Jón flak

Það var einn tíma á Þönglabakka að þar fannst beinagrind af manni rekin af sjó. Prestur lét taka bein þessi og vöðla þeim niður í lítinn stokk og láta síðan í gröf þegar næst var jarðað, en sú gröf var grafin á kórbaki.

Skömmu síðar var það eitt kvöld að bók þurfti að sækja út í kirkju og varð stúlka ein til að sækja bókina; segja sumir hún héti Guðrún. En er hún lýkur upp kirkjunni þá sýnist henni maður í krypplingi sitja í þverbekkinum öðrumegin við altarið.

Hún gefur sig ekkert að þessari sýn, en sækir bókina inn á altarið og fer síðan leið sína inn í bæ aftur. Getur hún ei um sýnina við neinn um kvöldið.

En um nóttina dreymir hana að þessi hinn sami krypplingur er hún sá sitja í kirkjunni kemur til hennar og kveður þetta við hana:

Köld er mold á kórbak,
kúrir þar hann Jón flak;
ýtar liggja austur og vestur
allir nema Jón flak.

Og eftir það hverfur hann, en hún mundi vísuna er hún vaknaði.

Um morguninn fer hún til prests og segir honum hvað fyrir sig hafi borið, fyrst í kirkjunni um kvöldið og síðan í draumi um nóttina, og hefir upp vísuna.

En sem prestur heyrir þetta þá lætur hann taka upp aftur stokkinn er beinin voru í og gera að þeim aðra kistu stærri. Því næst tekur hann beinin og raðar þeim niður sem næst því er þau áttu að liggja í líkamanum og býr nú um sem best. Eftir það er kistan aftur niður sett á venjulegan hátt.

Nóttina næstu eftir dreymir Guðrúnu enn hinn sama mann og er þá af honum krypplingurinn. Henni þykir hann koma að sér og kveða þetta:

Búið var um bein mín
bara fyrir orð þín;
gakktu hvert spor, gullshlín,
gæfu til uns líf dvín.

Eigi var sá draumur lengri. En sagan segir að stúlka þessi hafi síðan orðið hin mesta lánskona.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Текст с сайта Netútgáfan