Álfar skila barni

Maður nokkur sem bjó fyri austan fór eitt sinn í lestaferð suður á land. En áður hann fór hafði kona hans nýlega alið barn.

Þá er maðurinn fór skipaði hann svo fyrir að ekki skyldi allt fólkið ganga nokkurn tíma úr bænum svo barnið yrði aldri mannlaust meðan hann væri burtu.

En er hann var farinn fyrir þrem dögum bar svo til að allir gengu af bænum svo að enginn var hjá barninu litla stund.

Þegar komið var til barnsins aftur var það nær vitstola og óhemjandi og linnti aldri af hljóðum; lét það allókenniliga frá því sem áður hafði verið. Þessu gekk til þess bóndi kom heim. Var honum þá þegar sagt þetta.

Hann gekk að ruggunni, fletti ofan af barninu og virti það vandlega fyrir sér og mælti: „Nú hef ég illa svikinn verið og brugðið af því sem ég bauð.“

Því næst hljóp hann út og þreif barefli í hönd sér og gekk að kletti einum skammt frá túninu; barði hann klettinn allan utan með blóti og illyrðum við þá sem þar byggi og hótaði þeim öllu illu. Kvaðst hann mundu sprengja upp híbýli þeirra með púðri ef þeir skilaði sér eigi barni sínu.

Og er hann hafði látið svona um hríð gekk hann heim og bauð öllum að fara af bænum um nóttina og láta barn þetta eitt eftir og var svo gert. En er elda tók aftur leyfði hann fólki inngöngu. Var þá barnið almennilegt og bar aldri neitt á því eftir það.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)