Samsons saga fagra

1. Uppfóstur Samsons.

Artús hét konungur, er réð fyrir Englandi. Hann var ríkur og fjölmennur og höfðingi mikill. Hann átti sér drottningu af dýrum ættum, sem honum vel sómdi. Hún hét Silvía, dóttir konungsins af Ungaría. Son þeirra hét Samson. Hann var mikill og sterkur, fríður sýnum, kurteis og hæverskur, vinsæll og skartsmaður mikill og ákafur í skaplyndi og hversdagslega blíður, svo allir unnu honum hugástum. Hann var kallaður Samson hinn fagri, og var hann það sannnefndur, því á hans líkama sáust engi lýti.

Dóttur áttu þau annað barna, er Grega hét. Hún var bæði fögur og kurteis, lærð og menntuð á flestar handnyrðir, þær er jungfrúm voru tíðar.

Artús konungur var hermaður mikill, meðan hann var á ungum aldri. En er hann tók að eldast, settist hann um kyrrt og stýrði ríki sínu með góðum orðstír og mikilli hugprýði.

Konungssyni var fengið fóstur með riddara þeim, er Salmon hét. Hann var vitur og vinsæll og djúpsær í ráðum. Kona hans hét Ólympía. Hún var kynjuð af Bretlandi. Þar átti hún eignir margar og stórar. Hún var margra hluta vel kunnandi, vitur og djúpsett í ráðagerðum, sem síðar mun sagt verða. Hún lagði mikið ástfóstur við Samson. Óx hann þar upp, til þess er hann var ellefu vetra gamall, og nam hann íþróttir að Salmon og riddaraskap. Var hann svo vel fær að íþróttum, að engi komst til jafns við hann á öllu Englandi.

Þá tók fóstri hans sótt og andaðist. Það þótti öllum skaði mikill. Fór Samson þá til föður síns og sat hjá honum.

Ólympía undi ekki síðan á Englandi. Fór hún þá til Bretlands og settist að eignum sínum. Hún átti einn kastala, er stóð í markbyggðum nokkurum, langt í burt frá almenningsvegum, og sat hún þar oftast eigi mjög fjölmenn.

2. Frá viðskiptum konunganna Artús og Garlants.

Í þann tíma réð fyrir Írlandi konungur sá, er Garlant hét. Hann var ríkur og höfðingi mikill. Hann hafði átt sér drottningu, og var hún þá önduð, er þessi saga gerðist. Hann átti eina dóttur, er Valentína hét. Hún var bæði vitur og vinsæl og vel skapi farin. Hún hafði numið allar kvenlegar listir.

Í þann tíma hafði stríð verið mikið milli Artús konungs í Englandi og Garlants konungs, og áttu marga bardaga með mikilli mannhættu, og höfðu ýmsir betur. En um síðir komu höfðingjar á sættum með þeim. Sendu þeir þá gísla á milli, og fékk Garlant konungur dóttur sína Valentínu í konungs vald og gísling, en Artús konungur honum í móti sinn systurson. Héldu þeir síðan vel sína sætt og kurteislega, og liðu svo nokkurir tímar.

3. Frá Samson og Valentínu.

Það var eitt sinn, að dansleikur var sleginn í garði drottningar, bæði vel og kurteislega. Hélt hinn fagri Samson í hönd Valentínu og talaði svo til hennar: „Jungfrú,“ segir hann, „hvernig þykir yður fram fara, að þér þjónið hér í Englandi með ekki meira fé eða fjölmenni en nú hafið þér? Væri yður meiri sómi að fá yður góðan unnusta og ættstóran.“

Hún svarar: „Góði herra, spottið mig ekki, því að nóg sæmd er mér að þjóna hér konungi og drottningu, en unnusta er mér ei hægt um að velja.“

Samson svarar: „Frú,“ segir hann, „hversu munduð þér taka því, ef eg færa þess á leit, að þér værið mín unnusta?“

„Herra,“ segir mærin, „ef yður væri þetta hrein alvara, munda eg ei framar kjósa en yður og öngvan annan elskhuga girnast.“

Skilja þau nú tal sitt að sinni.

Nokkuru síðar kom Samson að máli við föður sinn. „Faðir,“ segir hann, „dóttir Garlants konungs er hér í yðrum garði. Þar er sú jungfrú, sem mér er vel að skapi. Og ef þér viljið unna mér þess ráðs, þá mun mér vel líka.“

Konungur mælti: „Það ráð kemur ei svo fyllilega til mín, því að hún er minn forgísli, en hennar faðir ræður hennar giftingu og hún sjálf, en eg vil öngvan hlut gera á móti þeirra vilja þar um. Má eg og þig til stoða, að þú fáir þá gifting, að þér sé ei miður til sæmda. Hefir þú og ei víða farið að sjá ágætar jungfrúr, þær er ei munu þykja minna verðar. Vil eg og ei, að hún fái neina ósæmd í minn garð.“

Litlu síðar talaði Artús konungur við jungfrúna. „Þér hafið nú,“ segir hann, „verið í vorum garði þrjú ár með heiður og æru. Hefi eg þar nú fulla vissu um, að yðvar faðir vill vera vor góður vin. Því vil eg yður heim senda, og segið yðrum föður vísan vorn vinskap. Vil eg og ekki, að þér fáið nokkura vanvirðu í minn garð, því að yðvar faðir lagði yður á minn trúskap. Eða hefir nokkur maður haft tilmæli við yður, síðan þér komuð hér?“

„Ekki hendi eg þar stórar reiður á,“ segir hún, „en þó varna eg ekki alls um, að Samson, yðvar son, hafi þar nokkuð á vikið. En eg mun það ei til þess eða annars vinna að hafa yðvart mótþykki.“

„Ekki er mér það mótþykki,“ segir konungur, „en ef honum er það alhugað, þá má hann leita þess í yðvarn föðurgarð, og skylda eg gott þar til leggja.“

Skildu þau nú svo talið.

4. Skilnaður Samsons og Valentínu.

Litlu síðar lætur Artús konungur búa ferð jungfrú Valentínu heim til Írlands með miklum fékostnaði og sæmilegu föruneyti og sendi föður hennar virðuglegar gjafir. En drottning býr hana vel af garði með vænum búningi og sæmilegum gjöfum. Þakkar hún þeim konungi og drottningu sæmilega viðurvist og gefur sínum vinum góðar gjafir. Herra Samson veik að henni og mælti: „Frú,“ segir hann, „hafið minnilegt, hvað eg hefi talað, þá er þér komið til yðvars föður, því að eg mun yður þar finna.“

„Ei mun eg gleyma yðrum orðum,“ segir hún, „en mín lofun er ekki fastari um það en með míns föður umsjá. En þigg af mér gull þetta.“ Biður hún hann síðan vel lifa.

Og því næst er hún á skipi og heldur á burt, siglandi hægan byr heim til Írlands. Garlant konungur fagnar vel dóttur sinni og sendir síðan gísla Artús konungi með sæmilegum gjöfum og traustum vinskapsboðum, og héldu þeir sinni tryggð og vináttu.

Litlu síðar kemur hinn fagri Samson að máli við föður sinn og mælti: „Herra faðir,“ segir hann, „eg vilda þér fengið mér skip og menn, og vil eg fara úr landi og kynna mér ókunnuga höfðingja og vita, ef nokkuð má til frægðar verða, eða nokkurn þann afla fá, er vér mættim oss við halda, og vorn heiður kynni að bæta, svo vér sitjum ei heima sem mær til kosta.“

„Minn kæri son,“ segir konungurinn, „það skal allt til reiðu, sem vér kunnum að veita og þér viljið beiða, svo að í hvert land, er þú kemur, skalt þú með þínu liði sjálfbirgur vera, og vel þér sjálfur bæði skip og menn.“

En Samson þakkar föður sínum.

Er nú búin ferð hans. Hefir hann fimm skip úr landi, skipuð með góðum drengjum, er voru búnir að stórri hreysti og hæverskum siðum. Heldur hann nú í hernað og verður gott til fjár. Hélt hann því fram um nokkura hríð og varð margt til ágætis, þótt hér sé ei skrifað.

5. Upphaf Kvintalíns.

Í þann tíma réð fyrir Bretlandi jarl einn, er Finnlaugur hét. Hann var kvongaður og átti eina dóttur, er Ingína hét. Hún var væn og vel að sér um alla hluti. Undir valdi jarlsins voru margir ágætir menn, er honum veittu dyggilega þjónustu.

Maður nefndist Galinn, sá er jarlinum þjónaði. Hann var mylnumaður, og vann hann það jafnan. Son hans hét Kvintalín. Hann var þjófur og lá úti í skógum og kunni mörg kyndug brögð, og margar listir hafði hann numið. Hann var mikill meistari á hörpuslátt, og þar með villti hann margar hæverskar konur í skóginn til sín og hafði þær við hönd sér slíka stund sem honum sýndist og sendi þær síðan óléttar heim aftur til feðra sinna eða bænda, og því var hann illa kynntur af mönnum. Engi maður vissi móðerni hans, en það ætluðu flestir, að Galinn mundi eiga hann við gyðju, er lá undir mylnufossinum.

6. Kvintalín töfrar konungsdóttur.

Garlant konungur á Írlandi átti mikið ríki í Bretlandi og sat þar jafnan. Þess er getið eitthvert sinn, að hann fór þangað og með honum hans dóttir og margt fólk annað, og dvaldist konungur þar lengi. Garlant spurði dóttur sína, hvort engi hefði tilmæli haft við hana í Englandi. En hún sagði föður sínum allt viðtal þeirra Samsons. En konungur lét vel yfir og kvað það mikla gæfu, ef hún fengi svo ágætt gjaforð.

En er Garlant konungur hafði verið í Bretlandi slíka stund er honum sýndist, býst hann heim til Írlands með sitt föruneyti. En er hann var skammt kominn á veg, fékk hann andviðri, og lagði konungur í höfn eina við hnotskóg nokkurn, og var hans dóttir í ferð með honum. Með henni fór ein lítil mey, er kom til hennar í Bretlandi og var henni þar kunnugt. Hún sagði konungsdóttur margt það, er hún vildi vita.

Nú verða þær tvær saman í skóginum. Þær heyrðu þar hörpuslátt svo fagran, að þær höfðu ei fyrri slíkan heyrt. Konungsdóttir bað þær forvitnast, hver með hörpuna færi. Og er þær komu undir aðra eikina, heyrðist þeim slegið undir annarri, og hlupu þær svo lengi, að konungsdóttir mæddist. Tók hún þá af sér sitt djásn og möttul og fékk meyjunni að bera og um síðir sinn síða stakk. Og nú mæddist mærin og gat ei fylgt henni, og skildi þá með þeim. Gat konungsdóttir þá ei nálgazt hörpumanninn, og fór hún þar til, er sólina lægði. Var hún þá komin að bekk einum. Hún sté yfir lækinn, og heyrði hún þá ekki hörpuslaginn. Þótti henni það undarlegt. Hún sté aftur og yfir lækinn, og heyrði hún þá hörpuslaginn. Gengur hún þá enn eftir hljóðinu, þar til hún sér hörpuslagarann á einum sléttum velli. Þykir henni þá vænkast um, og því næst kemur að henni kona væn og vel búin og heilsaði henni og spurði hana að nafni. Konungsdóttir sagði henni nafn sitt. „En því fer þú svo einförum?“ segir konan, „eða hvert vilt þú fara?“

Konungsdóttir svarar: „Eg girnumst að heyra þenna hörpuslag, er hér fer undan mér, en hvert er nafn þitt?“

„Eg heiti Ólympía,“ segir konan, „og á eg heima ekki langt í burtu héðan. Fór eg því til fundar við þig, að þú ert orðin fyrir gerningum. Því hlýð þú ráðum mínum og slít þjófinn úr þínum hug, og skulum við senda honum merkilegri sending.“

Með henni rann ein mjótík. Hún tók þráð og batt um háls henni, og sýndist hún þá sem ein mey. Hún vísar tíkinni eftir þjófnum, en steypir möttli sínum yfir kóngsdóttur.

Nú kemur hörpumeistarinn heim að sínum skála. En sem hann lítur aftur, sýnist honum jungfrúin koma þar. Hann fagnar henni vel og þykist mikla gæfu borið hafa, tekur í hönd henni og kyssir hana á alla vega og leiðir hana í sinn skála síðan og lokar aftur.

Nú ganga þær þar eftir, og segir Ólympía, að þær skuli sjá samgang þeirra. Fara þær nú upp á skálann, og segir Ólympía henni, að það sé Kvintalín þjófur og þannig sé hann vanur að villa margar hæverskar jungfrúr.

Nú fer þjófurinn þessu næst til borðs, og situr hans frú hjá honum. Hún vill ei annað eta en þann mat, er hann lagði í hennar munn. Og líður svo máltíðin, og mælir hún ekki við hann, en er þó hin blíðasta við hann í öllum atvikum. Og síðan fer hann til sængur og biður sína frú leggjast niður. Hún gerir svo og leggst niður til hans fóta og vill klá hans tær, en hann sviptir henni upp á beddann hjá sér, en hún gnarrar í móti og þrífur sínum tönnum í hans brjóst. En hann hrekur hana, og stökkur hún upp á stólpann og því næst á þvertréð og síðan út um gluggann, og hafði hann hennar ekki meira.

Ólympía fer nú heim í sinn kastala og konungsdóttir með henni, og segir hún henni, hvað kvinna hún er. Konungsdóttir biður hana að fylgja sér til skipa, en hún segist það ekki þora, — „því eg veit,“ segir hún, „að konungurinn er í burt, áður en við þar komum. En mig væntir, að Kvintalín minnist þín, þótt síðar sé. Því skaltu dveljast hér sökum míns fóstursonar Samsons. Vilda eg eigi, að kvennaþjófurinn gerði þér mein.“

Og svo verður, að hún dvelst þar.

Nú er að segja frá Kvintalín, að hann unir illa við sinn hag og vill gjarna á hefnileið róa. Það er nú eitthvert sinn, að jungfrúin er snemma upp risin, og gengur hún til þess lækjar, er fyrr var getið, og þvær sitt hár. Og nú heyrir hún hörpusláttinn sem fyrr, og hleypur hún þegar eftir þeim vonda slag og gleymdi ráðum sinnar fóstru. Og litlu síðar kemur Ólympía hennar fóstra þar hlaupandi og ávítar hana mjög, er hún flakkar svo einsömul úti, — „og sjá nú við, að þér verði slíkt eigi oftar,“ sagði hún, „og skal hann enn fá skapnaðarerindi.“

Og nú hefir hún með sér einn kött og vísar honum á sömu leið sem tíkinni fyrr. Og nú fagnar hann sinni jungfrú enn sem fyrr, en hún mjálmar í móti, og nú þykist hann skilja, að hún muni tala írska tungu. Og fer hann nú í skála sinn og sezt undir borð, og hans frú situr hjá honum og hljóðar einatt nokkuð og er heldur tileygð við hann, en ei skilur hann það. Og því næst fara þau í sína sæng, og faðmar hann sína brúði allmjúklega. Og sem þau eru afklædd, kemur rennandi ein mús undan timburveggnum. En jungfrúin sprettur upp þegar og eftir músinni. En Kvintalín grípur eftir henni og nær í hennar skott og kippir henni ofan í sængina til sín, en hún frýsti ferlega og færði klærnar í hans kinnur, og greip hann þar til, og slapp ketta við það, og er því bröndótt rófa hennar æ síðan, að þar blánaði undan hans fingra stað.

Fara þær nú heim aftur í sinn kastala.

7. Samson fréttir hvarf konungsdóttur og leitar hennar.

Nú er að segja frá Garlant konungi, að hann saknar sinnar dóttur, og er hennar víða leitað, og finnst hún ei og ekki heldur sú hin unga mey, sem hvarf með henni, og liggur konungur þar lengi. En er menn gefa upp leitina, siglir Garlant konungur heim til Írlands, og þótti honum þetta mikill skaði og öllum þeim, er til frétta, en þó dofnuðu þessi tíðindi um síðir. Situr Garlant konungur heima í sínu ríki, og líða svo fram nokkurir tímar.

Þenna tíma var Samson fagri í hernaði og vann mörg frægðarverk og mikið hervirki. En að liðnum þrem vetrum kom hann með liði sínu til Írlands. Bauð Garlant konungur honum til sæmilegrar veizlu, og sat hann þar í miklum fagnaði. Eitt sinn, er þeir voru að drekka, mælti Samson við Garlant konung: „Hvar er frú Valentína, yður dóttir? Þar er sú mey, er eg hefi mikla ást á, eða því er hún ekki hér inni að prýða vort samsæti?“

„Herra Samson,“ segir konungur, „minnið oss ekki á vora harma. Hún hvarf frá oss í Bretlandi í einni eyðimörk, er vér vorum að veiðum, og höfum vér ekki neitt til hennar frétt síðan, og bíðum vér þess aldri bætur.“

„Ei vissa eg það fyrr,“ segir Samson, „eða hvað ætla menn, að þessu valdi?“

„Sumir ætla,“ segir konungur, „að vondar vættir muni hafa heillað hana; sumir ætla, að dýr munu hafa drepið hana eða hún hafi á vötn gengið óvarlega og ein lítil mey, er hvarf með henni, sú er í því landi kom til hennar.“

„Allt er þetta til,“ segir Samson, „en fyrir ástar sakir við hana skal eg fara til Bretlands og vita, hvort eg fæ ekki spurt til hennar.“

Konungur segir sér þökk á því.

Og þegar byr gaf, siglir Samson af Írlandi með öllu liði sínu, gæddur góðum gjöfum af konungi, og er ei getið um ferð hans, fyrr en hann kemur til Bretlands og tekur þar höfn, sem Finnlaugur jarl átti fyrir að ráða. Og er jarl frétti það, fer hann sæmilega á móti honum og bauð honum til virðulegrar veizlu. Það þá Samson, og var hann með jarli nokkura stund.

Það var eitt sinn, að Samson spurði jarl, hversu til hefði borið um hvarf Valentínu konungsdóttur eða hverjar gátur væri um, hvað af henni mundi hafa orðið. En jarlinn kvað öngvan mann það vita. Samson bað jarlinn að vera í ráðum með sér, hversu hún mætti upp spyrjast. En jarl sagði, að hann kynni þar engin ráð til að leggja, — „en það þykir mér ráðlegast að finna þá, sem búa í eyðimörkinni, og hafa þá í leitinni með þér, og munu þeim kunnugust öll fylgsni eyðimerkurinnar. Og einn mann veit eg þar í mörkinni; hann heitir Galinn, mylnumaður, mikill og margra hluta vitandi, en ekki er hann trúr. Og ef þú fær hann í liðsinni með þér, þá mun ei hægt um, ef hann kemur öngu af stað um þetta mál.“

Konungsson tekur nú þetta ráð og vistar menn sína og gengur í mörkina og finnur þá menn, sem honum þótti líklegast til, að hér mundu nokkuð til vita, og kann honum það engi að segja.

Og um síðir finnur hann Galin mylnumann, og var hann við mylnu sína hjá fossinum, og hljóp straumurinn á hana sem hægast, en undir fossinum var hylur djúpur með miklu iðukasti. Galinn heilsar honum og spyr, hver hann væri, en Samson sagði honum hið sanna til, — „og em eg því hér kominn, að mér er sagt, að þú sért margra hluta vel kunnandi, en eg em í eftirleitan eftir Valentínu, dóttur Garlants konungs, ef hún mætti finnast, annaðhvort lífs eða dauð. Vilda eg þar til hafa yðra liðsinni, að þú værir í leitinni með mér. Skal eg gefa þér gull og silfur og mitt vinfengi.“

Galinn svarar: „Þitt vinfengi þykir mér gott að kaupa, en ekki þykir von, að hún muni finnast. Ætla allir, að grimm dýr hafi drepið hana, en eg vil í því einu bindast við þig, þvílíkan mann, að þér mætti til nokkurs koma og eg gæta ent það. En ef hún er á lífi, þá vonar mig hún muni upp verða spurð.“

Samson tekur þá einn fésjóð, og voru þar í tíu merkur gulls, og mælti við Galin: „Þetta fé vil eg gefa þér til vinskapar. Og ef við gætim fundið konungsdóttur, skylda eg gera þig að miklum manni.“

Galinn svarar: „Mikils þykir mér vert fé þitt, en meira vinskapur þinn, en þó við fáumst hér við, veit eg ei, til hvers það kemur. En ef eg em í þessari leit með þér, þá mun hún ei í þessum skógi, ef við finnum hana ei.“

En á meðan þeir voru þetta að tala, stóð Samson á brúnni við fossinn, og tóku þeir nú höndum saman. Og í því finnur Samson ei fyrri til en tekið var um hans báða fætur, og var honum kippt ofan í fossinn. Er þar komin ein tröllkona, og hefir hann ekki afl við hana. En þegar hann kemur höndum við, sviptast þau og koma niður á grunn, og skilur hann, að hún muni ætla að færa hann við grunnið. Og brýzt hann um og getur náð tygilknífi, er Valentína konungsdóttir hafði gefið honum, og setur hann fyrir hennar brjóst og ristir á henni allan kviðinn, svo að hlaupa innyflin; verður áin sem blóð að sjá. Er Samson nú búið við að kafna. Verður hann nú laus og kafar undir iðuna. Finnur hann þar muni hellir nokkur og skríður upp undir bergið. Er hann nú svo máttdreginn, að hann verður nú lengi þar að liggja, áður en hann mátti sig hræra. En er hann réttist við, vindur hann klæði sín, en síðan kannar hann hellinn, og ætlar hann, að hann muni aldri komast fyrir hans enda. Og nú finnur hann einn afhelli. Sér hann þar mikinn varning og marga góða gripi af gulli og silfri. Sæng var þar ágæta væn með fortjaldi og ágætum blæjum. Stag var þar og hnappar af gulli á endunum. Þar voru og á breidd mörg klæði. Þar sér hann kyrtil og möttul Valentínu konungsdóttur. Þar sér hann og hennar djásn, mittisband og tygilsylgju. Hann tekur hér af slíkt sem honum sýndist og gengur síðan hellinn á enda. Finnur hann nú eina steinhurð. Var hún hnigin aftur, en ekki læst, og gekk hann þar út. Vissi hann þá ekki, hvert hann skyldi snúa.

Og á hinum fjórða degi þaðan fann hann fyrir breiðar götur. Gekk hann þá í byggðir manna. Var honum þá vísað til, svo að hann fann Finnlaug jarl. Jarl fagnaði honum vel og spurði, hversu honum hefði farið. Hann sagði honum af hið ljósasta og sýndi honum gripina, og þótti þeim líkast, að hún mundi dauð vera.

Litlu síðar siglir Samson til Írlands og fann Garlant konung og sagði honum af sínum ferðum og sýnir honum gripina, og verða þeir á það sáttir, að hún muni dauð vera. Dvelst Samson þar nokkura hríð.

En er hann hélt burtu, sigldi hann til Englands. Fagnar faðir hans honum vel, og sagði hann honum frá ferðum sínum. Hafði hann aflað mikillar frægðar í þessari ferð. Situr hann nú með föður sínum.

8. Samson fastnar sér Ingínu dóttur Finnlaugs jarls.

Eitt sinn töluðust þeir feðgar við. Konungsson mælti til föður síns: „Svo er komið, faðir,“ sagði hann, „að mig lystir að giftast, og vilda eg þar af hafa yður ráð.“

„Það stendur vel til,“ segir konungur; „munt þú og séð hafa margar ágætar konur, og munt þú gerla vita, hvar þú vilt til leita.“

„Margar meyjar hefi eg séð,“ segir konungsson, „en öngva þá mér virðist betur en Valentína, en önnur Ingína, dóttir Finnlaugs jarls í Bretlandi.“

Konungur segist góða frétt af henni hafa, — „en ei mun eg auka mér ferð, ef þú leitar ekki meira ráðs en einnar jarlsdóttur. Þarftu þar hvorki til minn styrk, fé eða fylgi.“

Skildu þeir svo tal sitt að sinni.

Að vori býr Samson sín skip og sitt lið og siglir í burt af Englandi og er í hernaði um sumarið.

Og að áliðnu sumri siglir hann til Bretlands og lætur setja sín tjöld á land. Jarl fagnaði honum vel og bauð honum þar að dveljast, en Samson segir, að það muni mjög undir honum í því, ef hann vildi gifta sér sína dóttur, frú Ingínu. „Eg vænti,“ segir jarl, „hún muni ei betra gjaforðs bíða,“ — og var þetta auðsótt við jarlinn, en lézt þó vilja heyra hennar svör.

Lét þá jarlinn kalla á dóttur sína og segir henni, hversu þetta mál stóð af sér, og spurði, hver svör hún vildi gefa til. Hún þagði um stund og mælti síðan: „Ei skuluð þér svo virða mín svör, að eg muna færa tregður í þetta mál, því að ei munda eg annan mann kjósa, það eg ætta sjálf um að velja, en hugur minn segir mér svo um, að mér mun ei verða þeirrar giftu auðið, eða hafið þér fulla vissu af því, að Valentína konungsdóttir er dauð?“

Konungsson sagðist ei leiða hug sinn eftir því, að hún mundi lifa.

„Eg vilda og,“ segir jungfrú, „hvorki standa yður fyrir þrifum né henni fyrir heillum né heiðri, en föður míns ráð mun eg ekki á bak brjóta.“

En hvort sem hér er um talað margt eða fátt, þá verða þær endalyktir, að Samson fastnar Ingínu, og er ákveðin brúðkaupsstefna á komanda sumri. Sat konungsson þar litla stund, áður hann siglir til Írlands, og sat þar um veturinn með Garlant konungi. En að vori býst hann til Englands og bauð Garlant konungi til síns brúðkaups og kvað á, hvar þeir skyldu finnast. Konungur hét ferðinni. Og nú siglir Samson til Englands og finnur föður sinn og segir honum frá sínu kvonfangi og biður hann fara til síns brúðkaups. Konungur heitur því. Er nú mikill viðurbúningur, er menn búa sig, og vanda sem mest, bæði skip og vopn sæmilega og vel skikkaða menn og ágæt klæði. En er þeir voru búnir, sigla þeir til Bretlands og náðu ei þeirri höfn, sem þeir ætluðu, og var þá tveggja daga ferð til borgar þeirrar, er Finnlaugur jarl sat í. Þar kom til þeirra Garlant konungur með liði sínu öllu, og varð þar með þeim fagnaðarfundur. Nú fréttir Finnlaugur jarl, að þeir eru þar komnir, og ríður til móts við þá með liði sínu og lét reka í móti þeim marga reiðskjóta. Fögnuðu þar hvorir öðrum. En með því þá var vika til brúðkaupsstefnunnar, þá vilja þeir sitja í sínum landtjöldum, og það líkar jarli vel. Þenna tíma hafa þeir allra handa skemmtan, tafl og burtreiðir, skot og skylmingar, en ríða stundum á skóg að skemmta sér.

9. Kvintalín og Grélant samtaka að forráða Samson.

Nú er að segja frá Kvintalín kvennaþjóf, að hann unir illa við hag sinn og þykist hafa fengið mikla svívirðing og finnur nú föður sinn og segir honum, að hann vill róa á hefnileið. En Galinn segir honum aftur á móti, hvað þeir Samson hefði mælt, og kvaðst ætla, að móðir Kvintalíns mundi hafa drepið hann, — „og skulum við fara til hennar, og mun hún leggja á ráð með okkur.“

Fara þeir nú í hellinn og sakna vinar í stað, og þykjast þeir nú vita, að hún muni dauð og Samson muni hafa drepið hana. „Hvað er nú til ráða?“ segir Kvintalín.

Galinn segir: „Hér skammt frá stendur einn steinn í skóginum. Þar ræður fyrir einn klókur dvergur, er Grélant heitir. Og ef þú gætir sigrað hann, mundi hann eitthvert ráð til sjá að ná Valentínu konungsdóttur.“

Fer Galinn nú til mylnu sinnar, en Kvintalín situr um dverginn. Og eitt sinn getur Kvintalín eygt dverginn utan steins og tekur hann höndum og heitur honum dauða. Dvergurinn mælti: „Lítil fremd er þér það að brjóta í mér mín stuttu bein. Vil eg heldur leysa líf mitt og gera nokkuð það þrek er í og þér er til góðs.“

Kvintalín svarar: „Þá skaltu koma frú Valentínu á mitt vald, og seg mér, ef Samson fagri drap móður mína eða ef hann er á lífi.“

Dvergurinn mælti: „Að vísu er hann á lífi, og hann drap móður þína, og hann hefir keypt dóttur Finnlaugs jarls og ákveðið brullaup. En þó það gengi þar til, er eg kann, þá er ei víst, hvort eg get sigrað Ólympíu, og mun eg lengi þurfa að sitja um þær. En þó mun eg þessu játa heldur en missa steininn.“ — Og vann dvergurinn eið að þessu, og skildu síðan.

Dvergurinn gerir nú eina kerru með undarlegum hagleik og hjálmi, og mætti leiða hana eftir sér. Þar var í sæng og kostur. Situr hann nú um konungsdóttur, en Kvintalín finnur föður sinn og segir, hvað í hefir gerzt og að Samsons sé þangað von. Og nær brúðkaupið skal vera, samtaka þeir nú að forráða Samson, þegar hann kæmi þar við land, og gera stóra tálgröf, þar þeir ætluðu honum að ríða, og herspora um kring.

Þá er fjórir dagar voru til veizlunnar, ríða á skóg allir höfðingjar með mikið lið og senda til borgarinnar mikinn fjölda dýra af þeim, er þeir veiddu á deginum. Samson sér einn fagran hjört í einu rjóðri, svo aldri sá hann annan slíkan. Sýndist honum geislar standa af hans hornum. Hann girnist mjög að fá hjörtinn og ríður undan langt í burt frá sínum mönnum, og vita þeir ei, hvað af honum verður. En þessi hjörtur er svo frár, að furða er að. Koma þeir nú á einn sléttan völl. Nú keyrir Samson hestinn. Og áður en hann kemur í rjóðrið, hleypur hesturinn í tálgröfina og braut sig úr hálsliðunum. Samson hljóp úr gröfinni. Er hann nú kominn á hersporana, og standa þeir fastir í hans iljum. Og þessu næst sér hann, hvar kemur úr skóginum einn dvergur leiðinlegur og leiðir eftir sér gulllega kerru, en ei vissi Samson, hvað í henni var. Og nú hverfur honum hjörturinn. Ei lætur dvergurinn sem hann heyri, þó Samson kalli, og því næst hverfur hann í skóginn, en hersporarnir eru svo þykkt, að Samson er fastur á öðrum, nær hann losnar af öðrum. Og þessu næst kemur fram í rjóðrið einn smásveinn, ríðandi einum asnafola. Sveinninn kallar og mælti: „Þú góður maður, fóru hér öngvir undan fyrir stuttu?“

Samson svarar: „Fyrir litlu fór hér einn dvergur, og rann með kerra á hjólum. En ei vissa eg, hvað í henni var.“

„Vel,“ segir sveinninn, „það var minn húsbóndi og fór með frú Valentínu, dóttur Garlants konungs. Leitar hún eftir sínum unnusta og nefnir hann Samson fagra.“

„Góði vin,“ segir konungsson, „eg em sá sami, en mínir fætur eru svo gaddaðir, að eg get hvergi gengið. Ríð nú eftir þeim, og bið hana skjótt hér koma, og þar til gef eg þér minn skjöld.“

„Fá mér nokkuð það hún megi við kannast,“ segir sveinninn.

Konungsson tekur þá eitt gull og fær honum. „Far þú nú,“ segir Samson, „og kom aftur skjótt.“ Sveinninn ríður nú í skóginn, en því tók Samson ekki folann, að hann var lítill.

Nú víkur sögunni til Valentínu, að það ber til einn morgun, að hún er snemma upp staðin og gengur um garðinn og sér nú kerruna. Ei hafði hún séð áður slíka sýn. Hún gekk þangað og sezt í kerruna, og jafnskjótt fellur svefn á hana. Hefir dvergurinn sig þegar á veg. Ólympía var í svefni. Þetta ber nú allt saman, að þenna sama dag villist Samson frá sínum mönnum með þeim brögðum, sem þeir feðgar höfðu þar til sett og fyrri er frá ritað.

Nú tekur þar til, sem Samson er, að honum þykir sveininum frestast. Hann sér nú, að maður gengur fram í rjóðrið. Kennir hann þar Galin, og heilsar hvor öðrum blíðlega. „Góði vin,“ segir Galinn, „því situr þú svo einmana?“

„Eg em nú lítt við kominn, því mínir fætur eru skemmdir á broddum,“ segir Samson.

„Nú væri þó ei setu efni,“ segir Galinn, „þar einn ljótur og leiður dvergur ekur yðvarri unnustu um skóginn, og er ei í öðru sinni vænna en nú að ná henni.“

„Góði vin,“ segir Samson, „mikið er undir, hvert lið þú vilt mér veita.“

Galinn svarar: „Það hafða eg ætlað að veita þér það lið, að þér skyldi endast að fullu. Og fá mér þitt sverð; skal eg drepa þenna vonda dverg, og bíð mín hér.“

„Mikinn trúskap legg eg undir þig,“ segir Samson, „að eg fæ þér mitt sverð.“

„Eftir dvergnum þori eg eigi vopnlaus,“ sagði Galinn, „og man eg, hvað við höfum við mælzt. En aldri fáum við hana sótt, ef dvergurinn kemur henni í steininn.“

Og nú fær Samson honum sitt sverð og biður hann flýta sér aftur, en hann heitir góðu um og gengur í skóginn, en Samson situr eftir og hefir engi vopn.

Litlu síðar sér Samson, hvar tveir menn ríða fram í rjóðrið alvopnaðir, og þar þekkir hann Galin, en annar var Kvintalín kvennaþjófur. Hann kallar þegar á Samson og mælti: „Illri heill komstu sjálfum þér í þenna stað. Þú hefir drepið mína móður og rænt mínu fé. Og nú skal eg þig drepa og taka þína unnustu.“

Og nú hlaupa þeir báðir af baki og bregða sínum sverðum, en Samson hefir öngvan skjöld og mælti: „GóSi vin, Galinn, fá mér mitt sverð.“

Galinn segir: „Þetta sverð skal ei fjær ganga þér en skyrta þín,“ — og höggva nú til hans báðir senn, og varð Galinn skjótari. Samson snerist undan högginu og fékk sár á herðablaðið, en sverðið stökk út af. Síðan greip hann Galin og vatt honum fyrir það högg, sem Kvintalín hjó. Það högg kom framan á hjálminn og af nefbjörgina og allt andlitið af Galin, svo að hann lá dauður í grasinu. En Samson reif sig af göddunum og greip sitt sverð og hjó til Kvintalíns og klauf skjöldinn að endilöngu og af honum þrjár tærnar, og sneri kvennaþjófurinn þá undan og hljóp á sinn hest. En Samson hljóp á þann veg, sem Kvintalín hafði riðið, og elti hann þar til, er þeir koma á eina völlu. En við enda þeirra vallna stóð sá hellir, sem Samson hafði fyrr í komið, þá hann drap gyðjuna. Þjófurinn hleypir í hellinn, en Samson hjó eftir honum, og varð hann sár á báðum þjóhnöppunum, og tók í sundur hestinn fyrir aftan hann og söðulinn. Og skildi svo með þeim að sinni.

10. Samson finnur Valentínu. Ektaskapur Garlants og Ingínu.

Samson sneri þá aftur á völlinn. Sér hann nú, hvar stendur sú gulllega kerra, sem hann hafði fyrr séð. í öðrum stað sér hann, hvar dvergurinn og ein kona áttu harðan leik saman, svo hvort vill öðru fyrirkoma. Samson hleypur þangað með brugðið sverðið. En þegar dvergurinn sá þetta, kallar hann hárri röddu: „Herra Samson, drep mig ei, eg vil gjarna þér þjóna trúlega, og nauðugur hefi eg misgert við yður. Eg skal það allt aftur bæta, ó, þú hin góða kona, vertu mér hjálpleg.“

Nú þekkir Samson sína fósturmóður, og nú gengur hann að henni, og fagnar hvort öðru, en hún leiðir dverginn til Samsons og mælti: „Gef dvergnum líf, og gef hann í rnitt vald, og má hann okkur að gagni koma.“

„Þér meguð vel ráða lífi hans,“ segir Samson, og nú ganga þau að kerrunni. Þar sefur í Valentína, og ekki veit hún, hvað um hefir liðið. Ólympía vekur hana og mælti: „Sjá nú, hversu lítið verður fyrir að veiða þig.“

En hún svarar: „Hvar em eg komin? En kerru þessa sá eg í morgun, og settumst eg í hana, og sofnaða eg þegar.“

„Sjá nú, hvað um er,“ segir Ólympía.

Nú stendur hún upp úr kerrunni og sér, hvar Samson stendur, og hann hana þekkandi hverfur hvort til annars með ástarkveðju og elskusemi, og var langa stund dags, að þeirra munnar lágu hægt saman, og meir en þúsund kossa mundi hvort öðru gefið hafa. Ólympía mælti: „Herra Samson,“ segir hún, „hversu stendur á um yðrar ferðir? Eða því komuð þér svo sprangandi?“

Samson hefur upp alla sögu og segir, hversu sveinninn dáraði af honum skjöldinn og Galinn sverðið og hversu þeirra viðskipti fóru og hversu þykkt að hersporarnir lágu um skóginn við rjóðrið, — „og eru ekki allir lausir úr mínum fótum.“

„Eg veit,“ segir Ólympía, „að hinn vondi þjófur Kvintalín hefir vilit þig svo sem hans móðir villti yðra unnustu og falsaði af henni öll hennar þing. Og þó hefði hún fengið meiri skömm, ef hún hefði ein verið. Sýndist honum hún það vera, þá bleyðan og kettan komu til hans, og hefir þessi vondi þjófur síðan um setið hana að tæla og kúgað þenna dverg að vera í liðsinni með sér.“

Samson spurði, hverju dvergurinn vildi bæta þann misgerning, er hann hafði gert, en hann sagðist gjarna bæta vilja. „Fylg mér þá til hellis Kvintalíns, og kom honum í mínar hendur,“ segir Samson.

„Ei má eg það,“ sagði dvergurinn, „því þar má engi inn ganga sakir rammra ummæla.“

Og nú sór dvergurinn eiða að vera trúr Samsoni.

Ólympía mælti: „Það þykir mér ráð, að vér farim í vorn kastala.“

Og svo gerðu þau, og græðir Ólympía Samson.

Nú er þar til að taka, er Artús konungur og hans menn söknuðu Samsons og leituðu hans. Og er þeir komu í rjóðrið, þekktu þeir klæði hans og hann dauðan, en andlit hans máttu þeir ei kenna, því það var afhöggvið, og þótti þetta mikill skaði. Þóttist engi vita, hver valda mundi. Kom þar þá Finnlaugur jarl, og þótti honum þetta hinn mesti skaði og kvað Kvintalín þjóf þessu valda mundu og hans föður Galin. Fluttu þeir nú líkið heim og veittu því sæmilegan umbúning og grétu yfir hans greftri, en brúðurin gaf sig fátt um. Það þótti mörgum undarlegt. Síðan var veizlunni snúið í erfi, og reis þar upp prís og gleði. En er hún hafði staðið fimm daga, þá beiddi Garlant konungur sér hljóðs og mælti: „Það vilda eg heyra, Finnlaugur jarl, hversu þér munduð svara mér, ef eg beidda dóttur yðvarrar, frú Ingínu, er nú fyrir skömmu hefir misst sinn unnusta, hvern vér vildum með gulli aftur kaupa, ef mögulegt væri. Hér í móti vil eg gefa mig og mitt ríki.“

Jarl mælti: „Hér er vel til talað,“ — en segist þó vilja heyra hennar svör.

Síðan var hún að spurð og talað fyrir henni þetta mál.

Hún mælti: „Undarlegt þótti mér, að Samson væri svo skammlífur, og annað býður mér minn hugur. En ei skuluð þér svo virða mín orð, að eg beiðumst eftir þessum ráðahag, en lengi hefir mér það minn hugur boðið, að mín afdrif yrði meiri á Írlandi en Englandi. En föður míns ráð mun eg um mína gifting hafa.“

En hvað sem þar er um talað, verður sá endir, að Garlant konungur fastnar Ingínu, og var erfinu nú í brúðkaup snúið, og skorti þar ei glaum og gleði og alls kyns fögnuð. Leið svo fram viku, og gekk Garlant konungur í sæng með sinni unnustu Ingínu, er höfðingjar voru sæmdir sæmilegum gjöfum.

11. Samson kemur heim með frú Valentínu.

Einn morgun talar Ólympía til Samsons: „Svo er nú komið,“ segir hún, „að vér skulum forvitnast, hvað fram fer um höfðingja. Munu þeir hryggvir að yðru hvarfi.“

En Samson segir hún skyldi ráða.

Fara þau nú og Grélant dvergur með þeim. Þenna sama morgun er Finnlaugur jarl og höfðingjar á leikvelli. Nú kemur þar Samson fagri og frú Valentína, Ólympía og dvergurinn, en öllum þykir undrum gegna. Artús konungur fagnaði vel sínum syni og spyr, hví svo mátti verða. En Samson sagði allan tilgang sinnar dvalar. Nú gengur Garlant konungur að Samsoni og mælti: „Margir hlutir verða nú öðruvísi en menn ætluðu, og ei mundum vér svo gert hafa, ef vér hefðum vitað yður á lífi vera. En þar yður þykir misboðið í þessu, þá vil eg, að þér skapið sjálfir ósakaðri minni sæmd.“

„Vel trúi eg,“ segir Samson, „að þér hafið þetta óvitandi gert, og vil eg yðvarn heiður í öngu skerða, ef þér viljið gifta mér frú Valentínu, dóttur yðra.“

En Garlant konungur sagðist það gjarna vilja og svo frú Valentína. Festi þá Samson Valentínu til eiginkonu sér. Skyldi þeirra brúðkaup bíða til næsta sumars. Drukku þeir nú út veizluna, og voru öllum gefnar sæmilegar gjafir, og skildust góðir vinir. Fór Garlant konungur heim til Írlands með konu sína.

12. Fangaður Kvintalín.

Nú situr Samson eftir og talar við Grélant dverg: „Eg vil,“ segir hann, „hafa þinn styrk að hefna minnar svívirðingar á Kvintalín þjóf.“

Dvergurinn segir: „Ef þér komið honum burt úr hellinum, þá mun eg geta fangað hann, en engi má í hellinn ganga.“

Samson fer nú til þess foss, er mylnan stóð við, en aðrir eigu að fylgja dvergnum. Og nú kafar Samson undir fossinn og komst í forhellinn. Vopnar hann sig nú og finnur þjófinn, en hann flýr undan. Samson eltir hann til hellisdyra og náði honum ei. Skelldi Kvintalín aftur í lás steinhurðinni. En er hann vildi í burt snúa, var hann fastur á hersporum þeim, er dvergurinn hafði þar niður kastað. Nú kom Ólympía og dvergurinn með sínum mönnum og höndluðu Kvintalín og höfðu hann heim til Finnlaugs jarls, en Samson tekur allt féð úr hellinum. Þótti öllum undur, hversu mikið fé Kvintalín hafði fengið. Kvintalín bað Ólympíu um líf, en hún sagði, að illt mundi að tryggja hann. Samson mælti þá við Kvintalín: „Fyrir það þú ert nú í mínu valdi, kemur það fram, sem mælt er, að ‚sér grefur gröf, þótt grafi.‘ Skal eg nú, Kvintalín, kvelja þig á marga vega og drepa síðan.“

Kvintalín sagði: „Lítið eykur það yðra sæmd, þótt þér drepið mig. En eg mætta gera þann sóma, að yður væri meiri heiður í.“

„Ekki vil eg kaupa líf þitt til þess, að þú stelir fyrir mig,“ segir Samson.

Þá svarar Ólympía: „Herra Samson, gott er að senda hann þá einhverja ferð, að hann aflaði einhverra góðra gripa og vogi þar til lífi sínu.“

„Hvert skulum við senda hann?“ segir Samson.

Hún mælti við Kvintalín: „Nú skaltu vinna eið,“ segir hún, „að stelast ekki um.“

Síðan vinnur hann eiðinn.

Ólympía mælti: „Nú skaltu fara og sækja þann guðvef, sem fjórar álfkonur hafa ofið um átján vetur, þangað sem sólin skín neðan undir jörðina, þá er hún gengur sem hæst á sumarið, og sváfu aldri á þeim tímum. Þar með skaltu fá tvo gripi aðra þessum samgilda.“

„Vandi mikill þykir mér í þessu,“ segir Kvintalín, „en þó skal þetta til vinna, ef þið látið dverginn fara með mér.“

Látum hér nú standa að sinni.

13. Norðurlanda skipan.

Hér byrjar nú upp annan hlut sögunnar, og tekur þar til, að Goðmundur hét konungur. Hann átti að ráða fyrir austur á Glæsivöllum. Það er austarlega fyrir Risalandi. Risaland liggur til austurs og norðurs af Austurveginum og þaðan til landnorðurs. Þá liggur það land, er Jötunheimar heita, og búa þar tröll og óvættir, en þaðan til móts við Grænlands óbyggðir gengur það land, er Svalbarði heitir. Það byggja ýmsar þjóðir. Þar eru þeir einir, að verða tvö hundruð vetra gamlir, en sjaldan eigu þeir fjölberni. Önnur þjóð er sú, að kallast eigu mennskir menn, en hafa þó fífla náttúru, og er það kallað fjallamannavit, er þeir hafa.

Einn skagi liggur út af hafinu, og þar byggir sú þjóð, er Smámeyjar eru kallaðar. Þær verða ei eldri en fimmtán vetra og eiga börn, þá er þær eru sjö vetra. Óvættir ganga svo ríkt í Jötunheimum, að ef menn tala það af tungu fram, að tröll skuli eiga eitthvað, þá koma þau þegar og taka það.

14. Fæddur Sigurður Goðmundarson.

Það er sagt einhvern tíma, að Goðmundur konungur á Glæsivöllum fór norður til Jötunheima og herjaði á jötna og gerði mikið hervirki hjá þeim. Jötnar fóru í móti með miklu liði, og hélt konungur þá undan út á hafið. Einn dag sigldu þeir fyrir Smámeyjaland og lögðu til hafna. Matsveinar voru á landi að búa mat og fundu við sjóinn þrjár konur, og var ein vænst. „Sjá hér,“ segir einn þeirra, „aldri sá eg fegri mey, og færum hana konungi.“

Hún svarar: „Ei mun þar gott til meyja, sem þú ert fæddur, er þú kallar mig mey, ekkjuna átta vetra, og hefi eg átt tvo bændur, eða hvaða kind er það þú kallar konung?“

„Hann er maður sem vér,“ segir sveinninn, „og skaltu fára með oss.“

Þeir koma fyrir konung og sýna honum konuna, en konungi leizt vel á hana og lagði hana í sæng hjá sér. Konungurinn sat á Smámeyjalandi um veturinn, en um vorið fór hann burt og hafði konuna með sér, og var hún með barni. Og er þeir höfðu ei lengi siglt, tók hún sótt og fæddi sveinbarn mikið og frítt, en sóttin leiddi hana til bana. Konungur hugsaði nú sitt ráð, því þá voru þau lög, að ef konungur eða annar maður ætti barn framhjá konu sinni, skyldi hann hafa fyrirgert fé sínu og ríki, og skyldi hinn elzti son hans það taka og svo konungsnafn, en það barn skyldi þræll vera og allt þess afkvæmi. Tekur Goðmundur konungur nú það ráð, að hann lætur þræla flytja barnið til lands og bað þá svo fyrir að sjá, að það barn yrði honum ei að brigzlum. Þeir færa barnið í fjallbyggð nokkura og vöfðu í líni og létu hjá einn gullhring og lögðu það á millum steina og létu sugu í munn þess og lögðu hellu ofan yfir steinana síðan; fara nú eftir það til skipa, og siglir Goðmundur konungur heim til síns ríkis og getur ei um þetta.

Skammt þar eftir, sem þrælarnir höfðu við barnið skilið, kom þar karl nokkur, hver þar bjó nærri. Hann hét Krókur, en kerling hans Krekla. Þau voru rík og heimsk og höfðu fjallamannavit. Einn dag fór Krókur á skóg að veiða rjúpur. Hann heyrði barnsgrát og fann barnið með þeim búningi, sem þrælarnir höfðu við skilið. Tók hann það og færði kerlingu sinni. Þeim þótti vænt um, því þau áttu ekki barn. Þau kölluðu sveininn Sigurð af sugunni og son sinn. Óx hann þar upp og varð fljótt furðu mikill. Ei var hann þeim stýrilátur, því karl var hálfhræddur við hann. Þau áttu þann einn grip, að þeim þótti betri en allt annað; það var hrútur. Lagður hans var svo síður, að hann dró hann. Hann var með öllum litum, gulls og silkis, klæðis og kolors. Hann kastaði reyfinu þrisvar sinnum á hverju ári.

15. Frá þjófnaði álfkvenna og búnaði Sigurðar.

Í þann tíma réð sá konungur fyrir Jötunheimum, er Skrímnir hét. Hann var þurs, og þjónuðu honum þó allir jötnar og margir aðrir og voru honum skattgildir. Þau Krókur og Krekla luku honum í skatt hvert ár reyfið af hrútnum. Krapi hét þurs einn. Hann átti fjórar dætur. Þær voru hagar á vefsmíði og höfðu lítið verkaefni. Þær vöndust að stela ullinni frá Skrímni konungi. Vissi hann ei, hverju gegna mundi. Það var eina nótt, að konungur heyrði baust nokkuð til loftsins, þar sem ullin var. Gekk hann þá þangað og sá þar álfkonur fjórar, og höfðu búið sér byrðar af skattinum. Konungur tók þær og spurði, því þær legðist á hans fé, en þær buðu fjárlausnir. Varð sú sætt þeirra, að þær skyldu hafa það, sem þær hefði fengið, og gera konungi úr eina skikkju með mörgum litum og náttúrum og sofa ei, fyrr en hún væri fullgerð.

Sigurður óx upp hjá þeim Krók og Kreklu. Hann var illa settur að klæðum. Hempa var honum ger af úlfaldahárum og ofin sem brekánsfletja, hökulskór á fótum af bolrefsskinni loðnu, kylfu í hendi. Fór svo fram, þar til hann var fimmtán vetra.

16. Sigurður færði konungi hrútinn góða.

Það bar til einn dag, að kerling átti að brynna hrútnum. Hann var styggur og rak kerlingu undir. Hún blótaði honum og bað tröll að eiga hann. Sigurður mælti: „Yfirsést þér nú, er þú gefur tröllum þinn bezta grip.“

„Hann skal eg aldri aftur taka,“ segir hún.

„Ei sómir smátröllum að eiga svo ágætan grip,“ segir hann Sigurður, „og mun eg heldur færa hann konungi.“

„Þá muntu aldri aftur koma,“ segir kerling.

„Auðnan mun því ráða,“ segir hann.

Tekur hann nú hrútinn og fer lengi, og koma mörg tröll á móti honum og kalla til hrútsins. En hann segir konungur eigi hann, og lemur hann þau á móti. Hann fer nú þar til, að hann finnur eina kerlingu; hún grét sárt. Sigurður spurði, hvað henni væri. Hún svarar: „Eg deilda við karl minn, og gaf eg hann öllum tröllum, en þau sóttu hann þegar. Og góðu skylda eg þér launa, ef þú gætir honum aftur náð.“

Sigurður mælti: „Muntu traust hafa að geyma hrútinn?“

Hún kvaðst til þess hætta rnundu.

Hann flýtir nú ferðinni og kemur að einum helli. Þar voru inni fjórar álfkonur. Þær höfðu bundið manninn upp á fótunum við einn bríkarbjálka og veifuðu honum á milli sín, svo hann skall á bergið, og mæltu svo: „Ragur fjandi, ekki ertu af voru landi.“ Sigurður drap álfkonurnar með kylfu sinni, en færði kerlingu karl sinn hálfdauðan. Lætur hann nú eftir hjá þeim margar gersemar, er hann hafði haft úr hellinum. Tekur hann nú hrútinn og fer leið sína og biðja þau hann finna sig, þá hann fer um aftur.

Kemur Sigurður nú á jóladagskvöld þangað, sem Skrímnir konungur á fyrir að ráða. Hann gengur í hellinn og sezt niður utarlega. Þessu næst sér hann, að maður gengur í hellinn fyrir konung og kvaddi hann og tekur upp eitt kofur gullbúið. Þar tók hann úr eina skikkju. Það var svo ágætur gripur, að engi fékkst valdari. Hann afhendir konungi og segir dætur sínar hafi sent honum. Konungur tók við og spurði, því þær kæmi ekki sjálfar. En hann sagði þær hefði sér nýtt tafn, — „en ætla að finna yður á átta degi jóla. Mun eg nú fara heim að sinni og koma síðan með dætrum mínum og taka part úr hrút þeim, er Krekla gaf mér og öllum tröllum.“

„Fast hefir þá að henni gengið,“ segir Skrímnir konungur, „og er hann ei smátrölla eign.“

„Satt er það,“ segir Krapi. Sneri hann þá í burt. Og er hann kom í hellinn utarlega, varð Sigurður fyrir honum með hrútinn. Krapi mælti: „Vel verði þér, Sigurður, er þú hefir stytt leið fyrir mér. Hafða eg nú ætlað að sækja hrútinn, er kerling gaf mér.“

„Fjarri fer því,“ sagði Sigurður, „að hún gæfi þér hann, því að hann er konungs eign.“

„Þegi þú, göngumaður,“ sagði Krapi og greip í hrútinn.

En Sigurður sló til hans með stafnum svo hart, að hausinn brotnaði, og flugu úr honum bæði augun, og féll hann dauður niður á gólfið, og var dynkur mikill. Þeir, sem í hellinum voru, fóru til dyranna og sáu Sigurð þar kominn í hellinn. Skrímnir spurði, hvaða hark væri utar í hellinum. En þeir sögðu honum, að hér væri komið eitt barn, — „og fer með mikla gersemi, en ei höfum vér neitt séð skríða slíkt sem hann er, en það ætlum vér, að hann muni hafa drepið Krapa.“

Skrímnir bað kalla Sigurð fyrir sig, og var svo gert. Sigurður gekk fyrir konung, og varð ei margt af kveðjum með þeim. Hann mælti til konungs: „Hér er hrútur sá, er fóstra mín gaf öllum tröllum, en mér þótti hann betur kominn hjá yður. En í hellisdyrum kom að mér einn vondur gaur og vildi taka af mér hrútinn, en eg laust hann með mínum staf, og ei veit eg, nema honum hafi orðið meint við það, því hann stendur ekki upp, og látið nú geyma hrútinn.“

Konungur mælti: „Haf þökk fyrir, og er líklegt, að þér muni gæfulagið vera. Ertu og ekki ættleri, því að Goðmundur konungur á Glæsivöllum er þinn faðir.“

Síðan lét Skrímnir fá honum góð klæði og lét kemba hans hár og setti hann í hásæti hjá sér, og þótti hann þá þegar vera allur annar maður. Var hann þar um jólin og lærði skjótt sið jötnanna.

17. Sigurður býst að finna föður sinn.

Átta dag jóla spurði konungur Sigurð, hvað hann vildi fyrir sig leggja, en Sigurður kvaðst hans ráð um það hafa mundu. „Það þykir mér ráð,“ segir konungur, „af því þú ert sonur Goðmundar konungs, að þú farir hann að finna og vitir, hvort hann vill ekki ganga við þér. Vil eg og fá þér skip og menn.“

Sigurður segist það gjarna vilja, — „en þó verð eg fyrst að finna fóstru mína. Mun eg koma aftur að miðjum vetri.“

Og fór Sigurður burtu síðan, og skildu með vináttu. Kom Sigurður til kerlingar þeirrar, sem hann manninn aftur færði. Hún hét Gnoð, en karl hennar Kritur. Þau fögnuðu honum vel og spurðu, hversu honum hefði farizt. En hann lét vel yfir og sagðist nú skyldu taka ráð af henni. Gnoð kvað það vel gegna mundu: „Hér er höfn góð, og skaltu hér koma, þá þú ferð frá Krók og Kreklu, og vita, ef eg get nokkuru launað þér hjástoðina.“

Síðan fann Sigurður fóstru sína, og fagnar hún honum vel. Hann sagði henni, hvað gerzt hafði í sínum ferðum, og segist nú vilja vitja föður síns, en hún segist þar gjarna vilja til hjálpa. Og er Sigurður bjóst í burtu, fylgdu þau karl og kerling honum til sjóar og fundu eina spónahrúgu. Kerling tók þar úr eitt skip, sem eins manns far, svo fagurt sem á gull sæi. „Þetta skip vil eg gefa þér, Sigurður,“ segir kerling; „það hefir byr, þá segl kemur yfir það, hvert sem sigla vill. Aldri mun það ofhlaðið verða.“

Hún tók reiðann, og reisa þau Krókur og Krekla tréð. Hún tók þá einn legil, — þar á var gott vín, — og gaf Sigurði og bað hann aldri allt af honum drekka, — „og mun hann drjúgur verða.“ Síðan fekk hún honum gull það, sem hann var með fundinn.

Siglir Sigurður nú, þar til er hann finnur Gnoð, og tekur við fé sínu, og að skilnaði gaf Gnoð honum einn staf og sagði mundi hvorki féfátt né orkufátt þeim, sem stafinn bæri.

Siglir Sigurður nú til þess, að hann finnur Skrímni konung, og biður Skrímnir hann þar dveljast. Sigurður segist vilja finna föður sinn og vita, hvað þeim kæmi saman eða hvern sóma hann vildi honum gera. Skrímnir bað hann ráða og fylgdi honum til skips og fékk honum fé og menn, en að skilnaði gaf hann honum sverð gullbúið og skikkjuna góðu, sem álfkonurnar höfðu ofið. Hún hafði margar náttúrur. Hún birti fals kvenna, ef þær fölsuðu bændur sína, eða meyja, sem ódyggilega höfðu heima setið, sem síðar mun sagt verða. Skildu þeir Skrímnir með vináttu, og bað hann Sigurð nefna sig á nafn, ef hann þyrfti nokkurs við.

18. Sigurður finnur föður sinn.

Nú siglir Sigurður burt af Jötunheimum með þessar gersemar. Hann liggur í hernaði um sumarið og vann mörg frægðarverk. Og ávallt, er hann kom í nokkurar nauðir eða vanda, nefndi hann Skrímni konung, og kom hann ávallt að bjarga honum, og var allt sem sjálft ynnist.

Að hausti kom hann á Glæsivöllu til Goðmundar konungs. Hann gengur fyrir konung og kvaddi hann. Konungur tók kveðju hans og spurði, hver hann væri, en hann kveðst Sigurður heita, — „en eg á við yður skylt erindi.“ Síðan fær hann konungi gull það, sem hann var með fundinn, og mælti: „Minnizt þér, hvar þér skilduð við þetta gull?“

Konungur roðnaði mjög við og mælti, er hann leit til Sigurðar: „Skilja þykjumst eg þessa málaleitan. En ei muntu þessa meðferð af sjálfum þér tekið hafa.“

„Það kenndi mér fóstra mín Krekla,“ segir Sigurður; „vil eg nú vita, hvern greiða þú vilt á gera.“

Konungur mælti: „Heimilt skal þér hér allt vera, og ver velkominn með oss. Skal eg vel til þín gera.“

Sigurður þiggur það, og var hann með konungi um veturinn. Gerir konungur vel til hans og setur hann hið næsta sér. Undrast margir, að konungur gefur sig svo mikið að útlendum manni og hefir svo mikið við hann, og öfunduðu Sigurð, en því var það minnst á loft borið, að hann var vinsæll.“

Að vori spurði konungur, hvað hann ætlaði sinna haga eða hvað hann vildi að hafast. „Eg vil, að þér fáið mér styrk,“ segir Sigurður, „og vil eg fara í hernað.“

Konungur segir, að það væri vel stofnað, og fékk honum skip og menn. Og fór Sigurður í víking og herjaði um Bjarmaland, Kirjaland og Smálönd og lagði þessi lönd undir sitt vald.

Hárekur hét konungur á Bjarmalandi. Hann átti dóttur, er Oddný hét. Hennar bað Sigurður, og var hún honum gefin, og sat hann þar að oftast.

19. Frá Sigurði og þeim feðgum Skrímni og Geirröði.

Eitt sumar bjó Sigurður her sinn og vildi finna Goðmund konung, föður sinn. En áður hann sigldi heiman af Bjarmalandi, tók Oddný sótt þá, er hana leiddi til bana, og áttu þau eftir einn son, er Úlfhéðinn hét. Hann óx upp með Háreki konungi. Hann varð kappi mikill. Hann var síðan kallaður Úlfhéðinn einhendi. Hans getur í sögu Sigurðar hrings, föður Ragnars loðbrókar.

Sigurður kemur á Glæsivöllu. Goðmundur fagnar honum vel og spurði, hvað hann ætlaði fyrir sér. En hann kvaðst fara vilja til Risalands og finna Skrímni fóstra sinn, kveðst nú vera konulaus, — „en Skrímnir á dóttur, er Gerður heitir, við dóttur Agða jarls af Gníparlandi. Er það fögur mær og bregður meir í móðurkyn en föður,“ — og spurði föður sinn, hversu honum þætti það stofnað. En hann kvað það ei óráðlegt, — „en þó máttu svo til ætla, að Skrímnir muni fyrirmuna þér að vera konungur yfir Jötunheimum, en gifta mun hann þér konuna, en legg öngvan trúskap undir hann, því þursar eru öfundsjúkir.“

Sigurður siglir nú í Jötunheima og finnur konung að máli og ber upp fyrir honum sín erindi. En hann tók því vel og sagði, að Geirröður son sinn átti ríkið og konungdóm eftir sig, — „en dóttur minni vil eg gefa Smámeyjaland og það ríki, er þar til liggur.“

Kaupir Sigurður nú Gerði og gerir brúðkaup til hennar. En Geirröður, son Skrímnis, var í hernaði. Og er hann fréttir þetta, lætur hann sér þykja illa og fór til Smámeyjalands og herjaði á ríki Sigurðar konungs. En er Sigurður konungur frétti það, fer hann á móti honum með her sinn, og finnast þeir við landamót eða merki, þar sem Garðar heita. Varð þar bardagi, og lauk svo, að Geirröður féll. Heita þar síðan Geirröðargarðar.

En er bardaginn var úti, kom Skrímnir með jötna her, en Sigurður var ei viðbúinn. Voru menn hans færir, en vopn brotin. Bauð hann Skrímni sætt og sjálfdæmi. En Skrímnir vildi það ei, utan Sigurður særi eið, að hann skyldi aldri til Risalands koma, meðan Skrímnir lifði, og gefa honum aftur Smámeyjaland og skikkjuna góðu. En Sigurður dvaldi ei að sverja eiðinn, gekk til og tók í hönd Skrímnis, og átti Skrímnir að segja fyrir griðum. Sigurður gekk aldri svo, að hann hefði ei stafinn kerlingarnaut og Krits. En er Sigurður tók í hönd mági sínum, hóf hann upp stafinn og rak við eyra honum, svo hausinn brotnaði, en augun hrutu úr höfðinu á honum. Skildi þar með þeim mágum vinskapinn.

Tók þá Sigurður Jötunheima og varð þar konungur yfir, — talaði engi maður þá móti honum, — og stýrði hann þar lengi síðan. Sigurður átti son við konu sinni, þann er Úlfur hét. Hann var vænn maður og kurteis og vel að íþróttum búinn. Stýrði Sigurður nú ríki sínu meir en hundrað ár. Kona hans var þá önduð.

20. Sigurður konungur biður Hrafnborgar.

Í þann tíma réð sá jarl fyrir Risalandi, er Asper hét. Hann var ríkur höfðingi. Hans kona var önduð. Dóttur átti hann, er Hrafnborg hét. Hún var væn kona og vel skapi farin. Þótti sá kvenkostur beztur á Austurlöndum. Einu sinni bjó Sigurður konungur ferð sína til Risalands. Hann hafði mikið lið og frítt. En þegar hann kom fyrir Asper jarl, vakti hann bónorð við hann og bað Hrafnborgar dóttur hans. En þeim þótti hann gamlaður. Þó stóð sú ógn af Sigurði konungi, að jarl þorði ei að synja honum mægðanna, og var það að ráði gert, að Hrafnborg var föstnuð Sigurði, og skal brúðkaup þegar vera. Úlfur var þá í hernaði, son Sigurðar konungs. Þótti mönnum það meira ráð, að hann hefði átt Hrafnborgu.

Nú er stofnað til brúðkaups og búizt við á marga vega, yxn drepin og heitt mungát. Skorti þar ei tilföng. Var og á alla vega þeirra til leitað að afla. Fóru menn á skóg að fá perur og plummur og allra handa aldin. Jarlsdóttir var á skóginum. Var hún stundum ein og ein mær lítil hjá henni.

21. Kvintalín fær skikkjuna góðu.

Nú tökum vér þar til máls, að Kvintalín kvennaþjófur og Grélant dvergur eru farnir að enda sína heitstrenging og þraut, er fyrir þá var lögð. Þeir eru nú komnir í Rússíaland í þann sama skóg með sína kerru, sem jarlsdóttir var og fyrr var getið. Koma þeir að jarlsdóttur og setja kerruna nærri henni og ganga í burtu síðan. Jarlsdóttir sér nú, hvar kerran stendur, og sezt í hana. Og því næst féll hún í svefn. Kemur þá Kvintalín og færir hana af klæðum og fór í sjálfur, og með sinni kunnáttu og fjölkynngi skipti hann um liti við hana; biður síðan dverginn að geyma kerruna, en hann fer til skemmumeyja jarlsdóttur og fer svo heim með þeim. Hyggur engi annað en þar sé frú Hrafnborg.

Er nú brúðkaup sett og mönnum í sæti skipað. Skorti þar ei góðan fögnuð, og drukku menn nú með mikilli gleði. En að morgni voru brúðirnar inn leiddar. Birti mikið í höllinni af þeim. Sigurður konungur lætur fram bera skikkjuna góðu. Hafði hún margar náttúrur. Hún birti fals kvenna, ef þær fölsuðu bændur sína, stytti svo á hverri sem hún hafði móti horft, þá hún lét liggja sig, og á sama hátt meyjar falsaðar. En ef þjófur klæddist henni, féll hún á jörð. Nú eru meyjar klæddar skikkjunni, og reyndust þær með miklu falsi.

Því næst var hún fengin frú Hrafnborgu. Hún bað gefa sér rúm, meðan hún kastaði yfir sig skikkjunni, og svo var gert. Sigurður konungur var nær staddur, því honum var mest um hugað. Hann studdist á stafinn hinn góða. Hann var hrumur mjög, því hann hafði hálft annað hundrað vetra. Brúðurin grípur stafinn og steypti konungi áfram, en hún rak stafinn við eyra honum og bað tröll eiga hann, hljóp síðan út með stafinn og skikkjuna, og festi engi hönd á honum. Fann hann nú dverginn, og setjast þeir í kerruna, og hvarf hún skjótt. En þeim varð um felmt, sem inni voru og hjá konunginum stóðu, er hann féll, því hann var þegar dauður. Hlupu menn þá út, og sá engi til brúðarinnar, og engi gat hennar spor rakið. Tóku menn þá til haugsgerðar og vildu þangað færa Sigurð konung. Þá komu tröll og sögðu sér hann gefinn hafa verið í andláti sínu. Tóku þau hann og fluttu til Risalands, og lýkur þar frá honum að segja.

22. Heimkoma Kvintalíns og Grélants dvergs.

Frá Kvintalín er það að segja, að þeir dvergur koma heim með gripina þá, er þeir höfðu aflað. Það var á þeim sama tíma, sem Samson fagri hélt sitt brúðkaup í Rúðuborg á Írlandi. Hélt Garlant konungur þessa veizlu. Þar var Artús konungur, faðir Samsons fagra, Finnlaugur jarl og margir aðrir höfðingjar.

Þenna morgun, þegar brúðir voru inn leiddar, komu þeir Kvintalín og dvergurinn. Kvöddu þeir höfðingja virðulega. En þeir tóku þeim vel og spurðu, hvaða framkvæmd hefði orðið í þeirra ferðum. Þeir taka nú fljótt gripina og sýna þeim, og fannst öllum mikið um og þóttu ágæta góðir; prófuðu þegar list skikkjunnar, og sýndist þar brátt, að fáar voru vel skírar, en þó hæfði hún frú Valentínu vel, en öngri annarri. Síðan leiða þeir fram frú Hrafnborgu, og sagði Kvintalín, hversu hann komst að henni og gripunum. Sýndist öllum hún ágæta væn. Kvintalín gaf Samson skikkjuna, en hann gaf hana sinni frú í bekkjargjöf. Garlant konungi gaf hann stafinn, en Finnlaugi jarli jungfrúna.

Þá mælti Samson: „Betur hefir þú nú reynzt en margir mundu ætla. Og ef þú vildir nú héðan af vel mannast, Kvintalín, þá værir þú maklegur góðra launa.“

Kom það nú ásamt með höfðingjum, að þeir gáfu Kvintalín jarls nafn og ey þá, er Öngulsey heitir, og skal þeim ávallt undirgefinn.

Og gengur nú veizlan út með miklum sóma, og fastnar Finnlaugur jarl sér frú Hrafnborgu og bauð höfðingjum í sitt brúðkaup, og fór nú hver til síns ríkis.

23. Ævilok Kvintalíns.

Nú er að segja frá Úlfi Sigurðarsyni, að hann kom heim úr hernaði og fréttir lát föður síns og hvarf frú Hrafnborgar. Fór hann þá til fundar við Asper jarl. Úlfur segir honum, að hann hafi frétt, að Kvintalín þjófur hafi stolið dóttur hans, en drepið föður sinn, og spyr, hvern styrk jarl vill fá honum til þess, að hann reki þeirra svívirðinga, segir, að Finnlaugur jarl hafi fastnað dóttur hans. En jarl sagðist allan styrk þar til leggja vilja.

Síðan safna þeir liði og sigla vestur um haf og koma þar við land, sem Kvintalín jarl átti fyrir að ráða, og var hann ekki heima og kom þetta kvöld í höfn þá, sem Úlfur var fyrir. Og er Úlfur varð þess var, biður hann menn vopnast, og ganga þeir upp á skipið, og tók jarlinn Kvintalín höndum, en hjuggu menn hans fyrir borð. Síðan fóru þeir til skógar með þenna jarl Kvintalín og hengdu hann upp, og lauk svo hans vondri ævi.

24. Sættir höfðingja.

Nú ætla þeir til fundar við Finnlaug jarl, og rekur þá að Írlandi. Gengu þeir þar á land. Garlant konungur fór á móti þeim, því þeir gerðu þar mikið hervirki. Var fundur þeirra þar, sem Mýrkjölur heitir. Féll þar Garlant konungur. Lagði Úlfur undir sig landið.

Þetta fréttir Finnlaugur jarl og safnar liði og gerir orð Samsoni fagra. Var hann þá í hernaði og lagði undir sig það land, það er Vestfal heitir. Það er partur af Þýzkalandi.

Frú Hrafnborg kom að tali við Ólympíu og mælti: „Lát oss nú njóta vizku þinnar,“ segir hún, „og kom á sættum með þeim Finnlaugi jarli og Úlfi.“

Síðan beiddi Hrafnborg Finnlaug sættast við Úlf og þá Asper jarl. Finnlaugur unni henni mikið og sagði, að Ólympía skyldi mestu um ráða. Voru þá fengnir menn til meðalgöngu. Varð það af sættum með þeim, að Úlfur skal fá frú Ingínu, sem átt hafði Garlant konungur, og skyldi hún hafa þær eignir, er Hrafnborg átti í Rússíalandi, en Asper jarl fékk Ólympíu og tók Írland til forráða, og skyldi það eiga frú Hrafnborg móti sínum eignum.

Fór Úlfur heim með konu sína. Þau áttu son þann, er Sigurður hét. Hann var vænn maður. Og þegar hann hafði aldur til, lagðist hann í hernað og varð ágætur maður. Hann herjaði til Saxlands.

Samson fagri var þá mjög gamall. Hann átti dóttur við Valentínu, er Herborg hét. Hennar bað Sigurður Úlfsson, og var hún honum gefin. Hann varð jarl í Frakklandi. En er Samson fagri frétti lát föður síns, þá fór hann til Englands og tók við því ríki og var þar konungur yfir.

Son áttu þau frú Valentína, er Valtari hét, og gaf Samson honum það ríki, er hann átti í Vestfal. Hann fékk þá konu, er Geirþrúður hét, dóttir hertogans af Brúnsvík. Valtari var hertogi yfir Holtsetulandi.

En frá Sigurði er það að segja, að hann átti son við konu sinni Herborgu, er Úlfur hét. Hans son var Sigurður, er barðist við Blót-Harald og sigraði hann, og fékk síðan Sesselju dóttur konungs af Sikiley, og er löng saga frá honum að segja.

En skikkju þá góðu, sem Samson fagri átti, gaf hann frú Ingínu. En löngu síðar var hún rænt af víkingi þeim, er Grímar hét. Bar hann hana vestur í Affricam. Ein rík frú öfundsjúk, er Elída hét, sendi hana í England Artús konungi, og rís þar af Skikkju saga.


Samsons saga fagra er hér prentuð eftir útgáfu Erik Julius Björner í Nordiska kämpa dater í 1737 og handritinu Lbs. 203 fol. (umþb. 1720–1750)

Источник: Riddarasögur. Bjarni Vilhjálmsson bjó til prentunar. Reykjavík, 1948.

Сканирование: Heimskringla

OCR: Stridmann