Jón flak

Maður hét Jón og var kallaður Jón flak. Hann var undarlegur og lítt þokkaður af sveitungum sínum. Þótti hann smáglettinn og ei unnt að hefna sín á honum. Þegar Jón dó gjörðu líkmennirnir það af hrekk við hann að þeir létu gröfina snúa í norður og suður. Jón var grafinn að kórbaki í Múlakirkjugarði. En á hverri nóttu á eftir sótti hann að líkmönnum og kvað vísu þessa:

„Köld er mold við [aðrir: á] kórbak,
kúrir þar undir Jón flak.
Ýtar snúa austur og vestur
allir nema Jón flak,
allir nema Jón flak.“

Var hann þá grafinn upp aftur og lagður í austur og vestur eins og aðrir. – Aðrir segja að vísan hafi heyrzt upp úr gröfinni í kirkjugarðinum.

Mjög hefur farið mörgum sögnum um Jón er séra Skúli Gíslason segir að hafi verið kallaður Jón hrak, því hann hafi verið varmenni mikið og grunur hafi legið á því að hann hafi loksins fargað sér sjálfur, hafi hann því verið grafinn án yfirsöngs að kórbaki og látinn snúa norður og suður. Nóttina eftir dreymdi sóknarprestinn er ekki var viðstaddur greftrun hans að Jón kæmi til sín og kvæði:

„Kalt er við kórbak,
hvílir þar Jón hrak;
allir snúa austur og vestur
ýtar nema Jón hrak.
Kalt er við kórbak.“

Daginn eftir lét prestur grafa hann upp og snúa honum rétt. Sótti Jón þá ekki framar að honum.

Fyrir vestan er sú sögn um nafna minn að hann hafi átt vonda konu er hafi látið grafa mann sinn svo sem fyrr er getið til þess að gjöra honum enn skömm í gröfinni. Þá er það og enn ein sögn um Jón að lík hans hafi verið látið svo í gröfina af því vonzkuveður hafi gjört er hann var moldu ausinn, en ekki af illvilja þeirra er að stóðu og hafi því líkmennirnir flýtt sér að koma honum einhvern veginn niður.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org