Draugurinn hjúplausi

Langt er síðan að bóndi nokkur bjó á Vestfjörðum; hann var ókvongaður og átti öngvan erfingja nema bróðurson einn og var þá hniginn mjög á efri aldur þegar hér var komið sögunni.

Hann var auðmaður svo mikill að hann vissi valla aura sinna tal; aldrei gjörði hann neinum manni gott, en rakaði heldur saman peningunum í kistil stóran, allan útskorinn, og þótti hönum mjög vænt um hann og kveið fyrir að skilja við hann.

Svo þótti hönum vænt um auð sinn að hann gat öngvum unnt hans eftir sig dauðan, síst frænda sínum, því hönum var mjög í kala til hans; tók því það ráð að grafa kistilinn í jörð og lét ekki vita af.

Nokkrum tíma þar á eftir lagðist kall og dó. Þegar frændi hans frétti það brá hann fljótlega við til að vitja um arf sinn; en þegar hann kom þar brá hönum í brún að engir fundust peningar eftir karlinn. Fór hann þá til prestsins að leita hjá hönum ráða til að vita hvar peningarnir væru. Prestur lofaði hönum liðveislu sinni; hann sagði að karl mundi sjálfsagt hafa grafið í jörð peningana áður en dó, og sæi hann ekki annað ráð en hann spyrði kall sjálfan eftir þeim, en drengur lést óvanur spurningum við dauða menn.

En prestur lagði hönum þá ráð til þess; hann skyldi um dagtíma moka upp gröfina, brjóta síðan kistuna og taka náklæðin utan af karlinum, ryðja síðan moldinni ofan í aftur og hafa þessu verki lokið fyrir dagsetur, en eftir dagsetur mundi kall koma og vilja fá hjúp sinn hjá hönum og væri hönum þá hvurgi óhætt að vera nema í kirkjunni og skyldi hann klæða sig í messuklæðin og standa í predikunarstólnum með hjúpinn í höndunum.

Hinn flýtti sér að öllu þessu og var kominn fyrir dagsetur í kirkjuna; hún var öll uppljómuð af ljósum svo hvurgi bar skugga á. Þegar hann var búinn að vera litla stund heyrði hann brak mikið og dynki út í garðinum; varð hann þá hræddur og flýtti sér upp í stólinn.

Í því bili var kirkjuhurðinni hrundið upp og draugurinn óð inn allsnakinn allt að predikunarstólnum, hvar drengurinn stóð, og heimti hjúpinn, en drengur lést mundi gera það ef hann segði sér hvar hann hefði fólgið peningakistilinn, en draugur sagðist það aldrei gjöra nema hann fengi sér hjúpinn fyrst, en hvurugur vildi eiga eftirkaupin og þar um þreyttu þeir lengi fram á nótt þar til draugnum var orðið svo kalt að hann mátti til að fara ofan í gröf sína, en hinn fór út úr kirkjunni og sagði presti allt sem gjörðist, en hann lét vel yfir hugrekki drengsins.

Hann sagði að næstu nótt mundi draugurinn verða verri og skyldi hann nú herða sig. Næstu nótt um sama bil og áður kom draugur til hans og var nú mikið ljótari og illúðlegri en fyr og krafðist nú hjúpsins, en hinn svaraði sem áður, og að þessu vóru þeir alla nóttina til þess að dagur rann. Tók þá draugurinn að biðja vel því hann sagðist mundi deyja úr kulda, en hinn lét ekki undan svo draugur varð að fara sem fyr hjúplaus í gröf sína.

Daginn eftir sagði drengur presti frá öllu, en hann lét vel yfir, en kvað dreng mega vara sig næstu nótt og væri hönum nú hvurgi óhætt nema í gráðunum með handbókina í hendinni. Drengur var nú svo hræddur að hann bað prest að standa hjá sér, en til þess var hann ófáanlegur og varð drengur því að fara einsaman.

Og þegar dagsett var heyrðust brak og brestir úti og í því hratt draugur upp kirkjuhurðinni og æddi inn með miklum ólátum svo kirkjan skalf og gnötraði. Hann óð að gráðunum heldur ófrýnilegur og heimtaði hjúpinn og kvaðst mundi drepa dreng ef hann héldi lengur hjúpnum, en hinn hafði sama við lag sem áður og kvaðst mundi fá hönum hjúpinn ef hann segði sér til kistilsins, en draugur neitaði því; gekk þetta stríð alla nóttina.

Var dreng þá orðið svo illt af hræðslu að hann gat valla talað; draugnum varð þá litið út og sá að dagur var kominn, fór hann þá að espast og seildist yfir gráðurnar og ætlaði að grípa drenginn og hjúpinn, en hinn stökk upp á altarið og varðist með handbókinni og særði draug að segja sér til kistilsins.

Draugurinn sá þá að sér var ekki til góðs að gjöra, því fengi hann ekki hjúpinn fyrir sólaruppkomu mundi hann deyja; sagði hann þá loksins að kistillinn væri fólginn í jörð að húsabaki þar sem hann bjó. Fleygði drengur þá til hans hjúpnum, en sagði ef hann lygi að sér skyldi hann aldrei vera með friði í gröfinni.

Draugur flýtti sér út og ofan í gröf sína og hefur síðan aldrei á hönum borið. Drengurinn fann peningana og þakkaði prestinum liðveisluna. Nokkru þar eftir giftist hann og tók að búa á jörð þeirri er karlinn hafði búið á og bjó þar til elliára.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Текст с сайта Netútgáfan