Kálfur fer að hitta Sæmund fróða.

(Austan úr Múlasýslu.)

Í annað sinn vildi Kálfur finna Sæmund fróða í Odda og gat þess við heimamenn sína, að hann ætlaði að vita, hvort hann gæti ekki komið að honum óvörum. Ekki er getið um ferðir Kálfs, fyrr en hann kemur að Odda á náttarþeli og drepur högg á dyr. Sæmundur heyrir, að barið er, og skipar hann einum heimamanna sinna að fara til dyra og vita, hver kominn sé. Maðurinn gengur út og verður einskis manns var, gengur inn aftur og segir, að enginn sé úti. Þá er barið aftur, og skipar Sæmundur öðrum manni að fara til dyra, og gjörir hann það. Þegar hann sér engan úti, gengur hann kringum allan bæinn, en sér eigi að heldur nokkurn mann; fer hann inn við svo búið og segist ekki hafa séð neinn úti.

Síðan er barið í þriðja sinn; sprettur þá Sæmundur upp sjálfur og segir, að sá, sem úti sé, muni vilja finna sig; gengur hann og sér, að þar er kominn Kálfur Árnason, félagi sinn, og heilsast þeir mjög vinsamlega. Kálfur biður hann að lofa sér að vera, og er það svo sem velkomið. Kálfur biður Sæmund um hnappheldu á hest sinn, og fer Sæmundur að leita og finnur hana. Kálfur segir, að það sé nú minnkun að biðja hann að hefta klárinn sinn, en þó segist hann halda, að hann verði að biðja hann þess. Sæmundur kveðst skuli gjöra það, og fer hann til og er afar lengi að bauka við það. Kálfur lést furða sig á, hvað lengi hann væri að hefta hestinn, og spyr hann, hvort hann kunni ekki að hefta. Sæmundur lést að vísu kunna, en segist hvergi finna fæturna á hestinum. Kálfur segir, að þeir séu niður úr kviðnum á þessum hesti eins og öðrum. Sæmundur segir, að þeir séu allt um það ekki til á þessum hesti og að minnsta kosti finni hann þá ekki. Líður nú enn lengi, að Sæmundur er að leita að fótum hestsins, og svo skilur hann við það, að þess er ekki getið, hvort hann hafi nokkurn tíma getað heft hestinn.

Eftir það býður Sæmundur Kálfi inn, og þiggur hann það. Sæmundur gengur á undan með ljós í hendi og bíður eftir honum innarlega í bæjardyrunum. En Kálfi tefst úti. Eftir langan tíma kemur kona Sæmundar fram og spyr, hver kominn sé. Sæmundur segir henni það. Hún spyr hann þá, hvort hann hafi ekki boðið honum inn. Sæmundur segist vera búinn að því fyrir lifandis löngu. Hún vill þá fara út og bjóða honum innar að nýju. Sæmundur vill það ekki og segir, að hann muni koma bráðum. Líður nú enn góður tími, þangað til loksins að Kálfur kemur inn, ákaflega móður, og biður konu Sæmundar að færa sér mikið að drekka. „Þarftu mikið að drekka?“ segir Sæmundur. Kálfur segir: „Það er vísast, að fleiri þurfi að drekka en ég, áður en kvöldið er úti.“ Síðan er Kálfur leiddur inn í stofu og borinn fyrir hann matur og fenginn hnífur að borða með. En þegar hann fer að skera, bítur hnífurinn ekki hót. Sæmundur spyr hann, hvort hnífurinn bíti ekki. Kálfur segir það ekki vera. Kona Sæmundar segist þó ekki hafa ætlað að velja honum hníf af verri endanum og hann hafi átt að bíta, hnífurinn sá arna. Sæmundur segir, að hann skuli fá sér hnífinn, og segist hann skuli reyna að brýna hann. Kálfur gerir svo, og brýnir Sæmundur hann, fær Kálfi hann aftur og segir, að nú skuli hann vara sig á honum, því nú haldi hann, að hann bíti. Kálfur kveðst ekki vera svo hræddur við það; og þegar Kálfur fer að skera fyrsta bitann, tekur hnífurinn sundur diskinn og borðið og hleypur í lærið á Kálfi. Sæmundur kvaðst hafa varað hann við, að hnífurinn mundi bíta. Kálfur sagði, að þetta sár væri ekki til dauða, og batt um það. Þá var venja að lesa borðsálm fyrir og eftir máltíð. Meðan Kálfur er að lesa borðsálminn á eftir, líður Sæmundur út af í setinu, rétt eins og hann væri dauður, og skipar Kálfur þegar að dreypa á hann vatni. Kona Sæmundar hleypur eftir vatni og dreypir á hann; en það dugar ekki. Kálfur stendur þá upp og fer að dreypa á hann. Raknar Sæmundur þá við, og skipar Kálfur honum að drekka vatn, og gjörir Sæmundur það. Kálfur segir þá: „Vissi ég ekki, að fleiri mundu þurfa að drekka í kvöld en ég, þegar ég bað um mikið vatn, eftir að ég var búinn að leita mig móðann að dyrunum?“ Síðan hættu þeir þessum glettum og fóru að bera sig saman, hvor meira kynni. En Kálfur sagði svo síðan, að Sæmundur kynni þeim mun meira en hann sem hann hefði numið fram yfir sig í Svartaskóla.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, safnað hefir Jón Árnason. Leipzig, að forlagi J. C. Hinrichs’s bókaverzlunar, 1862.

OCR: Tim Stridmann