Draugaskipið

Fyrir mörgum árum fórst skip undir Eyjafjöllum með 14 mönnum. Þrír komust á kjöl og kölluðu á hjálp því að fjöldi manna stóð á sandinum — skipinu barst á skammt undan lendingu — en brimið var svo mikið að ómögulegt var að hjálpa þeim.

En er mennirnir voru allir dauðir og drukknaðir þá snerist skipið við og kom sjálft í land eins og því væri stýrt. Stóð það svo uppi í fjörunni og snart enginn við því fyrr en veturinn eftir er það var sett á ís yfir Holtsós og upp að Steinahelli. Vildi enginn róa því framar því að geigur stóð mönnum af skipinu.

Þegar það var sett á ísnum upp að hellinum stóðu fjármenn frá Steinum, sem er næsti bær við hellinn, uppi undir fjallinu yfir fé. Sáu þeir þá að öll dauða skipshöfnin gekk á eftir skipinu þegar það var sett og var ófrýn á að sjá. Eftir það stóð skipið í djúpri laut sem er öðrum megin við hellinn.

Skömmu seinna reið þar um bóndi utan af Rangárvöllum er Þorkell hét og bjó á Rauðnefsstöðum. Ætlaði hann austur undir Fjöll. Þetta var í svartasta skammdegi og reið Þorkell bóndi um hjá hellinum því þar liggur alfaravegur. Lítill lækur fellur ofan að vestanverðu við hellinn. Þegar Þorkell er kominn yfir lækinn mætir honum maður er hann bar eigi kennsl á og segir sá við hann:

„Settu með okkur, lagsmaður!“

Þorkel grunar ekkert því að skipið sást ekki af götunni og tekur hann vel undir þetta. Ekki mælti maður þessi fleira en snýr við og bendir Þorkeli að koma á eftir sér. Þorkell ríður svo á eftir honum en það þótti honum skrýtið að hestur hans var alltaf að frýsa og virtist nauðulega vilja elta manninn.

Nú koma þeir í lágina þar sem skipið stóð og sér Þorkell þá 13 menn standa í kringum skipið og voru svaðalegir álitum. Þá man Þorkell fyrst eftir skipreikanum undir Fjöllunum um haustið og þykist hann þarna þekkja þá sem drukknað höfðu. Verður hann þá skelkaður mjög og slær upp á klárinn. Tekur hann til fótanna en Þorkell heyrir draugana kveða vísu þessa um leið og hann reið upp úr lautinni:

Gagnslaus stendur gnoð í laut,
gott er myrkrið rauða.
Halur fer með fjörvi braut,
fár er vin þess dauða,
fár er vin þess dauða.

Þorkell nam vísuna. Reið hann nú allt hvað af tók og náði að Steinum um kvöldið. Eftir það fór Þorkell bóndi aldrei einn um þennan veg og lét alltaf einhverja fylgja sér þótt albjartur dagur væri.

Skipið var loks höggvið niður í eldinn en áður höfðu menn oft heyrt högg og brak í því einkum er kvölda tók.

(Bj.Bj.: Sagnakver. — Hr. Lárusar stúd. Halldórssonar.)

Текст с сайта Netútgáfan