu. Hafa Þrændir hér mannmúg mestan. Kann eg stórlæti þeirra að þeir munu ekki mér vilja hlýða eða öðrum háleyskum manni. En ekki mun þurfa að minna mig á sakir þær er eg á að gjalda Ólafi. Man eg það mannlát er Ólafur hefir af lífi tekið fjóra menn og alla göfga að metorðum og að kynferðum: Ásbjörn bróðurson minn, Þóri og Grjótgarð systursonu mína og föður þeirra Ölvi og em eg hvers þeirra skyldur að hefna. Nú er það frá mér að segja að eg hefi valið til af húskörlum mínum menn ellefu, þá er snarpastir eru, og ætla eg það að vér skulum ekki við aðra meta að skipta höggum við Ólaf ef vér komumst í færi um það.»

220. Tala Kálfs Árnasonar

Kálfur Árnason tók þá til máls: «Þess munum vér þurfa um ráð það er vér höfum upp tekið að gera það eigi að hégómamáli er herinn er saman kominn. Munum vér annars þurfa, ef vér skulum halda orustu við Ólaf konung, en þess að hver færi sig undan að taka upp vandann því að svo megum vér til ætla, þó að Ólafur hafi eigi lið mikið hjá her þeim er vér höfum, þá er þar öruggur oddvitinn og mun allt lið hans vera honum tryggt til fylgdar. En ef vér erum nú nokkuð skelfir er helst skulum vera forstjórar liðs vors og viljum vér eigi treysta herinn og eggja og veita fyrirgöngu, þá mun þegar fjöldi hersins, það er stall mun hjarta drepa, og því næst hver sér ráðs leita. En þótt hér sé her mikill saman kominn þá munum vér þó koma í þá raun ef vér hittumst og Ólafur konungur með her sinn, að oss er ósigurinn vís nema vér séum skeleggir sjálfir ráðamennirnir en múgurinn geysist fram með einu samþykki. En ef eigi verður svo þá er oss betra að hætta eigi til bardaga og mun þá sá kostur auðsær þykja að hætta til miskunnar Ólafs, ef hann þótti þá harður er minni voru sakir til en nú mun honum þykja. En þó veit eg að svo er mönnum skipað í liði hans að mér mun þar griða kostur ef eg vil þess leita. Nú ef þér viljið sem eg, þá skaltu Þórir mágur og þú Hárekur ganga undir merki það er vér skulum allir upp reisa og fylgja síðan. Gerumst vér allir snarpir og skeleggir í þessum ráðum er vér höfum upp tekið og höldum svo fram bóndaherinum að þeir megi eigi finna á oss æðru. Og mun það alþýðuna fram eggja ef vér göngum glaðir til að fylkja og eggja liðið.»

En er Kálfur hafði lokið að tala erindi sitt þá vikust allir vel undir ræðu hans og segja að þeir vildu það allt hafa sem Kálfur sæi ráð fyrir þeim. Vildu það þá allir að Kálfur væri höfðingi fyrir liðinu og skipaði þar hverjum í sveit sem hann vildi.

221. Frá merkisburði lendra manna

Kálfur setti upp merki og skipaði þar húskörlum sínum undir merkið og þar með Háreki úr Þjóttu og hans liði.

Þórir hundur með sína sveit var í öndurðu brjósti fylkingar fyrir merkjum. Þar var og valið lið af bóndum á tvær hliðar Þóri það sem snarpast var og best vopnað. Var sú fylking ger bæði löng og þykk og voru þar í fylkingu Þrændir og Háleygir. En hinn hægra veg frá fylkingunni var önnur fylking en til vinstri handar frá aðalfylkingu höfðu þeir fylking Rygir og Hörðar, Sygnir, Firðir og höfðu þar hið þriðja merki.

222. Frá Þorsteini knarrarsmið

Þorsteinn knarrarsmiður er maður nefndur. Hann var kaupmaður og smiður mikill, maður mikill og sterkur, kappsmaður mikill um alla hluti, vígamaður mikill. Hann hafði orðið ósáttur við konung og hafði konungur tekið af honum kaupskip nýtt og mikið er Þorsteinn hafði gert. Var það fyrir óspektir Þorsteins og þegngildi er konungur átti.

Þorsteinn var þar í hernum. Hann gekk fyrir framan fylking og þar til er stóð Þórir hundur. Hann mælti svo: «Hér vil eg í sveit vera Þórir með yður því að eg ætla, ef við Ólafur hittumst, að bera fyrstur vopn á hann ef eg má svo nær verða staddur og gjalda honum skiptökuna er hann rændi mig skipi því er eitt er best haft í kaupferðum.»

Þeir Þórir tóku við Þorsteini og gekk hann í sveit með þeim.

223. Frá liðskipan bónda

En er skipað var til fylkingar bónda þá töluðu lendir menn og báðu liðsmenn gefa gaum að um stöður sínar, hvar hverjum var skipað eða undir hverju merki þá skyldi hver vera eða hvert frá merkinu eða hversu nær honum var skipað merkinu. Báðu þeir menn vera þá vakra og skjóta að ganga í fylking er lúðrar kvæðu við og herblástur kæmi upp og ganga þá fram í fylking því að þeir áttu þá enn leið mjög langa að flytja herinn og var þess von að fylkingar mundu bregðast í hergöngunni. Síðan eggjuðu þeir liðið.

Mælti Kálfur að allir þeir menn er harma og heiftir áttu að gjalda Ólafi konungi skyldu þá fram ganga undir þau merki er fara skyldu í móti merki Ólafs, vera þá minnigir þeirra meingerða er hann hafði þeim veitt, segir að þeir mundu eigi komast í betra færi að hefna harma sinna og frelsa sig svo frá þeirri ánauð og þrældóm er hann hafði þá undir lagt. «Er nú sá,» segir hann, «bleyðimaður er eigi berst nú sem djarflegast, því að eigi er saklaust við þá er í móti yður eru. Munu þeir eigi yður spara ef þeir komast í færi.»

Að máli hans varð allmikill rómur. Varð þá kall mikið og eggjan um allan herinn.

224. Frá her konungs og bónda

Síðan fluttu bændur her sinn til Stiklastaða. Þar var Ólafur konungur fyrir með sitt lið. Fór í öndurðu liðinu Kálfur og Hárekur fram með merkinu. En er þeir mættust þá tókst eigi allskjótt árásin því að bændur frestuðu atgöngu fyrir þá sök að lið þeirra fór hvergi nær allt jafnfram og biðu þeir þess liðs er síðar fór.

Þórir hundur hafði farið síðast með sína sveit því að hann skyldi til gæta að ekki slægist aftur liðið þá er herópið kæmi upp eða liðið sæist og biðu þeir Kálfur Þóris. Bændur höfðu það orðtak í her sínum að eggja lið sitt í orustu: «Fram, fram búandmenn!»

Ólafur konungur gerði eigi atgönguna fyrr að hann beið Dags og þess liðs er honum fylgdi. Sáu þeir konungur þá lið Dags, hvar það fór.

Svo er sagt að bændur hefðu eigi minna lið en hundrað hundraða. En Sighvatur segir svo:

Ólmr erumk harmr sá er hilmir
hafði, gulli vafðan
jöfur kreisti sá, austan
aflfátt, meðalkafla.
Gagn fengu því þegnar,
þeir að hálfu fleiri,
hvötuð tældi það hildar,
hvorungi frý eg, voru.

225. Fundur konungs og bónda

Þá er liðið hvorttveggja stóð og kenndust menn þá mælti konungur: «Hví ertu þar Kálfur, því að vér skildumst vinir suður á Mæri? Illa samir þér að berjast í móti oss eða skjóta geigurskot í lið vort því að hér eru fjórir bræður þínir.»

Kálfur svarar: «Mart fer nú annan veg konungur en best mundi sama. Skildust þér svo við oss að nauðsyn bar til að friðast við þá er eftir voru. Verður nú hver að vera þar sem staddur er en sættast mundum við enn ef eg skyldi ráða.»

Þá svarar Finnur: «Það er mark á um Kálf, ef hann mælir vel, að þá er hann ráðinn til að gera illa.»

Konungur mælti: «Vera kann það Kálfur að þú viljir sættast en ekki friðlega þykir mér þér láta bændurnir.»

Þá svarar Þorgeir af Kvistsstöðum: «Þér skuluð nú hafa slíkan frið sem margir hafa áður af yður haft og munuð þér nú þess gjalda.»

Konungur svarar: «Eigi þarftu að fýsast svo mjög til vors fundar því að eigi mun þér sigurs auðið í dag á oss því að eg hefi hafið þig til ríkis af litlum manni.»

226. Upphaf Stiklastaðaorustu

Þórir hundur kom þá og gekk fram með sveit sína fyrir merkið og kallaði: «Fram, fram, búandmenn,» lustu þá upp herópi og skutu bæði örum og spjótum.

Konungsmenn æptu þá heróp en er því var lokið þá eggjuðust þeir svo sem þeim var áður kennt, mæltu svo: «Fram, fram, Kristsmenn, krossmenn, konungsmenn!»

En er þetta heyrðu bændur þeir er út stóðu í arminum þá mæltu þeir slíkt sama sem þeir heyrðu þá mæla. En er aðrir bændur heyrðu það þá hugðu þeir það vera konungsmenn og báru vopn á þá og börðust þeir þá sjálfir og féll mart áður þeir könnuðust við.

Veður var fagurt og skein sól í heiði. En er orusta hófst þá laust roða á himininn og svo á sólina og áður en létti gerði myrkt sem um nótt.

Ólafur konungur hafði fylkt þar er hæð nokkur var og steyptust þeir ofan á lið bónda og veittu svo hart aðhlaupið að fylking bónda bognaði fyrir svo að þar stóð þá brjóstið konungsfylkingar sem áður höfðu staðið þeir er efstir voru í búandaliði og var þá bóndaliðið mart búið að flýja en lendir menn og lendra manna húskarlar stóðu fast og varð þá allsnörp orusta.

Svo segir Sighvatur:

Vítt var fold und fótum,
friðbann var þar, mönnum,
þá réð í böð bráða
brynjað fólk að dynja,
þá er árlega ærir
álms með bjarta hjálma,
mikill varð á stað Stikla
stálgustr, ofan þustu.

Lendir menn eggjuðu lið sitt og knúðust til framgöngu.

Þess getur Sighvatur:

Fór í fylking þeira
fram, iðrast nú, miðri,
snarir fundust þar, Þrænda,
þess verks búendr, merki.

Þá sótti lið búanda að öllum megin. Hjuggu þeir er fremstir stóðu en þeir er þar voru næst lögðu spjótum en allir þeir er síðar gengu skutu spjótum eða örum eða köstuðu grjóti eða handöxum eða skeftiflettum. Gerðist þá brátt bardagi mannskæður og féll mart af hvorumtveggjum.

Í fyrstu hríð féllu þeir Arnljótur gellini, Gauka-Þórir og Afra-Fasti og þeirra sveit öll og hafði hver þeirra mann fyrir sig eða tvo eða sumir fleiri. Því þynntist skipanin fyrir framan merki konungs. Bað konungur þá Þórð bera fram merkið en konungur fylgdi sjálfur merkinu og sú sveit manna er hann hafði valið til að vera sér nær í orustu. Voru þeir menn í hans liði einna vopndjarfastir og best búnir.

Þess getur Sighvatur:

Mest frá eg merkjum næstan
mínn drottin fram sínum,
stöng óð fyr gram, gengu,
gnógr styrr var þar, fyrri.

Þá er Ólafur konungur gekk fram úr skjaldborginni og í öndurða fylking og bændur sáu í andlit honum þá hræddust þeir og féllust þeim hendur.

Þess getur Sighvatur:

Geirs hykk grimmlegt voru
gunnreifum Óleifi
loghreytöndum líta
lóns í hvassar sjónir.
Þorðut þrænskir fyrðar,
þótti hersa dróttinn
ógurlegr, í augu
ormfrán sjá hánum.

Þá varð allhörð orusta. Gekk konungur hart fram sjálfur í höggorustu.

Svo segir Sighvatur:

Rauð í rekka blóði
rönd með gumna höndum,
dreyrug sverð, þar er dýran
drótt þjóðkonung sótti.
Auk að járnaleiki
Innþrændum lét finnast
rækinn gramr, í reikar
rauð brúnan hjör túnum.

227. Fall Þorgeirs af Kvistsstöðum

Ólafur konungur barðist þá alldjarflega. Hann hjó til Þorgeirs af Kvistsstöðum, lends manns þess er fyrr er getið, um þvert andlit og í sundur nefbjörg á hjálminum og klauf höfuðið fyrir neðan augu svo að nær tók af. En er hann féll mælti konungur: «Hvort er það satt er eg sagði þér Þorgeir að þú mundir eigi sigrast í okkrum viðurskiptum?»

Í þeirri svipan skaut Þórður niður merkistönginni svo hart að stöngin stóð. Þá hafði Þórður fengið banasár og féll hann þar undir merkinu. Þá féllu þar og Þorfinnur munnur og Gissur gullbrá. Og höfðu hann sótt tveir menn en hann drap annan þeirra en særði annan áður hann féll.

Svo segir Hofgarða-Refur:

Einn háði gný Gunnar,
gall bál Hárs, stála
rimmu askr við röskva
regndjarfr tvo þegna.
Dalsteypir hjó Draupnis
dögg-Frey banahöggvi,
hann rauð járn, en annan
ár strauma vann sáran.

Þá varð það er fyrr var sagt að himinn var heiður en sól hvarf að sýn og gerði myrkt.

Þess getur Sighvatur:

Undr láta það ýtar
eigi smátt, er máttit
skæ-Njörðungum skorðu
skýlaus röðull hlýja.
Drjúg varð á því dægri,
dagr náðit lit fögrum,
orustu frá eg austan
atburð, konungs furða.

Í þenna brum kom Dagur Hringsson með það lið er hann hafði haft og tók hann þá að fylkja liði sínu og setti upp merki. En fyrir því að myrkur var mikið þá varð ekki skjótt um atgönguna því að þeir vissu eigi víst hvað fyrir var. En þó sneru þeir að sem fyrir voru Rygir og Hörðar. Voru þessir atburðir margir jafnsnemma eða sumir litlu fyrr eða síðar.

228. Fall Ólafs konungs

Kálfur og Ólafur hétu frændur Kálfs Árnasonar. Þeir stóðu á aðra hlið honum, menn miklir og hraustir. Kálfur var sonur Arnfinns Armóðssonar, bróðursonur Árna Armóðssonar.

Á aðra hlið Kálfi Árnasyni gekk fram Þórir hundur. Ólafur konungur hjó til Þóris hunds um herðarnar. Sverðið beit ekki en svo sýndist sem dust ryki úr hreinbjálfanum.

Þessa getur Sighvatur:

Mildr fann gerst, hve galdrar,
gramr sjálfr, meginrammir
fjölkunnigra Finna
fullstórum barg Þóri,
þá er hyrsendir hundi
húna gulli búnu,
slætt réð síst að bíta,
sverði laust um herðar.

Þórir hjó til konungs og skiptust þeir þá nokkurum höggum við og beit ekki sverð konungs þar er hreinbjálfinn var fyrir en þó varð Þórir sár á hendi.

Enn kvað Sighvatur:

Þollr dylr sannrar snilli
seims, en það veit eg heiman,
hverr sæi hunds verk stærri,
hugstórs, er frýr Þóri,
er þvergarða þorði
Þróttr, hinn er fram um sótti,
glyggs í gegn að höggva
gunnranns konungmanni.

Konungur mælti til Bjarnar stallara: «Ber þú hundinn er eigi bíta járn.»

Björn sneri öxinni í hendi sér og laust með hamrinum. Kom það högg á öxl Þóri og varð allmikið högg og hrataði Þórir við. En því jafnskjótt sneri konungur í móti þeim Kálfi frændum og veitti banasár Ólafi frænda Kálfs.

Þá lagði Þórir hundur spjóti til Bjarnar stallara á honum miðjum, veitti honum banasár.

Þá mælti Þórir: «Svo bautum vér björnuna.»

Þorsteinn knarrarsmiður hjó til Ólafs konungs með öxi og kom það högg á fótinn vinstra við knéið fyrir ofan. Finnur Árnason drap þegar Þorstein. En við sár það hneigðist konungur upp við stein einn og kastaði sverðinu og bað sér guð hjálpa. Þá lagði Þórir hundur spjóti til hans. Kom lagið neðan undir brynjuna og renndi upp í kviðinn. Þá hjó Kálfur til hans. Kom það högg hinum vinstra megin utan á hálsinn. Menn greinast að því hvor Kálfur veitti konungi sár. Þessi þrjú sár hafði Ólafur konungur til lífláts.

En eftir fall hans þá féll sú flest öll sveitin er fram hafði gengið með konungi.

Bjarni Gullbrárskáld kvað þetta um Kálf Árnason:

Jörð réðstu vígi að varða
vígreifr fyr Óleifi.
Braustu við bragning nýstan
bág. Það kveð eg mig frágu.
Fyrr gekkstu á stað Stikla,
stórverk, en óð merki,
satt er að sókn um veittir
snjallr uns gramr var fallinn.

Sighvatur skáld kvað þetta um Björn stallara:

Björn frá eg auk af ærnum
endr stöllurum kenndu
hug hve halda dugði
hann sótti fram, dróttin.
Féll í her með hollum
hann verðungar mönnum,
leyfðr er, að hilmis höfði
hróðrauðigs, sá dauði.

229. Upphaf Dagshríðar

Dagur Hringsson hélt þá upp orustu og veitti hina fyrstu atgöngu svo harða að bændur hrukku fyrir en sumir sneru á flótta. Þá féll fjöldi liðs af bóndum en þessir lendir menn: Erlendur úr Gerði, Áslákur af Finneyju. Var þá merki það niður höggvið er þeir höfðu áður með farið. Var þá orusta hin ákafasta. Kölluðu menn það Dagshríð.

Þá sneru þeir í móti Dag Kálfur Árnason, Hárekur úr Þjóttu, Þórir hundur, með þá fylking er þeim fylgdi. Var þá Dagur borinn afli og sneri hann þá á flótta og allt lið það er eftir var. Og verður þar dalur nokkur upp sem meginflóttinn fór. Féll þar þá mart lið. Dreifðist þá fólkið tveggja vegna í brott. Voru margir menn sárir mjög en margir svo mjög mæddir að til einskis voru færir. Bændur ráku skammt flótta því að höfðingjar sneru brátt aftur og þar til er valurinn var því að margir áttu þar að leita eftir vinum sínum og frændum.

230. Jartegnir Ólafs konungs við Þóri hund

Þórir hundur gekk þar til er var lík Ólafs konungs og veitti þar umbúnað, lagði niður líkið og rétti og breiddi klæði yfir. Og er hann þerrði blóð af andlitinu þá sagði hann svo síðan að andlit konungsins var svo fagurt að roði var í kinnum sem þá að hann svæfi en miklu bjartara en áður var meðan hann lifði. Þá kom blóð konungsins á hönd Þóri og rann upp á greipina þar er hann hafði áður sár fengið og þurfti um það sár eigi umband þaðan í frá, svo greri það skjótt. Vottaði Þórir sjálfur þenna atburð, þá er helgi Ólafs konungs kom upp, fyrir alþýðu.

Varð Þórir hundur fyrstur til þess að halda upp helgi konungsins þeirra ríkismanna er þar höfðu verið í mótstöðuflokki hans.

231. Frá bræðrum Kálfs Árnasonar

Kálfur Árnason leitaði að bræðrum sínum er þar voru fallnir. Hann hitti Þorberg og Finn og er það sögn manna að Finnur kastaði að honum saxi og vildi drepa hann og mælti til hans hörðum orðum, kallaði griðníðing og drottinsvika.

Kálfur gaf ekki því gaum og lét Finn bera í brott úr valnum og svo Þorberg. Var þá leitað að um sár þeirra og höfðu þeir engi sár banvæn. Höfðu þeir fallið fyrir vopnaburð og mæði. Þá leitaði Kálfur að flytja bræður sína ofan til skips og fór með þeim sjálfur.

En þegar er hann sneri í brott þá fór í brott allt búandalið það er þar átti heimili í nánd nema þeir menn er þar störfuðu að frændum sínum og vinum, þeim er sárir voru, eða líkum þeirra er fallnir voru. Voru sárir menn fluttir heim á bæinn svo að hvert hús var fullt af þeim en tjaldað úti yfir sumum.

En svo undarlega mart fólk sem safnast hafði í búandaherinn þá þótti mönnum það eigi miður frá líkindum hvernug skjótt ruddi safnaðinn þá er til þess tók og var það mjög til að hið mesta fjölmennið hafði þar safnast úr héruðum og voru mjög heimfúsir.

232. Frá Verdælum

Bændur þeir er heimili áttu í Veradal gengu til fundar við höfðingja, Hárek og Þóri, og kærðu fyrir þeim sín vandræði, sögðu svo: «Flóttamenn þessir er hér hafa undan komist munu fara upp eftir Veradal og munu búa óheppilega heimilum vorum en oss er ekki fært heim meðan þeir eru hér í dalnum. Nú gerið svo vel, farið eftir þeim með liði og látið ekki barn í brott komast því að slíkan kost mundu þeir oss ætla ef þeir hefðu betur haft í vorum fundi og svo munu þeir enn gera ef vér hittumst síðar svo að þeir hafi meira kost en vér. Kann vera að þeir dveljist í dalnum ef þeir vænta sér einskis ótta. Munu þeir þegar fara óspaklega um byggðir vorar.»

Ræddu bændur um þetta mörgum orðum og eggjuðu með ákafa miklum að höfðingjar skyldu fara og drepa það fólk sem undan hafði komist.

Og er höfðingjar ræddu þetta sín í milli þá þótti þeim bændur mart satt sagt hafa í sinni ræðu, réðu þá það að þeir Þórir hundur snerust til ferðar með Verdælum og hafði hann sex hundruð manna, það er hans lið var, fóru síðan. Tók þá að nátta.

Létti Þórir eigi fyrr ferðinni en hann kom um nóttina á Súlu og spurði hann þar þau tíðindi að um kveldið hafði þar komið Dagur Hringsson og margar aðrar sveitir af Ólafs mönnum, haft þar náttverðardvöl en farið síðan á fjall upp.

Þá segir Þórir að hann mundi ekki rekast eftir þeim um fjöll og sneri hann þá aftur ofan í dalinn og fengu þeir þá fátt drepið af mönnum. Síðan fóru bændur til heimila sinna en Þórir fór eftir um daginn og hans lið út til skipa sinna.

En konungsmenn þeir er færir voru forðuðu sér, leyndust í skógum, sumir höfðu hjálp af mönnum.

233. Frá Þormóði Kolbrúnarskáld

Þormóður Kolbrúnarskáld var í orustu undir merkjum konungs. Og er konungur var fallinn og atsókn var sem óðust þá féll konungslið hvað við annað en þeir voru flestir sárir er upp stóðu. Þormóður varð sár mjög. Gerði hann þá sem aðrir að allir opuðu þar frá er mestur þótti lífsháski en sumir runnu.

Þá hófst sú orusta er Dagshríð er kölluð. Sótti þá þangað til allt konungsliðið það er vopnfært var en Þormóður kom þá ekki í orustu því að hann var þá óvígur bæði af sárum og af mæði og stóð hann þar hjá félögum sínum þótt hann mætti ekki annað aðhafast. Þá var hann lostinn með öru í síðuna vinstri. Braut hann af sér örvarskaftið og gekk þá brott frá orustu og heim til húsanna og kom að hlöðu nokkurri. Var það mikið hús. Þormóður hafði sverð bert í hendi. Og er hann gekk inn þá gekk maður út í móti honum.

Sá mælti: «Furðu ill læti eru hér inni, veinan og gaulan, skömm mikil er karlmenn hraustir skulu eigi þola sár sín. Og vera kann að þeir konungsmennirnir hafi allvel fram gengið en allódrengilega bera þeir sárin sín.»

Þormóður svarar: «Hvert er nafn þitt?»

Hann nefndist Kimbi.

Þormóður svarar: «Varstu í bardaga?»

«Var eg,» segir hann, «með bóndum er betur var.»

«Ertu nokkuð sár?» segir Þormóður.

«Lítt,» segir Kimbi, «eða varstu í bardaga?»

Þormóður segir: «Var eg með þeim er betur höfðu.»

Kimbi sá að Þormóður hafði gullhring á hendi. Hann mælti: «Þú munt vera konungsmaður. Fá þú mér gullhringinn en eg mun leyna þér. Bændur munu drepa þig ef þú verður á vegi þeirra.»

Þormóður segir: «Haf þú hring ef þú færð. Látið hefi eg nú meira.»

Kimbi rétti fram höndina og vildi taka hringinn. Þormóður sveiflaði til sverðinu og hjó höndina af honum og er svo sagt að Kimbi bar sár sitt engum mun betur en hinir er hann hafði fyrr á leitað. Fór Kimbi brott en Þormóður settist niður í hlöðunni og sat þar um hríð og heyrði á ræður manna.

Það var mælt þar mest að hver sagði það er séð þóttist hafa í orustu og rætt um framgöngur manna. Lofuðu sumir mest hreysti Ólafs konungs en sumir nefndu aðra menn til ekki síður.

Þá kvað Þormóður:

Ört var Ólafs hjarta.
Óð fram konungr blóði,
rekin bitu stál, á Stikla
stöðum, kvaddi lið böðvar.
Élþolla sá eg alla
Jálfaðs nema gram sjálfan,
reyndr var flestr, í fastri
fleindrífu sér hlífa.

234. Dauði Þormóðar

Þormóður gekk síðan í brott til skemmu nokkurrar, gekk þar inn. Voru þar áður margir menn inni fyrir sárir mjög. Var þar að kona nokkur og batt um sár manna. Eldur var á gólfinu og vermdi hún vatn til að fægja sárin. En Þormóður settist niður við dyr utar. Þar gekk annar maður út en annar inn, þeir er störfuðu að sárum manna.

Þá sneri einnhver að Þormóði og sá á hann og mælti síðan: «Hví ertu svo fölur? Ertu sár eða fyrir hví biður þú þér eigi lækningar?»

Þormóður kvað þá vísu:

Emka eg rjóðr, en rauðum
ræðr grönn Skögul manni
hauka setrs hin hvíta.
Hyggr fár um mig sáran.
Hitt veldr mér að, meldrar
morðvenjandi Fenju,
djúp og danskra vopna
dals hríðar spor svíða.

Síðan stóð Þormóður upp og gekk inn að eldinum og stóð þar um hríð.

Þá mælti læknirinn til hans: «Þú, maður, gakk út og tak mér skíðin er hér liggja fyrir durum úti.»

Hann gekk út, bar inn skíðafangið og kastaði niður á gólfið.

Þá sá læknirinn í andlit honum og mælti: «Furðu bleikur er þessi maður. Hví ertu slíkur?»

Þá kvað Þormóður:

Undrast öglis landa
eik hví vér róm bleikir.
Fár verðr fagr af sárum.
Fann eg örvadrif, svanni.
Mik fló málmr hinn klökkvi,
magni keyrðr, í gegnum.
Hvasst beit hjarta hið næsta
hættlegt járn er eg vætti.

Þá mælti læknirinn: «Láttu mig sjá sár þín og mun eg veita umbönd.»

Síðan settist hann niður og kastaði klæðum af sér.

En er læknir sá sár hans þá leitaði hún um það sár er hann hafði á síðunni, kenndi þess að þar stóð járn í en það vissi hún eigi til víss hvert járnið hafði snúið. Hún hafði þar gert í steinkatli, stappað lauk og önnur grös og vellt það saman og gaf að eta hinum sárum mönnum og reyndi svo hvort þeir hefðu holsár, því að kenndi af laukinum út úr sári því er á hol var. Hún bar það að Þormóði, bað hann eta.

Hann svarar: «Ber brott. Ekki hefi eg grautsótt.»

Síðan tók hún spennitöng og vildi draga út járnið en það var fast og gekk hvergi, stóð og lítið út því að sárið var sollið.

Þá mælti Þormóður: «Sker þú til járnsins svo að vel megi ná með tönginni, fá mér síðan og lát mig kippa.»

Hún gerði sem hann mælti.

Þá tók Þormóður gullhring af hendi sér og fékk lækninum, bað hana gera af slíkt er hún vildi. «Góður er nautur að,» segir hann, «Ólafur konungur gaf mér hring þenna í morgun.»

Síðan tók Þormóður töngina og kippti á brott örinni. En þar voru á krókar og lágu þar á tágar af hjartanu, sumar rauðar, sumar hvítar, og er hann sá það mælti hann: «Vel hefir konungurinn alið oss. Feitt er mér enn um hjartarætur.»

Síðan hné hann aftur og var þá dauður.

Lýkur þar frá Þormóði að segja.

235. Frá atburðum orustu

Ólafur konungur féll miðvikudag fjórða Kalendas Augustimánaðar. Það var nær miðjum degi er þeir fundust en fyrir miðmunda hófst orustan en konungur féll fyrir nón en myrkrið hélst frá miðmunda til nóns.

Sighvatur skáld segir svo frá lyktum orustu:

Hörð er, síðs hermenn firrðu,
hlíf raufst fyr gram, lífi,
auðn að Engla stríði,
ómjúk, konung sjúkan.
Ör brá Ólafs fjörvi
öld, þar er her klauf skjöldu,
fólks, odda gekk fylkir
fund, en Dagr hélt undan.

Og enn kvað hann þetta:

Áðr vita eigi meiðar
ógnar skers né hersa,
þjóð réð þengils dauða,
þann styrk búandmanna,
er slíkan gram sóknum
sárelds viðir felldu,
mörg lá dýr í dreyra
drótt, sem Ólafr þótti.

Bændur rændu ekki valinn og varð þegar eftir orustu heldur svo að hræðslu sló á marga þá er móti konungi höfðu verið en þó héldu þeir illviljanum og dæmdu það sín á millum að allir þeir menn er með konungi höfðu fallið skyldu hafa engan þann umbúning eða gröft sem góðum mönnum sómdi og kölluðu þá alla ránsmenn og útlaga. En þeir menn er ríkir voru og þar áttu frændur í valnum gáfu ekki því gaum, fluttu þeir sína frændur til kirkna og veittu umbúnað.

236. Jartegnir við blindan mann

Þorgils Hálmuson og Grímur sonur hans fóru til valsins um kveldið er myrkt var orðið. Þeir tóku upp lík Ólafs konungs og báru brott þar til er var húskytja nokkur lítil og auð annan veg frá bænum, höfðu ljós með sér og vatn, tóku þá klæði af líkinu og þógu líkið og sveiptu síðan með líndúkum og lögðu þar niður í húsinu og huldu með viðum svo að engi mátti sjá þótt menn kæmu í húsið. Gengu þeir síðan í brott og heim til bæjarins.

Þar hafði fylgt hernum hvorumtveggja mart stafkarla og það fátækisfólk er sér bað matar. En það kveld eftir bardagann hafði það fólk þar mart dvalist og er náttaði leitaði það sér herbergis um öll hús, bæði smá og stór.

Þar var einn blindur maður sá er sagt er frá. Hann var fátækur og fór sveinn hans með honum og leiddi hann. Þeir gengu úti um bæinn og leituðu sér herbergis. Þeir komu að því sama eyðihúsi. Voru dyrnar svo lágar að nær varð að krjúpa inn. Og er hinn blindi maður kom í húsið þá þreifaðist hann fyrir um gólfið, leitaði hvort hann mundi mega niður leggjast. Hött hafði hann á höfði og steyptist hötturinn fyrir andlit honum er hann laut niður. Hann kenndi fyrir höndunum að tjörn var á gólfinu. Þá tók hann upp hendinni votri og rétti upp höttinn og komu fingurnir upp við augun en þegar brá kláða á hvarmana svo miklum að hann strauk með fingrunum votum augun sjálf. Síðan hopaði hann út úr húsinu og sagði að þar mátti ekki liggja inni því að þar var allt vott.

Og er hann kom út úr húsinu þá sá hann þegar fyrst skil handa sinna og allt það er nær honum var það er hann mátti sjá fyrir náttmyrkri. Hann gekk þegar heim til bæjarins og inn í stofu og sagði þar öllum mönnum að hann hafði fengið sýn sína og hann var þá skyggn maður. En það vissu þar margir menn að hann hafði lengi blindur verið því að hann hafði þar áður verið og gengið um byggðir.

Hann segir að þá sá hann fyrst er hann kom út úr húsi nokkru litlu og vondu «og var þar vott allt inni,» segir hann. «Greip eg þar í höndunum og gneri eg votum höndum um augu mér.»

Hann segir og hvar það hús stóð. En þeir menn er þar voru og sáu þessi tíðindi undruðust mjög um þenna atburð og ræddu sín í milli hvað þar mundi inni vera í því húsi.

En Þorgils bóndi og sonur hans Grímur þóttust vita hvaðan af þessi atburður mundi hafist hafa. Þeir hræddust mjög að óvinir konungs mundu fara og rannsaka húsið. Síðan leyndust þeir í brott og fóru til hússins og tóku líkið, fluttu í brott út í hagann og fálu þar, fóru síðan til bæjar og sváfu af nótt þá.

237. Frá Þóri hund

Þórir hundur kom fimmtadag ofan úr Veradal út á Stiklastaði og fylgdi honum lið mart. Þar var og mart fyrir bóndalið. Var þá enn rofinn valurinn. Fluttu menn brott lík frænda sinna og vina og veittu hjálp sárum mönnum þeim er menn vildu græða. En fjöldi manns hafði þá andast síðan er lokið var bardaga.

Þórir hundur gekk þar til er konungur hafði fallið og leitaði líksins og er hann fann það eigi spurðist hann fyrir ef nokkur maður kynni segja honum hvar líkið væri komið en það vissi engi að segja. Þá spurði hann Þorgils bónda ef hann vissi nokkuð til hvar lík konungs var.

Þorgils svarar svo: «Ekki var eg í bardaga. Veit eg þaðan fá tíðindi. Fara nú margar sögur. Það er nú sagt að Ólafur konungur hafi hittur verið í nótt uppi hjá Staf og sveit manna með honum. En ef hann hefir fallið þá munu sveitungar yðrir hafa fólgið lík hans í holtum eða hreysum.»

En þótt Þórir þættist vita hið sanna, að konungur var fallinn, þá tóku þó margir undir og gerðu þann kurr að konungur mundi hafa brott komist úr orustu og skammt mundi til að hann mundi fá her og koma á hendur þeim.

Fór þá Þórir til skipa sinna og síðan út eftir firði. Þá tók að dreifast allt bóndaliðið og fluttu brott hina sáru menn, alla þá er hrærandi voru.

238. Líkferð Ólafs konungs til Niðaróss

Þorgils Hálmuson og þeir Grímur feðgar höfðu í sinni varðveislu lík Ólafs konungs og voru um það mjög hugsjúkir hvernug þeir fengju til gætt að eigi næðu óvinir konungs að misfara með líkinu því að þeir heyrðu þær ræður bónda að það ráð mundi til liggja ef lík konungs fyndist að brenna það eða flytja út á sæ og sökkva niður. Þeir feðgar höfðu séð um nóttina svo sem kertislog brynni þar yfir er lík Ólafs konungs var í valnum og svo síðan er þeir höfðu fólgið líkið þá sáu þeir jafnan um nætur ljós þannug til er konungurinn hvíldi. Þeir hræddust að óvinir konungs mundu leita líksins þar er var ef þeir sæju þessi merki. Var þeim Þorgilsi títt að flytja líkið í brott til þess staðar nokkurs er það væri vel komið. Þeir Þorgils gerðu kistu og vönduðu sem mest og lögðu þar í lík konungs en síðan gerðu þeir aðra líkkistu og báru þar í hálm og grjót svo að það skyldi vera mannshöfgi, lyktu þá kistu vandlega.

Og er brottu var af Stiklastöðum allt lið bónda þá bjuggu þeir Þorgils ferð sína. Fékk hann róðrarferju nokkura. Voru þeir saman menn sjö eða átta og allir frændur eða vinir Þorgils. Þeir fluttu lík konungs til skips leynilega og settu kistuna undir þiljur niður. Kistu þá höfðu þeir og með sér er grjótið var í, settu hana í skip svo að allir menn máttu sjá, fara síðan út eftir firði, fengu gott leiði, komu að kveldi er myrkva tók út til Niðaróss, lögðu að við konungsbryggju. Síðan sendi Þorgils menn upp í bæinn og lét segja Sigurði biskupi að þeir fóru þar með lík Ólafs konungs.

En er biskup spyr þessi tíðindi sendi hann þegar menn sína ofan á bryggjur. Þeir tóku þar róðrarskútu og lögðu að skipi Þorgils, báðu fá sér lík konungsins. Þeir Þorgils tóku þá kistu er uppi stóð á þiljunum og báru í skútuna. Síðan reru þeir menn út á fjörð og sökktu þeir þar niður kistunni. Þá var myrkt af nótt.

Þeir Þorgils reru þá upp eftir ánni til þess er þraut bæinn og lögðu þar að er Saurhlið heitir. Það var fyrir ofan bæinn. Þá báru þeir upp líkið og inn í eyðiskemmu nokkura er þar stóð upp frá öðrum húsum. Vöktu þeir þar um nóttina yfir líkinu.

Þorgils gekk ofan í bæinn. Fann hann þá menn að máli er helst höfðu þar verið vinir konungs. Spurði hann þá ef þeir vildu taka við líki konungs. Það þorði engi maður að gera.

Síðan fluttu þeir Þorgils líkið upp með ánni og grófu þar niður á sandmel þeim er þar verður, bjuggu þar um eftir svo að ekki skyldi þar nývirki á sjá. Höfðu þeir þessu lokið öllu áður dagaði, fóru þá til skips síns, lögðu þegar út úr ánni, fóru síðan ferðar sinnar til þess er þeir komu heim á Stiklastaði.

239. Upphaf Sveins konungs Alfífusonar

Sveinn sonur Knúts konungs og Alfífu, dóttur Álfrims jarls, hann hafði verið settur til ríkis á Vindlandi í Jómsborg en þá hafði komið til hans orðsending Knúts konungs föður hans að hann skyldi fara til Danmarkar og það með að hann skyldi síðan fara til Noregs og taka þar við ríki því til forráða er í Noregi var og hafa þar með konungsnafn yfir Noregi.

Síðan fór Sveinn til Danmarkar og hafði þaðan lið mikið. Fór með honum Haraldur jarl og mart annarra ríkismanna.

Þess getur Þórarinn loftunga í kvæði því er hann orti um Svein Alfífuson er kallað er Glælognskviða:

Það er dullaust
hve Danir gerðu
dyggva för
með döglingi.
Þar var jarl
fyrst að upphafi
og hver maðr,
er honum fylgdi,
annar drengr
öðrum betri.

Síðan fór Sveinn í Noreg og með honum Alfífa móðir hans og var hann þar til konungs tekinn á hverju lögþingi. Hann var þá kominn austan í Víkina er orusta var á Stiklastöðum og Ólafur konungur féll. Sveinn létti eigi ferðinni fyrr en hann kom um haustið norður í Þrándheim. Var hann þar til konungs tekinn sem í öðrum stöðum.

Sveinn konungur hafði ný lög í land um marga hluti og var það eftir því sett sem lög voru í Danmörk en sum miklu frekari. Engi maður skyldi af landi fara nema með konungs leyfi en ef færi þá féllu undir konung eignir þess. En hver er mann vægi skyldi hafa vegið landi og lausum eyri. Ef maður varð í útlegð og tæmdist honum arfur þá eignaðist konungur arf þann. Að jólum skyldi hver búandi fá konungi mæli malts af arni hverjum og lær af oxa þrevetrum, það var kallað vinartoddi, og spann smjörs og húsfreyja hver rykkjartó, það var lín órennt, svo mikið að spennt fengi um mesta fingri og lengsta. Bændur voru skyldir að gera hús þau öll er konungur vildi hafa á bústöðum sínum. Sjö menn skyldu gera einn liðfæran og gera fyrir hvern er fimm vetra gamall væri og þar eftir hömlur eiga. Hver maður er á haf reri skyldi gjalda konungi landvörðu hvaðan sem hann reri, en það eru fimm fiskar. Skip hvert er færi af landi á brott skyldi halda konungi rúm um þvert skip. Maður hver er til Íslands færi skyldi gjalda landaura, þarlenskur og útlenskur. Það fylgdi og þessu að þá skyldu danskir menn hafa svo mikinn metnað í Noregi að eins þeirra vitni skyldi hrinda tíu Norðmanna vitnum.

En er þessi lagasetning var birt fyrir alþýðu þá tóku menn þegar að reisa hugi sína upp í mót og gerðu kurr sín á milli. Mæltu þeir svo er eigi höfðu verið í mótferðum við Ólaf konung: «Takið þér nú Innþrændir vináttu og laun af Knýtlingum, þess er þér börðust við Ólaf konung og fellduð hann frá landi. Yður var heitið friði og réttarbót en nú hafið þér ánauð og þrælkan og þar með stórglæpi og níðingsskap.»

En þar var eigi gott til mótmælis. Sáu þá allir að óheppilega var um ráðið. Báru menn þó eigi traust til að gera uppreist í móti Sveini konungi. Bar það mest til að menn höfðu gíslað Knúti konungi sonu sína eða aðra náfrændur og það með að þá var engi forstjóri til uppreistar. Brátt höfðu menn ámæli mikið til Sveins konungs og kenndu menn mest þó Alfífu allt það er í móti skapi þótti. En þá náðist sannmæli af mörgum mönnum til Ólafs konungs.

240. Kom upp helgi Ólafs konungs

Vetur þann hófst umræða sú af mörgum mönnum þar í Þrándheimi að Ólafur konungur væri maður sannheilagur og jartegnir margar yrðu að helgi hans. Hófu þá margir áheit til Ólafs konungs um þá hluti er mönnum þótti máli skipta. Fengu margir menn af þeim áheitum bót, sumir heilsubætur en sumir fararbeina eða aðra þá hluti er nauðsyn þótti til bera.

241. Frá Einari þambarskelfi

Einar þambarskelfir var kominn heim vestan af Englandi til búa sinna og hafði veislur þær sem Knútur konungur hafði fengið honum þá er þeir fundust í Þrándheimi og var það nær jarlsríki.

Einar þambarskelfir hafði ekki verið í mótgöngu við Ólaf konung. Hrósaði hann því sjálfur. Einar minntist þess er Knútur hafði heitið honum jarldómi yfir Noregi og svo það að konungur efndi ekki heit sín. Einar varð fyrstur til þess ríkismanna að halda upp helgi Ólafs konungs.

242. Frá Árnasonum

Finnur Árnason dvaldist litla hríð á Eggju með Kálfi því að hann kunni stórilla því er Kálfur hafði verið í bardaga í móti Ólafi konungi. Veitti Finnur Kálfi jafnan harðar átölur af þeim sökum.

Þorbergur Árnason var miklu betur orðstilltur en Finnur en þó fýstist Þorbergur í brott að fara og heim til bús síns. Fékk Kálfur þeim bræðrum sínum langskip gott með öllum reiða og öðrum búnaði og gott föruneyti. Fóru þeir heim til búa sinna.

Árni Árnason lá lengi í sárum og varð heill og örkumlalaus. Fór hann síðan um veturinn suður til bús síns.

Tóku þeir allir bræður sér grið af Sveini konungi og settust þeir heima allir bræður um kyrrt.

243. Um helgi Ólafs konungs

Eftir um sumarið gerðist mikil ræða um helgi Ólafs konungs og sneri öllum orðróm um konunginn. Voru þeir þá margir er það sönnuðu að konungur mundi heilagur vera er fyrr höfðu af öllum fjandskap móti honum gengið og látið hann í engi stað ná af sér sannmæli. Tóku menn þá að snúast til ámælis við þá menn er mest höfðu eggjað mótgöngu við konunginn. Var af því mikið kennt Sigurði biskupi. Gerðust menn þar hans óvinir svo miklir að hann sá þann helst sinn kost að fara í brott og vestur til Englands á fund Knúts konungs.

Síðan gerðu Þrændir menn og orðsendingar til Upplanda að Grímkell biskup skyldi koma norður til Þrándheims. Ólafur konungur hafði sent Grímkel biskup aftur til Noregs þá er konungur fór austur í Garðaríki. Hafði Grímkell biskup síðan verið á Upplöndum.

En er þessi orðsending kom til biskups þá bjóst hann þegar til þeirrar farar. Bar það og mjög til er hann fór, að biskup trúði að það mundi með sannindum er sagt var frá jartegnagerð og helgi Ólafs konungs.

244. Tekinn upp heilagur dómur

Grímkell biskup fór til fundar við Einar þambarskelfi. Tók Einar feginsamlega við biskupi, ræddu þá síðan marga hluti, svo það er þar hafði í landi stórtíðindi orðið. Urðu þeir á allar ræður sáttir sín á milli.

Síðan fór biskup inn til Kaupangs. Tók þar öll alþýða vel við honum. Hann spurði vendilega eftir um tákn þau er sögð voru frá Ólafi konungi. Spurðist honum vel til þess. Síðan gerði biskup orðsendingar inn á Stiklastaði til Þorgils og Gríms sonar hans og stefndi þeim út til bæjar á fund sinn.

Þeir feðgar lögðust þá ferð eigi undir höfuð. Fóru þeir út til bæjar á fund biskups. Þá segja þeir honum öll þau merki er þeir höfðu vísir orðið, svo það og hvar þeir höfðu komið líki konungs.

Síðan sendi biskup eftir Einari þambarskelfi og kom Einar til bæjar. Höfðu þeir Einar og biskup þá ræðu við konung og Alfífu og báðu að konungur skyldi lof til gefa að lík Ólafs konungs skyldi taka upp úr jörðu. Konungur lagði þar lof á og bað biskup þar með fara sem hann vildi. Þá var þar mikið fjölmenni í bænum.

Biskup og Einar og menn með þeim fóru til þar er lík konungsins var jarðað og létu þar til grafa. Kistan var þá komin upp mjög svo úr jörðu. Það var margra manna tillag að biskup léti konung grafa niður í jörð að Klemenskirkju.

En er liðið var frá andláti Ólafs konungs tólf mánaður og fimm nætur þá var upp tekinn heilagur dómur hans. Var þá enn kistan komin upp mjög úr jörðu og var þá kistan Ólafs konungs spánósa svo sem nýskafin væri.

Grímkell biskup gekk þá til þar er upp var lokin kistan Ólafs konungs. Var þar dýrlegur ilmur. Þá beraði biskup andlit konungs og var engan veg brugðið ásjónu hans, svo roði í kinnunum sem þá mundi ef hann væri nýsofnaður. Á því fundu menn mikinn mun, þeir er séð höfðu Ólaf konung þá er hann féll, að síðan hafði vaxið hár og negl því næst sem þá mundi ef hann hefði lífs verið hér í heimi alla þá stund síðan er hann féll.

Þá gekk til að sjá líkama Ólafs konungs Sveinn konungur og allir höfðingjar þeir er þar voru.

Þá mælti Alfífa: «Furðu seint fúna menn í sandinum. Ekki mundi svo vera ef hann hefði í moldu legið.»

Síðan tók biskup söx og skar af hári konungsins og svo að taka af kömpunum. Hann hafði haft langa kampa svo sem þá var mönnum títt. Þá mælti biskup til konungs og Alfífu: «Nú er hár konungs og kampar svo sítt sem þá er hann andaðist en þvílíkt vaxið sem nú sjáið þér hér af skorið.»

Þá svarar Alfífa: «Þá þykir mér hár það heilagur dómur ef það brennur eigi í eldi. En oft höfum vér séð hár manna heilt og ósakað, þeirra er í jörðu hafa legið lengur en þessi maður.»

Síðan lét biskup taka eld í glóðarkeri og blessaði og lagði á reykelsi. Síðan lagði hann í eldinn hár Ólafs konungs og þá er brunnið var reykelsið allt þá tók biskup upp hárið úr eldinum og var þá hárið óbrunnið. Lét biskup það sjá konung og aðra höfðingja.

Þá bað Alfífa leggja hárið í óvígðan eld. Þá svarar Einar þambarskelfir, bað hana þegja og valdi henni mörg hörð orð. Var það þá biskups atkvæði og konungs samþykki og dómur allsherjar að Ólafur konungur væri sannheilagur.

Var þá líkami konungs borinn inn í Klemenskirkju og veittur umbúnaður yfir háaltari. Var kistan sveipt pelli og tjaldað allt guðvefjum. Urðu þá þegar margs konar jartegnir að helgum dómi Ólafs konungs.

245. Frá jartegn Ólafs konungs

Þar á melnum sem Ólafur konungur hafði í jörðu legið kom upp fagur brunnur og fengu menn bót meina sinna af því vatni. Var þar veittur umbúnaður og hefir það vatn verið jafnan síðan vandlega varðveitt. Kapella var fyrst ger og þar sett altarið sem verið hafði leiðið konungsins en nú stendur í þeim stað Kristskirkja. Lét Eysteinn erkibiskup þar setja háaltarið í þeim sama stað sem leiðið hafði verið konungsins þá er hann reisti þetta hið mikla musteri er nú stendur. Hafði og verið í þeim stað háaltari í fornu Kristskirkju.

Svo er sagt að Ólafskirkja standi nú þar sem þá stóð sú eyðiskemma er lík Ólafs konungs var náttsett í. Það er nú kallað Ólafshlið er heilagur dómur konungs var borinn upp af skipi og er það nú í miðjum bænum. Biskup varðveitti helgan dóm Ólafs konungs, skar hár hans og negl því að hvorttveggja óx svo sem þá að hann væri lifandi maður í þessum heimi.

Svo segir Sighvatur skáld:

Lýg eg, nema Ólafr eigi
ýs sem kykvir tívar,
gæði eg helst í hróðri,
hárvöxt, konungs áru.
Enn helst þeim er son seldi,
svörðr, þann er óx í Görðum
hann fékk læs, af ljósum,
lausn, Valdimar, hausi.

Þórarinn loftunga orti um Svein Alfífuson kvæði það er Glælognskviða heitir og eru þessar vísur þar í:

Nú hefir sér
til sess hagað
þjóðkonungr
í Þrándheimi.
Þar vill æ
ævi sína
bauga brjótr
byggðum ráða.

Þar er Ólafr
áðan byggði,
áðr hann hvarf
til himinríkis
og þar varð,
sem vita allir,
kykvasettr
úr konungmanni.

Hafði sér
harðla ráðið
Haralds sonr
til himinríkis,
áðr seimbrjótr
að setti varð.

Þar svo að hreinn
með heilu liggr
lofsæll gramr
líki sínu,
og þar kná
sem á kvikum manni
hár og negl
honum vaxa.

Þar borðveggs
bjöllur knega
of sæng hans
sjálfar hringjast,
og hvern dag
heyra þjóðir
klukknahljóð
of konungmanni.

En þar upp
af altari
Kristi þæg
kerti brenna.
Svo hefir Ólafr,
áðr hann andaðist,
syndalaus
sálu borgið.

Þar kemr her
er heilagr er
konungr sjálfr,
krýpr að gagni,
en beiðendr
blindir sækja
þjóðar máls
en þaðan heilir.

Bið þú Ólaf,
að hann unni þér,
hann er guðs maðr,
grundar sinnar.
Hann um getr
af guði sjálfum
ár og frið
öllum mönnum.

Þá er þú rekr
fyr regin nagla
bókamáls
bænir þínar.

Þórarinn loftunga var þá með Sveini konungi og sá og heyrði þessi stórmerki heilagleiks Ólafs konungs, að af himneskum kröftum máttu menn heyra yfir hans helgum dómi hljóm svo sem klukkur hringdust og kerti tendruðust sjálf þar yfir altari af himneskum eldi.

En svo sem Þórarinn segir að til hins helga Ólafs konungs kom her manns, haltir og blindir eða á annan veg sjúkir en fóru þaðan heilir, getur hann ekki annars eða greinir, en það mundi vera ótallegur fjöldi manna er heilsu fengu þá þegar í upphafi af jartegnagerð hins helga Ólafs konungs. En hinar stærstu jartegnir Ólafs konungs, þá eru þær mest ritaðar og greindar og þær er síðar hafa gerst.

246. Frá aldri og ríki Ólafs konungs

Svo segja menn þeir er glögglega telja að Ólafur hinn helgi væri konungur yfir Noregi fimmtán vetur síðan er Sveinn jarl fór úr landi en áður um veturinn tók hann konungsnafn af Upplendingum.

Sighvatur skáld segir svo:

Ólafr réð hið efra
andprútt höfuð, landi
fulla vetr, áðr félli,
fimmtán, á því láni.
Hver hafi hers hinn nyrðra
heims enda sér kenndan,
skjöldungr hélst en skyldi
skemr, landreki en fremri?

Ólafur konungur hinn helgi var þá hálffertugur að aldri er hann féll að sögu Ara prests hins fróða. Hann hafði átt tuttugu fólkorustur.

Svo segir Sighvatur skáld:

Sumir trúðu á guð gumnar.
Grein varð liðs á miðli.
Fólkorustur fylkir
framráðr tjogu háði.
Frægr bað hann á hægri
hönd kristið lið standa.
Föðr Magnúss bið eg fagna
flóttskjörrum guð dróttin.

Nú er sagður nokkur hlutur sögu Ólafs konungs, frá nokkurum tíðindum þeim er gerðust meðan hann réð Noregi og svo frá falli hans og því er helgi hans kom upp. En nú skal það eigi niðri liggja er honum er þó mest vegsemd í, að segja frá jartegnagerð hans þótt það sé síðar ritið í þessari bók.

247. Frá Þrændum

Sveinn konungur Knútsson réð fyrir Noregi nokkura vetur. Hann var bernskur bæði að aldri og að ráðum. Alfífa móðir hans hafði þá mest landráð og voru landsmenn miklir óvinir hennar, bæði þá og jafnan síðan. Danskir menn höfðu þá yfirgang mikinn í Noregi en landsmenn kunnu því illa. Þá er slíkar ræður voru uppi hafðar þá kenndu landsmenn aðrir það Þrændum að þeir hefðu mestu um valdið er Ólafur konungur hinn helgi var felldur frá landi en Noregsmenn höfðu lagst undir þetta illa ríki er ánauð og ófrelsi gekk þar yfir allt fólk, bæði ríka menn og óríka og alþýðu, kölluðu þeir Þrændi skylda til að veita uppreist «til þess að hrinda af oss þessu ríki.»

Var það og virðing landsmanna að Þrændir hefðu mestan styrk þá í Noregi af höfðingjum sínum og fjölmenni því er þar var.

En er Þrændir vissu að landsmenn veittu þeim ámæli þá könnuðust þeir við að það var sannmæli og þá hafði hent glæpska mikil er þeir höfðu Ólaf konung tekið af lífi og láði og það með að þeim var sín óhamingja miklu illu goldin. Höfðu þeir höfðingjar stefnur og ráðagerð sín á milli. Var þar Einar þambarskelfir upphafsmaður að þeim ráðum.

Svo var og um Kálf Árnason að þá fann hann í hverja snöru hann hafði gengið af áeggjan Knúts konungs. Þau heit er hann hafði Kálfi heitið eða veitt, þá rufust þau öll, því að Knútur konungur hafði Kálfi heitið jarldómi og yfirsókn um Noreg allan en Kálfur hafði verið höfuðsmaður að halda orustu við Ólaf konung og fella hann frá landi. Hafði Kálfur engar nafnbætur meiri en áður. Þóttist hann vera blekktur mjög og fóru þá orðsendingar milli þeirra bræðra, Kálfs og Finns, Þorbergs og Árna, og samdist þá frændsemi þeirra.

248. Útboð Sveins konungs

Þá er Sveinn hafði verið konungur þrjá vetur í Noregi spurðust þau tíðindi til Noregs að fyrir vestan haf efldist flokkur og var sá höfðingi fyrir er nefndur er Tryggvi. Hann kallaðist sonur Ólafs Tryggvasonar og Gyðu ensku.

En er Sveinn konungur spurði það að útlendur her mundi koma í land þá bauð hann liði út norðan úr landi og fóru flestir lendir menn með honum úr Þrándheimi. Einar þambarskelfir settist heima og vildi eigi fara með Sveini konungi.

En er orðsending Sveins konungs kom til Kálfs inn á Eggju, sú að hann skyldi róa leiðangur með konungi, þá tók Kálfur tvítugsessu er hann átti. Gekk hann þar á með húskarla sína og bjóst sem ákaflegast, hélt síðan út eftir firði og beið ekki Sveins konungs.

Hélt Kálfur síðan suður á Mæri, léttir þeirri ferð eigi fyrr en hann kom suður í Giska til Þorbergs bróður síns. Síðan lögðu þeir stefnu með sér allir bræður, Árnasynir, og höfðu ráðagerð milli sín. Eftir það fór Kálfur norður aftur.

En er hann kom í Frekeyjarsund þá lá þar fyrir í sundinu Sveinn konungur með her sinn. En er Kálfur reri sunnan í sundið þá kölluðust þeir á. Báðu konungsmenn Kálf að leggja og fylgja konungi og verja land hans.

Kálfur svarar: «Fullgert hefi eg það, ef eigi er ofgert, að berjast við vora landsmenn til ríkis Knýtlingum.»

Þeir Kálfur reru þá norður leið sína. Fór hann þá til þess er hann kom heim á Eggju. Engi þeirra Árnasona reri þenna leiðangur með Sveini konungi.

Sveinn konungur hélt liði sínu suður í land. En er hann spurði ekki til að herinn væri vestan kominn þá hélt hann suður á Rogaland og allt á Agðir því að menn gátu þess til að Tryggvi mundi vilja leita fyrst í Víkina austur því að þar hafði verið foreldri hans og haft traust mest. Átti hann þar mikinn frændastyrk.

249. Fall Tryggva konungs

Tryggvi konungur, er hann hélt vestan, kom liði sínu utan að Hörðalandi. Þá spurði hann að Sveinn konungur hafði suður siglt. Hélt þá Tryggvi konungur suður á Rogaland.

En er Sveinn konungur fékk njósn um för Tryggva þá er hann var vestan kominn þá sneri hann aftur norður með her sinn og varð fundur þeirra Tryggva fyrir innan Bókn í Sóknarsundi nær því er fallið hafði Erlingur Skjálgsson. Þar varð mikil orusta og hörð.

Svo segja menn að Tryggvi skaut báðum höndum senn gaflökum. Hann mælti: «Svo kenndi minn faðir mér að messa.»

Það höfðu mælt óvinir hans að hann mundi vera sonur prests eins en hann hrósaði því að hann líktist þá meir Ólafi konungi Tryggvasyni. Var Tryggvi og hinn gervilegsti maður. Í þeirri orustu féll Tryggvi konungur og mart lið hans en sumt kom á flótta en sumt gekk til griða.

Svo segir í Tryggvaflokki:

Tíreggjaðr fór Tryggvi,
tókst morð af því, norðan,
en Sveinn konungr sinni
sunnan ferð að gunni.
Nær var eg þausnum þeira.
Það bar skjótt að móti.
Her týndi þar harða,
hjörgöll var þá, fjörvi.

Þessarar orustu getur í þeim flokki er ortur var um Svein konung:

Vara sunnudag, svanni,
seggr hné margr und eggjar
morgun þann, sem manni
mær lauk eða öl bæri,
þá er Sveinn konungr sína
saman tengja bað drengi,
hrátt gafst hold að slíta
hrafni, skeiðar stafna.

Sveinn konungur réð þá enn landi eftir orustu þessa. Var þá góður friður. Sat Sveinn konungur þann vetur eftir suður í landi.

250. Orðsending Knúts

Einar þambarskelfir og Kálfur Árnason áttu þann vetur stefnur sín í milli og ráðagerð og hittust í Kaupangi. Þá kom þar til Kálfs Árnasonar sendimaður Knúts konungs og bar honum orðsending Knúts konungs til þess að Kálfur skyldi senda honum þrennar tylftir öxa og láta vanda mjög.

Kálfur svarar: «Engar mun eg öxar senda Knúti konungi. Seg honum að eg skal fá öxar Sveini syni hans svo að honum skal eigi þykja skorta.»

251. Austurferð Einars og Kálfs

Um vorið snemma byrja þeir ferð sína Einar þambarskelfir og Kálfur Árnason og höfðu mikla sveit manna og hið besta mannval er til var í Þrændalögum. Þeir fóru um vorið austur um Kjöl til Jamtalands, þá til Helsingjalands og komu fram í Svíþjóð, réðu þar til skipa, fóru um sumarið austur í Garðaríki, komu um haustið í Aldeigjuborg.

Gerðu þeir þá sendimenn upp til Hólmgarðs á fund Jarisleifs konungs með þeim orðsendingum að þeir buðu Magnúsi syni Ólafs konungs hins helga að taka við honum og fylgja honum til Noregs og veita honum styrk til þess að hann næði föðurleifð sinni og halda hann til konungs yfir landi.

En er þessi orðsending kom til Jarisleifs konungs þá tók hann ráðagerð við drottningina og aðra höfðingja sína. Kom það ásamt með þeim að Norðmönnum voru orð ger og stefnt þeim þannug á fund Jarisleifs konungs og þeirra Magnúss. Voru þeim grið seld til þeirrar ferðar.

En er þeir komu til Hólmgarðs þá staðfestist það með þeim að Norðmenn þeir er þar voru komnir gengu til handa Magnúsi og gerðust hans menn og bundu það svardögum við Kálf og alla þá menn er á Stiklastöðum höfðu verið í mót Ólafi konungi.

Veitti Magnús tryggðir og fulla sætt og festi svardögum að hann skyldi vera þeim öllum tryggur og trúr þótt hann fengi í Noregi ríki og konungdóm. Skyldi hann gerast fósturson Kálfs Árnasonar en Kálfur vera skyldur að gera þau verk öll er Magnúsi þætti þá vera sitt ríki meira eða frjálsara en áður.

Текст с сайта Netútgáfan