Landnámabók (Sturlubók)

Fyrsti hluti

1. kafli

Þá er Ísland fannst og byggðist af Noregi, var Adríánus páfi í Róma og Jóhannes eftir hann, sá er hinn fimmti var með því nafni í postuligu sæti, en Hlöðver Hlöðversson keisari fyrir norðan fjall, en Leó og Alexander son hans yfir Miklagarði; þá var Haraldur hárfagri konungur yfir Noregi, en Eiríkur Eymundarson í Svíþjóð og Björn son hans, en Gormur hinn gamli að Danmörk, en Elfráður hinn ríki í Englandi og Játvarður son hans, en Kjarvalur að Dyflinni, Sigurður jarl hinn ríki í Orkneyjum.

Svo segja vitrir menn, að úr Noregi frá Staði sé sjö dægra sigling í vestur til Horns á Íslandi austanverðu, en frá Snæfellsnesi, þar er skemmst er, er fjögurra dægra haf í vestur til Grænlands. En svo er sagt, ef siglt er úr Björgyn rétt í vestur til Hvarfsins á Grænlandi, að þá mun siglt vera tylft fyrir sunnan Ísland. Frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er fimm dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi (í suður; en frá Langanesi á norðanverðu Íslandi er) fjögurra dægra haf norður til Svalbarða í hafsbotn.

Svo er sagt, að menn skyldu fara úr Noregi til Færeyja; nefna sumir til Naddodd víking; en þá rak vestur í haf og fundu þar land mikið. Þeir gengu upp í Austfjörðum á fjall eitt hátt og sáust um víða, ef þeir sæju reyki eða nokkur líkindi til þess, að landið væri byggt, og sáu þeir það ekki.

Þeir fóru aftur um haustið til Færeyja; og er þeir sigldu af landinu, féll snær mikill á fjöll, og fyrir það kölluðu þeir landið Snæland. Þeir lofuðu mjög landið.

Þar heitir nú Reyðarfjall í Austfjörðum, er þeir höfðu að komið. Svo sagði Sæmundur prestur hinn fróði.

Maður hét Garðar Svavarsson, sænskur að ætt; hann fór að leita Snælands að tilvísan móður sinnar framsýnnar. Hann kom að landi fyrir austan Horn hið eystra; þar var þá höfn. Garðar sigldi umhverfis landið og vissi, að það var eyland. Hann var um veturinn norður í Húsavík á Skjálfanda og gerði þar hús.

Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík.

Garðar fór þá til Noregs og lofaði mjög landið. Hann var faðir Una, föður Hróars Tungugoða. Eftir það var landið kallað Garðarshólmur, og var þá skógur milli fjalls og fjöru.

2. kafli

Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill; hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar úr er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. Hann fór fyrst til Hjaltlands og lá þar í Flókavogi; þar týndist Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni.

Með Flóka var á skipi bóndi sá, er Þórólfur hét, annar Herjólfur. Faxi hét suðureyskur maður, er þar var á skipi.

Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið.

En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: «Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnföll stór».

Síðan er það kallaður Faxaóss.

Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið.

Þeir Flóki ætluðu brutt um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf; hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði, og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs.

Og er menn spurðu af landinu, þá lét Flóki illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið; því var hann kallaður Þórólfur smjör.

3. kafli

Björnólfur hét maður, en annar Hróaldur; þeir voru synir Hrómundar Gripssonar; þeir fóru af Þelamörk fyrir víga sakir og staðfestust í Dalsfirði á Fjölum. Sonur Björnólfs var Örn, faðir þeirra Ingólfs og Helgu, en Hróalds son var Hróðmar, faðir Leifs.

Þeir Ingólfur og Leifur fóstbræður fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel, og er þeir komu heim, mæltu þeir til samfara með sér annað sumar.

En um veturinn gerðu þeir fóstbræður veislu sonum jarlsins. Að þeirri veislu strengdi Hólmsteinn heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, en Leifur roðnaði á að sjá, og varð fátt um með þeim Hólmsteini, er þeir skildu þar að boðinu.

4. kafli

Um vorið eftir bjuggust þeir fóstbræður að fara í hernað og ætluðu til móts við sonu Atla jarls. Þeir fundust við Hísargafl, og lögðu þeir Hólmsteinn bræður þegar til orustu við þá Leif. En er þeir höfðu barist um hríð, kom að þeim Ölmóður hinn gamli, son Hörða-Kára, frændi Leifs, og veitti þeim Ingólfi. Í þeirri orustu féll Hólmsteinn, en Hersteinn flýði.

Þá fóru þeir Leifur í hernað. En um veturinn eftir fór Hersteinn að þeim Leifi og vildi drepa þá, en þeir fengu njósn af för hans og gerðu mót honum. Varð þá enn orusta mikil, og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.

En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeim virðist landið betra suður en norður. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.

5. kafli

Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking.

Hann herjaði á Írland og fann þar jarðhús mikið. Þar gekk hann í, og var myrkt, þar til er lýsti af sverði því, er maður hélt á. Leifur drap þann mann og tók sverðið og mikið fé af honum; síðan var hann kallaður Hjörleifur.

Hjörleifur herjaði víða um Írland og fékk þar mikið fé; þar tók hann þræla tíu, er svo hétu: Dufþakur og Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór og Drafdittur; eigi eru nefndir fleiri. En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.

Þenna vetur fékk Ingólfur að blóti miklu og leitaði sér heilla um forlög sín, en Hjörleifur vildi aldri blóta. Fréttin vísaði Ingólfi til Íslands.

Eftir það bjó sitt skip hvor þeirra mága til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra, og lögðu til hafs, er þeir voru búnir.

6. kafli

Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár.

Þeir höfðu samflot, þar til er þeir sá Ísland; þá skildi með þeim.

Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.

Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Þá tóku þrælarnir írsku það ráð að knoða saman mjöl og smjör og kölluðu það óþorstlátt; þeir nefndu það minnþak. En er það var tilbúið, kom regn mikið, og tóku þeir þá vatn á tjöldum. En er minnþakið tók að mygla, köstuðu þeir því fyrir borð, og rak það á land, þar sem nú heitir Minnþakseyr.

Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum. Hjörleifur lét þar gera skála tvo, og er önnur tóftin átján faðma, en önnur nítján. Hjörleifur sat þar um veturinn.

En um vorið vildi hann sá; hann átti einn uxa, og lét hann þrælana draga arðurinn.

En er þeir Hjörleifur voru að skála, þá gerði Dufþakur það ráð, að þeir skyldu drepa uxann og segja, að skógarbjörn hefði drepið, en síðan skyldu þeir ráða á þá Hjörleif, ef þeir leituðu bjarnarins.

Eftir það sögðu þeir Hjörleifi þetta. Og er þeir fóru að leita bjarnarins og dreifðust í skóginn, þá settu þrælarnir að sérhverjum þeirra og myrtu þá alla jafnmarga sér. Þeir hljópu á brutt með konur þeirra og lausafé og bátinn. Þrælarnir fóru í eyjar þær, er þeir sáu í haf til útsuðurs, og bjuggust þar fyrir um hríð.

Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs.

7. kafli

Eftir það fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan, mælti hann: «Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða, og sé eg svo hverjum verða, ef eigi vill blóta.» Ingólfur lét búa gröf þeirra Hjörleifs og sjá fyrir skipi þeirra og fjárhlut.

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er hann lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Þeir Ingólfur höfðu með sér konur þeirra, er myrtir höfðu verið; fóru þeir þá aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.

Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.

8. kafli

Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.

Þá mælti Karli: «Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.»

Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.

Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.

Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.

9. kafli

Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.

Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.

Son Þorsteins var Þorkell máni lögsögumaður, er einn heiðinna manna hefir best verið siðaður, að því er menn viti dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fal sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir. Son hans var Þormóður, er þá var allsherjargoði, er kristni kom á Ísland. Hans son var Hamall, faðir Más og Þormóðar og Torfa.

10. kafli

Björn buna hét hersir ágætur í Noregi, son Veðrar-Gríms hersis úr Sogni; móðir Gríms var Hervör, dóttir Þorgerðar Eylaugsdóttur hersis úr Sogni.

Frá Birni er nær allt stórmenni komið á Íslandi; hann átti Vélaugu. Þau áttu þrjá sonu; einn var Ketill flatnefur, annar Hrappur, þriðji Helgi; þeir voru ágætir menn, og er frá þeirra afkvæmi margt sagt í þessi bók.

Þórður skeggi hét maður; hann var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur; Helga hét dóttir þeirra; hana átti Ketilbjörn hinn gamli.

Þórður fór til Íslands og nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár og Leiruvogs; hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komið á Íslandi.

11. kafli

Hallur goðlauss hét maður; hann var son Helga goðlauss. Þeir feðgar vildu ekki blóta og trúðu á mátt sinn.

Hallur fór til Íslands og nam land með ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár. Son Halls var Helgi, er átti Þuríði Ketilbjarnardóttur; þeirra son var Þórður í Álfsnesi, er átti Guðnýju Hrafnkelsdóttur. Hallur bjó í Múla.

Haraldur hinn hárfagri herjaði vestur um haf, sem ritað er í sögu hans. Hann lagði undir sig allar Suðureyjar svo langt vestur, að engi hefir síðan lengra eignast.

En er hann fór vestan, slógust í eyjarnar víkingar og Skotar og Írar og herjuðu og rændu víða.

Og er það spurði Haraldur konungur, sendi hann vestur Ketil flatnef, son Bjarnar bunu, að vinna aftur eyjarnar. Ketill átti Yngvildi, dóttur Ketils veðurs hersis af Hringaríki; þeirra synir voru þeir Björn hinn austræni og Helgi bjóla. Auður hin djúpauðga og Þórunn hyrna voru dætur þeirra.

Ketill fór vestur, en setti eftir Björn son sinn; hann lagði undir sig allar Suðureyjar og gerðist höfðingi yfir, en galt öngva skatta konungi, sem ætlað var. Tók þá konungur undir sig eignir hans og rak á brutt Björn son hans.

Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, fór til Íslands úr Suðureyjum. Hann var með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam með hans ráði Kjalarnes allt milli Mógilsár og Mýdalsár; hann bjó að Hofi. Hans son var Víga-Hrappur og Kollsveinn, faðir Eyvindar hjalta, föður Kollsveins, föður Þorgerðar, móður Þóru, móður Ögmundar, föður Jóns byskups hins helga.

12. kafli

Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga) Patreki byskupi í Suðureyjum. (Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.

Með Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.

Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi, hvar þeir fóru; þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti, áður þeir sáu land, og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar, sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur, en um vorið bjó Örlygur skip sitt; en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.

Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað.

Hann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður.

Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið nam hann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.

Örlygur átti margt barna; hans son var Valþjófur, faðir Valbrands, föður Torfa, annar Geirmundur, faðir Halldóru, móður Þorleifs, er Esjubergingar eru frá komnir. Þeir Örlygur frændur trúðu á Kolumba.

Dóttir Örlygs hins gamla var Vélaug, er átti Gunnlaugur ormstunga, sonur Hrómundar í Þverárhlíð; þeirra dóttir var Þuríður dylla, móðir Illuga hins svarta á Gilsbakka.

13. kafli

Svartkell hét maður katneskur; hann nam land fyrir innan Mýdalsá milli (og) Eilífsdalsár og bjó að Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri.

Hans son var Þorkell faðir Glúms, er svo baðst fyrir að krossi: «Gott ey gömlum mönnum, gott ey ærum mönnum.» Hann var faðir Þórarins, föður Glúms.

Valþjófur, son Örlygs hins gamla frá Esjubergi, nam Kjós alla og bjó að Meðalfelli; frá honum eru Valþjóflingar komnir. Signý var dóttir hans, móðir Gnúps, föður Birnings, föður Gnúps, föður Eiríks Grænlendingabiskups.

14. kafli

Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.

Þórir deildi við Ref hinn gamla um kú þá, er Brynja hét; við hana er dalurinn kenndur. Hún gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni komin. Þeir Refur og Þórir börðust hjá Þórishólum; þar féll Þórir og átta menn hans.

Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár og Fossár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refur hinn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Nú eru taldir þeir menn, er búið hafa í landnámi Ingólfs, vestur frá honum.

Maður hét Ávangur, írskur að kyni; hann byggði fyrst í Botni.

Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip.

Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.

Kolgrímur hinn gamli, son Hrólfs hersis, nam land út frá Botnsá til Kalmansár og bjó á Ferstiklu.

Hann átti Gunnvöru, dóttur Hróðgeirs hins spaka. Þeirra börn voru þau Þórhalli, faðir Kolgríms, föður Steins, föður Kvists, er Kvistlingar eru frá komnir. Bergþóra var dóttir Kolgríms hins gamla, er átti Refur í Brynjudal.

15. kafli

Bræður tveir námu Akranes allt á milli Kalmansár og Aurriðaár; hét annar Þormóður; hann átti land fyrir sunnan Reyni og bjó að Hólmi. Hann var faðir Bersa og Þorlaugar, móður Tungu-Odds.

Ketill átti Akranes fyrir vestan og fyrir norðan Akrafell til Aurriðaár. Hans son var Jörundur hinn kristni, er bjó í Görðum; þar hét þá Jörundarholt. Jörundur var faðir Klepps, föður Einars, föður Narfa og Hávars, föður Þorgeirs.

16. kafli

Ásólfur hét maður. Hann var frændi Jörundar í Görðum; hann kom út austur í Ósum. Hann var kristinn vel og vildi ekki eiga við heiðna menn og eigi vildi hann þiggja mat að þeim.

Hann gerði sér skála undir EyjafjöIlum, þar sem nú heitir að Ásólfsskála hinum austasta; hann fann ekki menn. Þá var um forvitnast, hvað hann hafði til fæðslu, og sáu menn í skálanum á fiska marga. En er menn gengu til lækjar þess, er féll hjá skálanum, var hann fullur af fiskum, svo að slík undur þóttust menn eigi séð hafa. En er héraðsmenn urðu þessa varir, ráku þeir hann á brutt og vildu eigi, að hann nyti gæða þessa. Þá færði Ásólfur byggð sína til Miðskála og var þar. Þá hvarf á brutt veiði öll úr læknum, er menn skyldu til taka. En er komið var til Ásólfs, þá var vatnfall það fullt af fiskum, er féll hjá skála hans. Var hann þá enn brutt rekinn. Fór hann þá til hins vestasta Ásólfsskála, og fór enn allt á sömu leið. En er hann fór þaðan á brutt, fór hann á fund Jörundar frænda síns, og bauð hann Ásólfi að vera með sér; en hann lést ekki vilja vera hjá öðrum mönnum.

Þá lét Jörundur gera honum hús að Hólmi hinum innra og færði honum þangað fæðslu, og var hann þar, meðan hann lifði, og þar var hann grafinn. Stendur þar nú kirkja, sem leiði hans er, og er hann hinn helgasti maður kallaður.

17. kafli

Beigan hét maður, er land nam í landnámi Ketils frá Berjadalsá til Aurriðaár og bjó að Beigansstöðum.

Fiður hinn auðgi Halldórsson Högnasonar, hann nam land fyrir sunnan Laxá og til Kalmansár og bjó að Miðfelli; hans son var Þorgeir, faðir Jósteins, föður Þórunnar, móður Guðrúnar, móður Sæmundar, föður Brands byskups.

Hafnar-Ormur nam lönd um Melahverfi út til Aurriðaár og Laxár og inn til Andakílsár og bjó í Höfn; hans son var Þorgeir höggvinkinni, faðir Þórunnar, móður Þórunnar, móður Jósteins, föður Sigurðar, föður Bjarnhéðins.

Þorgeir höggvinkinni var hirðmaður Hákonar konungs Aðalsteinsfóstra; hann fékk á Fitjum kinnarsár og orð gott.

Bræður tveir bjuggu í landnámi þeirra Finns og Orms, Hróðgeir hinn spaki í Saurbæ, en Oddgeir að Leirá: en þeir Finnur og Ormur keyptu þá brutt, því að þeim þótti þar þrönglent.

Þeir Hróðgeir bræður námu síðan lönd í Flóa, Hraungerðingahrepp; bjó Hróðgeir í Hraungerði, en Oddgeir í Oddgeirshólum; hann átti dóttur Ketils gufu.

18. kafli

Úlfur hét maður, son Brunda-Bjálfa og Hallberu, dóttur Úlfs hins óarga úr Hrafnistu. Úlfur átti Salbjörgu, dóttur Berðlu-Kára; hann var kallaður Kveld-Úlfur. Þórólfur og Skalla-Grímur voru synir þeirra.

Haraldur konungur hárfagri lét drepa Þórólf norður í Álöst á Sandnesi af rógi Hildiríðarsona; það vildi Haraldur konungur eigi bæta.

Þá bjuggu þeir Grímur og Kveld-Úlfur kaupskip og ætluðu til Íslands, því að þeir höfðu þar spurt til Ingólfs vinar síns. Þeir lágu til hafs í Sólundum. Þar tóku þeir knörr þann, er Haraldur konungur lét taka fyrir Þórólfi, þá er menn hans voru nýkomnir af Englandi, og drápu þar Hallvarð harðfara og Sigtrygg snarfara, er því höfðu valdið. Þar drápu þeir og sonu Guttorms Sigurðarsonar hjartar, bræðrunga konungs, og alla skipshöfn þeirra nema tvo menn, er þeir létu segja konungi tíðendin. Þeir bjuggu hvorttveggja skipið til Íslands og þrjá tigu manna á hvoru; stýrði Kveld-Úlfur því, er þá var fengið.

Grímur hinn háleyski Þórisson, Gunnlaugssonar, Hrólfssonar, Ketilssonar kjölfara, var forráðamaður með Kveld-Úlfi á því skipi, er hann stýrði. Þeir vissust jafnan til í hafinu.

Og er mjög sóttist hafið, þá tók Kveld-Úlfur sótt. Hann bað þess, að kistu skyldi gera að líki hans, ef hann dæi, og bað svo segja Grími syni sínum, að hann tæki skammt þaðan bústað á Íslandi, er kista hans kæmi á land, ef þess yrði auðið. Eftir það andaðist Kveld-Úlfur, og var skotið fyrir borð kistu hans.

Þeir Grímur héldu suður um landið, því að þeir höfðu spurt, að Ingólfur byggði sunnan á landinu. Sigldu þeir vestur fyrir Reykjanes og stefndu þar inn á fjörðinn. Skildi þá með þeim, svo að hvorigir vissu til annarra. Sigldu þeir Grímur hinn háleyski allt inn á fjörðinn, þar til er þraut sker öll, og köstuðu þá akkerum sínum. En er flóð gerði, fluttust þeir upp í árós einn og leiddu þar upp skipið sem gekk; sú á heitir nú Gufá. Báru þeir þar á land föng sín.

En er þeir könnuðu landið, þá höfðu þeir skammt gengið út frá skipinu, áður þeir fundu kistu Kveld-Úlfs rekna í vík eina; þeir báru hana á það nes, er þar var, og hlóðu að grjóti.

19. kafli

Skalla-Grímur kom þar að landi, er nú heitir Knarrarnes á Mýrum. Síðan kannaði hann landið, og var þar mýrlendi mikið og skógar víðir, langt á milli fjalls og fjöru.

En er þeir fóru inn með firðinum, komu þeir á nes það, er þeir fundu álftir; það kölluðu þeir Álftanes.

Þeir léttu eigi fyrr en þeir fundu þá Grím hinn háleyska; sögðu þeir Grímur allt um ferðir sínar og svo, hver orð Kveld-Úlfur hafði sent Grími syni sínum. Skalla-Grímur gekk til að sjá, hvar kistan hafði á land komið; hugðist honum svo (að), að skammt þaðan mundi vera bólstaður góður.

Skalla-Grímur var þar um veturinn, sem hann kom af hafi, og kannaði þá allt hérað. Hann nam land utan frá Selalóni og hið efra til Borgarhrauns og suður allt til Hafnarfjalla, hérað allt svo vítt sem vatnföll deila til sjóvar. Hann reisti bæ hjá vík þeirri, er kista Kveld-Úlfs kom á land, og kallaði að Borg, og svo kallaði hann fjörðinn Borgarfjörð. Síðan skipaði hann héraðið sínum félögum, og þar námu margir menn síðan land með hans ráði.

Skalla-Grímur gaf land Grími hinum háleyska fyrir sunnan fjörð á milli Andakílsár og Grímsár; hann bjó á Hvanneyri. Úlfur hét son hans, faðir Hrólfs í Geitlandi.

Þorbjörn svarti hét maður; hann keypti land að Hafnar-Ormi inn frá Selaeyri og upp til Fossár; hann bjó á Skeljabrekku. Hans son var Þorvarður, er átti Þórunni dóttur Þorbjarnar úr Arnarholti; þeirra synir voru þeir Þórarinn blindi og Þorgils orraskáld, er var með Óláfi kvaran í Dyflinni.

Skorri, leysingi Ketils gufu, nam Skorradal fyrir ofan vatn og var þar drepinn.

Björn gullberi nam Reykjardal hinn syðra og bjó á Gullberastöðum. Hans son var Grímkell goði í Bláskógum; hann átti Signýju Valbrandsdóttur, Valþjófssonar; þeirra son var Hörður, er var fyrir Hólmsmönnum. Björn gullberi átti Ljótunni, systur Kolgríms hins gamla. Svarthöfði að Reyðarfelli var annar son þeirra; hann átti Þuríði Tungu-Oddsdóttur, þeirra dóttir Þórdís, er átti Guðlaugur hinn auðgi. Þjóstólfur var hinn þriðji son Bjarnar, fjórði Geirmundur.

Þorgeir meldún þá lönd öll að Birni fyrir ofan Grímsá; hann bjó í Tungufelli. Hann átti Geirbjörgu, dóttur Bálka úr Hrútafirði; þeirra son Véleifur hinn gamli.

Flóki, þræll Ketils gufu, nam Flókadal og var þar drepinn.

20. kafli

Óleifur hjalti hét maður göfugur; hann kom skipi sínu í Borgarfjörð og var hinn fyrsta vetur með Skalla-Grími. Hann nam land að ráði Skalla-Gríms milli Grímsár og Geirsár og bjó að Varmalæk. Hans synir voru þeir Ragi í Laugardal og Þórarinn lögsögumaður er átti Þórdísi, dóttur Óláfs feilans, þeirra dóttir Vigdís, er átti Steinn Þorfinnsson. Son Raga var Guðþormur, faðir Gunnvarar, móður Þórnýjar, móður Þorláks, föður Rúnólfs, föður Þorláks byskups.

Ketill blundur og Geir son hans komu til Íslands og voru með Skalla-Grími hinn fyrsta vetur; þá fékk Geir Þórunnar, dóttur Skalla-Gríms.

Um vorið eftir vísaði Grímur þeim til landa, og námu þeir upp frá Flókadalsá til Reykjadalsár og tungu þá alla upp til Rauðsgils og Flókadal allan fyrir ofan brekkur. Ketill bjó í Þrándarholti; við hann er kennt Blundsvatn, þar bjó hann síðan.

Geir hinn auðgi son hans bjó í Geirshlíð, en átti annað bú að Reykjum hinum efrum; hans synir voru þeir Þorgeir blundur og Blund-Ketill og Svarðkell á Eyri. Dóttir Geirs var Bergdís, er Gnúpur átti Flókason í Hrísum; þeirrar ættar var Þóroddur hrísablundur.

Önundur breiðskeggur var son Úlfars Úlfssonar Fitjumskeggja, Þórissonar hlammanda. Önundur nam tungu alla milli Hvítár og Reykjadalsár og bjó á Breiðabólstað: hann átti Geirlaugu, dóttur Þormóðar á Akranesi, systur Bersa; þeirra son var Tungu-Oddur, en Þórodda hét dóttir þeirra. Hennar fékk Torfi, son Valbrands Valþjófssonar, Örlygssonar frá Esjubergi, og fylgdi henni heiman hálfur Breiðabólstaður og Hálsaland með. Hann gaf Signýju systur sinni Signýjarstaði, og bjó hún þar.

Torfi drap Kroppsmenn tólf saman, og hann réð mest fyrir drápi Hólmsmanna, og hann var á Hellisfitjum og Illugi hinn svarti og Sturla goði, þá er þar voru drepnir átján Hellismenn, en Auðun Smiðkelsson brenndu þeir inni á Þorvarðsstöðum. Sonur Torfa var Þorkell að Skáney.

Tungu-Oddur átti Jórunni Helgadóttur; þeirra börn voru þau Þorvaldur, er réð brennu Blund-Ketils, og Þóroddur, er átti Jófríði Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Húngerður, er átti Svertingur Hafur-Bjarnarson. Dóttir Tungu-Odds (var) Þuríður, er (átti Svarthöfði, og Jófríður, er) Þorfinnur Sel-Þórisson átti, og Hallgerður, er Hallbjörn átti, son Odds frá Kiðjabergi. Kjölvör var móðursystir Tungu-Odds, er bjó á Kjölvararstöðum, móðir Þorleifar, móður Þuríðar, móður þeirra Gunnhildar, er Koli átti, og Glúms, föður Þórarins, föður Glúms að Vatnlausu.

21. kafli

Rauður hét maður, er nam land (hið syðra) upp frá Rauðsgili til Gilja og bjó að Rauðsgili; hans synir voru þeir Úlfur á Úlfsstöðum og Auður á Auðsstöðum fyrir norðan á, er Hörður vó. Þar hefst (af) saga Harðar Grímkelssonar og Geirs.

Grímur hét maður, er nam land hið syðra upp frá Giljum til Grímsgils og bjó við Grímsgil; hans synir voru þeir Þorgils auga á Augastöðum og Hrani á Hranastöðum, faðir Gríms, er kallaður var Stafngrímur. Hann bjó á Stafngrímsstöðum; þar heitir nú á Sigmundarstöðum. Þar gagnvart fyrir norðan Hvítá við sjálfa ána er haugur hans; þar var hann veginn.

Þorkell kornamúli nam Ás hinn syðra upp frá Kollslæk til Deildargils og bjó í Ási. Hans son var Þorbergur kornamúli, er átti Álöfu elliðaskjöld, dóttur Ófeigs og Ásgerðar, systur Þorgeirs gollnis. Börn þeirra voru þau Eysteinn og Hafþóra, er átti Eiður Skeggjason, er síðan bjó í Ási. Þar dó Miðfjarðar-Skeggi, og er þar haugur hans fyrir neðan garð. Annar son Skeggja var Kollur, er bjó að Kollslæk. Synir Eiðs (voru) Eysteinn og Illugi.

Úlfur, son Gríms hins háleyska og Svanlaugar, dóttur Þormóðar af Akranesi, systur Bersa, hann nam land milli Hvítár og suðurjökla og bjó í Geitlandi.

Hans synir voru þeir Hrólfur hinn auðgi, faðir Halldóru, er átti Gissur hvíti, þeirra dóttir Vilborg, er átti Hjalti Skeggjason.

Annar son hans var Hróaldur, faðir Hrólfs hins yngra, er átti Þuríði Valþjófsdóttur, Örlygssonar hins gamla; þeirra börn voru þau Kjallakur að Lundi í Syðradal, faðir Kolls, föður Bergþórs. Annar var Sölvi í Geitlandi, faðir Þórðar í Reykjaholti, föður Sölva, föður Þórðar, föður Magnúss, föður Þórðar, föður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Þriðji son Hrólfs var Illugi hinn rauði, er fyrst bjó í Hraunsási; hann átti þá Sigríði, dóttur Þórarins hins illa, systur Músa-Bölverks. Þann bústað gaf Illugi Bölverki, en Illugi fór þá að búa á Hofstöðum í Reykjadal, því að Geitlendingar áttu að halda upp hofi því að helmingi við Tungu-Odd. Síðarst bjó Illugi að Hólmi innra á Akranesi, því að hann keypti við Hólm-Starra bæði löndum og konum og fé öllu. Þá fékk Illugi Jórunnar, dóttur Þormóðar Þjóstarssonar af Álftanesi, en Sigríður hengdi sig í hofinu, því að hún vildi eigi mannakaupið.

Hrólfur hinn yngri gaf Þorlaugu gyðju dóttur sína Oddi Ýrarsyni. Því réðst Hrólfur vestur til Ballarár og bjó þar lengi síðan og var kallaður Hrólfur að Ballará.

Источник: Textinn að mestu frá Eiríki Rögnvaldssyni prófessor við Háskóla Íslands.

Текст книги взят с сайта Netútgáfan.