Maðurinn sem skar hausinn af kerlingunni

Sá atburður gerðist í Seyðisfirði vestra fyrir allmörgum árum að kerling ein gekk ofan stiga ofan af palli en henni varð fótaskortur og tókst ekki betur til en svo að hún hálsbrotnaði. Maður nokkur kom að henni þar sem hún lá í andarslitrunum og mælti til hennar: „Þar fórstu til helvítis.“

Það var rétt svo að kerling mátti mæla og sagði hún að hann skyldi iðrast þessara orða. Rétt á eftir dó kerling en tók þegar að sækja svo rammt að manninum að hann hafði engan frið. Oft tókst kerling á við hann og vantaði lítið á að hún hefði drepið hann. Engan frið hafði maður þessi til svefns nema hann svæfi fyrir ofan karl einn fjölkunnugan því að þá komst afturgangan ekki lengra en að rúminu.

Maðurinn sá að svo búið mátti ekki standa og leitaði ráða til karlsins en hann ráðlagði honum að skera höfuðið af kerlingunni og setja það við þjó henni. Manninum þótti þetta hart aðgöngu en þó réðst hann í það. Þá hafði kerling verið kistulögð og hafði kistan verið negld aftur.

Eina nótt fór maðurinn þangað er kistan var og hafði með sér flatningssax mikið. Hann opnaði kistuna, skar höfuðið af kerlingarsauðnum og setti það við þjóin. Því næst lokaði hann kistunni aftur og ætlaði á burt en þá tók hann eftir því að hann hafði gleymt hnífnum í kistunni. Varð hann því að opna kistuna aftur til þess að ná hnífnum og gerði hann það.

Svo sagði hann seinna að hann hefði ekki verið neitt hræddur meðan hann var að murka hausinn af kerlingunni en sér hefði fallið allur ketill í eld þegar hann þurfti að opna kistuna aftur. Þó gekk allt þetta slysalaust og ásótti kerlingin ekki manninn eftir þetta. Maður þessi lifir enn í dag.

(Ó.D. II. — Eftir sögn Gríms Jónssonar frá Súðavík í Ísafjarðarsýslu.)