Draugur rak sig á hníf

Símon Teitsson var húsmaður í Vatnagarði hjá Snorra Jónssyni langafa mínum hér um bil 1780.

Hann fór inn að Miðhúsum til Björns er þar var þá bóndi, með flatningshnífinn sinn til að leggja hann á stein því Björn var smiður. Lá leið hans fyri austan kirkjugarðinn á Útskálum. Þetta var um vökuna.

En er hann kom að kirkjugarðinum sér hann mann framundan kirkjugarðinum og er sá að spíkspora þar. Hann skilur ekki hvað hann muni vera að gera, en forvitnar þó að bíða, gengur að kirkjugarðinum og leggur handlegginn upp á garðinn svo að hann lá á honum með almbogann og hnífinn í þeirri hendinni svo að upp stóð oddurinn.

Að stundu liðinni gýs moldargusa upp úr einu leiðinu og fylgir þar með maður. Sá spyr hvað hann vili sér. „Þú skalt fara norður í land og drepa þar stúlku.“

Tilgreinir hann bæinn og stúlkuna. Sendingin á stað og stefnir beint á Símon, en hann líður í óvit. En er hann vissi af sér sér hann hvergi drauginn, en mannsherðablað er á hnífnum, en maðurinn stendur þarna í kirkjugarðinum.

Símon gengur til hans og tekur heldur en ekki ómjúkt á honum fyri þetta sitt tiltæki; sýnir honum samt herðablaðið. Maðurinn viknar við, þakkar honum þetta og segir hann hafi ekki einasta frelsað stúlkunnar líf heldur og sitt og lofar að gera það ekki oftar.

— Þetta var sjómaður á Útskálum norðlenskur.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Текст с сайта Netútgáfan