Saga um Kálf Árnason

(sem einu sinni er sagt að hafi búið á Laxlæk.) (Austan úr Mulasýslu.)

Þegar Kálfur Árnason var í Svartaskóla, er það sagt, að hann hafi gefið sig kölska. En þegar hann var kominn aftur til Íslands, vildi hann fyrir alla muni losast við þetta loforð sitt, en vissi ekki, hvernig hann ætti að fara að því. Hann tekur það þó til ráðs, að hann fór að hitta Sæmund fróða og biður hann ráða úr þessu vandræði sínu. Sæmundur réð honum, að hann skyldi ala tarfkálf og nefna hann Árna, síðan skyldi hann ala annan kálf undan þessu nauti og kalla hann Kálf, og „sé það Kálfur Árnason.“ Kálfur gjörir þetta, sem Sæmundur hafði honum ráð til kennt. En nokkuru eftir kemur kölski og segist vilja fá Kálf Árnason. Kálfur segir, að svo skyldi vera; tekur hann þá kálfinn, er hann hafði alið, fær hann kölska og segir: „Þarna hefur þú Kálf Árnason.“ Kölski gat ekki gengið í móti því, en þótti ekki haldið við sig loforðið og varð þó að láta sér það líka, að hann hafði ekki meira af Kálfi Árnasyni, er dó í góðri elli.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, safnað hefir Jón Árnason. Leipzig, að forlagi J. C. Hinrichs’s bókaverzlunar, 1862.

OCR: Tim Stridmann