Kynjasjónir

Þegar Sigfús prófastur Jónsson sat í Höfða var hjá honum á fóstri Jónas sonur Jóns prests á Þönglabakka (er þar dó ungur frá tveimur sonum) og tók því séra Sigfús Jónas þenna til fósturs með arfafé hans.

Þá var það eitt aðfangadagskveld jóla eða nýárs er Jónas þessi var nær tvítugu og vel þroskaður að vexti og afli að séra Sigfúsi var vant víns og sendi Jónas þenna út að Grenivík (sem er næsti bær fyri utan Höfða) og bað hann sækja sér brennivín, hálfanker er karl átti þar í geymslu; og segir ei af ferð Jónasar fyrr en hann er kominn áleiðis heim aftur.

Liggur þá leið hans skammt frá sjó inn með Eyjafirði. Sýnist honum þá sem maður komi upp af sjávarbökkunum og veiti sér eftirför. En er hann kemur að árgili því er Grenjagil heitir er þar verður á leiðinni sýnast honum fjórir menn með sleða fara þar að ofan að sér og fylgdi þeim hundur og heyrðist sem hann gelti að sér.

Jónas heldur sem áður atalt áfram ferð sinni yfir um gilið áður en mennirnir koma alveg gegnt honum. En sem hann er yfir það kominn stendur hann lítt við og kastar kveðju sinni á mennina hátt og snjallt, en þeir gegna honum engu né líta við honum.

Þetta þykir honum kynlegt og fer nú ekki að verða um sel. Lítur hann þá lítið eitt undan; en er hann lítur aftur við sér hann ekkert og fer nú heldur að fara um hann og var hann þó alleinarður og ómyrkfælinn.

Veðri var so háttað að nýlýsi var nokkuð og dró stundum fyri. En hinn manninn þykist hann einlægt sjá í heimátt eftir sér. Heldur hann nú hraðan heimleiðis. En er hann kemur á flesjarnar út og ofan frá Höfða sér hann enn mann koma þar að neðan og sýnist honum sá bera á baki líkast laupi eða kláfi og stefnir sá líka til móts við hann.

Verður hann nú af þessu öllu saman allskelkaður, en heldur þó áfram sem hraðast uns hann kemur heim undir fjósið er var skammt frá bæjardyrum í Höfða. Þar var bær ólokaður og snarar hann sem skjótast inn í bæinn og var prófastur þar frammi fyrir með ljós í stofudyrum og kastar Jónas niður kimbli sínum fyri fætur hans og sagði Jónas að sér hefði þá sýnst ljósið sem rauður eldhnöttur.

En er prófastur sá framan í hann mælti hann: „Hvað ósköp er að sjá í þér augun, Jónas, hvað þau eru voðaleg; það er líkast eins og þú hefðir drepið mann eða sért að flýja undan ófriði.“

Jónas gegnir þessu so sem engu, en fer sem fljótast inn í rúm sitt og kastar sér þar niður og er hugsi út úr því sem fyri sig hafi borið. Nokkru síðar segir hann þó frá því og veit engi hverju gegna muni.

Þar á næsta bæ var öldruð kona, minnug og margfróð, og fer Jónas til hennar nokkru síðar og segir henni frá öllu því er fyri hann bar og biður hana segja sér hverju gegna muni. Hún segir honum þá að í ungdæmi sínu hafi eitt sinn fjórir menn — og voru tveir og tveir af þeim bræður — farið úr Fjörðum yfir Leirdalsheiði og haft sleða og hund með sér og villtust allir þar í hríðarbyl og urðu til í árgili þessu.

Þar næst segir hún honum að fyri mörgum árum hafi verið vinnumaður í Grenivík er lagst hafi þar á hugi við konuna, en þegar hún eitt sinn vísaði honum frá með hörðum orðum reiddist hann so að hann steypti sér fram af gnípu þar við sjóinn beint þar sem hann sá manninn upp koma og þótti oft síðan verða vart við hann.

Þá sagði hún honum að fyri nálega tuttugu árum hefði förumaður sá er Ívar hét orðið úti þar á flesunum út og ofan frá Höfða og borið kláf eða meis á baki og í honum dóttur sína á fyrsta ári er Guðrún hét og var hún með lífi í meisnum er Ívar fannst og var þá orðin gift kona er þetta bar til tíðinda.

Jónas þessi kvaðst oft síðan og áður hafa farið þessa leið um og eftir dagsetur, ýmist einn eða með öðrum, og aldrei neins var orðið, en aldrei kvaðst hann hafa farið það á aðfangadagskvöld.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Текст с сайта Netútgáfan