Tungustapi

Í Eyrbyggju, seinasta kapítula, er sagt frá, að kirkja hafi verið flutt í Sælingsdalstungu, kirkjugarður grafinn og bein manna upp tekin, t. d. Snorra goða og Barkar digra; var það á dögum Guðnýjar húsfreyju í Hvammi, móður þeirra Sturlusona, því söguritarinn segir, að hún hafi verið við, og hefur eftir henni það, sem greint er um stærð beinanna. Sagan talar ekkert um, hvers vegna kirkjan var flutt úr stað, en á Vesturlandi gengur þessi saga um tilefni til flutningsins.

Í gamla daga, fyrir mörgum hundruð árum, bjó mjög ríkur bóndi í Sælingsdalstungu; hann átti nokkur börn, og eru til nefndir tveir synir. Ekki vita menn, hvað þeir hétu, og köllum vér þá því Arnór og Svein. Þeir voru báðir efnilegir menn, en þó ólíkir. Arnór var hreystimaður og mikill fyrir sér. Sveinn var hægur og spakur og enginn hreystimaður. Eftir því voru þeir mjög ólíkir í lund; Arnór var gleðimaður og gaf sig að leikjum með sveinum þar úr dalnum, og mæltu þeir oft mót með sér við stapa þann, er stendur niður við ána, andspænis bænum í Tungu, og sem kallaður er Tungustapi. Var það skemmtun þeirra á vetrum að renna sér eftir harðfenni niður af stapanum, því hann er hár mjög, og niður á eyrarnar í kring; gekk oft mikið á með kall og háreysti kringum Tungustapa í rökkrunum, og var Arnór þar oftast fremstur í flokki.

Sjaldan var Sveinn þar með. Gekk hann þá oftast í kirkju, er aðrir piltar fóru til leika; oft fór hann líka einförum og dvaldi þá tíðum niður við Tungustapa. Var það mál, að hann hefði mök við álfafólk, sem bjó í stapanum, og nokkuð var það, að hverja nýársnótt hvarf hann, svo enginn vissi, hvað af honum varð. Oft kom Sveinn að máli við bróður sinn, að hann eigi skyldi gjöra svo mikla háreysti þar á stapanum, en Arnór gjörði gabb að og kvaðst eigi mundi vorkenna álfunum, þó hátt væri haft. Hélt hann uppteknum hætti; en Sveinn varaði hann við því oftar og sagði, að hann skyldi ábyrgjast, hvað af slíku hlytist.

Það bar til eitt nýárskvöld, að Sveinn hvarf að vanda. Lengdist mönnum venju fremur eftir honum. Kvaðst Arnór mundi leita hans og sagði hann mundi dvelja hjá álfum niður í Stapa. Gengur Arnór af stað, allt til þess hann kemur að stapanum. Veður var dimmt mjög. Veit hann ekki fyrri til en hann sér stapann opnast á þá hlið, sem að bænum snýr, og ljóma þar ótal ljósaraðir; heyrir hann kveða við indælan söng, og skilur hann af þessu, að á messu muni standa hjá álfum í stapanum. Kemur hann nú nær og sér, hvað fram fer. Sér hann þá fyrir framan sig eins og opnar kirkjudyr og fjölda manns inni. Er prestur fagurlega skrýddur fyrir altari, og eru margsettar ljósaraðir til beggja hliða. Gengur hann þá inn í dyrnar og sér, hvar Sveinn bróðir hans krýpur fyrir gráðunni, og er klerkur að leggja hendur í höfuð honum með einhverjum ummælum. Það hyggur Arnór, að verið sé að vígja hann einhverri vígslu, því margir skrýddir menn stóðu umhverfis.

Kallar hann þá og segir: „Sveinn, kom þú, líf þitt liggur við.“

Hrekkur Sveinn þá við, stendur upp og lítur utar eftir; vill hann þá hlaupa móti bróður sínum.

En í því kallar sá, er við altarið var, og segir: „Læsið kirkjudyrunum, og hegnið hinum mennska manni, er raskar friði vorum. En þú, Sveinn, hlýtur við oss að skilja, og er bróðir þinn sök í því. En fyrir það, að þú stóðst upp í því skyni að ganga til bróður þíns og mattir hans ósvífna kall meira en heilaga vígslu, skalt þú niður hníga, og það örendur, næsta sinn, er þú sér mig hér í þessum skrúða.“

Sá Arnór þá, að hinir skrýddu menn hófu Svein á loft, og hvarf hann upp um steinhvelfing þá, er yfir var kirkjunni. Kveður þá við dynjandi klukknahljóð, og í því heyrist þys mikill inni. Hleypur hver um annan þveran til dyra. Arnór hleypur þá sem hann mátti út í myrkrið heim á leið og heyrir álfareiðina, þysið og hófasparkið á eftir sér; heyrir hann, að einn í flokki þeirra, er fremstir ríða, kveður við raust og segir:

„Ríðum, og ríðum.
Það rökkvar í hlíðum;
ærum, og færum
hinn arma af vegi,
svo að hann eigi
sjái sól á degi,
sól á næsta degi.“

Þusti þá flokkurinn milli hans og bæjarins, svo hann varð að hörfa undan. Þegar hann var kominn í brekkur nokkrar suður frá bænum og austur frá stapanum, gafst hann upp og hneig máttvana niður; reið þá allur flokkurinn á hann ofan, og lá hann þar eftir nær dauða en lífi.

Það er frá Sveini að segja, að hann kom heim eftir vökulok. Var hann daufur mjög og vildi engum segja um burtuveru sína, en kvað nauðsyn að leita Arnórs. Var hans leitað alla nóttina, og fannst hann eigi, fyrr en bóndi frá Laugum, er kom til óttusöngs að Tungu, gekk fram á hann þar í brekkunum, sem hann lá.

Var Arnór með rænu, en mjög aðframkominn; sagði hann bónda, hvernig farið hafði um nóttina, eins og áður er frá sagt. Ekki kvað hann tjá að flytja sig til bæjar, því hann yrði eigi lífgaður. Andaðist hann þar í brekkunum, og heita það síðan Banabrekkur.

Aldrei varð Sveinn samur eftir þenna viðburð; hneigðist skap hans enn meir til alvöru og þunglyndis, en aldrei vissu menn hann koma nærri Álfastapa eftir þetta, og aldrei sást hann nokkru sinni horfa í þá átt, sem stapinn er. Gaf hann sig frá öllum veraldar-umsvifum, gjörðist munkur og gekk í klaustur á Helgafelli. Varð hann svo lærður maður, að enginn bræðra komst til jafns við hann, og svo söng hann fagurlega messu, að enginn þóttist jafnfagurt heyrt hafa.

Faðir hans bjó í Tungu til elli. Þegar hann var gamall orðinn, tók hann sótt þunga. Það var nærri dymbildögum. Þá er hann fann, hvað sér leið, lét hann senda eftir Sveini út til Helgafells og bað hann koma á sinn fund. Sveinn brá við skjótt, en gat þess, að skeð gæti hann kæmi eigi lífs aftur. Kom hann að Tungu laugardag fyrir páska. Var þá svo dregið af föður hans, að hann mátti trauðlega mæla. Beiddi hann Svein son sinn að syngja messu á páskadag sjálfan og skipaði að bera sig þá í kirkju; kvaðst hann þar vilja andast. Sveinn var tregur til þessa, en gjörði það samt, þó með því skilyrði, að enginn opnaði kirkjuna, meðan á messu stæði, og sagði þar á riði líf sitt.

Þótti mönnum þetta kynlegt; þó gátu sumir þess til, að hann enn sem fyrri ekki vildi sjá í þá átt, sem stapinn var, því kirkjan stóð þá á hólbarði einu hátt uppi í túninu, austur frá bænum, og blasti stapinn við kirkjudyrum.

Er nú bóndi borinn í kirkju, eins og hann hafði fyrir mælt, en Sveinn skrýddist fyrir altari og hefur upp messusöng. Sögðu það allir, er við voru, að þeir aldrei hefðu heyrt eins sætlega sungið eða meistaralega tónað, og voru allir því nær höggdofa. En er klerkur að lyktum sneri sér fram fyrir altari og hóf upp blessunarorðin yfir söfnuðinum, brast á í einni svipan stormbylur af vestri, og hrukku við það upp dyr kirkjunnar.

Varð mönnum hverft við og litið utar eftir kirkju; blöstu þá við eins og opnar dyr á stapanum, og lagði þaðan út ljóma af ótal ljósaröðum; en þegar mönnum aftur var litið á prest, var hann hniginn niður og var þegar örendur. Féllst mönnum mikið um þetta og þar með, að bóndi hafði einnig á sömu stundu fallið liðinn fram af bekk þeim, er hann lá á, gagnvart altari. Logn var fyrir og eftir viðburð þenna, svo öllum var augljóst, að með stormbyl þann, er frá stapanum kom, var eigi sjálfrátt.

Var þá viðstaddur bóndi sá frá Laugum, er fundið hafði Arnór í brekkunum fyrri, og sagði hann þá upp alla sögu. Skildu menn af því, að það hefði komið fram, er álfabiskupinn hafði um mælt, að Sveinn skyldi dauður hníga, er hann sæi sig næst. Nú, þegar opinn var stapinn og hurð kirkjunnar hrökk upp, blöstu dyrnar hvorar móti öðrum, svo álfabiskupinn og Sveinn horfðust í augu er þeir tónuðu blessunarorðin, því dyr á kirkjum álfa snúa gagnstætt dyrum á kirkjum mennskra manna (nl. til austurs).

Áttu menn héraðsfund um mál þetta, og var það afráðið, að flytja skyldi kirkjuna niður af hólbarðinu, nær bænum, í kvos hjá læk nokkrum. Með því var bærinn milli stapans og kirkjudyra, svo aldrei síðan hefur presti þar verið unnt að sjá frá altari gegnum kirkjudyr vestur í Álfastapa, enda hafa slík býsn eigi orðið síðan þetta var.