Tristrams saga og Ísoddar

1. Af Filippusi konungi á Englandi og börnum hans.

Þá er saga þessi gerðist, hefir sá konungur ríkt yfir Englandi, er Filippus hét; hann var bæði vitur og góðgjarn. Drottning hans er nefnd Filippía; hún var vel að sér. Þau áttu tvö börn; son þeirra hét Mórodd, en Blenziblý dóttir. Þau voru bæði efnileg og atgervismenn hinu mestu og hinu vinsælstu í uppruna sínum. Það er sagt, að konungur unni svo mikið dóttur sinni, að hann vildi henni ekki á móti gera.

Konungur átti þann riddara, er Plegrus hét; hann var fyrir konungi brjóst og brynja í öllum mannraunum. Konungur virði hann og meir en nokkurn mann annan í landinu, þegar leið son hans og dóttir.

Héri hét maður; hann var kallaður Héri hinn hyggni; af því var hann svo kallaður, að hann var manna vitrastur; var hann og mikils metinn af konungi.

Pollornis hét sendimaður konungsdóttur; hún lagði á hann virðing mikla, en hann var hollur og trúr og stundaði til hennar vel og kurteislega.

Nú hefir ríkið svo staðið langan tíma með mikilli sæmd og virðing, þar til að Filippus konungur tók sótt og andaðist. Var um hans lík búið vel og virðulega, sem verðugt var. Þetta þótti mikið öllu landsfólkinu; var það og hinn mesti mannskaði, því að hann hafði verið ágætur konungur.

2. Mórodd til konungs tekinn yfir England.

Eftir þetta kvaddi Mórodd þings, óg hann var til konungs tekinn yfir allt England, og mælti þar engi maður í mót, því að hann var hinn vinsælasti maður. Blenziblý líkaði þetta stórum illa, því að hún þóttist fyrir engan mun síður til komin ríkisins en hann. Er það nú hennar tiltæki, að hún aflar sér liðs og sezt í Skarðaborg að óleyfi Mórodds konungs. Þá var Plegrus riddari kominn í hina mestu kærleika við konungsdóttur, og stýrir hann þá með henni liðinu. Þau Blenziblý draga þá lið saman og fara í mót konungi bæði nótt og dag. Mórodd konungur leitar nú ráðs við sína menn. Héri stóð þá upp og talaði bæði langt og snjallt, kallaði það ókonunglegt að hafa langa ráðagerð um slíkt: „Er það mitt ráð og allra vor, að þér látið skera upp herör um allt yðvart ríki og farið til móts við Plegrus riddara, og sé þá annaðhvort, að þér drepið hann, en tak systur þína til þín, ella leggi hann undir land á yðvart vald.“

Þetta ráð hefir konungur, lætur bjóða að sér liði og fær mikinn her. Mórodd konungur lætur halda njósnum til um her Blenziblý. Njósnarmenn segja konungi, að þau hafi þaðan skammt í brott reist herbúðir sínar á völlum nokkurum. Þá fór konungur með her sinn, þar til er hann sér lið þeirra. Lætur hann þá reisa herbúðir sínar annars vegar við skóginn. Konungur þykist nú sjá, að hann hefir lið miklu minna, og sér engan sinn kost til bardaga. Er það þá ráðs tekið, að konungur sendir menn til Plegrus riddara og býður honum, að þeir skulu ríða á burt og hafi sá þeirra gagn og sigur, er guð vill. Plegrus riddari víkst vel við orðsending konungs og kveðst fús vera að eiga leik við konung.

Nú sofa þeir af náttina. En þegar er lýsti, þá bað Mórodd konungur, að lið hans stæði upp og herklæddist, og svo var gert, að menn vopna sig vel og skjótt. Konungur er og herklæddur og stígur á hest þann, er beztur var í hernum öllum. Og þá er kom á leikvöllinn, þá er Blenziblý þar komin og Plegrus riddari með her sinn, og þegar er þeir finnast, þá ríðast þeir að. Konungur leggur burtstönginni í skjöld Plegrus riddara svo sterklega, að hann gekk í sundur; en af því að hann var góður riddari, fékk hann uppi setið, en spjót Plegrus riddara festi ekki í skildi konungs og renndi út af skildinum og aftur með hestinum, og var búið við, að hann mundi steypast fram af hestinum, en þó gat hann uppi setið. Nú ríðast þeir að öðru sinni, og keyrir hvortveggi hest sinn sporum af mikilli reiði. Þá leggur Mórodd konungur burtstöng sinni framan í söðulboga hinn fremra Plegrus riddara svo hart og sterklega, að í sundur gengu báðar söðulgjarðirnar, og síðan steypti honum ofan, svo að hann kom fjarri niður.

Nú sjá menn Plegrus riddara óför síns höfðingja. Mórodd konungur frétti þá, hvort þeir vildi halda bardaga við hann eða ganga til handa, en þeir kjöru að sættast við konung. Nú ganga menn í milli, hvorratveggju vinir, og síðan sættast þau systkin. Hefir Mórodd konungur þá heim með sér Blenziblý systur sína og Plegrus riddara. Litlu síðar stefndi Mórodd konungur að sér öllum höfðingjum fyrir norðan haf að reyna turniment. Var hann og hinn bezti riddari og hendi mikið gaman að þess konar skemmtan.

3. Blenziblý fær ást á Kalegras riddara.

Hlöðvir hefir konungur heitið; hann var hinn frægasti maður og góður riddari; hann réð fyrir Spanía. Hann kom til þessarar stefnu með mikið lið og frítt, góða riddara og vaska drengi. Með honum var einn ágætur riddari og var þá við aldur; hann hét Patrókles; hann var stórættaður og hinn mesti atgervismaður. Margir komu þangað ríkir höfðingjar og góðir riddarar.

Patrókles riddari átti sér son, er Kalegras hét; hann var á ungum aldri, en þó hafði faðir hans vanið hann við burtreið, og kom svo með þeim, að Patrókles gat ekki setið í söðli fyrir Kalegras, sínum syni. Biring hét fóstri Kalegras; hann var göfugur maður; hann var með Hlöðvi konungi.

Það er nú sagt einnhvern dag, þá er komið var gott veður og skín sól í heiði, — en þar var þá komið ótal riddara, er þangað höfðu safnazt af ýmsum löndum og öllum þar nálægum héruðum, — þenna dag hrósaði Plegrus riddari sér á leikvellinum og hugði gott til, ef nokkur vildi ríða í mót honum. Þetta sér Kalegras og biður föður sinn leyfa sér að ríða að honum, en hann kallar það óráðlegt, sagði hann góðan riddara, — „en þú ert barn að aldri.“

Þetta líkar Kalegras illa og segir fóstra sínum. Eftir það gengur hann fyrir Patrókles og biður hann lofa honum ríða burt; en fyrir bæn Birings þá lofaði hann syni sínum atreiðina.

Nú býr Biring fóstra sinn til burtreiðar. Hann færir hann í brynju örugga og setur hjálm gullroðinn á höfuð honum. Síðan hengdi hann sverð á hlið honum. Hann fékk honum góðan skjöld og skrifaður á [leó] af gulli. Síðan steig hann á góðan hest og tók digra burtstöng í hönd. Nú má sjá langa leið geisla af vopnum hans, er sólskinið var bæði blítt og fagurt. Plegrus riddari býr sig vel bæði að vopnum og hesti.

En er þeir eru búnir, ríðast þeir að, og þegar þeir mættust, þá gekk í sundur skjöldur Plegrus riddara og frá boginn söðlinum. Hann studdi sig við burtstöngina, og gekk hann ekki ofan. Þá ríðast þeir að annað sinn, og leggur Kalegras burtstönginni í skjöld Plegrus riddara og renndi af skildinum í nefbjörgina á hjálmi hans, svo að upp gekk hjálmurinn af höfðinu og þar með hausfillan; og við þetta allt féll Plegrus riddari af baki fyrir Kalegras.

Síðan fer hann og finnur konungsdóttur og segir óför sína. Þá bindur hún sár hans, og á skammri stundu var hann heill, því að hún var hinn bezti læknir. Konungsdóttir gaf honum digran gullhring til atreiðar.

Þá riðust þeir að í þriðja sinn; en sá, er þar væri nærri staddur og sæi atreið þeirra, mundi heyra mikinn gný af rás hestanna og hátt vopnabrak, er þeir keyra hestana með gylltum sporum af miklu afli. Þá kom burtstöng Kalegras í enni Plegrus riddara, svo að inn gekk að heilanum. Reið þá Kalegras aftur til sinna manna. Biring fagnaði vel fóstra sínum og allir hans landsmenn.

Blenziblý konungsdóttir hafði verið í hinum hæstum turnum borgarinnar og sá á leik þeirra. Henni fannst mikið um atgervi Kalegras og kurteisi, því að hann var allra manna skörulegastur og bezt að sér um alla hluti, er vaskan dreng fríddi. Síðan kallaði konungsdóttir til sín Pollornis sendimann sinn: „Eg hefi séð í dag,“ sagði hún, „þann mann, að eg hefi eigi litið hans jafningja, og þér satt að segja þá hefi eg svo mikla ást fellt til hans, að eg má fyrir engan mun annað en nú þegar í stað verð eg að senda þig til fundar við Kalegras, og bið hann koma til mín og seg að eg vil hafa ást hans.“

Pollornis svarar: „Frú, þú munt vera drukkin, er þér mælið slíka fólsku, þar sem hann hefir gert yður svo mikinn skaða, að hann hefir drepið Plegrus riddara, vin yðvarn, er fyrir skömmu settuð þér höfðingja yðvars hers. Lízt mér hitt ráðlegra, að eg fara og drepa hann og færa eg þér höfuð hans; er þá vel hefnt vors manns.“

Hún svarar: „Ef þú fer ekki eftir því, sem eg mæli fyrir, þá skaltu sporna hinn hæsta gálga, þegar er sól rýður á viðu á morgin, ella skaltu hafa annan hinn versta dauða, þann er finnst á öllu Englandi.“

Nú finnur hann, að henni er þetta brjóstfast, svo að varla lízt honum gerningalaust vera. Þá mælti hann:

„Þegar eg veit yðvarn vilja, þá vil eg gjarna fara, hvert er þér viljið mig senda.“

Hún kvað hann þá vel gera, — „og þar fyrir skaltu hafa mína hylli, ef þú fær svo gert, að Kalegras komi til mín, er eg ann meira en nokkurum öðrum manni, þeim er eg hefi séð eða fréttir til haft, og svo bið eg,“ sagði hún, „guð hjálpa mér, að heldur vildi eg bíða bráðan bana en okkra ást bæri í sundur.“

Síðan býr Pollornis ferð sína og lét enga dvöl á vera um ferðina. Þá fór hann þar til, er hann fann Kalegras, og sagði honum orðsending konungsdóttur. Hann tjár fyrir honum kurteisi hennar og fríðleik. Þetta féll Kalegras vel í skap og réðst til ferðar með Pollornis. Síðan fara þeir til skemmu Blenziblý konungsdóttur; hún var þar inni. En þegar hún sá Kalegras, stóð hún upp og lagði báðar hendur um háls honum og minntist til hans. Síðan gengu þau bæði í eina rekkju og sváfu af nóttina. En þótt dagur kæmi, þá týndu þau ekki ást sinni né vingan, heldur er hitt satt frá að segja, að hvort þeirra hafði svo mikla ást og elsku fest við annað, að þau gáðu einkis annars en hvort þeirra hélt um annað. En þótt menn kæmi að finna þau, þá fékkst ekki orð af þeim.

Nú þykir Patrókles syni sínum dveljast og sendir menn til fundar við hann og biður hann koma aftur skjótt, sagði Hlöðvi konung búinn til heimferðar. Nú finna þeir Kalegras og segja honum orðsending föður síns. En þótt faðir hans hefði honum orð sent, þá fór hann því síður, að þeir fengu engi svör af honum. Urðu þeir við svo búið aftur að fara, koma nú og segja Patrókles, að Kalegras er heillaður, — „og hann var svo fanginn fyrir Blenziblý, að hann vildi ekki svara oss.“

Þetta líkar Patrókles illa og segir Biring til svo búins.

Hann svarar: „Eg mun fara að hitta fóstra minn,“ segir hann, „en betur mun vera um hans mál en yður er sagt.“

Hann fer nú, þar til er hann kemur til skemmu Blenziblý konungsdóttur. Þar var Kalegras í slíkum kærleikum sem fyrr var sagt, að hann gáði einkis annars en að halda um hana miðja, en hún veitti honum slíkt embætti í móti, og það má vel segja, að þau unnust meira en þeir, er þá hafast þegar fjandskap við, er skammt líður frá.

Nú leitar Biring orða við Kalegras, en hann gerði því betur til fóstra síns en annars, að hann leit til hans, en ekki fékk hann meira. Hlaut hann heim að fara og segir Patrókles, að hann fær ekki orð af Kalegras: „Legg eg það til ráðs, að þau njótist eftir vilja sínum. Mun hann ráða vilja athæfi sínu.“

Nú ríður Hlöðvir konungur í brott með allt lið sitt, en Kalegras var eftir, og hefir svo sagt verið, að þau væri þar þrjá vetur í skemmunni, svo að þau gengu aldri brott á öllum þeim tíma.

4. Hlöðvir konungur og Patrókles falla.

Það gerðist til tíðinda, þá er Hlöðvir konungur var brottu, að Elemmie konungur af Hólmgarði hafði lagið undir sig Spán og Seran bróður hans; þeir voru báðir miklir bardagamenn. Varð þeim lítið fyrir að sækja landið, er Hlöðvir konungur var ekki heima og kappar hans höfðu allir með honum farið. Varð af því lítil vörn, að engi var höfðingi; leikst þar jafnan lítt, ef allir eru jafnríkir, þótt lið sé mikið.

Þetta fréttir Hlöðvir konungur. Síðan fer hann um allt land og fékk minna lið en þeir bræður. Ræður hann til bardaga við þá. Kvað hann vera skyldu annaðhvort, að hann ynni aftur ríki sitt eða falla ella.

Nú finnst herinn, og tekst þar brátt hin snarpasta orrusta. Ganga hvorirtveggju hart fram. Hlöðvir konungur gekk vel fram og hafði hvorki hjálm né brynju; hann gekk í gegnum fylkingar þeirra bræðra. Þar mátti sjá stór högg, er hann veitti, og margt höfuð mátti þar sjá af bol stökkva, er hann hjó með snarpeggjuðu sverði, og því var líkast til að jafna, þar sem hann fór, sem þá er vargur kemur í sauða flokk eða villigaltur í svína lið. En þó hann væri vel hugaður, þá fékk hann þó ekki við bana sínum gert.

Þá finnast þeir Hlöðvir konungur og Elemmie konungur. Þeir eigast við langan bardaga. Þar kunni hvortveggi vel að hlífa sér með skildi og vega með sverðí, En þó lauk svo þeirra viðskiptum, að Hlöðvir konungur féll fyrir Elemmie konungi, ekki af því að hann væri verri riddari, heldur hitt, að guð, himneskur faðir, leyfði honum ekki lengur að lifa.

Nú sá þeir fall Hlöðvis konungs, er honum höfðu fylgt. En þá sóttu ekki þeirra dæmi, er þegar flýja, er höfuðbendan brestur, og hlaupa á merkur eða skóga, svo hræddir sem þá er geit renn undan fjársauði eða dýr undan hundi eða lítill tittlingur undan snörum hauki eða mús undan ketti eða huglaus dunga undan hvötum riddara eða vöskum dreng, heldur tóku þeir snjallt ráð og skörulegt bragð eftir fall síns höfðingja. Gerðist þá Patrókles höfðingi yfir her þeim, er Hlöðvir konungur hafði frá fallið. Lét hann þá bera það merki fyrir sér, er átt hafði Hlöðvir konungur.

Nú taka þeir til bardaga í sinn annað. Er þá orrusta slíkt eða snarpari og í fyrra tíma, og ekki mátti Elemmie konungur annað á finna en þeir væri spánnýir. Það er og sagt, að Elemmie konungur barðist vel og skörulega og svo Seran bróðir hans og allir þeirra menn. Það er frá sagt, að þessi bardagi væri langur og strangur, og get eg það, segir sá, er söguna setti saman, að dungum eða dáðlausum mönnum, ef þeir væri þar staddir, svo að þeir biði eins höggs, og það hygg eg, að heldur vildi þeir sökkva sér í sjóvardjúp eða fen illt, og heldur get eg, sagði hann, að þeir vildi hafa hvern dauða þann annan, er illur væri, og heldur mundu þeir vilja hengja sig við hið hæsta tré. En Patrókles riddari vildi heldur falla með sæmd en lifa við skamm og sneypu, en þá þótti honum svo, ef hann lifði við það, að hann hefndi ekki Hlöðvis konungs. En svo ber jafnan til, að sá er ekki feigari, þó að hann hætti sér í raun, en hinn, er deyr við öll klæk og ósæmd.

Nú sækir Patrókles riddari vel fram, og margan bol rænti hann höfði, og mörg jungfrú missti síns unnusta fyrir hans sakir. Hann höggur á báðar hendur, og engum mætti hann svo dramblátum, að ekki hlyti að falla eða flýja fyrir honum. Þar kemur að lyktum, að hann mætir Elemmie konungi, og sækjast þeir lengi. Þá höggur Patrókles fyrri til Elemmie konungs, og kom það högg fyrst í hjálminn og klauf hjálminn og höfuðið og búkinn og brynjuna til beltis staðar. Þá brast þegar flótti í liðinu, er Elemmie konungur var fallinn. Eftir það rak Patrókles flóttann, og hans menn drápu hvern mann, er þeir gátu höndum tekið. Þar var þá Seran, bróðir Elemmie konungs, með öðrum flóttamönnum; hann komst á skip við nokkura menn, og höfðu þeir hann ekki í það sinn. En það er frá Patrókles riddara að segja, að hann hefir barizt af svo mikilli karlmennsku, að hann sprakk af sókn, og með þeirri hreysti dó hann við mikinn orðstír. En þar sem þá var komið, máttu þeir þann mestan skaða bíða, og það er sýnna, að þeir fái ekki annan höfðingja honum samjafnan að allri frægð og atgervi, nema guð allsvaldandi gefi þeim formann honum skyldan, og þess er að vænta, að það veiti hann þeim.

Þessi tíðindi fréttast nú víða um land, og þetta kemur til Kalegras, að faðir hans er dauður og Hlöðvir konungur. En þó að hann frétti fall föður síns, þá mátti ekki finna á honum, hvort honum þótti vel eða illa, en þó breytti hann svo til, að það mátti sjá, að honum þótti mikið, því að þá gekk hann brott úr skemmunni. Þá fékk Blenziblý honum skip eitt og menn með, svo að það var vel búið til ferðar.

5. Af falli Kalegras og uppvexti Tristrams.

Nú fór hann með litlu liði, þar til er hann kemur í Spán. Og þegar hann finnur frændur sína og vini föður síns, þá verða þeir honum fegnir og segja honum þau tíðindi, að Seran er aftur kominn og Desixtus bróðir hans, Biðja þeir, að hann skuli gerast höfðingi þeirra, segjast búnir vera að fylgja honum að því ráði, er hann vill upp taka, — „hvort er þú vilt heldur vinna,“ segja þeir, „að drepa þá bræður eða reka þá í brott af landi.“

Kalegras var þessa auðbeiddur. Síðan lét hann safna liði, og varð honum það auðunnið, því að hver sem frétti til hans, þá fór þegar á fund hans. Þóttist sá hver betur hafa, er með meira lið fór til hans en minna.

Þeir Seran og Desixtus spyrja þetta, afla þeir sér liðs og fá minrla lið en Kalegras, og þegar þeir finnast, þá slær þar í bardaga, og snýr brátt mannfallinu í lið þeirra bræðra; varð engi mótstaða af þeirra hendi. Ekki létti Kalegras fyrr en þeir féllu báðir bræður og mestur hluti liðs þeirra, en það, er ekki féll, gekk til handa Kalegras, en hann varð sár til ólífis.

Valtari hét maður; hann var einn riddari og hafði verið eftir með Kalegras á Englandi, þá er Hlöðvir konungur fór heim á Spán og Patrókles riddari með honum, sem fyrr var sagt. Síðan sendi Kalegras hann til Englands eftir Blenziblý; þá fer Valtari. Hann hafði gott skip og hið bezta föruneyti. Létti hann ekki fyrr en hann kom á fund Blenziblý konungsdóttur og sagði sín örindi.

En þegar hún frétti orðsending Kalegras, þá hyggur hún á litlar dvalir, og ekki líður löng stund, áður hún fer til skips með Valtara. En þegar er þau voru til þess búin og byr gaf, var tekið til segls. Gaf þeim vel, þar til sem þau komu í Spán, og verður mikill fagnafundur með þeim Kalegras og Blenziblý konungsdóttur. Síðan reynir hún sárafar hans, og hyggst henni svo að sem þau sár þurfi ekki að binda. Fór það ekki fjarri hugsan hennar, því að hann lifði ekki lengur, síðan er hún kom til hans, en þrjár nætur, áður hann andaðist; og svo rnikill skaði sem mönnum þótti að falli Hlöðvis konungs eða Patrókles riddara, þá þótti þó miklu meiri skaði eftir fall Kalegras, því að hann var bæði ör og stórgjöfull, hægur og eftirlátur við sína menn um alla þá hluti, er þá var hvorratveggju sómi meiri en áður. Þá var lagt lík Kalegras í steinþró, og ekki fannst svo hraustur riddari, er yfir var grefti hans, að vatni mætti halda.

Og um vorið áður Blenziblý fór af Englandi, þá hafði hún orðið léttari, en sveinbarn það var skírt, og var hann kallaður Tristram; hann hafði farið með móður sinni í Spán.

Blenziblý fékk svo mikils lát Kalegras, að hún lifði fár nætur, áður hún sprakk af harmi. Síðan var hún lögð í steinþró hjá Kalegras.

Tókst þetta með undarlegum hætti, enda lyktist með því.

Eftir það tók Biring sveininn Tristram til sín og fóstraði hann. Hann var snemma mikill vexti og fríður sýnum. Biring unni Tristram mikið; svo var hann og elskur að fóstra sínum, að hann vildi jafnan hjá honum vera.

En þegar er Tristram hafði til þess mátt og vit, þá aflaði hann sér sveina þeirra, er honum þótti helzt við sitt hæfi vera að aldri eða afli. Hann fór á skóg um daga með sveinunum. Þeir fremja þar íþróttir margar, skot og sund, skylmingar og burtreiðir og hverja íþrótt aðra, er friðum dreng sómir að kunna, með list og hæversku; en þó var Tristram framar í hverri íþrótt en tveir aðrir, þeir er bezt léku, en hann lék vel við þá, er minna máttu. Hann setti vel lið sitt að vopnum og klæðum, en allt það er hann fékk gaf hann á tvær hendur. Allir unnu honum hugástum, og þar hugðu þeir gott til, að þar mundu þeir hafa góð inngjöld sinna höfðingja, þeirra er fyrr var frá sagt. Svo fer fram, þar til er Tristram var níu vetra. Fannst engi hans jafningi í öllu Spaníalandi, en Biring stýrir landinu, og líkar hverjum manni vel, því að hann var hægur og friðsamur við alla menn.

6. Tristram fellur í víkinga hendur.

Túrnes hét konungur; hann réð fyrir Blakamannavöllum; hann var mikilhæfur konungur og hinn mesti hervíkingur; hann safnar liði miklu; síðan fer hann í Spán og herjar á landið, brennir allt og bælir, hvar sem hann kemur, og eyðir byggðina. Biring safnar liði og fær fátt manna, því að landsfólkið var sumt drepið eða brennt, en sumir flýðu til ýmsa landa. Eftir það fundust þeir; slær þegar í bardaga; en þó að Biring væri gamall, þá hafði hann þó ekki týnt að berjast vel og skörulega. En við það, að hann hafði afla lítinn, en hinir voru skarpir í atsókn og afburðamenn miklir í frækleika sínum, þá var skammur bardagi, áður Biring flýði og allt lið hans, og komst hann á skóg mjög sár, en Túrnes konungur drap hvern, er ekki vildi honum sverja trú sína. Eftir það leggur Túrnes konungur undir sig allt landið.

Það var einn dag, þá er konungur herjaði á land upp og hans menn, að þeir komu þar, er sveinarnir léku í einu rjóðri. Þeir tóku þá og höfðu með sér til skipa. En þá er ríkir höfðingjar fréttu, að synir þeirra voru herteknir, undu þeir illa við sinn kost. Síðan fóru þeir á fund Túrnes konungs og beiddust sona sinna, en hann tók því þunglega, nema þeir gæfi honum fé til, slíkt sem hann kveður á. Það varð af leiki, að þeir leystu sonu sína með slíku fé sem konungur beiddi, en fyrir Tristram buðu þeir ekki svo mikið fé, að konungur vildi hann lausan láta, því að hann þóttist vita, að Tristram mundi stórættaður og konungi mundi af honum uppreistar von, ef hann setti ekki bragð í móti. Konungur frétti hann að nafni eða hverrar ættar hann væri, en Tristram þagði við, og fékk konungur ekki eitt orð af honum. Þá vildi konungur, að hann þjónaði, en það fékkst ekki af Tristram. Nú leitar konungur við menn sína, hve með skal fara.

Þá tók til orða ráðgjafi konungs: „Hér kann eg gott ráð til,“ segir hann, „þú skalt selja hann til þrælkunar vendismanni nokkrum.“

Konungur sagði þetta hið snjallasta ráð, — „og skal þetta upp taka.“

En í þann tíma er konungur fann víking þann, er hann fann verstan, þá lét hann Tristram falan, — „og er hann,“ sagði konungur, „hið bezta þrælsefni.“

Þá kaupa víkingar Tristram með svo miklu verði, að menn vissu trautt dæmi til, að slíkt fé hafi fyrir einn mann gefið verið. Eftir það fréttu þeir hann að nafni eða hverrar ættar hann væri, en þó að þeir hefði keypt hann við miklu verði, fengu þeir ekki heldur orð af honum en konungur. Nú vex víkingum að þessu kapp mikið, að þeir fá ekki þrælkað einn lítinn svein. Þeir leita margs við hann; stundum berja þeir hann með hnefum eða límum, en stundum með stöngum, en ekki að heldur fá þeir svo mikið gott af honum, að vert væri eins pennings. Þá ráku þeir af honum hárið og gerðu honum koll; síðan báru þeir í höfuð honum tjöru. En hann skipast ekki við, nema hann gerði verr.

Það var einn dag, að þeir sigldu gott byrleiði fram fyrir England; þá tók einn þeirra til orða og mælti:

„Því skulum vér hafa fjanda þenna, að oss leiðir ekki af nema illt eitt, og er það mitt ráð,“ sagði hann, „að vér kastim honum utan borðs og launum honum þrályndi sína.“

Þá tók einn maður til orða: „Þetta er,“ sagði hann, „hið versta ráð, að myrða sveininn, og sé eg annað ráð um; þó skulum vér illa við hann skilja; eg sé,“ sagði hann, „hvar liggur skergarður mikill, og sýniÍst mér ráðlegra að setja hann þar eftir, en vér veitum honum ekki berlega bana.“

Nú bera þeir þetta upp fyrir höfðingja sinn. Hann leggur þetta til ráðs, að þéir skyldu kasta honum í skerið, og svo var gert; en það var frá landi svo langt, að fáir voru svo sundfærir, að það gengi í einu sundi, þótt skip væri hjá höfð. En við það er hann þóttist til bana ráðinn, þó hann væri í skerinu, þá fleygði hann sér á sund og lagðist til lands í einni hríð, svo að hann hvíldist ekki á sundinu. Eftir það vindur hann þau hin vondu klæði, er hann hafði. En eg hygg, segir sá, er söguna setti saman, að víkingar hefði svo við hann leikið, að honum væri lítið verk að vinda hár sitt, því að það var ekki til.

Síðan gekk Tristram til skógar, þar til sem hann finnur hjarðarsvein Mórodds konungs.Tristram frétti hann að nafni eða hvar hann væri að kominn eða hver landi réði. En hann sagði nafn sitt, — „ertu kominn á England; konungur vor heitir Mórodd.“

Þeir talast við um stundar sakir, þar til er hjarðarsveinninn var búinn til ferðar og skildist þar við Tristram.

7. Frá dvöl Tristrams á Englandi og íþróttum hans.

Síðan fór Tristram heim til hallar; og þegar hann kom í höllina, þá gekk hann fyrir Mórodd konung og kvaddi hann með mikilli list og hæversku. Mórodd konungur sá til hans og brá við lit, því að hann þóttist kenna á honum yfirbragð Blenziblý systur sinnar. En svo hefir Mórodd sagt síðan, að því hafi hann dulizt við Tristram, að hann var svo herfilega búinn. Mórodd konungur frétti hann að nafni eða hvers son hann væri.

„Eg heiti Tristram,“ sagði hann, „son Kalegras, en Blenziblý hét móðir mín,“ sagði hann, „og er mér það helzt til sagt, herra, að hún væri systir yður.“

En er Mórodd konungur heyrði þetta, stóð hann upp í móti honum og minntist til hans. Síðan setti Mórodd konungur Tristram í hásæti hjá sér. Síðan frétti Mórodd konungur, hverju gegndi um ferð hans, — „eða með hverjum hætti komstu hingað til lands?“

Þá sagði Tristram konungi allt um ferðir sínar. Mórodd konungur harmaði hann mjög og margir aðrir, þeir er verið höfðu ástvinir móður hans. Þá lét Mórodd konungur lauga hann og fá honum dýrleg klæði. Konungur lagði ást svo mikla við Tristram, að hann mátti ekki betur gera til hans, þó hann væri hans eingabarn.

Tristram hafði hinn sama hátt sem fyrr; hann aflaði sér sveina, þeirra er við hans hæfi voru. Þeir fóru á skóg um daga og frömdu íþróttir: skot, sund, burtreiðir og alls kyns íþróttir, er ríka höfðingja fríða. En þótt Tristram hefði lengi þolað vos og vandræði, þá hafði hann þó ekki að heldur týnt list þeirri og hæversku, er hann hafði numið af Biring fóstra sínum. Svo kemur sem fyrr, að hann fær ekki þá tvo jafnaldra sína, að við honum mætti um neinar íþróttir.

Mórodd konungur hendi mikið gaman að burtreið, sem fyrr var sagt. Hann hafði það jafnan til skemmtanar, að riddarar hans frömdu þess kyns íþróttir, en þó var engi sá innan hallar né í öllu Englandi, er setið fengi í söðli fyrir Mórodd konungi.

Tristram Kalegrasson vex nú upp með mikilli sæmd og vírðing, fyrst af konungi sjálfum og öllu stórmenni og þar með af öllu landsfólkinu út í frá. Nú fær Tristram enga viðstöðu að íþróttum, þar sem sveinarnir voru. Þá freistar hann að leita að ríða í mót riddurum konungs, leitar þeirra fyrst, er léttastir voru, en þó kom svo því máli, að engi fékkst sá riddari í höll Mórodds konungs, að uppi fengi setið fyrir honum. En þó hann væri fyrir þeim að allri atgervi, þá óx þeim ekki öfund á því, heldur fögnuðu allir hans giftu, því að hann gaf þeim gull og gersimar.

Það var einn góðan veðurdag, að Mórodd konungur lagði að máli við Tristram:

„Nú vil eg reyna, frændi,“ sagði hann, „hvort þú ert svo góður riddari sem menn halda mikið tal af eða er það gyllt meir í hóli en efni sé til. Mun eg það fyrir satt hafa,“ sagði konungur, „ef þú stingur mig snart ofan, þá muntu óafléttur verða, hvar sem þú kemur með hinum beztum mönnum.“

„Herra,“ sagði Tristram, „það er ójafnlegt, því áð þú ert hinn bezti riddari, svo að ekki finnst þinn jafningi í öllu Englandi og þótt víðar sé kostað að leita. En fyrir þá sök, herra, að eg veit góðvilja þinn til mín, þá vænti eg þess, að þér munið heldur vilja kenna mér íþróttir en gera til spotts við mig, þó að yður þyki gaman að stinga slíka ölmusu ofan sem eg er, því að þér vitið, að eg er barn að aldri, og hefi eg ekki freistað mín, svo að mark sé að. Þótt riddarar yðrir hafi leikið við mig, þá vissa eg, að þeir máttu gera slíkan minn kost sem þeir vildu; en þó þeir segði yður, herra, að eg fellda þá af baki, þá gerðu þeir það til þess, að þeir vildu, að yður líkaði því betur til þeirra.“

Síðan lét Mórodd konungur búa hest sinn og svo Tristram, og fyrir engan mun lét konungur Tristram hafa verra hest né annan búnað en sjálfan sig. En þá er þeir voru albúnir, sté hvor á sinn hest, og þeim voru fengnar sterkar burtstangir. Þar voru sett í framan járn, svo að festa mátti í skjöldunum. Nú ríðast þeir að, og má þar sjá margan mjúkleik, er þeir fremja á hestunum allan daginn, en þó stökk hvorgi þeirra ofan fyrir öðrum; það máttu þó allir sjá, að Tristram átti alla kosti undir sér að fella konung af baki; en þó lét Tristram það ekki á sannast, þótti það sín sæmd, að það væri allt æðst látið, er til konungs heyrði.

Svo er sagt frá Tristram Kalegrassyni, að hann var hár á vöxt, herðibreiður, miðmjór, þykkur undir höndina, breiður í bringunni, digrir handleggirnir og miklir aflvöðvarnir upp að öxlinni, en heldur mjóvir fram að hreifunum, og þó beint í bjór, höndin fögur og ekki alllítil, lærin digur og hörð viðkomu, hátt til knésins, kálfinn furðulega digur, en fóturinn forkunnlega fagur. Það er sagt, að Tristram hefði þá selt kollinn, og hafði hann vel um keypt, því að nú hafði hann hár mikið; það var svo fagurt sem á gull sæi, en svo sítt sem bezt sómdi. Hann var snareygur, og brýnnar voru jafnt litar sem hárið, meðallagi langleitur. Andlit hans var hvítt sem lilja, en roðinn í kinnunum sem rósa. Hann var glaður og lítillátur við alla sína menn, en harður við þjófa og illræðismenn. Hann var ör og stórgjöfull, svo að hann sparði við engan mann fé. Numið hafði hann allar íþróttir, þær er hann hafði spurn af, að þeir hefði, er frægastir voru í allri heimskringlunni. Nú er það skjótast að segja af list hans og hæversku og allri atgervi, að ekki fannst sá maður í allri veröldunni, að hans jafningi væri, og ekki mundi svo vitur maður finnast, að hann mætti sig framar kjósa en Tristram var um allt.

Í þann tíma kom Biring í England sem stafkarl. Tristram varð honum feginn, því hann þóttist hafa fóstra sinn úr helju heimtan og hvor þeirra annan. Tristram fékk Biring góð klæði og mikið fé og setti hann sem sjálfan sig. Að honum var Tristram hin mesta ráðastoð, því að hann var hinn vitrasti maður.

8. Tristram særist og fer til Írlands.

Þá er þetta var tíðinda, hafði sá konungur ríki yfir Írlandi, er Engres hét. Móðir hans hét Flúrent, en Ísodd hin fagra hét systir hans. Hún var fríðari hverjurn kvenmanni; hún var svo fögur, að menn sá ekki lýti á henni, og ef það skyldi þora að segja, þá þótti mönnum geislar skína af augum hennar og andliti. Hár hennar var svo mikið, að hún mátti hylja sig með, þá er hún leysti það úr gullböndum, en hár hennar var því fegra en gull, er gull er fegra en járn. Hún var vitur og vinsæl, ör og stórgjöful; hún hafði þá list, að hún var meiri læknir en nokkur kona önnur, sú er menn höfðu fréttir af í þann tíma.

Sá maður var með konungi, er Kæi hét hinn kurteisi. Hann var kær konungi, en þó lagði hann þar til oftar sín ráð, er flestum þótti verr, og þó var hann helzti mikils ráðandi, því konungur mat hann mikils, þótt því væri illa komið.

Engres konungur var víkingur og hinn mesti fullhugi; hann herjaði á Englandi og hafði óflýjanda her. Þar var með hernum þær Flúrent móðir hans og Ísodd hin fagra. Þetta fréttir Mórodd konungur. Síðan sagði hann Tristram, við hvern vanda hann var kominn.

Tristram svarar: „Herra, eg skal fara í móti Engres konungi, því að mér þætti mál að reyna mig, hvort eg kynna að vega með sverði eða hlífa mér með skildi, og vita, hvort eg mætta sjá mína óvini og þína með spjóti særða.“

Síðan lét Tristram skera upp herör og fær mikið lið. Engres konungur fer herskildi yfir allt landið, brennir allt og bælir, hvar sem hann kemur, þar til sem þeir Tristram finnast.

Nú fylkja hvorirtveggju, og hefir Engres konungur miklu meira lið. Tristram eggjar nú sína menn, biður þá gefast Vel, segir þá ekki skuli skorta fé, ef þeir hafa sigur. „Og með því,“ sagði hann, „að vér fallim, þá er betra að eiga það orð eftir, að vér höfum drengilega dugað.“

Nú lýstur saman fylkingum, og tekst þar hin snarpasta orrusta. Engres konungur fylgir vel fram merkinu, og hann berst af hinum mesta hvatleik, því að hann var hinn mesti kappi og framgjarn í öllum mannraunum. En það er að segja frá Tristram, að hann ríður í gegnum fylking Engres konungs og drap menn hans á tvær hendur, og hvorki mátti lit sjá á honum né hesti hans, því svo var sem hvortveggi væri í blóði þveginn. Þeir berjast allan þann dag, en að kveldi setja þeir grið, og eru bundin sár manna. Hefir heldur leikizt á Tristram, og unir hann við það stórilla.

En þegar vígljóst var um morguninn, þá herklæðast hvorirtveggju, og tókst þá bardagi slíkt hið snarpari en fyrra daginn. Skortir þar ekki stór högg og skothríð bæði snarpa og langa. Þar má sjá skotið pálstöfum stórum og hvössum atgeirum og sáreggjuðum flettiskeftum. Engres konungur gekk vel og skörulega fram í orrustunni, sem hann ætti margra fjör, og vinnur Tristram svo mikinn skaða, að hann fellir hvern, er spjót hans tekur til. En þar sem Tristram situr á góðum hesti með gylltum hjálmi, smeltum skildi, hvössu sverði, en með hörðum hug og karlmannlegu hjarta, þá sér hann fall sinna manna, og það eirir honum illa; víkur síðan hestinum þangað, er hann sá Engres konung fella sína menn, svo sem hann væri í skóg kominn og hyggi hvert tré, er fyrir honum varð.

Tristram ríður nú fram með mikilli reiði; hann mætir merkismanni konungs og Ieggur til hans spjóti og í gegnum hann. Síðan fleygir Tristram honum dauðum af spjótsoddinum; hann höggur niður merkið. Eftir það ríður Tristram að Engres konungi. Tristram leggur spjóti til hans, og kom í skjöld hans og spratt úr skildinum og bar hjá konungi, en konungur missti Tristrams. Þá ríðast þeir að í annað sinn, og leggur Tristram enn til konungs, og kom í skjöldinn og spratt af skildinum og á bringuna og þar á hol og út undir herðablaðið, en spjót konungs spratt úr skildi Tristrams, og varð hann ekki sár. Þá gekk spjót Tristrams af skaftinu. Síðan ríðast þeir að í þriðja sinn, og höggur Engres konungur til Tristrams og klauf hjálminn, og varð Tristram sár í höfðinu mjög, og brotnaði skarð í sverð konungs, en það, er brotnaði, dvaldist eftir í höfði Tristrams, og er það sýnna, að það komist ekki þaðan, nema guð allsvaldandi sendi honum þann lækni, er beztur er í allri veröldunni. Tristram hjó í móti til konungs, og kom á öxlina hægri og tók af höndina og síðuna alla, svo að í mjöðminni nam staðar, og féll konungur dauður af hesti sínum. Þá æptu menn Tristrams siguróp, en flótti brast í lið Engres konungs. Tristram rak flóttann og hans menn svo harðfenglega, að þeir drápu hvert mannsbarn, er þeir fengu náð. Eftir það snúa þeir heimleiðis.

Mórodd konungur varð mjög feginn Tristram. Sár hans hafðist illa, og var það að vonum, er járnið stóð í höfði honum, því að ekki fannst sá læknir, er því kæmi í brott. Tristram varð máttlítill og banvænn, og þykir hann nú öllum ráðinn til bana. Síðan biður Tristram Mórodd konung fá sér skip og menn. Konungur spyr, hvað hann vildi.

„Eg vil,“ sagði hann, „fara brott héðan, og fá mér skip gott og á sextigi manna. Þeim skal svo vera háttað, að sumir skulu vera bræður eða fóstbræður eða frændur, en allir skulu þeir vera í nokkrum venzlum saman bundnir.“

Konungur lætur þetta þegar uppi, og var búið skip og menn, eftir því sem Tristram sagði fyrir. Og er hann var búinn, fór hann til skips og menn hans. Draga þeir segl við húna og sigla þegar í haf. Þeim gaf vel, þar til er þeir komu mjög svo að Írlandi. Þá kallar Tristram til sín einn félaga sinna og mælti til hans:

„Vittu,“ sagði hann, „að hér er einn maður í skipinu, að heldur er illa til þín.“

Hann spyr, hver sá er.

Tristram nefnir til einhvern mann, þann er honum sýndist. „Eg er þess vís orðinn,“ sagði Tristram, „að hann vill bana þinn, en eg segi þér af því, að hann er mér falari en þú, að hann fái illt af, og er það mitt ráð, að þú þolir honum ekki ósæmd og drepir hann.“

Nú þykist hann ekki mega við dyljast, að þetta muni svo vera sem Tristram sagði; hann leitar sér ráðs, og þegar honum þykir helzt færi á, þá höggur hann til þess, sem Tristram hafði honum frá sagt, og klýfur hann í herðar niður. Þetta sér hans fóstbróðir og vill hefna síns félaga. Síðan stendur upp hver að öðrum, og svo kemur því máli, að þar slær í bardaga, og fellur þar hvert mannsbarn nema Tristram; en þeir, er honum þóttu lífvænir, þá skreið hann til og drap þá alia, svo að hann lifði einn eftir. En fyrir því að honum varð auðið lífstunda lengri og hitt annað, að veður stóð að landi, þá varð skipið landfast undir honum og ekki langt frá því, að Flúrent drottning átti aðsetu.

9. Ísodd fagra græðir Tristram.

Sá maður var með drottningu, er Kollur hét; hann iðnaði það, er hann var ættborinn til, og ekki vissi hann þann sinn frænda, er aðra iðn hefði haft: Hann gætti svína og var þræll fastur á fótum; en svínahúsinu var svo komið, að það stóð við sæ. Flúrent drottning hafði svo fyrir mælt, að Kollur skyldi henni fyrst til segja, hvað sem hann sæi í tíðindum.

Svo bar til þann morgin, að Tristram hafði komið við Írland um nóttina, að Kollur þræll gekk til sjóvar; hann sá, hvar skip var komið við land. Þetta þótti honum tíðindi, því að þar var engi höfn, en skipið var rekið flatt upp. Hann sá ekki tjöld á landi og enga menn á skipinu. Það verður honum fyrir, að hann gengur þangað, er skipið var upp rekið. Hann kallar út á skipið og fréttir, hvort nokkuð sé manna á skipinu; hann fékk engi svör í móti. Þá gengur hann út á skipið. Þar sér hann liggja mannsbúka um allt skipið. En þegar hann sér þetta, þá hefir hann á rás og þótti sá sinn fótur meira góðs verður, er þaðan komst fyrri á brott. Hann létti ekki fyrr sinni ferð en hann kom til Flúrent drottningar; hann sagði henni, hvað hann hafði séð. Hún biður hann fá sér eyk og bera klæði í vagninn. Hann gerir sem hún mælti. Síðan sezt hún í vagninn og Ísodd fagra, dóttir hennar. Kollur leiddi eykinn þar til; sem skipið lá. Þá ganga þær úr vagninum og á upp skipið. Drottning frétti eftir, hvort nokkuð lifði á skipinu, það er henni mætti andsvör veita.

Tristram svarar: „Ekki ræður um það.“

Hún spyr hann að nafni, en hann sagði til slíkt, er honum sýndist. Hún spyr, ef hann er græðandi. Hann kveðst það víst ætla. Hún biður Ísodd fögru græða hann. Eftir það bera þau hann í vagninn, og er hann ekinn til þeirrar skemmu, er Ísodd fagra átti.

Eftir það laugar hún hann og reynir sárafar hans. Hún finnur járn í höfði honum. Það tók hún í brott og gekk til kistu sinnar. Hún tók sverð það, er Engres konungur hafði haft, þá er hann féll fyrir Tristram. Síðan ber hún járnið við skarðið, er í var sverðinu.

Nú skilur hún af samvizku sinni, að það átti vöxt saman, járn það, er hún tók úr höfði Tristrams, og skarðið í sverðinu. Hún varð þá æfar reið og brá sverðinu og ætlaði þá að hefna bróður síns, þótt hún væri heldur kona en karlmaður. Og í því er hún reiddi upp sverðið, þá tók Flúrent drottning allt saman, hendur Ísodd og meðalkafla á sverðinu, og stöðvaði svo höggið fyrir henni. Flúrent drottning bað hana græða Tristram, en veita honum ekki skaða, og við bænir hennar þá gaf hún ró reiði. Hún fægir þá sárið og skar úr það, er dautt var. Síðan bar hún á smyrsl og heilivog. Þá þótti honum þegar taka úr allan sviða sárinu. Flún bjó honum hæga rekkju. Eftir það sofnar hann. Nú færist brátt gróður á sárið.

Hún frétti Tristram, hverju gegndi um ferðir hans, en hann sagði henni allan atburð um ferð sína, frá því er hann fór heiman og þar til er hann kom við Írland.

Hún segir: „Þú hefir mikinn skaða gert Mórodd konungi, frænda þínum, er þú lézt menn hans drepast niður, en suma drapstu, og varstu þó hálfdauður.“

„Nei, frú,“ sagði hann, „þeir voru allir til valdir, er sízt var skaði að, þó að engi kæmi aftur.“

Þau skilja nú tal sitt að sinni. Hún græddi hann, svo að hann varð heill maður. Henni fannst mikið um vænleik og atgervi Tristrams, og þótt hann hefði drepið bróður hennar og unnið henni mikinn skaða annan, þá vildi hún þó heldur eiga Tristram en nokkurn annan, þann er hún hafði fréttir af.

10. Tristram vegur dreka. Ísodd gefin Móroddi.

Það er sagt, að dreki einn mikill lá í fjalli því á Írlandi, er Sukstía heitir; hann var hinn mesti spellvirki; bæði var hann skæður á menn og fénað. Engres konungur hafði þess heit strengt, að hann skyldi þeim manni gifta Ísodd hina fögru, systur sína, er þann spellvirkja fengi af ráðið. Flúrent drottning bauð vörnuð á því, að engi maður skyldi svo djarfur vera, að Tristrams segði til ormsins, því að henni þótti ekki örvænt, við það að Tristram var framgjarn í mannraunum, að hann mundi á hættu leggja, ef hann fengi af ráðið orminn. Tristram varð þess var, að hvert kveld var þar fé byrgt í grindum.

Sá maður var með hirðinni, er Dísus hét; hann var hirðmaður Flúrent drottningar. Það var einn dag, að þeir Tristram og Dísus voru úti staddir, þá frétti Tristram, því það sætti, að þar er byrgt fé í grindum, þegar út hallar. „Eg veit og,“ sagði hann, „að menn varast að verða úti staddir, þegar aftnast.“

Dísus svarar: „Ekki er oss leyft að segja þér, hvað til þess ber.“

„Hver hefir bann fyrir það lagt?“ segir Tristram.

Dísus svarar: „Flúrent drottning.“

Tristram bað hann segja sér.

Dísus gerði svo, að hann sagði Tristram til drekans.

En þegar hinu sömu nótt stóð Tristram upp og fékk sér hest. Hann setti hjálm á höfuð sér og gyrti sig sverði, skjöld hengdi hann á hlið sér, og spjót í hendi. Síðan ríður hann þar til, er Dísus sagði honum, að drekinn lægi í einum helli. Tristram bíður niðri fyrir hellinum, þar til er drekinn fer að drekka; þá steig hann af hestinum. Hann lét hestinn vera í milli sín og hellisins. En í það mund, er ormurinn ætlar að fljúga út af hellinum, þá leggur Tristram spjótinu undir bægslið, svo að í hjartanu nam staðar. Og í því er hann fékk lagið, þá féll hann ofan í gljúfrið, er fyrir hellinum var, en hestur Tristrams varð undir honum. Og ef hann hefði setið á baki hestinum, hefði hann aldri sól séð síðan, og það er líkara, að hann hafi ekki til einskis undan dregið. Þá sæfðist drekinn, svo að spjótið stóð í sárinu. Svo hafði ormurinn fast höggvið klónum í hestinn, að inn hafði gengið milli rifjanna. Þá sker Tristram sega af tungu ormsins og kom í púss sinp. Eftir það fer hann heim til hallar og leggst til svefns og lét sem ekki væri í orðið. Hann svaf af náttina, en um morguninn, er hann vaknaði, þá hafði slegið eitri út um pússinn og í lær honum.

Kæi hinn kurteisi hafði orðið var við, að Tristram hafði drekann af ráðið. Hann fór til ormsins og skar af tungunni einn sega. Þá fór hann heim og sagði, að hann hefði drepið orminn. Flúrent drottning kvað það lygi. Hún sá, að Tristram var fölur og drakk lítið. Þá spurði hún, hvað honum væri til meins. En þá var svo á gang komið, að hann mátti fyrir engan mun dylja lengur. Þá sagði Tristram henni, hvað til bar. Hún fór þegar að finna Ísodd og bað hana græða Tristram. Hún gerði svo, og varð allt að skera, það er eitrið hafði við komið. Hún létti ekki fyrr við en Tristram var gróinn í annað sinn. Flúrent bað taka Kæa hinn kurteisa og hengja við hæsta tré.

Tristram svarar: „Nei, frú,“ sagði hann, „það hæfir ekki, því að hann hefir lengi þjónað yður. Gerið hitt heldur, að þér látið hann fara brott af Írlandi, en síðan komi hann aldri aftur, meðan yðvart ríki er yfir landinu.“

Flúrent hefir þetta ráð. Fór þá Kæi í brott og kom ekki aftur síðan, sem drottning mælti fyrir. Flúrent drottning bauð Tristram Ísodd fyrir það hið mikla þrekvirki, er hann hafði drepið orminn.

Tristram svarar: „Ekki vil eg það,“ sagði hann, „því að eg veit hann manninn, að henni sómir að eiga; en þetta er henni of lágt.“

Hún frétti, hver sá væri.

Tristram svarar: „Mórodd konungur, frændi minn,“ sagði hann.

Drottning svarar: „Dóttir mín þarf aldri betra en þig,“ sagði hún.

En drottning fékk ekki af honum meira um þetta mál.

Þá bað Tristram Flúrent drottning fá sér skip og menn, — „og vil eg fara heim í England að finna Mórodd konung, frænda minn.“

Hún lætur uppi allt það, sem Tristram beiddi; hún fær honum sextigi manna; þeir voru allir vel búnir að vopnum og klæðum; skipið var og gott, og allur reiðinn var nljög vandaður. Flúrent drottning gaf Tristram mikið fé, gull og silfur og marga ágæta gripi, sem verðugt var fyrir þrekvirki það, er hann drap orminn.

En er Tristram var búinn, létu þeir í haf, og gaf þeim vel, þar til er þeir koma við England. En er Mórodd vissi komu Tristrams frænda síns, þá lét hann beita vögnum í móti þeim. Konungur settist og sjálfur í vagninn og lét aka sér til sjóvar. En er þeir finnast, frændur, varð Mórodd svo feginn, að hann fékk ekki vatni haldið, og þóttist Tristram hafa úr helju heimtan í axinað sinn. Síðan lét Mórodd konungur búa prýðilega veizlu og fagnaði svo Tristram frænda sínum. Þá frétti Mórodd konungur Tristram, hvar hann hefði verið. Tristram segir honum allt um ferðir sínar og svo hvar hann hafði verið og svo hver hann hafði grætt. „Og hefi eg, herra,“ segir hann, „drepið orm þann, að Flúrent drottning bauð mér dóttur sína Ísodd hina fögru, en eg skal fara, herra, og biðja hennar yður til handa.“

Mórodd konungi féllst þetta vel í skap.

Eftir þetta lét Mórodd konungur búa ferð Tristrams. Hann hafði þrú skip og öll vel skipuð og allgott föruneyti. Konungur sjálfur leiðir Tristram til skips og margt annað ríkismanna. Skiljast þeir nú með hinum mestum kærleikum. Síðan fer Tristram, þegar byr gaf. Þeim fórst hið bezta, þar til er hann kemur við Írland. Og er Flúrent drottning varð þessa vör, þá sendir hún þegar til móts við hann og býður honum heim til veizlu með allt lið sitt. Þetta þekkist Tristram, fer til hallar með helming liðs, en helming liðs lét hann gæta skipa. En er hann kom heim til hallar, og tók Flúrent drottning báðum höndum við honum og setur hann í hásæti. En þá er hann hafði þar verið þrjár nætur, þá bar hann upp örindi sitt við þær mæðgur. Þetta varð Tristram auðflutt, því að þær viku til hans ráða, en gat Ísodd þess, að ekki væri örvænt, að gætist af henni, þótt hann bæði hennar sér til handa. En það fékkst af honum ekki heldur en fyrr. Kom þá svo máli, að Mórodd konungi var heitið konunni, og skyldi Tristram hana flytja heim með sér til Englands.

Bringven hét fóstra Ísoddar; hún var dóttir Kúsens jarls. Hún fór með henni til Englands. Flúrent seldi Bringven drykkjarhorn og bað hana fá Mórodd konungi og Ísodd fögru, þá er þau færi til rekkju sinnar.

En í þann tíma, er byr gaf, sigla þau í haf. En þá er þau sigldu einn góðan veðurdag, þá bað Ísodd Bringven gefa sér drekka. Hún tók horn það, er Flúrent hafði henni selt, áður hún fór af Írlandi. Hún drakk af horninu; síðan fékk hún Tristram; hann kneyfði af horninu. En þegar þau höfðu drukkið, tók að seinkast ferðin, því að þá felldi hvort þeirra þegar svo mikla ást til annars, að varla gáðu þau ferða sinna fyrir. Nú varð ferð þeirra sein, því að þau lágu lengi í sömu höfn. Svo er sagt, að þau hafi þrjá mánaði verið í ferðinni, áður þau kæmi við England. En er þau komu við land, bað Tristram menn sína leyna Mórodd konung ferðum þeirra. Þeir sögðust svo gera mundu.

En er Mórodd konungur vissi komu Tristrams, bað hann söðla marga hesta; svo var gert. Mórodd konungur fagnar vel Tristram og Ísodd hinni fögru. Öllum mönnum fannst mikið um fegurð hennar, því að hún var hin fríðasta kona, er fædd hefir verið. Mórodd konungur bauð Tristram að eiga Ísodd og sagði það giftusamlegra fyrir aldurs sakir, — „en eg ann þér allvel konunnar og ríkisins.“

Tristram svarar: „Nei, herra,“ sagði hann, „eg vil ekki konungur vera, meðan yðar er við kostur.“

En eg sver það, segir sá, er söguna samsetti, að heldur þægja eg Ísodd en allt veraldar gullið.

11. Af ástum Tristrams og Ísoddar.

Eigi miklu síðar lét konungur afla að prýðilegri veizlu. Hann sagði svo fyrir, að þar skyldi engi óboðið koma. En þá er að þeirri sturidu kemur, að þau skulu ganga í eina sæng, Mórodd konungur og Ísodd hin fagra, þá hyggur hún á væl við konung, því að hún vissi sig með litlum drengskap beðið hafa konungs. Tekur hún það ráð, að Bringven fóstra hennar skal rekkja hjá konungi þrjár nætur, en þau Tristram byggðu eina sæng. Nú þótt konungur væri vitur, fékk hann ekki séð þessa væl. En er lokið var veizlunni, gaf konungur hverjum manni stórmannlegar gjafir. Tristram gaf og stórmikið fé. Síðan fara menn hver til síns heima og þökkuðu vel konungi skörulega veizlu og sæmilegar gjafir.

En þegar eftir veizluna þá mælti Ísodd við þræla tvo: „Þið skuluð færa Bringven til skógar; síðan skuluð þið brenna hana á báli.“

Þeir gerðu svo, fóru til skógar með Bringven; síðan kynda þeir bálið.

En áður þeir kastaði henni á bálið, þá fréttu þeir hana, hvað hún hefði til saka, að Ísodd stafaði henni svo harðan dauða.

Hún svarar: „Ekki léti hún þetta gera, nema eg hefða ærnar sakir til. En þó sé eg það helzt til, þá er við komum hingað til lands, að eg hafða hreinan serk, en hennar var vergaður.“

Þrælarnir svara: „Þetta eru litlar sakir til svo þungrar hegndar, en ekki að síður hlýtur þetta að gera, en þó er það hið versta verk.“

En þá er þeir ætluðu að kasta henni í eldinn, þá gekk Ísodd drottning af skóginum og bað þá ekki vinna hið mesta óhapp. Þeir urðu því fegnir.

Ísodd drottning gerði þetta til þess, að hún vildi vita, hvort Bringven var henni trú, svo sem hún hugði, en ekki ætlaði hún að láta granda henni heldur en sjálfri sér.

Þau lágu í einni skemmu, Mórodd konungur og Ísodd drottning og Tristram. Konungur ann Ísodd drottningu mikið, og ekki máttu menn annað á finna en hún ynni honum mikið.

Það var einhverju sinni, að Héri hinn hyggni kom að máli við Mórodd konung og segir honum, að Tristram fer til rekkju Ísoddar drottningar um nóttum. „Og þér megið vita, herra,“ segir hann, „að Ísodd stundar hann í hvern stað framar en yður.“

„Nei,“ sagði konungur, „ekki mun þá raun gefa, og gera þau það allt ástar sakir við mig, en ekki mun þeim verri hlutur til ganga.“

Héri svarar: „Herra,“ sagði hann, „þér skuluð gera tilraun.“

„Hverja?“ sagði hann.

Héri svarar: „Eg skal sá hveiti um allt skemmugólfið, og mun þá sjá spor hans, ef hann fer til rekkjunnar.“

Konungur bað hann svo gera.

Mórodd konungur var trúmaður mikill; hann fór til kirkju hverja nótt og baðst fyrir til guðs.

Nú gerði Héri þessa tilraun, að hann sáði hveitinu á gólfið milli rúmanna. En um morguninn bað Héri konung ganga og sjá, hvort hann hefði villt upp borið. Konungur gekk til og sá spor Tristrams í hveitinu.

Þá mælti konungur: „Ekki ætla eg honum illt til ganga, þótt hann fari til rekkju hennar, heldur mun hann vilja skemmta henni,“ sagði kpnungur, „þá eg em á brottu.“

En þó lét konungur Tristram þaðan af sofa í annarri skemmu síðan. Svo var farið skemmum, að glergluggarnir horfðust á. Þá lét Tristram koma upp eitt snæri í milli skemmu sinnar og þeirrar, er þau konungur lágu í. Síðan las Tristram sig upp eftir strengnum um nóttum, og svo fór hann til rekkju Ísoddar drottningar. Nú fer svo fram um hríð, þar til að Héri segir konungi, hver efni í eru. Konungur kveður það engu gegna.

Það var eina nótt, að konungur fór til kirkju, þá hljóp Tristram á rekkjustokkinn og stakk niður hendinni, og blæddi. Ísodd drottning stakk saumskærum sínum í hönd sér. Síðan blandaði hún saman blóðinu, til þess að konungur vissi ekki, að karlmannsblóð væri. En um morguninn frétti konungur, því þar væri blóð.

„Því, herra,“ sagði hún, „að eg skeinda mig í nótt með saumskærum mínum, þá er eg gekk af sæng.“

Héri svarar: „Já, frú, þetta er víst yðvart blóð; þó ef þar blandið við karlmanns blóði.“

Konungur kvað það ekki vera. En þó hann mælti mót, þá vissi hann þó hið sanna.

Svo bar til einhvern dag, að Ísodd drottning var farin til lundar með léreft sín. Tristram var og farinn með henni. Þar var einn fagur stöðubrunnur, er hún skyldi léreftin þvo. Þau sjá, að skugga bar á brunninn. Þau kenna, að Mórodd konungur var uppi í limunum yfir þeim.

Þá mælti Tristram: „Ill eigum við þeim manni að vera, er okkur rægir við Mórodd konung, frænda minn.“

Hún svarar: „Eg undrumst, að þú drepur ekki það illmenni, að okkur vill rægja við svo góðan mann.“

„Nei,“ sagði hann, „það veit guð, að eg skal honum þola fyrir sakir frænda míns.“

Slíkar voru ræður þeirra og þeim líkar. Nú lætur konungur enn dyljast við. Ávallt var konungur af mikilli ást til Tristrams frænda síns.

Það var einhverja nótt, þá er konungur kom frá kirkju, að hann fann Tristram í sæng hjá tsodd drottningu. Nú þykist konungur varla mega við dyljast, að ekki muni góð efni í vera. Síðan lætur Mórodd konungur þau flytja í einn helli.

Þá mælti Ísodd drottning: „Hvað skulum við nema hafa yndi af hellinum?“

„Nei,“ sagði Tristram, „við skulum fara síns vegar hvort okkart út undir hellinn.“

Þau gerðu svo.

Mórodd konungur var úti á hellinum og vildi vita, hvað þau talaði.

Þá mælti Tristram: „Vakið þér, frú?“ sagði hann.

„Sofið hefi eg til þessa,“ sagði hún, „en vaki eg nú.“

Hann spyr: „Hvern veg þykir yður nú komið kostinum?“

„Vel,“ sagði hún, „því að mér þykir gott að deyja fyrir ranga sök.“

Tristram svarar: „Gott þykir mér að deyja, en hitt þykir mér illt, er Mórodd konungur, frændi minn, skal svo villt fara, að hann gefur okkur sök. En þó að við deyjum hér bæði, þá bið eg þess allsvaldanda guð, að hann léti sér sóma, með sinni mildi og miskunn, að hann fyrirgefi honum svo sem eg á fyrir guðs sakir, því að meir gerir hann þetta af fortölum vondra manna en hitt, að honum sé við svo föl til dauða.“

Svo er sagt, að þau væri viku matlaus í hellinum. Þá gekk Mórodd konungur í hellinn og fann þau sofa í sínum stað hvort þeirra, og þótti konungi að vísu ganga, að logið mundi. Konungur lét þau fara heim til haliar með sér. Hann gerði þá enn vel til þeirra.

12. Tristram gengur að eiga Ísodd svörtu á Spáni.

Fúlsus hefir konungur heitið; hann herjaði á England; hann hafði fjölda liðs og var heiðinn sem hundur. Mórodd konungur lét kalla saman her mikinn. Síðan fer Tristram til móts við Fúlsus konung. En þann tíma, er þeir finnast, slær þar í bardaga. Tekst þegar hin snarpasta orrusta. Berjast þeir þann dag allan til nætur. Þá var fallinn allur þorrinn liðs Tristrams. Þá þykir honum sér óvænt horfa. Þá tekur hann það ráðs, að hann heitir til sigurs á sjálfan guð því, að hann skal af láta fíflingum við Ísodd drottning. En um morguninn eftir, þegar er vígljóst var, þá tóku þeir til bardaga, og þá gengur Tristram vel og skörulega fram. Hann höggur heiðingja á báðar hendur, og því er líkast til að jafna, sem þá er öflugur maður kemur í þykkva mörk og höggur hvert tré, er fyrir honum verður.

Þá mæltu heiðingjar: „Þetta er fjandi, en ekki maður, er oss gerir svo mikinn skaða, og hinn helgi Maúmet verði honum reiður og lægi hans dramb, og það veit Makon, segja þeir, „að hann höggur miklu stærra en nokkur maður annar, sá er vér höfum við barizt.“

Þá heyrir Tristram tal þeirra og svarar: „Já, já,“ segir hann, „það geri eg allt fyrir frúinnar sakir.“

Og slík orð eggjuðu hann framgöngu, að hann mætti engum svo dramblátum, að ekki félli hver þeirra um þveran annan.

Þá æpti Fúlsus konungur hárri röddu: „Svo hjálpi mér Makon,“ sagði hann, „að eg skal þegar drepa þenna fjanda, er eg nái honum, og eg skal bera hann dauðan á spjótsoddi mínum til yðar.“

Þetta heyrir Tristram og vill ekki sýna á sér bleyðimark, heldur ríður hann með miklum ákafa, þar til er hann mætir Fúlsus konungi. Þá höggur hvor til annars, og kemur sverð konungs á skjöld Tristrams þveran, og varð ekki höggið. Þá hjó Tristram í móti og kom í hjálminn, og af svo miklu afli, að hann klauf búk hans að söðli, ekki síður þó hann hefði tvær brynjur og hina sterkustu plátu. Féll þá búkur Fúlsus konungs tveggja vegna af hestinum, en sálin fór í helvíti. Þá sá heiðingjar fall höfðingja síns. Brestur þá þegar flótti í liðinu. Tristram rak flóttann sjö dagleiðir, og ekki létti hann fyrr en hvert mannsbarn var drepið. Og er Tristram kemur heim, þá þakkar Mórodd konungur honum ferðina, og verður hann af þessu allfrægur.

Þessu næst bað Mórodd konungur Ísodd drottning skíra sig. Hún kvað það skyldu á hans valdi vera; — „en þó vilda eg finna Tristram áður.“

„Nei,“ sagði konungur, „það skal nú ekki, því að þið skuluð nú engi svik saman bera.“

En þó bar svo til, að þau gengust á móti á einu stræti, áður þau skyldu til skírslunnar fara. Hildifonsus hét biskup í Vallandi, sá er skírsluna gerði. En um dag einn, þá er þau riðu, þá varð fyrir þeim eitt mikið díki, og lá í díkinu hestur Ísoddar drottningar. Þá kom þar að einn stafkarl og kippti henni upp á bakkann, og bar svo til, að hún steig yfir hann. Og er hún kom í Valland, þá finna þau biskup, og bað hún sig svo skíra vera, að sá einn stafkarl hefði henni nær komið, annar en bóndi hennar, er henni kippti yfir díkið. Og eftir þessi sögu gerði biskup henni skírslu, og verður hún vel skír. Síðan fór Mórodd konungur heim.

Nú byrjar Tristram ferð sína af Englandi og út á Spán. Þar hafði sá konungur setzt í ríki, er Beniðsus hét, og jarlar þeir tveir, er annar hét Sigurður, en annar Hringur. Þeir efldu her í móti Tristram. Hann átti bardaga við þá, og var það hin snarpasta orrusta og ekki löng, áður Beniðsus konungur féll, en jarlar lögðu undir land við Tristram og buðu honum systur sína. Hún hét Ísodd svarta, og þótti sá kostur beztur á öllu Spaníalandi. Þá lét Tristram búa prýðilega veizlu og býður til öllu stórmenni, er í var landinu. Þá kvongaðist Tristram, og þá var honum gefið konungsnafn yfir öllu Spaníalandi. En er sleit veizlunni, þá gaf Tristram konungur öllum mönnum góðar gjafir, eftir því sem menn voru að metorðum til. Síðan fer hver til síns heima og þykjast nú hafa fengið góðan höfðingja.

Svo er sagt, að Tristram hyggur seint af Ísodd hinni fögru, og þykist Ísodd svarta ekki fá ást hans. Það var einhverju sinni, að þau skyldu þiggja veizlu að eins göfugs manns. En þá er þau fóru frá veizlunni, þá var væta mikil, og sagði Ísodd svarta svo, að regnið. væri ekki óforvitnara en bóndi hennar. En þá er þau höfðu saman búið þrjá vetur, ól Ísodd svarta sveinbarn. Það var vatni ausið, og var sveinninn kallaður Kalegras. Hann var snemma mikill vexti og fríður sýnum og líkur feður sínum.

13. Tristram sigrar Amilías konung.

Keisari sá réð fyrir Saxlandi, er Donísus hét; hann var ríkur höfðingi og ágætur, en sá konungur herjaði á hann, er Amilías hét. Þá gerði keisari menn á Spán og beiddi Tristram liðs. Hann varð vel við og fór þegar á fund keisara með miklu liði. Tristram býður keisara að fara með sínu liði einn í mót Amilías konungi. Hann tók það með þökkum. Síðan fór Tristram til móts við konung. Og er þeir finnast, hefir Tristram lið miklu minna. Þá býður hann honum á hólm, — „og hafi sá gagn og sigur, er guð lofar.“

„Það vil eg gjarna,“ sagði konungur, „og þess vænti eg, að þú vildir þetta gjarna hafa ómælt í þann tíma, er við skiljum, ella lætur ekki að draumum.“

„Ger svo vel,“ sagði Tristram, „að þú trú ekki á drauma þína, en svo fremi þarftu að hælast sem við erum skildir.“

Þá ganga þeir á hólm, og segir Tristram upp hólmgöngulög. Nú á Amilías konungur fyrri að höggva, því að á hann var skorað; þá höggur Amilías konungur til Tristrams, og kom höggið ofan í skjöldinn, og klauf hann skjöldinn niður í gegnum öðrum megin mundriða, svo að í jörðu nam staðar. Hugsar Tristram það, að hann vildi, að konungur ætti ekki fleiri að höggva til hans, og það veittist honum. Þá hjó Tristram til konungs, og kom í hjálminn og svaddi ofan með eyranu á öxlina, og klauf hann frá síðuna vinstri, svo að í mjöðminni nam staðar. Nú á Tristram sem jafnan sigri að hrósa. En er menn konungs sjá fall hans, þá flýja þeir á merkur og skóga. Rekur Tristram flóttann um hríð og drepur margt manna. Síðan fer hann á fund keisara og sagði honum slíkt sem í hafði gerzt. Hann þakkar Tristram vel sína framgöngu og mikið hreystiverk, er hann hafði fyrir hans sakir gert. En áður Tristram fer af Saxlandi, þá gefur Donísus keisari honum veglegar gjafir, sem verðugt var.

Eftir það fór Tristram heim á Spán með mikilli virðing. Þá situr Tristram heima á Spáni um hríð í góðu yfirlæti og við mikinn orðstír. Hann hafði það jafnan að skemmtan að ríða á skóg og skjóta dýr og fugla, því að hann var hinn mesti bogmaður, og hverja íþrótt hafði hann numið, að honum sómdi betur að kunna en án að vera.

Það var einn dag, þá er Tristram fór á dýraveiðar, að hann var svo búinn, að hann hafði sverð og hjálm, skjöld og spjót í hendi, að hann mætir einum manni á skóginum; sá nefndist Tristram.

Þá frétti Tristram konungur: „Hvaðan ertu?“ sagði hann.

Hinn komni Tristram svarar: „Eg em utan af Jakobslandi,“ sagði hann, „en eg fór því að finna yður,“ sagði hann, „að vér höfum mikla frétt af frækleik yðrum, en eg þykjumst mjög þurfa yðvars liðsinnis, því að sjö bræður hafa mig rekið af ríki; einn þeirra heitir Ayað, annar Albað, þriðji Dormadat. Þeir eru allir miklir hreystimenn, svo að varla fást þeirra jafningjar í öllu ríkinu, og þætti mér þín liðveizla allgóð, ef þú skalt berjast við þrjá, en eg við fjóra.“

Þá reiddist Tristram konungur og kvað hann um ekki mundu fyrir sér vera. „Og það veit guð,“ sagði hann, „að eg ætla mér betur vinnast að berjast við fimm en þér við tvo.“

Það vill hinn komni Tristram, að þeir fari þegar.

14. Andlát Tristrams og Ísoddar.

Nú ríða þeir nafnar af Spán og létta ekki fyrr en þeir koma á Jakobsland og til þeirrar borgar, er þeir bræður höfðu aðsetu. Þá eggjar Tristram þá út af borginni, — „og skulum við tveir berjast við yður sjö; og ef þér eruð nokkuru nýtir, þá gangið þér út af borginni.“

En er þeir heyrðu þetta, þá herklæðast þeir þegar skjótt og fimlega. Síðan ríða þeir út af borginni; og er þeir mættust, skortir ekki stór högg, er hvorir veita öðrum. Tristram konungur berst við fimm, en nafni hans við tvo. Þeir áttu langan bardaga, því að hvorirtveggju voru hinu mestu afburðamenn fyrir hreysti sakir. Veitir Tristram konungur stór högg þeim bræðrum, og svo þiggur hann af þeim. En þó er það frá málalokum að segja, að Tristram konungur drepur þá fimm, er hann barðist við, en félagi hans hafði þá fellt annan þann, er hann átti við. Þá drap Tristram konungur þann, er eftir var, og er það ugglegt, segir sá, er söguna setti saman, að hann drepi þenna mann síðast, og sá … varð að sannri raun, því að hann varð sár til ólífis. Hinn komni Tristram þakkar honum, svo mikinn sigur sem hann hafði unnið honum til handa. Hann bauð Tristram þá landið og allt það, er í hans valdi var.

Tristram svarar: „Ekki veit nú brátt, hverjir fyrir löndum eiga að ráða.“

Þá sendir Tristram konungur eftir konu sinni og mágum. Þá höfðust sár hans illa, og komu til allir læknar, þeir er beztir voru í landinu, en við hvers komu spilltist mikið um. Nú gerist hann máttlítill.

Síðan lét hann kalla til sín jarlana, mága sína, og mælti: „Sendiför hefi eg yður hugað.“

„Hvert?“ segja þeir.

„Þið skuluð fara til Englands og biðja Ísodd drottning koma og græða mig, því að hana veit eg mestan lækni, og segið henni svo, að ekki fæ eg bót minna meina, ef hún kemur ekki. En þá er sjá má heðan för yðra, er þér farið heimleiðis, þá skal það mark um yðra ferð, að þér skuluð tjalda svörtu yfir skipunum, ef hún er ekki í ferð, en ellegar skuluð þér hvítu tjalda.“

Þeir búa ferð sína skjótt; og er þeir voru búnir, fara þeir leiðar sinnar, þar til er þeir koma við England. En þegar sem Mórodd konungur fregnar þetta og Ísodd drottning, þá fara þau til fundar við þá og bjóða þeim veizlu. Jarlarnir þakka þeim, — „en þó hentar annað en dvelja við.“ Síðan bera þeir fram sín örindi. En er drottning heyrði þessi tíðindi, þá býr hún sig með mikilli skyndingu, en þó varð hún hljóð við þessa sögu. Nú verður engi dvöl á ferð þeirra, fyrr en þau koma við Jakobsland. Síðan gekk Ísodd svarta í skemmu þá, er Tristram lá í, og segir honum, að sén var ferð jarlanna. Hann frétti, hvort tjaldað var hvítu eða svörtu yfir skipunum.

„Svörtu er tjaldað,“ sagði hún.

„Það mundi mig,“ sagði hann, „ekki vara, að Mórodd konungur léti hana ekki fara, ef líf mitt lægi við; og ekki veit eg,“ sagði hann, „hverju þetta sætir.“

En er jarlar komu, þá var Tristram andaður. Þetta þótti allri alþýðu svo mikill skaði, að hvorki mátti vatni halda karl né kona. En þótt öllum fengi mikils, þá fékk Ísodd hinni fögru mest, því að hún lifði þrjár nætur þaðan af; síðan sprakk hún af harmi. Síðan voru þau flutt og grafin að þeirri höfuðkirkju, er mest var í landinu, og stóðu menn mjög daprir yfir þeirra grefti fyrir hörmulegt líflát, er þau biðu; en hann var greftur fyrir norðan, en hún fyrir sunnan. Þá rann sinn lundur upp af leiði hvors þeirra með hinum fegursta ávexti, og þar til óxu viðirnir, að þeir mættust yfir kirkjuburst. Þá vöfðust limarnar saman, og svo hátt uxu viðirnir í loft upp, að varla hafa menn séð hærri tré, og standa þar þessir viðir enn, til marks að Tristram fífldi ekki Ísodd hina fögru fyrir illsku sakir við Mórodd konung, frænda sinn, heldur fyrir það, að sjálfur guð hafði þeim skipað saman af sinni samvizku. En fyrir þá sök þá Tristram ekki Ísodd hina fögru af Mórodd konungi, að hann unni honum hins bezta ráðs, og mátti hann þó fyrir engan mun við sköpunum vinna;

Nú þó að þau mætti ekki njótast lifandi, sagði sá, er söguna setti saman, þá biðjum vér þess guð sjálfan, að þau njótist nú með ást og vingan, og þess er að vænta, sagði hann, að svo sé, því að við miskunnsaman er um að eiga.

16. Af Kalegras Tristramssyni. — Sögulok.

Nú fara jarlar heim á Spán og systir þeirra, Ísodd svarta, með hinum mesta harmi og kunnu mikil hörmungartíðindi að segja. En þá er Mórodd konungur fregnaði þessi tíðindi, varð hann óglaður og þótti þetta hinn mesti harmur, en þó bar hann þetta, sem allt annað, með hinum mesta drengskap. Síðan sendi hann menn út á Spán eftir Kalegras Tristramssyni. Og er hann kom í England, þá kveður Mórodd konungur þings, og á því sama þingi gaf Mórodd konungur Kalegras Tristramssyni England og konungdóm, en Mórodd konungur fór út í Jórsalaheim og settist þar í stein og beið svo fagurlega þess, er allsvaldandi guð lét sér sóma að kalla hann til sín úr þessa heims ánauð.

Kalegras Tristramsson gerðist hinn bezti riddari og hinn mesti atgervismaður fyrir allra hluta sakir. Hann var ör og stórgjöfull; alla góða menn gerði hann sér holla í ríkinu, en refsaði rán og illgerðir, sem konungi sómir.

En er Kalegras hafði verið konungur um hríð yfir öllu Englandi, fór hann út í Saxland og biður dóttur keisarans; hún hét Lilja; hún var kvenna fríðust, þegar Ísodd fagra Ieið. Hann gifti honum dóttur sína með mikilli sæmd og virðing, og flutti hann hana heim með sér í England. En er þau höfðu ásamt verið um hríð, gátu þau börn, sonu tvo og eina dóttur. Patrókles hét son þeirra, en annar Mórodd, en dóttir þeirra hét Mollína. Þau voru öll hin gerviligstu. Synir Kalegras urðu hinu efniligstu menn, og er mikil saga frá þeim.

Nú ræður Kalegras Englandi, meðan guð lofar, sá hinn sami, er lifir og ríkir í veröld veralda. — Amen.

Источник: Riddarasögur. Bjarni Vilhjálmsson bjó til prentunar. Reykjavík, 1948.

Сканирование: Heimskringla

OCR: Stridmann